Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2013 Lindarsel

Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2013, kæra á álagningu sorphirðugjalds árið 2013 fyrir fasteignina Lindarsel 8, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. febrúar 2013, er barst nefndinni 14. s.m., kærir S, Lindarseli 8, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 18. janúar 2013 að leggja á fasteignina Lindarsel 8 gjald að fjárhæð kr. 18.600 fyrir leigu og losun á grárri sorptunnu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 25. mars 2014 og 25. febrúar 2015.

Málavextir: Álagningarseðlar fasteignargjalda í Reykjavík fyrir árið 2013 eru dagsettir 18. janúar 2013. Var kæranda gert að greiða af Lindarseli 8, fastanúmer 205-4350 og 205-4351, 33% og 67% af gjaldi fyrir gráa sorptunnu, alls kr. 18.600. Með bréfi til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, dags. 14. nóvember 2012, tilkynnti kærandi um afpöntun á sorphirðuþjónustu, sem fælist í hirðingu úr einni grárri tunnu, frá og með 31. desember s.á. Með bréfi dags. 29. nóvember s.á. var kæranda tilkynnt að ekki væri hægt að verða við ósk hans um afpöntun á þjónustunni þar sem að lágmarki skyldi vera eitt ílát fyrir blandað heimilissorp við hvert íbúðarhús. Var vísað til 4. mgr. 2. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík nr. 410/2011 varðandi þetta atriði. Með bréfi, dags. 13. desember s.á., mótmælti kærandi þessum málalyktum og kvaðst hafa ákveðið að kaupa alla sorpþjónustu af öðrum aðila. Fylgdi bréfinu staðfesting frá Gámaþjónustunni hf. um að fyrirtækið myndi annast alla heimasorphirðu fyrir kæranda frá og með áramótum 2012/2013.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa ákveðið að kaupa alla sorpþjónustu af Gámaþjónustunni hf. sem uppfylli betur þær kröfur sem hann geri um flokkun úrgangs en Reykjavíkurborg. Grárri sorptunnu sem kærandi hafi haft frá Reykjavíkurborg hafi verið sagt upp en þeirri uppsögn hafnað. Gámaþjónustan hf. bjóði m.a. upp á söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi til jarðgerðar en sú þjónusta sé ekki í boði hjá borginni heldur sé lífrænn úrgangur frá heimilum borgarbúa urðaður þvert á öll umhverfismarkmið. Telji kærandi sig hafa fullan rétt á að kaupa slíka þjónustu af einkaaðila sem til þess hafi starfsleyfi. Reykjavíkurborg hafi ákveðið að innleiða samkeppni og valfrelsi á sorphirðumarkaði. Þannig hafi borgarbúar val um að leigja Blátunnu af borginni og geti einnig valið um mismunandi sorpílát með mismunandi gjaldi eftir þjónustustigi. Hér sé því um þjónustugjald að ræða en ekki skatt og þar með hljóti kærandi að geta valið að nýta sér ekki þjónustu borgarinnar og greiða þá ekki fyrir hana. Ólögmætt hljóti að vera að innheimta þjónustugjald fyrir þjónustu sem sé ekki þegin og hafi verið afþökkuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda verði hafnað. Ákvörðun um sorphirðugjald hafi verið lögmæt og sé fyrirkomulag sorphirðu í Reykjavík lögbundið en ekki valkvætt. Sorphirða sé meðal lögbundinna verkefna Reykjavíkurborgar, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Um skyldur sveitarfélaga til að hirða sorp sé fjallað í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þá sé í reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, sem sett hafi verið samkvæmt ákvæðum 4. og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 13. og 22. gr. laga nr. 55/2003, kveðið nánar á um skyldur sveitarfélaga til sorphirðu. Tilvitnaðar lagareglur kveði þannig skýrt á um að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum á viðkomandi svæði. Í samþykkt Reykjavíkurborgar um meðhöndlun úrgangs nr. 410/2011 segi m.a. að umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar sjái um söfnun á blönduðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík og hafi umsjón með rekstri grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang. Í 2. mgr. 2. gr. komi fram að sérhverjum húsráðanda íbúðarhúsnæðis sé skylt að nota þau ílát og þær aðgerðir sem heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar ákveði. Þá útvegi Reykjavíkurborg sorpílát við íbúðarhúsnæði skv. 3. mgr. 2. gr. Í lokamálslið 4. mgr. 2. gr. sé skýrt kveðið á um að við hvert íbúðarhús skuli vera að lágmarki eitt ílát. Af öllu þessu sé ljóst að Reykjavíkurborg beri skýra lögbundna skyldu til að sinna sorphirðu á blönduðum heimilisúrgangi og að borgin ákveði hvernig þeim málum sé hagað innan sveitarfélagsins að teknu tilliti til ákvæða laga og reglugerða. Gjaldskrá sú fyrir sorphirðu í Reykjavík er hafi verið í gildi við álagningu umdeilds sorphirðugjalds hafi verið nr. 1280/2012. Þar sé kveðið á um að gjald fyrir gráa sorptunnu sem sé sótt minna en 15 metra á 10 daga fresti sé kr. 18.600.

Bent sé á að það sé stefna Reykjavíkurborgar að íbúar greiði að fullu fyrir sorphirðu með sorphirðugjöldum sem taki mið af þjónustu, magni og tegund úrgangs, þ.e. íbúar greiði þjónustugjöld fyrir þá þjónustu sem þeim sé veitt. Íbúar sem kjósi að kaupa þjónustu af einkaaðilum geti fækkað ílátum fyrir blandað sorp og þannig lækkað þjónustugjöld af sorphirðu sem þeir greiði Reykjavíkurborg. Engin heimild sé hinsvegar fyrir því að afþakka lögbundna sorphirðu Reykjavíkurborgar við íbúðarhús og skuli að lágmarki vera eitt ílát fyrir blandaðan heimilisúrgang við hvert íbúðarhús, sbr. 4. mgr. 2. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg.

Að síðustu þyki rétt að benda á að heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar gegni því hlutverki að veita starfsleyfi fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2003, og hafi Gámaþjónustan hf. hvorki þá né nú fengið starfsleyfi nefndarinnar til að safna blönduðum heimilisúrgangi eða lífrænum eldhúsúrgangi, eins og haldið sé fram í málinu.

Loks séu tölur yfir heildargjöld og tekjur af sorphreinsun í Reykjavíkurborg eftirfarandi:

Áætlun 2015        Raun 2014       Raun 2013         Raun 2012
Skatttekjur    -1.225.525.826    -1.158.102.100       -1.083.870.927         -946.903.629
Sorphreinsun    1.240.801.991    1.213.865.012        1.095.114.912        1.000.843.216
Tap    15.276.165    55.762.912             11.243.985             53.939.587

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds á fasteign hans að Lindarseli 8, Reykjavík. Beri honum ekki að greiða gjaldið þar sem hann hafi afpantað þjónustuna og keypt hana af öðrum aðila. Hann fái því ekki þá þjónustu sem verið sé að innheimta gjald fyrir.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis var sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Reykjavíkurborg hefur með vísan til þessa sett samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg. Sú samþykkt sem var í gildi þegar hin umdeildu gjöld voru lögð á fasteign kæranda var nr. 410/2011 og var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2011.
 
Sveitarfélögum var skv. þágildandi 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein, nú sambærilega reglu í 23. gr. laganna. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 410/2011 skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þá skal fyrir söfnun á blönduðum heimilisúrgangi og rekstur endurvinnslustöðva innheimt gjöld í samræmi við 2. mgr. 11. gr. Skulu gjöldin ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum áðurnefndrar 11. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 410/2011 skal innheimta gjöld fyrir söfnun á blönduðum heimilisúrgangi og rekstur endurvinnslustöðva með fasteignagjöldum á sömu gjalddögum. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. miðast sorphirðugjaldið fyrir söfnun á blönduðum heimilisúrgangi við fjölda og stærð sorpíláta, hreinsunartíðni og vegalengd sem draga þarf sorpílát við losun.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki og að sama skapi verður íbúum ekki í sjálfsvald sett hvort að þeir nýta sér þjónustuna eða ekki. Í áðurnefndri samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 410/2011 segir í 2. mgr. 1. gr. að umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar sjái um söfnun á blönduðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavíkurborg og hafi umsjón með rekstri grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang. Í 2. mgr. segir jafnframt að heilbrigðisnefnd sé heimilt að veita öðrum aðilum undanþágu frá þessu ákvæði og ákvæðum 2. gr. um söfnun blandaðs heimilisúrgangs. Í þeim tilvikum þar sem veitt sé undanþága, sé umhverfis- og samgöngusviði jafnframt heimilt að falla frá innheimtu sorphirðugjalda að því marki, sem gjaldið nái til söfnunar heimilisúrgangs og leigu sorpíláta. Ekkert liggur fyrir um að umhverfisnefnd hafi nýtt sér nefnda undanþáguheimild og er því ljóst að skylda til söfnunar á heimilissorpi liggur hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, samkvæmt samþykkt nr. 410/2011.

Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur er heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og var skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 7. gr. samþykktar nr. 410/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Reykjavíkurborg var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á fasteign kæranda en samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 2. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg skal að lágmarki vera eitt sorpílát fyrir blandaðan heimilisúrgang við hvert íbúðarhús og er gjald það sem lagt var á kæranda í samræmi við þá þjónustu. Loks er ljóst af þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram að álögð gjöld vegna sorphirðu eru ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun um álagningu sorphirðugjalds árið 2013 fyrir fasteignina Lindarsel 8, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir