Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2016 Borgarbraut

Árið 2016, mánudaginn 6. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 47/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55-59 og ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 26. apríl 2016 um að veita leyfi til jarðvegsvinnu á lóðum nr. 57 og 59 við Borgarbraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2016, er barst nefndinni 18. s.m., kærir Borgarland ehf., eigandi Borgarbrautar 56-60, Borgarnesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55-59 og ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 26. s.m. að veita byggingarleyfi til jarðvegsvinnu á byggingarsvæði lóða 57 og 59 við Borgarbraut. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Að auki er farið fram á að framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar, en til vara að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa tillögu að breytingu á skipulagi Borgarbrautar 55-59, Borgarbyggð. Í breytingunni fólst að lóðir nr. 55 og 57 yrðu aðskildar. Byggingarmagn yrði aukið á lóðum nr. 57 og 59 og heimilt yrði að byggja auka hæð neðanjarðar. Kvöð um umferðarrétt yrði færð á milli lóða nr. 55 og 57 og gerð akstursleið. Að auki var gert ráð fyrir að heimilt yrði að tengja saman byggingar á Borgarbraut 57 og 59. Var tillagan auglýst  16. desember 2015 með athugasemdarfresti til 29. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að lokinni kynningu var erindið tekið aftur fyrir og það samþykkt á fundi sveitarstjórnar 11. febrúar 2016. Hinn 14. apríl s.á. bárust Borgarbyggð athugasemdir Skipulagsstofnunar við samþykkta breytingartillögu. Var komið til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar og deiliskipulagsbreytingin samþykkt, með áorðnum breytingum, á fundi sveitarstjórnar 15. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. apríl 2016. Hinn 26. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi Borgarbyggðar að veita leyfi til jarðvegsvinnu á lóðum nr. 57 og 59 við Borgarbraut og var leyfið gefið út sama dag.

Kærandi skírskotar til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Með hinni kærði skipulagsbreytingu sé verið að brjóta gegn jafnræði sem eigi að ríkja á milli lóðarhafa á svæðinu til uppbyggingar og breytinga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í andstöðu við lög og nauðsynlegt sé að stöðva allar framkvæmdir sem leyfðar hafa verið á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar þar sem hætta sé á að hagsmunir kæranda og annarra íbúa og atvinnurekenda á svæðinu fari forgörðum.

Leyfishafi bendir á að umrætt byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir jarðvinnu og sé óháð þeim byggingum sem þar muni rísa eða formi þeirra. Verði framkvæmdar stöðvaðar muni það valda leyfishafa ófyrirsjáanlegu tjóni.

Af hálfu Borgarbyggðar er á það bent að umrætt byggingarleyfi heimili aðeins framkvæmdir við jarðvegsvinnu. Sé greftri í samræmi við hið útgefna leyfi að mestu lokið en jarðvegsvinna hafi verið langt komin þegar stöðvunarkrafa hafi borist. Telji sveitarfélagið að stöðvun framkvæmda á þessu stigi muni ekki hafa neina sérstaka þýðingu. Að auki sé á það bent að framkvæmdir leyfishafa séu alfarið á hans ábyrgð og áhættu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til breyttrar nýtingar tiltekinna lóða. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Byggingarleyfi hefur einnig verið kært en efni þess er takmarkað við leyfi til jarðvegsvinnu á því svæði sem hin kærða skipulagsbreyting tekur til. Umrætt byggingarleyfi veitir ekki heimild til frekari framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar og hefur slíkt leyfi ekki enn verið veitt. Samkvæmt gögnum málsins eru jarðvegsframkvæmdir vel á veg komnar. Framkvæmdirnar eru afturkræfar en stöðvun þeirra myndi valda leyfishafa tjóni.

Þegar litið er til alls framangreinds verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, enda ber leyfishafi af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

_____________________________
Nanna Magnadóttir