Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2014 Svalvogar

Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2014, kæra á ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignarinnar Svalvoga í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2014, er barst nefndinni 11. s.m., kærir Þ, f.h. Rósa ehf., eiganda Svalvoga í Dýrafirði, fastanúmer 212-5335, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 25. janúar 2014 að leggja sorpgjald fyrir árið 2014 á greinda fasteign. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Ísafjarðarbæ 8. ágúst 2014.

Málavextir: Með álagningarseðli fasteignargjalda í Ísafjarðarbæ fyrir árið 2014, dags. 25. janúar 2014, var kæranda gert að greiða kr. 13.230 í sorpgjald vegna Svalvoga. Er gjaldið tilgreint sem „sorpgjald á sumarbústaði“. Kærandi fékk tölvupóst frá Ísafjarðarbæ 19. mars 2014, þar sem minnt var á ógreidd fasteignargjöld og vísað á vefslóð þar sem rafrænan greiðsluseðil væri að finna. Hinn 26. s.m. sendi kærandi tölvupóst til sveitarfélagsins og fór fram á „niðurfellingu á sorpgjaldi þar sem Ísafjarðarbær hirð[i] ekkert sorp þar“. Kröfu hans var synjað með bréfi, dags. 11. júní 2014, þar sem um lögbundna grunnþjónustu í sveitarfélagi væri að ræða.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu sorpgjalds á því að engin búseta hafi verið á jörðinni Svalvogum í Dýrafirði frá því að hann hafi keypt jörðina 2004. Þar af leiðandi hafi ekki þurft að eyða eða farga neinu sorpi frá henni, enda húsið verið óíbúðarhæft. Leiðin frá Svalvogum að sorpgámum Ísafjarðarbæjar utan við Þingeyri sé um 25 km. Þurfi að sæta sjávarföllum til að komast þá leið um níu mánuði á ári. Við kaup jarðarinnar 2004 hafi öll húsin verið talin ónýt eða í ónothæfu ástandi. Enginn hafi búið að Svalvogum og þar af leiðandi hafi engin þjónusta verið veitt. Kærandi telji sig ekki þurfa að greiða fyrir þjónustu sem ekki sé veitt.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er kröfu kæranda um niðurfellingu sorpgjalda hafnað. Í samþykkt um sorphirðu í Ísafjarðarbæ nr. 1221/2011 komi fram að bærinn annist söfnun sorps frá öllu íbúðarhúsnæði í þéttbýli sveitarfélagsins og á gámastöðvum fyrir íbúðarhúsnæði í dreifbýli. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar innheimti gjald fyrir förgun úrgangs í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þá sé sveitarfélaginu heimilt að innheimta gjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi í samræmi við 2. mgr. 11. gr. Gjöld fyrir hreinsun og förgun úrgangs innheimtist með fasteignagjöldum og á sömu gjalddögum. Bent sé á að um sorpförgunargjald fyrir sumarbústaði sé að ræða, en ekki sorphreinsunargjald, í samræmi við 9. gr. samþykktarinnar. Gjaldið fyrir sumarbústaði sé kr. 13.230 fyrir árið 2014 en kr. 39.230 fyrir hverja fasteign í þéttbýli og kr. 26.700 í dreifbýli. Gjaldið fyrir Svalvoga sé ársgjald fyrir sumarbústaði, sem sé 50% af gjaldi fyrir íbúðarhúsnæði í dreifbýli, sbr. 2. mgr. 9. gr. samþykktar um sorphirðu. Íbúðarhæfi sé ekki skilyrði fyrir innheimtu sorpförgunargjalds fyrir þess háttar fasteignir.

Þegar litið sé til þess hvort Svalvogar njóti þeirrar þjónustu sem gjaldið sé innheimt fyrir sé til þess að líta hvort kærandi hafi raunhæfa möguleika á að koma frá sér sorpi til aðgengilegra móttökustöðva. Svalvogar séu staðsettir í 20 km fjarlægð frá Þingeyri. Þar séu gámar sem taki við heimilissorpi án þess að gjald sé tekið fyrir. Skv. 3. gr. samþykktar um sorphirðu í Ísafjarðarbæ sé heimilt í dreifbýli, í samráði við heilbrigðiseftirlit, að setja upp ílát fyrir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili. Staðsetning ílátsins skuli vera þannig að aðgengi að því sé gott. Bærinn telji þessi skilyrði samþykktarinnar vera uppfyllt þannig að þjónustan teljist vera fyrir hendi.

Þegar litið sé á heildartekjur Ísafjarðarbæjar vegna sorphirðu megi sjá að þær séu töluvert undir sorphreinsunarkostnaði og hafi verið það undanfarin ár. Áætlanir sveitarfélagsins bendi til að svo verði einnig árið 2014.

            Áætlun 2014               2013          2012        2011
Skatttekjur        -64.280.000    -64.480.289    -71.972.624    -71.186.386
Sorphreinsun    69.000.000    77.710.498    121.742.272    100.392.786
Tap                        4.720.000    13.230.209    49.769.648    29.206.400

Aðrar tekjur v/
sorpeyðingar    -8.348.880    -10.018.616    -11.718.347    21.890.855
Önnur gjöld v/
sorpeyðingar    11.455.422    13.103.397    11.992.904    1.752.748
Rekstrarniðurstaða    7.826.542    16.314.990    50.044.205    9.068.293

Ljóst sé að heildartekjur sveitarfélagsins hafi verið mun lægri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangs og sé eyðing sorps hjá sveitarfélaginu því rekin með verulegu tapi. Gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustu vegna sorps, sbr. 8. gr. samþykktar um sorphirðu í Ísafjarðarbæ. Þar sem sorphirða sé til staðar og jafnframt rekin með tapi sé ekki grundvöllur til að fella gjaldið niður vegna þess að það sé of hátt.

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds á fasteignina Svalvoga í Ísafjarðarbæ.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis var sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ísafjarðarbær setti með vísan til þessa samþykkt nr. 1221/2011 um sorphirðu í Ísafjarðarbæ. Í samþykktinni segir að Ísafjarðarbær annist söfnun sorps frá íbúðarhúsnæði í þéttbýli og á gámastöðvum fyrir íbúðarhúsnæði í dreifbýli. Þá annist bærinn förgun úrgangs, sbr. 2. mgr. 1. gr. samþykktarinnar. Í dreifbýli sé heimilt að setja upp ílát fyrir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili, sbr. 4. mgr. 3. gr.

Sveitarfélögum var skv. þágildandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. nefndrar 11. gr., og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. samþykktar nr. 1221/2011 innheimtir bæjarstjórn Ísafjarðar gjald fyrir förgun úrgangs og er sveitarfélaginu heimilt að innheimta gjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs. Skulu gjöldin ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum áðurnefndrar 11. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Gjöld fyrir hirðu og förgun úrgangs skulu innheimtast með fasteignagjöldum og skulu lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóta þjónustunnar, sbr. 2. mgr. 8. gr. samþykktarinnar. Um álagningarforsendur segir í 9. gr. að öll sumarhús í Ísafjarðarbæ greiði 50% af sorpförgunargjaldi, en það er gjaldið sem kærandi er krafinn um.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og var skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 9. gr. samþykktar nr. 1221/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. samþykktarinnar er heimilt að setja upp ílát fyrir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili í dreifbýli. Skilyrði er gert um að staðsetning íláts skuli vera þannig að aðgengi að því sé gott. Samkvæmt gögnum málsins er næsta gámasvæði þar sem tekið er við heimilissorpi án endurgjalds í um 20-25 km fjarlægð frá fasteign kæranda, eða á Þingeyri við Dýrafjörð. Óumdeilt er að leiðin frá Svalvogum er illfær meiri hluta árs. Gámasvæðið sem næst er fasteigninni telst eigi að síður vera í alfaraleið í skilningi 4. mgr. 3. gr. samþykktarinnar og sú þjónusta þannig veitt sem kærandi er krafinn um gjald fyrir. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hans samkvæmt gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Ísafjarðarbæ nr. 1204/2013. Loks er ljóst af þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram að álögð gjöld vegna sorphirðu eru ekki hærri en kostnaður við þá þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignarinnar Svalvoga í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir