Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2013 Sautjándajúnítorg

Árið 2015, föstudaginn 27. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 83/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um útgáfu á bráðabirgðaleyfi fyrir hundinn David Byron, örmerki nr. 352206000089460, til heimilis í íbúð nr. 207 að Sautjándajúnítorgi 3 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Húseigendafélagið, f.h. húsfélagsins Sautjándajúnítorgi 1-7, Sautjándajúnítorgi 3, Garðabæ, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 24. júlí 2013 að veita bráðabirgðaleyfi til 23. október s.á. fyrir hundinn David Byron, til heimilis að Sautjándajúnítorgi 3, Garðabæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara er þess krafist að leyfistíminn verði styttur úr þremur mánuðum í einn mánuð.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 11. september 2013.

Málavextir: Eigandi hundsins David Byron sótti um leyfi fyrir honum hinn 28. maí 2013 og fékk útgefið skráningarskírteini, dags. 20. júní 2013. Kærandi hafði þá samband við heilbrigðiseftirlitið og gerði þá athugasemd að tilskilið samþykki meðeigenda fyrir hundinum lægi ekki fyrir. Of fáir hefðu samþykkt og lægi ekki fyrir tilskilið hlutfall samþykkta. Var leyfishafa tilkynnt með bréfi 1. júlí s.á. að til þess að skráning hundsins yrði lögleg þyrfti heilbrigðiseftirlitið að fá að nýju fullnægjandi yfirlýsingu meðeigenda hans að stigagangi um samþykki fyrir hundinum. Bærust þessi gögn ekki fyrir 20. júlí s.m. teldist skráningin ólögleg. Tilskilin gögn um samþykki bárust ekki og var varanlegt leyfi afturkallað með bréfi til leyfishafa, dags. 24. júlí s.m. Var honum jafnframt tilkynnt með bréfinu að hundurinn yrði skráður til bráðabirgða til 23. október s.á. Kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkvæmt 33. gr. a fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé hundahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang. Eigandi skuli afla samþykkis annarra eigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið komi í húsið. Eigandi hundsins hafi, allt frá því að hún eignaðist hann fyrir mörgum mánuðum síðan, haft tækifæri til þess að afla tilskilins samþykkis meðeigenda sinna. Það hafi hún ekki gert. Tilskilins samþykkis hafi ekki verið aflað og hafi eigandi hundsins þannig brotið á rétti meðeigenda sinna í húsinu allt frá því að hann var fluttur í húsið í mars 2013. Upphafleg ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um að skrá hundinn hafi verið ólögmæt. Eigandi hundsins hafi síðan fengið nægilega langan frest til að gera viðeigandi ráðstafanir hans vegna. Þá hafi hann fengið fullnægjandi viðvörun um afleiðingar þess að afla ekki tilskilins samþykkis meðeigenda. Þegar litið sé til þess að með áframhaldandi dvöl hundsins í húsinu sé brotið á lögbundnum réttindum annarra íbúa hússins telji kærandi eðlilegt og nauðsynlegt að eiganda hundsins verði gert að fjarlægja hann úr húsinu án frekari tafar.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin bendir á að um hundahald í Garðabæ gildi heilbrigðissamþykkt nr. 154/2000, sem sé sett með vísan til ákvæða 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar sé sveitarfélögum m.a. heimilað að setja samþykktir um takmörkun gæludýrahalds. Samkvæmt 4. gr. samþykktarinnar séu allir hundar sem haldnir séu á eftirlitssvæðinu skráningarskyldir. Sé skráningarskylda grundvöllur fyrir eftirliti og afskiptum sveitarfélagsins af hundahaldinu. Við skráningu hundsins hafi verið tekið við gögnum sem eigandi hans hafi lagt fram og hafi leyfishafi fengið skráningarskírteini til staðfestingar skráningunni. Í ákvæðum fjöleignarhúsalaga komi fram að eigandi skuli afla samþykkis 2/3 sameigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það eigi við, áður en dýrið kemur í húsið. Heilbrigðisnefnd beri að fara að ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, samþykkt um hundahald og stjórnsýslulögum við störf sín. Sé þess krafist að hafnað sé kröfu um ógildingu á útgáfu hins umdeilda bráðabirgðaleyfis, enda hafi ekkert komið fram um að ákvörðunin hafi byggst á röngum forsendum. Hafi meðalhófs verið gætt við afgreiðslu málsins með því að fara ekki strangar í sakir en nauðsyn hafi borið til.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist niðurfellingar á bráðbirgðaleyfi fyrir hundahaldi. Fyrir liggur að leyfi var veitt og skráningarskírteini gefið út 20. júní 2013, í samræmi við 4. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000. Það leyfi var síðan afturkallað með bréfi 24. júlí s.á. vegna athugasemda kæranda um að samþykkis tilskilins fjölda sameigenda að Sautjándajúnítorgi 1-7 hefði ekki verið aflað. Nýtti heilbrigðiseftirlit sér heimild 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar og gaf út bráðabirgðaleyfi fyrir hundinum til þriggja mánaða. Þennan tíma skyldi leyfishafi nýta til að finna hundinum annan dvalarstað, en leyfið skyldi renna út 23. október 2013.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hið umdeilda bráðabirgðaleyfi var gefið út til þriggja mánaða og síðasti gildisdagur þess var 23. október 2013. Samkvæmt gögnum málsins var leyfið ekki framlengt og rann það því út á tilsettum degi, eða fyrir um einu ári og fimm mánuðum síðan. Ljóst er að hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum þar sem gildistími hins umdeilda bráðabirgðaleyfis er löngu liðinn. Verður því ekki séð að kærandi eigin lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirrar ákvörðunar. Máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir