Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Flokkur

Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála búin að stíga fimm græn skref.

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tekur þátt í verkefninu Græn skref og lauk á dögunum þremur síðustu skrefunum undir handleiðslu sérfræðings Umhverfisstofnunar. Varð nefndin þar með nítjánda stofnunin af þeim 148 sem þátt taka í verkefninu til að ljúka öllum fimm skrefum þess.

Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur og miðast aðgerðirnar við venjulega skrifstofustarfsemi. Megintilgangur fimmta skrefsins er að viðhalda öflugu umhverfisstarfi eftir að öll skrefin hafa verið stigin og er þannig frábrugðið fyrstu fjórum skrefunum.

Úrskurðarnefndin lauk tveimur grænum skrefum í byrjun ársins 2018 en eftir flutninga á skrifstofu nefndarinnar og langdregið farsóttarástand var allt gefið í botn og síðustu þrjú skrefin kláruð á árinu 2021.

Tengiliðir nefndarinnar hafa m.a. verið öflugir við að fræða samstarfsfólk sitt um umhverfismál, flokkun hefur verið aukin og sóun minnkuð, auk þess sem markvisst hefur verið unnið með þætti eins og samgöngur og rekstur mötuneytis hússins þar sem nefndin er staðsett.

Með skrefunum fimm hefur úrskurðarnefndin lagt sitt á vogarskálarnar til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins. Nefndin þakkar Umhverfisstofnun fyrir leiðsögnina og hlakkar til að fylgja árangrinum eftir með frekari aðgerðum.

 

Málastaða eftir þriðja ársfjórðung 2021 – stefnir í metár í innkomnum málum

Með Fréttir

Á þriðja ársfjórðungi bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 43 kærumál sem er 42% aukning frá sama tíma í fyrra en 35 málum var lokið (2020:30). Á tímabilinu voru kveðnir upp 38 úrskurðir (2020:25) og voru 76% þeirra lokaúrskurðir. Á ársfjórðungnum voru 9,7 stöðugildi hjá nefndinni en á sama tíma í fyrra voru þau 8,7.

Í lok þriðja ársfjórðungs voru hjá nefndinni 76 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 44 talsins.

Á öðrum ársfjórðungi bárust nefndinni 66 kærur sem var 100% aukning frá árinu áður. Kærur voru nokkuð færri á þriðja ársfjórðungi eins og áður er nefnt, en heildarfjöldi það sem af er ári er þó 150. Það er því ljóst að það stefnir í metár í mótteknum kærum. Auk þess eru viðamikil mál áberandi í ár. Þannig hafa nítján mál varðandi fiskeldi borist það sem af er árinu en voru aðeins sjö allt árið í fyrra. Mál varðandi Suðurnesjalínu 2 voru einnig mjög viðamikil. Við þessu hefur verið brugðist með ráðningum lögfræðinga í tímabundin störf og eru stöðugildi við nefndina nú 10,5.

Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er jafnan allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 14 málum af þeim 76 sem eru óafgreidd og eru því 62 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 2,3 mánuðir sl. sex mánuði (2,3 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 30. júní 2021). Öllum málum var lokið innan sex mánaða á ársfjórðungnum og aðeins þrjú mál tóku lengri tíma en fimm mánuði í meðferð.

Aldur elsta óafgreidda málsins er nú rúmlega fimm mánuðir miðað við hvenær gögn bárust nefndinni og er það í augnablikinu í fresti. Átján mál eru 3 – 5 mánaða gömul og hefur hlutfallslega mikið fjölgað í þessum hópi vegna fjölgunar kæra. Önnur kærumál eru innan við þriggja mánaða gömul miðað við gagnaskil viðkomandi stjórnvalda.

Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.

Stóraukinn fjöldi kærumála á 2. ársfjórðungi 2021.

Með Fréttir

Á öðrum ársfjórðungi bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 66 kærumál sem er 100% aukning frá sama tíma í fyrra en 46 málum (2020: 47) var lokið. Á tímabilinu voru kveðnir upp 36 (2020: 40) úrskurðir og voru 67% þeirra efnisúrskurðir. Á ársfjórðungnum voru 7,8 stöðugildi hjá nefndinni en á sama tíma í fyrra voru þau 10,4.

Í lok annars ársfjórðungs voru hjá nefndinni 68 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 44 talsins.

Nýtt met var sett í júnímánuði en þá bárust nefndinni 36 kærur. Fyrra met er frá júlímánuði 2016 þegar 29 kærur bárust nefndinni. Árið 2016 var jafnframt metár í kærum en það ár bárust úrskurðarnefndinni 175 kærur. Miðað við innkomnar kærur það sem af er árs stefnir í að það met verði slegið og að yfir 200 kærur berist á árinu 2021.

Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 32 málum af þeim 68 sem eru óafgreidd og eru því 36 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 2,3 mánuðir sl. sex mánuði (2,2 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 31. mars 2021). Öllum málum var lokið innan sex mánaða á ársfjórðungnum og aðeins tvö mál tóku lengri tíma en fimm mánuði í meðferð.

Aldur elsta óafgreidda málsins er nú rúmlega fimm mánuðir miðað við hvenær gögn bárust nefndinni og er það í augnablikinu í fresti. Þrjú mál eru 3 – 4 mánaða gömul en öll önnur kærumál eru innan við þriggja mánaða gömul miðað við gagnaskil viðkomandi stjórnvalda.
Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.

 

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir fyrsta ársfjórðung 2021.

Með Fréttir

Á fyrstu þremur mánuðum ársins bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 41  kærumál (2020: 24) en 37 (2020: 55) var lokið. Á tímabilinu voru kveðnir upp 42 (2020: 46) úrskurðir og voru 60% þeirra efnisúrskurðir. Einnig var afgreidd ein beiðni um endurupptöku kærumáls, fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis svarað og umsögn veitt ríkislögmanni. Á ársfjórðungnum voru sex og hálft stöðugildi hjá nefndinni en á sama tíma í fyrra voru þau um tíu talsins.

Í lok fyrsta ársfjórðungs voru hjá nefndinni 48 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau  44 talsins.

Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 17 málum af þeim 48 sem eru óafgreidd og eru því 31 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 2,2 mánuðir sl. sex mánuði (1,9 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 31. desember 2020). Öllum málum var lokið innan sex mánaða á ársfjórðungnum og aðeins eitt mál tók lengri tíma en fimm mánuði í meðferð.

Aldur elsta óafgreidda málsins er nú rúmlega fjórir mánuðir miðað við hvenær gögn bárust nefndinni og er það á dagskrá nefndarinnar í lok apríl eða byrjun maí. Svipaða sögu er að segja um tvö önnur mál en þessi þrjú snúast öll um fiskeldi og eru nokkuð viðamikil. Öll önnur kærumál eru innan við þriggja mánaða gömul miðað við gagnaskil viðkomandi stjórnvalda.

Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.

Stafræn þjónusta – ný þjónustugátt opnuð.

Með Fréttir

Við erum stolt að kynna að rafræn þjónustugátt úrskurðarnefndarinnar hefur verið opnuð og fyrsta kæran hefur þegar borist nefndinni í gegnum gáttina. Nú þarf ekki lengur að prenta út kæru og skrifa undir á gamla mátann heldur er notandi auðkenndur í gáttinni annað hvort með rafrænum skilríkjum eða með íslykli. Í gáttinni er hentugt eyðublað til útfyllingar varðandi kæruefni og fylgiskjölum er einnig hlaðið þar inn. Þetta er bæði öruggt, fljótlegt og umhverfisvænt.

 

Tenging við gáttina er í gegnum Mínar síður á  www.uua.is

 

Við hvetjum alla kærendur, bæði almenning, félög og lögmenn að nota rafrænu gáttina.

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. janúar 2021. Málahali aldrei styttri í lok árs.

Með Fréttir

Á árinu 2020 bárust úrskurðarnefndinni 141 kærumál (5% aukning frá 2019), en 180 var lokið (9% aukning frá 2020). Á árinu voru kveðnir upp 151 úrskurðir (8% aukning frá 2019) og var meirihluti þeirra, eða alls 96, efnisúrskurðir. Lokaúrskurðir voru 143 talsins og skiptust svo eftir niðurstöðum:

Undir tegundina Ógildingu hafnað falla bæði mál þar sem það á við um allar kröfur og mál þar sem það á bara við um hluta krafna, að því gefnu að engin ákvörðun eða hluti ákvörðunar hafi verið felld úr gildi.

Þau stjórnvöld sem áttu flest mál sem lauk á árinu 2020 voru Reykjavíkurborg (58), Hafnarfjarðarbær (14), Skipulagsstofnun (10), Garðabær (9), Árneshreppur (7), Borgarbyggð (6) og Kópavogur (6).

Á árinu lauk þremur málum sem voru endurupptekin. Tvö voru endurupptekin í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis og eitt vegna nýrra gagna.

Í lok ársins 2020 voru hjá nefndinni 44 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 83 talsins. Staðan heldur því áfram að batna að þessu leyti og er málahali nefndarinnar nú í eðlilegu horfi.

Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 18 málum af þeim 44 sem eru óafgreidd og eru því 26 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 1,9 mánuðir sl. sex mánuði (2,9 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 30. september 2020) og meðaltal ársins 2020 var 3,5 mánuðir. Því markmiði úrskurðarnefndarinnar hefur því verið náð að meðalafgreiðslutími sé kominn undir fimm mánuði, en viðaminni mál taki skemmri tíma. Öllum málum var lokið innan sex mánaða á fjórða ársfjórðungi eins og á þriðja ársfjórðungi.

Aldur elsta óafgreidda málsins er nú um fjórir og hálfur mánuður miðað við hvenær gögn bárust nefndinni og er það á dagskrá nefndarinnar í janúar. Í öðru álíka gömlu kærumáli fer fram samráð aðila en leiði það ekki til lausnar málsins er stefnt að afgreiðslu þess í febrúar. Öll önnur kærumál eru innan við þriggja mánaða gömul miðað við gagnaskil viðkomandi stjórnvalda.

Árið 2020 voru haldnir 79 nefndarfundir og 13 þeirra sat fullskipuð nefnd, en lögum samkvæmt sitja fimm nefndarmenn í þeim málum sem eru viðamikil eða fordæmisgefandi. Á þessum 13 fundum voru kveðnir upp úrskurðir í sex kærumálum. Því fóru rúmlega 16% funda nefndarinnar á árinu í að afgreiða ríflega 3% þeirra kærumála sem afgreidd voru það árið. Viðamest voru kærumál nr. 22/2020 (og 27/2020 sem sameinað var hinu fyrra) sem vörðuðu framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðavegi á milli Bjarkalundar og Skálaness. Voru þau mál til umfjöllunar á sjö fundum nefndarinnar. Sýnir þetta glögglega þann mikla mun sem getur verið á umfangi þeirra mála sem koma til kasta úrskurðarnefndarinnar.

Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. október 2020

Með Fréttir

Eftir sumarleyfi hafði starfsemi nefndarinnar færst í eðlilegt horf en vegna aukinnar tíðni COVID-19 smita hefur aftur verið brugðið á það ráð að leyfa starfsmönnum að vinna að heiman og halda nefndafundi með fjarfundabúnaði eins og mögulegt er. Aðilar eru áfram eindregið hvattir til þess að nýta sér möguleika til rafrænnar málsmeðferðar með því að senda kærur, umsagnir, gögn og annað með rafrænum hætti til uua@uua.is fremur en að senda nefndinni framangreint bréflega.

Á þriðja ársfjórðungi bárust úrskurðarnefndinni 31 kærumál en 30 var lokið. Sumarleyfi og umfang úrskurða höfðu nokkur áhrif á fjöldann. Á tímabilinu voru kveðnir upp 25 úrskurðir og var meirihluti þeirra, eða alls 15, efnisúrskurðir. Lokaúrskurðir voru 22 talsins og skiptust svo eftir niðurstöðum:

 

Í lok annars ársfjórðungs voru hjá nefndinni 39 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 83 talsins. Staðan heldur því áfram að batna að þessu leyti og er málahali nefndarinnar nú í eðlilegu horfi.

Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 11 málum af þeim 39 sem eru óafgreidd og eru því 28 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 2,9 mánuðir sl. sex mánuði (5,9 mánuðir á sex mánaða tímabilinu þar á undan og 8,2 mánuðir allt árið 2019). Því markmiði úrskurðarnefndarinnar hefur því verið náð að meðalafgreiðslutími sé kominn undir fimm mánuði, en viðaminni mál taki skemmri tíma. Öllum málum var lokið innan sex mánaða á þriðja ársfjórðungi, en á öðrum ársfjórðungi var hlutfallið 91%.

Öllum kærumálum frá árinu 2019 lauk á síðasta ársfjórðungi utan eins sem frestað var með samkomulagi aðila og er það enn í fresti. Aldur elsta óafgreidda málsins sem ekki er í fresti er nú ríflega fimm mánuðir miðað við hvenær gögn bárust nefndinni og er það á dagskrá nefndarinnar í október.

Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.

Málastaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 1. júlí 2020 – enn styttist málsmeðferðartíminn og er nú í samræmi við lög.

Með Fréttir

Vegna COVID-19 faraldursins fór starfsemi skrifstofu nefndarinnar fram í fjarvinnu að langmestu leyti frá fyrri hluta mars og fram í maí og voru nefndarfundir haldnir í gegnum fjarfundabúnað á sama tíma. Ánægjulegt er að segja frá því að þetta hafði ekki áhrif á afköst nefndarinnar.

Starfsemin hefur nú færst í fyrra horf en viðbragðsáætlun gerir ráð fyrir að fjarvinna verði tekin upp að nýju ef tilefni gefst. Aðilar eru áfram eindregið hvattir til þess að nýta sér möguleika til rafrænnar málsmeðferðar með því að senda kærur, umsagnir, gögn og annað með rafrænum hætti til uua@uua.is fremur en að senda nefndinni framangreint bréflega.

Á öðrum ársfjórðungi bárust úrskurðarnefndinni 33 kærumál en 47 var lokið. Á tímabilinu voru kveðnir upp 40 úrskurðir og var mikill meirihluti þeirra efnisúrskurðir. Í lok annars ársfjórðungs voru hjá nefndinni 38 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 83 talsins. Staðan heldur því áfram að batna að þessu leyti og er málahali nefndarinnar nú í eðlilegu horfi.

Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þrem mánuðum eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 15 málum af þeim 38 sem eru óafgreidd og einu öðru hefur verið frestað með samkomulagi aðila. Því eru 23 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.

Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 3,7 mánuðir á öðrum ársfjórðungi (5,7 mánuðir á fyrsta ársfjórðungi, 4,8 mánuðir að meðaltali fyrsta helming ársins og 8,2 mánuðir allt árið 2019). Því markmiði úrskurðarnefndarinnar hefur því verið náð að meðalafgreiðslutími verði kominn undir fimm mánuði í árslok, en viðaminni mál taki skemmri tíma. Alls var 91% mála lokið innan sex mánaða, en á fyrsta ársfjórðungi var 55% mála lokið innan þeirra tímamarka.

Öllum kærumálum frá árinu 2019 er nú lokið utan eins sem frestað var með samkomulagi aðila. Aldur elsta óafgreidda málsins frá árinu 2020 er ríflega fjórir mánuðir miðað við hvenær gögn bárust nefndinni, en það er ekki í flokki viðaminni mála. Í öllum öðrum málum, þ. á m. viðamiklum málum, eru ekki liðnir þrír mánuðir frá gagnaskilum stjórnvalda. Að meginstefnu til hefur lögbundnum málsmeðferðartíma því verið náð, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þótt búast megi við minni háttar frávikum næstu tvo til þrjá mánuði sökum sumarorlofa.

Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.

Tilkynning!

Með Fréttir

Nefndin er flutt í Borgartún 21, 2. hæð, Höfðaborg, 105 Reykjavík. Nýtt símanúmer er 575-8710 og símatími frá 10-12 virka daga.  Opnunartími er frá 9 – 12 og 13 – 15.30. Netfang nefndarinnar er uua@uua.is og alltaf hægt að beina þar inn fyrirspurnum.

Með kveðju,

starfsfólk úrskurðarnefndar.