Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Fyrsti ársfjórðungur 2019

Með apríl 8, 2019Fréttir

Yfir 1000 kærur hafa borist á starfstíma úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála

Óafgreidd mál aldrei verið færri – málum frá árinu 2017 lokið[i]

Við lok fyrsta ársfjórðungs ársins 2019 voru óafgreidd mál hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 93 talsins. Hafa þau ekki verið færri frá því að nefndin tók til starfa 1. janúar 2012 að teknu tillits til þess að á því tímamarki var enn ólokið 125 kærumálum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Rekja má þennan árangur til tveggja þátta. Annars vegar hafa auknar fjárveitingar verið veittar nefndinni og hins vegar hefur kærufjöldi fyrstu þrjá mánuði ársins verið minni en búist var við.

Það sem af er árs 2019 hafa úrskurðarnefndinni borist 22 kærur. Eins og sjá má í töflunni hér að neðan svipar þeim fjölda til fjölda kæra fyrsta ársfjórðung áranna 2012-2015, en á árunum 2016-2018 barst aukinn fjöldi kæra bæði fyrsta ársfjórðung þeirra ára og á ársgrundvelli. Þó er vert að benda á að sambærilegur fjöldi kæra barst fyrsta ársfjórðung árið 2013 og 2016 en að á ársgrundvelli var staðan afar ólík þau ár.

Línulegt samband er því ekki á milli fjölda innkominna kærumála á fyrsta ársfjórðungi hvers árs og þess fjölda sem berst á ársgrundvelli, svo sem sjá má á meðfylgjandi línuriti. Er því ekki hægt að spá fyrir um fjölda kærumála þetta árið með neinni vissu.

Af þeim 93 málum sem eftir stóðu við lok fyrsta ársfjórðungs eru 73 frá árinu 2018 og 19 frá árinu 2019. Síðustu málunum frá árinu 2017 var lokið á ársfjórðungnum ef undanskilið er eitt kærumál þar sem kæruefnið er til meðferðar fyrir dómstólum, en á meðan því er ólokið þar er meðferð kærumálsins frestað fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndinni í té öll gögn innan 30

Stjórnvaldi er skylt skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að láta úrskurðarnefndinni í té öll gögn innan 30 daga frá þeim tíma er því er tilkynnt um kæru. Í 10 af 93 óafgreiddum málum hafa gögn ekki borist enn, þar af er frestur til að skila gögnum liðinn í fimm kærumálum.

Alls var lokið 43 kærumálum á fyrsta ársfjórðungi, 19 frá árinu 2017, 21 frá árinu 2018 og þremur frá árinu 2019. Meðalmálsmeðferðartími málanna var 290 dagur eða 9 mánuðir og 16 dagar, en til samanburðar var meðalmálsmeðferðartími fyrsta ársfjórðung ársins 2018 einir 427 dagar, eða 14 mánuðir og einn dagur, og yfir það ár var meðalmálsmeðferðartíminn 321 dagur, eða 10 mánuðir og 17 dagar.

Meðalmálsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefndinni hefur því styst, elstu mál eru yngri en áður og færri mál bíða afgreiðslu nefndarinnar en nokkru sinni fyrr.

Þá má til gamans geta að alls hafa borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 1001 kæra frá upphafi og er mál nr. 21/2019 það þúsundasta sem nefndinni barst.

[i] Að undanskyldu einu kærumáli þar sem kæruefnið er til meðferðar fyrir dómstólum.