Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

105/2014 Hverfisgata

Árið 2016, fimmtudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. október 2014, er barst nefndinni 3. s.m., kærir félagið Vesturgarðar ehf., eigandi Hverfisgötu 80 og Laugavegar 59, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 4. nóvember 2014.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en 18. október 2006 samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur að breyta deiliskipulagi reits 1.173.0, vegna lóðarinnar að Hverfisgötu 78 í Reykjavík, þannig að heimiluð yrði bygging fimmtu hæðar ofan á framhús lóðarinnar og tveggja hæða ofan á einnar hæðar bakhús. Gert var ráð fyrir því að í viðbyggingunum yrðu átta íbúðir og að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 2,5 í 3,5. Þessi ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem felldi ákvörðun skipulagsráðs úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 10. nóvember 2009, í máli nr. 12/2007. Var vísað til þess að ekki væri um að ræða óverulega skipulagsbreytingu í skilningi 2. mgr. 26. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en á því hafði verið byggt við meðferð málsins.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur 6. desember 2013 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna umræddrar lóðar. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að rífa bakhús og var í stað þess gert ráð fyrir fjögurra hæða húsi á baklóð til þess að hafa hótel eða gistiheimili á lóðinni. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti 18. desember 2013 að auglýsa deiliskipulagstillöguna, og var það samþykkt af borgarráði 9. janúar 2014. Tillagan var auglýst frá 17. s.m. til 28. febrúar s.á. Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2014, var athugasemdum svarað og lagt til að umsótt deiliskipulagsbreyting yrði samþykkt. Nánar sagði um athugasemd kæranda um skuggavarp: „Skuggavarp sýnir að áhrif byggingar á baklóð Hverfisgötu 78 á skuggavarp á lóð Hverfisgötu 80 eru engin fyrir kl. 16. Eftir það hefði byggingin áhrif á skuggavarpið á lóð Hverfisgötu 80. Um jafndægur fellur skuggi nýbyggingar innan skugga af Kjörgarði.“ Jafnframt kom fram í umfjöllun um skuggavarp að skoða yrði tillöguna í ljósi þess að árið 2006 hefði verið samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar Hverfisgötu 78, í hverju sú breyting hefði falist, sem og að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefði fellt þá breytingu úr gildi og á hvaða forsendum sú niðurstaða hefði byggst. Einnig að sú tillaga sem nú væri auglýst gerði ráð fyrir fjögurra hæða nýbyggingu á baklóð og að sjá mætti af gögnum að hún yrði ekki hærri og jafnvel ívið lægri en sú bygging sem samþykkt hefði verið 2006. Hefði tillagan sem nú lægi fyrir minni áhrif en sú sem samþykkt hefði verið 2006 og felld úr gildi vegna formgalla. Breyting á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. apríl 2014, með vísan til fyrrnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa, og var deiliskipulagsbreytingin svo samþykkt á fundi borgarráðs 10. s.m.

Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar, sem tók fram í bréfi sínu til Reykjavíkurborgar, dags. 14. maí 2014, að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til tillögunnar „… fyrr en athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu nr. 80 hafa verið teknar til umfjöllunar að nýju og þeim svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar sem felld hefur verið úr gildi. Aðeins á við að bera saman skuggavarp og áhrif að þessari breytingu og gildandi deiliskipulagi“. Stofnunin taldi jafnframt að nauðsynlegt væri að leita eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál fyrirhugað hótels „… vegna þrengsla og upplýsinga um að kvöð um aðkomu frá Hverfisgötu 80 að baklóðinni virðist ekki hafa gildi“.

Umsögn skipulagsfulltrúa frá 13. mars 2014 var breytt 8. ágúst s.á. og var hún send Skipulagsstofnun sama dag með bréfi. Í bréfinu kom fram að leitað hafi verið umsagnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og að umsögn þess efnis hefði borist, þar sem fram hafi komið að tryggja þyrfti aðkomu að bakhúsinu til að sinna slökkvistörfum. Reykjavíkurborg hefði síðar borist tölvupóstur frá slökkviliðinu þar sem fram kæmi að gerlegt væri að leysa málin innan lóðar og myndi slökkviliðið ekki leggjast gegn því, kysi lóðarhafi að fara þá leið, svo framarlega sem það yrði gert almennilega og í samræmi við reglur. Í breyttri umsögn skipulagsfulltrúa sagði um skuggavarp: „Skuggavarp sýnir að bygging á baklóð Hverfisgötu 78 hefur ekki áhrif á hugsanlega byggingu innan byggingarreits á lóð Hverfisgötu 80 fyrir kl. 16. Eftir kl. 16 mun byggingin varpa skugga á lóð og byggingarreit Hverfisgötu 80.“ Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst 2014 var málið tekið fyrir að nýju og bókað að umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. s.m., væri samþykkt.

Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. ágúst 2014, var tekið fram að stofnunin gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Tók síðan breytingin gildi með auglýsingu þar að lútandi, birtri 4. september 2014.
   
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fari um breytingu á deiliskipulagi líkt og um sé að ræða nýtt deiliskipulag, en þó sé ekki skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. Hafi umrædd breyting því átt að fara eftir ákvæðum 41. og 42. gr. skipulagaslaga. Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. laganna skuli sveitarstjórn taka skipulagstillögu til umfjöllunar og taka afstöðu til þeirra athugasemda sem borist hafi. Þá skuli senda samþykkt deiliskipulag Skipulagsstofnun til meðferðar skv. 1. mgr. 42. gr. nefndra laga. Telji stofnunin form- eða efnisgalla á skipulagi skuli hún tilkynna sveitarstjórn þar um. Sveitarstjórn skuli taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varði athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir um efni deiliskipulags skuli hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess.

Skipulagsfulltrúi hafi unnið umsögn um fram komnar athugasemdir. Skipulagsráð hafi samþykkt deiliskipulagstillöguna á fundi 2. apríl 2014 með vísan til hennar og vísað málinu til borgarráðs, sem samþykkt hafi tillöguna á fundi sínum 10. s.m. Skipulagsstofnun hafi tilkynnt með bréfi, dags. 14. maí 2014, að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar fyrr en athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu 80 hlytu umfjöllun að nýju og þeim væri svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar sem felld hefði verið úr gildi. Stofnunin hafi jafnframt talið nauðsynlegt að leita eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Þessar athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi átt að koma til umræðu í sveitarstjórn, skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, en það hafi ekki verið gert. Þess í stað hafi skipulagsfulltrúi breytt fyrri umsögn sinni og sé sú breyting frá 8. ágúst 2014. Hafi Skipulagsráð samþykkt hina breyttu umsögn 13. s.m. Jafnframt hafi verið leitað afstöðu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál. Málsmeðferðin hafi því ekki verið í samræmi við lög.

Þá liggi fyrir að skipulagsfulltrúi hafi breytt fyrri umsögn um fram komnar athugasemdir, sem áður hafði hlotið lögboðna afgreiðslu sveitarstjórnar með samþykkt borgarráðs 10. apríl 2014. Það sé borgarráð sem hafi vald til fullnaðarafgreiðslu slíkrar tillögu sem hér um ræði, sbr. 48. gr. samþykktar nr. 715/2013 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Þá sé það aðeins á færi borgarráðs að breyta fyrri umsögn og svörum við athugasemdum þótt umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt breytinguna, enda fari það ráð ekki með vald til að afgreiða skipulagstillögur sem sæti auglýsingu, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur frá 18. desember 2012. Þá verði heldur ekki ráðið af málsgögnum að breytt umsögn og svör við athugasemdum hafi verið send þeim sem athugasemdir hafi gert. Hafi málinu verið vísað til Skipulagsstofnunar og gildistaka hinnar kærðu ákvörðunar síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda án frekari umfjöllunar eða atbeina borgarráðs. Hafi þessi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið ólögmæt.

Í umsögn og svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum vegna tillögunar sé látið í veðri vaka að ekki muni þurfa að nota meinta kvöð um umferð um lóð kæranda til aðkomu að baklóð Hverfisgötu 78 og megi að öllum líkindum taka kvöðina af deiliskipulaginu. Breytingin taki hins vegar aðeins til lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu. Enda þótt ekki hafi verið skilyrði til að taka ákvörðun um að afmá kvöðina, sem hluta af hinni umdeildu skipulagstillögu vegna þess að kvöðin væri utan þess svæðis sem breytingin tæki til, hafi skipulagsyfirvöldum verið í lófa lagið að setja í skilmála um hina umdeildu skipulagsbreytingu ákvæði um að aðkoma að baklóð og ráðstafanir vegna eldvarna að Hverfisgötu 78 skyldu vera innan lóðar og taka þannig af öll tvímæli um að meintrar kvaðar væri ekki lengur þörf. Skipulagsyfirvöld hafi ekki sinnt þessu heldur kosið að láta það ráðast af skilningi manna á tölvupóstum slökkviliðs og vangaveltum skipulagsfulltrúa í svörum við athugasemdum hvaða skilmálar væru taldir gilda á umræddu svæði. Sé það augljóslega andstætt þeirri kröfu sem gera verði til skýrleika skipulagsákvarðana að taka ekki upp í skipulagsskilmála ákvæði um jafn þýðingarmikið efni og hér um ræði.

Kærandi, sem eigi byggingarrétt á lóðinni Hverfisgötu 80, telji að aukið byggingarmagn að Hverfisgötu 78 og skuggvarp af hugsanlegum nýbyggingum gangi gegn lögvörðum hagsmunum hans og að ekki hafi verið gætt jafnræðis við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað.

Umrædd deiliskipulagstillaga hafi verið auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkt í borgarráði 10. apríl 2014. Umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa um fram komnar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 2. apríl 2014. Sú málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og venjubundna málsmeðferð.

Skipulagsstofnun hafi farið yfir gögn málsins en ekki getað tekið afstöðu til þess fyrr en athugasemdir lóðarhafa að Hverfisgötu 80 hefðu verið teknar til umfjöllunar að nýju og þeim svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar frá 2006 sem felld hafi verið úr gildi. Einnig hafi Skipulagsstofnun talið rétt að leitað yrði eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál fyrirhugaðs hótels. Í kjölfar ábendinga Skipulagsstofnunar hafi umsögn um athugasemdir og svörum við þeim verið breytt og hún svo send stofnuninni.

Skipulagsráð hafi fjallað um og samþykkt breytta umsögn á fundi sínum 13. ágúst 2014, án þess að það hefði nokkur áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs frá 10. apríl 2014. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. ágúst 2014, hafi ekki verið gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda þar sem breytt umsögn hefði ekki áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs.

Ekki sé hægt að fallast á þau málsrök kæranda að annmarki hafi verið á málsmeðferð hins umþrætta deiliskipulags, þar sem athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi átt að koma til umræðu í sveitarstjórn. Í 2. mgr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð sé heimild fyrir ráðið til fullnaðarafgreiðslu mála skv. skipulagslögum nr. 123/2012, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga, svo sem afgreiðslu skipulagslýsinga, deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa. Ekki sé um tæmandi talningu að ræða og sé litið svo á að umhverfis- og skipulagsráð geti afgreitt athugasemdir Skipulagsstofunnar, enda séu þær ekki þess eðlis að þær kalli á breytingar sem þurfi að auglýsa að nýju. Þá sé sérstaklega bent á að uppfærð umsögn skipulagsfulltrúa og beiðni um umsögn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafi ekki nein áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs. Ætlaður annmarki, telji úrskurðarnefndin hann fyrir hendi, sé svo óverulegur að hann geti ekki með neinu móti leitt til ógildingar hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar. Hann hafi hvorki valdið kæranda réttarspjöllum né breytt niðurstöðu málsins að öðru leyti. Þá hafi fundargerð umhverfis- og skipulagsráð, þar sem afgreiðsla málsins hafi farið fram, verið lögð fram í borgarráð án athugasemda borgarráðs.

Fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2014, að bygging á baklóð Hverfisgötu 78 hafi ekki áhrif á hugsanlega byggingu innan byggingareits á lóð Hverfisgötu 80 og varpi ekki skugga á byggingarreit og lóðina fyrr en eftir kl. 16. Eftir þann tíma varpi byggingin skugga á lóð Hverfisgötu 80 jafnt á sumri sem og á jafndægrum. Það sé því ljóst að breyting á hæð bakbyggingar að Hverfisgötu 78 hafi áhrif á skuggavarp á lóðinni, en ekki meiri en búast megi við á þéttu svæði líkt og í miðbænum.

Samkvæmt deiliskipulagi fyrir reit 1.173.0, birtu í B-deild Stjórnartíðinda 16. nóvember 1999, sé kvöð á lóð Hverfisgötu 80. Ekki sé ljóst af hverju kvöðin hafi verið sett inn á sínum tíma, en líklegast sé það vegna aðgengis að bakhúsi að Laugavegi 59. Deiliskipulagsbreytingin nú nái eingöngu til lóðarinnar Hverfisgötu 78. Allar ráðstafanir vegna eldvarna fyrir hótelið á þeirri lóð verði leystar innan hennar. Loks sé á það bent að kvöðin sé ekki til umfjöllunar í þessari deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu 78:
Lóðarhafi krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi beri fyrir sig að skipulagsyfirvöld hafi ekki sett í skilmála um skipulagsbreytinguna ákvæði um niðurfellingu umferðarkvaðar um lóðina Hverfisgötu 80 til aðkomu að baklóð Hverfisgötu 78 og þá að þessari athugasemd hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt í upphafi. Í endurskoðaðri umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar sé þessari athugasemd svarað. Deiliskipulagstillagan hafi ekki tekið til fyrrgreindrar lóðar kæranda og því þýðingarlaust að ræða skipulagsmál hennar. Athugasemdir kæranda séu byggðar á misskilningi hvað þetta varði.

Fullnægjandi upplýsingum slökkviliðsins hafi verið komið á framfæri við Skipulagsstofnun. Það að samskipti Skipulagsstofnunar, skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi ekki verið borin undir borgarráð geti ekki valdið ógildingu deiliskipulagsins. Það sé síðan hlutverk fulltrúa slökkviliðsins að yfirfara brunahönnun væntanlegrar byggingar og sjá til þess að hún uppfylli öll laga- og reglugerðarákvæði varðandi eldvarnir.

Hafna beri málatilbúnaði kæranda um að aukið byggingarmagn að Hverfisgötu 78 og skuggavarp af nýbyggingum þar gangi gegn lögvörðum hagsmunum kæranda og að ekki hafi verið gætt jafnræðis við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þessi efnisatriði kærunnar séu með öllu órökstudd. Auk þess hafi verið gerð ítarleg grein fyrir skuggavarpi á 18 uppdráttum sem hönnuður hússins hafi unnið við meðferð málsins að beiðni skipulagsyfirvalda borgarinnar.

Ekki hafi verið sýnt fram á að gengið hafi verið á réttindi kæranda eða brotið gegn honum á annan hátt. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri og þeim athugasemdum hafi verið svarað á málefnalegan hátt í samræmi við skipulagslög og önnur lagaákvæði sem stjórnvöld séu bundin af.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar Hverfisgötu 78. Við afgreiðslu málsins var skírskotað til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 13. mars s.á. þar sem athugasemdum kæranda var svarað. Skipulagsstofnun gerði þá athugasemd í bréfi sínu 14. maí s.á. að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu í málinu fyrr en athugasemdum kæranda hefði verið svarað efnislega, án tilvísunar til fyrri deiliskipulagsbreytingar, sem felld hefði verið úr gildi. Svo sem nánar er rakið í málavaxtalýsingu var fyrrgreindri umsögn skipulagsfulltrúa breytt í kjölfarið og hún svo samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst s.á.

Um afgreiðslu deiliskipulags er fjallað í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar kemur fram í 1. mgr. að telji Skipulagsstofnun að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi sem henni sé sent skuli hún koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarstjórn, sem skuli taka þær til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum er tekið fram um nefnt ákvæði að það sé nýmæli að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulags og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Í dæmaskyni er nefnt að slíkar athugasemdir geti lotið að því að athugasemdum á auglýsingartíma hafi ekki verið svarað. Þá er í athugasemdum með VIII. kafla laganna nánar skýrt að með þessari skyldu sveitarstjórnar til viðbragða og nauðsynlegra formbreytinga verði eftirlitshlutverk Skipulagsstofnunar skýrara.

Ljóst er af framangreindu að Skipulagsstofnun gerði athugasemdir um form deiliskipulags í skilningi 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og taldi hún að kæranda hefði ekki verið svarað efnislega með fullnægjandi hætti. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins bar sveitarstjórn að taka þær athugasemdir stofnunarinnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að það hafi komið aftur til kasta sveitarstjórnar eftir samþykkt hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar. Þess í stað voru gerðar breytingar á umsögn skipulagsfulltrúa, m.a. hvað varðaði svör við athugasemdum kæranda, og hún samþykkt að nýju af umhverfis- og skipulagsráði.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þegar ákvörðun hefur verið tekin í skjóli þessa valds verður það stjórnvald sem tók þá ákvörðun eðli máls samkvæmt að standa að breytingum á henni. Í þessu tilviki borgarráð. Breytingar þær, sem gerðar voru á áðurgreindri umsögn skipulagsfulltrúa sem svo var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði, lutu að svörum við framkomnum athugasemdum kæranda, en Skipulagsstofnun hafði m.a. farið fram á að þeim væri svarað efnislega á sjálfstæðan máta. Í því sambandi er rétt að árétta að skv. 3. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga, skal sveitarstjórn taka tillögu að deiliskipulagsbreytingu til umræðu, taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ekki í samræmi við skipulagslög. Þykja greindir annmarkar þess eðlis að ekki verði hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson