Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

77/2013 Sautjándajúnítorg

Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2013, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis um að afturkalla leyfi fyrir hundinum David Byron, örmerki nr. 352206000089460, til heimilis í íbúð nr. 207 að Sautjándajúnítorgi 3 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Sautjándajúnítorgi 3, Garðabæ, þá ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 24. júlí 2013 að afturkalla skráningarleyfi hundsins David Byrons, í eigu kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 11. september 2013.

Málavextir: Kærandi sótti um leyfi fyrir hundinn David Byron hinn 28. maí 2013 til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Umsókninni fylgdu tilskilin gögn samkvæmt 4. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000, þ. á m. listi með undirskriftum sameigenda umsækjanda að Sautjándajúnítorgi 1-7. Var gefið út skráningarskírteini fyrir hundinn, dags. 20. júní 2013. Húsfélagið Sautjándajúnítorgi 1-7 hafði þá samband við heilbrigðiseftirlitið og gerði athugasemd við skráninguna. Tilskilið samþykki meðeigenda fyrir hundinum lægi ekki fyrir þar sem of fáir hefðu samþykkt hundahaldið. Var kæranda tilkynnt með bréfi 1. júlí s.á. að til þess að skráning hundsins yrði lögleg þyrfti heilbrigðiseftirlitið að fá að nýju fullnægjandi yfirlýsingu meðeigenda að stigagangi umsækjanda um samþykki fyrir hundinum. Bærust þessi gögn ekki fyrir 20. s.m. teldist skráningin ólögleg. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 24. s.m., kemur fram að viðbótargögn hafi borist en þau væru ófullnægjandi. Var kæranda tilkynnt að varanlegt leyfi væri afturkallað en að hundurinn yrði skráður til bráðabirgða til 23. október 2013. Kærandi undi ekki þeim málalyktum og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa staðið í þeirri trú að varanlegt leyfi hefði verið gefið út fyrir hund sinn þar sem kæranda hefðu verið afhentir pappírar þess efnis og öll gjöld hefðu verið greidd. Síðan hefði borist bréf frá heilbrigðiseftirliti Garðabæjar eftir að stjórn húsfélagsins hefði gert athugasemdir við leyfið. Kærandi hefði talið sig hafa samþykki 2/3 íbúa í húsinu fyrir hundinum sem væri orðinn stór hluti af fjölskyldunni og erfitt að fjarlægja hann eftir þennan tíma.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin bendir á að um hundahald í Garðabæ gildi heilbrigðissamþykkt nr. 154/2000, sem sé sett með vísan til ákvæða 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en þar sé sveitarfélögum m.a. heimilað að setja samþykktir um takmörkun gæludýrahalds. Samkvæmt 4. gr. samþykktarinnar séu allir hundar sem haldnir séu á eftirlitssvæðinu skráningarskyldir. Sé skráningarskylda grundvöllur fyrir eftirliti og afskiptum sveitarfélagsins af hundahaldinu. Af gögnum málsins liggi fyrir að hundurinn hafi verið haldinn að Sautjándajúnítorgi 3 í Garðabæ 28. maí 2013 og upplýst hafi verið að hann hefði verið þar lengur en í einn mánuð. Samkvæmt reglum hundasamþykktarinnar sé dýrið skráningarskylt á meðan það sé haldið á eftirlitssvæðinu. Við skráningu hundsins hafi verið tekið við gögnum sem eigandi hans hafi lagt fram og eigandinn hafi fengið skráningarskírteini til staðfestingar skráningunni. Í ákvæðum fjöleignarhúsalaga komi fram að eigandi skuli afla samþykkis 2/3 sameigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið kemur í húsið. Heilbrigðisnefnd fjalli um réttindi og skyldur eiganda dýrs með vísan til hollustuhátta og beri að fara að ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, samþykkt um hundahald og stjórnsýslulögum við störf sín. 

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um réttmæti ákvörðunar heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að afturkalla leyfi fyrir hundahaldi kæranda á heimili hans.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Er m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, nr. 154/2000. Þar segir í 1. gr. að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. er kveðið á um skráningarskyldu hunda á eftirlitssvæðinu.

Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Gögn málsins bera með sér að aðeins lá fyrir samþykki 41.7% sameigenda viðkomandi stigahúss fyrir hundahaldi kæranda, með 40.4% eignarhluta. Samkvæmt 4. gr. samþykktar nr. 154/2000 er óheimilt að gefa út skráningarskírteini fyrir hund nema fyrir liggi samþykki allra meðeigenda fjöleignarhúss ef við á. Með sérstöku fylgiskjali með umsókn um skráningu hunds í sveitarfélögunum Álftanesi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi kemur fram að nauðsynlegt sé að afla samþykkis 2/3 hluta, eða 66.7%, eigenda fjöleignarhúss sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang með umsækjanda. Bæði skuli miðað við fjölda íbúða og eignarhluta. Er þessi áskilnaður um hlutfall samþykkra sameigenda í samræmi við ákvæði 1. mgr. 33. gr. a laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, eins og þeim var breytt með lögum nr. 40/2011. Ljóst er að kæranda tókst ekki að leggja fram samþykki 2/3 sameigenda sinna að Sautjándajúnítorgi 1-7 fyrir hundi sínum. Eins og að framan er rakið er greint hlutfall samþykkra eitt þeirra skilyrða sem sett eru fyrir heimild heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til útgáfu skráningarskírteinis, sbr. 4. gr. áðurnefndrar samþykktar. Þar sem ófrávíkjanlegu skilyrði samþykktarinnar var ekki fullnægt er ljóst að hin kærða ákvörðun var ógildanleg að lögum. Afturköllun á skráningu hundsins uppfyllti því áskilnað 25. gr. stjórnsýslulaga fyrir afturköllun stjórnvaldsákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis um að afturkalla leyfi fyrir hundinn David Byron, örmerki nr. 352206000089460.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir