Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2013 Kópavogstún

Árið 2015, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2013, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 25. júlí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún vegna lóða nr. 1a-c við Kópavogsbraut og nr. 3, 5, 7 og 9 við Kópavogstún. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2013, sem barst nefndinni 14. s.m., kæra T, F og Þ, Kópavogsbraut 1b, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún vegna lóða nr. 1a-c við Kópavogsbraut og nr. 3, 5 ,7 og 9 við Kópavogstún. Verður að skilja málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi hvað varðar breytingu á fjölda hæða fjölbýlishúsanna á sameinaðri lóð nr. 3-5 við Kópavogstún.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2013 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús að Kópavogstúni 3-5. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 11/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. ágúst 2014 og 17. febrúar 2015.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 7. maí 2013 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún fyrir lóðir nr. 1a-c við Kópavogsbraut og lóðir nr. 3, 5, 7 og 9 við Kópavogstún. Í breytingunni fólst m.a. að íbúðum í fyrirhuguðum fjölbýlishúsum á sameinaðri lóð nr. 3-5 við Kópavogstún yrði fjölgað um sex og bætt yrði við einni inndreginni hæð. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu. Hinn 8. s.m. vísaði bæjarráð afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar sem staðfesti hana 14. s.m. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 1. júní s.á. með athugasemdarfresti frá 3. s.m. til 16. júlí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Var þeim svarað með umsögn skipulags- og byggingardeildar 19. júlí s.á. Hinn 23. júlí 2013 samþykkti skipulagsnefnd framlagða tillögu ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar. Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og tillagan samþykkt af bæjarráði 25. s.m. Skipulagsbreytingin tók svo gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. september 2013.

Hinn 4. desember 2013 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogs samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishús að Kópavogstúni 3-5. Byggingarleyfi var svo gefið út 26. febrúar 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að deiliskipulagsbreytingin muni koma sér illa fyrir íbúa fjöleignarhússins nr. 1b við Kópavogsbraut, sérstaklega fyrir þá sem eigi íbúðir vestast í húsinu. Skipti engu máli hvort fólk búi á fyrstu eða fimmtu hæð, allt útsýni muni glatast vegna fyrirhugaðra byggingaráforma. Muni útsýni út á Álftanes og út á haf hverfa sem og sú dásamlega kvöldsýn þegar sólin lækki á lofti. Fallegt útsýni hafi verið eitt af þeim aðalatriðum sem Sunnuhlíðarsamtökin hafi vísað til við sölu íbúða að Kópavogsbraut 1a og b. Hafi það því komið á óvart þegar stjórn Sunnuhlíðar hafi farið fram á hækkun um eina hæð á þeim húsum sem áætlað hafi verið að byggja árið 2007, umfram það sem skipulag hafi kveðið á um.

Hæð húsanna, sem standi nú til að byggja fyrir framan Sunnuhlíðarblokkirnar, sé mjög yfirdrifin eða sex íbúðarhæðir ásamt kjallara. Séu þau í engu samræmi við stærð annarra húsa sem standi á svæðinu, en þau séu öll fjögurra hæða auk inndreginnar fimmtu hæð. Að auki muni fyrirhugaðar nýbyggingar verða til þess að íbúðir kærenda verði umluktar veggjum hárra húsa allt um kring. Muni sólin ekki sjást fyrr en hún nái að komast upp fyrir húsin í stað Bláfjalla sem sé algjörlega óásættanlegt og muni hafa áhrif á verðgildi íbúðanna í framtíðinni.

Sé það beiðni kærenda að þarna verði aðeins leyfðar fjögurra hæða blokkir auk inndreginnar fimmtu hæð og kjallara. Sé það í samræmi við allar aðrar blokkir á svæðinu hvað varði fjölda íbúðarhæða. Þurfi að staðsetja blokkirnar þannig að sem flestir geti við unað gagnvart útsýni og sól. Að auki þurfi hæðarmörk fyrstu hæðar nýju blokkanna að taka tillit til halla fyrir framan Sunnuhlíðarblokkirnar, en þær séu að hluta til niðurgrafnar. Enn fremur þurfi að gæta að skuggavarpi, sem og hugsanlegum sterkum vindstrengjum sem geti myndast milli hárra blokka. Í dag myndist slíkur vindstrengur í vissum vindáttum, t.d.  á milli blokka nr. 1a og 1b við Kópavogsbraut.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að umþrætt deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér litlar sem engar breytingar á byggingarmagni. Íbúðum á lóð nr. 3-5 sé fjölgað um sex frá gildandi deiliskipulagi án þess að hæð húsa hækki. Efstu hæðir allra húsa verði inndregnar.

Fasteignareigendur og aðrir hagsmunaaðilar geti ekki gert ráð fyrir því að hafa óskert útsýni til frambúðar. Hverfi séu endurbyggð og hafi sveitarfélög talsvert svigrúm í meðferð skipulagsvalds til að ákveða hvernig þróun byggðar verði, þó að teknu tilliti til hagsmuna heildarinnar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting leiði ekki til þess að útsýni kærenda skerðist meira en ef byggt hefði verið samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Hvað varði hið kærða byggingarleyfi sé bent á að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfið vegna Kópavogstúns 3-5 hafi verið gefið út 26. febrúar 2014 en  kæra í málinu hafi borist með bréfi, dags. 10. febrúar 2015, eða tæplega ári frá útgáfu byggingarleyfisins. Hafi kærendum ekki verið kunnugt um ákvörðun um útgáfu byggingarleyfisins á þeim tíma verði að telja að þeim hafi orðið kunnugt um ákvörðunina á einhverjum tímapunkti sumarið 2014. Í öllu falli verði að telja að kærendum hafi verið kunnugt um ákvörðunina að fengnu tölvubréfi frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. desember 2014, þar sem veittar hafi verið leiðbeiningar um kæruheimild vegna byggingarleyfis. Sé kæran því of seint fram komin og beri að vísa henni frá.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæra vegna byggingarleyfisins sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sé frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin af byggingarfulltrúa Kópavogs hinn 4. desember 2013. Af bréfi eins kærenda frá 5. desember 2014 megi ráða að honum hafi verið fullkunnugt um byggingarframkvæmdir á lóðinni og hafi hann lýst verkframvindu og þeim framkvæmdum sem hafi átt sér stað. Sé því ljóst að þeim hafi verið eða hafi mátt vera kunnugt um að byggingarleyfi hefði verið gefið út vegna framkvæmdanna. Kærufrestur sé því löngu liðinn. Ljóst sé að meira en ár sé liðið frá því að byggingaráform voru samþykkt. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skuli vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema talið sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra sé tekin til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar sé þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar sé meira en ár liðið frá því að ákvörðun hafi verið tilkynnt aðila. Kærendum, sem búi í nágrenni við lóðina að Kópavogstún 3-5, hafi ekki getað dulist að byggingarframkvæmdir hefðu hafist á lóðinni í árslok 2013. Sé því óheimilt að taka kæruna til efnismeðferðar.

——–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu eru deilt um gildi samþykktar bæjarráðs Kópavogs um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún vegna lóða nr. 1a-c við Kópavogsbraut og lóða nr. 3, 5, 7 og 9 við Kópavogstún og ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs um samþykkt á byggingaráformum í samræmi við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Er aðallega deilt um breytingu er varðar fjölda hæða í fjölbýlishúsum á sameinaðri lóð nr. 3-5 við Kópavogstún, en skipulagsbreytingin felur í sér að bætt verði við einni inndreginni hæð á húsunum.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er merkt íbúðarsvæði, ÍB1, Kársnes. Er svæðinu lýst sem nokkuð fastmótaðri byggð þar sem gert sé ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu og fjölgun íbúða. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á góða nýtingu lands og landgæða og að mótun byggðarinnar tryggi sjálfbærni og hagkvæma uppbyggingu, sem felist m.a. í þéttingu byggðar. Jafnframt er lögð áhersla á blandaða byggð með fjölbreyttu framboði húsnæðis, þjónustu og útivistar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Samkvæmt teikningum er lega lands, þar sem fyrirhuguð fjölbýlishús munu rísa, aflíðandi og munu þau verða staðsett neðar en hús kærenda. Í gildandi deiliskipulagi er að auki gert ráð fyrir nokkrum fjölbýlishúsum á svæðinu sem öll eru með fimm til sex hæðum, auk kjallara. Er sú breyting sem áætluð er á hinum umþrættu fjölbýlishúsum í samræmi við önnur fjölbýlishús á svæðinu. Samkvæmt teikningum mun heimiluð hæð húsanna auk þess lækka um 1,7 m við hina umdeildu breytingu þrátt fyrir aukningu um eina inndregna hæð, en sú aukning er deiluefnið hér. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ekki talið að breytingin sé slík, miðað við heimildir í fyrra deiliskipulagi, að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki verður annað af gögnum ráðið en að meðferð umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið lögum samkvæmt, verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um efni kæranlegrar ákvörðunar miðað við málsatvik. Byggingaráform voru samþykkt 4. desember 2013 og hið kærða byggingarleyfi gefið út 26. febrúar 2014. Af gögnum málsins er ljóst að framkvæmdir voru hafnar sumarið 2014. Mátti kærendum á þeim tíma vera kunnugt um að veitt hefði verið byggingarleyfi fyrir hinum umþrættu framkvæmdum. Kæra vegna byggingarleyfisins barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 10. febrúar 2015 og var þá kærufrestur liðinn. Af þeim sökum verður kröfu kærenda um að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist í máli þessu sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 25. júlí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogstúns vegna lóða nr. 1a-c við Kópavogsbraut og nr. 3, 5 ,7 og 9 við Kópavogstún.

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2013 um að samþykkja leyfi til að byggja fjölbýlishús að Kópavogstúni 3-5 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson