Kæra til úrskurðarnefndarinnar þarf að vera skrifleg

Í því felst að kæran þarf að berast undirrituð af kæranda/kærendum. Það er því ekki hægt að kæra með tölvupósti nema hún sé undirrituð.

Ef kært er fyrir hönd annarra þarf sá sem undirritar kæru að framvísa skriflegu umboði sem ber með sér að hann hafi heimild til að undirrita kæruna. Þetta á jafnt við um lögmenn sem aðra, enda gildir ekki málflutningsumboð fyrir nefndinni frekar en öðrum stjórnvöldum.

Þegar kæra til úrskurðarnefndar er lögð fram er mikilvægt að fram komi hvaða ákvörðun það er sem kærð er, hvernig hún snerti hagsmuni kæranda og hvaða kröfur séu gerðar. Æskilegt er að kærunni fylgi tiltæk gögn, svo sem afrit fundargerða stjórnvalds er varða hina kærðu ákvörðun og bréfaskipti um málið sem kunna að hafa átt sér stað milli kæranda (kærenda) og þess stjórnvalds er tók hina kærðu ákvörðun.

Kærufrestur er almennt einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt um, eða mátti vera kunnugt um, þá ákvörðun sem kæra skal. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingunni.

Æskilegt er að kærur og greinargerðir séu einnig sendar nefndinni á rafrænu formi á netfang hennar uua@uua.is