Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2020

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. janúar 2020 – aftur um fjórðungs stytting málahala á nýliðnu ári

Með Fréttir

Á árinu 2019 bárust úrskurðarnefndinni 134 kærur en lokið var 165 kærumálum. Alls voru 140 úrskurðir kveðnir upp á árinu og var mikill meirihluti þeirra efnisúrskurðir.

Í upphafi ársins 2020 eru hjá nefndinni 83 óafgreidd mál, sem er rúmlega fjórðungi minna en í byrjun síðasta árs. Er afar ánægjulegt að sjá um fjórðungs fækkun óafgreiddra mála annað árið í röð. Óafgreidd mál í upphafi árs  hafa ekki verið færri frá því að nefndin tók til starfa 1. janúar 2012, þegar tillit er tekið til þess að þá voru óafgreidd 125 mál er borist höfðu úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Þróunina má sjá á stöplariti hér að neðan.

Nefndinni hafa ekki borist gögn í 21 máli af þeim 83 sem eru óafgreidd og eru því 62 mál tæk til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Af þeim eru tvö frá árinu 2018, en báðum hefur verið frestað á meðan beðið er niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í eðlislíku máli. Önnur mál eru á mismunandi vinnslustigi. Ef frá eru talin framangreind tvö mál sem eru í bið er aldur elsta óafgreidda málsins tæpir tólf mánuðir, en stefnt er að afgreiðslu þess í janúarmánuði. Þá er stefnt að því að í lok fyrsta ársfjórðungs verði ekki liðnir meiri en sex mánuðir frá því að gögn bárust í þeim málum sem þá verða til meðferðar.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 6,4 mánuðir á fjórða ársfjórðungi ársins 2019 en 8,2 mánuðir á árinu í heild sinni. Svo sem sjá má á línuriti hér að neðan kom fram af miklum þunga sú mikla aukning í fjölda kærumála sem átt hefur sér stað frá árinu 2016 með þeim afleiðingum að meðalmálshraði í upphafi ársins 2018 varð langt umfram það sem lögmælt er. Var við þessu brugðist eins og sjá má í fyrri fréttum úrskurðarnefndarinnar um málshraða og hefur mikill árangur náðst í að ná niður meðalmálshraða frá því sem verst var.

Miklum fjölda kærumála hafa einnig fylgt fleiri umfangsmikil mál sem voru fyrirferðarmikil á árinu 2019. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eiga að jafnaði þrír nefndarmenn sæti í nefndinni um hvert mál sem nefndinni berst, en ef mál er viðamikið eða fordæmisgefandi skulu fimm menn sitja í nefndinni. Á árinu 2019 sátu fimm nefndarmenn saman á þriðjungi funda nefndarinnar og hefur það hlutfall aldrei verið hærra, en á nýliðnum árum hefur hlutfall slíkra funda verið um um fimmtungur funda. Fyrir árið 2016 var hlutfall þeirra funda hins vegar undir 10%. Sýnir það glögglega mismunandi umfang mála að á þessum þriðjungi funda stærri nefndar árið 2019 voru til meðferðar einungis um 8% þeirra mála sem lokið var á árinu. Helmingur þeirra mála vörðuðu fiskeldi og mikill meirihluti málanna fjallaði að einhverju leyti um mat á umhverfisáhrifum.

Úrskurðarnefndinni hefur áfram verið tryggð viðbótarfjárveiting fyrir árið 2020 og er markmið nefndarinnar að meðalmálshraði verði kominn undir fimm mánuði í árslok.

Áhugasömum er bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og málshraða nefndarinnar í gegnum tíðina. Á árinu 2019 voru upplýsingar birtar ársfjórðungslega um sama efni og verður því haldið áfram.