Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2015 Brynjureitur

Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. október 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Klapparstíg 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. október 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. febrúar 2016.

Málsatvik og rök: Hinn 22. apríl 2015 var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að kynna fyrir hagsmunaaðilum tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.0, svonefnds Brynjureits, og kom kærandi á framfæri athugasemdum við þá kynningu. Með breytingartillögunni var stefnt að samræmingu þess hluta skipulagsreitsins sem skipulagður hafði verið á árinu 2003 og 2006 við breytingar þær sem gerðar voru á deiliskipulagi reitsins á árinu 2013. Voru skipulagsskilmálar alls reitsins m.a. endurskoðaðir og samræmdir. Málið var á dagskrá ráðsins hinn 10. júní og 8. júlí s.á. og lá þá fyrir umsögn skipulagsstjóra um framkomnar athugasemdir, sem og lagfærðir uppdrættir. Var ákveðið að auglýsa tillöguna til kynningar. Málinu var í kjölfarið vísað til borgarráðs sem staðfesti þá afgreiðslu hinn 16. júlí 2015. Að lokinni kynningu samþykkti umhverfis- og skipulagsráð hina kynntu tillögu 14. október s.á., með þeim breytingum sem lagðar voru til í fyrirliggjandi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. s.m. Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 22. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2015, að undangenginni umfjöllun Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt.

Kærandi vísar til þess að lóðin Klapparstígur 29 sé 705 m² en ekki 330 m² líkt og hið samþykkta deiliskipulag byggi á. Eignaskiptayfirlýsing sem gerð hafi verið fyrir Klapparstíg 29 á árinu 1991, þar sem lóðinni hafi verið skipt upp í þrjár lóðir, hafi aldrei verið samþykkt lögum samkvæmt af byggingarnefnd en sú nefnd hafi hafnað þeirri skiptingu lóðarinnar 11. júní 1991. Yfirlýsingin geti því ekki verið gild eignarheimild þeirra sem telji sig núverandi eigendur Klapparstígs 29a. Jafnvel þótt Reykjavíkurborg hafi keypt lóðina Klapparstíg 29a árið 1998, sem skilin hafi verið frá lóðinni Klapparstíg 29 með ólögmætum hætti, verði það vart talið jafngilda samþykki borgaryfirvalda fyrir skiptingu lóðarinnar í verki eins og borgaryfirvöld hafi haldið fram. Telji kærendur að lóðaskiptingin á þeim tíma hafi farið í bága við reglur fjöleignarhúsalaga um ráðstöfun sameignar. Umhverfis- og skipulagssvið hafi viðurkennt í bréfi, dags. 7. nóvember 2013, að óvissa ríkti um stærð lóðar og umferð að bakgarði Klapparstígs 29 og veki það furðu að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. október 2015, komi fram að ekki leiki nokkur vafi á að lóðin Klapparstígur 29 sé 330 m². Af þessu verði ekki annað ráðið en að þetta atriði hafi ekki verið kannað með viðeigandi hætti í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt upplýsingum sýslumanns frá 27. september 2013 hafi lóðin Klapparstígur 29 þá verið skráð í bókum embættisins 705 m², en þeirri skráningu hafi hins vegar verið breytt fyrirvaralaust og án tilkynningar til kæranda. Stærð lóðarinnar hafi verið skráð á sama veg í Þjóðskrá hinn 10. júlí 2014.
   
Borgaryfirvöld vísa til þess að lóðin Klapparstígur 29 hafi upphaflega verið 750 m² en eftir sölu 45 m² af lóðinni til lóðarhafa Laugavegar 25 á árinu 1985 hafi lóðin verið skráð 705 m². Í nóvember 2011 hafi lóðinni Klapparstíg 29 verið skipt upp í þrjá hluta. Klapparstígur 29 hafi þá orðið 330 m², baklóðin 308 m² og 67 m² umferðarsvæði. Sé sú skipting í samræmi við þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 1991 í kjölfar þessa að allir eignarhlutar aðalhúss að Klapparstíg 29 hafi verið seldir. Í þeim kaupsamningum hafi komið fram að lóðin Klapparstígur 29 væri 330 m². Með kaupum borgarinnar á baklóðinni og umferðarsvæðinu á árinu 1998 hafi borgaryfirvöld viðurkennt í verki lóðarskiptinguna sem byggt hafi verið á í greindri eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 1991. Hvað sem öðru líði geti kærendur ekki gert tilkall til frekari lóðarréttinda en leiði af heimildarskjölum þeirra. Bent sé á að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 60/2013, uppkveðnum 25. nóvember 2015, hafi því verið slegið föstu að skoðun á þinglýstum gögnum, svo sem afsölum og kaupsamningum um Kapparstíg 29, hefði leitt í ljós að sú lóð væri 330 m² og hafi hin kærða deiliskipulagsbreyting í því máli verið talin í samræmi við þinglýst gögn hvað það varðaði.

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þann rökstuðning til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu eru uppi deildar meiningar um stærð lóðarinnar Klapparstígs 29 og byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé stærð lóðarinnar ranglega tilgreind 330 m².

Hinn 30. maí 2013 samþykkti borgarráð Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi Brynjureits en lóðin Klapparstígur 29 er innan þess skipulagsreits. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní s.á. Í þeirri deiliskipulagsbreytingu fólst m.a. að lóð, sem nefnd var Klapparstígur 29a og var áður hluti baklóðar Klapparstígs 29, var sameinuð lóðunum Hverfisgötu 40-42 og Laugavegi 27a. Kærandi í máli þessu skaut ákvörðun um nefnda deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar, sem kvað upp úrskurð í því máli 25. nóvember 2015. Í forsendum þess úrskurðar kemur m.a. fram að athugun á þinglýstum skjölum, svo sem afsölum og kaupsamningum um Klapparstíg 29, leiði í ljós að lóðin sem fylgi húsinu að Klapparstíg 29 sé 330 m² og sé hin kærða deiliskipulagsbreyting að því leyti í samræmi við þinglýst gögn. Var kröfu um ógildingu greindrar deiliskipulagsbreytingar hafnað. Liggur því fyrir að úrskurðarnefndin hefur í fyrrgreindu máli tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu kæranda sem teflt er fram í máli þessu og lýtur að stærð lóðarinnar Klappastígs 29. Með deiliskipulagsbreytingu þeirri sem um er deilt í máli þessu er stærð og lóðarmörk nefndrar lóðar óbreytt frá fyrri skipulagsbreytingu árið 2013 og hefur þinglýstum skjölum varðandi fasteignina Klapparstíg 29, sem vitnað var til í fyrri úrskurði, ekki verið hnekkt.

Hin kærða skipulagsákvörðun breytir ekki umdeildum lóðarréttindum kæranda frá gildistöku deiliskipulagsbreytingar fyrir umræddan skipulagsreit hinn 18. júní 2013, en í þeirri breytingu var við það miðað að lóðin Klapparstígur 29 væri 330 m². Þá verður og að líta til þess að deiliskipulag getur ekki að lögum falið í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignaréttinda. Skortir af þessum sökum á að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir að skilyrði fyrir kæruaðild.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem það er utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að leiða til lykta ágreining um eignarréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon