Um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði.
Í nefndinni sitja sjö fulltrúar og jafnmargir til vara. Einn nefndarmanna, sem skal vera formaður hennar og forstöðumaður og hafa starfið að aðalstarfi, er skipaður til fimm ára að undangenginni auglýsingu í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Staðgengill forstöðumanns er varamaður formanns og skal uppfylla sömu hæfisskilyrði og formaður. Ráðherra skipar hann að tilnefningu formanns til sama tíma og formann, eða til starfsloka hans beri þau að höndum áður en skipunartíma varaformanns lýkur.
Aðrir nefndarmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn eftir tilnefningu Hæstaréttar. Þeir skulu allir hafa háskólapróf. Einn skal hafa sérþekkingu á sviði skipulagsmála, einn á sviði byggingarmála, einn á sviði umhverfismála, einn á sviði jarðvísinda, orkumála og jarðrænna auðlinda og einn á sviði vistfræði og lífríkis þurrlendis, ferskvatns og sjávar. Einn skal hafa embættispróf í lögfræði eða annað háskólapróf sem verður metið jafngilt. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.
Að jafnaði er nefndin skipuð þremur fulltrúum við meðferð máls en fimm í stærri málum. Formaður getur einn afgreitt mál sem eru einföld úrlausnar og varða ekki verulega hagsmuni.
Nefndin er þannig skipuð:
Formaður og varaformaður skipaðir af umhverfisráðherra með tilnefningu:
Arnór Snæbjörnsson formaður og forstöðumaður.
Ómar Stefánsson varaformaður og staðgengill forstöðumanns.
Samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands:
Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður, aðalmaður
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari, til vara
Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur
Dr. Sigurður Erlingsson prófessor, til vara
Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt
Hörður Harðarson arkitekt, til vara
Dr. Geir Oddsson auðlindafræðingur
Helga Jóhanna Bjarnadóttir umhverfis- og efnaverkfræðingur, til vara
Dr. Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur
Jón Ólafsson prófessor í haffræði, til vara
Dr. Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur
Dr. Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur, til vara
Dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor
Kristín Benediktsdóttir dósent, til vara
Skrifstofa nefndarinnar er að Borgartúni 21, 105 Reykjavík.