Árið 2015, miðvikudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 112/2013, kæra á þeirri ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. desember 2013, er barst nefndinni 9. s.m., kæra 25 íbúar við Beykihlíð, Birkihlíð, Víðihlíð og Reynihlíð í Reykjavík þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra 34 íbúar við Beykihlíð, Birkihlíð og Víðihlíð í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2015 að samþykkja umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 57/2015, sameinað máli þessu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.
Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2014 og 30. júlí 2015.
Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 24. október 2012 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíða vegna lóðarinnar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla. Tillagan var auglýst frá 12. nóvember 2012 og var frestur til að gera athugasemdir upphaflega veittur til 24. desember s.á. Kynningartími og athugasemdafrestur var þó framlengdur fjórum sinnum og rann hann út 19. mars 2013. Kynningarfundir voru haldnir 19. desember 2012 og 25. febrúar 2013. Á tímabilinu frá janúar til júlí 2013 var unnið að endurskoðun tillögunnar og voru þá haldnir þrír fundir með fulltrúum hagsmunaaðila/íbúa. Hinn 24. maí 2013 var enn haldinn kynningarfundur og var þar greint frá breyttri tillögu og samráði.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. júlí 2013 var lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíða vegna lóðarinnar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla, sbr. deiliskipulagsuppdrátt, dags. 30. apríl 2013. Einnig var lagður fram skýringaruppdráttur, dags. sama dag. Í tillögunni var gert ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni, m.a. breytingu á byggingarreit og aukningu byggingarmagns, auk þess sem gert var ráð fyrir boltagerði á lóðinni. Hagsmunaaðilar á svæðinu voru upplýstir um tillöguna bréflega og var hún auglýst frá 2. ágúst til og með 13. september 2013. Athugasemdir bárust á kynningartíma, auk yfirlýsingar yfir 200 íbúa í Suðurhlíðum frá 5. mars 2013. Athugasemdirnar voru kynntar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 23. október s.á. og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. s.m. Tillagan var lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 30. s.m. og samþykkt með vísan til áðurnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Borgarráð samþykkti tillöguna hinn 7. nóvember s.á. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. janúar 2014.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar 11. mars 2014 var tekin fyrir umsókn Reykjavíkurborgar um að byggja við matshluta 01 og 02, viðbyggingu við Klettaskóla, sundlaug, íþróttahús, hátíðarsal, stjórnunarálmu, félagsmiðstöð og nýtt anddyri og breyta fyrirkomulagi í öllu núverandi húsi á lóð nr. 9 við Suðurhlíð. Var umsóknin samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Lá þar með fyrir samþykkt byggingaráforma. Hinn 24. mars 2015 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð, einnig með vísan til laga nr. 160/2010.
Klettaskóli, sem stendur á lóð Suðurhlíðar 9, er sérskóli á grunnskólastigi sem tók til starfa árið 2011. Skólinn leysti af hólmi Öskjuhlíðarskóla, sem áður var starfræktur á sama stað, og Safamýrarskóla og þjónar hann öllu landinu. Um svæðið gildir deiliskipulag Suðurhlíða, sem samþykkt var í borgarráði 10. febrúar 1987.
Málsrök kærenda: Kærendur telja að breytingaráform á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð, eins og þau liggi fyrir í tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar, gangi þvert á ákvæði gildandi aðalskipulags Reykjavíkur um Suðurhlíðahverfi, en þar sé því lýst sem fullbyggðu og fastmótuðu hverfi sem skipulagt hafi verið sem ein heild og hafi heilsteypt yfirbragð. Gert sé ráð fyrir að leyfilegt byggingarmagn verði aukið úr 4.993 m2 í 7.000 m2 eða um ríflega 40%. Þá sé gert ráð fyrir að hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar hækki úr 0,29 í 0,41, eða um 41,4%. Slík aukning á tiltölulega þröngu svæði sé langt umfram það sem eðlilegt geti talist ef gera þurfi smávægilegar breytingar á deiliskipulagi innan þess ramma sem aðalskipulag og grenndarréttur myndi. Hún samræmist ekki yfirlýsingu aðalskipulagsins um fullbyggt og fastmótað hverfi og sé auk þess í andstöðu við þann léttleika og þau opnu rými sem gildandi deiliskipulag geri ráð fyrir að séu ríkjandi á lóðinni. Samkvæmt tillögunni verði hið aukna byggingarmagn að langmestu leyti á nyrðri hluta lóðarinnar, í suðurátt séð frá Beykihlíð og efri hluta Birkihlíðar.
Deiliskipulagsbreytingin uppfylli ekki kröfur og skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um framsetningu og skilmála. Samkvæmt tillögunni sé gert ráð fyrir um 80 m löngum vegg nálægt lóðarmörkum gagnvart Beykihlíð 2-8 en af sneiðmyndum að dæma sé veggurinn 5,0-7,5 m hár næst aðliggjandi lóðum. Illmögulegt sé þó að gera sér grein fyrir hæðarsetningu og ekki verði séð að gætt hafi verið ákvæðis 3. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð um hæðartölur, sbr. einnig 4. mgr. gr. 5.3.2.2. að því er hæðarsetningu lóðarinnar varði. Eftir sé að gera ráð fyrir loftræsibúnaði ofan á þak þess húss sem veggurinn sé hluti af og samræmist það ekki heldur framangreindu ákvæði skipulagsreglugerðar, en samkvæmt því beri að tilgreina hámarkshæð á þaki og öðrum byggingarhlutum sem nái upp fyrir vegg, svo sem skorsteinum og tæknirýmum. Verði veggurinn reistur muni hann takmarka verulega rýmistilfinningu og útsýni kærenda. Útsýnisskerðing og skuggavarp verði meira en byggingar samkvæmt núgildandi deiliskipulagi myndu valda auk þess sem hljóð- og ljósmengun, sem fylgi sundlaugum, hafi ekki verið könnuð á viðhlítandi hátt við gerð deiliskipulagstillögunnar, sbr. 4. mgr. gr. 5.3.2. og gr. 5.3.2.6. í skipulagsreglugerð.
Í deiliskipulagstillögunni sé á engan hátt gerð grein fyrir því hvernig stefnt sé að framkvæmd skipulagsins, sbr. gr. 5.3.2.20. í skipulagsreglugerð, þrátt fyrir að ráðgert sé að verja 1,7 milljörðum króna í framkvæmdirnar og að þær muni standa yfir árum saman. Þá virðist sem íþróttahúsið og sundlaugin verði ekki eingöngu til afnota fyrir nemendur Klettaskóla heldur standi jafnvel til að leigja húsnæðið út utan hefðbundins skólatíma. Ekkert mat hafi hins vegar farið fram á umferðarálagi og bílastæðaþörf verði íþróttahúsið og sundlaugin nýtt af öðrum en nemendum, svo sem ef haldin verða þar fjölmenn íþróttamót. Ólíklegt sé að fyrirhugaður fjöldi bílastæða dugi við mannmargar samkomur. Þá liggi ekkert fyrir um það hvaða forsendur búi að baki áliti umferðarsérfræðings borgarinnar að því er varði áhrif á umferð og bílastæðaþörf, en álitið hafi ekki verið kynnt. Fara þurfi fram viðhlítandi könnun á áhrifum nýbygginganna og starfsemi í þeim á umferð og bílastæðaþörf, þar á meðal á kvöldin og um helgar.
Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 24. október 2013 hafi verið vísað til þess að þeir húshlutar skólans sem eftir hafi verið að byggja samkvæmt gildandi deiliskipulagi, þ.e. íþróttahús og sundlaug, hafi breyst með tilliti til þarfa samtímans um slíkar byggingar. Ekki sé nánar útskýrt hvað í þessum orðum felist. Útsýnismyndir sem fylgt hafi deiliskipulagstillögunni hafi verið ónákvæmar og umsögn skipulagsfulltrúa hafi ekki fylgt skuggavarpsmynd miðað við gildandi deiliskipulag, en kærendur séu ósammála því að birtuskerðing verði lítil sem engin samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Það sé ekki aðeins lengd skugga sem máli skipti heldur einnig birtu- og rýmistilfinning nágranna, en ljóst sé að svo há og löng bygging skapi á öllum árstímum stórt, samfellt, dökkt svæði á norðurhlið, sem snúi að húsunum við Beykihlíð og efri hluta Birkihlíðar.
Heimildir sveitarstjórna til breytinga á gildandi deiliskipulagi samkvæmt 43. gr. skipulagslaga takmarkist meðal annars af réttindum nágranna og réttmætum væntingum þeirra um að yfirbragði og byggðamynstri rótgróins hverfis verði ekki raskað verulega og þrengt að nágrönnum á þann hátt sem tillagan feli í sér. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á deiliskipulagstillögunni frá því að hún var fyrst lögð fram hafi ekki dugað til þess að milda áhrifin af hæð húsanna. Þá sé því hafnað að hin kærða tillaga til breytingar á deiliskipulagi hafi verið unnin í samráði við íbúa hverfisins. Tillagan feli í sér víðtækar breytingar á yfirbragði Suðurhlíðahverfis og byggðamynstri sem séu langt umfram það sem íbúar á svæðinu hafi mátt búast við.
Í kæru vegna útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis til framkvæmda á lóð Suðurhlíðar 9 kemur fram að samþykkt hafi verið að veita leyfið hinn 24. mars 2015, en íbúum hafi þó ekki orðið kunnugt um leyfið strax. Raunar hafi starfsmenn Reykjavíkurborgar fullyrt, í lok mars og byrjun apríl 2015, að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út. Sprengivinna hafi hafist 21. júlí 2015 á grundvelli leyfisins án nokkurs fyrirvara eða aðvörunar til íbúa í nágrenninu og hafi íbúar kallað lögreglu til af þeim sökum.
Undanþáguheimild 2. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga þar sem fjallað sé um heimild til að veita takmarkað byggingarleyfi beri að beita af varúð og, eins og segi í lagaákvæðinu, þegar sérstaklega standi á, en þær aðstæður séu ekki fyrir hendi í þessu máli. Grundvallarágreiningur sé um gildi deiliskipulagsbreytingarinnar sem borgarráð hafi samþykkt 7. nóvember 2013 og sá ágreiningur standi í vegi fyrir því að gefið sé út takmarkað byggingarleyfi sem feli í sér verulega umfangsmiklar, óafturkræfar jarðvegsframkvæmdir, þar á meðal mikla sprengivinnu í bergi. Hið kærða byggingarleyfi hafi því verið veitt á röngum forsendum og án viðhlítandi lagaheimildar.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að á lóð Suðurhlíðar 9 hafi verið rekinn skóli frá árinu 1974, en áætlað hafi verið að byggja hann í þremur áföngum. Annar áfangi skólans hafi verið byggður árið 1985 og áform um þriðja áfangann, sem hafi meðal annars samanstaðið af hátíðarsal, íþróttasal og sundlaug, komi fram á byggingarnefndarteikningum frá árinu 1983. Hinn 9. febrúar 2012 hafi borgarráð ákveðið að ráðast í byggingu þriðja og síðasta áfangans. Breyta hafi þurft deiliskipulagi til þess að koma mætti fyrir nauðsynlegum byggingum, með hliðsjón af breyttum áherslum og kröfum til skólabygginga frá því sem miðað hafi verið við árið 1983. Markmiðið hafi verið að uppfylla þarfir Klettaskóla um nauðsynlegt húsnæði sem hæfði nemendum hans og að tryggja að byggingin félli vel að lóðinni og hefði sem mildasta ásýnd. Skólinn sé ætlaður börnum með sérþarfir og hannaður með það í huga, sbr. m.a. 20. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða.
Í kjölfar athugasemda, sem gerðar hafi verið við deiliskipulagstillöguna sem borgarráð samþykkti að auglýsa 25. október 2012, hafi verið gerðar breytingar á henni. Meðal annars hafi byggingarreitir verið færðir af eystri hluta lóðarinnar yfir á norðurhluta hennar, en sú staðsetning þjóni þörfum skólans best, leiði til minnstrar röskunar á ásýnd hverfisins og fjölgi opnum rýmum á lóðinni. Þá hafi hönnun húsa verið breytt, fyrirhuguð bílastæði felld brott, aðkomu bíla að skólanum breytt, hús lækkuð og boltagerði fært til. Fyrirhugaðar byggingar á lóðinni séu í samræmi við aðra byggð á svæðinu, meðal annars hæð þeirra. Þá verði hæðarmunur í landslaginu nýttur og einstaka byggingar grafnar inn í landið, sem leiði til mildunar á sjónrænum áhrifum af salarhæð þeirra. Er skírskotað til þess að salarhæð íþróttahúss hafi jafnframt verið lækkuð um 1,0 m og salarhæð sundlaugarhúss um 0,5 m. Ekki séu gerðar breytingar á byggðamynstri með hinni kærðu tillögu og því sé mótmælt að aukið byggingarmagn og hærra nýtingarhlutfall samræmist ekki byggðamynstri hverfisins, sem sé þéttbyggt. Þá sé ekki tekin afstaða til útlits bygginga í deiliskipulagi heldur ráðist það af teikningum sem fylgi byggingarleyfisumsókn. Bent sé á að útsýni í þéttri byggð teljist ekki réttur eigenda fasteigna, en geti talist til lífsgæða.
Því sé með öllu hafnað að deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við lýsingu á hverfinu í aðalskipulagi. Hvað aukningu á heimiluðu byggingarmagni varði þurfi að hafa í huga að Suðurhlíð 9 sé meðalstór lóð, samtals 17.223 m2. Hámarksnýtingarhlutfall hennar fari úr 0,29 í 0,41 með samþykkt hinnar kærðu tillögu, en það sé í samræmi við almennt nýtingarhlutfall í hverfinu. Auðséð sé að nýtingarhlutfallið sé tiltölulega lágt og að byggingar á lóðinni verði í minnihluta gagnvart opnum svæðum.
Bent sé á að í deiliskipulagi Suðurhlíða frá 1987 hafi verið afmarkaðir byggingarreitir á norðvestanverðri lóðinni og því hafi verið ráðgert að byggja þar áður, þótt byggingarreitum hafi nú verið breytt og gert sé ráð fyrir meiri byggingarmassa. Þá sé vakin athygli á því að við vinnslu hinnar kærðu tillögu hafi byggingarreitir verið færðir til suðurs frá lóðarmörkum og þannig komið til móts við óskir nágranna.
Eins og fram komi í skilmálum hinnar kærðu tillögu hafi byggingarreitum verið skipt í reiti A-F og tilgreind sé hámarksþakhæð bygginga á hverjum reit. Jafnframt segi þar að loftræsimannvirki og þakgluggar megi ná upp fyrir hámarkshæð þakplatna. Með því sé lögð áhersla á að heimilt sé að lítilvæg mannvirki, sem séu í eðlilegum tengslum við starfsemi í byggingunni, nái upp fyrir hámarkshæð. Slíkt sé alvanalegt um umfangslítil tæknirými og skorsteina og í samræmi við almennar venjur um framsetningu deiliskipulags. Ef hins vegar væri tekið tillit til þessa við ákvörðun hámarkshæðar myndi það leiða til þess að hæð byggingarinnar í heild yrði tilgreind meiri en hún væri í raun. Slík framsetning væri ekki í samræmi við kröfur sem gerðar væru til deiliskipulagstillagna um að sýna með skýrum hætti umfang byggingarheimilda.
Athugasemdum um að ekki hafi verið gerð grein fyrir því hvernig stefnt sé að framkvæmd deiliskipulagstillögunnar sé vísað á bug, en Reykjavíkurborg sem framkvæmdaraðili muni ljúka frágangi utanhúss innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis, sbr. samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 1998. Ljóst megi vera að framkvæmdir hefjist um leið og heimildir til verksins hafi fengist. Því sé hafnað að framsetning deiliskipulagstillögunnar sé í ósamræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar, en allar nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt reglugerðinni komi skýrt fram í tillögunni. Þá hafi tillagan verið kynnt íbúum á svæðinu með greinargóðum hætti allt frá því að vinna við deiliskipulagsbreytinguna hófst. Jafnframt hafi umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir við auglýsta tillögu til breytinga á deiliskipulagi Suðurhlíða verið unnin í samræmi við 1. mgr. gr. 5.7.1. í skipulagsreglugerð.
Byggingar þær sem rísi á lóðinni séu fyrst og fremst ætlaðar nemendum Klettaskóla. Hins vegar sé um mikla fjárfestingu að ræða og til greina komi að nýta húsnæðið að einhverju leyti undir aðra starfsemi. Leitast verði við að nýta sérhæfðar byggingar eins vel og mögulegt er. Til að mynda sé ráðgert að sérhæfð íþróttafélög, svo sem Íþróttafélag fatlaðra, og skyld starfsemi geti nýtt aðstöðuna utan skólatíma, enda samrýmist það fyllilega notkun bygginganna og skipulagi að öðru leyti. Því sé hafnað að ekki hafi verið gerð fullnægjandi könnun á áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar á umferð í hverfinu. Leitað hafi verið óformlegs álits sérfræðinga á samgönguskrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar en ekki hafi verið talin þörf á sérstakri greiningu á áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar á umferð. Samþykkt tillögunnar hafi ekki verið talin hafa í för með sér aukna umferð um hverfið enda legðist af sérhæfður akstur, svo sem akstur með skólabörn á skólatíma í íþróttir og félagsstarf, þegar byggingarnar yrðu fullkláraðar. Þá væri ekki gert ráð fyrir fjölgun nemenda eða starfsfólks. Þrátt fyrir að sérstök íþróttafélög geti nýtt aðstöðuna muni heildarumferð ekki aukast. Þá sé það faglegt mat Reykjavíkurborgar að fyrirhugaður fjöldi bílastæða fyrir lóðina sé nægur.
Heimildarákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæti ekki öðrum takmörkunum en þeim að fara skuli um deiliskipulagsbreytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Þótt það sé meginregla að deiliskipulag sé bindandi og varanleg samþykkt um skipulag tiltekins svæðis hafi löggjafinn heimilað sveitarstjórn að breyta því, enda geti þróun borga og bæja kallað á slíkar breytingar, meðal annars vegna þarfa íbúa sveitarfélagsins. Hafa verði í huga að skóli hafi staðið við Suðurhlíð 9 frá því áður en deiliskipulag fyrir svæðið tók gildi og að í deiliskipulaginu hafi verið til staðar heimild fyrir auknu byggingarmagni á lóðinni sem ekki hafi enn verið nýtt. Í ljósi breyttra aðstæðna og krafna hafi Reykjavíkurborg talið hagkvæmt að færa rekstur annarra þjónustustofnana á umrædda lóð. Auknar byggingarheimildir séu nátengdar starfsemi sem nú þegar sé á lóðinni og raski ekki yfirbragði svæðisins og byggðamynstri.
Varðandi kæru vegna útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis til framkvæmda á lóð Suðurhlíðar 9 sé vísað til þess að deiliskipulagsbreytingin, sem kærendur vísi til, sé í gildi og hafi ekki verið hnekkt. Á meðan svo standi á sé heimilt að veita leyfi til framkvæmda í samræmi við hana. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga geti leyfisveitandi, þegar sérstaklega standi á, veitt skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkist leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. Þau hafi legið fyrir vegna verksins þegar hið umþrætta leyfi var samþykkt, en um sé að ræða stóra, flókna og viðamikla framkvæmd. Alvanalegt sé að veita takmörkuð byggingarleyfi fyrir undirbúningi framkvæmda í slíkum tilvikum. Leyfið eigi sér fullnægjandi lagastoð og sé í samræmi við skipulagsheimildir á svæðinu.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 28. ágúst 2015.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíðar 9, Klettaskóla, og byggingarleyfi til framkvæmda á sömu lóð.
Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærendur máls þessa eru íbúar og eigendur tilgreindra húsa við Beykihlíð, Birkihlíð, Víðihlíð og Reynihlíð. Hverfið er gróið og standa hús kærenda við Reynihlíð í töluverðri fjarlægð frá Suðurhlíð 9 og skilja bæði götur og hús þar á milli. Sömu sögu er að segja um húsin að Beykihlíð nr. 1, 3, 5, 9, 11, 13 og 15. Þau hús standa reyndar nær framkvæmdasvæðinu en gróinn lundur skilur einnig á milli hluta þeirra. Telur nefndin ljóst, þegar miðað er við staðsetningu húsa nefndra kærenda og afstöðu til fyrirhugaðra mannvirkja, að hvorki verði um útsýnisskerðingu að ræða né svo verulegar breytingar á umferð að varðað geti hagsmuni þessara kærenda á þann veg að þeir eigi þá einstaklingsbundnu og lögvörðu hagsmuni tengda gildi umdeildra ákvarðana að skapi þeim kæruaðild skv. áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfum þeirra því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærendur skírskota til þess að fyrirhugaðar breytingar á lóð Suðurhlíðar 9 samræmist ekki aðalskipulagi og vísa máli sínu til stuðnings til umfjöllunar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt var Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 í gildi, en samkvæmt því var Suðurhlíð 9 á svæði fyrir þjónustustofnanir og er lóðin skráð sem viðskipta- og þjónustulóð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Fram kemur í greinargerð aðalskipulagsins að byggingarmagn og nýtingarhlutfall á svæðum fyrir þjónustustofnanir sé ákveðið í deiliskipulagi. Ekki verður annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu þágildandi aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Af gögnum málsins verður ekki séð að fyrirhugaðar byggingar á lóð Suðurhlíðar 9 muni varpa skugga á aðliggjandi lóðir svo nokkru varði. Af skýringaruppdrætti og könnun úrskurðarnefndarinnar á aðstæðum er hins vegar ljóst að byggingarnar munu skerða útsýni frá nágrannalóðum við Beykihlíð og Birkihlíð auk þess sem starfsemi í þeim kann að hafa í för með sér aukningu á umferð utan hefðbundins skólatíma. Þá liggur fyrir að óþægindi geta stafað af lýsingu fyrirhugaðs sundlaugarhúss, að innan sem utan. Á hinn bóginn verður að hafa hugfast að umrædd lóð hefur frá byggingu hverfisins verið ætluð fyrir þjónustu þá sem þar fer fram og að nýting byggingarheimilda að fullu samkvæmt óbreyttu skipulagi hefði einnig haft í för með sér aukin grenndaráhrif miðað við fyrra ástand. Þá var hæð bygginga lækkuð frá því sem í upphafi var auglýst til að koma til móts við athugasemdir íbúa í hverfinu. Að teknu tilliti til framangreinds verður ekki talið að breytingin sé slík að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Kærendur geta hins vegar eftir atvikum leitað bótaréttar úr hendi sveitarfélagsins í samræmi við 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.
Hvorki er í lögum né reglugerðum að finna kröfur um lágmarksfjölda bílastæða að öðru leyti en því að fram kemur í 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að taka skuli mið af ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlaða. Deiliskipulagsbreytingin gerir ráð fyrir þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð Suðurhlíðar 9 og er það í samræmi við kröfur 5. mgr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, með þeim breytingum sem þá höfðu verið gerðar á ákvæðinu. Samkvæmt 3. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð skal tilgreina í deiliskipulagi hámarkshæð á þaki og öðrum byggingarhlutum sem ná upp fyrir vegg, svo sem skorsteinum og tæknirýmum. Í skilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er hámarkshæð þakflata tilgreind en jafnframt tiltekið að loftræsimannvirki og þakgluggar megi ná upp fyrir þá hæð án þess að hámarkshæð þeirra sé tiltekin. Er þessi framsetning ekki í fullu samræmi við framangreint ákvæði skipulagsreglugerðar en þykir þó ekki gefa tilefni til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, enda eru loftræsimannvirki og þakgluggar almennt ekki þeirrar gerðar að um verulega breytingu verði að ræða.
Loks var málsmeðferð í samræmi við skipulagslög. Þannig var hin umdeilda breytingartillaga auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum var svarað, tillagan samþykkt og gildistaka breytingarinnar auglýst í kjölfarið.
Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.
Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar liggur fyrir að samþykkt byggingaráforma átti sér stoð í gildandi deiliskipulagi og telur úrskurðarnefndin að skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 hafi verið fyrir hendi til útgáfu hins kærða takmarkaða byggingarleyfis, enda ljóst að um umfangsmikla framkvæmd er að ræða. Ónæði af framkvæmdunum er tímabundið og hefur ekki áhrif á niðurstöðu um lögmæti leyfisins og þurfa íbúar hverfisins, rétt eins og íbúar í þéttbýli almennt, að sæta því. Með vísan til framangreinds, og þar sem ekki liggur fyrir að neinir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við ákvarðanatökuna, verður gildi leyfisins heldur ekki raskað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá kröfum kærenda við Reynihlíð sem og að Beykihlíð nr. 1, 3, 5, 9, 11, 13 og 15.
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla.
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2015 um að samþykkja umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson