Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2014 Háteigsvegur

Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 8. apríl 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi risíbúðar að Háteigsveg 14 í Reykjavík.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. september 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra S, Háteigsvegi 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi risíbúðar að Háteigsvegi 14. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að leyfishafa verði gert að færa til fyrra horfs þær breytingar sem gerðar hafi verið á nefndri íbúð í skjóli hins kærða byggingarleyfis og farið fram á málskostnað vegna reksturs kærumálsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. október 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 17. febrúar 2014 sótti leyfishafi, sem er eigandi íbúðar í rishæð að Háteigsvegi 14, um byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðum innanhússbreytingum á nefndri risíbúð. Fólu þær í sér tilfærslu eldhúss úr norðurenda íbúðarinnar í suðurenda hennar, endurbætur á baðherbergi, ásamt því að útbúið yrði þvottahús. Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. mars 2014. Var afgreiðslu málsins frestað, þar sem samþykki meðeigenda vantaði. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi 8. apríl s.á., það samþykkt og talið samræmast ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010. Ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest í borgaráði 10. s.m. Var byggingarleyfi gefið út 17. júlí 2014. Hinn 23. maí s.á. leituðu kærendur til byggingarfulltrúa með skriflega beiðni um upplýsingar og öll gögn varðandi framkvæmdir í risíbúð hússins. Sú beiðni var undirrituð af lögmanni kærenda og ítrekuð 15. júlí 2014. Byggingarfulltrúi svaraði erindi kærenda með bréfi til lögmanns þeirra, dags. 22. s.m.

Af hálfu kærenda er tekið fram að vegna sumarleyfa hafi lögmanni þeirra ekki orðið kunnugt um svarbréf byggingarfulltrúans, dags. 22. júlí 2014, fyrr en 5. ágúst s.á. Sama dag hafi bréfið ásamt fylgigögnum verið sent með tölupósti til kærenda. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun 5. ágúst 2014. Það sé sú vitneskja sem marki upphaf kærufrestsins. Kæran hafi verið send innan mánaðarfrestsins, eða 4. september s.á. Sú staðreynd að lokað umslag hafi borist lögmannsstofu lögmanns kærenda breyti þar engu. Þá hafi þurft að ítreka bréf, dags. 23. maí 2014, til þess að fá upplýsingar frá byggingarfulltrúa sem borist hafi 15. júlí 2014, en ekkert umboð til handa lögmanni hafi fylgt því bréfi. Kærendur hafi fyrst veitt slíkt umboð 3. september s.á. Möguleg vitneskja lögmannsins eða hvað honum hafi mátt vera kunnugt um breyti engu um kærufrest kærenda, þar sem þeirra vitneskja sé skilyrði þess að kærufrestur byrji að líða. Samkvæmt byggingarleyfi og samþykktum teikningum hafi stigapallur fyrir framan risíbúðina, sem sé hluti af sameign 2. hæðar og risíbúðarinnar, verið skeytt við risíbúðina. Þetta sé hvorki í samræmi við upprunalegar teikningar né gildan eignaskiptasamning frá 11. ágúst 1970. Hefði því þurft að leita samþykkis sameigenda áður en byggingarleyfið hafi verið gefið út. Með byggingarleyfinu hafi votrýmum risíbúðarinnar verið fjölgað í því skyni að koma fyrir stúdíóíbúð. Til að rýma fyrir stúdíóíbúðinni hafi megineldhús íbúðarinnar verið flutt úr norðurenda í suðurenda hennar og skilið eftir pláss sem kallað hafi verið geymsla á samþykktum teikningum, en sé í raun íverurými umræddrar stúdíóíbúðar. Framkvæmdin sé slík meiriháttar breyting að krefjast hefði átt samþykkis kærenda. Að útbúa aukaíbúð í risi til útleigu, með sérinngangi innan úr sameiginlegu stigahúsi, auki mjög umferð fólks um sameign með tilheyrandi óhagræði fyrir kærendur. Með fjölgun votrýma í risi og annarra framkvæmda aukist sömuleiðis skarkali sem berist að ofan niður á milli hæða og valdi kærendum ónæði. Hefði átt að leita eftir samþykki kærenda, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Kærendur hafi beðið um öll gögn málsins hinn 23. maí 2014, en bréfið verið ítrekað 15. júlí s.á. Byggingarfulltrúi hafi svarað bréfinu 22. s.m. Kærendum hafi frá þeim tíma átt að vera fullljóst um efni byggingarleyfisins, en kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 4. september 2014, eða um tveimur vikum eftir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ekki verði séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu. Jafnframt skorti lagaheimild til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin séu fyrir úrskurðarnefndinni og komi krafa kærenda um málskostnað því ekki til álita hjá nefndinni.   

Byggingarleyfishafi krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist  úrskurðarnefndinni 4. september 2014, en hann hafi runnið út í síðasta lagi 23. ágúst s.á. Því beri að vísa málinu frá, sbr.  2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meint sumarfrí lögmanns kæranda geti engu breytt í þeim efnum og verði kærendur að bera hallann af því. Ekki sé unnt að fallast á að meint sumarfrí hafi einhverja þýðingu í þessum efnum, enda væri þá ákvæði laga nr. 130/2011 um kærufrest markleysa því afar auðvelt væri að komast fram hjá því annars skýra ákvæði ef tekið væri tillit til meintra sumarfría eða annarra leyfa kærenda og umboðsmanna þeirra. Fjölmargar athugasemdir í kæru snúi ekki að efni umdeilds byggingarleyfis og séu í öllum meginatriðum rangar. Byggingarleyfið snúi einvörðungu að tilfærslum innan íbúðar leyfishafa og hafi engin áhrif á aðra íbúa í húsinu. Hagnýtingu íbúðarinnar hafi í engu verið breytt heldur sé hún áfram nýtt til íbúðar. Vísun kærenda til 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eigi því ekki rétt á sér. Ekki geti skipt máli í þessu sambandi hvort leyfishafi leigi íbúð sína út eða ekki. Kærendur leigi sjálfir út sína íbúð í töluverðum mæli til erlendra ferðamanna sem dvelji þar til skamms tíma í senn og valdi töluverðu ónæði. Sé það með nokkrum ólíkindum að kærendur sjái sér fært að bera slíka málsástæðu á borð í ljósi þess að þeir sinni slíkri starfsemi sjálfir.

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. þeirra laga að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Er þar tekið fram að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki.
   
Byggingarleyfisumsókn leyfishafa var samþykkt 8. apríl 2014 og munu framkvæmdir hafa byrjað í kjölfar þess. Af því tilefni sendi lögmaður kærenda bréf, dags. 23. maí s.á., fyrir þeirra hönd, þar sem farið var fram á upplýsingar um leyfi vegna framkvæmdanna og óskað eftir gögnum málsins. Erindið var ítrekað með bréfi lögmannsins, dags. 15. júlí 2014, og svaraði byggingarfulltrúi því erindi með bréfi, dags. 22. s.m, þar sem fram kom að byggingarleyfi hefði verið veitt og hvert innihald þess væri. Bréfinu fylgdi byggingarleyfisumsókn leyfishafa og samþykktur aðaluppdráttur. Ekki verður annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að lögmaður kærenda hafi komið fram í umboði kærenda í samskiptum sínum við byggingaryfirvöld í umboði kærenda og verður því upphaf kærufrests miðað við það tímamark er bréf byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2014, barst lögmanninum og hann átti þess kost að kynna sér efni þess og fylgigögn. Samkvæmt tölvupósti lögmannsins til kærenda var þeim kynnt svarbréf byggingarfulltrúa og fylgigögn hinn 5. ágúst 2014, eða innan kærufrests. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar 4. september 2014, eða um hálfum mánuði eftir að kærufresti lauk.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í athugasemdum við 1. tl. nefndrar 28. gr. er tekið fram í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Þó þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Ótvírætt er að leyfishafi í máli þessu á verulegra hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Eins og atvikum máls þessa er háttað þykja ekki forsendur til að taka kærumálið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon