Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2018

Málastaða 1. janúar 2018

Með Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lokið sjötta starfsári sínu, en nefndin var sett á laggirnar 1. janúar 2012.
Svo sem fram hefur komið í fyrri fréttum úrskurðarnefndarinnar hafa kærur til nefndarinnar verið mun fleiri en gert var ráð fyrir við stofnun hennar. Má glöggt greina þá þróun í meðfylgjandi línuriti:


Samkvæmt 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal nefndin kveða upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, sbr. 5. mgr., en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið.

Á árinu 2017 bárust nefndinni 158 kærur en lokið var 144 málum. Bættust því 14 mál við málahala nefndarinnar sem taldi 135 mál 1. janúar 2017. Málahalinn er því 149 mál í upphafi árs 2018 og skiptast þau með eftirfarandi hætti: eitt mál frá árinu 2015 bíður afgreiðslu. Þá bíða afgreiðslu 51 mál sem bárust 2016. Loks er ólokið 97 af þeim 158 málum sem bárust á árinu 2017.

Málshraði fyrir nefndinni styttist lítillega á árinu. Hann er þó enn of mikill miðað við það sem lögbundið er. Meðalafgreiðslutími mála á árinu 2017 var 276 dagar frá því að gögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi , eða um níu mánuðir. Er það 11 dögum skemmri meðalmálsmeðferðartími en var á árinu 2016. Þá tókst að ljúka helmingi mála innan þeirra sex mánaða sem lögboðnir eru í þeim málum sem umfangsmikil eru, en slík mál verða æ fyrirferðarmeiri hjá úrskurðarnefndinni.

Málshraða fyrir úrskurðarnefndinni á árinu 2017 má skoða nánar í eftirfarandi skífuriti miðað við þann tíma sem málsgögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi:


Til samanburðar er hér að finna skífurit með upplýsingum um málshraða á árinu 2016:

Í frétt úrskurðarnefndarinnar frá janúar 2017 kom fram að ef magn og umfang kæra héldist með svipuðu móti og árið 2016 myndi málshraði óhjákvæmilega lengjast á ný, en svo myndi vart verða ef svipaður kærufjöldi yrði og árin 2012-2015. Svo sem áður greinir var kærufjöldi á árinu 2017 vel yfir meðallagi fyrri ára þótt fjöldinn næði ekki metárinu 2016. Sjá má af samanburði skífurita sem sýna málshraða á árunum 2016 og 2017 að róður hefur þyngst nokkuð og er ljóst að málshraði mun lengjast á árinu 2018. Óútkljáð mál eru töluvert mörg frá árunum 2016 og 2017 og mun aldur þeirra mála óhjákvæmilega koma niður á meðalafgreiðslutíma á árinu 2018.

Hins vegar er gert ráð fyrir aukafjárveitingu til úrskurðarnefndarinnar á árinu vegna þessa. Frá stofnun nefndarinnar hefur verið gert ráð fyrir sex stöðugildum við nefndina en miðað við fjárveitingar ársins munu verða 8,5 stöðugildi við nefndina á árinu 2018 í stað 6,7 á fyrra ári og 7 á árinu 2016. Áfram ætti því að vera hægt að draga úr því að mál eldist mjög úr hófi fram jafnframt því sem stefnt er að því til lengri tíma að standa við lögboðna afgreiðslutíma.