Mánaðarlega Skjalasafn

nóvember 2019

Auglýst störf lögfræðinga á Starfatorg

Með Fréttir
Leitað er að framúrskarandi einstaklingum sem eru dugmiklir, athugulir, búa yfir hæfni til að vinna sjálfstætt að greiningu og úrlausn lögfræðilegra álitaefna, geta greint á milli aðal- og aukaatriða og hafa gott vald á íslenskri tungu.Hvert starf er 100% stöðugildi. Ráðið verður í stöðurnar frá og með 1. apríl 2020.

Störfin felast einkum í úrvinnslu kærumála og undirbúningi úrskurða. Viðfangsefnin eru á sviði stjórnsýsluréttar og umhverfis- og auðlindamála, þ. á m. skipulags- og byggingarmála, mála er varða hollustuhætti og mengunarvarnir og mála er varða mat á umhverfisáhrifum.

Hæfniskröfur:
· Embættis- eða meistarapróf í lögfræði
· Þekking eða reynsla á sviði stjórnsýsluréttar
· Reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar eða úrskurðarvinnu er æskileg
· Þekking á umhverfis-og auðlindamálum, skipulags- og byggingarmálum, málum er varða hollustuhætti og mengunarvarnir er æskileg
· Framúrskarandi kunnátta í íslensku, töluðu og rituðu máli
· Góð hæfni í mannlegum samskiptum og jákvætt viðmót
· Nákvæmni, öguð, sjálfstæð og skilvirk vinnubrögð
· Hæfni til að vinna undir álagi og með jöfnum og góðum afköstum

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt lögum ber nefndinni að kveða upp úrskurði eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið. Að undanförnu hefur nefndin náð að minnka mikið málahala frá fyrri árum og stytta málsmeðferðartíma og er lögð áhersla á að halda áfram á sömu braut.

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Stéttarfélags lögfræðinga og ríkisins. Umsóknir gilda í sex mánuði. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Einstaklingar af öllum kynjum eru hvattir til að sækja um starfið.

Umsóknarfrestur er til og með 2. desember nk.

Umsækjendur eru beðnir um að sækja um starfið á heimasíðu Capacent, capacent.is

Umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilsskrá og stutt kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna er sótt um starfið og hvernig viðkomandi uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til þess.
Umsjón með starfinu hafa Auður Bjarnadóttir (audur.bjarnadottir@capacent.is) og Þóra Pétursdóttir (thora.petursdottir@capacent.is).

Almennar upplýsingar um starfsemi nefndarinnar má finna á heimasíðu hennar: www.uua.is.

 

Miklum árangri náð í styttingu afgreiðslutíma fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Með Fréttir

Meðalafgreiðslutími hefur styst um tæplega helming

Í annað sinn á nýliðnum árum hefur mikill árangur náðst í störfum úrskurðarnefndarinnar og hefur málsmeðferðartími ekki verið skemmri eða færri málum ólokið til fjölda ára.

Við upphaf ársins 2015 tóku gildi lagabreytingar til að auka skilvirkni nefndarinnar og jafnframt var auknu fjármagni veitt til hennar til að ljúka öllum þeim málum sem kærð höfðu verið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Var það og gert það sama ár og var síðasta máli sem borist hafði þeirri nefnd lokið í desember 2015. Þau mál sem eftir stóðu í lok þess árs voru jafnframt töluvert yngri en áður hafði verið í málahala úrskurðarnefndarinnar.

Árið 2016 barst metfjöldi kærumála úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og var tekið fram í tilkynningu nefndarinnar um málastöðu 31. desember 2016 að það, ásamt óvenju mörgum umfangsmiklum málum auk fjölda krafna um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa, hefði allt áhrif á möguleika nefndarinnar að standa við lögboðinn málshraða. Var áréttað að ef fram héldi með sama magn og umfang kæra og árið 2016 myndi málshraði óhjákvæmlega lengjast á ný. Ekki væri líklegt að svigrúm gæfist til að fækka málum svo einhverju næmi í hala nefndarinnar.

Gengu þessar spár eftir og var umfang kærumála og fjöldi meiri 2016-2018 en árin 2012-2015. Var og tekið fram í frétt á vef úrskurðarnefndarinnar að róður hefði þyngst árið 2017 og að ljóst lægi fyrir að málshraði myndi lengjast á árinu 2018 vegna framangreindrar þróunar á fjölda og umfangi kærumála. Einnig var gerð grein fyrir því að stjórnvöld hefðu brugðist við vandanum og að gert væri ráð fyrir aukafjárveitingu til úrskurðarnefndarinnar á árinu 2018 vegna þessa. Ætti því að vera hægt að draga úr því að mál eltust mjög úr hófi fram jafnframt væri stefnt að því til lengri tíma að standa við lögboðna afgreiðslutíma.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er tekið fram að mikilvægt sé að hraða málsmeðferð þar sem það sé hægt samkvæmt gildandi lögum, t.d. með því að styrkja úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í samræmi við sáttmálann og líkt og að framan greinir hefur auknum fjárveitingum verið beint til nefndarinnar og er nú verið að uppskera árangur í samræmi við það, svo sem sjá má í grafinu hér að neðan.

Þegar róðurinn var sem þyngstur, sbr. það sem áður segir, eða fyrsta ársfjórðung ársins 2018 var meðalafgreiðslutími þeirra mála sem þá var lokið 14 mánuðir og einn dagur. Síðan þá hefur ötullega verið unnið að því að stytta afgreiðslutíma og minnka málahalann og eins og fram kemur á vefsíðu úrskurðarnefndarinnar var meðalafgreiðslutími lokinna mála sjö mánuðir og fimmtán dagar á þriðja ársfjórðungi ársins 2019. Er um að ræða styttingu um tæpan helming frá því sem verst var.

Málahali nefndarinnar telur nú 89 kærumál, en gögn hafa ekki borist í níu þeirra. Því eru 80 mál tæk til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Af þeim eru níu frá árinu 2018, tveim þeirra hefur verið frestað á meðan beðið er niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í eðlislíku máli, fjögur eru á dagskrá nefndarinnar í nóvember og þrjú í desember. Önnur mál eru á mismunandi vinnslustigi.

Áhugasömum er bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og málshraða nefndarinnar í gegnum tíðina. Árið 2019 hafa verið birtar upplýsingar ársfjórðungslega um sama efni og verður því haldið áfram.