Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Flokkur

Fréttir

Tilkynning!

Með Fréttir

Nefndin er flutt í Borgartún 21, 2. hæð, Höfðaborg, 105 Reykjavík. Nýtt símanúmer er 575-8710 og símatími frá 10-12 virka daga.  Opnunartími er frá 9 – 12 og 13 – 15.30. Netfang nefndarinnar er uua@uua.is og alltaf hægt að beina þar inn fyrirspurnum.

Með kveðju,

starfsfólk úrskurðarnefndar.

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. apríl 2020 – áframhaldandi stytting málsmeðferðartíma

Með Fréttir

Á síðasta mánuði þessa fyrsta ársfjórðungs stóð úrskurðarnefndin, líkt og aðrar stofnanir, frammi fyrir þeirri áskorun að laga starfsemi sína að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu sökum COVID-19 faraldursins. Starfsemi skrifstofu nefndarinnar fer nú fram í fjarvinnu að langmestu leyti og nefndarfundir eru haldnir í gegnum fjarfundabúnað.

Til að auka skilvirkni hefur úrskurðarnefndin á síðustu árum beint því til aðila að nýta sér möguleika til rafrænnar málsmeðferðar með því að senda kærur, umsagnir, gögn og annað með rafrænum hætti til uua@uua.is. Eru aðilar eindregið hvattir til þess að nýta sér þann möguleika fremur en að senda nefndinni framangreint bréflega. Öll þjónusta nefndarinnar er óbreytt og breyttar aðstæður hafa ekki dregið úr afköstum hennar.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 24 kærumál en 55 var lokið. Þá var eitt mál endurupptekið og því lokið að nýju. Á tímabilinu voru kveðnir upp 46 úrskurðir og var mikill meirihluti þeirra efnisúrskurðir.

Í lok fyrsta ársfjórðungs voru hjá nefndinni 52 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau  83 talsins. Er þetta betri staða en áður hefur sést hjá úrskurðarnefndinni frá stofnun hennar árið 2012 og má glöggt sjá þessa jákvæðu þróun á stöplaritinu hér að neðan.

Nefndinni hafa ekki borist gögn í 12 málum af þeim 52 sem eru óafgreidd og öðrum 7 hefur verið frestað á meðan beðið er niðurstöðu dómstóla. Því eru 33 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau öll í vinnslu. Ef frá eru talin þau mál sem sætt hafa frestun er aldur elsta óafgreidda málsins tæpir sex mánuðir frá því að gögn bárust nefndinni frá viðkomandi stjórnvaldi, en lögbundinn málsmeðferðartími nefndarinnar telst frá því tímamarki.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 5,7 mánuðir á fyrsta ársfjórðungi þessa árs (6,4 mánuðir á 2019-4F og 8,2 mánuðir allt árið 2019) og var 55% mála lokið innan sex mánaða (52% á 2019-4F).

Úrskurðarnefndinni er áfram tryggð viðbótarfjárveiting fyrir árið 2020 og er markmið nefndarinnar að meðalafgreiðslutími verði kominn undir fimm mánuði í árslok, en viðaminni mál taki skemmri tíma. Meginreglan er sú að mál eru afgreidd í þeirri röð sem þau berast en nefndin hefur einnig hliðsjón af sjónarmiðum sem fram koma í álitum umboðsmanns Alþingis um heimildir til forgangsröðunar mála, t.a.m. þegar miklir hagsmunir eru í húfi. Þá er veitt flýtimeðferð að beiðni framkvæmdaraðila þegar framkvæmdir eru stöðvaðar í kjölfar kæru, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Áhugasömum er bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. janúar 2020 – aftur um fjórðungs stytting málahala á nýliðnu ári

Með Fréttir

Á árinu 2019 bárust úrskurðarnefndinni 134 kærur en lokið var 165 kærumálum. Alls voru 140 úrskurðir kveðnir upp á árinu og var mikill meirihluti þeirra efnisúrskurðir.

Í upphafi ársins 2020 eru hjá nefndinni 83 óafgreidd mál, sem er rúmlega fjórðungi minna en í byrjun síðasta árs. Er afar ánægjulegt að sjá um fjórðungs fækkun óafgreiddra mála annað árið í röð. Óafgreidd mál í upphafi árs  hafa ekki verið færri frá því að nefndin tók til starfa 1. janúar 2012, þegar tillit er tekið til þess að þá voru óafgreidd 125 mál er borist höfðu úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Þróunina má sjá á stöplariti hér að neðan.

Nefndinni hafa ekki borist gögn í 21 máli af þeim 83 sem eru óafgreidd og eru því 62 mál tæk til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Af þeim eru tvö frá árinu 2018, en báðum hefur verið frestað á meðan beðið er niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í eðlislíku máli. Önnur mál eru á mismunandi vinnslustigi. Ef frá eru talin framangreind tvö mál sem eru í bið er aldur elsta óafgreidda málsins tæpir tólf mánuðir, en stefnt er að afgreiðslu þess í janúarmánuði. Þá er stefnt að því að í lok fyrsta ársfjórðungs verði ekki liðnir meiri en sex mánuðir frá því að gögn bárust í þeim málum sem þá verða til meðferðar.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 6,4 mánuðir á fjórða ársfjórðungi ársins 2019 en 8,2 mánuðir á árinu í heild sinni. Svo sem sjá má á línuriti hér að neðan kom fram af miklum þunga sú mikla aukning í fjölda kærumála sem átt hefur sér stað frá árinu 2016 með þeim afleiðingum að meðalmálshraði í upphafi ársins 2018 varð langt umfram það sem lögmælt er. Var við þessu brugðist eins og sjá má í fyrri fréttum úrskurðarnefndarinnar um málshraða og hefur mikill árangur náðst í að ná niður meðalmálshraða frá því sem verst var.

Miklum fjölda kærumála hafa einnig fylgt fleiri umfangsmikil mál sem voru fyrirferðarmikil á árinu 2019. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eiga að jafnaði þrír nefndarmenn sæti í nefndinni um hvert mál sem nefndinni berst, en ef mál er viðamikið eða fordæmisgefandi skulu fimm menn sitja í nefndinni. Á árinu 2019 sátu fimm nefndarmenn saman á þriðjungi funda nefndarinnar og hefur það hlutfall aldrei verið hærra, en á nýliðnum árum hefur hlutfall slíkra funda verið um um fimmtungur funda. Fyrir árið 2016 var hlutfall þeirra funda hins vegar undir 10%. Sýnir það glögglega mismunandi umfang mála að á þessum þriðjungi funda stærri nefndar árið 2019 voru til meðferðar einungis um 8% þeirra mála sem lokið var á árinu. Helmingur þeirra mála vörðuðu fiskeldi og mikill meirihluti málanna fjallaði að einhverju leyti um mat á umhverfisáhrifum.

Úrskurðarnefndinni hefur áfram verið tryggð viðbótarfjárveiting fyrir árið 2020 og er markmið nefndarinnar að meðalmálshraði verði kominn undir fimm mánuði í árslok.

Áhugasömum er bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og málshraða nefndarinnar í gegnum tíðina. Á árinu 2019 voru upplýsingar birtar ársfjórðungslega um sama efni og verður því haldið áfram.

Miklum árangri náð í styttingu afgreiðslutíma fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Með Fréttir

Meðalafgreiðslutími hefur styst um tæplega helming

Í annað sinn á nýliðnum árum hefur mikill árangur náðst í störfum úrskurðarnefndarinnar og hefur málsmeðferðartími ekki verið skemmri eða færri málum ólokið til fjölda ára.

Við upphaf ársins 2015 tóku gildi lagabreytingar til að auka skilvirkni nefndarinnar og jafnframt var auknu fjármagni veitt til hennar til að ljúka öllum þeim málum sem kærð höfðu verið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Var það og gert það sama ár og var síðasta máli sem borist hafði þeirri nefnd lokið í desember 2015. Þau mál sem eftir stóðu í lok þess árs voru jafnframt töluvert yngri en áður hafði verið í málahala úrskurðarnefndarinnar.

Árið 2016 barst metfjöldi kærumála úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og var tekið fram í tilkynningu nefndarinnar um málastöðu 31. desember 2016 að það, ásamt óvenju mörgum umfangsmiklum málum auk fjölda krafna um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa, hefði allt áhrif á möguleika nefndarinnar að standa við lögboðinn málshraða. Var áréttað að ef fram héldi með sama magn og umfang kæra og árið 2016 myndi málshraði óhjákvæmlega lengjast á ný. Ekki væri líklegt að svigrúm gæfist til að fækka málum svo einhverju næmi í hala nefndarinnar.

Gengu þessar spár eftir og var umfang kærumála og fjöldi meiri 2016-2018 en árin 2012-2015. Var og tekið fram í frétt á vef úrskurðarnefndarinnar að róður hefði þyngst árið 2017 og að ljóst lægi fyrir að málshraði myndi lengjast á árinu 2018 vegna framangreindrar þróunar á fjölda og umfangi kærumála. Einnig var gerð grein fyrir því að stjórnvöld hefðu brugðist við vandanum og að gert væri ráð fyrir aukafjárveitingu til úrskurðarnefndarinnar á árinu 2018 vegna þessa. Ætti því að vera hægt að draga úr því að mál eltust mjög úr hófi fram jafnframt væri stefnt að því til lengri tíma að standa við lögboðna afgreiðslutíma.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er tekið fram að mikilvægt sé að hraða málsmeðferð þar sem það sé hægt samkvæmt gildandi lögum, t.d. með því að styrkja úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í samræmi við sáttmálann og líkt og að framan greinir hefur auknum fjárveitingum verið beint til nefndarinnar og er nú verið að uppskera árangur í samræmi við það, svo sem sjá má í grafinu hér að neðan.

Þegar róðurinn var sem þyngstur, sbr. það sem áður segir, eða fyrsta ársfjórðung ársins 2018 var meðalafgreiðslutími þeirra mála sem þá var lokið 14 mánuðir og einn dagur. Síðan þá hefur ötullega verið unnið að því að stytta afgreiðslutíma og minnka málahalann og eins og fram kemur á vefsíðu úrskurðarnefndarinnar var meðalafgreiðslutími lokinna mála sjö mánuðir og fimmtán dagar á þriðja ársfjórðungi ársins 2019. Er um að ræða styttingu um tæpan helming frá því sem verst var.

Málahali nefndarinnar telur nú 89 kærumál, en gögn hafa ekki borist í níu þeirra. Því eru 80 mál tæk til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Af þeim eru níu frá árinu 2018, tveim þeirra hefur verið frestað á meðan beðið er niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í eðlislíku máli, fjögur eru á dagskrá nefndarinnar í nóvember og þrjú í desember. Önnur mál eru á mismunandi vinnslustigi.

Áhugasömum er bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og málshraða nefndarinnar í gegnum tíðina. Árið 2019 hafa verið birtar upplýsingar ársfjórðungslega um sama efni og verður því haldið áfram.

Fleiri kærur bárust á þriðja ársfjórðungi en fyrri helming ársins 2019

Með Fréttir

Á þriðja ársfjórðungi þessa árs bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 53 kærur en á fyrri helming ársins bárust 50 kærur. Það sem af er árs hafa því borist 103 kærur, en á sama tíma hefur úrskurðarnefndin lokið 119 kærumálum.

Til meðferðar í upphafi síðasta ársfjórðungs eru 98 kærumál. Af þeim voru 15 mál kærð til úrskurðarnefndarinnar á árinu 2018 og eru í forgangi nefndarinnar. Gögn í fjórum þeirra mála bárust þó ekki fyrr en á árinu 2019 auk þess sem önnur fjögur eru í frestum vegna óska kæranda eða á meðan á meðferð mála stendur yfir á öðrum vettvangi.

Miðað við aukningu kærumála á nýliðnum ársfjórðungi lætur líkum að því að kærumál þessa árs verði heldur fleiri en meðaltal áranna 2012-2015, sbr. töflu hér að neðan.

Meðalmálsmeðferðartími lokinna mála á þriðja ársfjórðungi þessa árs er 228 dagar eða sjö mánuðir og 15 dagar, sem er töluvert styttri tími en á fyrri helming þessa árs. Meðalmálsmeðferðartími ársins lækkaði að sama skapi og er miðað við það sem af er liðið árs 272 dagar eða 8 mánuðir og 29 dagar. Hefur meðalmálsmeðferðartími ekki verið styttri frá árinu 2017. Má gera ráð fyrir að meðalmálsmeðferðartími þessa árs verði í það minnsta ekki meiri en 290 dagar.

Málastaða um miðbik ársins 2019

Með Fréttir

Þremur færri en við lok fyrsta ársfjórðungs

Við lok annars ársfjórðungs ársins 2019 voru óafgreidd mál hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 90 talsins, eða þremur færri en við lok fyrsta ársfjórðungs. Af þeim 90 málum eru 47 frá árinu 2018 og 43 frá árinu 2019.

Fleiri kærur bárust á öðrum ársfjórðungi þessa árs

Á fyrri helmingi ársins 2019 bárust úrskurðarnefndinni 50 kærur, en þeim fjölda svipar til fjölda kæra fyrri helming áranna 2013-2015. Fleiri kærur bárust á öðrum ársfjórðungi þessa árs en á þeim fyrri.

Nýlega verið merkjanleg aukning kærufjölda

Enn er ekki hægt að spá fyrir um fjölda kærumála þetta árið með neinni vissu en hann gæti orðið í kringum 120 mál miðað við árin 2013-2015. Þó hefur nýlega verið merkjanleg aukning kærufjölda.

Kæra í síðasta málinu frá árinu 2017 var afturkölluð í júnímánuði í kjölfar dómar Landsréttar í málinu

Á fyrri helmingi ársins var lokið 74 málum. Kæra í síðasta málinu frá árinu 2017 var afturkölluð í júnímánuði í kjölfar dómar Landsréttar í málinu, en þar til dómur féll var meðferð kærumálsins fyrir úrskurðarnefndinni frestað. Að undanskyldu því máli, sem ekki fékk efnismeðferð fyrir úrskurðarnefndinni, var meðalmálsmeðferðartími lokinna mála 295 dagur eða 9 mánuðir og 21 dagur á fyrri helmingi ársins. Er það fimm dögum lengri meðalmálsmeðferðartími en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en ríflega hálfum mánuði skemmri meðalmálsmeðferðartími en á árinu 2018.

Fyrsti ársfjórðungur 2019

Með Fréttir

Yfir 1000 kærur hafa borist á starfstíma úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála

Óafgreidd mál aldrei verið færri – málum frá árinu 2017 lokið[i]

Við lok fyrsta ársfjórðungs ársins 2019 voru óafgreidd mál hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 93 talsins. Hafa þau ekki verið færri frá því að nefndin tók til starfa 1. janúar 2012 að teknu tillits til þess að á því tímamarki var enn ólokið 125 kærumálum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Rekja má þennan árangur til tveggja þátta. Annars vegar hafa auknar fjárveitingar verið veittar nefndinni og hins vegar hefur kærufjöldi fyrstu þrjá mánuði ársins verið minni en búist var við.

Það sem af er árs 2019 hafa úrskurðarnefndinni borist 22 kærur. Eins og sjá má í töflunni hér að neðan svipar þeim fjölda til fjölda kæra fyrsta ársfjórðung áranna 2012-2015, en á árunum 2016-2018 barst aukinn fjöldi kæra bæði fyrsta ársfjórðung þeirra ára og á ársgrundvelli. Þó er vert að benda á að sambærilegur fjöldi kæra barst fyrsta ársfjórðung árið 2013 og 2016 en að á ársgrundvelli var staðan afar ólík þau ár.

Línulegt samband er því ekki á milli fjölda innkominna kærumála á fyrsta ársfjórðungi hvers árs og þess fjölda sem berst á ársgrundvelli, svo sem sjá má á meðfylgjandi línuriti. Er því ekki hægt að spá fyrir um fjölda kærumála þetta árið með neinni vissu.

Af þeim 93 málum sem eftir stóðu við lok fyrsta ársfjórðungs eru 73 frá árinu 2018 og 19 frá árinu 2019. Síðustu málunum frá árinu 2017 var lokið á ársfjórðungnum ef undanskilið er eitt kærumál þar sem kæruefnið er til meðferðar fyrir dómstólum, en á meðan því er ólokið þar er meðferð kærumálsins frestað fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndinni í té öll gögn innan 30

Stjórnvaldi er skylt skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að láta úrskurðarnefndinni í té öll gögn innan 30 daga frá þeim tíma er því er tilkynnt um kæru. Í 10 af 93 óafgreiddum málum hafa gögn ekki borist enn, þar af er frestur til að skila gögnum liðinn í fimm kærumálum.

Alls var lokið 43 kærumálum á fyrsta ársfjórðungi, 19 frá árinu 2017, 21 frá árinu 2018 og þremur frá árinu 2019. Meðalmálsmeðferðartími málanna var 290 dagur eða 9 mánuðir og 16 dagar, en til samanburðar var meðalmálsmeðferðartími fyrsta ársfjórðung ársins 2018 einir 427 dagar, eða 14 mánuðir og einn dagur, og yfir það ár var meðalmálsmeðferðartíminn 321 dagur, eða 10 mánuðir og 17 dagar.

Meðalmálsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefndinni hefur því styst, elstu mál eru yngri en áður og færri mál bíða afgreiðslu nefndarinnar en nokkru sinni fyrr.

Þá má til gamans geta að alls hafa borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 1001 kæra frá upphafi og er mál nr. 21/2019 það þúsundasta sem nefndinni barst.

[i] Að undanskyldu einu kærumáli þar sem kæruefnið er til meðferðar fyrir dómstólum.

Málastaða úrskurðarnefndar 1. janúar 2019

Með Fréttir

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. janúar 2019 – um fjórðungs stytting málahala á nýliðnu ári

Á árinu 2018 bárust úrskurðarnefndinni 153 kærur en lokið var 188 kærumálum. Alls voru 180 úrskurðir kveðnir upp á árinu, 21 úrskurður var kveðinn upp til bráðabirgða um kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa, sex úrskurðir lutu að málshraða stjórnvalda og kveðnir voru upp 51 frávísunarúrskurðir. Mikill meirihluti þeirra úrskurða sem upp voru kveðnir voru því efnisúrskurðir, eða alls 101.

Í upphafi ársins 2019 voru hjá nefndinni 114 óafgreidd mál, sem er tæplega fjórðungi minna en í byrjun síðasta árs. Hafa óafgreidd mál ekki verið færri í upphafi árs frá því að nefndin tók til starfa 1. janúar 2012 þegar tillit er tekið til þess að þá voru óafgreidd 125 mál er borist höfðu úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Í tilkynningum úrskurðarnefndarinnar um stöðu mála um áramót síðustu tvö ár, sem sjá má HÉR og HÉR, kom fram að aukning í kærufjölda og umfangi þeirra mála sem skotið er til úrskurðarnefndarinnar hefur óhjákvæmilega áhrif á möguleika nefndarinnar til að standa við lögboðinn málsmeðferðartíma.

Þróun í kærufjölda má sjá í töflu og línuriti hér að neðan:

2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Kærufjöldi 133 114 128 118 175 158 153

Svo sem bent var á í tilkynningu nefndarinnar í janúar 2018, sem nálgast má HÉR, var útlit fyrir að málsmeðferðartími á árinu myndi lengjast þar sem enn var ólokið töluverðum fjölda mála frá metárinu 2016. Gekk það og eftir og árið 2018 var meðalmálsferðartími 321 dagur eða 10 mánuðir og 17 dagar, en árið 2017 var hann um níu mánuðir og árið 2016 var hann níu mánuði og 11 dagar.

Nánari greiningu og samanburð á milli áranna 2016, 2017 og 2018 er að finna í stöplariti þar sem sjá má að mál þau sem afgreidd voru á árinu 2018 voru almennt eldri en síðustu tvö ár. Rétt er þó að taka fram að vegna hins mikla kærufjölda árið 2016 bar mikið á kröfum um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa en fallist úrskurðarnefndin á slíkar kröfur sæta þau mál flýtimeðferð og er þá iðulega lokið innan þriggja mánaða. Einnig er rétt að benda á að svo sem sjá má eru kærumál nú ekki að ná eldri en  tveggja ára nema í algjörum undantekningartilfellum, t.a.m. þegar því er frestað ótímabundið vegna þess að úrlausn máls er einnig fyrir dómstólum.

Til nánari útskýringar skal þess getið að úrskurðarnefndinni ber lögum samkvæmt að kveða upp úrskurð að jafnaði innan þriggja mánaða frá því að málsgögn berast frá stjórnvaldi, en innan sex mánaða frá sama tímamarki ef mál er viðamikið. Stjórnvöldum ber skylda til að láta úrskurðarnefndinni í té öll gögn máls innan 30 daga og umsögn ef þau svo kjósa. Reiknast málsmeðferðartími frá þeim tíma en ekki frá því að kæra berst.

Brugðist hefur verið við málahalla úrskurðarnefndarinnar með auknum fjárveitingum og hefur verið bætt við starfsmönnum frá vori 2018.  Á því ári voru stöðugildi við nefndina því 8,4 og árið 2019 verður enn bætt við. Auknar fjárveitingar skiluðu auknum afköstum sem leitt hefur til betri stöðu mála fyrir úrskurðarnefndinni.

Af þeim 114 kærumálum sem eftir stóðu 1. janúar 2019 voru 20 frá árinu 2017 og 94 frá árinu 2018. Til samanburðar voru 149 óafgreidd mál 1. janúar 2018, þar af eitt frá árinu 2015, 51 frá árinu 2016 og 97 frá árinu 2017. Yngri mál eru því í hala nú en fyrir ári síðan og er gert ráð fyrir því að öllum kærumálum frá árinu 2017 verði lokið á fyrsta ársfjórðungi 2019 að einu undanskildu sem frestað hefur verið ótímabundið á meðan ekki er fallinn lokadómur í því. Þá er gert ráð fyrir því að meðalmálsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefndinni styttist til muna árið 2019 þótt lögbundnum afgreiðslutíma að meðaltali verði væntanlega ekki náð á árinu.

Frekari upplýsingar um tölfræði úrskurðarnefndarinnar, s.s. málsmeðferðartíma, innkomin og afgreidd mál, verða hér eftir birtar ársfjórðungslega á heimasíðu nefndarinnar www.uua.is.

Málastaða 1. janúar 2018

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lokið sjötta starfsári sínu, en nefndin var sett á laggirnar 1. janúar 2012.
Svo sem fram hefur komið í fyrri fréttum úrskurðarnefndarinnar hafa kærur til nefndarinnar verið mun fleiri en gert var ráð fyrir við stofnun hennar. Má glöggt greina þá þróun í meðfylgjandi línuriti:


Samkvæmt 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal nefndin kveða upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, sbr. 5. mgr., en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið.

Á árinu 2017 bárust nefndinni 158 kærur en lokið var 144 málum. Bættust því 14 mál við málahala nefndarinnar sem taldi 135 mál 1. janúar 2017. Málahalinn er því 149 mál í upphafi árs 2018 og skiptast þau með eftirfarandi hætti: eitt mál frá árinu 2015 bíður afgreiðslu. Þá bíða afgreiðslu 51 mál sem bárust 2016. Loks er ólokið 97 af þeim 158 málum sem bárust á árinu 2017.

Málshraði fyrir nefndinni styttist lítillega á árinu. Hann er þó enn of mikill miðað við það sem lögbundið er. Meðalafgreiðslutími mála á árinu 2017 var 276 dagar frá því að gögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi , eða um níu mánuðir. Er það 11 dögum skemmri meðalmálsmeðferðartími en var á árinu 2016. Þá tókst að ljúka helmingi mála innan þeirra sex mánaða sem lögboðnir eru í þeim málum sem umfangsmikil eru, en slík mál verða æ fyrirferðarmeiri hjá úrskurðarnefndinni.

Málshraða fyrir úrskurðarnefndinni á árinu 2017 má skoða nánar í eftirfarandi skífuriti miðað við þann tíma sem málsgögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi:


Til samanburðar er hér að finna skífurit með upplýsingum um málshraða á árinu 2016:

Í frétt úrskurðarnefndarinnar frá janúar 2017 kom fram að ef magn og umfang kæra héldist með svipuðu móti og árið 2016 myndi málshraði óhjákvæmilega lengjast á ný, en svo myndi vart verða ef svipaður kærufjöldi yrði og árin 2012-2015. Svo sem áður greinir var kærufjöldi á árinu 2017 vel yfir meðallagi fyrri ára þótt fjöldinn næði ekki metárinu 2016. Sjá má af samanburði skífurita sem sýna málshraða á árunum 2016 og 2017 að róður hefur þyngst nokkuð og er ljóst að málshraði mun lengjast á árinu 2018. Óútkljáð mál eru töluvert mörg frá árunum 2016 og 2017 og mun aldur þeirra mála óhjákvæmilega koma niður á meðalafgreiðslutíma á árinu 2018.

Hins vegar er gert ráð fyrir aukafjárveitingu til úrskurðarnefndarinnar á árinu vegna þessa. Frá stofnun nefndarinnar hefur verið gert ráð fyrir sex stöðugildum við nefndina en miðað við fjárveitingar ársins munu verða 8,5 stöðugildi við nefndina á árinu 2018 í stað 6,7 á fyrra ári og 7 á árinu 2016. Áfram ætti því að vera hægt að draga úr því að mál eldist mjög úr hófi fram jafnframt því sem stefnt er að því til lengri tíma að standa við lögboðna afgreiðslutíma.

Málastaða 31. desember 2016

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lokið fimmta starfsári sínu, en nefndin var sett á laggirnar 1. janúar 2012.

Á þessu fimmta starfsári nefndarinnar barst metfjöldi af kærum til hennar, eða alls 175. Til samanburðar voru kærð 114-133 mál árlega til nefndarinnar á árunum 2012-2015, sjá nánar HÉR. Á árinu 2016 var jafnframt slegið fyrra met forvera nefndarinnar, en á árinu 2007 voru 170 mál kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Þá voru óvenju mörg umfangsmikil mál í meðförum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á árinu og mikið bar á kröfum um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa þeirra ákvarðana sem kærðar voru. Ljóst er að allt framangreint hefur áhrif á möguleika nefndarinnar að standa við lögboðinn málshraða.

Á árinu 2015 stóð yfir átak til að taka á málshraða fyrir úrskurðarnefndinni og voru eftirstandandi fjárveitingar nýttar til hins sama á árinu 2016. Þá var auknu fé veitt til nefndarinnar í fjáraukalögum 2016 vegna aukins fjölda mála og umfangs þeirra. Á árinu 2016 voru því sjö stöðugildi við úrskurðarnefndina. Til samanburðar er rétt að geta þess að stöðugildi eru að jafnaði sex við nefndina en átaksárið 2015 voru þau átta og hálft.

Einum 170 málum var lokið á árinu 2016 og bættust því fimm mál við málahala nefndarinnar sem taldi 130 mál við síðustu áramót. Málahalinn er því 135 mál í upphafi árs 2017 og skiptast þau með eftirfarandi hætti: Fimm mál frá árinu 2014 bíða afgreiðslu. Þrjú þeirra lúta að ágreiningi sem er kominn að hluta til fyrir dómstóla. Hefur tveimur málanna verið frestað vegna þessa og frestbeiðni hefur borist af sömu orsökum vegna hins þriðja. Í þeim tveimur málum sem lúta að öðrum ágreiningi bárust gögn stjórnvalda á árinu 2015 og er stefnt að því að ljúka þeim báðum áður en tvö ár eru liðin frá móttöku gagna. Þá bíða afgreiðslu 38 mál sem bárust 2015, gögn vegna þriggja þeirra bárust fyrir meira en 18 mánuðum, en af þeim eru tvö í frestum vegna reksturs dómsmála. Loks er ólokið 92 af þeim 170 málum sem bárust á árinu 2016.

Almennt hefur málshraði fyrir nefndinni styst, en hann er þó enn of mikill miðað við það sem lögbundið er. Meðalafgreiðslutími mála á árinu 2016 var 285 dagar frá því að gögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi , eða um níu mánuðir og 11 dagar. Þá tókst að ljúka yfir helmingi mála innan þeirra sex mánaða sem lögboðnir eru í þeim málum sem umfangsmikil eru.

Hlutfall innkominna og afgreiddra mála á árinu má skoða nánar í eftirfarandi töflu:

Málshraða fyrir úrskurðarnefndinni má skoða nánar í eftirfarandi töflu miðað við þann
tíma sem málsgögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi:

Tekið skal fram að gert er ráð fyrir aukafjárveitingu til úrskurðarnefndarinnar á árinu. Miðað við kjarabreytingar síðasta árs og aukinn kostnað vegna umfangsmikilla mála er þó ljóst að fjárveitingar ársins 2017 nægja einungis fyrir um sex og hálfu stöðugildi. Ef fram heldur sem horfir með sama magn og umfang kæra og á síðasta ári mun málshraði því óhjákvæmlega lengjast á ný. Ef kærur verða í svipuðu horfi og á fyrri starfsárum nefndarinnar, þ.e. 2012-2015, mun málshraði vart lengjast. Í hvorugu tilfellinu er hins vegar líklegt að svigrúm gefist til að fækka málum svo einhverju nemi í hala nefndarinnar.