Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Ársyfirlit 2023

Með febrúar 1, 2024Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er sjálfstæða stjórnsýslunefnd. Hlutverk hennar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Á það er lögð áhersla að kveða upp vandaða úrskurði eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, svo sem mælt er fyrir um í lögum um nefndina nr. 130/2011. Sé mál viðamikið skal nefndin kveða upp úrskurð innan sex mánaða frá sama tímamarki.

Á árinu 2023 afgreiddi úrskurðarnefndin 174 mál og þar af lauk 130 málum með efnisúrskurði, 33 með frávísunarúrskurði, 4 með framsendingu og 7 með því að kærandi afturkallaði kæru sína.

Úrskurðarnefndin kvað upp 170 úrskurði á árinu, en í sumum tilvikum eru nokkur kærumál sameinuð í eitt og kveðinn upp einn úrskurður fyrir þau öll. Þá getur í úrskurði einnig verið tekið á kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða og er í slíkum úrskurði því ekki að finna endanlega niðurstöðu.

Meðalafgreiðslutími lokinna kærumála hjá úrskurðarnefndinni var 2,7 mánuðir en sé einvörðungu litið til þeirra mála sem lauk með úrskurði var meðalafgreiðslutími 2,9 mánuðir.

Efni þeirra kærumála sem afgreidd voru á árinu skiptist með eftirfarandi hætti:

Deiliskipulag 43
Byggingarleyfi 31
Þvingunarúrræði 23
Framkvæmdaleyfi 17
Starfsleyfi 10
Virkjunarleyfi 10
Matsskylduákvörðun 8
Rekstrarleyfi 4
Framkvæmdir í og við veiðivötn 3
Nýtingarleyfi 3
Skipulagsgjald 3
Þjónustugjald 3
Sölubann 1
Önnur byggingarmál 13
Önnur skipulagsmál 2