Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2016 Golfvöllur Blikastaðanesi

Árið 2016, þriðjudaginn 24. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 43/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Þrastarhöfða 53 í Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem heimilaðar séu í hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndinni barst greinargerð frá Mosfellsbæ 11. maí 2016 í tilefni af framkominni stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Breyting á deiliskipulagi Blikastaðanes frá árinu 2004 vegna golfvallar öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016. Í deiliskipulagsbreytingunni felst í meginatriðum að afmörkuð lóð stækkar og færist ásamt byggingarreit fyrir golfskála frá íbúðarbyggð. Þá er fyrirkomulag bílastæða sýnt og skipulagssvæðið stækkað svo stæðin ásamt vegtengingu verði innan þess. Hefur kærandi skotið þeirri deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 19. apríl 2016 var samþykkt umsókn bæjarins og Golfklúbbs Mosfellsbæjar um leyfi fyrir áður greindum framkvæmdum og skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfi. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af bæjarstjórn 27. s.m. og framkvæmdaleyfið gefið út 28. s.m. Hið kærða leyfi tekur til nauðsynlegra jarðvegsskipta, fyllinga og yfirborðsfrágangs 130 bílastæða og vegar með malarlagi auk annars lokafrágangs s.s. grjóthleðslna og þökulagningar. Umrædd bílastæði eru staðsett vestan við íbúðarhúsalóð kæranda.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að um gríðarlega hagsmuni sé að ræða fyrir hann þar sem staðsetning bílastæða sé samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti rétt um 4,7 m frá lóðarmörkum fasteignar hans. Bílastæði svo þétt upp við nefnd lóðarmörk hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif sem muni valda skerðingu á lífsgæðum. Þá hafi framkvæmdir verið hafnar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins, eða 24. apríl. Samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi sé m.a. skýrlega tekið fram, að ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni, skuli skipulagsfulltrúi stöðva slíka framkvæmd tafarlaust og leita staðfestingar sveitastjórnar.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé fjarlægð bílastæða frá lóðarmörkum kæranda 12,5 m. Felld hafi verið niður níu stæði miðað við upphaflega tillögu deiliskipulagsbreytingar frá árinu 2016 til að koma til móts við kæranda og gæta meðalhófs. Hafi framkvæmdir hafist áður en framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út, hafi það ekki verið með vitund eða samþykki sveitarfélagsins. Fyrir liggi að núverandi framkvæmdir séu hins vegar í samræmi við útgefið leyfi.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi framkvæmdaleyfis vegna bílastæða og vegar með malarlagi. Vinna við umdeilda framkvæmd er þegar hafin og líta verður til þess að ætla má að stöðvun verksins nú muni hafa í för með sér umtalsverða röskun og fjártjón með hliðsjón af þegar gerðum samningum við verktaka. Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturtæka framkvæmd, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu hans um stöðvun framkvæmda enda ber framkvæmdaaðili af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi og verður kröfu kæranda því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

____________________________________
Nanna Magnadóttir