Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2016 Biskupstungnahreppur

Árið 2016, mánudaginn 18. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 21/2016, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 10. desember 2015 á tillögu að breyttu Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2016, er barst nefndinni 17. s.m., kærir K, Einiholti 2, Selfossi, þá ákvörðun Bláskógabyggðar frá 10. desember 2015 að samþykkja tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 21. mars 2016.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012. Í breytingunni fólst að 7 ha svæði milli þjóðvegar og Einiholtslækjar væri skilgreint sem svæði fyrir verslun og þjónustu í stað landbúnaðarsvæðis og efnistökusvæðis. Efnistökusvæði í Einiholti (E10) væri jafnframt fellt burt. Staðfesti Skipulagsstofnun téða breytingu 21 janúar 2016 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 4. febrúar 2016.

Kærandi tekur fram að landeigendur hafi mótmælt fyrirætlunum sveitarfélagins frá því að þær hafi legið fyrir. Öll umferð um svæðið muni aukast til muna með tilheyrandi raski, rykmengun og ónæði auk þess sem vegur og brýr á svæðinu muni ekki þola aukna umferð. Verslunar- og þjónustustarfsemi muni hamla því að hægt sé að auka umsvif þess landbúnaðar sem fyrir sé, en að því stefni landeigendur með auknum fjárfestingum. Umfangsmikil starfsemi sé nú þegar í ferðaþjónustu í Bláskógabyggð og það hljóti að vera markmið aðalskipulags að góð landbúnaðarsvæði verði ekki tekin til afnota sem skerði verulega starfsemi landbúnaðar í kring. Þá sé fjölskrúðugt fuglalíf á svæðinu sem hingað til hafi verið óáreitt og beri að forðast að raska votlendissvæðum eða mikilvægum búsvæðum fugla. Loks hafi markmið skipulagslaga nr. 123/2010 ekki verið höfð að leiðarljósi við hina kærðu aðalskipulagsbreytingu auk þess sem rannsókn málsins eða mati stjórnvalda hafi verið áfátt í þeim efnum.

Af hálfu Bláskógabyggðar er bent á að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra staðfesti ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Skýrt komi fram í umsögn sveitarfélagsins um athugasemdir vegna aðalskipulagsbreytingarinnar að deiliskipulag, sem auglýst hafi verið samhliða henni, sé kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar og hver kærufrestur sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hin umþrætta breyting á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps staðfest af Skipulagsstofnun 21. janúar 2016 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 4. febrúar s.á. Sæta ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að fyrrgreindum lögum að staðfesta ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 52. gr. téðra laga. Af þeim sökum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir