Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2014 Vogar

Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2014, kæra á ákvörðun sveitarfélagsins Voga um álagningu sorpeyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignar með fastanúmer 209-6107.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir H, ,  ákvörðun sveitarfélagsins Voga frá 29. janúar 2014 um að leggja sorpeyðingargjald fyrir árið 2014 á sumarhús með fastanúmerið 209-6107.  Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Vogum 16. september 2014 og 16. mars 2015.

Málavextir: Álagningarseðlar fasteignargjalda í sveitarfélaginu Vogum fyrir árið 2014 eru dagsettir 29. janúar 2014. Var kæranda með slíkum seðli gert að greiða kr. 23.107 í sorpeyðingargjald vegna fasteignar sinnar, sem ber fastanúmerið 209-6107. Með tölvupósti 15. apríl 2014 til skrifstofu sveitarfélagsins mótmælti kærandi gjaldinu og fór fram á að það yrði lækkað eða fellt niður. Með tölvupósti frá 14. júlí s.á. var þeirri kröfu hafnað af hálfu sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst vera annar tveggja eigenda að sumarhúsi í landi sveitarfélagsins Voga. Um sé að ræða lítið sumarhús sem sé notað í nokkra daga á ári og séu þar takmarkaðir möguleikar til gistingar. Í þau skipti sem sumarhúsið sé notað sé allt sorp tekið með til Hafnarfjarðar, en þar séu báðir eigendur búsettir. Sveitarfélagið Vogar beri því engan kostnað af sorpi við bústaðinn enda væri algerlega úr leið fyrir eigendur að keyra sorpið inn í Voga. Því sé krafist að gjaldið verði fellt niður en að öðrum kosti að gjaldið verði lækkað verulega, til samræmis við þá lækkun sem sumarhúsaeigendur annarra sveitarfélaga njóti. Tekið sé fram að samskonar beiðni hafi verið send sveitarfélaginu fyrir árið 2013 og þá hafi gjaldið verið fellt niður.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Af hálfu sveitarfélagsins er ekki fallist á kröfur kæranda. Sorpeyðingargjöld séu innheimt af öllum fasteignum í sveitarfélaginu án tillits til þess hvernig viðkomandi fasteign sé notuð. Gjaldtakan sé studd gjaldskrá sveitarfélagsins, nr. 507/2013, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda og með því móti hlotið gildistöku. Sveitarfélagið sé aðili að Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, sem innheimti sambærilegt gjald hjá aðildarsveitarfélögum sínum þar sem gjaldstofninn taki mið af fjölda fasteignanúmera. Sveitarfélagið kveður tekjur og kostnað af sorpþjónustu nokkurn veginn standast á eins og meðfylgjandi tölur sýni:

            Áætlun 2015               2014          2013        2012
Tekjur af sorphr.          -17.758.000    -17.744.296    -17.750.160    -16.976.398
Kostnaður v. sorphr.    17.697.000    17.696.508    17.696.508    18.487.296
Tap                             -61.000    -47.788    -53.652    1.510.898

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að fellt verði niður sorpeyðingargjald á sumarhús í hans eigu.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim, sbr., einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sveitarfélagið Vogar hefur ekki sett sér slíka samþykkt.

Sveitarfélögum var skv. þágildandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Sveitarfélagið Vogar setti, með vísan til 25. gr. laga nr. 7/1998, gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í sveitarfélaginu Vogum, nr. 507/2013, sem birt var 3. júní s.á. Samkvæmt 1. gr. gjaldskrárinnar er bæjarstjórn sveitarfélagsins heimilt að leggja á árlegt sorphirðu- og sorpeyðingargjald sem innheimta skal með fasteignagjöldum. Gjaldið skiptist í sorphreinsunargjald, kr. 14.900 á hvert sorpílát, og sorpeyðingargjald, kr. 23.170 á hverja íbúð. Fram kemur á álagningarseðli að kærandi er eingöngu krafinn um sorpeyðingargjald.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og raunar var skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á fasteign kæranda. Samkvæmt þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram eru álögð gjöld að jafnaði ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Í samræmi við framangreint verður kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarfélagsins Voga um álagningu sorpeyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignar með fastanúmer 209-6107.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir