Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/2016 Markavegur

Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 38/2016, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis um að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóðinni nr. 1 við Markaveg í Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. apríl 2016, er barst nefndinni 14. s.m., kæra lóðarhafar Markavegar 1, Kópavogi, drátt á afgreiðslu erindis kærenda frá 1. ágúst 2014 um að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóðinni nr. 1 við Markaveg í Kópavogi. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að taka fyrrgreint erindi kærenda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 4. maí 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2008 fengu kærendur úthlutað hesthúsalóð að Markavegi 1, á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir Kjóavelli, hesthúsahverfi. Með bréfi kærenda til bæjarstjóra Kópavogs, dags. 1. ágúst 2014, var farið fram á að Kópavogsbær fjarlægði rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóð kærenda. Gerð var krafa um að sveitarfélagið yrði við nefndum kröfum eigi síðar en 19. september s.á., ella yrði litið svo á að það hefði synjað erindinu. Sveitarfélagið varð ekki við nefndum kröfum og skutu kærendur þá málinu til úrskurðarnefndarinnar sem kvað upp úrskurð 30. mars 2016 í máli nr. 112/2014. Vísaði úrskurðarnefndin málinu frá þar sem ekki lægi fyrir í því lokaákvörðun sem kæranleg væri til nefndarinnar. Nefndin tók hins vegar fram að erindi kærenda væri enn óafgreitt.

Kærendur taka fram að enn hafi ekki verið tekin nein ákvörðun vegna erindis kærenda frá 1. ágúst 2014 og sé því enn ósvarað um 20 mánuðum síðar. Ekki verði séð að í erindi kærenda felist neitt sem réttlæti þann langa tíma sem tekið hafi Kópavogsbæ að bregðast við. Sé ekki að sjá að upplýsingaöflun í málinu hafi verið tímafrek eða erfið viðureignar, enda ekki um umfangsmikið mál að ræða. Auk þess ættu gögn málsins að vera Kópavogsbæ aðgengileg. Aftur á móti sé um mikla hagsmuni að ræða fyrir kærendur sem geti ekki hagnýtt lóð sína til fulls. Hafi Kópavogsbær brotið gegn 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk hinnar óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða. Þá hafi Kópavogsbær aldrei tilkynnt kærendum um tafir á afgreiðslu málsins, en slíkt hefði bænum borið að gera að eigin frumkvæði. Hafi þannig einnig verið brotið gegn 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé umræddur rafmagnskassi staðsettur á lóð kærenda. Hjá sveitarfélaginu sé nú til meðferðar deiliskipulagsbreyting fyrir lóðir nr. 1-9 við Markaveg. Frestur til að skila inn athugasemdum sé til og með 20. maí 2016. Með umræddri breytingu muni rafmagnskassinn, lagnir og háspennustrengir standa utan lóðarmarka Markavegar 1. Sé því að vænta ákvörðunar sem muni hafa áhrif á erindi kærenda og líti sveitarfélagið því svo á að erindið sé í vinnslu.

Niðurstaða: Með bréfi, dags. 1. ágúst 2014, beindu kærendur þeim kröfum til Kópavogsbæjar að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóð þeirra að Markavegi 1. Ekki hefur verið tekin ákvörðun þar um af hálfu Kópavogsbæjar, en samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins er nú til meðferðar tillaga að deiliskipulagsbreytingu fyrir lóðir nr. 1-9 við Markaveg. Mun breytingin fela í sér að hlutir þeir sem kærendur hafa krafist að verði fjarlægðir muni standa utan lóðar kærenda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist verulega úr hófi fram, enda langt liðið á annað ár frá því að kærendur settu fram kröfur sínar gagnvart sveitarfélaginu. Hins vegar er til þess að líta að til meðferðar er tillaga að deiliskipulagsbreytingu sem m.a. lýtur að lóð kærenda. Gefur það tilefni til að ætla að málinu verði lokið án tafa að þeim tíma liðnum sem ákveðinn er í skipulagslögum nr. 123/2010 til meðferðar slíkra skipulagsbreytinga. Með hliðsjón af því að málið er nú í vinnslu og að niðurstöðu er að vænta í því er ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um það á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Dragist hins vegar meðferð nefndrar deiliskipulagsbreytingartillögu, og þar með afgreiðsla erindis kærenda, úr hófi miðað við það sem skipulagslög kveða á um er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir