Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2016

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála

Með Fréttir

Öllum málum sem kærð voru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er lokið

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála var sett á stofn með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sem tóku gildi 1. janúar 1998. Hinn 1. janúar 2012 tóku gildi lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og var sú nefnd þá sett á laggirnar. Í lögunum var jafnframt kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skyldi ljúka efnismeðferð þeirra mála sem fyrir henni væru, en 31. desember 2011 voru 125 mál óafgreidd hjá nefndinni frá árunum 2008-2011.

Með lögum nr. 139/2014 var lögunum breytt og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála falið að taka við og ljúka afgreiðslu þeirra kærumála sem voru óafgreidd hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og á árinu 2015 var auknum fjárveitingum veitt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í þeim tilgangi að ljúka þeim málum öllum. Síðasta ólokna máli úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála lauk með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem upp var kveðinn 10. desember 2015.

Vefsíðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, www.usb.is, hefur jafnframt verið lokað og þeim sem þangað leita er beint sjálfkrafa á vefsíðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála www.uua.is og er þar nú að finna alla úrskurði beggja nefndanna.

Skipun nefndarmanna

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skipuð í samræmi við 2. gr laga nr. 130/2011. Formaður og varaformaður nefndarinnar eru skipaðir af ráðherra til fimm ára án tilnefningar og hafa störfin að aðalstarfi. Aðrir nefndarmenn, sem skulu hafa sérþekkingu eftir því sem tilgreint er í lagaákvæðinu, eru skipaðir til fjögurra ára í senn að tilnefningu Hæstaréttar. Sérfróðir nefndarmenn voru nýverið skipaðir að nýju og má finna núverandi skipun nefndarinnar HÉR

Málastaða 31. desember 2015.

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur starfað frá 1. janúar 2012 og er fjórum starfsárum því lokið.

Á þessum fjórum árum hafa nefndinni borist 493 kærur en þegar nefndin tók til starfa var einnig ólokið 125 málum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála (ÚSB). Af þeim samtals 618 málum er nú 488 málum lokið en 130 mál eru óafgreidd, sjá nánar í meðfylgjandi töflu.

Úrskurðarnefndin hefur glímt við málshraðavandamál í fjölda ára og á árinu 2015 fékk nefndin auknar fjárveitingar sem einkum skyldu fara til þess að ljúka þeim málum sem kærð voru í tíð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, þ.e. fyrir árslok 2011. Elstu mál sem til meðferðar voru árið 2015 voru frá árinu 2008. Alls var 195 málum lokið á árinu 2015 sem er töluverð aukning frá fyrri árum. Þannig voru 108 mál afgreidd á árinu 2014, 80 mál afgreidd árið 2013 og 105 mál afgreidd árið 2012. Elsta málið sem eftir stóð í lok ársins 2015 er frá árinu 2012 og hafa mál því yngst töluvert upp fyrir nefndinni.

Úrskurðarnefndin vinnur áfram að auknum málshraða fyrir nefndinni innan þess ramma sem reglulegar fjárveitingar til nefndarinnar setja.

Innkomin mál Af þeim er lokið Ólokið 31.12.2015
2015 118 42 76
2014 128 82 46
2013 114 107 7
2012 133 132 1
Eftirstöðvar ÚSB mála 31. des. 2011 125 125 0
Samtals 618 488 130