Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2014 Seljadalsnáma

Árið 2015, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. G, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kröfu kærenda um að stöðva yfirvofandi framkvæmdir var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 12. desember 2014.

Fleiri kærendur stóðu að kærunni er hún barst til nefndarinnar, en þeir drógu til baka kæru sína undir rekstri málsins fyrir nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 28. nóvember og 22. desember 2014.

Málavextir: Hinn 14. október 2014 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar umsókn, dags. 3. s.m., um efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, Mosfellsbæ. Sótt var um leyfi fyrir áframhaldandi efnistöku, sem hófst árið 1985 á grundvelli samnings til 30 ára milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar, en samningstíminn var til 9. október 2015. Var í umsókninni gert ráð fyrir efnistöku allt að 60.000 m3 og vinnslutíma frá 14. október til 15. nóvember 2014 og frá 1. apríl til 9. október 2015. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafði farið fram og fyrir lá endanleg matsskýrsla, sem og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 1. október 2014, en til þess var vísað í framkvæmdaleyfisumsókninni. Umsóknin var samþykkt á greindum fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar með eftirfarandi bókun: „Skipulagsnefnd samþykkir veitingu framkvæmdaleyfis m.a. með skilyrðum um óháðan úttektar- og eftirlitsaðilum auk annarra atriða sem fram koma í framkvæmdalýsingunni.“ Var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt á fundi bæjarstjórnar 22. október 2014 og framkvæmdaleyfið gefið út af skipulagsfulltrúa 23. s.m. Útgáfa leyfisins var tilkynnt með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og fjölmiðlum 31. s.m.

Hinn 5. nóvember 2014 lagði leyfishafi fram beiðni til skipulagsfulltrúa um breytingu á vinnslutíma á þann hátt að hann yrði til 24. desember 2014 og frá 16. mars til 9. október 2015 með hléi frá 1. júlí til 7. ágúst 2015. Var greind breyting grenndarkynnt hagsmunaraðilum með bréfi, dags. 14. nóvember 2014, og þeim gefinn frestur til 21. s.m. til að gera athugasemdir vegna breytingarinnar. Skipulagsfulltrúi gaf umsögn um málið 25. s.m. og lagði til að fallist yrði á ósk um breyttan vinnslutíma þar sem það gæti dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Hinn 27. s.m. var samþykkt á fundi bæjarráðs að taka undir tillögu skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla bæjarráðs samþykkt af bæjarstjórn á fundi hennar 3. desember s.á.

Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að hið kærða framkvæmdaleyfi muni skerða einkaréttindi og friðhelgi heimila þeirra og frístundahúsa með stórkostlegum hætti. Grjót-námið og tilheyrandi þungaflutningar muni einnig leiða til verulegrar verðrýrnunar á eignum þeirra. Umfang fyrirhugaðra framkvæmda sé ekki í samræmi við gildandi skipulagsáætlun fyrir Mosfellsbæ heldur sé það miklu meira en búast mátti við. Í gildandi Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 sé fjallað um efnisnámur. Þar komi fram að úr Seljadalsnámu sé tekið árlega 10-11.000 m3 af efni. Í kjölfar samþykktar á aðalskipulagi hafi Mosfellsbær bannað frekari efnisvinnslu í námunni þar sem framkvæmdaraðili hafi ekki haft framkvæmdaleyfi skv. 14. gr. og 15. gr. skipulagslaga, sbr. ákvæði IV. kafla til bráðabirgða í lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. 1. gr. laga nr. 104/2006.

Hafi kærendur sent athugasemdir til Skipulagsstofnunar sem hafi beinst að þremur þáttum. Í fyrsta lagi að ástand Hafravatnsvegar væri með þeim hætti að ómögulegt væri að leyfa þungaflutninga með grjót eftir honum. Í öðru lagi að loftgæði yrðu ófullnægjandi á rekstrar-tíma námunnar og að hljóðvist yrði ófullnægjandi. Hafi Mosfellsbæ ekki verið heimilt að gefa út hið umþrætta framkvæmdaleyfi til að starfrækja Seljadalsnámu vegna framangreindra atriða sem hafi áhrif á kærendur. Að auki hafi verið óheimilt að veita leyfi fyrir námi á 60.000 m3 af efni á einu ári þegar gert hafi verið ráð fyrir sex sinnum minni efnistöku í aðalskipulagi. Engu máli skipti hvort Seljadalsnáma hafi verið nýtt á árum áður. Veiti ákvæði til bráðabirgða með lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, sbr. 1. gr. laga nr. 104/2006, eigendum eða umráðamönnum eldri náma ekki aukin rétt til veitingar framkvæmdaleyfis umfram þær kröfur sem séu gerðar til nýrra náma. Sömu sjónarmið um veitingu framkvæmdaleyfis til námuvinnslu eigi því við um Seljadalsnámu og séu uppi þegar um nýja námu sé að ræða, þó að teknu tilliti til þess að náman sé sýnd á aðalskipulagsuppdrætti. Hafi Mosfellsbæ því borið að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem sé lýst í IV. kafla náttúruverndarlaga, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og 13. gr. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki sé að sjá að Umhverfisstofnun eða náttúruverndarnefnd hafi gefið umsögn sína um svo stórfellt jarðefnanám líkt og hér um ræði, skv. 2. mgr. 47. gr. náttúruverndarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 140/2001. Þá sé ekki að sjá í framkvæmdaleyfinu að greint sé frá stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi eða gerð þess efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt leyfinu líkt og áskilið sé í 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Loks sé ekki að sjá að sveitarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar líkt og áskilið sé í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins sé haldin svo verulegum ágöllum að óhjákvæmilegt sé að fella það úr gildi. Skorti mjög á að nægjanlega hafi verið gengið úr skugga um að mengun af völdum hávaða og svifryks sé innan marka sem kærendur verði að þola. Eigi kærendur rétt til þess að búa við heilnæm lífsskilyrði og í ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Bent sé á að fyrirhugað sé að sexfalda það efnismagn sem taka eigi úr námunni og því megi gera ráð fyrir að bæði hávaða og svifryksmengun muni sexfaldast. Hefði verið nauðsynlegt að Mosfellsbær léti fara fram sérstaka rannsókn á áhrifum þessa í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðir sem hafa verið settar með stoð í þeim lögum, s.s. nr. 724/2008 um hávaða, nr. 1000/2005 um kortlagningu hávaða og nr. 817/2002 um mörk fyrir fallryk úr andrúmslofti. Fullnægjandi rannsókn á málinu hafi ekki verið gerð, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þau skilyrði séu ófullnægjandi, sem hafi verið sett í framkvæmdarleyfið af hálfu Mosfells-bæjar, að leitast skuli við að lágmarka rykmengun og annað ónæði af akstri með því að halda niðri hraða flutningabíla og vökva Hafravatnsveg þegar nauðsyn krefji á framkvæmdartíma. Sé ljóst að skilyrðin séu ómarkviss. Að auki sé lítið hald í því að banna efnisvinnslu og flutninga á laugardögum og sunnudögum á tímabilinu 1. júlí – 15. ágúst 2015 enda dvelji flestir kærendur á staðnum alla daga vikunnar, jafnt að sumri sem vetri. Gerð sé krafa um að skýrari skilyrði verði sett með áskilnaði um að sveitarfélagið geti sjálft gripið inn í framkvæmd þeirra á kostnað leyfishafa ef út af sé brugðið.

Loks bendi kærendur á að sem íbúar og eigendur fasteigna við Hafravatnsveg og í nágrenni Seljadalsnámu hafi þeir verulega hagsmuni af því að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi. Eigi þeir því einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni umfram aðra.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geti þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi, sbr. 52. gr. skiplagslaga nr. 123/2010. Kærendur eigi ekki slíkra hagsmuna að gæta, hvorki einstaklega né verulegra. Til þess að kærendur eigi lögvarða hagsmuni í málinu beri þeim að sýna fram á með ótvíræðum hætti að þeir eigi slíka hagsmuna að gæta. Framkvæmd sú sem heimiluð hafi verið með hinu umþrætta framkvæmdarleyfi sé byggð á samningi um efnistöku í Seljadal í landi Mosfellsbæjar, dags. 9. október 1985, og hafi efnistaka átt sér stað á nefndu svæði allt frá því að samningur þessi hafi verið gerður. Feli framkvæmdin því aðeins í sér áframhaldandi heimild til efnistöku sem átt hafi sér stað um langt skeið og verði af þeim sökum ekki séð að hin kærða ákvörðun gangi gegn einstaklingsbundnum og lögvörðum hagsmunum kærenda. Þá sé ekki hægt að takmarka umferð á Hafravatnsvegi auk þess sem ástand hans sé á ábyrgð Vegagerðarinnar en ekki sveitarfélagsins. Beri af þeim sökum að vísa kærunni frá.

Vísað sé til þess að hið kærða framkvæmdaleyfi hafi fengið meðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og hafi verið gefin út sérstök skýrsla þar að lútandi. Hafi þar verið komist að þeirri niðurstöðu að heildaráhrif framkvæmdarinnar væru óveruleg. Að auki hafi legið fyrir jákvætt álit Skipulagsstofnunar á hinum umþrættu framkvæmdum og þær séu jafnframt í samræmi við gildandi Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030. Hafi því legið fyrir ítarlegt mat á umhverfisáhrifum þar sem leitað hafi verið afstöðu og sjónarmiða hlutaðeigandi aðila. Í umsókn leyfishafa hafi að auki verið skýrlega greint frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Hafi allt framagreint leitt til þess að tekin hafi verið ákvörðun um að gefa út framkvæmdaleyfi hinn 23. október 2014, en þó með ítarlegum skilyrðum.

Í aðalskipulagi sé aðeins að finna tölur um umfang efnistöku í fortíð en ekki sé sett takmörkun á efnistöku í framtíð. Hafi verið sótt um framkvæmdarleyfið samkvæmt ákvæði IV. til bráðabirgða í náttúruverndarlögum, sbr. einnig 2. mgr. 47. gr. sömu laga. Liggi fyrir að aðalskipulagið hafi hlotið umsögn lögbundinna aðila og komi þar fram áætlun um efnistöku og frágang á efnistökusvæðinu. Sé umfjöllun kærenda um að ekki hafi verið fylgt 2. mgr. 47. gr. laga um náttúruvernd eða sjónarmiða IV. kafla því röng. Að auki sé því mótmælt að ekki sé skýrlega greint frá stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi eða gerð þess efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt leyfinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Hafi verið fjallað um allt framangreint í framkvæmdaleyfinu og í þeim gögnum sem leyfisveitingin hafi verið byggð á. Séu forsendur leyfisins því skýrar og í samræmi við fyrrgreint ákvæði laganna. Þá sé því mótmælt að ekki hafi verið gætt rannsóknarreglunni við meðferð málsins. Í greindri skýrslu um mat á umhverfisáhrifum sé vikið bæði að loftgæðum og hljóðvist á framkvæmdatíma. Í báðum tilvikum hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að áhrif framkvæmdanna séu bæði tímabundin og óveruleg. Hafi rannsóknin því verið fullnægjandi og í raun ítarlegri en sé gert ráð fyrir í lögum.

Hafi mögulegt ónæði og röskun sem kærendur geti orðið fyrir verið lágmarkað eins og hægt sé. Að auki sé rétt að líta til eðli framkvæmdanna, en hið kærða leyfi gildi aðeins til 9. október 2015 og renni samningurinn þá út. Sé það hugsanlegt að kærendur þurfi að sætta sig við aukna umferð og svifryksmengun um nokkurra mánaða skeið. Fráleitt sé að hin tímabundna umferð sem stafi frá framkvæmdarleyfishafa muni hafa í för með sér varanlega skerðingu á einkaréttindum og friðhelgi kærenda eða rýri verðmæti eigna þeirra. Sé um hóflega og eðlilega nýtingu að ræða.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ekkert fjárhagslegt tjón verði hjá kærendum þótt efnistakan fari fram í hinn fyrirfram afmarkaða og stutta gildistíma leyfisins og sé fullyrðingum um verðmætarýrnun vísað á bug. Hafi framkvæmdaleyfið verið veitt hinn 23. október 2014 að loknu umhverfismati, en mati á umhverfisáhrifum hafi lokið með áliti Skipulagsstofnunar frá 1. október 2014. Taki framkvæmdaleyfið til allt að 60.000 m3 af efni og sé tímabundið, eða til 9. október 2015.

Sú efnistaka sem hafi átt sér stað á svæðinu eigi sér jarðfræðilegar skýringar. Í námunni sé að finna berg með fágætri hörku sem ekki sé vitað til að sé annars staðar að finna í nýtanlegri nálægð við Reykjavík. Það séu því rík efnisrök að baki námuvinnslunni sem vert sé að hafa í huga þegar málið sé skoðað í heild. Kærendur hafi þegar átt kost á, og hafi nýtt sér, að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í aðdraganda málsins í umhverfismatsferlinu. Hafi verið ákveðið á sínum tíma að leiða málið í þann farveg að fá umhverfismat vegna framkvæmdarinnar, þó ljóst sé að það hafi verið umfram skyldu. Hafi Mosfellsbær óskað eftir því að umhverfisáhrif efnistökunnar yrðu metin áður en framkvæmdaleyfisumsókn yrði tekin fyrir og hafi verið orðið við þeirri beiðni að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar fyrir málsmeðferðinni. Hafi því mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið unnið sam-kvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð um mat á umhverfis-áhrifum nr. 1123/2005. Umhverfismatið hafi leitt í ljós að framkvæmdin sé tímabundin, möguleg umhverfisáhrif séu afturkræf, að frátöldum áhrifum á ásýnd lands sem þegar séu komið fram. Jafnframt hafi verið sett ströng skilyrði um tilhögun vinnslu og efnisflutninga til að draga úr því tímabundna ónæði sem gæti hlotist af efnisflutningum. Að auki hljóti efnistaka að vetri til að valda minni ama en á öðrum árstíma þar sem hugsanleg rykmengun sé almennt miklu minni af veðurfarslegum ástæðum, sem og minni útivera íbúa.

Sé efnistakan í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og innan marka þess, bæði hvað varði afmörkun og umfang. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 hafi ekki sett hámark á efnistöku í Seljadal né öðrum námum. Engin mörk séu sett á magn efnistöku. Framkvæmdin sé því í fullu samræmi við skipulagsáætlanir Mosfellsbæjar. Umfang efnistökunnar teljist minniháttar sem og sá tímarammi sem hafi verið skammtaður til vinnslunnar. Hafi vinnslu- og frágangsáætlun námunnar verið sett fram í fullu samræmi við IV. kafla náttúruverndarlaga og hafi Umhverfisstofnun í tvígang gefið umsögn í tilefni af mati á umhverfisáhrifum. Benda megi á að í skilyrðum framkvæmdaleyfisins séu m.a. atriði sem hafi komið fram í umsögnum stofnunarinnar. Sé leyfið í fullu samræmi við áherslur og umsagnir stofnunarinnar.

Í matsskýrslu hafi verið fjallað um áhrif af völdum hávaða og rykmengunar og hafi verið tekið tillit til upplýsinga um umferð, gerð tækja, vinnutíma o.fl. Sýni niðurstöður matsskýrslunnar að hávaði af völdum efnistökunnar verði innan marka sem sett séu í reglugerð nr. 724/2008. Talið sé að lítil sem engin rykmengun stafi af námuvinnslunni sjálfri þar sem efni sé ekki malað þar. Uppspretta svifryks sé því aðeins við þungaflutninga og ef mótvægisaðgerðum sé beitt, líkt og tekið sé fram í matsskýrslu, eigi að vera hægt að draga verulega úr rykmengun og halda henni innan marka reglugerða. Liggi fyrir bæði umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis og Umhverfisstofnun, sem og álit Skipulagsstofnunar, um þennan þátt. Áhersla sé lögð á mótvægisaðgerðir vegna þessara þátta sem séu hluti af skilyrðum framkvæmdarleyfisins.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, Mosfellsbæ. Var heimild veitt fyrir allt að 60.000 m³ tímabundinni efnistöku. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fór fram og er álit Skipulagsstofnunar þar um frá 1. október 2014.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærendur ýmist eiga eða eru íbúar fasteigna sem standa flestar við Hafravatns- og Nesjavallaveg og fer meginþungi umferðar vörubifreiða vegna hinnar umdeildu efnistöku um þá vegi. Blasir því við að kærendur eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og skiptir ekki máli í því sambandi að efnistaka úr námunni hafi átt sér stað áður.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru allar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess framkvæmdaleyfisskyldar. Nánari skilyrði fyrir ákvarðanatöku sveitarstjórnar eru tíunduð í nefndri 13. gr. sem og 14. gr. sömu laga hvað varðar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum.
 
Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir og er henni heimilt að binda framkvæmd skilyrðum í samræmi við þær áætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Í bókun bæjar-stjórnar, þegar hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að framkvæmdalýsing hafi fylgt umsókn um framkvæmdaleyfi. Í lýsingunni er m.a. fjallað um skipulagsáætlanir og gerð grein fyrir því að gengið verði út frá því að leyfið muni byggja á gildandi aðalskipulagi. Í greinargerð með Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 er í kafla 4.9 fjallað sérstaklega um efnistöku úr Seljadalsnámu. Er þar greint frá forsögu efnistöku í Seljadal, samningi þeim er að baki efnistökunni standi og því að um 325.000 m³ efnis hafi verið teknir þaðan til ársins 2012, eða um 12.000 m³ á ári. Einnig er greint frá áframhaldandi efnistöku, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, og að efnistökusvæðið muni stækka út fyrir þau mörk sem fyrir séu. Að auki er tekið fram að stefna sveitarfélagsins við nýtingu auðlinda sé að spilla ekki umhverfinu að óþörfu og farið sé eftir ýtrustu kröfum um mengunarvarnir samkvæmt lögum hverju sinni. Við nýtingu jarðefna skuli leggja áherslu á að gengið sé frá námum á vandaðan hátt. Hin umdeilda framkvæmd fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum og í framkvæmdalýsingu er gerð ítarleg grein fyrir frágangi við verklok. Þá kemur fram í lýsingunni að efnistakan verði innan þess svæðis sem þegar sé afmarkað sem efnistökusvæði í aðalskipulagi. Verður að telja með hliðsjón af framangreindu að skilyrði 4. mgr. 13. gr. hafi verið uppfyllt og hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins, enda er ljóst af orðalagi aðalskipulagsins að þar sé einungis verið að lýsa þeirri nýtingu sem verið hafði en ekki verið að takmarka efnistöku til framtíðar við neitt ákveðið viðmið umfram samning þann sem um hana gildir. Nýtti sveitarfélagið sér aukinheldur þá heimild sama lagaákvæðis að binda framkvæmdina skilyrðum til samræmis við gildandi skipulagsáætlanir, sbr. t.d. skilyrði í framkvæmdaleyfi er varðar rykmengun. Loks bar ekki nauðsyn til fyrir sveitarstjórnina að afla umsagnar Umhverfisstofnunar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga, enda lá fyrir við ákvarðanatökuna samþykkt aðalskipulag sem stofnunin hafði gefið umsögn sína um.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar þar um liggur fyrir. Í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skal sveitarstjórn við umfjöllun um framkvæmdaleyfisumsókn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fram-kvæmdarinnar. Í bókun bæjarstjórnar við töku hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að efnistakan hafi sætt mati á umhverfisáhrifum og að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Var það álit stofnunarinnar að neikvæð áhrif vegna framkvæmdanna yrðu að mestu tímabundin og ekki veruleg, sem og að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Einnig var áréttað að umsögnum og athugasemdum hefði verið svarað á fullnægjandi hátt. Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hjá sveitarfélaginu lágu því fyrir greinargóð gögn. Var framangreindum skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um málsmeðferð fullnægt með hliðsjón af því sem rakið er. Þá nýtti sveitarstjórn sér heimild 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga til að binda leyfið skilyrðum sem fram komu í áliti Skipulagsstofnunar. Veiting framkvæmdaleyfisins var síðan tilkynnt með auglýsingu í fjölmiðlum og Lögbirtingablaði í samræmi við 4. mgr. 14. gr. Loks var breyting á vinnslutíma síðar grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að tjá sig áður en hún var samþykkt af bæjarráði.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að bæði efnisleg og formleg málsmeðferð hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga.

Grenndaráhrif sem fylgt geta hinum umræddum framkvæmdum felast einkum í aukinni umferð þungaflutningabíla og hávaða og rykmengun sem henni fylgir. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að um er að ræða tímabundna framkvæmd. Auk þess voru framangreind áhrif ítarlega könnuð við mat á umhverfisáhrifum og þau talin innan þeirra marka sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum. Var og komið til móts við athugasemdir íbúa í nágrenni við framkvæmdasvæðið með því að setja í framkvæmdaleyfið skilyrði með það að markmiði að minnka greind neikvæð umhverfisáhrif á meðan á framkvæmdum stendur. Loks verður ekki annað séð en að sveitarfélagið hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda lágu fyrir því ítarleg gögn eins og áður er lýst sem lutu m.a. að áhrifum framkvæmdarinnar á loftgæði og hávaða.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson