Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2014 Vesturbugt og Nýlendureitur

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 19/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 2. mars 2014, er barst nefndinni 13. s.m., kæra Íbúasamtök Vesturbæjar þær ákvarðanir umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 20. nóvember 2013 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi Vesturbugtar og á deiliskipulagi Nýlendureits. Þessar samþykktir voru síðan auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. febrúar 2014.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 29. apríl 2014.

Málsatvik og rök: Tillögur að breyttu deiliskipulagi Vesturbugtar og Nýlendureits voru samþykktar af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar hinn 20. nóvember 2013. Afmarkast skipulag Vesturbugtar til vesturs af Ánanaustum og að Slippnum til austurs. Skipulag Nýlendureits afmarkast af lóðarmörkum byggðar sunnan megin við Mýrargötu til norðurs, Seljavegar til vesturs, Vesturgötu til suðurs og um Ægisgötu til austurs.

Kærandi telur að kynning Reykjavíkurborgar á deiliskipulagsbreytingum Vesturbugtar hafi verið villandi. Teikningar og tölvumyndir í kynningarefni Reykjavíkurborgar hafi verið rangar og afmyndaðar og af þeim sökum hafi hlutföll og fjarlægðir ekki verið réttar. Hafi Reykjavíkurborg ekki lagfært upplýsingarnar þrátt fyrir ítrekanir af hálfu kæranda. Þá telji kærandi að vegna fjölda og alvarleika þeirra athugasemda sem bárust frá íbúasamtökum sem og öðrum hafi myndast réttmætt krafa um að endurskoða skipulagið í heild sinni. Kynningar Reykjavíkurborgar á deiliskipulagsbreytingum vegna Nýlendureits hafi einnig verið villandi. Telji kærandi að hús hafi verið ranglega númeruð á uppdráttum og því hafi verið ómögulegt að gera sér grein fyrir framlögðum tillögum. Telji kærandi að slíkur ágalli geri það verkum að ekki sé hægt að samþykkja skipulagið.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011. Auglýsing um gildistöku beggja deiliskipulagsbreytinga hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. febrúar 2014, en úrskurðarnefndin móttekið kæruna hinn 13. mars s.á. Kæran sé því of seint fram komin og vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni. Þá telji Reykjavíkurborg að kærandi í máli þessu eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Vísað sé til þess að umræddar ákvarðanir falli ekki undir a.-c. ml. nefndrar 3. mgr. 4. gr., en þar séu með tæmandi hætti taldar upp þær ákvarðanir sem hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti kært.

Niðurstaða: Í máli þessu er gerð frávísunarkrafa með þeim rökum að á skorti að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna efnis hinna kærðu ákvarðana um breytingar á deiliskipulagi fyrir Vesturbugt og fyrir Nýlendureit í Reykjavík sem samþykktar voru af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar hinn 20. nóvember 2013.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er nefndinni markað það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. nefndra laga. Þar er að finna heimild sem veitir samtökum í undantekningartilvikum sjálfstæða kæruaðild á þessu sviði. Nánar tiltekið geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, með minnst 30 félaga, átt aðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, þá með vísan til tilgangs samtakanna. Það á þó einungis um þær ákvarðanir sem taldar eru með tæmandi hætti í a.-c. ml. lagagreinarinnar en hinar kærðu ákvarðanir falla ekki þar undir.

Að öðru leyti geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, sbr. nefnda 3. mgr. 4. gr. Íbúasamtök Vesturbæjar eru frjáls samtök er munu m.a. láta sig varða skipulag Vesturbæjar Reykjavíkurborgar. Virðast samtökin byggja kæru sína á gæslu almannahagsmuna og skoðunum um íbúalýðræði, en m.a. er vísað til þess í kæru að kynningar borgarinnar á deiliskipulagsbreytingunum hafi verið villandi sem og þess að réttmæt krafa sé til að endurskoða skipulag Vesturbugtar í heild sinni vegna alvarleika þeirra fjölmörgu athugasemda er borist hafi. Hins vegar liggur ekki fyrir að samtökin eigi þeirra einstaklegu og lögvarinna hagsmuna að gæta er tengjast hinum kærðu skipulagsákvörðunum og veitt geti samtökunum stöðu málsaðila að stjórnsýslurétti. Þar sem nefnd samtök verða ekki talin eiga aðild að máli þessu ber þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

119/2012 Garðahverfi

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 119/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 24. október 2012, er barst nefndinni 7. nóvember s.á., kærir G, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. ágúst 2012 um að samþykkja deiliskipulag Garðahverfis í Garðabæ.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 16. ágúst 2012 var samþykkt deiliskipulag fyrir Garðahverfi sem markast af Aukatjörn, Skógartjörn og fyrrverandi sveitarfélagamörkum Garðabæjar og Álftaness að vestanverðu. Þá er þar að finna skógræktarsvæði á Garðaholti, Grænagarð, norðan af Garðavegi. Austanverð mörk miðast við mörk deiliskipulags Hleina að Langeyrarmölum. Að sunnan markast skipulagssvæðið af strandlínu. 

Kærandi telur að framangreint deiluskipulag Garðahverfis í Garðabæ muni hafa verulega neikvæð áhrif á hverfið. Nú séu 27 húseignir í hverfinu en fjöldi þeirra muni aukast um 58 húseignir með framangreindu deiliskipulagi. Að sögn kæranda munu þær jarðvegs- og byggingaframkvæmdir  sem fylgja slíkri áætlun hafa neikvæð áhrif á friðlýst svæði í hverfinu og raska skráðum náttúruminjum.

Af hálfu Garðabæjar er bent á að umrætt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi þar sem það hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. ml. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við efnisþætti deiliskipulagsins á sínum tíma og málið því aftur hlotið meðferð hjá skipulagsyfirvöldum. Jafnframt sé tekið fram að skipulag Garðahverfis hafi nú verið samþykkt og tekið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 144/2014, en útgáfudagur þess hafi verið 11. febrúar 2014. Garðabær telji að kæra frá 24. október 2012 geti ekki varðað deiliskipulag Garðahverfis Garðabæjar frá 11. febrúar 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi Garðahverfis í Garðabæ frá 16. ágúst 2012.

Leitt hefur verið í ljós að umrætt deiliskipulag var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er í 2. ml. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

20/2014 Arnargata

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 20/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. febrúar 2014 um breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits og á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 25. mars 2014, um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2014, er barst nefndinni 24. s.m., kæra G og G, Fálkagötu 23a, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. febrúar 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða skipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 28. maí 2014, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. mars 2014 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10 og kefjast þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gera þau jafnframt kröfu til þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 45/2014, sameinað máli þessu. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök:  Hinn 8. nóvember 2013 var á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur tekið fyrir erindi lóðarhafa Arnargötu 10 þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja við einbýlishús á lóðinni. Samþykkt var að grenndarkynna tillögu að deiliskipulagsbreytingu í samræmi við erindið og bárust athugasemdir frá kærendum, sem töldu m.a. að breytingin myndi hafa í för með sér skerðingu á útsýni úr íbúð þeirra og birtuskerðingu á svölum á ákveðnum tímum árs sem hefði í för með sér verðrýrnun á fasteign þeirra. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. janúar 2014, segir m.a. að viðbyggingin sé ekki afgerandi stór og falli að byggingarstíl hússins. Ekki verði fallist á að útsýni teljist til réttinda og ekki talið að um sé að ræða afgerandi skerðingu á birtu eða sólarljósi. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. febrúar s.á. var skipulagstillagan samþykkt. Deiliskipulagsbreytingin tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. mars 2014.

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 25. mars 2014 umsókn um leyfi til að byggja 45 m² viðbyggingu með þaksvölum við húsið að Arnargötu 10 og var byggingarleyfi gefið út 28. maí s.á. Að sögn kærenda hófust framkvæmdir við breytingar á húsinu 26. s.m. Vinna hafi að mestu legið niðri 27. maí í kjölfar kröfu um að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar. Hinn 28. maí hafi þær hafist á ný og kærendur komist að því að byggingarleyfi hefði verið gefið út þann dag.

Kærendur vísa til þess að ekki hafi verið tekið tillit til ofangreindra athugasemda þeirra og til til þess að þau hafi keypt íbúðina fyrir tæpu ári óafvitandi um nefndar framkvæmdir, en fermetraverð hafi verið langt yfir meðaltali svæðisins. Kynningarferli skipulagsbreytingarinnar hafi verið sýndarmennska og hafi kærendur m.a. ekki fengið að sjá skýrslu um skuggavarp á nærliggjandi lóðir. Þá hafi ekki verið hlustað á þau þegar þau hafi látið í ljós að þau væru tilbúin að skoða aðrar útfærslur.

Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til fyrrgreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Þá geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á þeirra nánasta umhverfi. Byggingarleyfið sé í samræmi við deiliskipulag og fresti kæra á deiliskipulagsbreytingu því ekki réttaráhrifum þess. Vísað sé til meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Jafnframt sé ljóst að kjósi byggingarleyfishafi að halda framkvæmdum áfram, áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri hann það á eigin ábyrgð og áhættu.

Byggingarleyfishafa var gefinn frestur til 4. júní 2014 til að koma að athugasemdum vegna fram kominnar stöðvunarkröfu, en athugasemdir hans hafa ekki borist úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. júní 2014.

———————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar deiliskipulagsákvörðunar og byggingarleyfis sem við hana styðst vegna Arnargötu 10. Hið umdeilda deiliskipulag heimilar að reist verði viðbygging, allt að 50 m², á tveimur hæðum með þaksvölum á viðbyggingunni. Nýtingarhlutfall hækkar við breytinguna úr 0,51 í 0,72. Á lóðinni er fyrir 120 m² einbýlishús og voru byggingarheimildir fyrir lóðina samkvæmt eldra skipulagi frá 28. maí 2008 fullnýttar fyrir umdeilda breytingu.

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinna kærðu ákvarðana, m.a. er til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið til að grenndarkynna tillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdir eru þegar hafnar og geta haft röskun í för með sér, m.a. fyrir kærendur. Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en byggingarleyfishafi getur óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru á grundvelli samþykktar byggingarfulltrúans í Reykjavík 25. mars 2014, um að veita leyfi til að byggja viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
 

__________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

43/2013 Höfðaströnd

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 43/2013, kæra á ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2013 vegna fasteignarinnar Höfðastrandar í Jökulfjörðum, Ísafjarðarbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. maí 2013, er barst nefndinni 3. s.m., kærir Ó, Brunnagötu 20, Ísafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að leggja sorpförgunargjald á fasteignina Höfðaströnd í Jökulfjörðum, Ísafjarðarbæ. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að kærð sé álagning sorpgjalds fyrir árið 2013 og að gerð sé krafa um að hún verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Ísafjarðarbæ 6. mars 2014.

Málavextir: Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2013 eru dagsettir 30. janúar 2013. Kæranda var gert að greiða 13.230 krónur í sorpgjald vegna Höfðastrandar. Með bréfi til Ísafjarðarbæjar, dags. 15. febrúar s.á., óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Í svari, dags. 18. s.m., sagði að ósk um lækkun sorpgjalda væri hafnað. Var vísað til sorpsamþykktar Ísafjarðabæjar um að sumarhús skyldu bera lágmarkssorpgjald og að ógjörningur væri að fylgjast með notkun. Þá væri greitt fullt sorpgjald vegna margra íbúða þótt þær væru ekki nýttar nema nokkra daga á ári. Kærandi sendi annað bréf, dags. 13. mars s.á., þar sem hann óskaði eftir að fá að semja við annan aðila um sorpförgun og fá gjaldið fellt niður. Erindinu var hafnað í bæjarráði og kæranda tilkynnt þar um með bréfi, dags. 27. s.m. Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis sem leiðbeindi henni um kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að um sé að ræða eyðijörð sem sé flokkuð sem sumarhús. Kerfið eigi að virka þannig að komið sé með sorp frá Höfðaströnd og það sett í gám, sem eigi að vera staðsettur við Ísafjarðarhöfn. Sé sorpförgunargjaldið því aðeins förgunargjald en ekki sorphirðugjald. Þá bendir hún á að fyrirtæki í Ísafjarðarbæ séu ekki hluti af sorpförgunarkerfi bæjarins heldur semji þau sjálf við förgunaraðila.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Sorpgjöld hafi í fyrsta sinn verið lögð á sumarhús í Ísafjarðarbæ árið 2012, en skv. 9. gr. sorpsamþykktar Ísafjarðarbæjar skuli öll íbúðarhæf sumarhús greiða 50% af sorpförgunargjaldi. Í álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2013 sé gjaldið 13.230 krónur, eða innan við 33% af sorpförgunargjaldi, sem sé 39.300 krónur, en árið 2012 hafi gjaldið verið 14.700 krónur. Ísafjarðarbær hafi komið fyrir sorpílátum annars vegar við smábátahöfnina á Ísafirði og hins vegar á Snæfjallaströnd. Allt sorp frá Hornströndum sé losað á annan hvorn þessara staða en ekki sé heimilt að brenna rusli á Hornströndum. Því þurfi ferðafólk að taka það með sér þegar það fari þaðan og falli mikið sorp til vegna þessa.

Í 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs segi m.a. að innheimta skuli gjald fyrir förgun úrgangs. Gjaldið skuli nægja fyrir öllum kostnaði við förgun, þ.m.t. uppsetningu og rekstur viðkomandi förgunarstaðar. Sveitarfélaginu sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi en gjaldið skuli þó aldrei vera hærra en nemi þeim kostnaði sem falli til í sveitarfélaginu vegna þess.

Á Hornströndum séu skráð 52 sumarhús og því megi áætla að Ísafjarðarbær hafi 687.960 krónur í tekjur vegna sorphirðugjalda á árinu 2013 en 764.400 krónur á árinu 2012. Þegar litið sé á heildartekjur Ísafjarðarbæjar vegna sorphirðu megi sjá að þær séu töluvert undir sorphreinsunarkostnaði og hafi verið það undanfarin fimm ár. Áætlanir sveitarfélagsins bendi til að svo verði einnig árið 2014.

   Áætlun 2014         2013       2012  2011
Skatttekjur -64.280.000 -64.480.289 -71.972.624 -71.186.386
Sorphreinsun 69.000.000 77.710.498 121.742.272 100.392.786
Tap 4.720.000 13.230.209 49.769.648 29.206.400

Aðrar tekjur v/
sorpeyðingar -8.348.880 -10.018.616 -11.718.347 21.890.855
Önnur gjöld v/
sorpeyðingar 11.455.422 13.103.397 11.992.904 1.752.748
Rekstrarniðurstaða 7.826.542 16.314.990 50.044.205 9.068.293

Ljóst sé að heildartekjur sveitarfélagsins hafi verið mun lægri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangs og sé eyðing sorps hjá sveitarfélaginu því rekin með verulegu tapi. Gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustu vegna sorps, sbr. 8. gr. sorpsamþykktar Ísafjarðarbæjar. Þar sem sorphirða sé til staðar og jafnframt rekin með tapi sé ekki grundvöllur til að fella gjaldið niður.

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds á sumarbústað. Álagningarseðill er dagsettur 30. janúar 2013 og kæra barst rúmum þremur mánuðum seinna, eða 3. maí s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi bað um rökstuðning með bréfi, dags. 15. febrúar 2013, og var hann veittur með bréfi, dags. 18. s.m. Þá óskaði kærandi með bréfi, dags. 13. mars s.á, eftir að ákvörðunin yrði endurskoðuð, en beiðninni var hafnað með bréfi 27. s.m. Nýr kærufrestur byrjar að líða að tilkynntum rökstuðningi, skv. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 73/1993, og rofnar kærufrestur við beiðni um endurupptöku máls, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Kæranda voru hvorki veittar leiðbeiningar um kæruleið og kærufrest með upphaflegri ákvörðun né í síðari bréfum stjórnvaldsins, en var leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 24. apríl 2013. Með vísan til framangreinds er talið afsakanlegt að kæran hafi borist utan kærufrests og verður málið því tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ísafjarðarbær setti með vísan til þessa samþykkt nr. 1221/2011, um sorphirðu í Ísafjarðarbæ, sem staðfest var af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. desember 2011. Í samþykktinni segir að Ísafjarðarbær annist söfnun sorps frá íbúðarhúsnæði í þéttbýli og á gámastöðvum fyrir íbúðarhúsnæði í dreifbýli. Þá annist bærinn förgun úrgangs, sbr. 2. mgr. 1. gr. samþykktarinnar. Í dreifbýli sé heimilt að setja upp ílát fyrir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili, sbr. 4. mgr. 3. gr.

Sveitarfélögum er skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. samþykktar nr. 1221/2011 innheimtir bæjarstjórn Ísafjarðar gjald fyrir förgun úrgangs og er sveitarfélaginu heimilt að innheimta gjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs. Skulu gjöldin ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum áðurnefndrar 11. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Gjöld fyrir hirðu og förgun úrgangs skulu innheimtast með fasteignagjöldum og skulu lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóta þjónustunnar, sbr. 2. mgr. 8. gr. samþykktarinnar. Um álagningarforsendur segir í 9. gr. að öll sumarhús í Ísafjarðarbæ greiði 50% af sorpförgunargjaldi.

Ísafjarðarbær setti, með vísan til fyrri samþykktar fyrir sorphirðu hjá Ísafjarðarbæ nr. 135/2000 og 25. gr. laga nr. 7/1998, gjaldskrá nr. 304/2010 fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Ísafjarðarbæ, sem var birt 9. apríl 2010. Þar kemur fram í 1. gr. að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sé heimilt að leggja á sérstakt gjald vegna sorphirðu, þ.e. sorphreinsunar og sorpeyðingar, í Ísafjarðarbæ. Gjaldið fyrir íbúðir og íbúðarhúsnæði er alls 41.580 krónur, sem skiptist í sorphirðugjald að fjárhæð 13.500 krónur og sorpeyðingargjald að fjárhæð 28.080 krónur, sbr. A-lið 1. mgr. 2. gr. Vegna sumarbústaða og íbúðarhúsnæðis með ákvæði um takmörkun á íveru vegna snjóflóðahættu skal greiða 14.000 króna sorpeyðingargjald, eða tæplega helming hins almenna sorpeyðingargjalds, en ekki er innheimt sorphirðugjald vegna slíkra eigna. Bæjarstjórn hefur heimild til að breyta gjaldtöku, með tilliti til réttmætis athugasemda við gjaldtöku, sbr. 4. gr. Hafnað var að beita nefndri heimild til lækkunar í máli kæranda og verður að telja að sú ákvörðun hafi verið tekin á málefnalegum grundvelli enda liggur fyrir að Ísafjarðarbær hefur með almennum hætti ákveðið lægri gjöld á sumarhús, sbr. álagningarforsendur 9. gr. samþykktar nr. 1221/2011.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og er raunar skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 9. gr. samþykktar nr. 1221/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hennar. Er fjárhæðin sem kærandi var krafinn um lægri en sú sem heimilt var að leggja á. Þá var heildarkostnaður sveitarfélagsins samkvæmt framlögðum gögnum hærri en heildarútgjöld þess. Í samræmi við framangreint verður kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um að leggja á sorpgjald fyrir árið 2013 vegna fasteignarinnar Höfðaströnd í Jökulfjörðum, Ísafjarðarbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

20/2014 Arnargata

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 19. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 20/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. febrúar 2014 um breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits og á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 25. mars 2014, um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2014, er barst nefndinni 24. s.m., kæra G og G og fyrir hönd sex íbúa og eigenda íbúða að Fálkagötu 23a, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. febrúar 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða skipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 28. maí 2014, kæra nefnd G og G ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. mars 2014 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10, með kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Var það mál, sem er nr. 45/2014, sameinað máli þessu. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi yrðu stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu í úrskurði uppkveðnum 5. júní 2014.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Fálkagötureits, sem afmarkast af Tómasarhaga, Hjarðarhaga, Suðurgötu og lóðunum við Fálkagötu 1-13 og Tómasarhaga 7, er tók gildi hinn 8. júlí 2008. Samkvæmt því skipulagi var ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á lóðinni Arnargötu 10.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 11. október 2013 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort heimilað yrði að byggja við húsið að Arnargötu 10. Var bókað á fundinum að með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 8. október 2013 væru ekki gerðar athugasemdir við að unnin yrði tillaga að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið sem yrði grenndarkynnt þegar hún bærist. Hinn 8. nóvember 2013 var á fundi skipulagsfulltrúa tekin fyrir umsókn lóðarhafa Arnargötu 10 um deiliskipulagsbreytingu þar sem heimilað yrði að byggja við húsið að Arnargötu 10. Samþykkt var að grenndarkynna skipulagsbreytinguna og bárust athugasemdir frá kærendum. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. febrúar s.á. var skipulagstillagan samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. mars 2014. Með deiliskipulagsbreytingunni er heimiluð allt að 50 m2 tveggja hæða viðbygging við norðvestur hlið hússins að Arnargötu 10 og jafnframt heimilað að nýta þakflöt viðbyggingarinnar sem svalir. Við breytinguna fór heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,51 í 0,72.

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 25. mars 2014 umsókn um leyfi til að byggja 45 m² viðbyggingu með þaksvölum við húsið að Arnargötu 10. Munu framkvæmdir hafa hafist við breytingar á húsinu 26. maí s.á., vinna legið að mestu niðri 27. s.m, en hafist á ný við útgáfu byggingarleyfis 28. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að heimiluð viðbygging að Arnargötu 10 muni hafa í för með sér skerðingu á útsýni úr íbúð þeirra og birtuskerðingu á svölum á ákveðnum tímum árs, sem hefði í för með sér verðrýrnun á fasteign þeirra. Þau hafi keypt umrædda fasteign fyrir tæpu ári, óafvitandi um nefndar framkvæmdir og greitt fyrir fermetraverð sem hafi verið langt yfir meðaltali svæðisins. Kynningarferli skipulagsbreytingarinnar hafi verið sýndarmennska. Ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda þeirra. Hafi kærendur m.a. ekki fengið að sjá skýrslu um skuggavarp á nærliggjandi lóðir og engu hafi breytt þótt þeir hafi lýst vilja sínum til að fallast á aðrar útfærslur á fyrirhugaðri viðbyggingu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til fyrrgreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa vegna málsins, dags. 10. janúar 2014. Þar komi m.a. fram að umdeild viðbygging sé ekki afgerandi stór og falli hún að byggingarstíl hússins. Ekki verði fallist á að útsýni teljist til lögvarinna réttinda og ekki verði talið að um sé að ræða afgerandi skerðingu á birtu eða sólarljósi gagnvart fasteign kærenda. Eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á þeirra nánasta umhverfi. Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag.

Andmæli byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafar telja fráleitt að hin umdeilda viðbygging hafi í för með sér slæmar breytingar fyrir hverfið. Þvert á móti sé stuðlað að hæfilegri uppbyggingu á reitnum. Fordæmi sé fyrir svipuðum viðbyggingum við öll hús á Arnargötu og þyki mikil prýði af. Bent sé á að þegar fólk kaupi sér íbúð í þéttbýli megi það alltaf búast við röskun á nánasta umhverfi. Tekið sé undir með skipulagsfulltrúa Reykjavíkur að útsýni innan borgarmarka teljist til gæða en ekki sé fallist á að það sé réttur. Hljóti hagsmunir byggingarleyfishafa af áframhaldandi búsetu á eign sinni að vega þyngra en örlítið sjávarútsýni, sem njóta megi af takmörkuðum hluta svala kærenda. Nefnt útsýni sé þvert í gegnum nánast trjágróðurlausa lóð byggingarleyfishafa en tré skyggi á sjávarútsýni kærenda annars staðar á svölunum. Útsýni þetta myndi hverfa með öllu ef byggingarleyfishafar myndu rækta upp álíka tré. Telji byggingarleyfishafar ósannað að framkvæmdir þeirra muni valda verðmætisrýrnun á eign kærenda. Að öðrum kosti sé á það bent að kærendur geti eftir atvikum gert kröfu um bætur af þeim sökum á hendur Reykjavíkurborg, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé ekki um afgerandi skerðingu á sólarljósi að ræða samkvæmt stöðluðum skuggavarpsuppdráttum.

Byggingarleyfishafar hafi verið verið grunlausir um fram komna kæru á þeim tíma sem framkvæmdir hófust. Fjarstæða sé að kynningarferli vegna deiliskipulagsbreytinga hafi verið sýndarmennska og að athugasemdir kærenda hafi verið hunsaðar. Þvert á móti hafi skuggavarp og sjónlínur verið skoðaðar og aðrar tillögur gerðar, en óbreytt viðbyggingartillaga hafi verið eini raunhæfi kosturinn. Þá leiki enginn vafi á því að heimilt hafi verið að viðhafa þá málsmeðferð sem gert hafi verið. Deiliskipulagstillagan sé í mjög góðu samræmi við notkun, útlit og form svæðisins og feli í sér óverulega aukningu á nýtingarhlutfalli. Megi í því samhengi benda á að nýtingarhlutfall annarra lóða við Arnargötu sé með ýmsu móti, t.d. sé það hærra við Arnargötu 14 en hjá byggingarleyfishöfum. Nýtingarhlutfall eftir breytingu geti því ekki talist óeðlilega hátt í þessu samhengi og hin umþrætta deiliskipulagsbreyting sé í góðu samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Byggingarleyfishafar taki að öðru leyti undir sjónarmið Reykjavíkurborgar.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 5. júní 2014.

———————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Á skipulagssvæði því sem hér um ræðir er þétt byggð sem þegar var mótuð við gildistöku deiliskipulags Fálkagötureits árið 2008. Baklóðir Arnargötu 10 og Fálkagötu 23a snúa hvor að annarri en hafa ekki sameiginleg lóðamörk. Fasteignin að Arnargötu 10 stendur vestanvert frá baklóð fasteignar kærenda. Með hinni umdeildu skipulagsbreytingu var heimilað að reisa allt að 50 m² viðbyggingu á tveimur hæðum og að nýta þakflöt viðbyggingarinnar sem svalir. Nýtingarhlutfall hækkar við breytinguna úr 0,51 í 0,72. Á lóðinni er fyrir 120 m² einbýlishús og voru byggingarheimildir fyrir lóðina samkvæmt eldra skipulagi frá árinu 2008 fullnýttar fyrir umdeilda breytingu. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var gerð að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga skal fara með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða með því fráviki að ekki er skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Sú undantekning er gerð í 2. mgr. 43. gr. sömu laga að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins, skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Er sambærilegt ákvæði að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Í frumvarpi til núgildandi skipulagslaga segir m.a. um nefnda 2. mgr. 43. gr. laganna: „Lagt er til það nýmæli í 2. mgr. að sett eru fram viðmið í greininni um það hvenær um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða, en við mat á því þarf að skoða að hversu miklu leyti deiliskipulagstillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti, formi og svipmóti viðkomandi svæðis. Sem dæmi um óverulegar breytingar af þessu tagi er þegar iðnaðarhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett eru í garð o.s.frv.“ Slíkar breytingar á deiliskipulagi skulu þannig grenndarkynntar í stað þess að þær verði auglýstar.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er nýtingarhlutfall lóðarinnar að Arnargötu 10 aukið um rúm 40% þar sem fyrir er þétt byggð. Með hliðsjón af því, og þar sem ætla má að viðbyggingin með heimiluðum þaksvölum sé til þess fallin að hafa grenndaráhrif gagnvart næstu lóðum, verður að telja, eins og á stóð, að ekki hafi verið skilyrði til að grenndarkynna skipulagstillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Með hliðsjón af framangreindu verður hin kærða deiliskipulagsákvörðun talin haldin slíkum annmörkum að fallast verði á kröfu um ógildingu hennar.

Að þeirri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildandi deiliskipulagi og enn fremur liggur fyrir að ekki var leitað álits minjaverndar við meðferð byggingarleyfisins, svo sem áskilið er í 30. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012, þar sem húsið að Arnargötu 10 var byggt fyrir 1925. Verður byggingarleyfið því jafnframt fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. febrúar 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits.
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. mars 2014 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10, Reykjavík eru felldar úr gildi.

__________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

71/2012 Skátafélagið Vífill

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 27. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 71/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 11. júlí 2012, stíluðu á innanríkisráðuneytið, er framsent var úrskurðarnefndinni og barst henni 13. s.m., kæra G, Faxatúni 18, S, Faxatúni 20, K, Faxatúni 22, H, Faxatúni 24, og H, Faxatúni 26, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis frá 19. október 2009 að veita Skátafélaginu Vífli starfsleyfi til að starfrækja félagsheimili og samkomusal að Bæjarbraut 7 í Garðabæ.

Verður að skilja kröfur kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá verður kæran skilin svo að einn kærenda,  krefjist þess jafnframt að sú ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 22. nóvember 2011 að hafna kröfu kæranda um afturköllun á starfsleyfinu verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Garðabæ 10. september 2012.

Málsatvik og rök: Hinn 19. október 2009 samþykkti heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis umsókn Skátafélagsins Vífils og gaf út starfsleyfi til að reka félagsheimili og samkomusal í húsnæði skátafélagsins að Bæjarbraut 7 í Garðabæ. Leyfið tekur til reksturs félagsheimilis, samkomusalar og móttökueldhúss.

Einn kærenda fór fram á það í erindi, dags. 11. nóvember 2011, að starfsleyfið yrði afturkallað og útleiga á samkomusal í skátaheimilinu stöðvuð án tafar. Erindinu var hafnað af heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og var kæranda tilkynnt um það með bréfi dags. 22. s.m.

Kærendur telja að veislusalir skuli ekki vera starfræktir 30-40 metrum frá svefnherbergisgluggum íbúðarhúsa. Þá hafi bæjarstjórn verið vanhæf við ákvörðun um skilgreiningu svæðisins í deiliskipulagi. Auk starfsleyfis sé kvartað yfir samþykkt deiliskipulags fyrir. Þá sé tekið fram að samþykkt deiliskipulags hafi verið kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála en kæran barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 11. júlí 2012 og var úrskurður kveðinn upp í því máli 23. maí 2014.

Af hálfu Garðabæjar er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá sem of seint fram kominni.

Niðurstaða: Ekki verður fjallað um kröfur kærenda vegna samþykktar á deiliskipulagi Silfurtúns enda liggur fyrir úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 69/2012 frá 23. maí 2014.

Hið umdeilda starfsleyfi var gefið út í október 2009 og var þá kæranlegt til úrskurðarnefndar skv. þágildandi 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kærufrestur til þeirrar nefndar var þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá var einum kærenda tilkynnt með bréfi 22. nóvember 2011 að erindi hans um afturköllun starfsleyfis og stöðvun á starfsemi væri hafnað og í bréfinu leiðbeint um kæruleið til áðurgreindar nefndar sem og nefndan þriggja mánaða kærufrest.

Áðurnefnd úrskurðarnefnd var lögð niður frá og með 1. janúar 2012 með lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Frá sama tíma eru ákvarðanir samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II við lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæran barst rúmlega rúmlega tveimur og hálfu ári eftir að leyfið var gefið út og tæpum átta mánuðum frá því að ákvörðun þess efnis að starfsleyfið yrði ekki afturkallað var tilkynnt þeim kæranda er þess hafði krafist. Kæran er því of seint fram komin og verður vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________
Nanna Magnadóttir

90/2013 Skerjabraut

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 10. júní, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir mál nr. 90/2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Sigmundur Hannesson, hrl. f.h. I og Ó, áður til heimilis að Skerjabraut 3a, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að nýtingarhlutfall á lóðinni að Skerjabraut 3a verði hið sama og á lóðunum nr. 1-3 við Skerjabraut ella að nýtingarhlutfall þeirra lóða verði hið sama og á lóðinni nr. 3a við Skerjabraut. Þá krefjast kærendur stöðvunar réttaráhrifa meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 16. janúar 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. desember 2013 á umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut. Gera kærendur kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda. Ítrekuðu kærendur kröfu sína um stöðvun framkvæmda með bréfi til nefndarinnar sem móttekið var 3. apríl 2014. Verður síðara kærumálið sem er nr. 3/2014 sameinað kærumáli þessu. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar.

Málsgögn bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. janúar 2014, 24. s.m. og 27. febrúar s.á.

Málavextir: Hinn 22. júní 2011 var á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness samþykkt deiliskipulag Lambastaðahverfis og tók skipulagið gildi í október s.á. Var umrætt skipulag kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá. Taldi nefndin að hin kærða ákvörðun væri ógild þar sem auglýsing um gildistöku skipulagsins hefði ekki verið birt innan lögboðins tímafrests og því lægi ekki fyrir gild ákvörðun er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Í framhaldi af því var ákveðið að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna „endurauglýsingar“ deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við áður samþykkta deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis að því undanskyldu að skipulag fyrir lóðina Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabraut 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6, samþykktir árið 1973. 

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa téða tillögu. Var tillagan auglýst til kynningar frá 4. mars til 26. apríl 2013 með athugasemdafresti til 26. apríl og bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. þ.m. Var svohljóðandi fært til bókar: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar“. Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Nær deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs, af sjó til suðvesturs og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða. Gerir deiliskipulagið m.a. ráð fyrir að á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut, sem liggur að hluta að lóðinni nr. 3a við Skerjabraut, verði reist fjölbýlishús með samtals 23 íbúðum og 34 bílastæðum á lóð. Er nýtingarhlutfall lóðarinnar með kjallara 1,05 og nýtingarhlutfall lóðar án kjallara 0,95.

Hinn 19. nóvember 2013 var á fundi skipulags- og umferðanefndar tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús með 23 íbúðum á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut. Var afgreiðslu málsins frestað, þar eð ákveðin gögn lægju ekki fyrir. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti svo framlagða umsókn hinn 18. desember s.á.

Framangreindum ákvörðunum hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er lýst.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ójafnræðis gæti í heimiluðu nýtingarhlutfalli lóðar þeirra og Skerjabrautar 1-3 en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,7 en nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skerjabraut 1-3 verði 1,05. Réttmætt sé að kærendur sitji við sama borð og lóðarhafi Skerjabrautar 1-3 hvað nýtingarhlutfall lóðar varði. Þá sé bent á að skipulags- og umferðanefnd hafi frestað afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi og hafi því líklega ætlað að taka nefnda umsókn aftur fyrir til afgreiðslu. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi hins vegar samþykkt umsóknina þrátt fyrir að kæra vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis væri til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Hafi hann með því farið á svig við grunnreglur stjórnsýsluréttar. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda um ógildingu verði hafnað og öðrum kröfum mótmælt. Með breytingu á deiliskipulagi sé verið að koma að nokkru til móts við sjónarmið kærenda með því að lækka nýtingarhlutfall úr 1,27 á lóðinni að Skerjabraut 1-3, líkt og það sé nú samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir lóðina, í 1,05. Mismunur á nýtingarhlutfalli byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Einnig sé með deiliskipulaginu komið til móts við sjónarmið kærenda um að þeim verði heimilt að nýta lóð sína betur. Vegna andmæla nágranna, grenndaráhrifa og byggðamynsturs hafi ekki verið talið hægt að leyfa meira byggingarmagn á lóðinni nr. 3a við Skerjabraut.

Þá hafi engin lög eða stjórnsýslureglur verið brotnar við afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar. Málið hafi ekki verið tækt til endanlegrar afgreiðslu fyrr en gögn, m.a. frá eldvarnareftirliti SHS, hafi borist. Engin ástæða hafi verið til að taka málið aftur upp í nefndinni en byggingarfulltrúi skuli lögum samkvæmt afgreiða byggingarmál nema samþykktir sveitarfélags geri ráð fyrir öðru og sé svo ekki hér.  

Málsrök byggingarleyfishafa Skerjabrautar 1-3: Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur séu ekki þinglýstir eigendur að Skerjabraut 3a og þegar af þeim sökum eigi þeir engra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu. Núverandi heimili þeirra sé um 4 km frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun geti haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra og beri því að vísa kærumálinu frá nefndinni. Geri kærendur engan reka að því að rökstyðja málsaðild sína í kærunni og hafi því ekki sýnt fram á einstaklingsbundna lögmæta hagsmuni af málinu eða hverra hagsmuna þeir hafi að gæta af því að framkvæmdir hefjist ekki. Einnig sé bent á að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá hafi skipulags- og byggingarfulltrúi haft fulla heimild til að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. 

Niðurstaða: Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands seldu kærendur fasteign sína að Skerjabraut 3a hinn 19. desember 2012. Fasteignin var afhent 1. júní 2013, afsal gefið út 1. ágúst s.á. og því þinglýst 8. s.m. Því er áður lýst að hið umdeilda deiliskipulag var samþykkt með ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 og tók það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst s.á. Þá var umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut samþykkt af skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness 18. desember 2013.

Kærendur munu nú vera búsettir að í Reykjavík eða í töluverðri fjarlægð frá því svæði er deiliskipulag Lambastaðahverfis tekur til. Getur deiliskipulagið og byggingar-leyfi gefið út í samræmi við það ekki haft þau áhrif á umhverfi kærenda að snert geti lögvarða hagsmuni þeirra þegar litið er til staðsetningar húss þeirra að og afstöðu þess til heimilaðra bygginga á lóðinni að Skerjabraut 1-3 eða til skipulagssvæðisins í heild sinni. Eiga kærendur því ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, og ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

69/2012 Silfurtún

Með

Árið 2014, föstudaginn  23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðarbæjar frá 3. maí 2012 um að samþykkja deiliskipulag Silfurtúns.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra G, Faxatúni 18, S, Faxatúni 20, K, Faxatúni 22, H, Faxatúni 24, og H, Faxatúni 26, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. maí 2012 að samþykkja deiliskipulag Silfurtúns. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé að deiliskipulagið verði fellt úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Garðabæ 7. september 2012.

Málavextir: Hinn 10. mars 2011 var á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar lögð fram lýsing á deiliskipulagi Túna. Lýsingin var kynnt á fundi með íbúum sama dag og var einnig send Skipulagsstofnun, sem gerði ekki athugasemdir við hana. Á fundi bæjarstjórnar 3. nóvember s.á. var ákveðið að kynning skyldi fara fram skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún haldin frá 11. nóvember til 12. desember s.á. og fundað með íbúum 21. nóvember s.á. Skipulagsnefnd samþykkti að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 19. janúar 2012, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna. Tillagan lá frammi frá 30. s.m. til 12. mars s.á. og bárust andmæli frá kærendum á þeim tíma. Var tillagan tekin fyrir að nýju hjá skipulagsnefnd 18. apríl s.á., ásamt greinargerð skipulagsráðgjafa vegna innsendra athugasemda, og samþykkt óbreytt. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar 3. maí 2012. Athugasemdum viðkomandi aðila var svarað með bréfum, dags. 13. júní s.á. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí s.á., að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar, sem gerði ekki athugasemdir við birtingu þess. Við gildistöku skipulagsins féll úr gildi deiliskipulagið Silfurtún-Hofstaðamýri frá 2001 sem tók til hluta svæðisins, þ.e. leikskólans Bæjarbóls, skátaheimilisins Jötunheima og aðliggjandi útivistarsvæða.

Bæjarstjórn Garðabæjar hafði hinn 16. júní 2011 samþykkt deiliskipulagsbreytingu, sem fól í sér nýjan byggingarreit á lóð leikskólans Bæjarbóls við Bæjarbraut, og var byggingarleyfi fyrir bráðabirgðahúsi á lóð leikskólans gefið út í kjölfarið. Þessar ákvarðanir voru kærðar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og þess krafist að þær yrðu felldar úr gildi. Nefndin hafnaði kröfunni með úrskurði 26. ágúst 2011.

Málsrök kærenda: Kærendur mótmæla stækkun byggingarreits vegna skátaheimilisins Jötunheima. Vísa þeir til deiliskipulagsins þar sem fram komi að Silfurtún sé elsta þéttbýlisbyggð í bænum sem einkennist af þéttri lágreistri byggð einbýlishúsa og skoða skuli möguleika á eðlilegri endurnýjun svæðisins er taki mið af heildaryfirbragði hverfisins án þess að raska gæðum þess eða réttindum íbúa. Gera skuli bæjar- og húsakönnun, sem hafa skuli til hliðsjónar við gerð deiliskipulagstillögunnar, sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þannig verði tryggð næg þekking til að taka upplýstar ákvarðanir um verndun og gæði byggðar og einstakra húsa og til að tryggja gæði og yfirbragð hins byggða umhverfis til framtíðar. Kærendur telji að þegar deiliskipulag var upphaflega gert fyrir lóðina Bæjarbraut 7, Jötunheima, hafi ekki verið tekið tillit til umhverfisins og yfirbragðs hverfisins.

Kærendur bendi á að í öllu kynningarferlinu í aðdraganda þess að hið kærða deiliskipulag væri samþykkt, bæði á fundum og í skriflegum athugasemdum, hafi þeir gert athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á byggingarreit skátaheimilisins. Húsið sé tæpir 1000 m², hæð þess rúmlega 9 m, fyrir utan tveggja metra upphækkun lóðarinnar sem það standi á, eða samtals 11 m, en hámarkshæð íbúðarhúsanna sé 4,2 m. Kærendur telji að skipulagsnefnd, bæjarráð og bæjarstjórn hafi ekki haft í huga markmið deiliskipulagsins varðandi heildaryfirbragð hverfisins og þar með hafi gæðum hverfisins fyrir íbúa verið raskað. Með stækkun byggingarinnar og stækkun byggingarreits hafi ekki verið tekið mið af hinni þéttu lágreistu byggð sem lýst sé í deiliskipulaginu. Húsið Jötunheimar gnæfi yfir lágreist hverfið og hvers konar viðbyggingar geti ekki á neinn máta fallið að byggðinni.

Í öðru lagi snúi kröfur kærenda að landnotkun á lóðinni þar sem skátaheimilið standi, en þeir krefjist þess að svæðið verði skilgreint þannig að það sé einungis ætlað fyrir starfsemi sem tilheyri skátastarfi. Leyft hafi verið að leigja út veislusal á efri hæð hússins. Sú starfsemi hafi aldrei farið í grenndarkynningu og í gögnum um deiliskipulag hafi ekkert komið fram um hana heldur hafi bæjarstjórnendur haldið sig við skilgreiningu á blandaðri starfsemi. Þegar byggingin hafi fyrst verið grenndarkynnt hafi kynningin aldrei snúist um aðra starfsemi en skátastarf. Hús kærenda standi 30 til 100 m frá Jötunheimum og í þeim séu svefnherbergi sem snúi beint að skátaheimilinu. Kærendur hafi orðið fyrir verulegu ónæði frá starfsemi í skátaheimilinu og þá sérstaklega vegna nefnds veislusalar. Þá hafi börnin orðið fyrir áreitni á göngustígum vegna starfseminnar. Telji kærendur að brotið hafi verið gegn gr. 4.2.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.

Í þriðja lagi geri kærendur athugasemdir við að ekki komi fram hversu lengi færanleg skólastofa megi vera á lóð leikskólans Bæjarbóls. Á svæðinu sé töluverð starfsemi sem gangi í berhögg við gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð um íbúðarsvæði. Bæjaryfirvöld hafi ekki komið til móts við óskir kærenda.

Í fjórða lagi fari kærendur fram á að göngustígur ofan við hús þeirra verði skilgreindur í deiliskipulagi. Stígurinn sé innan við tvo metra frá svefnherbergisgluggum þeirra og telji kærendur að með þessu sé einnig brotið gegn gr. 4.2.2 í skipulagreglugerð.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að ákvörðun bæjarstjórnar um deiliskipulag fyrir Silfurtún verði staðfest. Sveitarfélög skuli bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við vinnslu skipulagsins hafi verið tekið tillit til þess að um sé að ræða þegar byggt hverfi. Reynt hafi verið að tryggja það byggðamynstur sem sé fyrir hendi og skilgreina byggingarreiti einstakra lóða og nýtingarhlutfall þeirra. Stefna aðalskipulags hafi verið lögð til grundvallar en þar sé svæðið skilgreint sem íbúðarsvæði, athafnasvæði og útivistarsvæði. Í greinargerð sé forsendum skipulagsins lýst og í samantekt um málsmeðferð megi sjá að við vinnslu þess hafi verið gætt ákvæða skipulagslaga um málsmeðferð.

Í kæru séu fyrst og fremst gerðar athugasemdir við lóð skátaheimilisins við Bæjarbraut 7. Stækkun byggingarreits á lóðinni og öllum viðbótarbyggingum sé mótmælt. Í þessu sambandi sé af hálfu Garðabæjar bent á að lóð skátaheimilisins hafi áður verið hluti af deiliskipulagi Mýra og Silfurtúns sem samþykkt hafi verið á árinu 2001. Lóðinni hafi verið lýst á eftirfarandi hátt: „Á lóð hjálparsveitar skáta er gert ráð fyrir húsi fyrir sameiginlega starfsemi sveitarinnar og Skátafélagsins Vífils og að þar verði bæði húsnæði fyrir félagsstarf og aðstaða fyrir tæki og búnað hjálparsveitarinnar. Hámarksmænishæð húss er 9,0 m og hámarksnýtingarhlutfall 0,4. Á lóðinni skal gera ráð fyrir 1 bílastæði pr. 35 fm en einnig er heimil nýting almennra bílastæða við húsagötu. Aðstaða fyrir stóra bíla og annan búnað hjálparsveitarinnar skal vera á bakhluta lóðarinnar. Á lóðinni er kvöð um gönguleið frá Faxatúni að Bæjarbraut.“

Í hinu nýja deiliskipulagi sé stærð lóðarinnar óbreytt en byggingarreitur stækkaður í þeim tilgangi að unnt verði að byggja lyftuhús við inngang og bæta aðgengi fatlaðs fólks að húsinu. Þá sé nýtingarhlutfall aukið í 0,6 og í greinargerð komi fram að um aukningu sé að ræða úr 0,5 en samanburður við eldra skipulag sýni aukningu á nýtingarhlutfalli úr 0,4 í 0,6. Með auknu nýtingarhlutfalli skapist möguleikar til að nýta ónýttan byggingarreit hússins til að byggja einnar hæðar viðbyggingu, en skortur sé á geymsluhúsnæði fyrir tæki og búnað hjálparsveitar skáta. Að sögn skipulagstjóra hafi við gerð skipulagsins verið rætt um aukið byggingarmagn á lóðinni, fyrst og fremst vegna stækkunar inngangs og hugsanlega vegna byggingar geymsluhúsnæðis. Hann telji að nægjanlegt sé að auka nýtingarhlutfall úr 0,4 í 0,5. Því muni Garðabær leggja tillögu fyrir skipulagsnefnd um leiðréttingu á nýtingarhlutfalli lóðarinnar.

Augljóst sé að með hinu nýja skipulagi sé á engan hátt verið að raska hagsmunum kærenda þótt byggingarreitur sé stækkaður og nýtingarhlutfall lóðar hækkað. Í því sambandi sé sérstaklega bent á að aðkoma að lóð skátaheimilisins sé frá Bæjarbraut, langt frá húsum kærenda. Umferð að húsinu geti því á engan hátt valdið kærendum óþægindum eða ónæði.

Í kæru sé því haldið fram að starfsemi í skátaheimilinu valdi íbúum óþægindum og ónæði. Vísi kærendur til þess að veitt hafi verið leyfi til að leigja út sal á efri hæð hússins og með því sé farið á svig við skilmála um að í húsnæðinu eigi eingöngu að fara fram skátastarfsemi. Sveitarfélagið bendi á að í skipulagi fyrir lóð skátaheimilisins frá árinu 2001 hafi verið gert ráð fyrir að hús risi á lóðinni fyrir sameiginlega starfsemi hjálparsveitar skáta og skátafélagsins Vífils. Í nýju skipulagi sé engin breyting á því. Húsnæðið sé nýtt í þessum tilgangi og almennt sé hægt að fullyrða að félagsstarf skáta sé ekki líklegt til að valda nágrönnum óþægindum eða ónæði þótt einstaka sinnum geti skapast þær aðstæður við útköll sveitarinnar að næturlagi að hávaði frá bifreiðum og tækjum raski næturró. Augljóst megi vera að deilur og ágreiningur um starfsemi í skátaheimilinu geti ekki valdið ógildingu á hinu kærða skipulagi.

Í kæru sé gerð athugasemd við að í deiliskipulaginu séu ekki ákvæði um hversu lengi færanleg kennslustofa fái að vera á lóð leikskólans Bæjarbóls. Í greinargerð deiliskipulags komi fram að um víkjandi byggingu sé að ræða en hvenær hún verði flutt ráðist af eftirspurn eftir leikskólaplássum eða ákvörðun um viðbyggingu við skólann. Með úrskurði, dags. 26. ágúst 2011, hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála staðfest útgáfu byggingarleyfis vegna byggingarinnar. Verði ekki séð að skortur á nánari tímasetningu leyfis geti valdið ógildingu á deiliskipulagi Silfurtúns.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Silfurtúns í Garðabæ, sem samþykkt var af bæjarstjórn Garðabæjar 3. maí 2012 að lokinni málsmeðferð skv. 40. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um er að ræða byggt svæði sem að mestu leyti var án deiliskipulags en með hinu umdeilda deiliskipulagi var þó fellt inn í svæðið áður skipulagt grænt útivistar- og þjónustusvæði, Silfurtún-Hofstaðamýri, sem tók til leikskólans Bæjarbóls, skátaheimilisins Jötunheima og aðliggjandi útivistarsvæða.

Af hálfu kærenda er mótmælt stækkun byggingarreits á lóð skátaheimilisins og þess krafist að landnotkun verði skilgreind aðeins fyrir skátastarfsemi. Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 er landnotkun blönduð á umræddu svæði, annars vegar athafnasvæði og hins vegar útivistarsvæði eða opið svæði til sérstakra nota. Í deiliskipulaginu er gerð grein fyrir landnotkun og er sú lýsing í fullu samræmi við aðalskipulagið, líkt og áskilið er í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Í eldra deiliskipulagi fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri var gert ráð fyrir húsi fyrir sameiginlega starfsemi Hjálparsveitar skáta og Skátafélagsins Vífils sem myndi hýsa félagsstarf og aðstöðu fyrir tæki og búnað hjálparsveitarinnar. Skyldi hámarksmænishæð vera 9 m og hámarksnýtingarhlutfall 0,4. Með hinu kærða skipulagi var byggingarreitur stækkaður um 3 m til suðurs og nýtingarhlutfalli breytt í 0,6. Þá var gert ráð fyrir einnar hæðar viðbyggingu til norðurs þar sem var óbyggður hluti byggingarreits samkvæmt áður gildandi deiliskipulagi.

Sveitarstjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fara  með skipulagsvaldið, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga. Í því valdi felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti en við töku skipulagsákvarðana ber m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c-lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Með hliðsjón af framangreindu verður Garðabæ ekki talið skylt að skilgreina landnotkun þrengra en gert er í aðalskipulagi. Þá verður ekki annað séð en að rökin fyrir breytingunni hafi verið málefnaleg og í samræmi við nefnd viðmið en ástæður stækkunar byggingarreits til suðurs og hækkunar nýtingarhlutfalls voru m.a. tilgreindar sem bætt aðgengi fatlaðra. Eins verður ekki talið að breytingin sé slík, miðað við efnisheimildir í fyrra deiliskipulagi, að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar. Loks verður að telja að sú ákvörðun að fella inn í hið umdeilda deiliskipulag svæðið sem deiliskipulag Silfurtúns-Hofstaðamýrar tók áður til, hafi verið í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga þess efnis að deiliskipulag skuli jafnan taka til svæða sem mynda heildstæða einingu.

Kærendur krefjast þess að göngustígur ofan við hús þeirra verði skilgreindur í deiliskipulagi. Í 6. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að gera skuli grein fyrir fyrirkomulagi göngustíga, eftir því sem við eigi, í deiliskipulagi, en hann er sýndur á mynd í greinargerð aðalskipulags. Í deiliskipulaginu kemur fram að stígurinn verði færður fjær lóðamörkum, en útfærslan sé sýnd sem hugmynd til nánari útfærslu og hönnunar sem unnin verði frekar á vegum bæjarins. Ekki er óheimilt að göngustígur sé svo nálægt íbúðarhúsnæði sem hann er nú. Þá er gert ráð fyrir að hann verði færður, sem er í samræmi við kröfur kærenda. Geta framangreind sjónarmið kærenda ekki haft áhrif á gildi hins umdeilda deiliskipulags.

Með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 26. ágúst 2011 var hafnað kröfu um ógildingu á deiliskipulagsbreytingu og byggingarleyfi vegna skólastofu á lóð leikskólans Bæjarbóls. Í hinu kærða deiliskipulagi Silfurtúns voru ekki gerðar neinar efnislegar breytingar á gildandi skipulagi að því er varðar lóð leikskólans, þótt getið sé þar um skólastofuna, og getur það ekki leitt til ógildingar skipulagsins þótt ekki sé þar tilgreint hversu lengi skólastofan megi standa á lóðinni.

Eins og lýst er í málavöxtum var fundað með íbúum um tillöguna, hún auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum svarað, skipulagið síðar yfirfarið af Skipulagsstofnun og gildistaka þess auglýst í kjölfarið. Var málsmeðferð deiliskipulagsins því í samræmi við skipulagslög.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. maí 2012 um að samþykkja deiliskipulag Silfurtúns í Garðabæ.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

___________________________                                 ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

55/2013 Harbour Hostel Stykkishólmi

Með

Árið 2014, föstudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir, forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2013, kæra á skilyrði sem fram kemur í fylgiskjali starfsleyfis Heilbrigðiseftirlits Vesturlands frá 14. júní 2013 fyrir gististað að Hafnargötu 4 í Stykkishólmi, þess efnis að rými á hvern gest í svefnherbergi/-sal skuli vera að lágmarki 4 m².

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. Sjávarborgar ehf., starfsleyfishafi gististaðarins Harbour Hostel að Hafnargötu 4, Stykkishólmi, skilyrði sem fram kemur í fylgiskjali starfsleyfis Heilbrigðiseftirlits Vesturlands frá 14. júní 2013 fyrir gististað að Hafnargötu 4 í Stykkishólmi, þess efnis að rými á hvern gest í svefnherbergi/-sal skuli vera að lágmarki 4 m². Er þess krafist að nefnt skilyrði verði fellt úr gildi.

Umbeðin málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands hinn 31. júlí 2013.

Málavextir: Hinn 10. júní 2013 samþykkti heilbrigðisnefnd Vesturlands starfsleyfi fyrir gististaðinn Harbour Hostel að Hafnargötu 4 í Stykkishólmi. Í starfsleyfinu, sem dagsett er 14. júní 2013, kemur m.a. fram að gistiheimili skuli hlíta ákvæðum laga og reglugerða sem um starfsemina gilda á hverjum tíma, sem og skilyrðum á fylgiskjali með umræddu leyfi. Í fylgiskjali með starfsleyfinu eru tilgreind almenn ákvæði í A-lið en í B-lið er að finna ákvæði er lúta að húsnæði og búnaði og segir þar í b-lið að rými á hvern gest í svefnherbergi/-sal skuli vera minnst 4 m².

Með bréfi heilbrigðiseftirlits Vesturlands til starfsleyfishafa, dags. 18. júní 2013, var veittur viku frestur til að gera athugasemdir við starfsleyfið og tekið fram að heilbrigðiseftirlitið hefði m.a. í þrígang gert athugasemdir við fjölda gesta í gistirými gististaðarins. Einnig var bent á að í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti væri gert ráð fyrir minnst 4 m² gólffleti á hvern íbúa í svefnrými starfsmannabúða. 

Málsrök kæranda: Kærandi telur að skýringar heilbrigðiseftirlitsins fyrir skilyrði um stærð svefnrýma eigi ekki við rök að styðjast. Fyrir slíku skilyrði skorti lagastoð auk þess sem það brjóti gegn meginreglunni um jafnræði.

Starfsmannabúðir séu skilgreindar svo í 3. gr. reglugerðar nr. 941/2002 að um færanlegt húsnæði sé að ræða sem ætlað sé til svefns, matar og daglegrar dvalar starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi. Beri VI. kafli tilvitnaðar reglugerðar heitið íbúðarhúsnæði, starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir. Um starfsmannabúðir gildi ákvæði 26. gr. og sé í 1. ml. 7. mgr. nefnds ákvæðis kveðið á um að gólfflötur skuli vera minnst 4 m² á hvern íbúa í svefnrými. Um gististaði gildi ákvæði VII. kafla reglugerðarinnar. Gististaður sé skilgreindur sem hvert það hús eða húshluti þar sem dvalið sé lengur eða skemur gegn greiðslu og telst ekki íbúð eða íbúðarherbergi. Í kaflanum sé ekki að finna ákvæði er sambærilegt sé við 26. gr. reglugerðarinnar né tilvísun til ákvæða VI. kafla.

Ólík ákvæði gildi því um starfsmannabúðir annars vegar og gististaði hins vegar enda ekki um sambærilega starfsemi að ræða. Starfsmannaíbúðir taki til „íbúa“ sem dvelji í færanlegu húsnæði vegna atvinnu sinnar og sé húsnæðið ætlað viðkomandi til svefns, matar og daglegrar dvalar. Í tilviki gististaða sé um að ræða „viðskiptavin“ sem kaupi sér svefnstað yfir mjög skamman tíma. Ljóst sé að engin rök standi til lögjöfnunar.

Á undanförnum árum hafi fjölgað nokkuð gististöðum sem bjóði upp á gistingu í kojum þar sem allt að 20 manns deili sama herbergi. Sé þá oftar en ekki notað orðið „hostel“ í heiti frekar en „hótel“ til aðgreiningar. Á hostelum sé jafnframt lagt nokkuð upp úr sameiginlegum rýmum fyrir setustofur, eldhús og fleira, enda sæki gestir í þau rými en svefnherbergið sé fyrst og fremst notað til svefns. Það sé ólíkt því sem algengt sé með hótelherbergi eða eftir atvikum starfsmannabúðir. Mikilvægt sé að hafa þetta í huga við samanburð á fermetratölum í mismunandi gistikostum. Rými sem séu sameiginleg á hostelum séu þannig oft sérgreind á hótelum og í starfsmannabúðum.

Hin umdeilda fermetraregla sé rökleysa þegar fjölgi umfram tvo í gistirými. Hver koja taki um 2 m² gólflatar. Flestar kojur séu á tveimur hæðum og geti tveir sofið í þeim. Það séu því 3 m² af auðu gólfrými á hvern gest eða 6 m² fyrir hverja koju. Algengt sé að heimavistarherbergi á hosteli hýsi tíu gesti í fimm kojum og þyrftu þá að vera 30 m² af auðu gólfplássi samkvæmt reglu heilbrigðiseftirlitsins.

Mikilvægt sé að samræmis og jafnræðis sé gætt við ákvörðun um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis gististaða á landinu öllu en kærandi hafi vitneskju um að rekstaraðilum annarra sambærilegra gististaða í öðrum umdæmum hafi ekki verið gert að sæta sambærilegu skilyrði.   

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Vesturlands: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að við úttekt á nýjum gististöðum sé farið fram á að teikningar að fyrirhugaðri starfsemi liggi fyrir. Í desember 2012 hafi heilbrigðiseftirlitið fengið sendar teikningar frá byggingarfulltrúa og hafi í framhaldi af því gert eiganda umrædds gististaðar ljóst að sækja þyrfti um undanþágu til umhverfisráðherra vegna uppsetningu handlauga sökum þess að ekki væru sýndar handlaugar í hverju herbergi á teikningum. Hafi heilbrigðiseftirlitið af því tilefni gefið jákvæða umsögn til umhverfisráðherra en þess getið í umsögninni að gerðar hefðu verið athugasemdir við fjölda gesta í svefnherbergjum. Þá sé bent á að sífelldar breytingar hafi verið gerðar á teikningum á tímabilinu desember 2012 til júní 2013. Þannig hafi gestafjölda í einu svefnherbergi t.d. verið breytt í þrígang og því erfitt að átta sig á frá viku til viku hvaða teikning gilti fyrir starfsemina. Sé heilbrigðiseftirlitinu ekki ljóst hvaða teikningar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa.

Mikill munur sé á eðli og gerð gististaða. Sé það skylda heilbrigðisnefnda að gæta hagsmuna og velferðar neytenda hvar sem þeir dvelji í gistirými sem og annars staðar. Sé afstaða heilbrigðiseftirlitsins sú að ekki verði lakari aðstaða fyrir hvern gest á gistiheimili en í svefnrými starfsmanna sem dvelji í starfsmannabúðum. Ekki sé boðlegt að bjóða upp á minna rými en í starfsmannabúðum og ætla 14 manns að gista í 28 m² herbergi. Í 42. gr. reglugerðar nr. 941/2002 séu ákvæði um svefnrými barna í kafla um heimili og stofnanir fyrir börn og séu tilgreind stærðarmörk 4 m². Hafi heilbrigðisnefnd fullan rétt til að setja mörk um gestafjölda í gistirými og hafa þar til viðmiðunar inntak ofangreindra ákvæða reglugerðar nr. 941/2002.

Rekstraraðila gististaðarins hafi mátt vera fullkunnugt um afstöðu heilbrigðisnefndar nokkrum mánuðum áður en starfsleyfið hafi verið gefið út og hafi getað gert ráðstafanir í framhaldi af því. Hafi rekstraraðili ekki gert neinar skriflegar athugasemdir fyrr en kæra hafi borist til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þess að binda starfsleyfi fyrir gististað því skilyrði að miðað skuli við a.m.k. fjóra m² á hvern gest í svefnrými.

Samkvæmt 4. gr. a í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er gististarfsemi sem hér um ræðir háð starfsleyfi heilbrigðisnefnda viðkomandi sveitarfélags. Í 3. mgr. ákvæðisins er m.a. tekið fram að í starfsleyfi skuli tilgreina tegund starfsemi, skilyrði, gildistíma og endurskoðun leyfisins. Í IV. kafla reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, sem sett var með stoð í 4. gr. nefndra laga, er að finna almenn ákvæði um húsnæði og lóðir sem eiga við um þá starfsemi sem reglugerðin tekur til. Í 2. mgr. 14. gr. er m.a. kveðið á um að húsnæði skuli vera í samræmi við eðli viðkomandi starfsemi og fullnægja almennum skilyrðum um rými, birtu, upphitun og loftræstingu. Ekki er að finna ákvæði um lágmarksflatarmál svefnrýmis fyrir hvern gest í VII. kafla reglugerðarinnar, þar sem fjallað er um gisti- og samkomustaði. Slíkt ákvæði er hins vegar að finna í 26. gr. reglugerðarinnar, sem á við um starfsmannabúðir, og í 2. mgr. 42. gr., er tekur til heimila og stofnana fyrir börn. Þar er gerð sú krafa að minnst 4 m² gólfflötur sé á hvert barn í svefnrými með þeirri undantekningu í nefndri 2. mgr. 42. gr., eins og henni var breytt með reglugerð nr. 242/2007, að miða megi við 2 m² á barn í svefnsal með kojum ef dvalartími er skemmri en tvær vikur. Í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og reglugerð nr. 585/2007, sem sett er með stoð í þeim lögum, er fjallað um búnað og gistirými, en þar er ekki heldur að finna kröfur um tiltekinn fermetrafjölda á hvern gest í gistirými að öðru leyti en því að í 4. mgr. 3. gr. nefndrar reglugerðar er gerð krafa um að einstaklingsrúm skulu vera a.m.k. 2,0×0,9 m og tvíbreið rúm a.m.k. 2,0×1,4 m, auk þess sem í 5. mgr. ákvæðisins er áskilið að borð skuli vera við hvert rúm. Framangreind laga- og reglugerðarákvæði fela ekki í sér almenna reglu um tiltekinn fermetrafjölda í gistirými miðað við fjölda gesta enda um að ræða mismunandi starfsemi, svo sem með tilliti til dvalartíma. Þá beindi úrskurðarnefndin fyrirspurn til Mannvirkjastofnunar í bréfi, dags. 7. janúar 2014, um hvaða kröfur séu gerðar í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um fermetrafjölda gistirýma í gistihúsum, en í svari stofnunarinnar, dags. 5. mars s.á., kemur fram að slíkar kröfur sé ekki að finna í reglugerðinni.

Umdeilt skilyrði í starfsleyfi kæranda um lágmarks fermetrafjölda í gistirými setur rekstri gistiheimilis skorður. Verður slíkt íþyngjandi skilyrði að eiga stoð í lögum eða stjórnvaldsreglum sem miða að því að vernda hagsmuni er tengjast hollustuháttum og heilbrigði. Slík reglusetning tryggir einnig samræmi við veitingu starfsleyfa einstakra heilbrigðisnefnda. Eins og áður er lýst er ekki að finna lágmarkskröfur um stærð gistirýma á gististöðum. Þar sem umrætt skilyrði verður ekki talið eiga sér viðhlítandi stoð í lögum eða settum stjórnvaldsreglum verður það af þeim sökum fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Fellt er úr gildi skilyrði sem fram kemur í fylgiskjali starfsleyfis Heilbrigðiseftirlits Vesturlands frá 14. júní 2013 fyrir gististað að Hafnargötu 4 í Stykkishólmi, þess efnis að rými á hvern gest í svefnherbergi/-sal skuli vera að lágmarki 4 m².

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

92/2013 Krosshamrar

Með

Árið 2014, mánudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2013, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. ágúst 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna lóðarinnar nr. 5 við Krosshamra í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra B, Krosshömrum 7 og J, Krosshömrum 7A, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. ágúst 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna lóðarinnar nr. 5 við Krosshamra. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að réttaráhrifum hennar verði frestað til bráðabirgða.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. febrúar 2014, sem móttekið var sama dag, kæra fyrrnefndir kærendur, , jafnframt þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2013, sem staðfest var í borgarráði 3. s.m., að veita byggingarleyfi til að reisa 25,8 m² viðbyggingu úr timbri við húsið á lóðinni að Krosshömrum 5. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Gera kærendur jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er nr. 25/2014, sameinað máli þessu og verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn bárust frá Reykjavíkurborg vegna hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar 23. janúar 2014 og vegna byggingarleyfis 15. apríl s.á.

Málavextir: Deiliskipulag Hamrahverfis, sem tekur til umrædds svæðis, var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur hinn 16. apríl 1985. Er lóðin Krosshamrar 5 á reit innan skipulagsins sem merktur er D. Samkvæmt skipulagsskilmálum er þar heimilt að reisa einbýlishús á einni hæð ásamt bílgeymslu og skal mesta leyfilega stærð aðalhæðar vera 200 m². Við sérstakar aðstæður er heimilt að sækja um leyfi hjá byggingarnefnd fyrir aukaíbúð. Kusu lóðarhafar Krosshamra 5 að gera svo og í september 1985 samþykkti skipulagsnefnd að í einbýlishúsinu á lóðinni mætti vera aukaíbúð. Í apríl 1986 var gerð eignaskiptayfirlýsing fyrir húsið þar sem fram kemur að þar séu tvær íbúðir. Önnur íbúðin var talin vera 110,9 m² að stærð og 64,5% eignarhluti fasteignarinnar með bílskúrsrétti, en hin íbúðin 61,1 m² og 35,5% eignarhluti fasteignarinnar. Var eignaskiptayfirlýsingunni þinglýst. Árið 2011 tók gildi breyting á deiliskipulagi umræddrar lóðar í þá veru að heimilað var að reisa 13,2 m² sólskála við suðurhlið hússins og við það varð aðalíbúð hússins 125 m².

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 31. maí 2013 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis. Tók breytingin til lóðarinnar Krosshamra 5 og fól í sér að byggingarreitur yrði stækkaður til norðurs um 25,8 m² og að húsið yrði stækkað að sama marki. Var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Krosshömrum 1, 3, 7 og 9 og bárust athugasemdir frá eigendum Krosshamra 7 og 7A við fyrirhugaða breytingu. Skipulagsfulltrúi vísaði málinu til umsagnar verkefnisstjóra og á fundi skipulagsfulltrúa hinn 1. ágúst 2013 var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Tók ráðið erindið fyrir hinn 14. ágúst s.á., ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, sem lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð erindið með vísan til nefndrar umsagnar og birtist auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2013. Þá var Skipulagsstofnun tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 6. september s.á.

Hinn 17. september 2013 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að reisa 25,8 m² viðbyggingu úr timbri við húsið að Krosshömrum 5. Frestaði byggingarfulltrúi afgreiðslu málsins með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan umsóknina hinn 1. október 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að þeir hafi við grenndarkynningu umdeildrar skipulagsbreytingar fært fram mótmæli fyrir breytingunni þar sem heimiluð viðbygging yrði óþægilega nálægt húsi kærenda og fæli í sér aukið skuggavarp. Hafi skipulagsfulltrúi svarað því svo að skuggavarp yrði kl. 12 á hádegi á tímabilinu nóvember til febrúar. Telji kærendur að á því tímabili sé af læknisfræðilegum ástæðum mest þörf á birtu en einnig sé bent á að yfirleitt séu garðar í mestri notkun seinni hluta dags. Fjarlægð milli húsanna verði 10 m en í svari skipulagsfulltrúa komi fram að algengasta fjarlægð milli húsa á svæðinu sé 9-10 m. Þetta sé rétt en eigi aðeins við um fjarlægð milli gafla og/eða bílskúra húsa í götunni, en hvergi sé svona stutt bil frá framhliðum eða bakhliðum húsa yfir í næstu byggingar, líkt og hér um ræði. Skipti þetta verulegu máli enda miklu óþægilegra að íbúðarhús sé stækkað í átt að stofugluggum nágranna en að húsgafli.

Ekki hafi verið gert ráð fyrir stækkun húsa í nágrenni við kærendur þegar þeir hafi fest kaup á húsi sínu. Geti stækkun hússins að Krosshömrum 5 rýrt verðgildi og sölumöguleika húss þeirra. Þá sé sérstök athygli vakin á því að þáverandi eigandi Krosshamra 5 hafi fengið samþykkta umsókn um breytingu deiliskipulagsins og byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu viðbyggingu en ekki núverandi eigandi hússins. Jafnframt telji kærendur, með tilliti til framkvæmda við húsið sem hafnar séu, að einnig sé verið að stækka húsið fram í garðinn, umfram það sem umdeild skipulagsbreyting heimili.
 

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis verði staðfest. Þá er krafist frávísunar á kæru vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa um byggingarleyfið, en ekki verði annað ráðið af kæru en að kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verði ekki fallist á frávísunarkröfu borgarinnar sé gerð krafa um að ógildingu ákvörðunarinnar verði hafnað og sé í því sambandi vísað til sjónarmiða borgarinnar varðandi fram komna kæru á breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis. Þá sé bent á að byggingarleyfið sé bundið við fasteign en ekki eiganda fasteignar.

Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við breytinguna hækki nýtingarhlutfall lóðarinnar að Krosshömrum 5 úr 0,26 í 0,28. Algengast sé þó að nýtingarhlutfall á svæðinu sé á milli 0,2-0,3 en fari upp í allt að 0,53. Mæling skuggavarps, er fylgt hafi umsókn um greinda skipulagsbreytingu, sýni skugga kl. 12 á hádegi alla mánuði ársins. Frá maí til ágúst aukist ekki skuggavarp á hús kærenda, eða á þeim tíma sem mikilvægt sé að skerða ekki möguleika fólks til að njóta útivistar í görðum sínum. Það sé fyrst í nóvember og fram í febrúar að skuggar nái að húsi kærenda. Á þeim tíma sé sól lágt á lofti og skuggar langir og eðlilegt að skuggar falli á nærliggjandi hús í tiltölulega þéttri byggð. Krosshamrar 7 og 7A standi um einum metra hærra í landi en Krosshamrar 5, sem dragi aðeins úr skuggavarpi á fyrrgreindu lóðina. Almennt þurfi íbúar í þéttbýli að sætta sig við slíka skerðingu og sé hún ekki þess eðlis að leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar á grundvelli grenndarsjónarmiða.

Byggingarreitur sé 3 m frá lóðamörkum Krosshamra 5 og 7 en 10 m verði milli viðbyggingarinnar og húss kærenda. Nálægð milli húsanna sé ekki meiri en almennt geti talist miðað við önnur hús á svæðinu. Norðurgafl húss nr. 5 muni snúa að stofugluggum Krosshamra 7 og 7A. Telji Reykjavíkurborg að stækkun hússins sé óveruleg og hafi hverfandi grenndaráhrif. Byggingin muni ekki hafa í för með sér skert útsýni fyrir kærendur og umrædd hús verði ekki í óþægilegri nánd.

Málsrök eigenda Krosshamra 5: Eigendur Krosshamra 5 benda á að ekkert skuggavarp verði á lóð kærenda vegna hinnar umdeildu viðbyggingar nema að litlu leyti þegar sól sé lægst á lofti og aðeins fyrripart dags. Fjarlægð milli húsa sé ekki óvenjuleg og óljóst sé hvað kærendur eigi við með óþægilegri nálgun. Gaflinn á Krosshömrum 5 fari 3 m nær bakhlið lóðar nr. 7 við Krosshamra og þess utan sé hæðarmunur á lóðunum. Fyrrverandi eigandi hússins hafi verið búinn að ræða umrædda stækkun við kærendur sem hafi ekki verið sáttir við hana en hafi ekki ætlað að standa í vegi fyrir henni. Sé það mikið hagsmunamál fyrir eigendur Krosshamra 5 að fá að stækka húsið því kaupverð hafi tekið mið af því. Ekki sé verið að stækka húsið til vesturs eins og kærendur haldi fram heldur verði þar steyptur sólpallur.

Andmæli kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar: Kærendur taka fram að þeim hafi ekki verið send tilkynning um samþykkt byggingarfulltrúa. Hafi þeir sent fyrirspurn til Reykjavíkurborgar 13. febrúar 2014 og óskað upplýsinga um hvort búið væri að veita byggingarleyfið. Hafi þeir þá verið upplýstir um stöðu mála.

———-
 

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 16. apríl 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist frávísunar á kæru vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2013, um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu við húsið að Krosshömrum 5, sökum þess að lögbundinn eins mánaðar kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 hafi verið liðinn er kæran barst. Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur hafi fyrst verið upplýstir um veitingu byggingarleyfisins með svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn þeirra hinn 13. febrúar 2014. Kæra vegna greindrar ákvörðunar barst úrskurðarnefndinni hinn 28. s.m., eða innan kærufrests samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði. Verður krafa kærenda vegna hins kærða byggingarleyfis því tekin til efnismeðferðar.

Lóðin Krosshamrar 5 liggur sunnan við lóð kærenda og hafa lóðirnar sameiginleg lóðamörk. Með hinni kærðu skipulagsbreytingu, sem gerð var með grenndarkynningu skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er byggingarreitur lóðarinnar Krosshamra 5 stækkaður til norðurs um 3 metra í átt að húsi kærenda, en breidd byggingarreitsins verður 8,6 m, sem er breidd þess hluta hússins sem þar er fyrir. Stækkun byggingarreits lóðarinnar er því 25,8 m². Við breytinguna er heimiluð samsvarandi stækkun aukaíbúðar hússins og fer íbúðin í 86 m², en stærð aðalíbúðar er óbreytt, eða 125 m². Aðalhæð hússins verður því samtals 211 m², en samkvæmt deiliskipulagi Hamrahverfis var hámarksstærð aðalhæðar húsa á reitnum 200 m². Þá er á deiliskipulagssvæðinu a.m.k. eitt hús sem er yfir 200 m² að flatarmáli en það er parhús kærenda sem er 221,8 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu verður fjarlægð frá byggingarreit Krosshamra 5 að húsi kærenda 10 m en lóð kærenda liggur um einum m hærra í landi en lóð Krosshamra 5. Ekki felst í skipulagsbreytingunni heimild til hækkunar húss á nefndri lóð. Af þessum sökum verður hverfandi breyting á skuggavarpi á lóð kærenda.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn láta fara fram grenndarkynningu telji hún að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Er sambærilegt ákvæði að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Þegar litið er til staðhátta á skipulagssvæðinu, sem áður voru raktir, þykir umdeild deiliskipulagsákvörðun hafa í för með sér minni háttar breytingu á gildandi deiliskipulagi. Þannig hefur hún hverfandi áhrif á útlit og form viðkomandi svæðis og ekki er um að ræða breytta notkun. Þá liggur fyrir að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting sem heimilar 11 m² stækkun á aðalhæð hússins umfram þá 200 m², sem leyfðir voru áður, felur í sér óverulega breytingu nýtingarhlutfalls, eða úr 0,26 í 0,28, en það er í góðu samræmi við það sem gerist á svæðinu. Eins verður vart talið að hin kærða ákvörðun feli í sér fordæmisgefandi breytingu þegar fyrir liggur að hús kærenda er stærra en 200 m². Var því heimilt, eins og hér stendur á, að fara með skipulagsbreytinguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Með vísan til þess sem rakið hefur verið og með því að ekki liggur fyrir að um annmarka á málsmeðferð hafi verið að ræða verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Með hinu kærða byggingarleyfi er heimiluð 25,8 m² viðbygging úr timbri á hinum breytta byggingarreit. Samkvæmt  samþykktum teikningum verður gafl viðbyggingarinnar er snúa mun að kærendum án glugga og dyra. Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er byggingarleyfið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar sé haldin ógildingarannmörkum verður kröfu um ógildingu byggingarleyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. ágúst 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna lóðarinnar nr. 5 við Krosshamra.

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2013, sem staðfest var í borgarráði 3. s.m., um að veita byggingarleyfi til að reisa 25,8 m² viðbyggingu úr timbri við húsið á lóðinni að Krosshömrum 5.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson