Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

85/2008 Heiðarbær

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2008, kæra á synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá
3. júní 2008 vegna umsóknar um leyfi til endurbóta á bátalægi við sumarbústað nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. ágúst 2008, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Sigurmar K. Albertsson hrl., f.h. P, leigutaka sumarhúsalóðar nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit, Bláskógabyggð, synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. júní 2008 á umsókn um leyfi til endurbóta á bátalægi. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Málavextir: Forsaga þessa máls er sú að árið 2004 stöðvaði skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu framkvæmdir við gerð bátalægis við vatnsbakka Þingvallavatns við sumarhúsalóð kæranda nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit þar sem þær væru leyfisskyldar og ekki hefði verið veitt leyfi fyrir þeim. Í kjölfar þess var óskað eftir leyfi til endurbóta á bátalæginu en þeirri beiðni var hafnað með ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 1. júní s.á. Kærandi máls þessa kærði synjunina til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem og þá ákvörðun sveitarstjórnar að leggja fyrir kæranda að afmá á eigin kostnað jarðrask sem unnið hefði verið við framkvæmdirnar. Með úrskurði í máli nr. 39/2005, uppkveðnum hinn 6. október 2006, felldi úrskurðarnefndin ákvarðanirnar úr gildi.

Með bréfi til skipulagsfulltrúa, dags. 12. júlí 2007, óskaði lögmaður kæranda upplýsinga um fyrirliggjandi umsókn kæranda, dags. 25. maí 2004, í kjölfar fyrrnefnds úrskurðar úrskurðarnefndarinnar. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 23. ágúst 2007, þar sem m.a. kom fram að það væri mat nefndarinnar að framkvæmdirnar væru ekki smávægilegar, enda hefðu þær haft umtalsvert jarðrask í för með sér á bakka Þingvallavatns. Af myndum af bátalægjum umhverfis vatnið, sem hafi fylgt umsókninni, mætti sjá að í velflestum tilvikum væri land að bátalægjum ekki eins bratt og raunin væri á lóð umsækjanda og rask því töluvert minna. Á lóð umsækjanda væri ekki eingöngu um að ræða gerð lítils varnargarðs út í vatnið, heldur hefði orðið umtalsverð röskun á bakka þess, m.a. virtist hafa verið grafið úr honum til að fá efni í varnargarðinn. Því væru ekki fordæmi fyrir sambærilegri framkvæmd innan sveitarfélagsins. Þá mætti einnig benda á að breyttar forsendur væru fyrir hendi, sem m.a. kæmu fram í ákvæðum nýrra laga og reglugerða varðandi framkvæmdir almennt og á ákveðnum svæðum. Ekki væri sjálfgefið að það sem áður hefði verið látið óáreitt væri heimilt í dag með vísan til jafnræðis. Umrædd framkvæmd væri framkvæmdaleyfisskyld en afgreiðslu væri frestað þar til umsögn Umhverfisstofnunar lægi fyrir þar sem framkvæmdin væri innan svæðis á náttúruminjaskrá og einnig með hliðsjón af 9. gr. reglugerðar nr. 650/2006. Var lögmanni kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins fyrir skipulagsnefnd með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 27. ágúst 2007.

Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 12. mars 2008, segir m.a. að Þingvallavatn, ásamt eyjum og strandlengju umhverfis vatnið, sé á náttúruminjaskrá og sé því fyrirhugað bátalægi innan náttúruverndarsvæðis. Bátalægið sé jafnframt staðsett innan verndarsvæðis Þingvallavatns, sbr. lög nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Því sé mikilvægt, verði framkvæmdir leyfðar við ný bátalægi við Þingvallavatn, að valdir verðir til þess staðir sem að vel athuguðu máli séu taldir best henta til slíkrar uppbyggingar út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Umhverfisstofnun hafi á sínum tíma skoðað ummerki á staðnum og talið að um náttúruspjöll væri að ræða. Að beiðni sveitarfélagsins hafi stofnunin lagt fram tillögur um það hvernig ganga mætti frá svæðinu og lagfæra rask, sbr. bréf Umhverfisstofnunar frá 18. ágúst 2004. Umhverfisstofnun telji að fyrirhuguð staðsetning bátalægis henti ekki en vatnsbakkinn þar sé fremur brattur og vel gróinn, m.a. birkikjarri. Allar framkvæmdir muni hafa verulegt rask í för með sér og valda neikvæðum sjónrænum áhrifum. Umhverfisstofnun telji að lagfæra eigi allt rask og finna bátalægi annan stað, sé á annað borð talið nauðsynlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir. Stofnunin telji einnig mikilvægt að fylgt verði þeirri stefnu í Aðalskipulagi Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016, að stök bátaskýli verði ekki heimil við vatnsbakkann.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 23. maí 2008, þar sem umsókn kæranda var til meðferðar, var m.a. vísað í bókun skipulagsnefndar frá 23. ágúst 2007 og fyrrgreinda umsögn Umhverfisstofnunar. Auk þess var bent á að í ákvæði hverfisverndar gildandi aðalskipulags væri sett bann við mannvirkjagerð og jarðraski á ósnortnum svæðum við vatnsbakkann. Þess var jafnframt getið að nýlega hefði skipulagsnefnd hafnað ósk lóðarhafa í landi Heiðarbæjar um gerð bátalægis þar sem í því hefði falist töluvert rask á landi við vatnsbakkann. Skipulagsnefndin hafnaði umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi. Var honum og gert, með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að lagfæra allt jarðrask sem orðið hefði á vatnsbakkanum vegna framkvæmdanna. Áður en vinna við lagfæringar myndi hefjast skyldi lóðarhafi skila inn tillögu um hvernig gengið yrði frá landinu. Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 26. maí 2008, var lögmanni kæranda kynnt afgreiðsla skipulagsnefndar, sem síðan var samþykkt án athugasemda á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 3. júní 2008. Skaut kærandi ákvörðuninni um synjun framkvæmdaleyfis til úrskurðarnefndarinnar, eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt varðandi kærufrest að ákvörðun sveitarstjórnar hinn 3. júní 2008 hafi hvorki verið birt kæranda né lögmanni hans. Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 26. maí 2008, hafi lögmanni kæranda verið tilkynnt um afgreiðslu nefndarinnar, en ekki hafi verið getið fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar. Engar frekari upplýsingar hafi borist frá sveitarfélaginu vegna umsóknarinnar. Hafi kæranda ekki verið kunnugt um ákvörðunina fyrr en 22. ágúst 2008 er samband hafi verið haft við skipulagsfulltrúa til að kanna hvar málið væri statt. Því verði að telja að kæran hafi borist innan kærufrests, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Allt að einu ætti undantekningarregla 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við um tilvikið, en ljóst sé að þær undantekningar sem þar komi fram eigi við þó að kæra hafi borist að liðnum kærufresti samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.

Um sama stjórnsýslumál sé að ræða og hafi hafist árið 2004 enda hafi málsmeðferðin og það sem úrskeiðis hafi farið verið á ábyrgð sveitarfélagsins. Kærandi geri því athugasemdir við tilvísun til reglugerðar nr. 650/2006, um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns, sem hafi tekið gildi 27. júlí 2006 og sæki heimild sína til laga nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, sem hafi tekið gildi 9. júní 2005. Þar að auki geri kærandi athugasemdir við að ákvörðunin sé byggð á aðalskipulagi 2004-2016 sem ekki hafi tekið gildi fyrr en í ársbyrjun 2005. Sveitarfélaginu sé ekki heimilt að byggja synjun sína í máli kæranda á framangreindum heimildum eða öðrum réttarheimildum sem settar séu eftir að umsókn kæranda hafi verið lögð fram.

Kærandi telji sig hafa verið að sækja um byggingarleyfi þar sem um sé að ræða mannvirki í skilningi IV. kafla skipulags- og byggingarlaga, en rök hans fyrir leyfisveitingunni hafi miðast við það. Framkvæmdaleyfi geti eðli málsins samkvæmt ekki náð til gerðar bátalægis heldur í mesta lagi til meiri háttar rasks. Bendi fyrri málsmeðferð sveitarstjórnar til þess að um slíka umsókn hafi verið að ræða. Að mati kæranda hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar ekki enn afgreitt umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi því að sama skapi ekki synjað honum um slíkt leyfi.

Sveitarstjórnin hafi með ákvörðun sinni hinn 3. júní 2008 brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga. Skipulagsyfirvöld sveitarfélags verði að leiðbeina aðila við meðferð máls í samræmi við 7. gr. laganna og rannsaka mál á viðhlítandi hátt áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. 10. gr. laganna. Þá beri að virða andmælarétt aðila, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Kæranda hafi ekki verið gefinn fullnægjandi eða raunhæfur kostur á að gæta lögbundins andmælaréttar síns áður en ákvörðun hafi verið tekin, sérstaklega eftir að umsögn Umhverfisstofnunar hafi legið fyrir, sem hafi verið kæranda í óhag og haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þá hafi kæranda ekki verið leiðbeint um kærurétt eða kærufrest, sbr. 20. gr. framangreindra laga.

Leitað hafi verið umsagnar Umhverfisstofnunar með vísan til þess að framkvæmdin væri innan svæðis sem sé á náttúruminjaskrá og einnig með vísan til 9. gr. reglugerðar nr. 650/2006. Ekki hafi verið vísað til sérstaks ákvæðis í náttúruverndarlögum. Annaðhvort hljóti að vera um að ræða h-lið 2. mgr. 6. gr. laganna, þar sem fram komi að eitt af mörgum hlutverkum stofnunarinnar sé álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar, eða 37. gr. sömu laga, sem varði sérstaka vernd. Ljóst sé að ákv. 38. gr. laganna eigi ekki við samkvæmt orðalagi sínu og ekki heldur fyrrnefnd lagaákvæði. Í fyrsta lagi sé ekki um meiri háttar framkvæmd að ræða í skilningi náttúruverndarlaga og ekkert komi fram í umsögninni sem bendi til þess. Ekki sé nægjanlegt að allar framkvæmdir muni hafa „verulegt“ rask í för með sér og valda neikvæðum sjónrænum áhrifum. Í öðru lagi sé ljóst að framkvæmdin falli ekki undir 37. gr. laganna, þar sem gert sé að skilyrði að um sé að ræða framkvæmdir sem hafi í för með sér röskun jarðmyndana og vistkerfa samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins, en ekkert sem þar sé talið upp eigi við um mál kæranda.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 650/2006 skuli bæði leita umsagnar Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefndar Suðurlands áður en leyfi sé veitt til framkvæmda á verndarsvæðinu. Fyrir liggi að kæranda hafi ekki verið veitt leyfi og því hafi ekki verið nauðsynlegt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar á þessum grundvelli. Ef ætlunin hafi verið að byggja á þessu ákvæði reglugerðarinnar geri kærandi athugasemdir við að ekki hafi verið aflað umsagnar heilbrigðisnefndarinnar. Samkvæmt sömu grein eigi umsögn Umhverfisstofnunar að varða verndun vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns. Í umsögninni sem byggt sé á í hinni kærðu ákvörðun hafi hins vegar í engu verið fjallað um verndun vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns. Sé umsögnin því haldin annmarka að þessu leyti. Þar sem beinlínis sé byggt á henni við ákvarðanatökuna sé ljóst að þessi annmarki sé verulegur.

Verði ekki séð að það jarðrask sem framkvæmdin hafi haft í för með sér, og muni hafa í för með sér, á bakka Þingvallavatns falli undir ákvæði 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Orðasambandið „meiri háttar“ hljóti eðli málsins samkvæmt að vísa til framkvæmdar sem sé að minnsta kosti mjög umfangsmikil. Ekki verði séð á afgreiðslu skipulagsnefndar, sem staðfest hafi verið í sveitarstjórn, að um sé að ræða „meiri háttar“ framkvæmd. Í afgreiðslunni komi fram að Umhverfisstofnun líti svo á að allar framkvæmdir muni hafa „verulegt“ rask í för með sér og valda neikvæðum sjónrænum áhrifum, en skipulagsnefnd hafi litið svo á að framkvæmdin hafi haft „umtalsvert“ jarðrask í för með sér á bakka vatnsins. Ekki sé hægt að draga þá ályktun af þessu að um sé að ræða meiri háttar framkvæmd samkvæmt framangreindu ákvæði.

Dregið sé í efa að ákvörðun sveitarfélagsins sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum með vísan til þess að bátalægi séu við nær alla sumarbústaði á bakka Þingvallavatns. Þar sé í flestum tilfellum um að ræða mun meiri mannvirki en ætlunin hafi verið.

Málsrök Bláskógabyggðar: Bláskógabyggð krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað.

Kæran sem hafi borist úrskurðarnefndinni 25. ágúst 2008 sé of seint fram komin. Með bréfi, dags. 26. maí 2008, hafi lögmanni kæranda verið tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar og hafi honum mátt vera fullljóst að sveitarstjórn þyrfti að staðfesta afgreiðslu nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 9.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og að það yrði gert á næsta fundi sveitarstjórnar. Ekkert í gögnum málsins hafi gefið kæranda tilefni til að ætla annað en að sveitarstjórn myndi staðfesta afgreiðslu skipulagsnefndar. Beri úrskurðarnefndinni því að vísa kærunni frá á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem kærandi njóti lögfræðiaðstoðar séu ekki efni til að beita undantekningarheimild 1. eða 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. fyrri fordæmi úrskurðarnefndarinnar.

Þegar framkvæmdir kæranda við vatnsbakka Þingvallavatns hafi verið stöðvaðar hafi verið ruddur slóði niður að vatninu og tveir „hafnargarðar“ verið gerðir úr stórgrýti út í vatnið með vélgröfu. Glögglega megi sjá af myndum að um gríðarmikið rask hafi verið að ræða og að kærandi hafi tekið efni úr vatnsbakkanum til að nota í varnargarðinn. Í ljósi þeirra framkvæmda kæranda á skilgreindu náttúruverndarsvæði, allra staðhátta og þeirrar sérstöku verndar sem umrætt svæði njóti samkvæmt lögum nr. 85/2005 hafi framkvæmdir hans verið taldar meiri háttar skv. 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þær hafi haft augljós og sýnileg áhrif á umhverfið og breytt ásýnd þess verulega. Ljóst megi vera að mikil ummerki séu eftir hinar ólögmætu framkvæmdir og að umtalsvert jarðrask hafi átt sér stað sem hafi breytt verulega ásýnd vatnsbakkans og landsins.

Þingvallavatn ásamt eyjum og strandlengju umhverfis vatnið sé á náttúruminjaskrá, sbr. 67. og 68. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, og njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. sömu laga. Framkvæmdir kæranda hafi því m.a. falið í sér efnistöku innan svæðis sem skilgreint sé sem náttúruverndarsvæði. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga sé öll efnistaka á landi háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar í samræmi við náttúruverndarlög. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. náttúruverndarlaga sé öll efnistaka háð framkvæmdaleyfi en eiganda eða umráðamanni eignarlands sé þó heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða jarðmyndanir og vistkerfi sem njóti verndar skv. 37. gr. laganna. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga njóti Þingvallavatn sérstakrar verndar og sé því hvers konar efnistaka óheimil nema að fengnu framkvæmdaleyfi. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að framkvæmdir kæranda, sem og efnistaka hans, hafi haft veruleg áhrif og raskað umtalsvert svæði sem sé á náttúruminjaskrá og vistkerfi sem njóti verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Framkvæmd kæranda og efnistaka hafi því verið framkvæmdaleyfisskyld skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í samræmi við greind lagafyrirmæli hafi verið aflað umsagnar Umhverfisstofnunar, sem hafi lagst gegn framkvæmdum kæranda. Skipulagsfulltrúi hafi sent lögmanni kæranda tölvupóst hinn 25. mars 2008, þar sem honum hafi verið kynnt umsögnin og gefinn kostur á að koma að athugasemdum teldi hann þörf á því áður en málið yrði tekið fyrir hjá skipulagsnefnd. Engin ný gögn hafi borist eða athugasemdir frá lögmanni kæranda. Hafi því að öllu leyti verið gætt málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga, sbr. einkum 13. og 14. gr. laganna. Allar upplýsingar sem þörf hafi verið á og haft hafi þýðingu fyrir ákvörðun í málinu hafi legið fyrir þegar skipulagsnefnd og sveitarstjórn tók ákvörðun sína og því ekki verið um brot gegn 10. eða 13. gr. stjórnsýslulaga að ræða.

Skipulagsnefnd og sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um málið á grundvelli gildandi réttarreglna sem og Aðalskipulags Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016. Hafi því verið um nýja ákvörðun að ræða, sem hafi þurft að eiga sér stoð í gildandi lögum og skipulagi. Hafi það sérstaklega verið tekið fram í bókun skipulagsnefndar og bent m.a. á fyrirmæli hverfisverndar í gildandi aðalskipulagi, þar sem sett hafi verið bann við mannvirkjagerð og jarðraski á ósnortnum svæðum við vatnsbakka Þingvallavatns.

—————-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er giltu er kæra barst í máli þessu, er kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnarinnar var tekin 3. júní 2008 og var hvorki birt kæranda né lögmanni hans. Kæranda kveðst fyrst hafa orðið kunnugt um ákvörðunina hinn 22. ágúst 2008, þegar lögmaður hans hafi haft samband við skipulagsfulltrúa vegna málsins. Með hliðsjón af framansögðu verður ekki fullyrt að kæranda hafi verið kunnugt um staðfestingu sveitarstjórnar á hinni kærðu ákvörðun fyrr en fyrrgreindan dag og var kærufrestur því ekki liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 25. ágúst 2008.
Hin kærða ákvörðun tekur til framkvæmda á bakka Þingvallavatns, en vatnið og strandlengja þess eru á náttúruminjaskrá, sbr. 67. og 68. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Samkvæmt 3. gr. laganna teljast m.a. svæði og náttúrumyndanir á náttúruminjaskrá til náttúruverndarsvæða. Af því leiðir að IV. kafla nefndra laga, sem fjallar um rekstur náttúruverndarsvæða, tekur til svæða á náttúruminjaskrá óháð því hvort þau hafa verið friðlýst eða ekki. Samkvæmt 6. gr. náttúrverndarlaga er það hlutverk Umhverfisstofnunar að hafa með höndum umsjón, rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum og skv. 2. ml. 1. mgr. 38. gr. nefndra laga er skylt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði öðrum náttúruminjum á náttúruminjaskrá, sbr. 67. og 68. gr. Þá eru stöðuvötn sem eru 1.000 m2 að stærð eða stærri meðal þeirra jarðmyndana og vistkerfa sem veitt er sérstök vernd, sbr. b-lið 1. mgr. 37. gr. laganna. Fyrir liggur að leitað var umsagnar Umhverfisstofnunar í tengslum af umsókn kæranda vegna umdeildra framkvæmda og verður til hennar litið við úrlausn málsins.
Í 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess. Mat á því hvað teljist meiri háttar framkvæmd í skilningi ákvæðisins ræðst m.a. af aðstæðum og staðháttum hverju sinni. Eins og hér háttar verður þá sérstaklega að líta til þeirra lögákveðnu verndarsjónarmiða er áður hefur verið lýst. Með það í huga, og með hliðsjón af fyrrgreindri umsögn Umhverfisstofnunar um að umdeild framkvæmd muni hafa verulegt rask í för með sér og valda neikvæðum sjónrænum áhrifum, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar eftir skoðun á vettvangi að skylt hafi verið að leita leyfis sveitarstjórnar fyrir framkvæmdinni samkvæmt fyrrgreindri 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016, var staðfest af ráðherra 17. maí 2006 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní s.á. Í kafla 3.15 um hverfisverndarsvæði í greinargerð aðalskipulagsins er kveðið á um að hverfisvernd sé á vatnsbakka Þingvallavatns og á 100 m belti frá vatninu. Á svæðinu gildi bann við mannvirkjagerð og jarðraski á ósnortnum svæðum við vatnsbakkann. Hin kærða synjun á framkvæmdaleyfi er byggð á gildandi aðalskipulagi, þar sem beinlínis er lagst gegn jarðraski á ósnortnum bakkanum. Verður því að telja að til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hafi legið lögmæt og málefnaleg sjónarmið.
Með skírskotun til þess sem rakið hefur verið, og þar sem ekki liggur fyrir að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að raskað geti gildi hennar, verður kröfu um ógildingu hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. júní 2008 vegna umsóknar um leyfi til endurbóta á bátalægi við sumarbústað nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit.

_________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

74/2010 Lágholtsvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 um að synja um leyfi fyrir áður byggðum 15,8 m2 svalapalli úr timbri við einbýlishúsið á lóð nr. 11 við Lágholtsveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. desember 2010, er barst nefndinni 3. s.m., kærir G, Lágholtsvegi 11, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 að synja um leyfi fyrir áður byggðum svalapalli á lóð nr. 11 við Lágholtsveg. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða synjun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 14. febrúar 2011 og 4. og 6. febrúar 2015.

Málavextir: Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 13. ágúst 2007, var kærandi krafinn skýringa á svalapalli sem byggður hafði verið út frá miðhæð hússins við Lágholtsveg 11 án þess að byggingarleyfi lægi fyrir. Með ódagsettu bréfi, mótteknu hjá byggingarfulltrúa 1. október 2007, óskaði kærandi eftir fresti til að sækja um leyfi fyrir svalapallinum. Engri umsókn var þó skilað inn af hálfu kæranda.

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 29. júní 2010, var þess krafist að kærandi fjarlægði svalapallinn af lóðinni innan 30 daga eða sækti ella um byggingarleyfi fyrir honum innan sama frests. Var kæranda jafnframt veittur 14 daga frestur til að tjá sig um málið.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. september 2010 var lögð fram fyrirspurn frá kæranda, dags. 17. september 2010, um hvort leyfi fengist fyrir áður nefndum svalapalli sem byggður hefði verið árið 1984. Byggingarfulltrúi frestaði málinu með vísan til athugasemda á fyrirspurnarblaði. Athugasemdirnar lutu að því að umsögn húsafriðunarnefndar og Minjasafns Reykjavíkur þyrfti að fylgja umsókn um byggingarleyfi þar sem húsið væri friðað. Þá þyrfti að sýna staðsetningu og stærð pallsins á afstöðumynd. Samkvæmt deiliskipulagi væri heimilt að byggja svalir eða viðbyggingu, allt að 20 m2, við húsið en samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þyrfti ef byggja skyldi nær lóðamörkum en þrjá metra. Lóð Lágholtsvegar 11 liggur að lóðunum við Lágholtsveg 9, Grandaveg 36 og 38 og opnu svæði.

Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir svalapallinum með umsókn, dags. 28. október 2010, og fylgdi erindinu samþykki eigenda Grandavegar 4 og 36 og Lágholtsvegar 3 og 13, dags. 15. september 2010. Umsókn kæranda var synjað á fundi byggingarfulltrúa 2. nóvember 2010 með svofelldri bókun: „Þrátt fyrir leiðbeiningu með fyrirspurn um að samþykki lóðarhafa Grandavegar 38 yrði að fylgja barst það ekki með byggingarleyfisumsókn. Er erindinu því synjað sbr. ákvæði deiliskipulags. Umsækjanda er bent á að hægt er að sækja um breytta staðsetningu pallsins sbr. ákvæði deiliskipulags. Fjarlægja skal pallinn innan 30 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa leggja til beitingu þvingunarúrræða byggingarreglugerðar.“ Ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 4. nóvember 2010.

Málsrök kæranda: Að sögn kæranda var svalapallurinn byggður árið 1984 eða 1985 með samþykki allra þáverandi eigenda nærliggjandi húsa, þar með talið eigenda Grandavegar 38. Ekki hafi verið gerð athugasemd við svalapallinn fyrr en árið 2007 og hann hafi því staðið án athugasemda í 23 ár. Núverandi eigendur Grandavegar 38 hafi eignast hús sitt árið 2004.

Húsið við Lágholtsveg 11 hafi á sínum tíma verið ranglega staðsett eins og fleiri hús á Bráðræðisholtinu. Húsið sjálft sé aðeins 2 m frá lóðamörkum og telur kærandi að það yrði til lýta ef pallurinn fengi ekki að standa í beinni línu við húsið. Staðsetning hússins sé á ábyrgð byggingarfulltrúans í Reykjavík. Í deiliskipulagi sé leyfi fyrir allt að 20 m2 viðbyggingu við hús kæranda en pallurinn sé 15,8 m2. Núverandi eigendur Grandavegar 38 vilji ekki samþykkja svalapallinn vegna þess að af honum sjáist í heitan pott á lóð Grandavegar 38 en hið sama megi raunar segja um rishæð Lágholtsvegar 11.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi fylgt samþykki eigenda Grandavegar 4 og 36 og Lágholtsvegar 3 og 13 fyrir pallinum. Síðar hafi úrskurðarnefndinni verið afhent yfirlýsing fyrri eigenda Grandavegar 38, dags. 24. apríl 2014, um að þeir hefðu ekki gert athugasemd þegar svalapallurinn var byggður, og yfirlýsing um samþykki fyrir pallinum frá eigendum Framnesvegar 66, dags. 17. febrúar 2014, og eiganda Framnesvegar 68, dags. 20. apríl s.á.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg tekur ekki undir málsástæður kæranda og telur að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að synja um leyfi fyrir svalapallinum sem um er deilt í málinu. Er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Ljóst sé að samkvæmt deiliskipulagi Lýsisreits, samþykktu í borgarráði hinn 15. febrúar 2007, séu sérskilmálar fyrir lóð kæranda þeir að heimilt sé að byggja svalir eða viðbyggingu allt að 20 m2 og kvisti á allt að þriðjungi þakflatar með hliðsjón af verndunarákvæðum. Samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þurfi ef byggja skuli nær lóðamörkum en 3 m. Reykjavíkurborg hafi fyrst orðið kunnugt um svalapallinn þegar vinna við gerð deiliskipulags hafi staðið yfir á árinu 2006 en fallið hafi verið frá því að heimila pallinn þá þar sem hann hafi ekki verið í samræmi við deiliskipulag auk þess sem ekkert leyfi hafi verið fyrir honum.

Pallurinn sé um 1,20 m frá lóðarmörkum Grandavegar 38 og uppfylli því ekki framangreind skilyrði. Ekki skipti máli hvenær pallurinn hafi verið byggður eða hve lengi hann hafi staðið því ljóst sé að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir honum í upphafi. Árið 2007 hafi verið hafist handa gagnvart eigendum pallsins. Reykjavíkurborg taki hvorki afstöðu til þess í málinu hvort um tómlæti nágranna sé að ræða né til fullyrðinga kæranda um að húsið, sem byggt hafi verið árið 1911, hafi verið rangt staðsett í upphafi enda hafi ekki verið sýnt fram á það af hálfu kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 að synja um byggingarleyfi fyrir áður byggðum svalapalli við Lágholtsveg 11. Svalapallurinn mun hafa verið reistur árið 1984 eða 1985 en umsókn um byggingarleyfi fyrir pallinum var fyrst lögð fram 28. október 2010. Um umsóknina og þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja henni gilda því skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Þá verður horft til þess deiliskipulags sem í gildi var þegar sótt var um byggingarleyfið.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga var óheimilt að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem féllu undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Í 2. mgr. sömu greinar kom fram að framkvæmdir skv. 1. mgr. skyldu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.

Í deiliskipulagi Lýsisreits, sem tekur til umrædds svæðis og samþykkt var í borgarráði 15. febrúar 2007 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 14. júní s.á., eru skilgreindar heimildir til endurnýjunar og viðbygginga. Um Lágholtsveg 11 segir þar að heimilt sé að byggja viðbyggingu allt að 20 m2 og kvisti á allt að þriðjungi þakflatar, með hliðsjón af verndunarákvæðum. Samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þurfi ef byggja skal nær lóðamörkum en 3 m. Í eldra deiliskipulagi, sem samþykkt var í skipulagsnefnd Reykjavíkur 21. janúar 1980 og staðfest 24. september s.á., var ekki að finna heimild fyrir byggingu svalapallsins.

Svalapallurinn sem hér um ræðir stendur um 1,2 m frá lóðamörkum Lágholtsvegar 11 og Grandavegar 38. Er því ljóst að samþykki eigenda Grandavegar 38 er áskilið samkvæmt fyrrgreindum skilmálum gildandi deiliskipulags. Breytir þar engu þótt húsið við Lágholtsveg 11 sé aðeins í tveggja metra fjarlægð frá lóðamörkunum. Yfirlýsing fyrri eigenda Grandavegar 38 um að þeir hafi ekki gert athugasemdir við pallinn þegar hann var reistur verður ekki talin nægja til þess að uppfylla áðurnefnt skilyrði deiliskipulagsins um samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar. Nauðsynlegt var að afla samþykkis lóðarhafa Grandavegar 38 á þeim tíma sem sótt var um byggingarleyfið.

Sú fullyrðing kæranda að svalapallurinn hafi staðið athugasemdalaust í 23 ár hefur ekki áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda verða skipulagsyfirvöld ekki knúin til að veita byggingarleyfi sem færi á svig við ákvæði gildandi deiliskipulags. Var byggingarfulltrúa því rétt sökum skorts á samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar, og með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður talið að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem geti raskað gildi hennar, verður kröfu kæranda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 um að synja um leyfi fyrir áður byggðum svalapalli á lóð nr. 11 við Lágholtsveg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

1/2015 Hólmbergsbraut

Með
Árið 2015, föstudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember 2014 um að veita Blue Car Rental ehf. byggingarleyfi fyrir breytingum á innra skipulagi og til að bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. janúar 2015, sem barst nefndinni 8. s.m., kærir Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur, f.h. Summus ehf., eiganda matshluta 0110 við Hólmbergsbraut 1, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar að veita leyfi fyrir breytingum á innra skipulagi og bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, ásamt þeim teikningum sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 10. desember s.á. Að auki er þess krafist að framkvæmdir við uppsetningu á innkeyrsludyrum verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar hinn 13. nóvember 2014 var samþykkt umsókn Blue Car Rental ehf. um leyfi til að breyta innra skipulagi og setja innkeyrsludyr á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101, en húsið er fjöleignarhús sem skiptist í tíu séreignarhluta. Sama dag var haldinn fyrsti aðalfundur húsfélagsins Hólmbergsbrautar 1, þar sem leyfishafi gerði grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum, sem og því að koma ætti fyrir á lóðinni olíuskilju sem væri í hans eigu. Hinn 24. s.m. var greindri olíuskilju komið fyrir. Hinn 10. desember s.á. voru teikningar vegna hinna kærðu framkvæmda samþykktar af byggingarfulltrúa.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hinar umþrættu framkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar á grundvelli 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og þurfi samþykki sameigenda að liggja fyrir, sbr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Hafi leyfishöfum borið að leita samþykkis annarra eigenda áður en umsókn um byggingarleyfi var lögð inn til afgreiðslu. Sé fulljóst að samþykki sameigenda liggi ekki fyrir og hafi byggingarfulltrúa því verið óheimilt að samþykkja umsóknina. Séu greindar breytingar til tjóns fyrir kæranda og aðra meðeigendur að fasteigninni. Sé því rík ástæða til þess að stöðva yfirvofandi framkvæmdir.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að embætti byggingarfulltrúa telji ekki rétt að stöðva framkvæmdir þar sem kærandi hafi ekki sett fram formleg málsrök fyrir kröfu um stöðvun, s.s. málsgögn um samþykki húsfélags, um formlega afstöðu meðeigenda hússins eða annað sem styðji kröfu þeirra. Byggi útgáfa umrædds byggingarleyfis á afgreiðslu byggingarfulltrúa og samþykki bæjarstjórnar. Myndi stöðvun framkvæmda og bann við notkun á umræddri olíuskilju ógilda starfsleyfi og þannig stöðva starfsemi leyfishafa og valda fjárhagslegu tjóni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ákvæði um stöðvun framkvæmda sé undantekningarregla sem ekki skuli beita nema í sérstökum tilvikum. Liggi fyrir að sameigendur hafi ekki gert athugasemdir við framkvæmdirnar og sé nauðsynlegt að halda þeim áfram til þess að hægt sé að hefja starfsemi. Einnig liggi fyrir að framkvæmdirnar valdi öðrum sameigendum ekki tjóni.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun byggingarfulltrúa, sem heimilar breytingar á innra skipulagi og uppsetningu á innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101. Samkvæmt teikningum er að auki veitt leyfi til þess að koma fyrir olíuskilju á lóð fjöleignarhússins.

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Leikur meðal annars vafi á því hvort ákvæðum fjöleignarhúsalaga, sem og ákvæðum mannvirkjalaga, hafi verið fullnægt við samþykki á hinni kærðu ákvörðun, en gögn þar um, sem úrskurðarnefndinni hafa borist frá sveitarfélaginu, eru ófullnægjandi. Framkvæmdir eru þegar hafnar og geta haft röskun í för með sér, m.a. fyrir kærendur. Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, en byggingarleyfishafi getur óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru samkvæmt hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember 2014, um að heimila breytingar á innra skipulagi og uppsetningu á innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

65/2010 Klapparstígur

Með
Árið 2015, föstudaginn 30. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 65/2010, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. september 2010 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits, staðgreinireits 1.152.4, vegna lóðar nr. 19 við Klapparstíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. október 2010, er barst nefndinni 27. s.m., kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. Ottó ehf. og G, sameigenda lóðar nr. 19 við Klapparstíg í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs frá 29. september 2010 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits, staðgreinireits 1.152.4 vegna lóðar nr. 19 við Klapparstíg. Af hálfu kærenda er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir skipulagsráð að taka umsókn kærenda til meðferðar að nýju.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 21. júní 2011 og 8. og 27. janúar 2015.

Málavextir: Lóðin að Klapparstíg 19 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag svo nefnds Skúlagötureits, sem markast af Vatnsstíg, Hverfisgötu, Klapparstíg og Lindargötu. Tekur skipulagið til staðgreinireita 1.152.208 – 1.152.213, sem og til staðgreinireits 1.152.4, þar sem tilgreinda lóð er að finna.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 26. júní 2009 var lögð fram fyrirspurn Ottó ehf. um tillögu að breyttu deiliskipulagi reits 1.152.4. Gerði tillagan ráð fyrir stækkun byggingarreits og nýbyggingu með allt að sjö íbúðum á lóðinni nr. 19 við Klapparstíg og var málinu vísað til umfjöllunar verkefnisstjóra. Fyrirspurnin var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 14. ágúst s.á. ásamt umsögn hans um málið. Var ekki gerð athugasemd við erindið, með þeim skilyrðum sem fram kæmu í téðri umsögn og lutu t.a.m. að því að æskilegt væri að fá upplýsingar um fyrirhugað byggingarmagn og málsetningu byggingarreita áður en lengra yrði haldið. Þá kom fram að ekki væri tekin afstaða til fjölda íbúða að svo stöddu. Hinn 5. febrúar 2010 var lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi umrædds reits, sambærileg fyrri fyrirspurn, en jafnframt var tekið fram að byggingarmagn á lóð myndi aukast. Var afgreiðslu málsins frestað og vísað til þess að laga þyrfti uppdrætti. Á fundi skipulagsstjóra 19. s.m. var ákveðið að kynna málið fyrir formanni skipulagsráðs. Skipulagsráð tók málið fyrir hinn 10. mars og 7. júlí s.á. og frestaði afgreiðslu þess. Málinu var enn frestað á fundi ráðsins 14. júlí 2010 en því beint til embættis skipulagsstjóra að funda með lóðarhöfum.

Umsóknin var næst tekin fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 29. september 2010. Fyrir fundinum lágu bréf sem stöfuðu frá Ottó ehf., dags. 27. maí,  3. september og 23. september 2010, sem og orðsending frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. september s.á. Var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun: „Synjað. Skipulagsráð getur ekki fallist á að breyta gildandi deiliskipulagi á þann hátt sem lagt er til í framlagðri tillögu lóðarhafa. Embætti skipulagsstjóra er falið að vinna að því með lóðarhöfum að gera nýja tillögu þar sem kannað er hvort unnt er að fella steinbæ á lóðinni inn í uppbygginguna.“ Var fundargerð skipulagsráðs lögð fram á fundi borgarráðs hinn 7. október 2010.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að samkvæmt 1. gr. viðauka 1.1. með samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001 með síðari breytingum sé skipulagsráði falið að afgreiða, án staðfestingar borgarráðs, verkefni er lúti m.a. að ákvörðunum um að hefja gerð deiliskipulags og óverulegum breytingum á deiliskipulagi skv. ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Hin kærða ákvörðun líti að synjun á deiliskipulagstillögu og feli í sér fyrirmæli um gerð nýrrar tillögu að deiliskipulagi. Falli ákvörðunin því undir framangreint ákvæði og þurfi ekki staðfestingu borgarráðs og sé því kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Byggt sé á því að ekki hafi verið heimild til að synja umsókn með vísan til þess að fella beri rústir steinbæjar á lóðinni inn í fyrirhugaða uppbyggingu. Með deiliskipulagi fyrir umrætt svæði, sem samþykkt hafi verið í borgarráði árið 2004, hafi nýtingarhlutfall fyrir umrædda lóð verið „aukið“ úr 0,35 í 0,69 en kærendur telji að nýtingarhlutfallið hafi í reynd verið lækkað frá eldra skipulagi. Hafi kærandi miðað við nýtingarhlutfall allt að 1,5 í áætlunum sínum. Jafnframt hafi verið samþykkt að rífa mætti rústir steinbæjar á lóðinni auk þess sem reisa mætti nýbyggingu sem yrði tvær hæðir, kjallari og ris. Á grundvelli þessa skipulags hafi kærendur hafið undirbúning framkvæmda í nánu samstarfi og með vitund og vilja skipulagsyfirvalda. Kærendur hafi keypt fasteignina að Veghúsastíg 1 árið 2007 og með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt hafi verið í skipulagsráði í mars 2008, hafi lóðin að Klapparstíg 19 verið sameinuð hluta lóðar að Veghúsastíg 1-1A. Ekki hafi verið gerð athugasemd við fyrirhugaða nýbyggingu á lóðinni á fundi skipulagsstjóra 26. júní 2009. Sé umsókn kærenda í samræmi við framangreint. Í ljósi þessa, sem og fyrri samskipta og funda með starfsmönnum Reykjavíkurborgar, hafi kærendur haft réttmætar væntingar um að tillaga þeirra yrði samþykkt. Byggi synjun skipulagsráðs á því að ekki megi rífa rústir steinbæjarins og gangi það gegn gildandi deiliskipulagi og fyrri skipulagsákvörðunum.

Í eignarráðum fasteignareiganda felist að hann geti ráðstafað eign sinni innan þeirra takmarka sem lög og ákvarðanir stjórnvalda, á grundvelli laga, setji honum á hverjum tíma. Hafi kærendur sett fram tillögu sína í samræmi við heimild 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og telji að sú hagnýting lóðarinnar sem tillagan geri ráð fyrir sé eðlileg og réttmæt. Ákvörðun í gildandi deiliskipulagi um að heimila niðurrif rústa steinbæjar bindi hendur skipulagsráðs. Heimildir stjórnvalda til að takmarka ráðstöfunarrétt fasteignareiganda yfir eign hans með því að banna honum að nýta eignina með þeim hætti sem hann kjósi verði að eiga sér skýra lagastoð. Skipulagsráð hafi hins vegar ekki bent á lagaheimild til stuðnings synjun sinni. Hafi borið að afgreiða umsókn í samræmi við fyrirmæli 26. gr. fyrrgreindra laga. Með synjun sé með ólögmætum og bótaskyldum hætti verið að takmarka nýtingarmöguleika eiganda fasteignarinnar að Klapparstíg 19. Þau hús sem fyrir séu á lóðinni séu óheppileg fyrir hvers konar nútímastarfsemi þar sem stærð þeirra og hönnun uppfylli ekki kröfur samtímans. Þá sé sérstaklega gagnrýndur sá dráttur sem orðið hafi á því að afgreiða umsóknina.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Skipulagsráði hafi verið fullkomlega heimilt að synja umsókn kærenda. Ekki sé tekið undir þær fullyrðingar að tillaga kærenda hafi verið unnin í samstarfi við skipulagsyfirvöld með öðrum hætti en að lóðarhafar hafi kynnt fyrirætlanir sínar fyrir starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs og skipulagsráði. Það sé hlutverk skipulagsyfirvalda að taka afstöðu til og leiðbeina borgurum um tillögugerð í skipulagsmálum, en slík leiðsögn geti þó aldrei komið í stað lögbundinnar meðferðar skipulagsráðs og borgarráðs. Kærendur hafi aldrei fengið formlegt jákvætt svar við fyrirspurn sinni um svo mikla uppbyggingu á lóðinni sem hann fari fram á. Þá hafi skipulagsyfirvöld með síðustu afgreiðslu sinni leiðbeint lóðarhöfum um hvaða skilyrði væru sett fyrir því að þeir fengju heimild fyrir aukinni nýtingu á lóðinni.

Skipulagsvald liggi hjá sveitarfélögum samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Engin trygging sé fyrir því að þær væntingar sem borgarar hafi um afgreiðslu mála sinna gangi alltaf eftir enda séu það borgaryfirvöld sem hafi endanlegt ákvörðunarvald í skipulagsmálum. Því sé mótmælt sem órökstuddu og ósönnuðu að annað nýtingarhlutfall sé í gildi en fram komi í gildandi deiliskipulagi. Beri lóðarhöfum að miða við það. Verði ekki annað ráðið af bókun skipulagsráðs við endanlega afgreiðslu málsins en að vilji skipulagsyfirvalda standi til að vinna áfram með kærendum að uppbyggingu lóðarinnar með það að leiðarljósi hvort unnt sé að fella steinbæinn inn í uppbygginguna. Hafi því ekki verið tekin nein lokaafstaða til þess hvort hann verði rifinn eða ekki. Skipulagsráði sé vel kunnugt um að heimilt sé í gildandi deiliskipulagi að rífa téðan steinbæ en vilji setja það skilyrði fyrir mögulegum breytingum að sú niðurrifsheimild verði felld niður. Sé bent á að lóðarhafi hafi aldrei sótt um að fá að nýta sér heimildir deiliskipulagsins, þ.m.t. heimild til að fjarlægja umræddan steinbæ.

Farið hafi verið fram á mjög auknar heimildir frá gildandi deiliskipulagi. Byggingarmagn hafi átt að auka til muna og nýtingarhlutfall að hækka úr 0,69 í 1,56. Þrátt fyrir að upphaflega hafi verið tekið jákvætt í að vinna tillögu að aukinni uppbyggingu sé skipulagsyfirvöldum fullkomlega heimilt í því ljósi að setja málefnaleg skilyrði fyrir samþykkt slíkrar umsóknar á síðari stigum máls. Telja verði að verndun rústa gamla steinbæjarins sé málefnalegt skilyrði, enda geti viðmið skipulagsyfirvalda til verndunar slíkra mannvirkja tekið breytingum í tímans rás. Heimild til niðurrifs steinbæjarins geti ekki bundið hendur skipulagsyfirvalda nema sótt sé um uppbyggingu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Það hafi ekki verið gert og hafi kærendur því ekki getað gefið sér það fyrirfram að gengið yrði að öllum þeirra óskum án tillits til álits og vilja skipulagsyfirvalda.

Dráttur á afgreiðslu máls skýrist að mestu leyti af því að unnið hafi verið að bættri framsetningu tillögunnar, auk þess sem reynt hafi verið að fá lóðarhafa til að draga úr umfangi byggingaráforma. Aðaldráttur málsins helgist þó af því að ekki hafi náðst samstaða um tillöguna í skipulagsráði, þrátt fyrir að ýmsum möguleikum hafi verið velt upp til að lagfæra hana. Þá hafi ávallt verið litið á tillöguna sem verulega breytingu á deiliskipulagi og því hafi afgreiðslu skipulagsráðs verið vísað til fullnaðarafgreiðslu borgarráðs. Í tölvubréfi sem barst úrskurðarnefndinni 8. janúar 2015 kemur fram að fundargerð skipulagsráðs hafi verið lögð fram á fundi borgarráðs. Synjunin hafi ekki verið staðfest sem slík, en litið sé svo á að skipulagsráð hafi haft heimilt til að fullnaðarafgreiðslu málsins. 

Athugasemdir kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar: Kærendur árétta sjónarmið sín. Jafnframt fallist þeir ekki á rökstuðning borgarinnar fyrir þeim drætti sem orðið hafi á afgreiðslu málsins. Sé vísað til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997 í því sambandi og telji kærendur að ákvörðunin sé að þessu leyti verulegum annmörkum háð. Þá sé því alfarið hafnað að skipulags- og byggingarsvið geti tekið ákvörðun um varðveislu nefnds steinbæjar með vísan til þess að viðmið skipulagsyfirvalda til verndunar slíkra mannvirkja geti tekið breytingum í tímans rás. Verði skipulagsráð að rökstyðja afstöðu sína að þessu leyti með ítarlegri hætti.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs að synja beiðni um breytt deiliskipulag Skúlagötureits vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg. Fól breytingin í sér stækkun byggingarreits lóðarinnar og að heimilað yrði að reisa nýbyggingu á lóðinni. Yrði nýtingarhlutfall lóðarinnar allt að 1,56 í stað 0,69. Var umræddri beiðni synjað á fundi skipulagsráðs hinn 29. september 2010 og var fundargerð ráðsins skipt í A-hluta sem fjallaði um skipulagsmál, B-hluta sem fjallaði um byggingarmál og D-hluta ýmis mál. Mál það sem hér er um deilt var afgreitt í A-hluta fundargerðarinnar. Hinn 7. október s.á. var fundargerð skipulagsráðs lögð fram á fundi borgarráðs þar sem bókað var að borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar. Hins vegar verður ekki ráðið af fundargerð borgarráðs að fjallað hafi verið um afgreiðslu skipulagsráðs vegna umrædds erindis kærenda.

Skipulagsvald í hverju sveitarfélagi er í höndum sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og er samsvarandi ákvæði að finna í gildandi skipulagslögum nr. 123/2010. Eins og nú var landeiganda eða framkvæmdaraðila þó heimilt skv. 1. mgr. 23. gr. nefndra skipulags- og byggingarlaga að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Samkvæmt 6. gr. laganna sbr. og gr. 2.4 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 fóru skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar. Ennfremur sagði m.a. í gr. 2.4 að skipulagsnefnd geri tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu skipulagstillagna. Þá var mælt svo fyrir um í gr. 2.5 í skipulagsreglugerð að ákvarðanir skipulagsnefnda skyldi leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Skilja verður þágildandi laga- og reglugerðarákvæði, sem að framan eru rakin, á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags hafi ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla erinda um samþykkt eða synjun á nýju eða breyttu deiliskipulagi heldur hafi það verið sveitarstjórnar að taka slíkar ákvarðanir. Hins vegar gat sveitarstjórn ákveðið í samþykkt sveitarfélagsins að framselja vald sitt með því að fela skipulagsnefnd eða öðrum í stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála og þá á grundvelli 44. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. breytingalög nr. 74/2003. Var rík nauðsyn á að slíkt valdframsal væri skýrt og afdráttarlaust í ljósi þess að um undantekningu var að ræða frá þeirri meginreglu að skipulagsvaldið sé í höndum sveitarstjórnar, sbr. það sem áður hefur verið rakið. Kveðið var á um heimildir skipulagsráðs til  fullnaðarafgreiðslu án staðfestingar borgarráðs í 1. gr. viðauka 1.1. við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007 og var samhljóða ákvæði að finna í 12. gr. samþykktar fyrir Skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2005. Þar voru talin ákveðin verkefni, m.a. var í b-lið talin „ákvörðun um að hefja gerð deiliskipulags“. Verða tilvitnuð ákvæði ekki skilin svo að skipulagsráð hafi haft heimild til að synja um gerð deiliskipulags án staðfestingar borgarráðs, enda er slík afgreiðsla ekki meðal þeirra verkefna sem talin eru upp í nefndum viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og samþykkt skipulagsráðs. Er og ljóst að íþyngjandi ákvörðun um að synja gerð deiliskipulags verður ekki jafnað við ívilnandi ákvörðun um að hefja gerð deiliskipulags

Samkvæmt framangreindu brast skipulagsráði heimild til lokaafgreiðslu málsins. Bar borgarráði að taka tillöguna fyrir sem sérstakt mál og afgreiða það með formlegum hætti, sbr. 49. gr. tilvitnaðra sveitarstjórnarlaga og 60. gr. nefndrar samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar. Eins og fyrr greinir ber samþykkt borgarráðs á B-hluta fundargerðar skipulagsráðs ekki með sér að tekin hafi verið afstaða til erindis kærenda sem fjallað var um í A-hluta fundargerðarinnar og hefur það því ekki fengið fullnaðarafgreiðslu að lögum. Fól hin kærða afgreiðsla skipulagsráðs því ekki í sér ákvörðun er bindur enda á mál og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem málið hefur ekki verið til lykta leitt verður ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá með vísan til þess sem að framan greinir.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Nanna Magnadóttir

117/2014 Hamraborg

Með
Árið 2015, föstudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 15. júlí 2014, sem breytt var 27. nóvember s.á., um að veita leyfi fyrir breytingu á innra skipulagi og að innrétta gistiheimili að Hamraborg 11.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2014, sem barst nefndinni 19. s.m., kærir Lárentsínus Kristjánsson, f.h. Þvottabjarnarins ehf. og Catalinu ehf., sem eru annars vegar eigendur þriggja eignarhluta í fasteigninni Hamraborg 11 og hins vegar rekstraraðilar í sama húsnæði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 15. júlí 2014, sem breytt var 27. nóvember s.á., að veita leyfi fyrir breytingu á innra skipulagi og að innrétta gistiheimili að Hamraborg 11. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 19. desember 2014 og 19. janúar 2015.

Málavextir: Í húsi á lóð nr. 11 við Hamraborg í Kópavogi hafa verið starfræktar verslanir og önnur þjónusta, þ. á. m. vínveitingastaður annars kærenda á fyrstu hæð hússins. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogs 15. júlí 2014 var samþykkt umsókn um leyfi til að gera breytingar á innra skipulagi og gera gistirými á 2. og 3. hæð. Hinn 4. nóvember s.á. sendu kærendur bréf til byggingarfulltrúans þar sem þess var krafist að framkvæmdir sem stæðu yfir í húsinu yrðu stöðvaðar. Þá var þess krafist að byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum yrði afturkallað þar sem samþykki sameigenda lægi ekki fyrir og leyfið því ólögmætt. Í svarbréfi sínu, dags. 17. s.m., tók Kópavogsbær fram að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út og hafnaði afturköllun á samþykkt byggingarfulltrúa á byggingaráformum. Eftir ítrekun frá kærendum voru framkvæmdir stöðvaðar með bréfi byggingarfulltrúa þar um, dags. 18. s.m. Í bréfinu var bent á að byggingarleyfi lægi ekki fyrir og að við skoðun hefði komið í ljós að framkvæmdir væru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.

Hinn 27. s.m. var umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi gistiheimilis að Hamraborg 11 tekin fyrir á ný og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var byggingarleyfi síðan gefið út 11. desember 2014, með skírskotun til samþykktar byggingaráforma 15. júlí s.á. og breytinga á þeim 27. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að umrædd breyting, þ.e. að breyta efri hæð hússins í gistiheimili, geti skapað vandræði í húsinu og fyrir rekstur vínveitingastaðarins enda fylgi honum mun meiri umferð utan húss sem innan, þ.m.t. í sameign. Greind breyting sé þess eðlis að hún kalli á samþykki annarra eigenda skv. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og því hafi skilyrði 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 ekki verið uppfyllt. Hefði af þeirri ástæðu átt að vísa umsókn um byggingarleyfi frá. Fengist samþykki fyrir slíkri breytingu myndi umrædd byggingarleyfisumsókn kalla á deiliskipulagsferli eða að minnsta kosti grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur leggi áherslu á að ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga sé óháð því hvernig svæði séu skipulögð þótt í ákveðnum tilvikum sé tekið mið af skipulagi. Ekki liggi fyrir deiliskipulag af umræddu svæði en í aðalskipulagi séu mjög almenn ákvæði er um það gildi. Hafi ekki verið rekinn gististaður í húsinu og svo hafi ekki verið þegar kærendur hafi keypt sína eignarhluta. Sé því augljóst að verið sé að breyta hagnýtingu á séreign í húsinu frá því sem verið hafi. Slíkt þurfi sameigendur að samþykkja.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að byggingarfulltrúi hafi metið það svo að ekki væri þörf á samþykki meðeigenda, sbr. lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Ekki hafi verið gert deiliskipulag fyrir svæðið og Hamraborg 11 sé á svokölluðu miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi Kópavogs. Skilgreining slíkra svæða skv. b-lið 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landssvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi, sem talin sé samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis. Sé því samkvæmt aðalskipulagi beinlínis gert ráð fyrir gistihúsum á þessu svæði. Húsið við Hamraborg 11 sé skráð sem atvinnuhúsnæði og verði ekki breyting á því þrátt fyrir framangreint samþykki byggingaráforma. Sé því ekki um grundvallarbreytingu á notkun hússins að ræða, enda verði það áfram notað til atvinnustarfsemi. Sé um að ræða hljóðláta starfsemi sem trufli lítt aðra og verði því að líta svo á að breytingin hafi ekki í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar m.a. breytta notkun rýmis á 2. og 3. hæð í fjöleignarhúsi að Hamraborg 11.

Fasteignin Hamraborg 11 er staðsett á ódeiliskipulögðu svæði. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 19. gr. laga nr. 59/2014, er skipulagsnefnd heimilað að ákveða að veita megi byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir fyrir, enda fari áður fram grenndarkynning. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram áður en leyfi er gefið til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði og það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndarkynning ekki farið fram. Þá voru ekki skilyrði fyrir því að falla frá grenndarkynningu á grundvelli undantekningaákvæðis 3. mgr. 44. gr. laganna, enda ekki girt fyrir að umþrætt framkvæmd muni hafa áhrif á aðra en sveitarfélagið og umsækjanda hins kærða leyfis.

Að öllu framagreindu virtu, og með hliðsjón af skýru orðalagi greinds ákvæðis skipulagslaga, verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 15. júlí 2014, sem breytt var 27. nóvember s.á., um að veita leyfi fyrir breytingu á innra skipulagi og að innrétta gistiheimili að Hamraborg 11.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

121/2014 Fannborg

Með
Árið 2015, föstudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. febrúar 2014 um að veita leyfi til að innrétta gistiheimili á 1. og 2. hæð að Fannborg 7-9.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2014, sem barst nefndinni 2. desember s.á., kæra K, Fannborg 7 og J, H og Æ, eigendur íbúða að Fannborg 9, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs að veita Hömlum ehf. leyfi til að innrétta gistiheimili á 1. og 2. hæð að Fannborg 7-9. Er þessi krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, en að auki er þess krafist að yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. desember 2014 og 28. janúar 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogs 11. febrúar 2014 var tekin fyrir og samþykkt umsókn Hamla ehf. um leyfi til að innrétta gistiheimili á 1. og 2. hæð fjöleignarhússins við Fannborg 7-9, en þar var áður rekin heilsugæsla. Hinn 24. október s.á. beindi húsfélagið Fannborg 7-9 fyrirspurn til byggingarfulltrúa Kópavogs varðandi framkvæmdir í fyrrum húsnæði heilsugæslunnar, sem hefðu hafist nokkrum vikum fyrr. Í svari byggingarfulltrúa 28. s.m. var upplýst að byggingaráform fyrir gistiheimili hefðu verið samþykkt en ekkert byggingarleyfi verið gefið út. Jafnframt kom fram að byggingarfulltrúi hefði talað við framkvæmdaaðila um að stöðva allar frekari framkvæmdir þar til svo yrði.

Samkvæmt upplýsingum fengnum frá sveitarfélaginu 28. janúar 2015 hefur enn ekki verið gefið út byggingarleyfi. Kemur fram í gögnum frá sveitarfélaginu að skilyrði til þess séu ekki uppfyllt þar sem áskilið samþykki eigenda samkvæmt fjöleignarhúsalögum liggi ekki fyrir, auk þess sem samþykkja þurfi breytt byggingaráform í samræmi við nýjar teikningar.

Úrskurðarnefndin gaf Hömlum ehf. kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna fram kominnar kæru. Var nefndin upplýst um að Hömlur ehf. hefði selt Hraunbrekku ehf. eignarhluti sína í húsnæðinu við Fannborg 7-9 með kaupsamningi, dags. 1. ágúst 2013, og hefði eignin verið afhent kaupsamningshöfum 31. júlí s.á. Hömlur ehf. hafi aldrei sótt um framkvæmdaleyfi vegna húsnæðisins og geti því ekki verið leyfishafi. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru Hömlur ehf. enn skráð þinglýstur eigandi þeirra eignarhluta er kaupsamningurinn tekur til en í ljósi veittra upplýsinga gaf úrskurðarnefndin kaupsamningshafa kost á að tjá sig um málið.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að eigendur, eða hugsanlega kaupendur, hafi tvisvar reynt að fá íbúðareigendur í Fannborg 7-9 til að samþykkja heimild til að breyta umþrættu húsnæði í litlar íbúðir eða gistiheimili. Samkvæmt eignaskiptasamningi frá 1976 sé eingöngu heimilt að vera með íbúðarhúsnæði og verslunarhúsnæði í Fannborg 7-9. Með því að veita greint framkvæmdarleyfi væri verið að valda kærendum verulega auknu ónæði frá því sem hafi verið meðan heilsugæsla hafi verið starfrækt í húsnæðinu, enda hafi sú starfsemi eingöngu verið að degi til. Að auki muni umþrættar breytingar valda fjárhagslegu tjóni, en að mati löggiltra fasteignasala megi búast við að verðmæti eigna kærenda muni rýrna.

Samkvæmt fjöleignarhúsalögum þurfi samþykki allra eigenda til að heimila breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hafi, eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, hafi sú breyting í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa. Greind regla sé í gildi nema sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum annarra eigenda. Sé því nauðsynlegt að fá samþykki allra eigenda til að breyta nýtingu séreignar verulega. Það teljist veruleg breyting á hagnýtingu eignar að reka gistiheimili í húsnæði sem áður hafi hýst heilsugæslu. Að auki hafi breytingin í för með sér óþægindi og truflun fyrir íbúa á sama stigagangi, enda hafi rekstur gistiheimilis allt önnur og víðtækari áhrif en rekstur heilsugæslu og þá sérstaklega þar sem umgangur um gistiheimili sé á öðrum tímum. Einnig megi ráða af lögunum að það sé hlutverk framkvæmdaraðila að sýna fram á að ekki verði um neina röskun á lögmætum hagsmunum annarra eigenda að ræða, en ekki eigendanna að sýna fram á að röskun muni verða af breyttri starfsemi.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að við samþykki byggingarfulltrúa á þeim byggingaráformum að breyta heilsugæslurými í gistiheimili hafi það verið mat hans að ekki væri þörf á samþykki meðeigenda. Ekki liggi fyrir deiliskipulag fyrir svæðið en Fannborg 7-9 sé á svokölluðu miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi Kópavogs. Sé miðsvæði skilgreint sem svæði fyrir verslunar-, þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin sé samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis, sbr. b-lið 2. mgr. 6.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Samkvæmt aðalskipulagi sé því gert ráð fyrir gistihúsum á þessu svæði. Sé húsið við Fannborg 7-9 skráð sem atvinnuhúsnæði og verði ekki breyting þar á. Því sé ekki um grundvallarbreytingu á notkun hússins að ræða. Um sé að ræða hljóðláta starfsemi sem trufli lítt aðra og verði því að líta svo á að breytingin hafi ekki í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en verið hafi. Að auki sé bent á að ákvörðun um að samþykkja byggingaráform sé ekki stjórnvaldsákvörðun, enda bindi hún ekki enda á mál. Sé því rétt að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Athugasemdir kaupsamningshafa: Kaupsamningshafi bendir á að áður en til útgáfu framkvæmdaleyfis komi þurfi byggingarfulltrúi að taka afstöðu til sumra þeirra álitaefna sem nefnd séu í kæru, þ.m.t. nauðsyn þess að fá samþykki annarra eigenda við fyrirhuguðum breytingum. Sé bent á að staðhæfingar um verðmætarýrnun annarra eignarhluta hússins séu órökstuddar. Að auki verði ekki séð hvernig rekstur íbúða í skammtímaleigu myndi leiða af sér ónæði fyrir aðra íbúa í húsinu. Ekki sé hægt að skýra ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga með þeim hætti að það sé eigenda þeirra eignarhluta sem fyrirhugað er að breyta að sýna fram á að ekki verði um að ræða neina röskun á lögmætum hagsmunum annarra eigenda. Þeir sem hyggist beita sér fyrir stöðvun á breyttri hagnýtingu annarra eignarhluta verði að sýna fram á að þeir hafi af því lögmæta hagsmuni og geti sýnt fram á hverjir þeir séu. Í því felist krafa um rökstuðning fyrir því í hverju verðmætarýrnun á öðrum eignarhlutum fasteignarinnar sé fólgin. Þar sem slíkur rökstuðningur liggi ekki fyrir í málinu sé rétt að hafna kærunni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar að gistiheimili verið innréttað í húsnæði við Fannborg 7-9 þar sem áður var heilsugæsla. Samþykki byggingarfulltrúa á hinum umþrættu byggingaráformum fól í sér stjórnvaldsákvörðun, enda skapar hún rétt til handa umsækjanda til að fá útgefið byggingarleyfi í skjóli hennar, að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greinir í 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Undir rekstri málsins hefur umsækjandi, samkvæmt þeirri umsókn sem byggt var á við töku hinnar kærðu ákvörðunar, andmælt því að hann sé leyfishafi og upplýst að ekki hafi verið sótt um umþrætt leyfi af hans hálfu. Þá kemur fram í gögnum að sveitarfélagið hafi breytt afstöðu sinni varðandi áskilnað um samþykki eigenda samkvæmt fjöleignarhúsalögum fyrir hinum kærðu breytingum.

Fasteignin Fannborg 7-9 er staðsett á ódeiliskipulögðu svæði. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin mælti 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir um að skipulagsnefnd skyldi láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt væri um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag lægi ekki fyrir. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram áður en leyfi er gefið til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði og það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag hvað landnotkun varðar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndarkynning ekki farið fram. Þá voru ekki skilyrði fyrir því að falla frá grenndarkynningu á grundvelli undantekningaákvæðis 3. mgr. 44. gr. laganna, enda ekki girt fyrir að umþrætt framkvæmd hafi áhrif á aðra en sveitarfélagið og umsækjanda hins kærða leyfis.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. febrúar 2014 um að veita leyfi til að innrétta gistiheimili á 1. og 2. hæð að Fannborg 7-9.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

81/2009 Austurey II

Með
Árið 2015, föstudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2009, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 um deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Krossholtsmýri í landi Austureyjar 2 í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. nóvember 2009, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðar með landnúmer 167725 í landi Austureyjar í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Krossholtsmýri í landi Austureyjar 2. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 19. október 2006 var lögð fram umsókn landeiganda Austureyjar 2 að deiliskipulagi frístundabyggðar í svonefndri Krossholtsmýri. Kemur þar fram að á 3,51 ha svæði, sem liggur upp að eldra frístundabyggðarsvæði við Apavatn, sé gert ráð fyrir þremur nýjum lóðum, auk þess sem eldri lóð verði stækkuð og verði þær þá samtals um 1,48 ha. Fallist var á að auglýsa tillöguna þegar komið hefði verið til móts við þá athugasemd að lóðir þyrftu að jafnaði að vera 0,5 ha í samræmi við ákvæði Aðalskipulags Laugardalshrepps 2000-2012. Hinn 15. nóvember 2006 var á fundi skipulagsnefndar ákveðið að auglýsa tillöguna óbreytta í ljósi þess að sýnt hefði verið fram á að afmörkun umræddra lóða hefði verið ákveðin fyrir löngu og þeim hefði í raun þegar verið úthlutað, auk þess sem aðliggjandi lóðir væru af svipaðri stærð. Afgreiðslan var staðfest í sveitarstjórn 28. nóvember 2006. Tillagan var auglýst 14. desember s.á. og var frestur til að gera athugasemdir til 25. janúar 2007. Athugasemdir bárust frá kærendum, sem eru, ásamt umsækjanda og öðrum sameigendum, eigendur lands sem liggur að svæði því sem deiliskipulagstillagan tók til. Um það sameignarland liggur svonefndur Krossholtsvegur að sumarbústaðalandi kærenda og var því m.a. mótmælt að vegurinn yrði nýttur í þágu eigenda hinna nýju sumarhúsalóða. Í bréfi frá eiganda Austureyjar 2, dags. 7. febrúar 2007, kom fram að Krossholtsvegur væri einkavegur er lægi um land lögbýlisins Austureyjar IV, sem væri eyðijörð í eigu níu systkina í jöfnum hlutföllum. Um 2/3 af heildarlengd vegarins myndi nýtast sem vegtenging til þeirra fjögurra frístundalóða sem yrðu deiliskipulagðar. Sú vegtenging væri eðlileg og til þess fallin að koma í veg fyrir umferð um vatnsbakka Apavatns og óþarfa landröskun. Fráleitt væri að leggja annan veg í landi Austureyjar 2, samsíða Krossholtsveginum, og auka þannig sjón- og rykmengun af vegum. Með því yrði einnig gengið gegn markmiðum skipulagslaga um skynsamlega og hagkvæma nýtingu lands. Óuppbyggður vegslóði lægi meðfram Apavatni að syðstu lóðinni og myndi umferð sem um hann færi falla niður með tilkomu þeirrar vegtengingar sem fram kæmi í deiliskipulagstillögunni. Með því að banna eiganda að hagnýta veginn væri verið að tálma honum eðlilegri hagnýtingu sameignar.

Hin auglýsta tillaga var samþykkt óbreytt á fundi skipulagsnefndar 23. ágúst 2007 og staðfesti sveitarstjórn Bláskógabyggðar afgreiðsluna 4. september s.á. Með bréfum, dags. 2. október 2007, var athugasemdum kærenda frá því í janúar s.á. svarað. Skipulagsstofnun gerði athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda með bréfi, dags. 15. október 2007, þar sem sveitarstjórn hefði ekki rökstutt svör við athugasemdum nægilega vel varðandi aðkomuveg að svæðinu.

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 30. janúar 2008 var málið tekið fyrir og fyrri niðurstaða þess áréttuð. Var á það bent að eigandi fyrirhugaðra lóða væri einnig einn eigenda þess lands sem núverandi vegur lægi um og hefði þannig jafnan rétt á við aðra sameigendur til að nýta veginn. Staðfesti sveitarstjórn Bláskógabyggðar afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 5. febrúar 2008. Kærendur gerðu á ný athugasemdir við deiliskipulagstillöguna með bréfi, dags. 18. s.m. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. febrúar 2008, gerði hún enn athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Í bréfi stofnunarinnar kom fram að landið sem umræddur vegur lægi um væri í óskiptri sameign. Af því leiddi að hverjum eiganda væri heimilt að hagnýta veginn og nota að virtum sama rétti annarra eigenda, að teknu sanngjörnu tilliti til þeirra. Eigendum væri óheimilt að nýta óskipta sameign til annars en hún væri ætluð og einstökum eigendum yrði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar umfram aðra eigendur nema allir eigendur léðu því samþykki sitt með formlegum hætti. Það væri mat Skipulagsstofnunar að með hagnýtingu vegarins sem aðkomu að frístundabyggð, sem kynni að leiða til aukinnar umferðar og þar af leiðandi aukinna óþæginda fyrir aðra eigendur, yrði til aukinn réttur til hagnýtingar sem til þyrfti samþykki annarra eigenda.

Á fundi skipulagsnefndar 27. mars 2008 kom fram að samþykki fimm af níu eigendum viðkomandi lands væri fyrir notkun vegtengingarinnar. Að mati nefndarinnar hefðu forsendur afgreiðslu hennar ekki breyst og myndi samþykki deiliskipulagsins gilda. Málið var til umfjöllunar á fundum sveitarstjórnar og byggðaráðs á tímabilinu 8. apríl 2008 til 11. nóvember s.á. er afgreiðslan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar. Í kjölfarið var þess farið á leit við Skipulagsstofnun að hún myndi endurskoða afstöðu sína þar sem fyrir lægi samþykki meirihluta eigenda. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 30. júní 2009, var ekki gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda en mælt með því að ágreiningur milli landeigenda um veginn yrði til lykta leiddur áður en sú auglýsing yrði birt. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. nóvember 2009. Með bréfi, dags. 17. s.m., var þeim sem gert höfðu athugasemdir við tillöguna tilkynnt að deiliskipulagið hefði tekið gildi auk þess sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að deiliskipulagið feli í sér vegtengingu af því svæði sem skipulagið nái yfir í vestur, yfir skurð og inn á einkaveg, er liggi um svæði með landnúmer 167725, en kærendur séu eigendur þess ásamt öðrum. Einkavegurinn liggi að svonefndu Krossholti þar sem kærendur eigi sumarhús. Kæran snúi að þeirri vegtengingu sem fyrirhuguð sé samkvæmt deiliskipulaginu en hún sé utan þess svæðis sem deiliskipulagið nái til. Önnur vegtenging sé til staðar inn á svæðið sem hið nýja deiliskipulag nái til og væri eðlilegast að tenging að hinum nýju lóðum færi um þá vegtengingu. Sú vegtenging liggi alfarið um land í eigu eiganda hins deiliskipulagða svæðis. Landsvæðið sem einkavegurinn liggi um hafi verið samþykkt sem nýbýli fyrir skógrækt og garðyrkju. Um málefni nýbýlisins fari að jarðalögum nr. 81/2004. Í 9. gr. þeirra laga sé fjallað um fyrirsvar jarða í sameign o.fl. en samkvæmt henni skuli tilnefna fyrirsvarsmann sem hafi umboð til að koma fram fyrir hönd annarra eigenda jarðarinnar við úrlausn mála sem lúti að réttindum og skyldum eigenda. Þar sem eigendahópurinn hafi ekki tilnefnt slíkan fyrirsvarsmann sé því haldið fram að málefni jarðarinnar hljóti að ráðast í samræmi við 2. tl. 1. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Í ákvæðinu komi fram að lögin gildi einnig um óskráð sameignarfélög þar sem meiri hluti félagsmanna búi hér á landi, enda sé meginhluti starfsemi félagsins ekki rekinn í öðru landi. Í 19. gr. laganna um sameignarfélög sé fjallað um stjórnunarheimildir félagsmanna en þar segi í 1. mgr. að sé stjórn ekki kosin og framkvæmdastjóri ekki ráðinn geti hver og einn félagsmaður gert ráðstafanir sem séu eðlilegur þáttur í rekstri félagsins og enginn félagsmaður hafi lýst sig mótfallinn. Þrír félagsmanna hafi sent skrifleg mótmæli til skipulagsnefndar vegna umræddrar vegtengingar og sé því ljóst að einn félagsmaður, þ.e. eigandi bújarðarinnar Austureyjar 2, geti ekki gert slíkar ráðstafanir varðandi rekstur þessa sameignarfélags samkvæmt lögum.

Kærendur hafi gert fleiri athugasemdir við meðferð málsins hjá skipulagsnefndinni og sveitarstjórn Bláskógabyggðar en samskipti við þessi stjórnvöld hafi verið erfið og svör þeirra við athugasemdum hafi borist seint og verið efnisrýr. Athugasemdum kærenda hafi verið svarað rúmum níu mánuðum eftir að þær hafi verið sendar, sem geti tæplega talist góðir stjórnsýsluhættir og sé raunar andstætt ákvæðum 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi í bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 18. febrúar 2009, verið vísað til þess að leitað hefði verið lögfræðiráðgjafar þar sem m.a. hafi komið fram að ekki þyrfti samþykki allra sameigenda landsins með tilvísun í fjöleignarhúsalög nr. 26/1994. Þessu sé mótmælt þar sem umrædd lög hafi ekki gildi í málinu enda séu engar sameiginlegar byggingar eða fjöleignarhús á landinu.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er vísað til þess að málið hafi verið tekið fyrir alloft í skipulagsnefnd, skipulags- og byggingarnefnd og sveitarstjórn Bláskógabyggðar, enda hafi meðferð þess tekið þrjú ár. Fljótlega hafi komið í ljós ágreiningur milli landeigenda og þá aðallega um aðkomu að hinu deiliskipulagða svæði. Vegna þessa hafi verið skoðaðar þrjár mögulegar aðkomur, þ.e. sú sem gert hafi verið ráð fyrir í auglýstri tillögu, nýr vegur samhliða núverandi vegi og að vegslóðin meðfram Apavatni yrði byggð upp. Hafi það verið álit skipulagsyfirvalda að sú tenging sem auglýst tillaga gerði ráð fyrir væri hentugust út frá skipulagslegum forsendum og myndi valda minnstu raski. Talið hafi verið óskynsamlegt að leggja nýjan veg samhliða þeim vegi sem þegar væri til staðar. Auk þess væri ólíklegt að Vegagerðin leyfði nýja tengingu við hlið þeirrar sem fyrir væri. Þá hafi einnig verið talið óheppilegt að byggja upp nýjan veg rétt við vatnsbakka Apavatns, sérstaklega í ljósi þess að fyrirhugaðar frístundahúsalóðir liggi upp að áður gerðum vegi sem liggi um land sem sé að hluta til í eigu þess aðila sem sé eigandi landsins sem deiliskipulagið nái yfir. Ekki verði talið að nýting vegarins hafi neikvæð áhrif á byggðina við bakka Apavatns enda muni umferð frá nýjum lóðum ekki fara um það svæði.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er giltu á þeim tíma er hér um ræðir, er landeiganda eða framkvæmdaraðila heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deilskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Í máli þessu er deilt um samþykki sveitarstjórnar á umsókn landeiganda um gerð deiliskipulags, er tekur til séreignarlands hans og felur í sér stofnun þriggja sumarhúsalóða og stækkun þeirrar fjórðu sem fyrir er. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir vegtengingu þessara lóða við svonefndan Krossholtsveg, sem liggur við mörk hins deiliskipulagða svæðis í landi sem er í sameign nefnds landeiganda og átta annarra að jöfnu. Er ágreiningur með aðilum um þá vegtengingu og byggja kærendur á því að fyrirhuguð vegtenging, og sú notkun á Krossholtsvegi sem henni fylgi, sé háð þeirra samþykki sem sameigenda.

Svæði það sem hin kærða deiliskipulagsákvörðun tekur til nær ekki inn á umrætt sameignarland þar sem Krossholtsvegur liggur. Hvort af ráðgerðri vegtengingu verður ræðst af rétti einstakra sameigenda til nýtingar vegarins. Ágreiningur um slík afnot af landi í sameign ræðst af óskráðum reglum eignaréttarins um réttarstöðu sameigenda við töku ákvarðana um afnot og ráðstöfun sameignar. Réttarágreiningur á því sviði heyrir ekki undir úrskurðarnefndina enda geta skipulagsákvarðanir ekki falið í sér ráðstöfum eignaréttinda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggja fyrir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem geta haft áhrif á gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 um að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Krossholtsmýri í landi Austureyjar 2 í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

54/2011 Þinghúshöfði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða í Stykkishólmi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júlí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Ingi Tryggvason hdl., f.h. A og G, Skólastíg 4, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Þinghúshöfða. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að því er varðar stofnun nýrrar lóðar nr. 4a við Skólastíg.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 22. júlí 2011.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2010 auglýsti skipulags- og byggingarfulltrúi Stykkishólmsbæjar tillögu að deiliskipulagi fyrir íbúðarbyggð á Þinghúshöfða í Stykkishólmi sem tekur til 2,4 ha byggðar eldri húsa við Bókhlöðustíg, nyrðri hluta Skólastígs og Höfðagötu. Fól tillagan m.a. í sér að stofnuð yrði ný lóð nr. 4a við Skólastíg og að þar mætti reisa hús. Var íbúum svæðisins jafnframt sent bréf, dags. 19. apríl 2010, þar sem athygli þeirra var vakin á auglýstri tillögu. Þá var haldinn opinn kynningarfundur um tillöguna 3. maí s.á. Leitað var umsagnar Húsafriðunarnefndar ríkisins og gerð fornleifaskráning af svæðinu. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ.á m. frá kærendum.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. maí 2011 var tillagan lögð fram ásamt umsögn nefndarinnar, dags. 16. ágúst 2010. Var lagt til að tillagan yrði samþykkt með nokkrum breytingum. Fólu breytingarnar m.a. í sér að horfið var frá því að reisa hús á lóðinni nr. 4a við Skólastíg. Þess í stað yrði á lóðinni grænt svæði með einu bílastæði við götu. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar og samþykkti deiliskipulagið hinn 19. s.m. með frekari breytingum á skilmálatexta þess. Var afgreiðsla bæjarstjórnar tilkynnt eigendum fasteigna á skipulagssvæðinu með bréfi, dags. 24. maí 2011, og deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar meðferðar. Gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt skipulagsins. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2011.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að lóðin að Skólastíg 4 hafi verið leigð með erfðafestusamningi í febrúar 1914. Árið 1968 hafi verið áritað á erfðafestusamninginn að lóðin væri 1.150 m² og líklega hafi um svipað leyti verið reist girðing á mörkum lóðarinnar. Árið 1996 hafi lóðin verið 1.164 m² samkvæmt mælingum bæjarverkfræðings og staðfesti það að girðingin afmarki lóðina. Lóðin sé 820 m² samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár en ekki sé vitað hvaðan sú tala sé komin. Í ársbyrjun 2008 hafi kærendur fengið vitneskju um að skerða ætti lóð þeirra og búa til nýja lóð. Hafi þeir mótmælt því skriflega, sem og þegar tillaga að deiliskipulagi í þá veru hafi verið auglýst. Telji kærendur það undarleg vinnubrögð að skipuleggja lóð innan girðingar um lóð þeirra án þess að þau áform hafi verið kynnt þeim sérstaklega, en um verulega skerðingu á lóðinni sé að ræða. Þá verði ekki séð hvaða tilgangi þetta þjóni en ekki sé skortur á landi til ráðstöfunar í sveitarfélaginu. Séu áformin ekki í samræmi við þau viðhorf sem lýst hafi verið á kynningarfundi um tillöguna, það er að tilgangur hennar væri m.a. að varðveita byggð sem mest í anda núverandi byggðar og við allar framkvæmdir á svæðinu skyldi taka tillit til nágranna.

Ný lóð muni útiloka allt aðgengi að húsi kærenda frá Skólastíg, þ.e. að hugsanlegri bílgeymslu við hús þeirra og frá bifreiðastæðum við götuna. Hafi kærendur greitt B-hluta gatnagerðargjalda vegna lóðar sinnar við Skólastíg og verði m.a. í því ljósi að telja deiliskipulagið hæpið.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Sveitarfélagið sendi úrskurðarnefndinni gögn málsins en lét málið að öðru leyti ekki til sín taka.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og eru þar m.a. teknar ákvarðanir um lóðir og lóðanotkun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna. Kærendur telja að stofnun nýrrar lóðar nr. 4a við Skólastíg leiði til skerðingar á sinni lóð sem er nr. 4 við sömu götu. Slíkur eignarréttarlegur ágreiningur verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur heyrir hann undir lögsögu dómstóla. Hins vegar er rétt að taka fram að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignaréttindum manna nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu talin skilyrði til þess.

Hið umdeilda deiliskipulag nær til þegar byggðra lóða við Bókhlöðustíg, Skólastíg og Höfðagötu. Kærendur komu að athugasemdum við meðferð deiliskipulagstillögunnar með bréfi, dags. 27. maí 2010. Mótmæltu þeir skerðingu lóðar sinnar að Skólastíg 4 og vísuðu hvað það varðar til erfðafestusamnings frá 1914, en þáverandi sveitarstjóri Stykkishólmbæjar hefði ritað á hann árið 1968 að lóðin væri 1.150 m². Þá bentu þeir á að samkvæmt mælingum bæjarverkfræðings Stykkishólmsbæjar á lóðinni árið 1996 hefði hún reynst 1.164 m² að stærð. Loks hefði girðing um lóðina staðið þar athugasemdalaust í um 60 ár. Athugasemdum kærenda var svarað með umsögn skipulags og byggingarnefndarinnar 16. ágúst 2010 en þar segir: „Nefndin leggur til að lóðarstærð Skólastíg 4 verði 850 m².“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið að frekari rök fyrir þessari niðurstöðu hafi komið fram við meðferð deiliskipulagsins. Verður þannig ekki ráðið hvaða forsendur lágu að baki ákvörðuninni. Þá liggur ekki fyrir að bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hafi tekið efnislega afstöðu til athugasemda kærenda um skerðingu lóðarinnar eins og skylt var skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga og rík ástæða var til þar sem niðurstaðan gat haft verulega þýðingu fyrir hagsmuni þeirra. Lóðin er skráð 820 m² hjá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Eigi að síður var tilefni til frekari rannsókna af hálfu sveitarfélagsins vegna fullyrðinga kærenda um stærð umræddrar lóðar og þeirra gagna sem þeir vísuðu til í því sambandi. Skorti því á að gætt væri að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum í ljósi þess markmiðs skipulagslaga að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. gr. laganna.

Samkvæmt framangreindu var rannsókn máls og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar um stofnun lóðarinnar að Skólastíg 4a svo verulega áfátt að fallist verður á kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsins að því er hana varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011, um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða, er felld úr gildi að því er lýtur að stofnun nýrrar lóðar nr. 4a við Skólastíg.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

57/2011 Þinghúshöfði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða í Stykkishólmi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júlí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Bókhlöðustíg 9, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Þinghúshöfða. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi, en til vara að skipulagið verði ógilt að hluta að því er varði staðsetningu bílgeymslu á lóðinni að Bókhlöðustíg 10. Þá er gerð krafa um stöðvun framkvæmda. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2010 auglýsti skipulags- og byggingarfulltrúi Stykkishólmsbæjar tillögu að deiliskipulagi fyrir íbúðarbyggð á Þinghúshöfða í Stykkishólmi sem tekur til 2,4 ha byggðar eldri húsa sem standa við Bókhlöðustíg, nyrðri hluta Skólastígs og Höfðagötu. Var íbúum svæðisins jafnframt sent bréf, dags. 19. s.m., þar sem athygli þeirra var vakin á auglýstri tillögu. Þá var haldinn opinn kynningarfundur um tillöguna 3. maí s.á. Leitað var umsagnar Húsafriðunarnefndar ríkisins og gerð fornleifaskráning af svæðinu. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. maí 2011 var tillagan lögð fram ásamt umsögn nefndarinnar, dags. 16. ágúst 2010. Var lagt til að tillagan yrði samþykkt með nokkrum breytingum. Athugasemdum kæranda var lýst í fimm liðum í umsögn nefndarinnar. Nefndin varð við beiðni kæranda um að fella út gangstétt að Silfurgötu 13 og 15 en hafnaði athugasemdum hans að öðru leyti. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar og samþykkti deiliskipulagið hinn 19. s.m., með frekari breytingum á skilmálatexta þess. Var afgreiðsla bæjarstjórnar tilkynnt eigendum fasteigna á skipulagssvæðinu með bréfi, dags. 24. maí 2011, og deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar meðferðar. Gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt skipulagsins. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2011.

Málsrök kæranda: Kærandi telur undirbúningi deiliskipulagsins hafa verið ábótavant og að ekki hafi verið fylgt eftir mikilvægum ófrávíkjanlegum málsmeðferðarreglum skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi verið gerð húsakönnun eins og áskilið sé samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laganna. Slík húsakönnun sé afar mikilvæg þegar unnið sé að deiliskipulagsgerð vegna eldri hverfa og verði ekki tryggt að svipmót byggðar verði varðveitt með forsvaranlegum hætti nema slíkt mat fari fram. Öll hús á umræddum skipulagsreit séu gömul, sum reist fyrir 1874, og um sjötíu af hundraði húsanna séu reist fyrir 1930. Sé full ástæða til að gæta ýtrustu varfærni við gerð deiliskipulags fyrir slík svæði, einkum þegar svo virðist sem tilgangur skipulags sé að innleiða breytingar á svipmóti byggðar með því að heimila byggingar sem ekki hafi verið almennar við heimili fólks á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, svo sem bílgeymslur. Enga þýðingu hafi þótt til sé eldri húsakönnun, enda sé engan veginn tryggt að hún uppfylli þau skilyrði sem lög nr. 123/2010 eða lög nr. 73/1997 geri til slíkra kannana.

Málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttar. Við meðferð málsins hafi verið tekið tillit til athugasemda allra annarra hagsmunaaðila en kæranda. Sambærilegar athugasemdir hafi t.d. komið fram vegna mögulegrar stækkunar Bókhlöðustígs 19 og hafi verið tekið tillit til þeirra. Sé þessi óútskýrði munur á afgreiðslu athugasemda í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og fáist ekki staðist.

Kærandi telur og að bygging bílgeymslu að Bókhlöðustíg 10 muni skerða útsýni frá húsi hans verulega og rýra verðgildi eignar hans til muna. Ekki hafi verið staðið málefnalega að ákvarðanatöku og verði það enn ljósara þegar litið sé til markmiða deiliskipulagsins, einkum í ljósi þeirrar skyldu sem þar sé sett fram um að staðsetja skuli bílgeymslur eins lágt í landi og mögulegt sé. Sú staðsetning sé skyldubundin en ekki valkvæð. Feli hin kærða ákvörðun því í sér brot gegn 10. gr. stjórnsýslulaga en afgreiðsla á deiliskipulaginu bendi til þess að sveitarfélagið hafi ekki kynnt sér aðstæður og afleiðingar þess að velja bílgeymslunni þann byggingarreit sem gert sé ráð fyrir. Vel hafi mátt velja annan byggingarreit á lóðinni fyrir umrædda bílgeymslu og sé eðlilegra að eigandi Bókhlöðustígs 10 verði fyrir útsýnisskerðingu vegna mögulegrar framkvæmdar sinnar fremur en kærandi. Jafnframt segi í deiliskipulaginu að „Geymsluskúrar [megi] ekki taka útsýni frá nágrönnum […]“. Ekki sé hægt að sjá að eðlismunur sé á útsýnisskerðingu er verði vegna geymsluskúrs og vegna bílskúrs þó að gert sé að skilyrði að geymsluskúrar séu nokkuð lægri en bílgeymslur. Skipulagið sé að þessu leyti í innbyrðis mótsögn við sjálft sig þar sem húseigendum sé ómálefnalega mismunað eftir því hvort nágrannar hyggist reisa geymslu eða bílgeymslu og séu meiri kröfur gerðar til þeirra sem ætli að reisa geymslu.

Loks vísi kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 71/2005, þar sem kært hafi verið byggingarleyfi vegna bílgeymslu við Bókhlöðustíg 10, en byggingarreitur sé hinn sami þar og hið kærða deiliskipulag geri nú ráð fyrir.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Sveitarfélagið lét málið ekki til sín taka en úrskurðarnefndin hefur undir höndum gögn er varða afgreiðslu hins kærða deiliskipulags.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða og þá fyrst og fremst að því er varðar staðsetningu bílskúrs á lóðinni Bókhlöðustíg 10.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarstjórnir með skipulagsvald og annast gerð deiliskipulags. Með því getur sveitarstjórn haft áhrif á þróun byggðar og umhverfi með bindandi hætti. Markmið deiliskipulags er m.a. að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags, taka ákvarðanir um notkun lóða og stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands. Þegar unnið er að deiliskipulagi í þegar byggðu hverfi skal með gerð húsakönnunar leggja mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru, sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum nr. 123/2010 segir að tilgangur húsakönnunar sé að tekið sé tillit til menningararfsins við gerð deiliskipulags, hvort heldur um sé að ræða einstök hús eða yfirbragð hlutaðeigandi byggðar, og að slík húsakönnun sé lögð til grundvallar deiliskipulagsskilmálum um þau hús sem fyrir séu. Þannig sé lagður betri grundvöllur til að taka ákvarðanir um hvaða hús skuli varðveita, í hverju varðveisluhlutverkið felist og þar með taka afstöðu til þess hvaða framkvæmdir eru heimilar með hliðsjón af slíku mati. Vegna vinnu við gerð umþrætts deiliskipulags var gerð svonefnd „Deiliskráning á Þinghúshöfða í Stykkishólmi“ og þar gerð ítarleg greining á fornminjum á svæðinu og vísað til ítarlegri heimilda hvað varðaði úttekt og byggingarsögu húsa á svæðinu. Þá fylgdi greining á aldri húsa og byggingarlistagreining í greinargerð með deiliskipulaginu. Verður með hliðsjón af þessu ekki annað séð en að skilyrðum 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga hafi verið fylgt við málsmeðferð hins kærða deiliskipulags.

Í almennum skilmálum umdeilds skipulags kemur fram að þar sem aðstæður leyfi hafi verið skilgreindur byggingarreitur fyrir bílgeymslur innan lóða og sé stærð þeirra og hæð takmörkuð með skilmálunum. Jafnframt er tekið fram að leitast skuli við að staðsetja þær eins lágt í landi og mögulegt sé. Er um eðlilega kröfu að ræða í ljósi staðhátta á svæðinu, en um er að ræða gróið og þegar byggt íbúðarhverfi sem staðsett er á klettahöfða. Veitir orðalag skilmálanna að þessu leyti skipulagsyfirvöldum visst svigrúm um staðsetningu byggingarreita bílskúra. Þá samrýmist umrædd ákvörðun um byggingarreit fyrir bílgeymslu að Bókhlöðustíg 10 því markmiði deiliskipulagsins að leyfa íbúum að laga svæðið að þörfum nútímans og heimila breytingar sem miði að því að uppfylla nútímaþarfir fjölskyldna, eins og nánar segir í greinargerð með skipulaginu. Byggðist ákvörðun sveitarfélagsins því á málefnalegum sjónarmiðum.

Einnig kemur fram í almennum skilmálum skipulagsins að heimilt sé að byggja geymsluskúr eða garðhýsi á lóð utan byggingarreits og sé staðsetning háð samþykki byggingarnefndar. Er sérstaklega tekið fram að með því megi ekki taka útsýni frá nágrönnum og telur kærandi eðlilegt að svo sé einnig um bílgeymslur. Er hér um sérstaka skilmála að ræða sem gilda einungis þegar byggt er utan byggingarreits. Verður þeim eðli máls samkvæmt ekki beitt þegar byggt er innan byggingarreits, enda ólíku saman að jafna. Loks verður ekki annað séð en að nægilega hafi legið fyrir hver áhrif yrðu af staðsetningu fyrirhugaðrar bílgeymslu enda afstaða byggingarreits hennar gagnvart eign kæranda ljós af deiliskipulagsuppdrætti. Var þannig gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði hins vegar í ljós leitt að umdeild skipulagsákvörðun hafi valdið kæranda fjártjóni kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga. Úrlausn um það álitaefni er hins vegar ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Af gögnum málsins verður ráðið að tekið var jákvætt tillit til athugasemda kæranda að hluta en öðrum var hafnað. Hvað varðar Bókhlöðustíg 19 verður að líta til þess að sú fasteign er safnhús. Þar fer fram sérhæfð starfsemi og er nýting þess því ólík öðru húsnæði innan deiliskipulagssvæðisins. Er stærð, staðsetning og áhrif stækkunar þeirrar eignar, með hliðsjón af þeirri starfsemi sem þar fer fram, ekki sambærileg við það tilvik sem hér er til meðferðar. Var því ekki brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar þrátt fyrir ólíka afgreiðslu athugasemdanna.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfum kæranda í máli þessu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða í Stykkishólmi.  

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

 

15/2014 Silfurgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 um stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2014, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir I, Bókhlöðustíg 9, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 að samþykkja stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 10. mars 2014.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 22. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa að Silfurgötu 15 um að stækka lóð og minnka landhæð til að koma fyrir bílastæði, sem og um að endurnýja og stækka geymsluskúr. Lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Var lagt til að leyfa eingöngu stækkun lóðar og yrði stækkunin grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir eigendum húsa við Bókhlöðustíg 7 og 9 og Silfurgötu 13. Var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 16. maí s.á. og af bæjarstjórn 23. s.m. Athugasemdir frá kæranda bárust á grenndarkynningartíma.

Nýtt lóðarblað vegna stækkunar á nefndri lóð var samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd 13. nóvember 2013. Var það grenndarkynnt fyrir sömu aðilum og áður, sem og fyrir eigendum Silfurgötu 17. Bæjarráð og bæjarstjórn frestuðu afgreiðslu málsins þar til grenndarkynningu væri lokið. Kom kærandi athugasemdum sínum á framfæri á grenndarkynningartíma. Að grenndarkynningunni lokinni fór umsóknin aftur fyrir fund skipulags- og byggingarnefndar 13. janúar 2014, sem vísaði til fyrri fundar síns 13. nóvember 2013. Jafnframt var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gera „smá breytingu á lóðarblaði“ og svara athugasemdum. Mun breytingin hafa verið fólgin í því að sneitt var af austurhorni hinnar stækkuðu lóðar til að forðast skörun við lóð kæranda. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarráðs 23. janúar s.á. og á fundi bæjarstjórnar 30. s.m.  Athugasemdum kæranda var svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 31. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir því að með lóðarblaði sé sett bílastæði á lóð sem hafi frá árinu 1903 verið óaðskiljanlegur hluti lóðar sinnar, en þar hafi m.a. verið matjurtagarður. Hafi þessi áratugalanga notkun myndað hefðarrétt á þessari nýtingu skv. 2., 3. og 8. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Þá sé byggt á lóðarlýsingu í erfðafestubréfi, dags. 8. maí 1916. Kærandi telji að Stykkishólmsbær hafi ekki sýnt fram á að lega lóðarinnar hafi frá öndverðu verið sú sem nú sé gengið út frá samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi hafi í bréfi sínu til skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar, dags. 2. júní 2010, vegna deiliskipulagstillögu fyrir Þinghúshöfða í Stykkishólmi, m.a. bent á að samkvæmt tillögunni væru mörk lóðanna Bókhlöðustígs 9 og Silfurgötu 15 í ósamræmi við nýtingu lóðar sinnar. Hafi kærandi tekið fram að sér hefði verið tjáð af seljanda eignarinnar að umrætt bílastæði hefði áður tilheyrt Bókhlöðustíg 9 og þá nýlega verið tekið í notkun af eigendum Silfurgötu 15. Kærandi hafi beðið Stykkishólmsbæ um upplýsingar um þetta fyrirkomulag en ekki hlotið nein viðbrögð vegna þessa.

Fyrri grenndarkynning vegna stækkunar umræddrar lóðar hafi verið ófullkomin og ógerningur hafi verið að átta sig á áhrifum fyrirhugaðra breytinga. Upplýsingar um hæðarpunkta hafi vantað og hafi þær teikningar sem fylgdu tillögunni verið óljósar. Þá hafi við grenndarkynningu tillögu að nýju lóðarblaði verið ómögulegt að gera sér grein fyrir í hverju breytingin væri fólgin eða hvaða áhrif hún kynni að hafa á nálægar lóðir og notkunarmöguleika þeirra. Þá hafi ekki verið orðið við kröfu kæranda um nýtt lóðarblað sem sýndi afstöðu annarra lóða.

Að mati kæranda sé það óásættanlegt að aðkoma vélknúinna ökutækja verði á þrjá vegu um eign sína og að bílastæði verði við stofugluggann. Slíkt fyrirkomulag sé í andstöðu við þann staðaranda sem hverfið á Þinghúshöfða búi yfir. Eðlileg aðkoma að Silfurgötu 15 sé frá Silfurgötu en ekki með aðkomu frá Bókhlöðustíg á kostnað venjuhelgaðrar nýtingar eignar sinnar. Silfurgata sé öll utan þess deiliskipulagssvæðis sem nái til Bókhlöðustígs en að mati kæranda sé óeðlilegt að breyta skipulagi þannig að það hafi bein áhrif á annað skipulagssvæði. Þá sé lega lóða og staðhættir þannig að fyrirhugaðar breytingar virðist óeðlilegar.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að skúr sem tilheyri Silfurgötu 15 hafi sennilega staðið þar í 50 til 60 ár, ef ekki lengur, og að umrætt bílastæði hafi verið notað af Silfurgötu 15 árum saman. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum skerði stækkun lóðar að Silfurgötu 15 á engan hátt lóð kæranda þar sem stækkunin hafi ekki verið á kostnað þeirrar lóðar. Sé í raun ekki verið að breyta neinu heldur staðfesta þau not sem verið hafi. Kærandi hafi hvorki lagt fram uppdrátt sem sýni hvernig hann telji að lóð sín liggi né hvernig hann telji að lóðin eigi að vera samkvæmt lóðarsamningi frá árinu 1916. Umrædd stækkun sé úr landi sveitarfélagsins og byggist sú niðurstaða m.a. á erfðafestubréfi frá 1916, en þar sé lóðin mæld í álnum. Miði sveitarfélagið við löggilta danska alin frá 1776 sem teljist vera 24 þumlungar, eða 62,7 cm, að lengd. Þá sé höfð hliðsjón af uppdrætti af Stykkishólmi frá árunum 1942-1943, sem sýni girðingu við Bókhlöðustíg 9 og loftmynd sem tekin hafi verið áður en Bókhlöðustígur 7 hafi verið rifinn og nýtt hús byggt á þeirri lóð. Þá sé byggt á deiliskipulagi fyrir Þinghúshöfða frá árinu 2011. Telja verði ólíklegt að fyrri eigandi hafi átt landið undir þeim matjurtagarði sem kærandi vísi til og virðist eldri uppdráttur gefa til kynna að matjurtagarður hafi verið upp við húsið sjálft. Þegar kærandi hafi keypt eignina hafi matjurtagarðurinn verið farinn. Fyrri eigandi hafi gert munnlegt samkomulag um að nota mætti þá spildu sem bílastæði. Hafi kærandi haft vitneskju um þetta.

Þrjár íbúðir hafi verið að Silfurgötu 15 frá árinu 1981 og hafi aðgengi íbúa þar að bakhluta hússins verið til staðar fyrir kaup kæranda á eign sinni árið 2004. Með lóðarblaðinu sé ekki verið að breyta legu umræddrar lóðar þannig að leiði til skerðingar á lóð kæranda. Þá nái deiliskipulag frá árinu 2011 ekki inn á það svæði sem um sé deilt og því tilheyri það ekki Bókhlöðustíg 9.

Loks sé því hafnað að Stykkishólmsbær hafi ekki upplýst kæranda um málið. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi sent kæranda gögn til rökstuðnings því að umdeild landspilda tilheyri ekki eign hans og sé vísað til bréfasamskipta við kæranda frá 30. desember 2013 og 31. janúar 2014.

———–

Úrskurðarnefndin tilkynnti lóðarhafa Silfurgötu 15 um fram komna kæru og veitti honum frest til að koma að athugasemdum en þær hafa ekki borist nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 að samþykkja stækkun lóðar að Silfurgötu 15. Er gert ráð fyrir því á lóðarblaði að stækkunin sé til austurs, að lóð kæranda.

Í máli þessu liggur fyrir samþykkt sveitarstjórnar fyrir breyttum lóðarmörkum Silfurgötu 15, svo sem áskilið er í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að nefndri grein undanskilinni er ekki að finna neinar þær sérstöku reglur í lögunum sem eiga við um málsmeðferð þegar lóðarmörkum er breytt. Sveitarfélagið kaus að grenndarkynna hina umdeildu tillögu að lóðarblaði á grundvelli 44. gr. laganna, en að öðru leyti fór um meðferð málsins eftir almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir liggur að samskipti kæranda og Stykkishólmsbæjar hafa verið töluverð í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar. Þannig kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins og var þeim svarað af hálfu sveitarfélagsins. Af þeim svörum og öðrum gögnum málsins verður ráðið að sveitarfélagið hefur rannsakað þinglýstar heimildir hvað varðar lóð kæranda og þá lóð sem stækkuð var, sem og litið til tiltækra uppdrátta og loftmynda við rannsókn sína. Við grenndarkynningu tillögu að hinu umdeilda lóðarblaði í nóvember 2013 var tekið fram að stækkun lóðarinnar væri úr óskiptu landi sveitarfélagsins en auk þess fylgdi hnitaskrá. Kærandi vísar til þess að í ákvörðuninni  sé gert ráð fyrir bílastæði á spildu sem hafi frá árinu 1903 verið óaðskiljanlegur hluti lóðar hans og m.a. verið þar nýtt sem matjurtagarður. Hafi þessi áratugalanga notkun myndað hefðarrétt á þessari nýtingu. Úr slíkum eignarréttarlegum ágreiningi verður ekki skorið fyrir úrskurðarnefndinni heldur á hann undir almenna dómstóla. Af öllu framangreindu er því ljóst að sveitarfélagið uppfyllti skyldu sína til rannsóknar máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, kynnti fyrirhugaða breytingu á grundvelli 44. gr. skipulagslaga og veitti kæranda andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, auk þess að svara fram komnum andmælum. Þá verður ekki séð að málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar hafi að öðru leyti verið áfátt.

Silfurgata 15 er ekki á deiliskipulögðu svæði en húseign kæranda er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag á Þinghúshöfða, sem tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2011. Hefur nefndu deiliskipulagi ekki verið hnekkt, en úrskurðarnefndin hafnaði ógildingu þess í úrskurði sínum fyrr í dag, í máli nr. 57/2011. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir aðkomu að Silfurgötu 13 og 15 með vegi milli húss kæranda að Bókhlöðustíg 9 og hússins að Bókhlöðustígs 11. Gerir hin kærða ákvörðun ráð fyrir því að nefnd aðkoma verði nýtt til þess að komast að bílastæðum á hinni stækkuðu lóð. Verður ekki séð að hin kærða ákvörðun leiði að þessu leyti til aukinna grenndaráhrifa gagnvart kæranda frá því sem verið hefur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 um stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson