Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er sjálfstæða stjórnsýslunefnd. Hlutverk hennar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Á það er lögð áhersla að kveða upp vandaða úrskurði eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, svo sem mælt er fyrir um í lögum um nefndina nr. 130/2011. Sé mál viðamikið skal nefndin kveða upp úrskurð innan sex mánaða frá sama tímamarki.
Á árinu 2023 afgreiddi úrskurðarnefndin 174 mál og þar af lauk 130 málum með efnisúrskurði, 33 með frávísunarúrskurði, 4 með framsendingu og 7 með því að kærandi afturkallaði kæru sína.
Úrskurðarnefndin kvað upp 170 úrskurði á árinu, en í sumum tilvikum eru nokkur kærumál sameinuð í eitt og kveðinn upp einn úrskurður fyrir þau öll. Þá getur í úrskurði einnig verið tekið á kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða og er í slíkum úrskurði því ekki að finna endanlega niðurstöðu.
Meðalafgreiðslutími lokinna kærumála hjá úrskurðarnefndinni var 2,7 mánuðir en sé einvörðungu litið til þeirra mála sem lauk með úrskurði var meðalafgreiðslutími 2,9 mánuðir.
Efni þeirra kærumála sem afgreidd voru á árinu skiptist með eftirfarandi hætti:
Deiliskipulag | 43 |
Byggingarleyfi | 31 |
Þvingunarúrræði | 23 |
Framkvæmdaleyfi | 17 |
Starfsleyfi | 10 |
Virkjunarleyfi | 10 |
Matsskylduákvörðun | 8 |
Rekstrarleyfi | 4 |
Framkvæmdir í og við veiðivötn | 3 |
Nýtingarleyfi | 3 |
Skipulagsgjald | 3 |
Þjónustugjald | 3 |
Sölubann | 1 |
Önnur byggingarmál | 13 |
Önnur skipulagsmál | 2 |
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar á grundvelli samnefndra laga nr. 130/2011 og er sjálfstæð í störfum sínum. Hlutverk hennar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Í starfsemi nefndarinnar er lögð áhersla á að kveða upp vandaða úrskurði innan lögbundinna fresta, en lögum samkvæmt skal nefndin kveða upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi. Sé mál viðamikið skal nefndin kveða upp úrskurð innan sex mánaða frá sama tímamarki.
Á árinu 2022 afgreiddi úrskurðarnefndin 145 mál og þar af lauk 102 málum með efnisúrskurði, 29 með frávísunarúrskurði, 4 með framsendingu og 10 með því að kærandi afturkallaði kæru sína.
Úrskurðarnefndin kvað upp 131 úrskurð á árinu, en í sumum tilvikum eru nokkur kærumál sameinuð í eitt og kveðinn upp einn úrskurður fyrir þau öll. Þá getur í úrskurði einnig verið tekið á kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða og er í slíkum úrskurði því ekki að finna endanlega niðurstöðu.
Meðalafgreiðslutími lokinna kærumála hjá úrskurðarnefndinni var 3,4 mánuðir en sé einvörðungu litið til þeirra mála sem lauk með úrskurði var meðalafgreiðslutími 3,6 mánuðir.
Efni þeirra kærumála sem afgreidd voru á árinu skiptist með eftirfarandi hætti:
Byggingarleyfi | 47 |
Deiliskipulag | 34 |
Dráttur á afgreiðslu máls | 9 |
Framkvæmdaleyfi | 8 |
Matsskylduákvörðun | 4 |
Rekstrarleyfi | 4 |
Starfsleyfi | 13 |
Þjónustugjald | 6 |
Þvingunarúrræði | 9 |
Önnur byggingarmál | 7 |
Önnur skipulagsmál | 4 |
Samtals | 145 |
Á öðrum ársfjórðungi 2022 barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 40 kærur. Á sama tíma voru 39 kærumálum lokið og 27 úrskurðir kveðnir upp, þar af 21 efnisúrskurður. Í lok ársfjórðungsins voru 43 óafgreidd mál en þau voru 48 í upphafi ársins. Meðalafgreiðslutími lokinna kærumála var 3,9 mánuðir.
Samtals hafa 66 kærur borist úrskurðarnefndinni á fyrri helmingi ársins en 71 kærumáli hefur á sama tíma verið lokið.
Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er nefndinni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi.
Í upphafi ársins 2022 voru 48 kærumálum ólokið en 44 í upphafi árs 2021. Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 bárust úrskurðarnefndinni 26 kærumál en 32 málum var lokið á sama tíma. Á sama tímabili í fyrra bárust 41 kærumál en 37 málum var lokið. Á fyrsta ársfjórðungi 2022 voru haldnir 14 nefndarfundir og kveðnir upp 33 úrskurðir og voru óafgreidd kærumál í lok tímabilsins 42 talsins. Meðalafgreiðslutími lokinna kærumála á fyrsta ársfjórðungi 2022 var 3,8 mánuðir.
Fjarvistir starfsmanna stofnunarinnar sökum veikinda höfðu talsverð áhrif á starfsemi úrskurðarnefndarinnar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs auk þess sem starfandi lögfræðingum fækkaði um einn um síðastliðin áramót. Vegna mikils fjölda kærumála sem bárust nefndinni um miðbik síðasta árs var fyrirséð að afgreiðslutími mála myndi lengjast á lokamánuðum síðasta árs og fyrstu mánuðum þessa árs enda reyndist meðalafgreiðslutími lokinna kærumála fjórða ársfjórðungs ársins 2021 vera 3,4 mánuðir.
Lögbundinn málsmeðferðartími kærumála hjá úrskurðarnefndinni er jafnan allt að þrír mánuðir frá því að málsgögn berast frá stjórnvaldi en sex mánuðir frá sama tímamarki í viðameiri málum.
Á árinu 2021 bárust úrskurðarnefndinni 184 kærumál sem er meira en fjórðungs aukning miðað við árið 2020. Aldrei hafa fleiri kærumál borist úrskurðarnefndinni á einu ári en fyrra met er frá árinu 2016 þegar nefndinni bárust 175 kærumál. Á árinu 2021 var lokið 180 kærumálum og kveðnir voru upp 175 úrskurðir. Jafnmörgum kærumálum var lokið árið 2020 en með 151 úrskurði. Í lok ársins 2021 voru hjá nefndinni 48 óafgreidd mál, eða einungis fjórum fleiri en við upphafi ársins þótt borist hafi 43 fleiri mál en á árinu 2020.
Haldnir voru 97 nefndarfundir árið 2021 og 24 þeirra sat fullskipuð nefnd, en lögum samkvæmt sitja fimm nefndarmenn í þeim málum sem eru viðamikil eða fordæmisgefandi. Á þessum 24 fundum voru kveðnir upp úrskurðir í átta kærumálum. Því fóru rúm 25% funda nefndarinnar á árinu í að afgreiða ríflega 4% þeirra kærumála sem afgreidd voru. Mun þyngri og viðameiri mál voru því til meðferðar hjá nefndinni þetta ár en áður og má nefna til samanburðar að haldnir voru 79 nefndarfundir árið 2020, þar af 13 með fullskipaðri nefnd. Viðamest árið 2021 voru kærumál vegna fiskeldis í Reyðarfirði (mál nr. 107, 111 og 119/2020) og kærumál vegna Suðurnesjalínu 2 (mál nr. 41, 46, 53 og 57/2021). Voru haldnir níu fundir fullskipaðrar nefndar vegna fiskeldismálanna en 14 slíkir vegna Suðurnesjalínu 2.
Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þremur mánuðum, eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum, og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 13 málum af þeim 48 sem eru óafgreidd og eru því 35 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni.
Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 3 mánuðir síðastliðna sex mánuði (2,3 mánuðir á sex mánaða tímabilinu sem lauk 30. september 2021) og meðaltal ársins 2021 var 2,7 mánuðir. Meðalafgreiðslutími mála fyrir úrskurðarnefndinni er því undir lögbundnum málsmeðferðartíma viðaminni mála. Einungis einu máli (kærumáli nr. 119/2020) var ekki lokið innan lögbundins afgreiðslutíma, en ástæður þess vörðuðu ekki úrskurðarnefndina heldur var því frestað á meðan fjallað var um atriði því tengdu hjá öðru stjórnvaldi.
Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.
Forstöðumaður og formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, Nanna Magnadóttir, hefur verið skipaður héraðsdómari frá 3. janúar 2022. Hún hefur fengið lausn frá núverandi embætti frá sama tíma.
Nanna var skipuð forstöðumaður og formaður úrskurðarnefndarinnar frá 1. janúar 2014 og hefur því gegnt starfinu í átta ár. Á þeim tíma hefur úrskurðarnefndinni með samstilltu átaki tekist að snúa við neikvæðri þróun málshraða og er hann nú innan lögboðinna tímamarka. Samhliða hefur fjöldi kærumála aukist, auk þess sem viðameiri mál eru nú fyrirferðarmikil í störfum nefndarinnar. Við þökkum Nönnu samstarfið og óskum henni farsældar í nýju embætti.
Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndarinnar, er staðgengill forstöðumanns lögum samkvæmt, og mun sinna því starfi þar til nýr forstöðumaður verður skipaður. Ómar hefur starfað hjá nefndinni, áður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, frá árinu 2002.
Nýlegar athugasemdir