Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2015 Kjalvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 83/2015, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 um að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar við breytingar á Kjalvegi á þriggja km kafla norðan Hvítár að Árbúðum, Bláskógabyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015, að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar við breytingar á Kjalvegi, Bláskógabyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda ef hin umdeilda framkvæmd hefst eða getur talist vera yfirvofandi, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Skipulagsstofnun barst 3. júlí 2015 tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaðar framkvæmdir skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var um að ræða breytingar á Kjalvegi á þriggja km kafla, norðan Hvítár að Árbúðum. Kom fram í meðfylgjandi greinargerð að gert væri ráð fyrir að vegarkaflinn myndi fylgja núverandi vegi á rúmlega eins km kafla en á um tveggja km kafla yrði hann lagður utan núverandi vegstæðis. Gert væri ráð fyrir að vegurinn yrði sex metra breiður og nokkuð byggður upp, eða um 0,5-0,7 metra yfir aðliggjandi landi, en fyllingar kynnu að verða hærri á sumum köflum. Var og tekið fram að framkvæmdin raski náttúruverndarsvæði sem skilgreint væri í svæðisskipulagi miðhálendisins.

Skipulagsstofnun leitaði álits Bláskógabyggðar, Ferðamálastofu, forsætisráðuneytis, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar áður en tekin var ákvörðun um matsskyldu. Með ákvörðun sinni 21. ágúst 2015 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi telur að fyrirhuguð framkvæmd, lagning vegar og efnistaka, sé háð mati á umhverfisáhrifum skv. a-lið 1. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en til vara skv. 6. gr. laganna. Þá hafi framkvæmdin ekki sætt mati í áætlun skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Framkvæmdin við Kjalveg hafi verið unnin í áföngum og hafi Vegagerðin með þeim hætti talið sig geta komist hjá því að láta fara fram mat, þar sem hver framkvæmdakafli um sig sé svo lítill að ekki sé skylt að láta hann sæta mati á umhverfisáhrifum. Þetta sé alþekkt aðferð framkvæmdaaðila til þess að skjóta sér undan matsskyldu og sé það margdæmt fyrir Evrópudómstólnum að þetta vinnulag standist ekki löggjöfina um umhverfismat framkvæmda, nú tilskipun 2011/92/ESB, áður tilskipun 85/337/EBE. Skipulagsstofnun hafi borið við ákvörðun sína að líta til þess að ekki sé aðeins um að ræða þá þriggja km vegarlagningu heldur breytingu sem framundan sé á Kjalvegi sem sé alls um 170 km. Skipulagsstofnun hafi verið fullljóst hvernig Vegagerðin hafi hagað skiptingu framkvæmdarinnar á mörgum undanförnum árum og hefði í því ljósi sérstaklega borið að kveða á um matsskyldu.

Skipulagsstofnun var gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda en hefur kosið að láta hana ekki til sín taka þar sem stofnunin hafi ekki sérstakra hagsmuna að gæta af því hvort framkvæmd Vegagerðarinnar við Kjalveg verði stöðvuð eða ekki.

Vegagerðin krefst í fyrsta lagi frávísunar á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Hún byggi á röngum lagagrunni þar sem heimild til stöðvunar framkvæmda eigi við ákvarðanir sem heimili framkvæmdir og sé með því skilyrði að framkvæmdir séu hafnar eða yfirvofandi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Kæran beinist að ákvörðun er varði matsskyldu framkvæmdar en heimili ekki sem slík framkvæmdina og sé kæranda því óheimilt að krefjast stöðvunar framkvæmda, en kærandi geri ekki kröfu um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar skv. 3. mgr. 5. gr. Þá sé á það bent að þar sem sveitarstjórn hafi samþykkt og falið skipulagsfulltrúa að veita framkvæmdaleyfi myndi stöðvun ganga þvert gegn þeirri ákvörðun, sem ekki sé til umfjöllunar hér, og beri því að vísa málinu frá. Áðurnefnd 1. mgr. 5. gr. áskilji að verk sé hafið eða yfirvofandi. Ekki sé fyrirhugað að hefja vinnu við framkvæmdina fyrr en á næsta ári og beinist krafa um stöðvun á verki sem ekki sé hafið og ekki standi til að hefja fyrr en á næsta ári. Hafi kærandi því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af stöðvun verksins og beri af þeim sökum að vísa stöðvunarkröfunni frá.

Stöðvunarkröfunni beri að hafna verði henni ekki vísað frá. Skilyrði þess að verða við kröfunni séu ekki uppfyllt þar sem verkið sem krafist sé stöðvunar á sé hvorki hafið né yfirvofandi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu minniháttar með tilliti til umhverfisáhrifa sem myndu hverfa á stuttum tíma ef fjarlægja þyrfti jarðefnið úr veginum og því engin ástæða til stöðvunar vegna þess að þær séu ekki afturkræfar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og er ákvörðun um slíka frestun undantekning frá þeirri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar Vegagerðarinnar við Kjalveg í Bláskógabyggð. Sú ákvörðun felur ekki í sér sjálfstæðar heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun um samþykki umsóknar og útgáfu framkvæmdaleyfis skv. 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einnig 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í kærumáli vegna slíkrar stjórnvaldsákvörðunar er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis ákvarðana um mat á umhverfisáhrifum verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu hans um frestun framkvæmda. Að sama skapi er ekki tilefni til að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

69/2015 Nökkvavogur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 21. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:
Mál nr. 69/2015, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. ágúst 2015 að innheimta viðbótarlosunargjald vegna sorphirðu við fasteignirnar Nökkvavog 8 og 10.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. september 2015, er barst nefndinni 2. s.m., kæra íbúar, Nökkvavogi 8 og Nökkvavogi 10, Reykjavík, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. ágúst  um að innheimta aukalega skrefagjald vegna sorphirðu við fasteignir kærenda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 4. september og 16. og 21. október 2015.

Málsatvik og rök: Með bréfi frá Reykjavíkurborg, dags. 19. ágúst 2015, var kærendum tilkynnt um breytingu á fasteignagjöldum fyrir árið 2015. Fólst breytingin í því að lagt var á kærendur svokallað skrefagjald, þ.e. viðbótarlosunargjald vegna sorphirðu skv. 2. mgr. 4. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 228/2013 þar sem fram kemur að af sorpílátum sem draga þarf lengra en 15 metra frá sorpgeymslu eða -gerði að sorpbíl til losunar skuli greiða viðbótarlosunargjald skv. gjaldskrá fyrir sorphirðu í Reykjavík. Kærendur hafa kært þessa gjaldtöku til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Kærendur telja að heimild til innheimtu viðbótarlosunargjalds geti ekki átt við fasteignir þeirra þar sem leið að sorpílátum sé innan við 15 metrar. Gjaldið hafi verið lagt á án nokkurs fyrirvara. Þegar grennslast hafi verið fyrir um málið hafi sú skýring verið gefin að aspir á lóðinni við Nökkvavog 6 næðu út á innkeyrslu að fasteignum kærenda og sorphirðumenn treystu sér ekki til að aka inn að þeim fasteignum. Kærendur telja það vera í verkahring borgarinnar að sjá til þess að trjágróður af öðrum lóðum hafi ekki áhrif á sorphirðu frá fasteignum þeirra.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að umdeilt viðbótarlosunargjald hafi verið fellt niður og hafi kærendur því ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta. Beri af þeim sökum að vísa málinu frá.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í kjölfar tölvupóstsamskipta kærenda og starfsmanna Reykjavíkurborgar var kærendum send tilkynning, dags. 16. september 2015, um breytingu á fasteignagjöldum 2015 þar sem hið umdeilda gjald var fellt niður. Telst hin kærða ákvörðun samkvæmt framangreindu ekki lengur hafa réttarverkan að lögum, enda er kæruefni ekki lengur til staðar. Verður því ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

117/2008 Fljótshamrar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2008, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Lyngbraut 12 í Reykholti í Biskupstungum sem og á ákvörðun um að hafna kröfu kærenda um endurupptöku og afturköllun á ákvörðun sveitarstjórnar frá 28. nóvember 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. desember 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. eigenda lóðarinnar Fljótshamra í Biskupstungum, Bláskógabyggð, ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 varðandi deiliskipulag að Fljótsholti og endurútgáfu byggingarleyfis. Skilja verður málskot kærenda svo að kærð sé sú ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 að endurnýja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Lyngbraut 12 í Reykholti í Biskupstungum, sem og ákvörðun um að hafna kröfu kærenda um endurupptöku og afturköllun á ákvörðun sveitarstjórnar frá 28. nóvember 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að sveitarstjórn Bláskógabyggðar verði gert að afturkalla hina ólögmætu skipulagsákvörðun.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 2. apríl 2009, 30. september og 20. október 2015.

Málavextir: Kærendur eru eigendur lóðarinnar Fljótshamra í Reykholti í Biskupstungum en hún var áður hluti af landi Fljótsholts. Með bréfi til Hreppsnefndar Biskupstungna, dags. 7. júlí 2001, óskaði annar kærenda eftir heimild til að leggja vinnuslóða um landareign sína úr landi Stóra-Fljóts að fyrrnefndri lóð. Vegarslóðinn var lagður og hefur verið nýttur alla tíð síðan. Ekki var hins vegar útbúinn vegur sem sýndur var á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum frá árinu 1999 en hann átti að liggja frá Fljótshömrum í norðaustur að Lyngbraut, og nýtast Fljótshömrum og þremur lóðum til.

Hinn 28. nóvember 2006 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar breytingu á áðurgreindu deiliskipulagi Reykholts sem fól í sér að tvær lóðir voru sameinaðar í eina lóð auk þess sem bætt var við lóðina svæði, þar sem áður hafði verið gert ráð fyrir fyrrgreindum vegi sem aðkomu að Fljótshömrum, og vegurinn tekinn út af skipulaginu. Þá fól breytingin í sér að eingöngu yrði byggt eitt hús á hinni sameinuðu lóð í stað tveggja áður. Deiliskipulagsbreytingin var hvorki auglýst né grenndarkynnt. Með bréfi, dags. 22. janúar 2007, var hún send Skipulagsstofnun til afgreiðslu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og aftur með lagfærðum gögnum hinn 21. mars s.á. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar og tók hún gildi með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007.

Eigendur hinnar sameinuðu lóðar, sem er nr. 12a við Lyngbraut, sóttu um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni. Var það samþykkt í byggingarnefnd 27. mars 2007 og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 3. apríl s.á. Hafist var handa við jarðvegsframkvæmdir á lóðinni en framkvæmdir lágu niðri í nokkurn tíma í kjölfarið.

Með bréfi, dags. 6. september 2007, fóru kærendur fram á að ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu yrði endurupptekin og afturkölluð. Erindið var tekið fyrir í byggðarráði Bláskógabyggðar 25. september s.á. og afgreiðslu þess frestað þar til umsögn skipulagsfulltrúa lægi fyrir. Skilaði skipulagsfulltrúi umsögn, dags. 7. nóvember 2007, til sveitarstjórnar. Á fundi byggðarráðs 28. nóvember s.á. var oddvita Bláskógabyggðar og skipulagsfulltrúa falið að ræða við eigendur Fljótshamra og kanna möguleika á lausn málsins og yrði niðurstaða þeirra viðræðna lögð fyrir byggðarráð. Fundur var haldinn 8. apríl 2008 en ekki tókst að ná samkomulagi um lausn. Á fundinum var upplýst að eigendur hinnar sameinuðu lóðar væru því andsnúnir að ákvörðun um deiliskipulagsbreytinguna yrði endurupptekin.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 30. september 2008 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á hinni sameinuðu lóð. Var málinu vísað til skipulags- og byggingarnefndar sem samþykkti umsóknina á fundi 24. október s.á. Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi byggðarráðs Bláskógabyggðar 4. nóvember 2008. Þá var fundargerð byggðarráðs staðfest á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 11. s.m.

Með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, dags. 21. nóvember 2008, var kærendum tilkynnt að sveitarstjórn hygðist gefa út að nýju byggingarleyfi vegna einbýlishúss á hinni sameinuðu lóð á grundvelli deiliskipulagsbreytingarinnar sem tók gildi 7. maí 2007. Beiðni kærenda um endurupptöku deiliskipulagsbreytingarinnar væri þar með hafnað.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að vegna aðstæðna hafi þeir gert bráðabirgðaaðkomu að Fljótshömrum í gegnum annað land sem jafnframt sé í þeirra eigu. Hafi þeir haft áform um að færa aðkomuna yfir tvær lóðir norðaustan við Fljótshamra, líkt og gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum frá 1999, þegar fram liðu stundir og ef þeir seldu annað hvort landið. Að beiðni eigenda fyrrgreindra lóða hafi deiliskipulaginu verið breytt þannig að lóðirnar hafi verið sameinaðar í eina og aðkoman að Fljótshömrum felld niður. Kærendum hafi ekki orðið þetta ljóst fyrr en framkvæmdir hófust á lóðinni sumarið 2007.

Kærendur hafi átt fund með sveitarstjóra vegna málsins sumarið 2007 og óskað skýringa. Þar sem ekki hafi fengist haldbær svör hafi þeir sent sveitarstjórn bréf, dags. 6. september 2007, og krafist þess að ákvörðun um áðurnefnda deiliskipulagsbreytingu yrði endurupptekin og afturkölluð. Í stað þess að afgreiða erindi kærenda hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar auglýst tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts en áðurnefnd deiliskipulagsbreyting hafi verið felld inn í hið endurskoðaða heildarskipulag. Kærendur hafi mótmælt þessari breytingu á deiliskipulagi með bréfi til skipulagsfulltrúa, dags. 7. júlí 2008,  en ekkert heyrt af málinu eftir það fyrr en með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 21. nóvember 2008, þar sem tilkynnt hafi verið að sveitarstjórn hygðist gefa út að nýju byggingarleyfi vegna húss á hinni sameinuðu lóð og að beiðni kærenda um endurupptöku væri þar með hafnað.

Málsmeðferð sveitarstjórnar á beiðni kærenda um endurupptöku og afturköllun ákvörðunar um áðurnefnda deiliskipulagsbreytingu hafi verið ólögmæt. Engin raunveruleg rannsókn eða mat á hagsmunum aðila hafi farið fram og engin umsögn hafi borist frá skipulagsfulltrúa. Málið hafi því ekki verið nægilega upplýst þegar ákveðið hafi verið að hafna beiðni kærenda um endurupptöku og afturköllun. Niðurfelling aðkomunnar breyti verulega nýtingarmöguleikum kærenda á báðum eignum sínum. Standi ákvörðunin verði aðkoman að lóð þeirra ávallt að vera um hina landspilduna sem tilheyri þeim, sem takmarki nýtingu þess lands, ráðstöfunarmöguleika og verðmæti þess. Þá hafi umrædd aðkoma verið nauðsynleg tenging yfir á norðausturhluta svæðisins.

Ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 26. gr. og 7. mgr. 43. gr. þeirra, þar sem deiliskipulagstillagan hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir kærendum. Sveitarstjórn beri því að afturkalla ákvörðunina. Ekkert mat liggi heldur fyrir á þeim hagsmunum sem undir séu í málinu eða þýðingu hinnar ólögmætu ákvörðunar fyrir kærendur en það telji þeir skýrt brot á meginreglu stjórnsýsluréttar um rannsókn máls, 10. gr. stjórnsýslulaga og 21. gr. sömu laga um rökstuðning. Ákvörðunin brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar enda liggi engin lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki þeirri ákvörðun að afturkalla ekki ákvörðunina um leið og upplýst var um þau mistök sem gerð hafi verið. Sveitarstjórnin hafi kosið að standa við ákvörðunina til að firra sig tjóni, enda hafi framkvæmdir verið hafnar á lóðinni. Sveitarstjórnin sé því í raun að breyta deiliskipulagi eftir á, þ.e. samþykkja eftir á framkvæmdir og áform sem hún hefði ekki gert ef rétt hefði verið staðið að málum. Sömu meginsjónarmið og grunnrök eigi því við um afturköllun hinnar ólögmætu ákvörðunar og búi að baki 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Krafa um ógildingu byggingarleyfis byggist á þeirri málsástæðu að afturkalla beri hina ólögmætu deiliskipulagsbreytingu og þar af leiði að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við deiliskipulagið óbreytt.

Málsrök Bláskógarbyggðar: Bláskógabyggð fer aðallega fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, þar sem kæra hafi borist að kærufresti liðnum, en ella að kröfum kærenda verði hafnað.

Krafa kærenda um endurupptöku umdeildrar deiliskipulagsákvörðunar virðist einkum byggð á því að sveitarstjórn hafi átt að afturkalla ákvörðun sína, þ.e. á 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fremur en 24. gr. þeirra. Ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga sé heimildarákvæði sem beita verði af mikilli varfærni en skilyrði þess hafi ekki verið uppfyllt. Sveitarstjórn hafi farið yfir fyrirliggjandi heimildarskjöl og tekið afstöðu til þeirra hagsmuna sem í húfi hafi verið. Því fari fjarri að brotið hafi verið gegn 10. eða 21. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi skilyrði 1. og 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku ekki verið uppfyllt auk þess sem meira en þrír mánuðir hafi verið liðnir frá því að kærendum var eða mátti vera kunnugt um ákvörðun sveitarstjórnar. Ákvæðinu verði auk þess ekki beitt þegar um sé að ræða ágreining af þessu tagi um beitingu laga og réttarheimilda. Sveitarstjórn hafi jafnframt ekki talið ljóst af fyrirliggjandi gögnum að kærendur ættu rétt á þeirri aðkomu að lóð sinni sem þeir krefðust.

Á þessum tíma hafi verið unnið að heildarendurskoðun deiliskipulags fyrir stóran hluta Reykholts. Upphaflega hafi verið fyrirhugað að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna, sem deilan snúist um, að nýju óbreytta en svo hafi verið ákveðið að fella hana inn í hið endurskoðaða heildarskipulag. Litið hafi verið svo á að erindi kærenda frá 6. september 2007 hefði verið svarað með því að auglýsa deiliskipulag, þar sem umrætt svæði væri óbreytt frá því sem deiliskipulagsbreytingin hefði gert ráð fyrir, og staðfesta þannig fyrri ákvörðun. Lögmaður kærenda hafi sérstaklega verið látinn vita af auglýsingu deiliskipulagsins.

Skipulagsnefnd hafi talið að með deiliskipulagsbreytingunni sem tekið hefði gildi 7. maí 2007 hefði aðkoma að húsi kærenda einungis verið færð til samræmis við raunverulega aðkomu. Ekki hefði verið verið að ganga á hagsmuni kærenda eða annarra og því hefði ekki þurft að grenndarkynna breytinguna. Breytingin hafi verið óveruleg, einkum þar sem um minnkun á leyfilegu byggingarmagni hafi verið að ræða og byggingarreitur hafi færst fjær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar.

Hið kærða byggingarleyfi sé lögmætt og í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins, en kærendur hafi ekki gert grein fyrir því með hvaða hætti leyfið gangi gegn skipulaginu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar um endurnýjun byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi við Lyngbraut 12a í Reykholti, sem og um synjun um endurupptöku og afturköllun á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 28. nóvember 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum frá árinu 1999, en nefnd deiliskipulagsbreyting tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem þá giltu, var frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra átti. Kærendum var tilkynnt um hinar kærðu ákvarðanir með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 21. nóvember 2008, sem að sögn kærenda barst tveimur dögum síðar, eða 23. s.m. Kæra barst úrskurðarnefndinni í tölvupósti 22. desember 2008 og verður því við það miðað að hún hafi borist innan kærufrests, þótt frumrit kæru hafi borist nokkru síðar, eða 30. s.m.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Hin kærða ákvörðun um að synja um endurupptöku og afturköllun ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi Reykholts var tilkynnt kærendum með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 21. nóvember 2008. Í bréfinu kom fram að sveitarstjórn hygðist gefa út að nýju byggingarleyfi vegna byggingar húss að Fljótsholti í Biskupstungum á grundvelli deiliskipulagsbreytingar sem tekið hefði gildi 7. maí 2007. Beiðni kærenda um endurupptöku skipulagsins væri þar með hafnað.

Um endurupptöku máls gilda almennar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Skal stjórnvald það sem tekið hefur ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds, sem í þessu tilviki er sveitarstjórn, sbr. 2. mgr. 3. gr., 23. gr. og 26. gr. skipulags- og byggingarlaga, taka afstöðu til beiðni um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar. Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins að erindi kærenda um endurupptöku eða afturköllun fyrrgreindrar ákvörðunar sveitarstjórnar um deiliskipulagsbreytingu hafi verið til umfjöllunar í sveitarstjórn. Liggur því ekki fyrir ákvörðun þar til bærs stjórnvalds um lyktir þess máls sem borin verður undir úrskurðarnefndina samkvæmt fyrrgreindri 26. gr. stjórnsýslulaga. Ber af þeim sökum að vísa þeim hluta kærumálsins frá úrskurðarnefndinni. 

Deiliskipulag Reykholts í Biskupstungum var samþykkt í sveitarstjórn Biskupstungnahrepps 29. júní 1999 en samkvæmt þágildandi 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga skyldi birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda. Ekki verður séð að auglýsing um samþykkt þess deiliskipulags hafi verið birt í samræmi við framangreint lagaákvæði og tók skipulagið því aldrei gildi. Breyting á því deiliskipulagi, sem um er deilt í máli þessu, tók hins vegar gildi með formlegum hætti með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007. Kærufrestur vegna þeirrar skipulagsbreytingar er löngu liðinn og sætir hún því ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar.

Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar um endurnýjun byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi við Lyngbraut 12a í Reykholti er í samræmi við fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu frá árinu 2007, sem eins og áður segir sætir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar. Þar sem ekki liggur annað fyrir en að málsmeðferð við þá leyfisákvörðun hafi verið lögum samkvæmt verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu á endurnýjun greinds byggingarleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á þeirri ákvörðun að synja um endurupptöku og afturköllun ákvörðunar frá 28. nóvember 2006, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi við Lyngbraut 12 í Reykholti í Biskupstungum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Ómar Stefánsson                                             Hildigunnur Haraldsdóttir

102/2014 Fiskeldi Önundarfjörður

Með

Árið 2015, fimmtudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2014, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 29. ágúst 2014 um að framleiðsluaukning á eldi regnbogasilungs í allt að 1.100 tonna ársframleiðslu í Önundarfirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. september 2014, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Dýrfiskur hf., Hafnarbakka 8, Flateyri, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 29. ágúst 2014 um að framleiðsluaukning á eldi kæranda á regnbogasilungi í allt að 1.100 tonna ársframleiðslu í Önundarfirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 27. október 2014.

Málavextir: Með bréfi, dags. 13. febrúar 2014, tilkynnti kærandi til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða aukningu á eldi regnbogasilungs í sjókvíum kæranda í Önundarfirði. Í tilkynningunni kom fram að fyrirhugað væri að auka eldið í allt að 1.100 tonna meðal ársframleiðslu. Fyrir hefði kærandi starfs- og rekstrarleyfi fyrir 200 tonna ársframleiðslu á sama svæði. Var tekið fram: „Hámarksframleiðsla á ársgrundvelli verður 2.000 tonn, en ráðgert er að heildarframleiðsla yfir þriggja ára tímabil yrði 3.350 tonn og slátrað magn 3.500 tonn. Meðalframleiðsla á ári verður því um 1.100 tonn yfir hvert þriggja ára tímabil.“

Skipulagsstofnun leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar. Bárust umbeðnar umsagnir í mars og apríl 2014. Frekari athugasemdir bárust frá Umhverfisstofnun í apríl s.á. og loks barst frekari umsögn frá Hafrannsóknastofnun í júní s.á. í kjölfar tilkynningar kæranda um breytingu á fyrirhuguðu eldi þannig að framleiðsla yrði allt að 1.100 tonn á ári. Svarbréf kæranda vegna umsagnanna bárust í mars og júlí s.á.

Ísafjarðarbær, Fiskistofa, Matvælastofnun og Minjastofnun töldu að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en Samgöngustofa tók ekki afstöðu til matsskyldu. Hafrannsóknarstofnun gerði ýmsar athugasemdir við tilkynningu kæranda og taldi rétt að eldið yrði háð umhverfismati vegna samlegðaráhrifa ef vikið yrði frá fjarlægðarreglu sem reglugerð um fiskeldi kvæði á um. Umhverfisstofnun taldi að ef árleg framleiðsla í Önundarfirði yrði meiri en áætlað burðarþol samkvæmt LENKA viðtakamati gæti fiskeldið haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og væri því háð mati á umhverfisáhrifum.

Matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 29. ágúst 2014 og var það niðurstaða hennar á grundvelli framlagðra gagna að fyrirhugað sjókvíaeldi kæranda, sem gerði ráð fyrir allt að 1.100 tonna ársframleiðslu, kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því háð mati á umhverfisáhrifum. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi, sem er fyrirtæki, bendir á að í upphaflegri umsókn sinni hafi verið gert ráð fyrir 2.000 tonna kynslóðaskiptu eldi sem aðlagað hafi verið í 1.100 tonn í þeim tilgangi að byggja upp mjög varkárt eldi. Núverandi og fyrirhugað eldi í Önundarfirði sé vel undir burðarþolsmati fjarðarins. Kærandi hafi mikla hagsmuni af uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum, auk þess sem systurfélag fyrirtækisins sé með fullvinnslu eldisafurða á Flateyri við Önundarfjörð.

Hvað varði fjarlægðarmörk milli eldissvæða vísi kærandi til umsagnar Matvælastofnunar, en þar komi fram að „…burðargeta Önundarfjarðar til fiskeldis geti með góðu móti rúmað það umfang eldis sem sótt er um. Samlegðaráhrif umræddar kvíaþyrpingar í fullri framleiðslu með kynslóðaskiptu eldi og hvíld á milli kynslóða, auk þeirra rekstrarleyfa sem nú eru virk í firðinum, ætti ekki að yfirskríða það þanþol sem vistkerfi Önundarfjarðar býður upp á út frá sjónarmiði smitsjúkdóma.“

Samkeppnisaðili hafi fengið breytingu á starfsleyfi sínu fyrir 200 tonna þorskeldi í apríl 2013 þannig að leyft yrði að framleiða allt að 50 tonn af regnbogasilungi og 150 tonn af þorski. Í  janúar 2014 hafi sá aðili aftur tilkynnt Skipulagsstofnun um breytingu á starfsleyfi sínu þannig að leyft yrði að framleiða allt að 900 tonn af regnbogasilungi og 300 tonn af þorski. Hafi Skipulagsstofnun ákveðið að þau áform skyldu ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Það mál sé sambærilegt kærumáli þessu.

Kærandi hafi verið fyrst fyrirtækja til að hljóta starfsleyfi og hefja silungaeldi í Önundarfirði á árinu 2012. Það sé óskráð regla, sem eigi rætur að rekja til Rómaréttar, að sá sem sé undan öðrum hafi forgang. Kröfur kæranda byggi bæði á greindri forgangsreglu sem og því mati kæranda að umsókn framleiðsluaukningar hans ásamt öðru fiskeldi í Önundarfirði sé vel undir varkáru burðarþolsmati.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er á það bent að skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 skuli stofnunin taka ákvörðun um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki. Við ákvörðunartökuna hafi það ekki þýðingu að kærandi kunni að hafa verið fyrstur til þess að hefja eldi í Önundarfirði. Hins vegar hafi umrædd regla verið lögfest í 3. mgr. 6. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 49/2014, en þar komi fram að stofnuninni sé ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu ef hin tilkynnta framkvæmd sé fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar sé til efnislegrar meðferðar á grundvelli laganna og fullnægjandi gögn liggi fyrir.

Ekki sé rétt að horfa eingöngu til þess hvaða aðilar séu með leyfi fyrir framleiðslu á eldisfiski. Í þessu efni sé bent á úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 43/2012. Í þeim úrskurði hafi ekki verið fallist á að aðeins beri að horfa til áforma um fiskeldi sem séu fastmótuð og útfærð og hafi rekstrarleyfi, heldur telji úrskurðarnefndin að líta beri til annarra þekktra áforma um fiskeldi á svæðinu, þ.e. án rekstrarleyfis. Skipulagsstofnun hafi horft til mögulegra sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum vegna fyrirhugaðrar aukningar á eldi kæranda. Stofnunin hafi m.a. bent á að í Önundarfirði væri fyrirhuguð 1.200 tonna framleiðsla hjá öðrum aðila. Slík stjórnsýsla sé í samræmi við greindan úrskurð nefndarinnar.

Að mati kæranda sé framleiðsluaukning hans ásamt öðru fiskeldi í Öndunarfirði undir varkáru burðarþolsmati og vísi kærandi máli sínu til stuðnings til umsagnar Matvælastofnunar. Í því sambandi bendi Skipulagsstofnun á úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 129/2012. Ljóst sé að álit eða umsagnir tiltekinna umsagnaraðila séu ekki bindandi við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar. Eingöngu stofnunin hafi það vald að taka ákvörðun um hvort framkvæmd sé matskyld eða ekki og sé henni ekki skylt að byggja afstöðu sína á umsögn Matvælastofnunar.

Í málinu hafi verið bent á að til séu reiknilíkön sem spá betur fyrir um burðargetu eldissvæða í sjó en LENKA og að burðargeta hafsvæða sé mun meiri en LENKA gefi til kynna þar sem tuttugu ár séu síðan viðtaksmatið hafi verið sett fram og frá þeim tíma hafi endurbættar eldisaðferðir leitt til betri fóðurnýtingar og því sé minni losun úrgangsefna frá fiskeldi. Telji Skipulagsstofnun því að LENKA gefi varfærið mat á burðargetu fjarðarins og þar með séu minni líkur á að burðarþol eldissvæðisins sé ofmetið.

Fyrir tilkynningu kæranda hafi fyrirsjáanleg árleg framleiðsla í Önundarfirði verið 1.800 tonn. Með áformum kæranda um að auka eldi í firðinum um 900 tonn yrði samanlagt eldi 2.700 tonn á ári og færi yfir burðarþolsmat byggt á LENKA, en fyrir Önundarfjörð reiknist það 2.250 tonn. Þrátt fyrir að LENKA gefi varfærið mat á burðargetu fjarðarins þurfi að hafa í huga hve grunnur fjörðurinn sé og hversu stutt geti orðið á milli eldissvæða á vegum fleiri en eins rekstaraðila sem muni leiða til þess að erfiðleikar geti skapast í að hvíla svæði með sem bestum hætti. Því sé fullt tilefni að taka undir það mat Hafrannsóknastofnunar að nauðsynlegt sé að fram fari frekari straummælingar á fyrirhuguðu eldissvæði, enda vanti ýmsar mikilsverðar upplýsingar um fjörðinn, svo sem um vatnsskipti í honum og um burðarþol hans. Þá komi fram í umsögn Umhverfisstofnunar að ef árleg framleiðsla í Önundarfirði verði meiri en áætlað burðarþol samkvæmt LENKA viðtaksmati gæti fiskeldi í Önundarfirði haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og eigi því að vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Þá telji Skipulagsstofnun líklegt í ljósi breytinga sem gerðar hafi verið á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi að áður en komi til leyfisveitinga vegna fyrirhugaðra fiskeldisáforma kæranda í Önundarfirði muni þurfa að leggja fram annað og ítarlegra burðarþolsmat en LENKA viðtakamat.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 29. ágúst 2014 um að 1.100 tonna ársframleiðsla kæranda á regnbogasilungi í Önundarfirði kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Um mat á umhverfisáhrifum fer að ákvæðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og eru markmið þeirra skilgreind í 1. gr. Eiga lögin m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Þá er það einnig meðal markmiða laganna að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. nefndra laga skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin, eins og þau voru á þeim tíma, vera háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 2. mgr. 6. gr. er tekið fram að tilkynna beri Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd sé hún talin í nefndum viðauka, en svo er ástatt um fyrirhugað eldi kæranda, sbr. lið 1. g. Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilkynnt er samkvæmt framangreindu ber stofnuninni að fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til við matið. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar.

Í forsendum Skipulagsstofnunar fyrir hinni kærðu ákvörðun kemur fram að niðurstaða hennar byggi sérstaklega á viðmiði 3. viðauka laganna varðandi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til hugsanlegra sammögnunaráhrifa með öðru fiskeldi í Önundarfirði varðandi sjúkdómshættu, auk úrgangsmyndunar sem hafi áhrif á burðargetu, sbr. 1. tl. ii. og iv. viðaukans. Leit stofnunin ekki eingöngu til þess eldis sem þegar hafði verið veitt leyfi fyrir heldur einnig til annarra þekktra áforma um fiskeldi á svæðinu. Með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og áðurnefndum markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum að tryggja að mat hafi farið fram áður en til leyfisveitingar kemur, var Skipulagsstofnun rétt að líta til allra þekktra áforma um fiskeldi á svæðinu, enda er ljóst að nefndu markmiði yrði ekki náð að öðrum kosti.

Óumdeilt er að með fyrirhuguðu eldi kæranda og annarra aðila getur heildarársframleiðsla fiskeldisfyrirtækja á svæðinu farið yfir það viðmið sem fram kemur í LENKA mati fyrir Önundarfjörð. Þrátt fyrir að LENKA viðmiðið sé varfærið mat á burðargetu verður að líta svo á að ákveðin óvissa ríki um eiginleg umhverfisáhrif þess að auka eldi umfram það viðmið á meðan ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um burðargetu fjarðarins. Tilefni var því til að taka tillit til náttúrulegra aðstæðna í Önundarfirði sem valda því að fjarlægðir milli eldissvæða ólíkra rekstaraðila séu stuttar og því geti reynst erfitt að hvíla svæði auk þess sem fjörðurinn er af náttúrunnar hendi grunnur. Þá skorti á upplýsingar um vatnaskipti fjarðarins líkt og bent var á í umsögn Hafrannsóknastofnunar. Var Skipulagsstofnun rétt að teknu tillit til framangreinds að gæta varúðar við töku hinnar kærðu matsskylduákvörðunar.

Kærandi hefur bent á að í janúar 2014 hafi annar aðili tilkynnt Skipulagsstofnun um aukið eldi. Hafi stofnunin talið að áform þess aðila um að framleiða allt að 900 tonn af regnbogasilungi og 300 tonn af þorski væru ekki háð mati á umhverfisáhrifum en kærandi telji að um sambærileg tilvik sé að ræða. Auk þess telji hann að líta beri til forgangs hans þar sem hann hafi fyrstur framkvæmdaaðila og rekstraraðila hafið fiskeldi í firðinum. Almenn regla um forgang til framkvæmda verður hvorki leidd af lögum um mat á umhverfisáhrifum né öðrum þeim lögum og reglum sem til skoðunar koma við matsskylduákvörðun. Þá skal á það bent að ef aðstæður eru breyttar, þrátt fyrir að um framkvæmdir sé að ræða sem sambærilegar eru að efni til, getur það leitt til þess að fara verði með þær á mismunandi hátt. Þegar framkvæmd leiðir til þess að farið er yfir þá burðargetu sem lögð hefur verið til grundvallar verður að líta svo á að aðstæður séu breyttar og því ljóst að ekki var brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar um jafnræði með hinni kærðu ákvörðun.

Af öllu framangreindu er ljóst að málsmeðferð Skipulagsstofnunar var í samræmi við lög og er enga þá form- eða efnisannmarka að finna á hinni kærðu ákvörðun er raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 29. ágúst 2014 um að framleiðsluaukning á eldi regnbogasilungs í allt að 1.100 tonna ársframleiðslu í Önundarfirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Geir Oddsson

74/2015 Ísfélag Vestmannaeyja

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2015, kæra á ákvörðunum Umhverfisstofnunar, frá 12. ágúst 2015, um álagningu dagsekta á Ísfélag Vestmannaeyja hf. frá 17. s.m. vegna brennslu úrgangsolíu í starfsstöðvum félagsins í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Finnur Magnússon hdl., f.h. Ísfélags Vestmannaeyja hf., Strandvegi 26, Vestmannaeyjum, ákvarðanir Umhverfisstofnunar, frá 12. ágúst 2015, um álagningu dagsekta vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöðvum félagsins á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Einnig er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður um frestun réttaráhrifa á meðan kæran er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 21. september 2015.

Málavextir: Kærandi er útgerðarfyrirtæki og rekur m.a. fiskimjölsverksmiðju á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Í þeirri starfsemi notar kærandi olíublöndu sem búin er til úr svartolíu og notaðri olíu sem hefur verið hreinsuð og síuð. Umhverfisstofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2013, að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang og að til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, auk þess að sækja um nýtt starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun. Með bréfi, dags. 10. maí 2013, tilkynnti Umhverfisstofnun kæranda að þar sem ekki hefði borist staðfesting á því að brennslu úrgangsolíu hefði verið hætt eða áætlun um hvernig ákvæði reglugerðar nr. 739/2003 skyldu uppfyllt áformaði stofnunin að áminna kæranda skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftir nokkur samskipti kæranda og stofnunarinnar veitti hún kæranda áminningu með bréfi, dags. 13. janúar 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 28. s.m.. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 11. febrúar s.á., og með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum 12. maí það ár var kröfu kæranda í því máli um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu áminningar hafnað.

Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar 20. júní 2014 var skráð frávik vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöð kæranda í Vestmannaeyjum. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 28. júlí s.á., var vísað til fyrra bréfs hennar frá 2. október 2012 um að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang. Til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, þar sem segði að einungis væri heimilt að brenna úrgangsolíu í starfsstöðvum sem hafi starfsleyfi sem uppfylli kröfur reglugerðarinnar um sambrennslu. Ljóst væri að kærandi hefði ekki slíkt starfsleyfi. Vísaði Umhverfisstofnun til þess að þá þegar hefði kæranda verið veitt áminning fyrir brennslu úrgangsolíu á starfsstöð sinni á Þórshöfn, sbr. áðurgreinda kæru. Þar sem kærandi brenndi nú úrgangsolíu á starfsstöð sinni í Vestmannaeyjum og hefði ekki farið að tilmælum Umhverfisstofnunar varðandi brennslu úrgangsolíu, áformaði stofnunin að veita kæranda áminningu skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 vegna starfsstöðvar hans í Vestmannaeyjum. Veitti stofnunin kæranda áminningu með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 22. s.m., eins og að framan greinir. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 8. janúar 2015, og með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum 25. febrúar s.á. var hafnað kröfu kæranda í því máli um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar.

Með tveimur bréfum, dags. 5. maí 2015, tilkynnti Umhverfisstofnun kæranda að hún fyrirhugaði að leggja dagsektir á kæranda vegna brennslu úrgangsolíu í starfsstöðvum félagsins í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Með bréfi, dags. 5. júní s.á., mótmælti kærandi fyrirhugaðri álagningu dagsekta. Með tveimur ákvörðunum Umhverfisstofnunar, frá 12. ágúst s.á., voru kæranda gerðar dagsektir vegna ofangreindar háttsemi að fjárhæð 25.000 krónur vegna hvorrar starfsstöðvar, þ.e. samtals 50.000 krónur á dag. Dagsektir voru lagðar á „frá og með 17. ágúst 2015 og þar til staðfesting á fullnægjandi úrbótum hefur borist stofnuninni“. Hafa þær ákvarðanir verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Með tveimur bréfum, dags. 9. október 2015, tilkynnti kærandi Umhverfisstofnun að hann hefði stöðvað brennslu hinnar umdeildu olíu í starfsstöðvum sínum í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn og upplýsti að ekki væri ráðgert að hefja brennslu aftur fyrr en um miðjan nóvember 2015 í Vestmannaeyjum og í janúar 2016 á Þórshöfn. Óskaði kærandi eftir því í bréfunum að Umhverfisstofnun hætti án tafar innheimtu dagsekta vegna brennslu verksmiðjuolíu á starfsstöðvum hans. Jafnframt var tekið fram að komi til frekari brennslu á olíunni áður en niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggi fyrir muni kærandi upplýsa Umhverfisstofnun um það. Afstaða Umhverfisstofnunar til þessara erinda liggur ekki fyrir úrskurðarnefndinni.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um stöðvunarkröfu kæranda vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu. Í þeim úrskurði hafi verið tiltekið að tilefni gæti verið til frestunar réttaráhrifa stjórnvaldsákvörðunar þegar fyrirhugað væri að beita beinskeyttum þvingunarúrræðum af hálfu stjórnvalda. Ákvarðanir Umhverfisstofnunar sem nú sé deilt um lúti að álagningu hárra dagsekta vegna tveggja starfsstöðva félagsins og hafi þær ljóslega áhrif á starfsemi og rekstur þess. Að mati kæranda sé því um að ræða beinskeytt þvingunarúrræði af hálfu stofnunarinnar.

Einnig beri að skoða beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa í ljósi þess að einn angi málsins, sá er lúti að lögmæti brennslu „úrgangsolíu“ á starfsstöð kæranda á Þórshöfn, hafi verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni frá 11. febrúar 2014 og kærandi því beðið lengi eftir efnislegri úrlausn um lögmæti brennslu olíunnar. Af þeim sökum telji kærandi, með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins sem og réttaröryggissjónarmiða, að eðlilegt sé að tekið verði tillit til þessara kringumstæðna og fallist á frestun hinna kærðu ákvarðana þar til efnisleg úrlausn um brennslu olíunnar sem og lögmæti dagsektanna liggi fyrir. Geti það vart talist forsvaranlegt að á meðan fordæmisgefandi stjórnsýslumál sé til efnislegrar meðferðar hjá æðra settu stjórnvaldi skuli lægra setta stjórnvaldið geta beitt þvingunarúrræðum til fullnustu ákvarðana sinna.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Stofnunin fer fram á að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa verði hafnað. Kærandi hafi áður fengið áminningar frá stofnuninni og fengið góðan tíma til að verða við kröfum hennar um að hætta að brenna úrgangsolíu á starfsstöðvum sínum þar sem hann hafi ekki sambrennsluleyfi. Ekki sé réttlætanlegt að kærandi geti verið lengur með áminningar án þess að stofnunin grípi til frekari aðgerða og vísi stofnunin að öðru leyti til þeirra gagna sem fyrir liggi vegna fyrri kærumála kæranda á hendur stofnuninni.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber því að skýra hana þröngt.

Í hnotskurn snýst mál þetta um heimild kæranda til brennslu olíuafurðar sem kæranda og Umhverfisstofnun greinir á um hvort standist ákvæði reglugerða nr. 809/1999 um olíuúrgang og nr. 739/2003 um brennslu úrgangs sem settar eru með heimild í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í aðdraganda þeirra ákvarðana sem um er deilt í máli þessu hefur Umhverfisstofnun nú þegar veitt kæranda áminningar vegna brennslu á úrgangsolíu á starfsstöðvum kæranda en hann heldur því fram að ekki sé um úrgangsolíu að ræða. Kærumál vegna þeirra ákvarðana bíða úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni.

Hinar kærðu ákvarðanir fela í sér að lagðar eru á kæranda dagsektir fyrir hvern dag er brennslu hinnar umdeildu olíu er fram haldið í starfsstöðvum kæranda á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Byggir Umhverfisstofnun heimild sína til álagningar dagsekta á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 7/1998, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna, og eru sektirnar 25.000 krónur á dag fyrir hvora starfsstöð þar til úr verður bætt. Telur Umhverfisstofnun úrbætur felast í því að brennslu olíunnar verði hætt.

Ljóst er að um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða og að kærandi á fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera undir úrskurðarnefndina réttarágreining um lögmæti brennslu títtnefndrar olíu sem dagsektarákvarðanir Umhverfisstofnunar lúta að. Þykir eins og hér stendur á ekki rétt að kærandi sæti refsikenndum viðurlögum, svo sem dagsektum, vegna athafna sem ágreiningur er uppi um hvort séu lögmætar eða ekki á meðan sá ágreiningur hefur ekki verið til lykta leiddur hjá kærustjórnvaldi sem hefur ágreiningsmálið til meðferðar. Þá verður ekki litið fram hjá því að ákveðinn vafi er uppi um skilgreiningu á olíu þeirri sem hér er um deilt. Verður að svo stöddu að skýra þann vafa kæranda í hag.

Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að fresta réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvarðana Umhverfisstofnunar, frá 12. ágúst 2015, um álagningu dagsekta á Ísfélag Vestmannaeyja hf. frá 17. s.m. vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöðvum félagsins í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

81/2011 Vesturvör

Með
Árið 2015, föstudaginn 9. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 81/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2011, er barst nefndinni 4. nóvember s.á., kærir D, f.h. Idea ehf., Vesturvör 36, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. ágúst 2011 að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi Kársneshafnar þar sem gert er ráð fyrir nýrri lóð nr. 38 við Vesturvör. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag fyrir Kársneshöfn frá árinu 1990 en á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar, m.a. vegna þess að landrými hefur verið aukið með landfyllingu. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. janúar 2004 tók gildi breyting á nefndu skipulagi þar sem gert var ráð fyrir þremur nýjum lóðum nr. 32, 34 og 36 við Vesturvör.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 19. apríl 2011 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Kársnesi í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með breytingartillögunni var gert ráð fyrir nýrri athafnalóð, nr. 38 við Vesturvör, á landfyllingu norðan Vesturvarar 34 og 36. Samkvæmt tillögunni verður lóðin að Vesturvör 38 tæplega 11.000 m2 að flatarmáli og verður heimilt að reisa þar allt að 6.000 m2 byggingu á 1-2 hæðum með vegghæð að hámarki 10 m og mænishæð 12 m. Bæjarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar 28. apríl 2011 og í kjölfarið samþykkti ráðið hinn 26. maí s.á. samning um úthlutun hinnar nýju lóðar til byggingar iðnaðarhúsnæðis fyrir báta- og skipasmíði á Kársnesi. Skipulagstillagan var auglýst til kynningar og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulagsnefndar 19. júlí 2011 var lagt fram erindi skipulagsstjóra, dags. 26. maí s.á., til lögboðinna umsagnaraðila og framkomnar athugasemdir kynntar. Málið var síðan á dagskrá nefndarinnar 23. ágúst 2011 og lá þá fyrir umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. s.d., um framkomnar athugasemdir. Var tillagan samþykkt ásamt greindri umsögn og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs sem samþykkti erindið á fundi sínum hinn 25. s.m. Skipulagsbreytingin öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. október 2011.

Kærandi vísar til þess að jafnræðis hafi ekki verið gætt við töku hinar kærðu ákvörðunar. Þegar lóðum hafi verið bætt við gildandi deiliskipulag fyrir Vesturvör 32-36, sem samþykkt hafi verið í bæjarráði árið 2003, hafi byggingarskilmálar miðað við 6 m vegghæð og 8 m mænishæð, þrátt fyrir beiðni um heimild fyrir meiri lofthæð húss að Vesturvör 36 sem hefði auðveldað starfsemi í húsinu til muna og gert hana arðbærari. Fyrirhugað mannvirki við Vesturvör 38 verði helmingi lengra en þær byggingar sem fyrir séu á athafnasvæðinu og með því að staðsetja bygginguna langsum meðfram ströndinni muni ásýnd Kópavogs breytast frá Reykjavík séð og öll stærðarhlutföll.

Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði hafnað.

Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þó að honum hafi verið settar einhverjar skorður varðandi stærð byggingar á sínum tíma á lóð sinni við Vesturvör 36, hafi hann enga hagsmuni af því að hindra að öðrum verði gert kleift að byggja hærra hús.  Kærandi hafi sett fram tillögur um frávik frá samþykktu deiliskipulagi varðandi lóðina að Vesturvör 36 og hafi þær verið samþykktar. Byggingarnefndarteikningar hússins beri með sér að vegghæð þess sé 7,33 m og mænishæð sé 9,95 m. Lóðarhöfum á svæðinu hafi verið heimilað að haga húsbyggingum með ýmsum hætti í samræmi við þarfir þeirra. Það sé því ekki um brot á jafnræðisreglu að ræða þó að heimilað verði að byggja hús með 12 m mænishæð að Vesturvör 38. Lítil aukning umferðar muni fylgja starfsemi á lóð Vesturvarar 38 og húsið á lóðinni, sem liggi norðan við lóð kæranda, muni ekki draga úr birtu á þeirri lóð eða hafa veruleg áhrif á útsýni. Hafa verði í huga að um svæði fyrir iðnaðarstarfsemi sé að ræða en ekki íbúðarsvæði en hið kæða deiliskipulag fylgi stefnu gildandi aðalskipulags um landnotkun.

Niðurstaða: Eftir gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var ný tillaga að breytingu deiliskipulags Kársneshafnar við Vesturvör 38-50 lögð fram og samþykkt á fundi bæjarstjórnar 27. nóvember 2012. Tók sú deiliskipulagsbreyting gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. nóvember 2012.  Eftir þá breytingu er í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis gert ráð fyrir nýjum lóðum nr. 40-50 (sléttar tölur) og hefur  lóðinni nr. 38 við Vesturvör í Kópavogi verið skipt í tvær lóðir, um 5000 m² að flatarmáli, hvor með sinn byggingarreit, 32 x 65 m að stærð. Heimiluð mænishæð húsa var lækkuð úr 12 m í 10 m og vegghæð úr 10 m í 8 m frá því sem gert hafði verið ráð fyrir eftir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Liggur því fyrir að ný ákvörðun um breytt skipulag lóðarinnar að Vesturvör 38 tók gildi 30. nóvember 2012. Hefur sú deiliskipulagsbreyting ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Hvað sem lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar líður, stæði hin nýja skipulagsákvörðun óhögguð allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________________
Ómar Stefánsson

 

102/2011 Stafafellsfjöll

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 13. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 102/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 24. júní 2011, sem barst úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála 27. s.m., var úrskurðarnefndinni framsend kæra, eins fjögurra eigenda lóðar nr. 10 í Stafafellsfjöllum í Lóni, dags. 7. júní 2011, vegna afskiptaleysis Sveitarfélagsins Hornafjarðar af húsbyggingu á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum. Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Hornafjarðar frá 2. mars 2011 um að nefndin telji ekki rétt að fara fram á við eiganda húss á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum að hann færi húsið og að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Hornafirði 2. ágúst 2013.

Málavextir og rök: Með bréfi til bæjarráðs og byggingarfulltrúa Hornafjarðar, dags. 1. september 2009, fór kærandi fram á að eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum yrði gert að „fjarlægja húsið, pall og allt það jarðfast, sem byggt hefur verið á klettinum – og því fylgt eftir.“ Var þar vísað til vinnuskúrs sem komið hafði verið fyrir nálægt mörkum lóðar nr. 10. Rakti kærandi það í erindi sínu að framkvæmdir hefðu hafist sumarið 2006 á lóð nr. 11, og hefði hún þá samstundis haft samband við skrifstofu byggingarfulltrúa Hornafjarðar og spurst fyrir um málið. Hún hafi fengið þær skýringar að einungis yrði veitt tímabundið leyfi til tveggja ára fyrir vinnuskúr á þessum stað. Eigandi lóðar nr. 11 hafi jafnframt upplýst að vinnuskúrinn ætti að standa næstu tvö árin á meðan bygging frístundahúss á lóðinni færi fram. Í stað þess að byggja frístundahúsið á réttum stað og rífa skúrinn væri hins vegar unnið að endurbótum á honum en húsið stæði í 3-5 m fjarlægð frá mörkum lóðar nr. 10. Stöðuleyfið væri útrunnið og engin merki sæjust um byggingu á byggingarreit. Húsið líktist í engu vinnuskúr og hér væri um að ræða brot gegn ákvæðum byggingarreglugerðar og deiliskipulags.

Erindi kæranda var tekið fyrir í bæjarráði Hornafjarðar 8. september 2009 og vísað til skipulags- og byggingarnefndar. Var það kynnt á fundi nefndarinnar 10. s.m. og starfsmönnum falið að afla frekari gagna áður en málið fengi endanlega afgreiðslu. Erindið var tekið fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Hornafjarðar 2. mars 2011. Í fundargerð kemur fram að nefndin sé sammála um að á undanförnum árum hafi ýmislegt sem framkvæmt hafi verið á umræddu svæði verið gert án þess að skipulagi hafi verið fylgt í hvívetna. Nefndin telji hins vegar ekki jafnræði fólgið í að krefja einn af eigendum sumarhúsa, þar sem framkvæmd kunni að stangast á við skipulag, um að fara í breytingar þannig að ótvírætt sé að farið sé eftir skipulagi. Af þeim sökum telji nefndin ekki rétt að fara fram á við eiganda húss á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum að hann færi húsið.

Kærandi vísar í kæru sinni til sömu atvika og sjónarmiða og rakin voru í framangreindu erindi frá 1. september 2009. Hann hafi haldið áfram mótmælum sínum og fyrirspurnum og óskað eftir afskiptum byggingaryfirvalda á staðnum af byggingarframkvæmdunum. Þá hafi verið farið fram á að húsið yrði fjarlægt eða flutt á byggingarreit og spurt hafi verið um áætlun sem lyti að því, en án árangurs. Húsið á lóð nr. 11 sé byggt án tilskilinna leyfa, í trássi við skipulag og of nálægt lóðamörkum, en hin umdeilda bygging rýri mjög notagildi lóðar kæranda. Sveitarfélagið hafi brugðist skyldu sinni og ekki farið að lögum.

———-

Sveitarfélaginu og eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum í tilefni af kærumálinu en úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir af hálfu nefndra aðila.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem tóku gildi hinn 1. janúar 2011, kemur fram að ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag getur byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, ef mannvirkið fellur undir 3. mgr. 9. gr. laganna, krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað.

Í máli þessu liggur fyrir að umhverfis- og skipulagsnefnd Hornafjarðar tók hinn 2. mars 2011 afstöðu til erindis kæranda, þar sem þess var óskað að sveitarfélagið beitti eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum þvingunarúrræðum vegna húss sem stæði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð og deiliskipulag heimiluðu. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu til erindisins, svo sem áðurnefnt lagaákvæði kveður á um.

Af framangreindum ástæðum liggur ekki fyrir ákvörðun þar til bærs stjórnvalds sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

46/2014 Fiskeldi Eyjafirði

Með

Árið 2015, fimmtudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2014, kæra á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. apríl 2014 að breyting á eldi, úr þorski í allt að 2.000 tonnum á ári af laxi í sjókvíum Krossaness ehf. í vestanverðum Eyjafirði, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Krossanes ehf., Glerárgötu 30, Akureyri, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. apríl 2014 að breyting á eldi, úr þorski í allt að 2.000 tonnum á ári af laxi í sjókvíum kæranda í vestanverðum Eyjafirði, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 8. júlí 2014.

Málavextir: Með bréfi, dags. 29. maí 2013, tilkynnti kærandi til Skipulagsstofnunar fyrirhugaða breytingu á 2.000 tonna sjókvíaeldi sínu í Eyjafirði úr þorski í lax. Í tilkynningunni kom fram að áform kæranda um þorskeldi hefðu ekki gengið eftir og að stefnt væri að því að samnýta leyfið með leyfi Íslandslax hf. sem væri í eigu sömu aðila. Vísaði kærandi til upphaflegrar umsóknar, gagna og umsagna, vegna gildandi leyfis fyrir 2.000 tonna sjókvíaeldi á þorski, en einnig vísaði hann til umsagna og gagna vegna leyfis Íslandslax hf. til 1.000 tonna laxeldis í Eyjafirði.

Skipulagsstofnun leitaði álits Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Umbeðnar umsagnir bárust í nóvember og desember 2013. Var það álit Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun að eldisbreytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum og taldi sá síðastnefndi að laxeldi af þessari stærðargráðu myndi ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra fiskistofna í vistkerfi Eyjafjarðar. Viðbrögð kæranda vegna umsagnanna bárust í desember 2013. Skipulagsstofnun bauð Fiskistofu að gefa á ný umsögn og í frekari umsögn sinni frá febrúar 2014 benti Fiskistofa á að laxeldi í sjókvíum fylgdi hætta á blöndun strokulaxa af norskum uppruna við villta laxa auk hættu á að sjúkdómar eða sníkjudýr í eldisfiski hefðu áhrif á viðkomu villtra fiska. Tók Fiskistofa fram að hætta væri fyrir hendi á verulegum áhrifum á náttúrulega stofna laxfiska í Eyjafirði ef upp kæmi sjúkdómur eða sníkjudýr í eldislaxinum. Í sama mánuði bárust viðbrögð kæranda við umsögninni. Í kjölfar framangreinds umsagnarferlis leitaði Skipulagsstofnun einnig umsagnar Veiðimálastofnunar og barst hún í mars 2014. Var það álit Veiðimálastofnunar að áhætta af erfðablöndun yrði að teljast vera til staðar og að laxalús gæti aukið afföll af fiskum á gönguleiðum þeirra og beitarsvæðum í firðinum. Dró Veiðimálastofnun þá ályktun að fyrirhugað fiskeldi gæti haft í för með sér neikvæð áhrif á erfðafræði fiskistofna, stofnstærð og veiði úr stofnum laxfiska í Eyjafirði. Viðbrögð kæranda við umsögninni bárust Skipulagsstofnun síðar í sama mánuði.

Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar, á grundvelli framlagðra gagna og með vísan til viðmiða í 3. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, að fyrirhugað sjókvíaeldi kæranda, sem gerði ráð fyrir allt að 2.000 tonna ársframleiðslu af laxi, kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því háð mati á umhverfisáhrifum. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að straummælingar, LENKA mat og umfangsmiklar rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar í Eyjafirði bendi eindregið til þess að fjörðurinn henti mjög vel til fiskeldis. Burðarþol fjarðarins sé mikið og vatnsskipti hröð. Samkvæmt LENKA mati sé burðarþol Eyjafjarðar um 30.000 tonn en nýrri forsendur geri ráð fyrir burðarþoli allt að 40.000 tonnum. Magnið sem um sé að ræða sé því ekki nema lítið brot af burðarþoli fjarðarins, en eins og staðan sé í dag sé ekkert kvíaeldi stundað í honum. Rök sem snúi að umfangi framkvæmdarinnar geti því ekki talist gildur rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu.

Mótmælt sé rökstuðningi Skipulagsstofnunar þess efnis að 3.000 tonna ársframleiðsla á laxi í Eyjafirði geti haft áhrif á endurnýjunargetu náttúrulegs laxastofns Fnjóskár og stofna annarra laxfiska í Eyjafirði. Ekki hafi komið nægilega skýrt fram hvaða neikvæð áhrif umrædd framkvæmd gæti mögulega haft á aðra stofna laxfiska í firðinum en náttúrulegan laxastofn í Fnjóská. Þar sé ekki um að ræða hættu á erfðablöndun og reynsla úr fiskeldi hafi sýnt að laxeldi stafi frekar hætta af villtum stofnum en öfugt þegar komi að sjúkdómshættu.

Ekki sé vitað um nein skráð tilfelli hér á landi þar sem smitsjúkdómar hafi borist úr eldisfiski í villta stofna og sé vísað til umsagnar dýralæknis fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun þar sem segi orðrétt: „Frá því að undirritaður gaf síðast út álit vegna sjókvíaeldis í Eyjafirði hafa forsendur frá heilbrigðissjónarmiðum á engan hátt breyst. Niðurstaðan er sú að ekki er talin þörf á því að fyrirhuguð tegundarbreyting í sjókvíaeldi frá þorski yfir í lax í Eyjafirði fari í sérskylt umhverfismat þ.e.a.s. um þá þætti sem snúa að sjúkdómum. Hér vega þyngst þau rök að laxeldi að ofangreindri stærðargráðu er ekki talið hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang þeirra villtu fiskistofna sem fyrir eru í vistkerfi Eyjafjarðar og nágrennis.“

Ein af ástæðum þess að Eyjafjörður teljist hentugur til laxeldis, og sé skilgreindur sem slíkur af yfirvöldum, sé hversu fáar laxveiðiár séu á svæðinu. Í reglugerð nr. 105/2000 sé kveðið á um að lágmarksfjarlægð kvía frá ám þar sem veiðin sé á bilinu 100-500 laxar á ári skuli vera 5 km. Meðalveiði í Fnjóská frá 1974 hafi verið 299 laxar á ári en sl. 10 ár hafi meðalveiði verið 496 laxar á ári. Fjarlægð fyrirhugaðs eldissvæðis þar sem það sé næst ósum árinnar sé um 8 km, eða vel yfir þeim mörkum sem kveðið sé á um.

Í eldinu yrði um að ræða kynbættan norskan laxastofn sem alinn hafi verið hér á landi í meira en 20 ár. Nái umræddur stofn ekki að verða kynþroska á venjulegum eldisferli í sjókvíum. Lax sem sleppi muni því ekki leita upp í straumvatn sama ár og hann sleppi. Hann verði að leita sér fæðu í hafinu þar til kynþroska sé náð, en á þeim tíma megi búast við miklum afföllum. Fjöldi eftirlifandi fiska sem hugsanlega rati í nærliggjandi ár yrði því mjög lítill og ekki líklegur til að valda merkjanlegum breytingum á villtum laxastofnum. Miklar framfarir hafi orðið á búnaði og vinnuaðferðum við sjókvíaeldi undanfarin ár sem hafi gert það að verkum að verulega hafi dregið úr því að eldisfiskur sleppi úr sjókvíum. Hér á landi sé unnið eftir norskum staðli (NS 9415) sem skilgreini lágmarkskörfur á búnaði miðað við þær aðstæður sem séu á sjókvíaeldisstað. Stöðugt sé unnið að því að bæta þennan árangur enn frekar og stefnt fullum fetum að „núllsleppingu“ laxfiska í sjókvíaeldi.

Eyjafjörður sé einn mest rannsakaði fjörður landsins. Hafrannsóknastofnun og fleiri fagaðilar hafi stundað umfangsmiklar rannsóknir á öllu vistkerfi fjarðarins um áratugaskeið. Sé ekki ljóst hvaða rannsóknum þyrfti mögulega að bæta við til að fullnægja kröfum Skipulagsstofnunar. Eyjafjörður sé einnig sá staður þar sem kvíaeldi hafi átt lengsta samfellda sögu hérlendis og ekki hafi komið fram neinar vísbendingar sem bendi til þess að það hafi haft nein varanleg neikvæð umhverfisáhrif.

Ekki séu líkur á því að umrædd tegundarbreyting úr þorski í lax í gildandi starfsleyfi kæranda kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þar sé nærtækast að vísa í umsagnir Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar, dýralæknis fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun og fyrri umsögn Fiskistofu þar sem komi fram samdóma álita þessara aðila á að litlar líkur séu á því að umrædd framkvæmd hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og eigi því ekki að vera matsskyld.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að skoða eigi umfang fyrirhugaðs eldis, þ.e. framleiðslumagn, í samanburði við stofnstærð villtra laxastofna og annarra laxfiska í ám nálægt eldissvæðinu en ekki einblína á burðarþol Eyjafjarðar. Sé bent á umsögn Fiskistofu í málinu þar sem fram komi að „[þ]ó svo að 3.000 tonna framleiðsla sé aðeins lítið brot af burðarþoli Eyjafjarðar yrði fjöldi eldisfiska geysilega mikill samanborið við náttúrulegan laxastofn Fnjóskár og stofna annarra laxfiska í Eyjafirði.“ Sé því ljóst að 3.000 tonna ársframleiðsla af laxi sé mikið magn í samanburði við fjölda laxa sem séu hluti af náttúrulegum stofni Fnjóskár og annarra laxfiska í firðinum.

Kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem renni stoðum undir þá fullyrðingu hans að reynsla úr fiskeldi hafi sýnt að laxeldi stafi frekar hætta af villtum stofnum en öfugt. Þá sé rétt að hafa fyrirvara á framangreindri tilvísun um að það sé óþekkt að smit hafi borist úr eldisfiski í villta stofna, því það sé ekki þar með sjálfgefið að eldisfiskar geti ekki í framtíðinni haft neikvæð áhrif á náttúrulega laxastofna í ám, hvort sem um Fnjóská eða aðrar ár sé að ræða. Nánar tiltekið geti vísbendingar eða upplýsingar úr fortíðinni eðli máls samkvæmt ekki verið áreiðanlegur grundvöllur fyrir slíkri ályktun. Aðstæður í umhverfinu, svo sem sjávarhiti, geti verið breytilegar frá einu tímabili til annars og því geti framkvæmd á ákveðnu tímabili haft önnur áhrif en sambærileg eða svipuð framkvæmd á öðru tímabili.

Það dragi úr vægi umsagnar dýralæknis fiskisjúkdóma að ekki sé útskýrt nánar hvaða sjónarmið liggi að baki þeim orðum að 2.000 tonna laxeldi sé ekki talið hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang hinna villtu fiskistofna. Þá leggi Skipulagsstofnun áherslu á að í umsögnum sé ekki minnst á hættu á erfðablöndun sem leiði af því að eldislaxar sleppi úr kvíum og mögulega leiti upp í nærliggjandi ár þar sem villtir fiskistofnar lifa.

Í umsögn Veiðimálastofnunar, sem taki ekki aðeins til laxastofnsins í Fnjóská heldur til annarra laxastofna í ám við Eyjafjörð, sé þeirri afstöðu lýst að erfðablöndun vegna sleppifiska sé verulegt áhyggjuefni. Komi m.a. fram að mesta hættan af laxeldi sé vegna stofna norskra eldislaxa sem séu erfðafræðilega frábrugðnir íslenskum laxi. Hversu mikil áhrifin verði sé háð mörgum þáttum, svo sem fjölda og stærð sleppilaxa, hvenær árs þeir sleppi og tíðni þess sem fiskar sleppa, stefnu og styrk sjávarstrauma og stærð þeirra laxastofna þar sem innblöndun verði og hversu ólíkir stofnar eldislax og villts lax séu. Þannig séu litlir stofnar viðkvæmari en stórir gagnvart innblöndun erfðaefnis og blöndun geti haft áhrif á afkomu þeirra, stofnstærð og verðmæti hlunninda. Í umsögninni komi fram að laxastofnar í ám við Eyjafjörð séu litlir og því líklegt að fáa eldislaxa þurfi til að fram komi merkjanleg erfðablöndun í villta laxinum en ekki sé hægt að segja til um hvaða afleiðingar það hefði fyrir stofnstærð og veiðinýtingu. Áhætta af erfðablöndun verði því til staðar. Þá telji Veiðimálastofnun að fyrirhugað fiskeldi geti haft í för með sér neikvæð áhrif á erfðafræði fiskistofna, stofnstærð og veiði úr stofnum laxfiska í Eyjafirði. Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga nr. 59/2006 sé það hlutverk Veiðimálastofnunar að rannsaka hvernig „fiskeldi og fiskrækt megi best stunda í sátt við íslenska náttúru og villta stofna.“ Með hliðsjón af þessu hlutverki stofnunarinnar telji Skipulagsstofnun að hjá stofnun veiðimála sé að finna sérfræðiþekkingu um hvort og þá hvaða áhrif fiskeldi hafi á villta fiskistofna og hafi umsögn slíks stjórnavalds töluvert vægi.

Í kæru sinni vísi kærandi til reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fiskisjúkdómum og blöndun laxastofna. Ef miðað sé við að meðalveiði í Fnjóská sé 496 laxar á ári þá sé ljóst að lágmarksfjarlægð kvía frá Fnjóská skuli vera 5 km. Hins vegar ef veiddir laxar séu fleiri en 500, t.d. 501, á tíu ára tímabili skuli fjarlægðin vera 15 km samkvæmt ofangreindri reglugerð. Lítill munur á fjölda laxa ráði því hvor fjarlægðarmörkin eigi við. Í ljósi þess telji Skipulagsstofnun að ekki eigi að leggja of mikla áherslu á að skoða það nákvæmlega hvor fjarlægðarmörkin eigi við í málinu, eins og kæra kæranda beri með sér. Fram komi í ákvörðun stofnunarinnar að fyrirhugað laxeldi við Haganes og eldissvæði við Ystu-Vík sé í innan við 10 km fjarlægð frá ósum Fnjóskár. Fyrirhuguð staðsetning á eldi kæranda sé á mörkum þess að fullnægja ákvæðum reglugerðarinnar um 15 km. Stofnunin leggi áherslu á að þetta atriði ráði ekki eitt og sér þeirri niðurstöðu að eldið skuli háð mati á umhverfisáhrifum, heldur sé lagt til grundvallar að til staðar sé ákveðin hætta á erfðablöndun með eldi á laxi af norskum uppruna í sjókvíum í nágrenni við ár með náttúrulega laxastofna. Í því efni sé umsögn Veiðimálastofnunar höfð til hliðsjónar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar í málinu lúti ekki að leyfisveitingu heldur matsskyldu, bendi Skipulagsstofnun á að umrædd fjarlægðarmörk eigi við þegar tekin sé ákvörðun um að veita hafbeitar- og sjókvíastöð leyfi, sbr. orðalag í gr. 4.2. í reglugerð nr. 105/2000.

Fullyrðing kæranda þess efnis að norskur eldislax nái ekki kynþroska í venjulegu eldisferli í sjókvíum, og verði því að leita á haf þar til kynþroska sé náð, sé ekki studd staðreyndum. Skipulagsstofnun sé ekki kunnugt um að rannsóknir hafi verið gerðar á afdrifum eldislax sem sloppið hafi úr sjókvíum við strendur Íslands og telji stofnunin ekki hægt að fullyrða að hann muni leita á haf út en ekki í nærliggjandi straumvatn sleppi hann úr eldi. Mikilvægt sé að hafa í huga að íslenskur lax sé fjarskyldur öðrum laxi í Evrópu, þar með norskum eldislaxi.

Við eldi á laxi af norskum uppruna í sjókvíum í nágrenni við ár með náttúrulega laxastofna sé til staðar ákveðin hætta á erfðablöndun. Ekki sé hægt að fullyrða um það með nægilegri vissu að sleppilax muni ekki ganga í ár. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi komist að þeirri niðurstöðu að í málum sem þessu beri að líta til varúðarreglu umhverfisréttar og að skortur á grunnþekkingu eigi ekki að leiða til þeirrar niðurstöðu að framkvæmd teljist ekki matskyld, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 43/2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna fyrirhugaðrar breytingar á 2.000 tonna eldi á ári í Eyjafirði úr þorski í lax.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna og eiga þau m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar, en jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Í 2. viðauka við lögin, eins og þau voru á þeim tíma, eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Er þar á meðal talið þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar, sbr. lið 1. g. Fellur fyrirhugað 2.000 tonna sjókvíaeldi kæranda á laxi í vestanverðum Eyjafirði undir ákvæðið og var tilkynnt um áformin til Skipulagsstofnunar í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laganna. Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að umrætt 2.000 tonna sjókvíaeldi kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka laganna ber Skipulagsstofnun að fara eftir viðmiðum 3. viðauka þeirra, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til við matið.

Kærandi hefur mótmælt því að skilyrði hafi verið til að taka hina kærðu ákvörðun þar sem tegundarbreytingin muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og bendir hann á umsagnir tiltekinna umsagnaraðila máli sínu til stuðnings. Þegar Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um matsskyldu skal hún leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Leitaði stofnunin eftir umsögnum Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar sem og Veiðimálastofnunar, eins og nánar er lýst í málavöxtum. Úrskurðarnefndin leggur hins vegar áherslu á að Skipulagsstofnun er ekki bundin af umsögnum sem aflað er sem hluta af rannsókn máls samkvæmt fyrirmælum í lögum heldur leggur hún sjálfstætt mat á það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í því felst að stofnunin leggur jafnframt mat á innbyrðis vægi þeirra umsagna sem leitað er eftir.

Skipulagsstofnun kemst að því í ákvörðun sinni að beita beri varúðarreglunni þar sem fyrirhugað fiskeldi kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif á villta stofna laxfiska. Kalli það á að áhrif eldisins séu metin í mati á umhverfisáhrifum. Byggir stofnunin niðurstöðu sína að töluverðu leyti á ítarlegri umsögn Veiðimálastofnunar sem og athugasemdum sem fram komu í umsögn Fiskistofu, en óumdeilt er að greindir álitsgjafar eru sérfróðir á þessu sviði. Þá vísar stofnunin í rökstuðningi sínum fyrir hinni kærðu ákvörðun sérstaklega til nánar tilgreindra ákvæða 3. viðauka laga nr. 106/2000. Vísar hún til ákvæðis 1. tl. i. um eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, en stofnunin tekur fram að framkvæmdin feli í sér þreföldun laxeldis í Eyjafirði miðað við núverandi leyfi. Þá byggir stofnunin á 2. tl. ii. sem vísar til staðsetningar framkvæmdar með tilliti til magns, gæða og endurnýjunargetu, og vísar hún þar til mögulegra áhrifa á endurnýjunargetu náttúrulegs laxastofns Fnjóskár og stofna annarra laxfiska, en Fnjóská sé í innan við 10 km fjarlægð frá hluta eldissvæðanna. Loks vísar stofnunin til 3. tl. iii. um eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar með tilliti til óvissu um áhrif hennar, svo sem vegna slysasleppinga sem gætu haft umtalsverð neikvæð áhrif á smáa náttúrulega stofna laxfiska. Af því sem að framan er  rakið og þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðanefndinni verður ráðið að nokkur óvissa ríki um möguleg umhverfisáhrif af 2.000 tonna ársframleiðslu á laxi í Eyjafirði, einkum að teknu tilliti til smæðar villtra laxastofna á svæðinu. Er þannig hvorki hægt að fullyrða að eldislax gangi ekki í ár né um möguleg áhrif á lítinn staðarstofn laxfiska. Bendir því ekkert í málinu til annars en að mat Skipulagsstofnunar um það hvort fyrirhugað eldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum sé forsvaranlegt og byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Þykir hin kærða ákvörðun studd haldbærum rökum, enda leikur vafi á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs eldis eins og áður hefur komið fram.

Af öllu framangreindu er ljóst að við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar var farið eftir viðmiðum í 3. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og þar sem ekki liggur annað fyrir en að farið hafi verið að lögum að öðru leyti verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. apríl 2014 um að breyting á eldi, úr þorski í allt að 2.000 tonnum á ári af laxi í sjókvíum Krossaness ehf. í vestanverðum Eyjafirði, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Geir Oddsson

98/2011 Túngötureitur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. nóvember 2011, er barst nefndinni 3. desember s.á., kæra G, Hávallagötu 53, og H, Hávallagötu 48, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. janúar 2014.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 12. desember 2007 var samþykkt að kynna forsögn að deiliskipulagi Túngötureits fyrir hagsmunaaðilum á reitnum. Forkynning fór fram frá 17. desember 2007 til 8. janúar 2008 og bárust athugasemdir. Ný tillaga að deiliskipulagi Túngötureits, dags. 25. maí 2009, var lögð fram á fundi skipulagsráðs 27. s.m. og var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á reitnum og hverfisráði Vesturbæjar. Tillagan var kynnt frá 5. til og með 22. júní 2009. Athugasemdir bárust.

Á fundi skipulagsráðs 27. apríl 2011 var lögð fram endurskoðuð tillaga skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur að deiliskipulagi Túngötureits, dags. 8. apríl 2011. Samþykkt var að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á reitnum, sem og þeim sem höfðu gert athugasemdir við fyrri hagsmunaaðilakynningar, auk hverfisráðs Vesturbæjar. Tillagan var kynnt frá 6. til 27. maí 2011 og bárust athugasemdir.

Hinn 22. júní 2011 var tillagan lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs ásamt umsögn skipulags- og byggingarsviðs, dags. 21. júní 2011, um athugasemdir sem komu fram við hagsmunaaðilakynningu. Samþykkt var að auglýsa tillöguna og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 30. júní 2011. Tillagan var auglýst frá 6. júlí til og með 17. ágúst 2011. Athugasemdir bárust. Á fundi skipulagsráðs 12. október 2011 var tillagan tekin fyrir á ný og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 3. október 2011, um innsendar athugasemdir. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 3. nóvember 2011. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember 2011.

Túngötureitur afmarkast af Túngötu, Bræðraborgarstíg, Hávallagötu og Hofsvallagötu. Um er að ræða gróna byggð en á reitnum standa 22 hús sem öll voru byggð á árunum 1934-1939, að undanskildu húsinu að Bræðraborgarstíg 31, sem er eldra. Með hinu kærða deiliskipulagi var meðal annars tekin afstaða til verndunar húsa, garðveggja og trjágróðurs, auk þess sem lagt var til að reiturinn nyti svæðisbundinnar verndunar. Skilgreindar voru heimildir til að byggja eða stækka bílskúra og breytingar voru gerðar á lóðinni nr. 31 við Bræðraborgarstíg, sem meðal annars fólu í sér að ekki var lengur gert ráð fyrir almennum bílastæðum á lóðinni.

Málsrök kæranda:
Kærendur skírskota til þess að borgarráð hafi samþykkt hina kærðu deiliskipulagstillögu rúmum 11 vikum eftir að frestur til athugasemda hafi runnið út. Það samræmist ekki 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kveði á um að senda skuli Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð, ásamt athugasemdum og umsögnum um þær, innan átta vikna frá því að athugasemdafrestur hafi runnið út.

Tillagan geri meðal annars ráð fyrir verulegri fækkun bílastæða á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu en mikill skortur sé á bílastæðum á þessu svæði. Fækkun bílastæða við Hávallagötu varði hagsmuni allra íbúa við götuna en þrátt fyrir það hafi tillagan aðeins verið kynnt fyrir íbúum öðrum megin götunnar, þ.e. íbúum á Hávallagötu 30-48, með bréfi skipulagsstjóra Reykjavíkur, dags. 4. maí 2011. Hún hafi hins vegar ekki verið kynnt fyrir íbúum sunnan megin götunnar, við Hávallagötu nr. 35-55, þótt þeir hafi sömu eða jafnvel meiri hagsmuna að gæta varðandi fækkun bílastæða. Íbúum við Bræðraborgarstíg vestanverðan hafi ekki heldur verið kynnt tillagan og hið sama megi segja um íbúa við Sólvallagötu 28-55 og við norðanverða Túngötu.

Að lokum benda kærendur á að framkvæmdir hafi hafist á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu áður en deiliskipulagstillagan hafi verið samþykkt. Kantsteinn hafi verið hækkaður svo ekki væri lengur mögulegt að aka inn á bílastæðin með góðu móti. Hafi þær framkvæmdir verið um garð gengnar þegar skipulagsráð og borgarráð hafi tekið athugasemdir íbúa til umfjöllunar og afgreiðslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að ekkert í skipulagslögum nr. 123/2010 leiði til þess að deiliskipulag verði ógilt þótt frestur samkvæmt 42. gr. laganna sé ekki virtur. Borgaryfirvöld hafi veitt Skipulagsstofnun skýringar á ástæðum þess að dregist hafi að senda tillöguna til umfjöllunar og Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við tillöguna að þessu leyti. Þessi óverulegi ágalli á málsmeðferðinni valdi ekki ógildi deiliskipulagsins, enda verði ekki séð að neinir hagsmunir hafi farið forgörðum þrátt fyrir hann.

Ekki sé heldur fallist á að skort hafi á kynningu á deiliskipulagstillögunni en bent sé á að bréf, sem kærendur vísi til, hafi falið í sér hagsmunaaðilakynningu en ekki grenndarkynningu samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Kynningin hafi eðli máls samkvæmt eingöngu náð til þeirra hagsmunaaðila sem átt hafi eignir á reitnum. Afar vandlega hafi verið staðið að kynningu deiliskipulagsins. Tillagan hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði skipulagslaga og allir þeir sem hafi talið sig eiga hagsmuna að gæta hafi getað komið að athugasemdum.

Umfjöllun um mögulega uppbyggingu á lóð nr. 31 við Bræðraborgarstíg hafi staðið yfir í nokkur ár og ýmsar breytingar verið gerðar, m.a. vegna ítrekaðra athugasemda hagsmunaaðila. Í stað þess að heimila nýtt hús á lóðinni sé nú gert ráð fyrir að gamla húsið standi áfram en heimilt verði að byggja við það. Þá hafi verið horfið frá hugmyndum um skiptingu lóðarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög og kappkostað hafi verið að halda íbúum upplýstum um efni og innihald tillögunnar.

Lóðin númer 31 við Bræðraborgarstíg sé í einkaeigu samkvæmt þinglýsingabókum. Þótt íbúar í nágrenninu hafi lagt bílum sínum inni á lóðinni í einhvern tíma skapi það þeim engan rétt. Þá hvíli engin skylda á Reykjavíkurborg til að láta útbúa þar almenningsstæði til frambúðar. 

Niðurstaða: Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skyldi senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hafði verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan átta vikna frá því að frestur til athugasemda rann út. Frestur til athugasemda við hina kærðu skipulagsákvörðun rann út hinn 17. ágúst 2011. Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun eftir fyrrgreindan átta vikna frest, eða 10. nóvember 2011. Þessi annmarki, er lýtur að hraða og samfellu í meðferð máls, verður ekki talinn þess eðlis að hann hafi haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar eða réttarstöðu kærenda og verður ekki talinn geta ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar.

Kærendur gera jafnframt athugasemd við það að deiliskipulagið hafi eingöngu verið kynnt fyrir íbúum innan skipulagsreitsins en ekki íbúum við jaðar hans. Er þar vísað til hagsmunaaðilakynningar sem fram fór í maí 2011. Fallast má á það með kærendum að íbúar við jaðar skipulagsreitsins kunni að hafa átt hagsmuna að gæta vegna hins kærða deiliskipulags. Með vísan til þess að deiliskipulagstillagan var auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, sbr. 31. gr. laganna, verður þó ekki talið að skort hafi á kynningu skipulagsins með þeim hætti að haft hafi áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar, enda gafst kærendum sem og öðrum kostur á að koma athugasemdum sínum við deiliskipulagstillöguna á framfæri áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Kærendur gera athugasemd við verulega fækkun bílastæða á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu. Með makaskiptasamningi milli bæjarstjórnar Reykjavíkur og eigenda Bræðraborgarstígs 31, dags. 25. júlí 1951, voru gerðar breytingar á lóðarmörkum Bræðraborgarstígs 31, en lóðin er eignarlóð. Kvað samningurinn meðal annars á um að bæjarstjórn Reykjavíkur seldi eigendum Bræðraborgarstígs 31 spilduna þar sem bílastæðin voru staðsett og var hún sameinuð lóðinni. Bæjarstjórnin hefði þó endurgjaldslausan afnotarétt af spildunni þar til húsið Bræðraborgarstígur 31 yrði endurbyggt, nýtt hús reist á lóðinni og Bræðraborgarstígur breikkaður. Umræddur makaskiptasamningur er einkaréttarlegur samningur á milli Reykjavíkurborgar og fyrri eigenda lóðarinnar, sem núverandi eigandi leiðir rétt sinn af, og geta aðrir ekki byggt rétt á honum. Er Reykjavíkurborg jafnframt heimilt að afsala sér afnotarétti af spildunni sem er innan lóðarmarka Bræðraborgarstígs 31. Fækkun bílastæðanna átti sér því eðlilegar skýringar og til þess ber einnig að líta að ekki er að finna í lögum eða reglugerðum fyrirmæli um lágmarksfjölda bílastæða til almenningsnota á íbúðarsvæðum.

Að öllu framangreindu virtu er hið kærða deiliskipulag ekki haldið þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

31/2014 Brautarholt

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reitinn Brautarholt 7.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2014, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. húsfélagsins Ásholti 2-42, þá ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reitinn Brautarholt 7. Var gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin frestaði réttaráhrifum hennar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 7. ágúst 2014.

Með bréfi, dags. 28. apríl 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Árnadóttir hdl., f.h. Hvíta hússins ehf., S Waage ehf. og XO eignarhaldsfélags ehf., eigenda og rekstraraðila Brautarholts 6 og 8, sömu ákvörðun. Var gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi. Með bréfi, dags. 23. júlí 2015, gerðu sömu aðilar þá kröfu að fyrirhugaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 19. ágúst 2015.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. húsfélagsins Ásholti 2-42, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júlí 2015 að veita leyfi til að byggja stúdentagarða, tvær steinsteyptar þriggja hæða byggingar með 102 íbúðareiningum, sem umlykja innigarð, og bílakjallara fyrir 19 bíla á lóð nr. 7 við Brautarholt. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 15. september 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Árnadóttir hdl., f.h. Hvíta hússins ehf., S Waage ehf. og XO eignarhaldsfélags ehf., eigenda og rekstraraðila Brautarholts 6 og 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. ágúst 2015 að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu á lóð nr. 7 við Brautarholt. Er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru allar samofnar og hagsmunir aðila þykja ekki standa því í vegi verða síðargreindu málin, sem eru nr. 35/2014, 68/2015 og 77/2015, sameinuð máli þessu.

Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirra stöðvunarkrafna sem fram komu með síðari kærum málsins.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 25. apríl og 27. maí 2014 og 2. og 17. september sem og í október 2015.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að borgarráð samþykkti 16. júní 1987 deiliskipulag Rauðarárholts, reits 1.242.0. Tók það til lóðar Timburverslunar Árna Jónssonar að Laugavegi 146 og Brautarholti 7 og nærliggjandi svæðis. Afmarkaðist það af Rauðarárstíg, Laugavegi, Nóatúni, Skipholti og Stórholti. Deiliskipulagið mun ekki hafa öðlast gildi á þeim tíma en uppbyggingu á svæðinu þó verið hagað í samræmi við það.

Í nóvember 2012 var samþykkt af skipulagsráði að kynna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu tillögu að breytingu á deiliskipulagi Rauðarárholts vegna Brautarholts 7. Í kjölfar þeirrar kynningar var tillagan auglýst og bárust athugasemdir og ábendingar vegna hennar. Breytt tillaga var endurauglýst og var hún, að málsmeðferð lokinni, send Skipulagsstofnun 15. október 2013 til yfirferðar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Í kjölfar svars stofnunarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 8. nóvember s.á., hófst meðferð nýs deiliskipulags fyrir reitinn.

Á fundi skipulagsfulltrúa 8. nóvember 2013 var tekin fyrir tillaga að nýju deiliskipulagi reitsins Brautarholts 7. Tillagan var byggð á áðurnefndri breytingartillögu og fólst í henni að byggingar með allt að 97 litlum íbúðum fyrir stúdenta myndu rísa. Einnig var gert ráð fyrir þjónustustarfsemi á hluta jarðhæðar og bílakjallara. Var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Á fundi ráðsins 13. s.m. var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði 21. s.m. Tillagan var auglýst frá 4. desember 2013 til 20. janúar 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, sem flestir höfðu einnig gert athugasemdir við málsmeðferð fyrrnefndrar endurauglýstrar breytingartillögu. Var athugasemdum sem fram komu við nefnda endurauglýsingu, sem og við auglýsingu nýs skipulags, svarað með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. febrúar 2014. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. s.m. var deiliskipulagstillagan samþykkt og hún svo staðfest af borgarráði 20. s.m. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 1. apríl s.á. Hefur það verið kært, svo sem áður greinir.

Breyting á deiliskipulagi Brautarholts 7 var samþykkt af borgarráði 21. maí 2015 og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní s.á. Í breytingunni fólst fjölgun íbúða í allt að 102 ásamt fjölgun bílastæða í bílakjallara úr 18 í 19. Deiliskipulagsbreytingin hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. júlí 2015 var samþykkt að veita leyfi til að byggja stúdentagarða, tvær steinsteyptar þriggja hæða byggingar með 102 íbúðareiningum, sem umlykja innigarð, og bílakjallara fyrir 19 bíla á lóð nr. 7 við Brautarholt. Takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu á lóðinni var svo samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst s.á. Hafa þessar ákvarðarnir byggingarfulltrúa verið kærðar, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að deiliskipulagið sé í andstöðu við lög. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að gera skuli deiliskipulag fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi að deiliskipulag skuli að jafnaði ná til reits eða svæða sem myndi heildstæða einingu, eins og svæði með sömu landnotkun, svæði afmarkað af götum, húsaþyrpingu eða annað sem gefi sameiginlegar forsendur fyrir viðkomandi deiliskipulag. Þá segi að í greinargerð skuli færð rök fyrir afmörkun skipulagssvæðisins. Ljóst sé að hið kærða deiliskipulag taki aðeins til einnar lóðar innan skipulagssvæðisins Rauðarárholts, þ.e. Brautarholts 7. Hið kærða deiliskipulag afmarkist ekki af heilum götureit heldur einungis af Brautarholti til suðurs, Mjölnisholti til vesturs og Ásholti til austurs. Byggi afmörkun Reykjavíkurborgar hvorki á málefnalegum sjónarmiðum né skipulagsrökum. Í sömu grein skipulagsreglugerðarinnar komi einnig fram að deiliskipulagssvæði megi ekki skarast. Hið kærða deiliskipulag sé brot á greindri reglu. Tvö deiliskipulög séu í gildi fyrir lóð nr. 7 við Brautarholt þar sem deiliskipulag Rauðarárholts frá 1987 nái einnig yfir umþrætt svæði. Rétt hefði verið að auglýsa og samþykkja breytt skipulagsmörk fyrir deiliskipulag Rauðarárholts í samræmi við mörk hinnar kærðu deiliskipulagstillögu, en það hafi ekki verið gert.

Í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð sé sérstaklega vikið að því að taka verði á umferðar- og samgöngumálum við gerð deiliskipulags. Augljóst sé að ekki hafi verið hægt að taka ákvörðun um nýtt deiliskipulag Brautarholts fyrr en áhrif þess á umferð og bílastæðamál hafi verið rannsökuð. Reiturinn Brautarholt 7 sé í dag notaður undir 64 bílastæði. Sé fáránlegt að ætla að fjarlægja þau bílastæði og byggja 100 stúdentaíbúðir með einungis 19 bílastæðum. Fjölbreytt atvinnustarfsemi sé á svæðinu og komi flestir viðskiptavinir fyrirtækjanna á bílum og leggi í þau fáu stæði sem nú séu við Brautarholtið. Einnig sé veruleg ásókn í bílastæðin vegna tilkomu hótels í götunni. Að auki sé af 20 bílastæðum gert ráð fyrir tveimur fyrir hreyfihamlaða. Sé það á skjön við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en í gr. 6.2.6. hennar komi fram að fyrir 100 íbúðir sé lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða 10.

Að auki hafi Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 verið í gildi þegar deiliskipulagið hafi verið auglýst. Hvergi hafi komið fram að verið væri að auglýsa á grundvelli tillögu að nýju aðalskipulagi. Í 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga segi að sé tillaga að deiliskipulagi ekki í samræmi við aðalskipulag skuli samsvarandi aðalskipulagsbreyting auglýst áður eða samhliða.

Eitt af meginmarkmiðum skipulagslaga sé að tryggja fyrirsjáanleika. Þegar kærendur hafi byrjað sinn atvinnurekstur við Brautarholt hafi verið gert ráð fyrir því, í samræmi við þágildandi deiliskipulag, að leysa ætti bílastæðavandamál svæðisins með því að fjölga bílastæðum. Núverandi þróun sé verulega ósanngjörn þar sem ekki hafi með nokkru móti verið hægt að gera ráð fyrir verulegri fækkun bílastæða. Þvert á móti hafi verið hægt að gera ráð fyrir fjölgun þeirra. Við byggingu húsa kærenda hafi verið í gildi skipulagsreglugerð nr. 318/1985 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í þessum reglugerðum hafi verið kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða og skyldi fjöldi þeirra aldrei fara niður fyrir eitt stæði á íbúð. Hafi mátt með réttu gera ráð fyrir að uppbygging á sama reit yrði í samræmi við þær skipulags- og byggingarsamþykktir sem gilt hafi þegar hús kærenda voru byggð. Hið nýja deiliskipulag geri ráð fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 7 við Brautarholt verði 1,95 en það hafi verið 1,47. Nýtingarhlutfallið hafi því aukist um 33% á sama tíma og dregið sé úr bílastæðakröfu, frá því að gera ráð fyrir 166 bílastæðum í 19 bílastæði. Fjöldi bílastæða sé því um 12% af því sem eldra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir. Samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði verði ekki náð með öðru vægara móti. Beri borgarstjórn að ná fram markmiði sínu um litlar stúdentaíbúðir án þess að ganga á lögvarinn rétt kærenda. Stjórnvald geti ekki í krafti valds síns gengið jafn freklega á rétt borgaranna og gert sé í þessu tilviki. Allar forsendur sem kærendur hafi gefið sér um uppbyggingu á syðri lóðinni hafi gjörsamlega brostið með hinni kærðu ákvörðun. Hinn lögvarði réttur kærenda sé að á lóð nr. 7 við Brautarholt verði gert ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði fyrir hverja íbúðareiningu. Fyrir liggi að stúdentar eigi bíla ekki síður en aðrir þjóðfélagshópar. Bílastæðavandi við háskóla og stúdentagarða beri þess glöggt merki. Til þess að uppfylla þessa lögmætu kröfu verði að fella byggingarleyfið úr gildi, endurvinna deiliskipulagið frá grunni, fjölga bílastæðum og/eða draga úr byggingarmagni. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Samkvæmt 2. mgr. þessarar lagagreinar megi ekki mismuna aðilum við úrslausn mála, t.d. út frá sjónarmiðum byggðum á þjóðfélagsstöðu. Borgarráði hafi því verið óheimilt við afgreiðslu deiliskipulagsins að gera vægari kröfur um fjölda bílastæða með skírskotun til þess að á reitnum skyldi byggja íbúðir fyrir tiltekinn þjóðfélagshóp. Borgarstjórn hafi borið að gera nákvæmlega sömu kröfur um fjölda bílastæða á þessum reit og öðrum sambærilegum og eigi engu máli að skipta hvaða þjóðfélagshópar kunni að búa á viðkomandi reit. Þá sé bent á að íbúðir sem eitt sinn hafi eingöngu verið ætlaðar stúdentum hafi á seinni árum verið teknar undir aðra starfsemi, s.s. Gamli garður við Hringbraut og stúdentaíbúðir við Suðurgötu.

Meðalhófs hafi ekki verið gætt og jafnræði borgaranna ekki verið virt. Sýnt hafi verið fram á að deiliskipulagið uppfylli ekki kröfur um fjölda bílastæða sem áður gildandi reglugerðir hafi kveðið á um og hafi verið í gildi þegar hús kærenda voru byggð og þeim gert að fara eftir. Þá hafi verið sýnt fram á að ekkert í löggjöf heimili borgarstjórn að gera aðrar og vægari kröfur um fjölda bílastæða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki sé fallist á að deiliskipulagið taki ekki til heildstæðrar einingar. Heildarskipulagið nái yfir afmarkaðan reit en í 37. gr. skipulagslaga, sbr. gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, segi að deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Deiliskipulagið nái yfir afmarkaðan götureit en deiliskipulagssvæðið afmarkist af Laugavegi, Mjölnisholti, Ásholti og Brautarholti og myndi þannig heildstæða einingu og hafi einnig þær sameiginlegu forsendur að þarna sé verið að reisa byggingar sem hýsi litlar íbúðir/einingar fyrir stúdenta.

Aðeins eitt deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið. Ásholtsbyggð hafi upphaflega verið skipulögð árið 1987 og hafi deiliskipulag Rauðarárholts verið samþykkt í borgarráði 16. júní 1987. Hafi uppbygging á svæðinu verið samkvæmt því deiliskipulagi. Greint deiliskipulag hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda á sínum tíma, líkt og lög hafi gert ráð fyrir, en samkvæmt 11. tl. til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi deiliskipulagið verið talið í gildi þrátt fyrir að hafa ekki fengið lögformlega birtingu í Stjórnartíðindum. Í 5. tl. til bráðabirgða í gildandi skipulagslögum nr. 123/2010 hafi sveitarfélögum verið gert að senda inn til Skipulagsstofnunar deiliskipulagsáætlanir sem ekki hefðu fengið lögformlega löggildingu. Hafi deiliskipulagið frá 1987 ekki verið sent stofnuninni fyrir lok þess tímafrests sem hafi verið gefinn og sé því ekkert deiliskipulag í gildi fyrir umræddan reit skv. tilvitnuðum 5. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga. Nýtt deiliskipulag fyrir Brautarholt 7 hafi því verið auglýst og samþykkt, en ekki breyting á deiliskipulagi.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé gert ráð fyrir 0,2 bílastæðum á hverja stúdentaíbúð á svæðum vestan Elliðaáa, en stefna borgarinnar sé að minnka hlutdeild einkabílsins úr 75% í 58%. Deiliskipulag Brautarholts 7 byggi á skipulagslögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í kaflanum samgöngur í skipulagsreglugerð sé ekki gerð krafa um lágmarksfjölda bílastæða nema fyrir fatlaða. Bílastæðum hafi verið fjölgað úr 8 í 20 eftir að athugasemdir hafi borist eftir kynningu. Í skilmálum með deiliskipulaginu sé gerð grein fyrir fjölda bílastæða, líkt og reglugerðin segi til um. Þau bílastæði sem nýtt séu innan lóðar séu ekki skilgreind sem bílastæði heldur hafi ávallt verið gert ráð fyrir að byggt yrði á lóðinni. Íbúar Ásholts eigi ekki rétt á bílastæðum á lóð nr. 7 við Brautarholt og hafi þeir mátt búast við því, samkvæmt eldra deiliskipulagi og hinu kærða deiliskipulagi, að byggt yrði á lóðinni. Rétt sé að nýtingarhlutfall hafi aukist á lóðinni, miðað við það deiliskipulag sem Ásholtsbyggð hafi verið byggð eftir, en þar hafi verið gert ráð fyrir þriggja hæða húsi á lóðinni og fari hámarkshæð samkvæmt núgildandi deiliskipulagi ekki yfir þau mörk.

Því sé vísað á bug að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin. Málsmeðferð hafi alfarið verið í samræmi við skipulagslög, skipulagsreglugerð og stjórnsýslulög. Við gerð deiliskipulagsins hafi verið sett sú stefnumörkun að byggja íbúðir fyrir stúdenta og hafi staðsetningin verið valin út frá því samgöngukerfi sem til staðar sé. Umhverfis- og skipulagssvið hafi í samráði við Bílastæðasjóð skoðað leiðir til að stýra betur nýtingu bílastæða, en nú sé það gert bæði með gjaldskyldu og útgáfu íbúakorta. Í minnisblaði samgöngustjóra, dags. 6. febrúar 2014, hafi hann lagt til að fylgst yrði með uppbyggingu og fjölgun íbúa og bíla sem bættust við inn á svæðið og að metið yrði síðar hvort og hvenær gjaldskylda yrði sett í hverfinu. Ekkert í skipulagslögum eða reglugerð mæli fyrir um að gengið verði alfarið frá bílastæðamálum áður en deiliskipulag sé samþykkt. Þyki skynsamlegt að hefja uppbyggingu svæðisins og muni staðan verða skoðuð aftur þegar íbúum hafi fjölgað.

Hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi fyrir Brautarholt 7, sem hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní 2015. Ljóst sé að kærendur geri ekki neinar efnislegar athugasemdir við byggingarleyfið sjálft, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess, heldur sé eingöngu verið að gera athugasemdir við gildandi deiliskipulag.

Athugasemdir kærenda við málsrök Reykjavíkurborgar: Kærendur mótmæla þeim skilningi Reykjavíkurborgar að deiliskipulag Ásholtsbyggðar gildi ekki. Það deiliskipulag hafi hlotið gildi, sbr. 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sem kveðið hafi á um að nánar tilgreindar deiliskipulagsbreytingar skyldu gilda án tillits til þess hvort þær hefðu verið auglýstar. Hafi þess hvergi verið getið að um tímabundna gildistöku væri að ræða. Þar sem deiliskipulag Ásholtsbyggðar hafi ekki verið afturkallað eða ógilt sé það í fullu gildi um Brautarholt 7. Túlkun Reykjavíkurborgar á inntaki 5. tl. til bráðabirgða í skipulagslögum nr. 123/2010 standist ekki. Samkvæmt ákvæðinu hafi borginni verið skylt að senda Skipulagsstofnun deiliskipulagið en ekkert segi um það að deiliskipulag falli úr gildi sé það ekki gert. Ítreki kærendur því að hið kærða deiliskipulag brjóti í bága við gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð þar sem fram komi að deiliskipulagssvæði megi ekki skarast. Þá ítreki kærendur að engin athugun hafi farið fram á því hvaða áhrif verði á umferð og bílastæðakröfu á svæðinu.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi bendir á að samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 hafi verið gert ráð fyrir nemendaíbúðum á umræddri lóð nr. 7 við Brautarholt. Í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé svæðið skilgreint sem þróunarreitur og sé sömuleiðis gert ráð fyrir byggingu nemendaíbúða. Samkvæmt 1. tl. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að það sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, og sú sé raunin.

Ekki hafi verið hægt að búast við því að deiliskipulag svæðisins stæði óbreytt. Það liggi í hlutarins eðli að skipulagsáætlanir taki breytingum í takt við þróun byggðar og samfélags á hverjum tíma og sé skipulagsyfirvöldum nauðsynlegt að geta brugðist við þróun og stjórnað áherslum innan tiltekinna svæða með breytingum á skipulagi. Kærendur hafi því ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að uppbygging á hinum umrædda reit yrði í samræmi við skipulagsáætlanir eða skipulags- og byggingarreglugerðir sem hafi verið í gildi þegar hús þeirra voru byggð. Þá hafi kærendur ekki mátt búast við því að geta gengið að bílastæðum á lóð leyfishafa um aldur og ævi.

Heimilt hafi verið að deiliskipuleggja reitinn. Lóðin sé óbyggð og skýrlega afmörkuð af götum á alla vegu og hafi ákvörðun skipulagsyfirvalda um að gera sérstakt deiliskipulag fyrir hana verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og gildum skipulagsrökum. Þá sé því hafnað að til staðar séu tvær útgáfur deiliskipulags um Brautarholt 7. Sé ekki um skörun á deiliskipulagssvæðum að ræða heldur tvö sjálfstæð deiliskipulög sem séu skýrlega afmörkuð.

Því sé hafnað að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku hinnar kærðu ákvarðana. Ekki sé verið að taka íþyngjandi ákvörðun sem beinist að kærendum. Ekkert liggi fyrir um að vandamál tengd bílastæðum muni koma upp á svæðinu og geti ótti kærenda þar um ekki hamlað lögmætri uppbyggingu á umræddri lóð, sem sé bæði í samræmi við samþykkt skipulag og reglugerðir. Ummælum kærenda um bílastæðavanda við háskóla og stúdentagarða sé sérstaklega mótmælt. Engin vandræði hafi verið með bílastæði á stúdentagörðum leyfishafa sem séu í nágrenni við Háskóla Íslands eða við stúdentagarða á Lindargötu, sem séu sambærilegir þeim görðum sem fyrirhugað sé að byggja.

Hvað varði kæru vegna takmarkaðs byggingarleyfis sé bent á að umsókn leyfishafa um byggingarleyfi hafi þegar verið samþykkt og hafi kærendur því enga lögvarða hagsmuni af því að fá hið takmarkaða leyfi fellt úr gildi. Skilyrði til útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis hafi aukinheldur verið uppfyllt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs Reykjavíkur á nýju deiliskipulagi fyrir Brautarholt 7, sem og um ákvarðanir byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að byggja þar stúdentagarða og að veita leyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu á lóðinni.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur 26. nóvember 2013 og tók það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar 2014. Fram að þeim tíma gilti Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 með síðari breytingum. Ein slík breyting tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. september 2012. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að reisa 100 nemendaíbúðir á þéttingarreit nr. 18, Ásholti, þ.e. Brautarholti 7. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Ásholt talið meðal helstu þéttingarreita og uppbyggingarsvæða og á Ásholtsreit er gert ráð fyrir 100 smáíbúðum, nemendaíbúðum eða íbúðum fyrir eldri borgara, að hluta eða öllu leyti. Reiturinn er talinn meðal helstu byggingarsvæða vestan Elliðaáa. Svæðið er skilgreint sem þróunarsvæði, Þ37, og því lýst sem íbúðarhúsnæði með möguleika á verslun og þjónustu á jarðhæð. Gert sé ráð fyrir 100 nemendaíbúðum, randbyggð með 3-5 hæða byggingum. Hið kærða deiliskipulag heimilaði byggingar á þremur hæðum, sem hýsa skyldu allt að 97 nemendaíbúðir. Það var samþykkt í borgarráði 20. febrúar 2014 og tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 1. apríl s.á. Ljóst er af framangreindu að á meðan á málsmeðferð stóð og við gildistöku var deiliskipulagið í samræmi við markmið og stefnu gildandi aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, auk þess sem áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, var fullnægt. Var því engin ástæða til að breyta aðalskipulagi samhliða deiliskipulagsgerðinni skv. 2. mgr. 41. gr. sömu laga, svo sem kærendur hafa haldið fram. Að sama skapi var heimilt að falla frá gerð lýsingar á deiliskipulagsverkefninu skv. heimild 3. mgr. 40. gr. laganna, enda lágu allar meginforsendur deiliskipulagsins fyrir í aðalskipulagi, eins og áður er lýst.

Svo sem nánar greinir í málavöxtum er ákveðin skipulagssaga á svæðinu. Á árinu 1987 var samþykkt deiliskipulag Rauðarárholts, eða Ásholtsbyggðar, en það mun ekki hafa tekið gildi fyrr en með með breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sem tók gildi 1. janúar 2000. Eftir þá breytingu var skýrt kveðið á um í 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða að deiliskipulagsáætlanir, sem gerðar hefðu verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998, giltu án tillits til þess hvort þær hefðu verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Ný skipulagslög, nr. 123/2010, tóku gildi 1. janúar 2011 og skv. 5. tl. ákvæðis til bráðabirgða skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim sem gerðar hafa verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 og hafa ekki verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum samkvæmt þeim. Segir að þetta skuli gera innan árs frá gildistöku laganna og skuli sveitarstjórn gera Skipulagsstofnun grein fyrir því hvort hún hafi samþykkt viðkomandi áætlun. Hafi deiliskipulagsáætlun ekki verið samþykkt teljist hún fallin úr gildi. Samkvæmt framangreindu bar Reykjavíkurborg að senda deiliskipulag Rauðarárholts til Skipulagsstofnunar fyrir árslok 2011, en það mun ekki hafa verið gert. Í athugasemdum við greindan tölulið í frumvarpi því er varð að skipulagslögum nr. 123/2010 er tekið fram að hann fjalli um skipulagsáætlanir sem ekki hafi hlotið formlega afgreiðslu, unnið sé að því að fara yfir slíkar deiliskipulagsáætlanir til að afgreiða þær með formlegum hætti eða vinna nýjar deiliskipulagsáætlanir. Þá var því lýst að lagt væri til að sveitarfélögum yrði veittur eins árs frestur frá gildistöku frumvarpsins til að ganga frá formlegri afgreiðslu slíkra deiliskipulagsáætlana. Ljóst er að Reykjavíkurborg gekk ekki frá formlegri afgreiðslu deiliskipulags Rauðarárholts innan tilskilinna tímamarka og verður því að telja það fallið úr gildi eins og skýrt er kveðið á um í síðasta málslið 5. tl. Þar með skarast nýtt deiliskipulag Brautarholts 7 ekki við önnur deiliskipulagssvæði og er því ekki í andstöðu við gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga er deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Það skal gera fyrir einstök svæði eða reiti og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Í athugasemdum við lagaákvæðið í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum er tekið fram að með því sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þó að slíkt geti þó stundum átt við. Deiliskipulagið sem hér er deilt um tekur til svæðis sem afmarkast af Mjölnisholti, Ásholti, Laugavegi og Brautarholti, þar sem áður var lóð Timburverslunar Árna Jónssonar, svo sem lýst var í málavöxtum. Samkvæmt deiliskipulaginu er Ásholtsbyggð norðan megin Stakkholts og telst sá reitur fullbyggður. Sunnan megin er Brautarholt 7, þar sem fyrirhugaðir eru stúdentagarðar. Verður ekki séð að afmörkun skipulagssvæðisins brjóti í bága við framangreint lagaákvæði.

Um samgöngur er fjallað í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð. Þar segir í b-lið að skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóða, sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða, stæður fyrir reiðhjól og önnur farartæki eftir því sem við eigi, skuli setja hverju sinni í deiliskipulag. Þá segir að varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlaða skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar. Í gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segir að lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð annarra húsa en sérbýlishúsa skuli vera skv. töflu 6.01, en í henni er fjöldi bílastæða hreyfihamlaðra gefinn upp sem hlutfall af almennum stæðum. Sé fjöldi bílastæða 10-25 skuli tvö þeirra vera fyrir hreyfihamlaða. Í hinu kærða deiliskipulagi er gerð grein fyrir fjölda og fyrirkomulagi bílastæða. Samkvæmt því eru 18 stæði í bílakjallara og tvö bílastæði fyrir fatlaða á austurhluta lóðar. Fullnægir deiliskipulagið því framangreindum kröfum. Þá var stefnu gildandi aðalskipulags um 0,2 bílastæði á námsmannaíbúð fullnægt. Skal á það bent að í núgildandi lögum og reglugerðum er ekki að finna kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða og verður ekki séð að kröfur skipulagsyfirvalda umfram það leiði til ójafnræðis. Því hefur einnig verið hreyft af kærendum að áhrif uppbyggingar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi á umferð og bílastæðamál hafi ekki verið rannsökuð sem skyldi. Í deiliskipulaginu kemur fram að svæðið sé í góðum tengslum við almenningssamgöngukerfi borgarinnar og góðar göngu- og hjólaleiðir séu í allar áttir. Tekið er fram að gert sé ráð fyrir að götur og umferð umhverfis svæðið verði óbreyttar. Ætlast sé til að stúdentar noti fyrst og fremst nálægar almenningssamgöngur og reiðhjól. Í greinargerð með aðalskipulagsbreytingu þeirri sem gerð var 2012, og áður er fjallað um, segir að umhverfisáhrif uppbyggingar á reitnum, s.s. varðandi umferð, verði áþekk við breytingu úr 50 almennum íbúðum í 100 nemendaíbúðir, þar sem hvorki byggingarmagn né íbúafjöldi sé að aukast. Þar kemur og fram að reiknilíkan umferðar reikni umferð út frá fjölda íbúa, en ekki fjölda íbúða, og því yrði áætluð umferð frá viðkomandi reit sambærileg hvort sem miðað væri við 100 einstaklingsíbúðir nemenda eða 50 almennar fjölskylduíbúðir. Er ljóst af þessu að áhrif uppbyggingar á umferð voru skoðuð og metin á árinu 2012, auk þess sem bæði eldra og nýrra aðalskipulag Reykjavíkur gera ráð fyrir eflingu almenningssamgangna. Hvað varðar bílastæðamál er bent á framangreinda umfjöllun en einnig liggur fyrir að í málinu var leitað eftir umsögn samgöngustjóra borgarinnar, sem taldi eftirspurn eftir stæðum í hverfinu mætt með viðunandi hætti, en lagði til að fylgst yrði með uppbyggingu og fjölgun íbúa og bíla. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ekki séð að rannsókn málsins hafi verið áfátt.

Hið kærða deiliskipulag átti sér nokkurn aðdraganda og voru haldnir fundir með hagsmunaaðilum á meðan á undirbúningi þess stóð. Tillaga að skipulaginu var fyrst kynnt sem deiliskipulagsbreyting en síðar breytt þannig að bílastæðum var fjölgað í 20. Að lokinni málsmeðferð breyttrar tillögu var hún samþykkt og send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Í kjölfar athugasemda stofnunarinnar var nýtt deiliskipulag, að mestu sama efnis, auglýst til kynningar. Afstaða var tekin til athugasemda er þá bárust, sem og við fyrri meðferð, og þeim svarað. Samþykkt tillaga var á ný send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda. Kærendur áttu og nýttu sér þann kost að koma á framfæri athugasemdum sínum við endurtekið ferli skipulagstillögunnar og var þeim athugasemdum svarað. Samkvæmt framangreindu var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði laga og er ekkert sem bendir til annars en að sveitarfélagið hafi gætt meðalhófs við beitingu skipulagsvalds síns.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Byggingarleyfi vegna framkvæmda á lóðinni Brautarholt 7 hafa einnig verið kærð, en byggingarfulltrúi samþykkti á afgreiðslufundum sínum annars vegar umsókn um leyfi til að byggja stúdentagarða, eins og nánar er lýst í málavöxtum, og hins vegar umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu. Um tvær kæranlegar ákvarðanir er að ræða og verður að fallast á að kærendur hafi hagsmuni af því að lögmæti þeirra beggja sé tekið til úrlausnar þrátt fyrir að seinna leyfið einskorðist við aðstöðusköpun og jarðvinnu, enda getur hagsmunum kærenda verið raskað svo að skapi þeim kæruaðild á meðan á þeirri vinnu stendur. Svo sem áður er lýst er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heimilað að byggja á Ásholtsreit, þ.e. Brautarholti 7, 100 nemendaíbúðir. Breytt deiliskipulag Brautarholts 7 heimilar byggingu 102 slíkra íbúða og hefur sú deiliskipulagsbreyting ekki verið kærð til nefndarinnar. Í aðalskipulaginu er einnig tekið fram að vikmörk á fjölda íbúða geti verið         -10% / +20% og miðist þau við einstök svæði. Vikmörkin séu ekki sjálfgefin og séu þau háð samþykki umhverfis- og skipulagsráðs á hverjum tíma. Verður að líta svo á að með samþykki sínu á nefndri deiliskipulagsbreytingu hafi umhverfis- og skipulagsráð samþykkt að vikmörkin ættu við um uppbyggingu á Ásholtsreit og rúmast leyfi fyrir byggingu 102 íbúða innan þeirra marka. Samþykkt framangreindra byggingarleyfisumsókna átti sér því stoð í gildandi skipulagsáætlunum. Telur úrskurðarnefndin jafnframt að skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 hafi verið fyrir hendi til útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis, enda ljóst að um umfangsmikla framkvæmd er að ræða. Með vísan til framangreinds, og þar sem ekki liggur fyrir að neinir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við ákvarðanatökuna, verður gildi hinna kærðu byggingarleyfa heldur ekki haggað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reitinn Brautarholt 7.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júlí 2015 um að veita leyfi til að byggja stúdentagarða, tvær steinsteyptar þriggja hæða byggingar með 102 íbúðareiningum, sem umlykja innigarð, og bílakjallara fyrir 19 bíla á lóð nr. 7 við Brautarholt.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. ágúst 2015 um að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu á lóð nr. 7 við Brautarholt.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson