Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
All Posts By

a8

RSS straumur

Með Fréttir

RSS straumur

RSS-fréttaveitur auðvelda notendum að fylgjast með birtingu efnis á vefsvæðum án þess að heimsækja þau sérstaklega.

Notkun

Til að skoða RSS straum af okkar úrskurðum þarf að nota sérstök forrit/öpp eða viðbætur við vafra, svokallaða RSS-lesara. Þeir sjá um að vakta nýjasta efni á vefsíðum sem notendur gerast áskrifendur að.

Þegar RSS-lesari hefur verið sóttur og settur upp í tölvu/farsíma þarf notandinn að setja inn þær slóðir sem hann vill vakta. Slóð RSS Straums er þá afrituð og síðan límd inn í RSS-lesarann. RSS-lesarinn vaktar og lætur notanda vita þegar nýtt efni er birt.

Slóð á okkar RSS straum: https://uua.is/feed

Málastaða úrskurðarnefndar 1. janúar 2019

Með Fréttir

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. janúar 2019 – um fjórðungs stytting málahala á nýliðnu ári

Á árinu 2018 bárust úrskurðarnefndinni 153 kærur en lokið var 188 kærumálum. Alls voru 180 úrskurðir kveðnir upp á árinu, 21 úrskurður var kveðinn upp til bráðabirgða um kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa, sex úrskurðir lutu að málshraða stjórnvalda og kveðnir voru upp 51 frávísunarúrskurðir. Mikill meirihluti þeirra úrskurða sem upp voru kveðnir voru því efnisúrskurðir, eða alls 101.

Í upphafi ársins 2019 voru hjá nefndinni 114 óafgreidd mál, sem er tæplega fjórðungi minna en í byrjun síðasta árs. Hafa óafgreidd mál ekki verið færri í upphafi árs frá því að nefndin tók til starfa 1. janúar 2012 þegar tillit er tekið til þess að þá voru óafgreidd 125 mál er borist höfðu úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Í tilkynningum úrskurðarnefndarinnar um stöðu mála um áramót síðustu tvö ár, sem sjá má HÉR og HÉR, kom fram að aukning í kærufjölda og umfangi þeirra mála sem skotið er til úrskurðarnefndarinnar hefur óhjákvæmilega áhrif á möguleika nefndarinnar til að standa við lögboðinn málsmeðferðartíma.

Þróun í kærufjölda má sjá í töflu og línuriti hér að neðan:

2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Kærufjöldi 133 114 128 118 175 158 153

Svo sem bent var á í tilkynningu nefndarinnar í janúar 2018, sem nálgast má HÉR, var útlit fyrir að málsmeðferðartími á árinu myndi lengjast þar sem enn var ólokið töluverðum fjölda mála frá metárinu 2016. Gekk það og eftir og árið 2018 var meðalmálsferðartími 321 dagur eða 10 mánuðir og 17 dagar, en árið 2017 var hann um níu mánuðir og árið 2016 var hann níu mánuði og 11 dagar.

Nánari greiningu og samanburð á milli áranna 2016, 2017 og 2018 er að finna í stöplariti þar sem sjá má að mál þau sem afgreidd voru á árinu 2018 voru almennt eldri en síðustu tvö ár. Rétt er þó að taka fram að vegna hins mikla kærufjölda árið 2016 bar mikið á kröfum um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa en fallist úrskurðarnefndin á slíkar kröfur sæta þau mál flýtimeðferð og er þá iðulega lokið innan þriggja mánaða. Einnig er rétt að benda á að svo sem sjá má eru kærumál nú ekki að ná eldri en  tveggja ára nema í algjörum undantekningartilfellum, t.a.m. þegar því er frestað ótímabundið vegna þess að úrlausn máls er einnig fyrir dómstólum.

Til nánari útskýringar skal þess getið að úrskurðarnefndinni ber lögum samkvæmt að kveða upp úrskurð að jafnaði innan þriggja mánaða frá því að málsgögn berast frá stjórnvaldi, en innan sex mánaða frá sama tímamarki ef mál er viðamikið. Stjórnvöldum ber skylda til að láta úrskurðarnefndinni í té öll gögn máls innan 30 daga og umsögn ef þau svo kjósa. Reiknast málsmeðferðartími frá þeim tíma en ekki frá því að kæra berst.

Brugðist hefur verið við málahalla úrskurðarnefndarinnar með auknum fjárveitingum og hefur verið bætt við starfsmönnum frá vori 2018.  Á því ári voru stöðugildi við nefndina því 8,4 og árið 2019 verður enn bætt við. Auknar fjárveitingar skiluðu auknum afköstum sem leitt hefur til betri stöðu mála fyrir úrskurðarnefndinni.

Af þeim 114 kærumálum sem eftir stóðu 1. janúar 2019 voru 20 frá árinu 2017 og 94 frá árinu 2018. Til samanburðar voru 149 óafgreidd mál 1. janúar 2018, þar af eitt frá árinu 2015, 51 frá árinu 2016 og 97 frá árinu 2017. Yngri mál eru því í hala nú en fyrir ári síðan og er gert ráð fyrir því að öllum kærumálum frá árinu 2017 verði lokið á fyrsta ársfjórðungi 2019 að einu undanskildu sem frestað hefur verið ótímabundið á meðan ekki er fallinn lokadómur í því. Þá er gert ráð fyrir því að meðalmálsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefndinni styttist til muna árið 2019 þótt lögbundnum afgreiðslutíma að meðaltali verði væntanlega ekki náð á árinu.

Frekari upplýsingar um tölfræði úrskurðarnefndarinnar, s.s. málsmeðferðartíma, innkomin og afgreidd mál, verða hér eftir birtar ársfjórðungslega á heimasíðu nefndarinnar www.uua.is.

Málastaða 1. janúar 2018

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lokið sjötta starfsári sínu, en nefndin var sett á laggirnar 1. janúar 2012.
Svo sem fram hefur komið í fyrri fréttum úrskurðarnefndarinnar hafa kærur til nefndarinnar verið mun fleiri en gert var ráð fyrir við stofnun hennar. Má glöggt greina þá þróun í meðfylgjandi línuriti:


Samkvæmt 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal nefndin kveða upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, sbr. 5. mgr., en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið.

Á árinu 2017 bárust nefndinni 158 kærur en lokið var 144 málum. Bættust því 14 mál við málahala nefndarinnar sem taldi 135 mál 1. janúar 2017. Málahalinn er því 149 mál í upphafi árs 2018 og skiptast þau með eftirfarandi hætti: eitt mál frá árinu 2015 bíður afgreiðslu. Þá bíða afgreiðslu 51 mál sem bárust 2016. Loks er ólokið 97 af þeim 158 málum sem bárust á árinu 2017.

Málshraði fyrir nefndinni styttist lítillega á árinu. Hann er þó enn of mikill miðað við það sem lögbundið er. Meðalafgreiðslutími mála á árinu 2017 var 276 dagar frá því að gögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi , eða um níu mánuðir. Er það 11 dögum skemmri meðalmálsmeðferðartími en var á árinu 2016. Þá tókst að ljúka helmingi mála innan þeirra sex mánaða sem lögboðnir eru í þeim málum sem umfangsmikil eru, en slík mál verða æ fyrirferðarmeiri hjá úrskurðarnefndinni.

Málshraða fyrir úrskurðarnefndinni á árinu 2017 má skoða nánar í eftirfarandi skífuriti miðað við þann tíma sem málsgögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi:


Til samanburðar er hér að finna skífurit með upplýsingum um málshraða á árinu 2016:

Í frétt úrskurðarnefndarinnar frá janúar 2017 kom fram að ef magn og umfang kæra héldist með svipuðu móti og árið 2016 myndi málshraði óhjákvæmilega lengjast á ný, en svo myndi vart verða ef svipaður kærufjöldi yrði og árin 2012-2015. Svo sem áður greinir var kærufjöldi á árinu 2017 vel yfir meðallagi fyrri ára þótt fjöldinn næði ekki metárinu 2016. Sjá má af samanburði skífurita sem sýna málshraða á árunum 2016 og 2017 að róður hefur þyngst nokkuð og er ljóst að málshraði mun lengjast á árinu 2018. Óútkljáð mál eru töluvert mörg frá árunum 2016 og 2017 og mun aldur þeirra mála óhjákvæmilega koma niður á meðalafgreiðslutíma á árinu 2018.

Hins vegar er gert ráð fyrir aukafjárveitingu til úrskurðarnefndarinnar á árinu vegna þessa. Frá stofnun nefndarinnar hefur verið gert ráð fyrir sex stöðugildum við nefndina en miðað við fjárveitingar ársins munu verða 8,5 stöðugildi við nefndina á árinu 2018 í stað 6,7 á fyrra ári og 7 á árinu 2016. Áfram ætti því að vera hægt að draga úr því að mál eldist mjög úr hófi fram jafnframt því sem stefnt er að því til lengri tíma að standa við lögboðna afgreiðslutíma.

Málastaða 31. desember 2016

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lokið fimmta starfsári sínu, en nefndin var sett á laggirnar 1. janúar 2012.

Á þessu fimmta starfsári nefndarinnar barst metfjöldi af kærum til hennar, eða alls 175. Til samanburðar voru kærð 114-133 mál árlega til nefndarinnar á árunum 2012-2015, sjá nánar HÉR. Á árinu 2016 var jafnframt slegið fyrra met forvera nefndarinnar, en á árinu 2007 voru 170 mál kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Þá voru óvenju mörg umfangsmikil mál í meðförum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á árinu og mikið bar á kröfum um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa þeirra ákvarðana sem kærðar voru. Ljóst er að allt framangreint hefur áhrif á möguleika nefndarinnar að standa við lögboðinn málshraða.

Á árinu 2015 stóð yfir átak til að taka á málshraða fyrir úrskurðarnefndinni og voru eftirstandandi fjárveitingar nýttar til hins sama á árinu 2016. Þá var auknu fé veitt til nefndarinnar í fjáraukalögum 2016 vegna aukins fjölda mála og umfangs þeirra. Á árinu 2016 voru því sjö stöðugildi við úrskurðarnefndina. Til samanburðar er rétt að geta þess að stöðugildi eru að jafnaði sex við nefndina en átaksárið 2015 voru þau átta og hálft.

Einum 170 málum var lokið á árinu 2016 og bættust því fimm mál við málahala nefndarinnar sem taldi 130 mál við síðustu áramót. Málahalinn er því 135 mál í upphafi árs 2017 og skiptast þau með eftirfarandi hætti: Fimm mál frá árinu 2014 bíða afgreiðslu. Þrjú þeirra lúta að ágreiningi sem er kominn að hluta til fyrir dómstóla. Hefur tveimur málanna verið frestað vegna þessa og frestbeiðni hefur borist af sömu orsökum vegna hins þriðja. Í þeim tveimur málum sem lúta að öðrum ágreiningi bárust gögn stjórnvalda á árinu 2015 og er stefnt að því að ljúka þeim báðum áður en tvö ár eru liðin frá móttöku gagna. Þá bíða afgreiðslu 38 mál sem bárust 2015, gögn vegna þriggja þeirra bárust fyrir meira en 18 mánuðum, en af þeim eru tvö í frestum vegna reksturs dómsmála. Loks er ólokið 92 af þeim 170 málum sem bárust á árinu 2016.

Almennt hefur málshraði fyrir nefndinni styst, en hann er þó enn of mikill miðað við það sem lögbundið er. Meðalafgreiðslutími mála á árinu 2016 var 285 dagar frá því að gögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi , eða um níu mánuðir og 11 dagar. Þá tókst að ljúka yfir helmingi mála innan þeirra sex mánaða sem lögboðnir eru í þeim málum sem umfangsmikil eru.

Hlutfall innkominna og afgreiddra mála á árinu má skoða nánar í eftirfarandi töflu:

Málshraða fyrir úrskurðarnefndinni má skoða nánar í eftirfarandi töflu miðað við þann
tíma sem málsgögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi:

Tekið skal fram að gert er ráð fyrir aukafjárveitingu til úrskurðarnefndarinnar á árinu. Miðað við kjarabreytingar síðasta árs og aukinn kostnað vegna umfangsmikilla mála er þó ljóst að fjárveitingar ársins 2017 nægja einungis fyrir um sex og hálfu stöðugildi. Ef fram heldur sem horfir með sama magn og umfang kæra og á síðasta ári mun málshraði því óhjákvæmlega lengjast á ný. Ef kærur verða í svipuðu horfi og á fyrri starfsárum nefndarinnar, þ.e. 2012-2015, mun málshraði vart lengjast. Í hvorugu tilfellinu er hins vegar líklegt að svigrúm gefist til að fækka málum svo einhverju nemi í hala nefndarinnar.

Fyrirmyndastofnun ársins 2016

Með Fréttir

Úrskurðarnefndin er Fyrirmyndarstofnun ársins 2016.

Könnunin Stofnun ársins 2016 er samstarfsverkefni SFR stéttarfélags, VR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar auk fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fyrir hönd ríkisins. Könnunin tekur því til allra starfsmanna ríkisstofnana óháð stéttarfélagsaðild og er ein stærsta vinnumarkaðskönnun sem unnin er hér á landi. Niðurstöður úr könnuninni voru kynntar í Hörpu við hátíðlega athöfn hinn 12. maí 2016.

Hlaut úrskurðarnefndin sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun ársins 2016 í annað sinn.
Í flokki minnstu stofnananna, 20 starfsmenn eða færri, voru fyrirmyndar stofnanirnar þrjár:

1. sæti STOFNUN ÁRSINS 2016
Héraðsdómur Suðurlands

2. sæti FYRIRMYNDARSTOFNUN 2016
Hljóðbókasafn Íslands

3. sæti FYRIRMYNDARSTOFNUN 2016
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Markmið könnunarinnar „Stofnun ársins“ er að veita stjórnendum og starfsmönnum tæki til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og eins aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. Í samræmi við niðurstöður mun úrskurðarnefndin vinna að því áfram hörðum höndum að bæta úr málshraða fyrir nefndinni.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála

Með Fréttir

Öllum málum sem kærð voru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er lokið

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála var sett á stofn með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sem tóku gildi 1. janúar 1998. Hinn 1. janúar 2012 tóku gildi lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og var sú nefnd þá sett á laggirnar. Í lögunum var jafnframt kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skyldi ljúka efnismeðferð þeirra mála sem fyrir henni væru, en 31. desember 2011 voru 125 mál óafgreidd hjá nefndinni frá árunum 2008-2011.

Með lögum nr. 139/2014 var lögunum breytt og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála falið að taka við og ljúka afgreiðslu þeirra kærumála sem voru óafgreidd hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og á árinu 2015 var auknum fjárveitingum veitt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í þeim tilgangi að ljúka þeim málum öllum. Síðasta ólokna máli úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála lauk með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem upp var kveðinn 10. desember 2015.

Vefsíðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, www.usb.is, hefur jafnframt verið lokað og þeim sem þangað leita er beint sjálfkrafa á vefsíðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála www.uua.is og er þar nú að finna alla úrskurði beggja nefndanna.

Skipun nefndarmanna

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skipuð í samræmi við 2. gr laga nr. 130/2011. Formaður og varaformaður nefndarinnar eru skipaðir af ráðherra til fimm ára án tilnefningar og hafa störfin að aðalstarfi. Aðrir nefndarmenn, sem skulu hafa sérþekkingu eftir því sem tilgreint er í lagaákvæðinu, eru skipaðir til fjögurra ára í senn að tilnefningu Hæstaréttar. Sérfróðir nefndarmenn voru nýverið skipaðir að nýju og má finna núverandi skipun nefndarinnar HÉR

Málastaða 31. desember 2015.

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur starfað frá 1. janúar 2012 og er fjórum starfsárum því lokið.

Á þessum fjórum árum hafa nefndinni borist 493 kærur en þegar nefndin tók til starfa var einnig ólokið 125 málum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála (ÚSB). Af þeim samtals 618 málum er nú 488 málum lokið en 130 mál eru óafgreidd, sjá nánar í meðfylgjandi töflu.

Úrskurðarnefndin hefur glímt við málshraðavandamál í fjölda ára og á árinu 2015 fékk nefndin auknar fjárveitingar sem einkum skyldu fara til þess að ljúka þeim málum sem kærð voru í tíð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, þ.e. fyrir árslok 2011. Elstu mál sem til meðferðar voru árið 2015 voru frá árinu 2008. Alls var 195 málum lokið á árinu 2015 sem er töluverð aukning frá fyrri árum. Þannig voru 108 mál afgreidd á árinu 2014, 80 mál afgreidd árið 2013 og 105 mál afgreidd árið 2012. Elsta málið sem eftir stóð í lok ársins 2015 er frá árinu 2012 og hafa mál því yngst töluvert upp fyrir nefndinni.

Úrskurðarnefndin vinnur áfram að auknum málshraða fyrir nefndinni innan þess ramma sem reglulegar fjárveitingar til nefndarinnar setja.

Innkomin mál Af þeim er lokið Ólokið 31.12.2015
2015 118 42 76
2014 128 82 46
2013 114 107 7
2012 133 132 1
Eftirstöðvar ÚSB mála 31. des. 2011 125 125 0
Samtals 618 488 130

Úrskurðarnefndin er Fyrirmyndarstofnun ársins 2015

Með Fréttir

Könnunin Stofnun ársins 2015 er samstarfsverkefni SFR stéttarfélags, VR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar auk fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fyrir hönd ríkisins. Könnunin tekur því til allra starfsmanna ríkisstofnana óháð stéttarfélagsaðild og er ein stærsta vinnumarkaðskönnun sem unnin er hér á landi. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er ný inn á lista en niðurstöður úr könnuninni voru kynntar í Hörpu við hátíðlega athöfn hinn 7. maí 2015.

Hlaut úrskurðarnefndin sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun ársins 2015.
Í flokki minnstu stofnananna, 20 starfsmenn eða færri, voru fyrirmyndar stofnanirnar þrjár:

1. sæti STOFNUN ÁRSINS 2015
Héraðsdómur Suðurlands

2. sæti FYRIRMYNDARSTOFNUN 2015
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3. sæti FYRIRMYNDARSTOFNUN 2015
Persónuvernd

Átta þættir voru mældir í könnuninni: er trúverðugleiki stjórnenda, starfsandi , sveigjanleiki í vinnu og sjálfstæði í starfi sem vegur þyngst en minnst er vægi launakjara, vinnuskilyrði, og ímynd stofnunar. Niðurstaðan í þeim þætti sem fjallar um ímynd úrskurðarnefndarinnar skar sig mjög frá öðrum en leiða má að því líkum að slaka niðurstöðu þess þáttar, eða 91. sæti, megi rekja til þess að málshraða fyrir nefndinni er mjög ábótavant.

Markmið könnunarinnar „Stofnun ársins“ er að veita stjórnendum og starfsmönnum tæki til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og eins aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. Í samræmi við þetta mun úrskurðarnefndin vinna að því áfram hörðum höndum að bæta úr málshraða fyrir nefndinni og nýtur stofnunin aukins fjármagns og starfskrafta á árinu 2015 til þess að svo megi verða.

Breytingar á lögum

Með Fréttir

Breytingar á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011,
með síðari breytingum (fjölgun nefndarmanna,afgreiðsla kærumála eldri úrskurðarnefndar. Sjá nánar: