Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2014 Bugðulækur

Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 um að samþykkja leyfi til að endurnýja handrið á þaki bílskúrs á lóðinni nr. 17 við Bugðulæk í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Rauðalæk 18, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun handriðs á þaki bílskúrs að Bugðulæk 17 í Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að hugsanleg ákvörðun byggingarfulltrúans um að heimila uppsetningu timburpalls og timburhandriðs á fyrrgreindu þaki sé hnekkt.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 22. maí 2014 og í mars 2016.

Málavextir: Á lóðinni Bugðulæk 17 stendur fjölbýlishús, sem samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands var reist árið 1959. Bílskúr, sambyggður húsinu á norðurhlið þess, var reistur árið 1965 og tilheyrir eignarhluta 0101. Er bílskúrinn jafnframt sambyggður bílskúrum á lóðum Rauðalækjar nr. 16 og 18. Í ágúst 2009 tilkynnti byggingarfulltrúi þáverandi eigendum umrædds bílskúrs að Bugðulæk 17 að framkvæmdir við byggingu skjólveggs ofan á hann skyldu stöðvaðar, þar sem ekki lægi fyrir leyfi til framkvæmdanna. Í framhaldi af því kom fram að þáverandi eigendur hefðu haft samband við Reykjavíkurborg til að afla sér upplýsinga um hvort leyfi þyrfti til að endurnýja handrið á bílskúrnum, en því hefði verið neitað. Þá var send inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort heimilt væri að endurnýja handriðið, sem verið hefði á bílskúrnum allt frá byggingu hans. Var erindið lagt fyrir skipulagsstjóra, sem gerði ekki athugasemd við greinda framkvæmd, enda yrði sótt um byggingarleyfi, sem síðan yrði grenndarkynnt.

Í október 2010 var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir endurnýjun fyrrgreinds handriðs. Var erindið grenndarkynnt og bárust athugasemdir frá húsfélaginu Rauðalæk 18. Skipulagsráð tók málið fyrir 24. nóvember s.á. og synjaði erindinu, með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, er taldi að ekki væri æskilegt að samþykkja umsóknina gegn andmælum íbúa að Rauðalæk 18. Þá var umsækjanda bent á að leggja fram sams konar fyrirspurn þar sem dregið yrði úr umfangi afnotaflatar. Í samræmi við það lagði umsækjandi fram nýja fyrirspurn og veitti skipulagsstjóri umsögn um málið 25. febrúar 2011. Niðurstaða hans var sú að í ljósi fyrri umsagnar væri lagt til að umsækjanda yrði heimilt að gera ráð fyrir svölum á þaki sem yrðu 3,5 m að dýpt og inndregnar um 1,5 m frá lóðamörkum. Umsókn um leyfi fyrir endurnýjun á handriði á þaki fyrrnefnds bílskúrs var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. maí 2011. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra, sem tók það fyrir á fundi 20. s.m. og færði til bókar að lagfæra þyrfti uppdrætti þannig að þeir samræmdust þeim skilyrðum er fram hefðu komið í umsögn skipulagsstjóra, dags. 25. febrúar 2011. Byggingarfulltrúi tók málið fyrir að nýju 24. maí s.á. Var afgreiðslu málsins frestað að nýju en m.a. bókað að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri mögulegt að samþykkja svalir á bílskúrsþaki í samræmi við meðsenda skissu.

Hinn 21. janúar 2014 tók byggingarfulltrúi málið fyrir enn á ný. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og á embættisafgreiðslufundi hans 24. s.m. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Rauðalæk 16 og 18. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars s.á. var fyrrnefnt erindi tekið fyrir. Var tiltekið í fundargerð að borist hefðu athugasemdir við kynnt erindi frá húsfélaginu Rauðalæk 18 og að lögð væri fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. s.m., en þar var framkomnum athugasemdum svarað og lagt til að umsókn yrði samþykkt. Fært var til bókar að ekki væri gerð athugasemd við nefnda umsögn og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Umrædd umsókn var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. apríl 2014, hún samþykkt og talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að bílskúrar á lóðum Rauðalækjar 16 og 18 séu báðir með timburþaki. Á öðrum þeirra sé dúkklæðning en á hinum bárujárnsklæðning. Á þakplötu bílskúrs Bugðulækjar 17 sé settur tjörudúkur og timburpallur auk timburhandriðs. Við ákveðnar aðstæður geti skapast veruleg eldhætta sem einnig geti haft mikið fjárhagslegt tjón í för með sér. Sé vísað til 3. mgr. 23. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, en byggingarfulltrúa hefði verið rétt að framvísa gögnum um samráð við slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins vegna mats á eldhættu áður en hin kærða ákvörðun var samþykkt. Einnig sé hætta á að börn slasist vegna umgangs þeirra um ofangreinda bílskúra og sé þak bílskúrs að Rauðalæk 18 tekið að síga vegna þess. Umrætt handrið valdi skuggavarpi í garði Rauðalækjar 18, notkunargildi hans rýrni og gengið sé á hlut íbúa þess húss um rétt til friðhelgi í garði sínum. Handriðið sé til lýta, efnisval þess sé viðhaldsfrekt og verði það fljótt ljótt ásýndum sé viðhaldi ábótavant, en ólíklegt megi telja að tréverki út að lóðamörkum verði viðhaldið.

Hvorki séu sýnd þrep upp á þak nefnds bílskúrs né þaksvalir á samþykktum teikningum frá árinu 1964. Fyrstu framkvæmdir við bílskúrsþakið hafi hafist í miklum flýti árið 2009. Hafi verið reistur 180 cm hár timburveggur á lóðamörkum, en þakið ekki klætt. Skapi ósamþykktar óleyfisframkvæmdir ekki rétt eða hefð samkvæmt lögum. Þá megi á teikningu, dags. 17. desember 2013, sjá að fyrirhugaður timburpallur á þaki bílskúrsins eigi eingöngu að vera innan afmarkaðs timburhandriðs, en pallurinn nái alveg út að lóðamörkum Rauðalækjar 16 og 18. Einnig séu hæðarhlutföll önnur og mikið lægri á teikningu en raunin sé, einkum á austurhlið hússins. Hafi byggingarfulltrúi ekki fylgt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Hagsmunir allra íbúa að Rauðalæk 18 og eigenda bílskúra að Rauðalæk 16 hljóti að vega þyngra en hagsmunir íbúa einnar íbúðar að Bugðulæk 17, sem nú þegar hafi samþykktar svalir á suðurhlið þess húss.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg tekur fram að áður en byggingarleyfi hafi verið samþykkt hafi verið óskað eftir umsögn slökkviliðs, sem ekki hafi gert athugasemd við umsóknina. Framkvæmdin sé ekki áhættusamari m.t.t. eldhættu en sambærileg mannvirki sem ekki séu háð byggingarleyfi, enda sé leyfið bundið við að mannvirkið sé 1,5 m frá lóðamörkum. Skuggavarp muni ekki aukast. Hafi skipulagsfulltrúi gert kröfu um að hið umdeilda handrið færi ekki yfir 1,1 m og væri inndregið. Nái þaksvalir nú yfir mun minni flöt en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Með því móti hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda og tryggt að friðhelgi myndi ekki raskast. Þá megi alltaf gera ráð fyrir að friðhelgi raskist vegna eðlilegrar hagnýtingar á nærliggjandi fasteignum í þéttri borgarbyggð.

Við afgreiðslu umsóknar sé gerð úttekt á framkvæmd og gengið úr skugga um að uppfylltar séu þær öryggiskröfur sem um hana gildi. Verði kærandi að bregðast við meintri slysahættu og koma í veg fyrir að börn komist yfir á bílskúr í hans eigu. Þá hafi verið gerð krafa um að handrið félli vel að húsinu við afgreiðslu umsóknarinnar. Geti byggingarfulltrúi ekki synjað afgreiðslu á þeim forsendum að hugsanlega muni framkvæmdin verða til lýta síðar meir. Jafnframt sé bent á heimild byggingarfulltrúa skv. byggingarreglugerð til að bregðast við ef ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss sé ábótavant.

Ekki hafi verið gert ráð fyrir þaksvölum á bílskúr á upphaflegum byggingarnefndarteikningum frá árinu 1964. Hins vegar hafi borgaryfirvöld látið það óátalið til fjölda ára að svalirnar væru nýttar með þeim hætti. Hafi eigendur haft réttmætar væntingar til þess að fá að nýta þakið áfram með sama hætti. Hafi núverandi eigendur keypt fasteignina með væntingum um að leyfi væri til staðar. Það hafi því verið mat embættisins að ekki væri lögmætt að synja umsókninni þó að um óleyfisframkvæmd hefði verið að ræða frá öndverðu. Ekki virðist leika vafi á því að handrið hafi verið um lengri tíma á bílskúrnum þar sem tími hafi verið kominn á endurnýjun þess. Þá sé bent á að varakrafa kæranda felist í aðalkröfunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að þegar hann hafi fest kaup á fasteign sinni að Bugðulæk 17 í apríl 2013 hafi komið fram á söluyfirliti að ofan á bílskúr væru stórar svalir með grindverki. Langsótt sé að það geti valdið stórtjóni að grilla innan umrædds handriðs. Handrið til norðurs sé í talsverðri fjarlægð frá þaki bílskúrs að Rauðalæk 18 sem sé einnig einum metra lægra en hið umdeilda þak. Þá hafi tryggingarfélag leyfishafa ekki gert athugasemd við nefnt handrið.

Garður íbúa að Rauðalæk 18 snúi í hásuður og þar af leiðandi komi síðdegissól í garðinn að hluta úr vestri. Verði ekki séð hvernig fyrirhugað handrið muni valda skuggavarpi. Umrætt hverfi sé mjög þéttbýlt og friðsælt og ekki sé langt á milli húsa, garða eða innkeyrsla. Garðurinn að Rauðlæk 18 liggi enn fremur að mjög fjölfarinni gangstétt. Verði handriðið ekki klárað með þeim hætti sem samþykkt sé verði slysahætta líklega viðvarandi. Þá telji leyfishafa enga ástæðu til annars en að viðhalda og ganga vel um eign sína.

Tröppur, sem séu við stigapall við inngang að Bugðulæk 17 og inn á pall bílskúrsins, hafi verið steyptar við byggingu hans. Handrið hafi verið við brún alls þaks bílskúrsins frá þeim tíma og það svæði nýtt af íbúum. Hafi það mátt vera augljóst þegar íbúar að Rauðalæk 18 fjárfestu í sínum eignum. Þá megi finna þess dæmi í hverfinu að handrið séu á þökum bílskúra.

       

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 3. maí 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 að samþykkja endurnýjun á handriði á þaki bílskúrs að Bugðulæk 17. Á samþykktum uppdráttum segir svo: „Við endurnýjun er settur þakdúkur á steypta þakplötu og timburpallur yfir dúk. Nýtt svalahandrið verður timburgrind með lóðréttri borðaklæðningu á báðum hliðum. Hæð handriðs verður 110 cm frá timburpalli.“ Einskorðast athugun úrskurðarnefndarinnar við lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Byggingarfulltrúa er hins vegar að lögum falið að hafa eftirlit með byggingarframkvæmdum og grípa til viðeigandi aðgerða, t.d. ef byggt hefur verið á annan hátt en leyfi stendur til, frágangi eða viðhaldi húss er ábótavant, af því stafi hætta eða ekki hafi verið gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu.

Aðila máls greinir ekki á um að byggingarnefndarteikningar að umræddum bílskúr frá árinu 1964 sýna ekki handrið ofan á honum. Hins vegar kemur fram í gögnum málsins að líklegt sé að handrið hafi verið á þaki bílskúrsins um langt skeið og rennir skoðun úrskurðarnefndarinnar á vettvangi stoðum undir það. Sama á við um steyptar tröppur upp á þak skúrsins. Þrátt fyrir að gögn málsins beri ekki með sér frá hvaða tíma nefnt þak hafi verið nýtt sem svalir má ætla að sá möguleiki hafi verið fyrir hendi í áratugi. Er ekki um það deilt að leyfi byggingarfulltrúa hefur ekki verið fyrir hendi fyrir slíkri nýtingu, en hún virðist hafa átt sér stað án athugasemda borgaryfirvalda. Í framlagðri umsókn er ekki sótt um leyfi til að nýta umrætt svæði sem svalir, en ljóst er þó að með því að heimila hið umdeilda handrið skapast aðstaða til að nýta þakið til útivistar.

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og var byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu. Kom kærandi að athugasemdum af því tilefni. Við yfirferð málsins hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru ekki gerðar athugasemdir vegna hugsanlegrar eldhættu. Þá voru við meðferð málsins gerðar þær breytingar frá fyrri erindum að í stað þess að handrið á þaki nefnds bílskúrs lægi að mörkum lóðar kæranda var það fært innar á þak bílskúrsins, eða um 1,5 m frá lóðamörkum. Er greind breyting til þess fallin að draga úr mögulegum grenndaráhrifum gagnvart kæranda. Verður hvorki séð að umrætt handrið muni auka skuggavarp í garði kæranda né að innsýn muni aukast að marki þegar litið er til staðsetningar útidyra og glugga á húsi leyfishafa, sem snúa að garðinum. Þá verður að líta til þess að almennt má búast við að eitthvert ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kæranda sem hann hefur haldið fram ekki umfram það sem búast má við í þéttri byggð.

Þrátt fyrir að nýting þakflatar bílskúrs undir svalir sé óhefðbundin og geti eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar yfir á næstu lóðir, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að grenndaráhrif í máli þessu, eins og að framan er lýst, séu ekki slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Eins og atvikum er hér sérstaklega háttað, og þar sem ekki verður séð að neinir þeir aðrir form- eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði, verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 um að samþykkja leyfi til að endurnýja handrið á þaki bílskúrs á lóðinni nr. 17 við Bugðulæk í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson