Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

60/2012 Langholtsvegur

Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. mars 2012 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi að Langholtsvegi 87 í Reykjavík og vegna framkvæmda á þeirri lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Langholtsvegi 89, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um veitingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsi að Langholtsvegi 87 o.fl.

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og framkvæmdir á grundvelli þess stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þá er gerð krafa um að skiptasamningur um þrjár íbúðir fyrir nefnda fasteign verði felldur úr gildi, að húskofi og trjágróður á lóðamörkum við fasteign kæranda verði fjarlægður og að girðing og lóð við lóðamörk verði löguð. Er kæra barst í máli þessu mun framkvæmdum við heimilaðar breytingar samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi að mestu hafa verið lokið og var því ekki tilefni til að taka afstöðu til fram kominnar kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júlí 2008 var  samþykkt umsókn um leyfi til að endurbyggja og stækka þakhæð og byggja nýja kvisti á húsið að Langholtsvegi 87, sem stækkaði við það um 5,8 m². Leyfið féll úr gildi þar sem framkvæmdir hófust ekki innan lögboðins frests og var endurnýjun byggingarleyfisins samþykkt hinn 13. mars 2012. Var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 15. s.m. Munu framkvæmdir hafa byrjað í kjölfarið og hafði kærandi sambandi við borgaryfirvöld og gerði athugasemdir við þær.

Í tölvupóstum kæranda í aprílmánuði s.á. kom m.a. fram að hann teldi að um væri að ræða óleyfilega hækkun á húsi, sem valda myndi skugga austan megin á fasteign hans. Kom jafnframt fram að kæranda hefði skilist að byggingarleyfi fyrir hækkun á þaki og kvistum hefði verið gefið út 2008 og endurnýjað 2012. Byggingaryfirvöld könnuðu málið og var kæranda tilkynnt með tölvupósti 4. maí 2012 að um tvö byggingarleyfi væri að ræða, það fyrra frá árinu 2008, en hið síðara, frá 13. mars 2012, væri endurnýjun á því fyrra. Í leyfinu fælist heimild til að endurbyggja þak hússins með meiri styrk og hærra einangrunargildi. Við það hækkaði mænir hússins um 15 cm frá því sem hann væri fyrir og kvistar hækkuðu einnig vegna þessa um 20 cm. Loks sagði að athugun á staðnum hefði sýnt að framkvæmdin væri í samræmi við greind gögn. Kærandi svaraði því til í tölvupósti sama dag að hann gerði ekki frekari athugasemdir vegna hækkunar þaksins og að hann væri sáttur við vinnu embættis byggingarfulltrúa vegna þeirra framkvæmda. Í sama tölvupósti gerði kærandi hins vegar athugasemdir við trjágróður og tréhýsi á lóð framkvæmdaraðila, sem væri á mörkum lóðar kæranda. Með tölvupósti 8. maí 2012 var kæranda svarað á ný og tiltekið að samræmi væri á milli deiliskipulags og byggingarleyfis. Auk þess hefði framkvæmd á byggingarstað sætt athugun að nýju og væri hún í samræmi við nefnt leyfi. Þá hefði fulltrúi embættis byggingarfulltrúa ekki orðið var við neina hluti á eða við lóðamörk, svo sem kærandi hefði nefnt.

Með tölvupósti 8. júní 2012 sendi kærandi athugasemdir að nýju til embættis byggingarfulltrúa. Kom þar m.a. fram að kærandi teldi stækkun kvista brot á skipulagi og að það myndi svipta íbúð sína sól, vestan megin. Þá væri verið að byggja þrjár íbúðir í stað tveggja áður. Jafnframt kom fram að kærandi hefði vegna flutninga ekki komist í að svara fyrr eða kæra. Óskaði kærandi eftir því að málið yrði tekið fyrir formlega á fundi borgarinnar og minntist auk þess á mögulega kæruleið. Kæranda var svarað með tölvupósti 11. s.m. Var þar vísað til fyrri svara embættis byggingarfulltrúa en jafnframt bent á að ákvarðanir í skipulags- og byggingarmálum væru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. lögum nr. 130/2011.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að umdeilt byggingarleyfi heimili stóra viðbyggingu í formi tveggja kvista á húsið að Langholtsvegi 87. Þá sé hækkun á þaki og tveimur kvistum, sem snúi í suður, ólögmæt og með framkvæmdunum sé hagsmunum kæranda verulega raskað með skerðingu sólarljóss og útsýnis. Hið kærða byggingarleyfi eigi hvorki stoð í lögum né deiliskipulagi og hafi  fengist útgefið undir því yfirskini að um væri að ræða lagfæringu á þaki, þótt ljóst sé að um umfangsmikla viðbyggingu sé að ræða. Byggingarfulltrúi hafi vanrækt upplýsinga- og eftirlitsskyldu með því að aðhafast ekkert þrátt fyrir að kærandi hafi leitað aðstoðar embættisins. Kærandi geti ekki sætt sig við fjölgun íbúða úr tveimur í þrjár að Langholtsvegi 87 með skiptasamningi sem sé ólögmætur að hans mati. Veruleg umferð og ólögleg lagning ökutækja við og á lóð kæranda á vegum eigenda Langholtsvegar 87 sé daglegt brauð og muni ágangur aukast með fjölgun íbúða. Á lóðamörkum Langholtsvegar 87 og 89 sé óleyfisbygging sem beri að fjarlægja ásamt trjám og trjárótum, sem skemmi lóð kæranda og skerði útsýni og sólarljós. Þá sé girðing á lóðamörkum að svigna undan trjágróðri og rótum. Kærandi hafi skotið máli þessu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að ljóst hafi orðið að umdeilt byggingarleyfi og skiptasamningur stæðust ekki lög.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að öllum kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en að öðrum kosti hafnað. Kæra í máli þessu hafi borist að liðnum eins mánaðar kærufresti samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ljóst sé af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum kæranda og byggingaryfirvalda að kæranda hafi í síðasta lagi  23. apríl 2012 verið kunnugt um  umdeildar framkvæmdir. Þá hafi kæranda verið tilkynnt í tölvubréfi 8. maí s.á. að athugun byggingaryfirvalda hefði leitt í ljós að fullt samræmi væri milli framkvæmda, uppdrátta og skipulags. Tölvupóstur kæranda til byggingarfulltrúa 8. júní 2012 breyti engu um útreikning kærufrests. Geti kærandi, sem sé löglærður, ekki borið fyrir sig vanþekkingu um kæruleiðir eða kærufresti. Það að byggingarfulltrúi veki athygli á kæruleið hinn 11. s.m. feli ekki í sér afstöðu til kæruheimildar í máli þessu. Í öllu falli hafi kærufrestur í síðasta lagi byrjað að líða 4. maí 2012, þegar umkvörtunum kæranda hafi verið svarað með viðhlítandi hætti. Þeim hluta kæru sem snúi að skiptasamningi, húskofa á lóðamörkum og trjágróðri beri að vísa frá úrskurðarnefndinni enda liggi ekki fyrir kæranlegar ákvarðanir af hálfu borgaryfirvalda er snerti þau atriði.

Um efni máls sé á það bent að samþykkt byggingarfulltrúa í málinu sé í samræmi við mannvirkjalög  nr. 160/2010 og deiliskipulag fyrir Sundin, reit 1.3-1.4, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 10. nóvember 2005. Samkvæmt skipulagsskilmálum sé heimilað 354,7 m² hús með þremur íbúðum á lóðinni nr. 87 við Langholtsveg, með nýtingarhlutfall 0,60. Á samþykktum reyndarteikningum frá árinu 2005 sé tilgreint að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,61 en á uppdráttum frá 2008 sé það talið 0,611. Þetta skýrist af því að húsið sé í raun aðeins stærra en deiliskipulagsuppdrátturinn segi til um, en stundum gæti einhverrar ónákvæmni við útreikninga á nýtingarhlutfalli í deiliskipulagi. Hönnuðir hafi notast við upplýsingar úr fasteignamatsskrá sem oft séu ekki hárnákvæmar. Hafi þetta ósamræmi enga þýðingu í máli þessu enda heimili deiliskipulag að helmingur flatarmáls kjallara sé undanskilinn við útreikning nýtingarhlutfalls, sé hann niðurgrafinn um 80 cm, eins og hér eigi við. Við hina heimiluðu breytingu stækki umrætt hús um 6 m², mænishæð aukist um 15 cm og kvistir á vesturhlið hækki um 20 cm. Af þessu verði ekki séð að heimilaðar framkvæmdir raski með nokkrum hætti hagsmunum kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis vegna endurbyggingar þaks og kvista á húsi að Langholtsvegi 87. Auk þess hefur kærandi gert kröfu um að skiptasamningur fyrir nefnda fasteign verði felldur úr gildi, að húskofi og trjágróður á lóðamörkum við fasteign kæranda verði fjarlægður og að girðing og lóð við lóðamörkin verði löguð. Ágreiningur um efni skiptasamninga heyrir ekki undir úrskurðarnefndina og verður því ekki fjallað frekar um þá kröfu kæranda.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála efir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga er kærufrestur tiltekinn einn mánuður frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun sem kæra á.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu gerði kærandi athugasemdir í apríl 2012 við þá framkvæmd sem hið kærða leyfi heimilar og var af þeim ljóst að hann var ósáttur við framkvæmdina. Kærandi var upplýstur um efni byggingarleyfisins 4. maí s.á. og byrjaði þá kærufrestur að líða. Kæra í málinu barst með símbréfi 8. júní s.á. og var þá kærufrestur liðinn, sbr. nefnda 2. mgr. 4. gr. Kemur þá til skoðunar hvort að afsakanlegt verður talið að kæra hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um þann tölulið segir í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Enn fremur segir að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Í tölvupósti þar sem kærandi var upplýstur um áðurnefnt byggingarleyfi var ekki leiðbeint um kæruleið eða kærufresti. Kærandi svaraði hins vegar sama dag og tók þar fram að hann gerði ekki athugasemdir við þær framkvæmdir sem heimilaðar voru með hinu kærða leyfi. Þrátt fyrir að kærandi hefði á fyrri stigum lýst óánægju sinni með framkvæmdina verður að líta svo á að ekki hafi verið tilefni fyrir sveitarfélagið að svo stöddu til að veita leiðbeiningar um kæruheimild eða fresti vegna þeirrar ákvörðunar. Benti enda ekkert til annars en að um hana ríkti sátt. Þá skal á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki. Byggingarleyfishafi hefur eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður sá þáttur málsins er lýtur að fyrrgreindu byggingarleyfi ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Eins og greinir í málavaxtalýsingu gerði kærandi með tölvupósti sínum 4. maí 2012 athugasemdir við trjágróður og tréhýsi á lóð framkvæmdaraðila og fór m.a. fram á „að byggingafulltrúi hlutist til um að skora á eiganda Langholtsvegar 87, vegna ólögmætrar byggingu á lóðarmörkum 87 89“. Hann fékk þau svör með tölvupósti 8. s.m. að fulltrúi embættis byggingarfulltrúa hefði ekki orðið var við neina þá hluti á eða við lóðamörk sem kærandi hefði nefnt og hugsanlega væru án byggingarleyfis. Jafnvel þótt að litið verði svo á að kærandi hafi með framangreindum tölvupósti sett fram þá kröfu að byggingarfulltrúi beitti þvingunarúrræðum þeim sem honum eru tiltæk samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki verður ekki séð að hann hafi tekið lokaákvörðun þess efnis að þeim yrði ekki beitt, enda báru  framangreind samskipti þess merki að um upplýsingagjöf væri að ræða um þá vettvangskönnun sem fram hefði farið á vegum embættis byggingarfulltrúans. Þar sem ekki var um að ræða neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, verður einnig að vísa kæru málsins frá hvað þetta varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon