Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Málastaða 31. desember 2016

Með júní 1, 2017nóvember 14th, 2019Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lokið fimmta starfsári sínu, en nefndin var sett á laggirnar 1. janúar 2012.

Á þessu fimmta starfsári nefndarinnar barst metfjöldi af kærum til hennar, eða alls 175. Til samanburðar voru kærð 114-133 mál árlega til nefndarinnar á árunum 2012-2015, sjá nánar HÉR. Á árinu 2016 var jafnframt slegið fyrra met forvera nefndarinnar, en á árinu 2007 voru 170 mál kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Þá voru óvenju mörg umfangsmikil mál í meðförum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á árinu og mikið bar á kröfum um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa þeirra ákvarðana sem kærðar voru. Ljóst er að allt framangreint hefur áhrif á möguleika nefndarinnar að standa við lögboðinn málshraða.

Á árinu 2015 stóð yfir átak til að taka á málshraða fyrir úrskurðarnefndinni og voru eftirstandandi fjárveitingar nýttar til hins sama á árinu 2016. Þá var auknu fé veitt til nefndarinnar í fjáraukalögum 2016 vegna aukins fjölda mála og umfangs þeirra. Á árinu 2016 voru því sjö stöðugildi við úrskurðarnefndina. Til samanburðar er rétt að geta þess að stöðugildi eru að jafnaði sex við nefndina en átaksárið 2015 voru þau átta og hálft.

Einum 170 málum var lokið á árinu 2016 og bættust því fimm mál við málahala nefndarinnar sem taldi 130 mál við síðustu áramót. Málahalinn er því 135 mál í upphafi árs 2017 og skiptast þau með eftirfarandi hætti: Fimm mál frá árinu 2014 bíða afgreiðslu. Þrjú þeirra lúta að ágreiningi sem er kominn að hluta til fyrir dómstóla. Hefur tveimur málanna verið frestað vegna þessa og frestbeiðni hefur borist af sömu orsökum vegna hins þriðja. Í þeim tveimur málum sem lúta að öðrum ágreiningi bárust gögn stjórnvalda á árinu 2015 og er stefnt að því að ljúka þeim báðum áður en tvö ár eru liðin frá móttöku gagna. Þá bíða afgreiðslu 38 mál sem bárust 2015, gögn vegna þriggja þeirra bárust fyrir meira en 18 mánuðum, en af þeim eru tvö í frestum vegna reksturs dómsmála. Loks er ólokið 92 af þeim 170 málum sem bárust á árinu 2016.

Almennt hefur málshraði fyrir nefndinni styst, en hann er þó enn of mikill miðað við það sem lögbundið er. Meðalafgreiðslutími mála á árinu 2016 var 285 dagar frá því að gögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi , eða um níu mánuðir og 11 dagar. Þá tókst að ljúka yfir helmingi mála innan þeirra sex mánaða sem lögboðnir eru í þeim málum sem umfangsmikil eru.

Hlutfall innkominna og afgreiddra mála á árinu má skoða nánar í eftirfarandi töflu:

Málshraða fyrir úrskurðarnefndinni má skoða nánar í eftirfarandi töflu miðað við þann
tíma sem málsgögn bárust frá viðkomandi stjórnvaldi:

Tekið skal fram að gert er ráð fyrir aukafjárveitingu til úrskurðarnefndarinnar á árinu. Miðað við kjarabreytingar síðasta árs og aukinn kostnað vegna umfangsmikilla mála er þó ljóst að fjárveitingar ársins 2017 nægja einungis fyrir um sex og hálfu stöðugildi. Ef fram heldur sem horfir með sama magn og umfang kæra og á síðasta ári mun málshraði því óhjákvæmlega lengjast á ný. Ef kærur verða í svipuðu horfi og á fyrri starfsárum nefndarinnar, þ.e. 2012-2015, mun málshraði vart lengjast. Í hvorugu tilfellinu er hins vegar líklegt að svigrúm gefist til að fækka málum svo einhverju nemi í hala nefndarinnar.