Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2010 Fróðengi og Spöngin

Árið 2015, þriðjudaginn 24. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2010, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 um að breyta deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta í Borgarholti, vegna lóðanna nr. 1-11 við Fróðengi og Spönginni 43 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2010, er barst nefndinni 29. s.m., kærir H, Fróðengi 14, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs frá 10. desember 2009 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar vegna lóðanna Fróðengi 1-11 og nr. 43 við Spöngina í Reykjavík. Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2010. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að öðrum kosti verði borgaryfirvöldum gert að kaupa fasteign kæranda.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Í nóvember 2007 tók gildi breyting á deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta í Borgarholti, er fól í sér að á svæðinu yrðu tvær lóðir með tvíþættri og samtengdri uppbyggingu, annars vegar þjónustuhús með aðkomu frá Spönginni og hins vegar allt að 112 þjónustuíbúðir fyrir aldraða með aðkomu frá Fróðengi.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. júlí 2009 var lagt fram minnisblað ásamt uppdrætti að breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar við Fróðengi, er fól í sér að bílastæðaskilmálum fyrir lóðirnar að Spönginni 43 og Fróðengi 1-11 yrði breytt. Var málinu vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra svæðisins og á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. s.m. var samþykkt að kynna það formanni skipulagsráðs. Hinn 12. ágúst 2009 var tillagan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs og samþykkt að auglýsa hana til kynningar þegar uppdrættir hefðu verið lagfærðir „…í þeim tilgangi að auka hlutverk gróðurs og landslagshönnunar á bílastæðalóðum“. Jafnframt var málinu vísað til borgarráðs er samþykkti þá afgreiðslu hinn 20. s.m. Að loknum kynningartíma tillögunnar var hún lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 23. október 2009 ásamt fram komnum athugasemdum og tillögum til úrbóta, þ.á m. frá kæranda, og samþykkt að framlengja frest til athugasemda. Málið var á ný tekið fyrir hjá skipulagsráði hinn 25. nóvember s.á. og hin kynnta tillaga samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsstjóra, dags. 20. s.m. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 10. desember s.á. Í kjölfar þess var málið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að í upphaflegu deiliskipulagi umrædds svæðis hafi verið gert ráð fyrir byggingu kirkjusels Grafarvogssóknar og hafi það átt að vera tiltölulega smátt í sniðum. Auglýst hafi verið breyting á deiliskipulagi við Spöng, verslun og þjónusta, sem rétt hefði verið að auglýsa sem breytt deiliskipulag fyrir Fróðengi/Spöng, en Fróðengi teljist íbúðarsvæði en ekki þjónustusvæði. Með breytingunni sé þeirri stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 kollvarpað að ekki sé gert ráð fyrir sérstökum þéttingarreitum innan Engjahverfis né breytingum á landnotkun. Ljóst sé að borgaryfirvöldum hafi orðið á mikil mistök við að heimila í skipulagi þjónustubyggingar sem séu mjög stórar og auk þess gert ráð fyrir miklum fjölda bílastæða á kostnað íbúa og annarra fasteignareigenda á svæðinu. Sé staðsetningu bílastæða norðan Fróðengis 14-16 og sunnan Borgarholtsskóla sérstaklega mótmælt.

Mjög óheppilegt sé að blanda saman íbúðarsvæði og þjónustusvæði enda sé starfsemi á þjónustusvæðum allan sólarhringinn árið um kring, mikil umferð og stór svæði lögð undir bílastæði. Megi vænta aukinnar umferðar við svefnherbergisglugga íbúa að Fróðengi 14 er raskað geti svefnfriði. Þá verði hávaði og loftmengun vegna umferðar. Komið hafi verið á framfæri athugasemdum og tillögum að hugsanlegum úrbótum, til að mynda um breytta aðkomu að bílastæðum, en þær hafi verið hafðar að engu. Með góðu móti hafi verið hægt að draga úr áhrifum umferðar með hljóðmön. Deiliskipulagið hafi í för með sér óhæfilega röskun á hagsmunum kæranda og annarra íbúa og verði þau lífsgæði kæranda sem felist í að búa við botngötu að engu gerð. Þá muni breytingin valda töluverði verðrýrnun á fasteign kæranda. Mál þetta snúist ekki aðeins um réttindi íbúa heldur einnig um lýðræði og rétt til þátttöku í ákvörðunum er snerti nánasta umhverfi þeirra.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því hafnað að hin kærða ákvörðun feli í sér slíka hagsmunaröskun að ógildingu varði. Að auki sé bent á að úrskurðarnefndin sé ekki bær um taka afstöðu til kröfu kæranda um skyldu borgarinnar til kaupa á fasteign hans.

Meðferð umræddrar deiliskipulagstillögu hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Við meðferð málsins hafi verið komið til móts við þær athugasemdir sem kærandi hafi sett fram um aukið umferðarálag. Fyrirhuguð 48 bílastæði á lóð Borgarholtsskóla hafi verið færð norðar á lóðina, sem nemi fimm metrum, svo unnt væri að koma fyrir auknum gróðri og jarðvegsmön til að draga úr ásýnd bíla frá nálægum íbúðarhúsum. Einnig hafi bílastæðunum verið fækkað úr 48 í 42 til samræmis við eldra skipulag.

Sérstaklega skuli áréttað að ekki sé um fjölgun bílastæða að ræða frá eldra deiliskipulagi. Einungis sé verið að draga úr sameiginlegum heildarfjölda bílastæða lóðanna tveggja, þ.e. við Spöngina 43 og Fróðengi 1-11, sem gæti aukið nokkuð nýtingu stæðanna við Fróðengi. Einnig hafi í ljósi athugasemda verið talin ástæða til að bæta við heiti deiliskipulagstillögunnar.

Ekki verði séð hvernig breytingin geti talist íþyngjandi fyrir kæranda en yfirleitt sé talið mjög heppilegt að blanda saman íbúðum og þjónustu þar sem hægt sé m.a. að samnýta bílastæði. Fullyrðingum kæranda um að breytingin muni valda hávaða og loftmengun og raska hagsmunum hans og lífsgæðum sé mótmælt sem órökstuddum og ósönnum. Það sé umferð í Reykjavík alla daga, alls staðar, og geti kærandi ekki vænst þess að borgarskipulag taki sérstaklega mið af svefnvenjum hans. Geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Að því er varði meinta rýrnun á verðmæti eignar kæranda sé bent á að ekki sé gerð nein tilraun af hálfu kæranda til að renna stoðum undir þá fullyrðingu með haldbærum rökum. Þá sé jafnframt bent á bótaákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. Valdi þessi málsástæða því ekki að deiliskipulagsbreytingin teljist ógildanleg.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi breytingar á deiliskipulagi Spangarinnar fyrir lóðirnar Spöngin 43 og Fróðengi 1-11. Fram hefur komið að bygging þjónustuhúss og þjónustuíbúða var heimiluð með deiliskipulagsákvörðun er tók gildi árið 2007 og jafnframt voru í greinargerð deiliskipulagsins ákvæði um bílastæði fyrir húsin og fyrirkomulag þeirra sýnt á uppdrætti. Sætir sú ákvörðun ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar enda er eins mánaðar kærufrestur skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 löngu liðinn.

Hin kærða ákvörðun fól í sér breytingar á tilhögun bílastæða fyrir umrædd hús. Gerði ákvörðunin ráð fyrir fækkun bílastæða fyrir þjónustuhús. Í stað 160 stæða, þ.e 29 ofanjarðar og 131 í bílakjallara, var gert ráð fyrir 86 stæðum. Bílastæðum fyrir 1. hæð, alls 56 stæði yrði fullnægt á lóð og fyrir 2. hæð yrði allt að 40 bílastæði samnýtt með Fróðengi 1-11. Aðkoma að stæðum á lóð þjónustuhúss yrði frá Spönginni líkt og áður. Sem fyrr er gert ráð fyrir samnýtingu bílastæða skóla og þjónustuíbúða norðan við þjónustuíbúðir aldraðra að Fróðengi 1-11.  Samnýtt eru 56 bílastæði norðvestan við fasteign kæranda og 42 bílastæði norðan við fasteignina. Ekið er að þeim bílastæðum um Fróðengi, framhjá fjölbýlishúsinu að Fróðengi 14. Við meðferð skipulagsbreytingarinnar var fallið frá því að auka fjölda stæða norðan við hús kæranda, sem eru sameiginleg þjónustuíbúðum og skóla, úr 42 í 48. Þá var sett kvöð um gróður og landmótun framan við þau bílastæði, sem og framan við þau stæði sem eru norðvestan við fasteign kæranda. Þeim bílastæðum á svæðinu sem ekið er að um Fróðengi var ekki fjölgað. Bílastæði sem staðsett eru vestan og norðan við fasteign kæranda að Fróðengi 14 færast samkvæmt uppdrætti deiliskipulagsins fjær fasteigninni frá því sem áður hafði verið.

Samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga höfðu sveitarstjórnir víðtækt skipulagsvald innan marka sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 3. gr., 23. gr. og 26. gr. laganna. Fækkun bílastæða við þjónustuhús að Spönginni 43 kann að auka umferð um Fróðengi vegna samnýtingar nefndra bílastæða norðan við þjónustuíbúðir aldraðra við Fróðengi, en hafa verður í huga að fjöldi stæðanna er óbreyttur og heimild til að samnýta þau stæði var fyrir hendi fyrir umdeilda skipulagsbreytingu. Breytingin er og að nokkru til hagsbóta fyrir kæranda með færslu bílastæða frá fasteign hans og kvöð um gróður til að skerma af stæði sem eru norðan við fasteignina. Hins vegar skal bent á að valdi gildistaka skipulags því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á sá er sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að hann leysi fasteignina til sín, sbr. 33. nefndra laga. Það er þó ekki í verkahring úrskurðarnefndarinnar að fjalla um mögulegan bótarétt samkvæmt nefndu ákvæði og verður því ekki fjallað um kröfu kæranda í þá veru.

Með vísan til þess sem að framan greinir og þar sem ekki verður annað af gögnum ráðið en að meðferð umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið lögum samkvæmt er kröfu kæranda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 10. desember 2009 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta, vegna lóðanna Fróðengi 1-11 og Spöngin 43.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________            ___________________________
Ómar Stefánsson                                       Þorsteinn Þorsteinsson