Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2019

Málastaða úrskurðarnefndar 1. janúar 2019

Með Fréttir

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. janúar 2019 – um fjórðungs stytting málahala á nýliðnu ári

Á árinu 2018 bárust úrskurðarnefndinni 153 kærur en lokið var 188 kærumálum. Alls voru 180 úrskurðir kveðnir upp á árinu, 21 úrskurður var kveðinn upp til bráðabirgða um kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa, sex úrskurðir lutu að málshraða stjórnvalda og kveðnir voru upp 51 frávísunarúrskurðir. Mikill meirihluti þeirra úrskurða sem upp voru kveðnir voru því efnisúrskurðir, eða alls 101.

Í upphafi ársins 2019 voru hjá nefndinni 114 óafgreidd mál, sem er tæplega fjórðungi minna en í byrjun síðasta árs. Hafa óafgreidd mál ekki verið færri í upphafi árs frá því að nefndin tók til starfa 1. janúar 2012 þegar tillit er tekið til þess að þá voru óafgreidd 125 mál er borist höfðu úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Í tilkynningum úrskurðarnefndarinnar um stöðu mála um áramót síðustu tvö ár, sem sjá má HÉR og HÉR, kom fram að aukning í kærufjölda og umfangi þeirra mála sem skotið er til úrskurðarnefndarinnar hefur óhjákvæmilega áhrif á möguleika nefndarinnar til að standa við lögboðinn málsmeðferðartíma.

Þróun í kærufjölda má sjá í töflu og línuriti hér að neðan:

2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Kærufjöldi 133 114 128 118 175 158 153

Svo sem bent var á í tilkynningu nefndarinnar í janúar 2018, sem nálgast má HÉR, var útlit fyrir að málsmeðferðartími á árinu myndi lengjast þar sem enn var ólokið töluverðum fjölda mála frá metárinu 2016. Gekk það og eftir og árið 2018 var meðalmálsferðartími 321 dagur eða 10 mánuðir og 17 dagar, en árið 2017 var hann um níu mánuðir og árið 2016 var hann níu mánuði og 11 dagar.

Nánari greiningu og samanburð á milli áranna 2016, 2017 og 2018 er að finna í stöplariti þar sem sjá má að mál þau sem afgreidd voru á árinu 2018 voru almennt eldri en síðustu tvö ár. Rétt er þó að taka fram að vegna hins mikla kærufjölda árið 2016 bar mikið á kröfum um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa en fallist úrskurðarnefndin á slíkar kröfur sæta þau mál flýtimeðferð og er þá iðulega lokið innan þriggja mánaða. Einnig er rétt að benda á að svo sem sjá má eru kærumál nú ekki að ná eldri en  tveggja ára nema í algjörum undantekningartilfellum, t.a.m. þegar því er frestað ótímabundið vegna þess að úrlausn máls er einnig fyrir dómstólum.

Til nánari útskýringar skal þess getið að úrskurðarnefndinni ber lögum samkvæmt að kveða upp úrskurð að jafnaði innan þriggja mánaða frá því að málsgögn berast frá stjórnvaldi, en innan sex mánaða frá sama tímamarki ef mál er viðamikið. Stjórnvöldum ber skylda til að láta úrskurðarnefndinni í té öll gögn máls innan 30 daga og umsögn ef þau svo kjósa. Reiknast málsmeðferðartími frá þeim tíma en ekki frá því að kæra berst.

Brugðist hefur verið við málahalla úrskurðarnefndarinnar með auknum fjárveitingum og hefur verið bætt við starfsmönnum frá vori 2018.  Á því ári voru stöðugildi við nefndina því 8,4 og árið 2019 verður enn bætt við. Auknar fjárveitingar skiluðu auknum afköstum sem leitt hefur til betri stöðu mála fyrir úrskurðarnefndinni.

Af þeim 114 kærumálum sem eftir stóðu 1. janúar 2019 voru 20 frá árinu 2017 og 94 frá árinu 2018. Til samanburðar voru 149 óafgreidd mál 1. janúar 2018, þar af eitt frá árinu 2015, 51 frá árinu 2016 og 97 frá árinu 2017. Yngri mál eru því í hala nú en fyrir ári síðan og er gert ráð fyrir því að öllum kærumálum frá árinu 2017 verði lokið á fyrsta ársfjórðungi 2019 að einu undanskildu sem frestað hefur verið ótímabundið á meðan ekki er fallinn lokadómur í því. Þá er gert ráð fyrir því að meðalmálsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefndinni styttist til muna árið 2019 þótt lögbundnum afgreiðslutíma að meðaltali verði væntanlega ekki náð á árinu.

Frekari upplýsingar um tölfræði úrskurðarnefndarinnar, s.s. málsmeðferðartíma, innkomin og afgreidd mál, verða hér eftir birtar ársfjórðungslega á heimasíðu nefndarinnar www.uua.is.