Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2012 Laufásvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 11. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2011 á reyndarteikningum vegna framkvæmda á árunum 2006 og 2007 á fasteigninni Laufásvegi 68 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. janúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Smáragötu 11, Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2011 á reyndarteikningum vegna framkvæmda á árunum 2006 og 2007 á fasteigninni Laufásvegi 68. Barst nefndinni frekari rökstuðningur fyrir kærunni með bréfi, dags. 1. maí 2012. Liggur baklóð Laufásvegar 68 að baklóð kæranda.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 19. mars 2012 og í maí 2015.

Málavextir:
Á lóðinni nr. 68 við Laufásveg stendur einbýlishús sem reist var ásamt bílskúr á fjórða áratug síðustu aldar. Mál þetta á sér nokkra forsögu en 5. janúar 2007 tók gildi breyting á deiliskipulagi vegna lóðarinnar og var gefið út byggingarleyfi vegna framkvæmda þar 21. mars s.á. Með ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur 18. febrúar 2010 var leyfishafa veittur frestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðar sinnar til samræmis við aðaluppdrætti og hinn 20. maí s.á. felldi borgarráð úr gildi hluta byggingarleyfisins. Með úrskurðum í málum nr. 19 og 35/2010, uppkveðnum 25. október 2011, felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi fyrrgreindar ákvarðanir borgarráðs frá árinu 2010, þar sem þær voru haldnar annmörkum.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur 25. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um samþykki á reyndarteikningum. Var eftirfarandi fært til bókar: „Sótt er um samþykki á reyndarteikningum vegna framkvæmda 2006-2007 sem fela í sér að heitur pottur er færður til, bætt er við gönguhurð í bílgeymslu, bætt er við gönguhurð úr húsi út í garð, hæðarlegu neðri palls er breytt og skráningartafla er lagfærð fyrir einbýlishús á lóð nr. 68 við Laufásveg.“ Þá var bókað: ,,Í ljósi úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 19/2010 og 35/2010 er ekki gerð athugasemd við erindið.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. nóvember 2011 var umsóknin samþykkt með vísan til fundargerðar frá fyrrnefndum afgreiðslufundi skipulagsstjóra og staðfest í borgarráði hinn 1. desember 2011.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi í desember 2007 vakið athygli Reykjavíkurborgar á því að framkvæmdir við Laufásveg 68 brytu í bága við gildandi deiliskipulag. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 12. júní 2008, hafi verið tekið undir þau sjónarmið og framkvæmdum m.a. þannig lýst að reist hafi verið 32,2 m² útigeymsla sem gangi 4 m út fyrir byggingarreit og að 47 m² steypt plata liggi ofan á lóðarvegg milli Laufásvegar 68 og Smáragötu 11 þannig að gera megi ráð fyrir að lóðin hafi verið hækkuð um allt að einum metra. Hafi tilraunir borgaryfirvalda til að koma framkvæmdum í lögmætt horf ekki borið árangur og vísist í því sambandi til úrskurða úrskurðarnefndarinnar frá 25. október 2011.

Teikningar með hinni kærðu ákvörðun sýni ýmsar fleiri framkvæmdir sem hafi verið gerðar á umræddu árabili en þeirra sé ekki getið í ákvörðuninni. Í ódagsettri breytingalýsingu á teikningu sé lýst breytingum sem ekki sé ljóst hvort einnig sé verið að samþykkja. Þá verði ekki betur séð en að útigeymslan og lóðarhækkunin standi óbreytt. Auk þess sé á teikningum gert ráð fyrir framkvæmdum sem ekki hafi verið ráðist í. Til dæmis segi að ofan á steyptan vegg á milli húsa sé 1,5 m hár viðarveggur. Í athugasemdum á teikningunni standi að með öllu sé óheimilt að breyta þessum vegg nema með samþykki beggja lóðarhafa. Slíkur veggur hafi ekki verið byggður og engin áform séu um það af kæranda hálfu en ekki verði af ákvörðuninni ráðið hvort í henni felist samþykki fyrir byggingu ofan á núverandi vegg. Samkvæmt teikningunni virðist hafa verið fjarlægður hluti af pallinum sem steyptur hafi verið ofan á garðvegginn milli lóðanna, en eins og framkvæmdir standi núna þá sé pallurinn ennþá steyptur ofan á vegginn. Hins vegar hafi verið gerð göt á hann fyrir gróður.

Óljóst sé hvað felist í hinni kærðu ákvörðun en hún virðist byggð á þeirri forsendu að framkvæmdir standi óbreyttar. Verði því ekki annað séð en að hún feli í sér samþykki borgaryfirvalda á öllum umdeildum framkvæmdum sem ráðist hafi verið í að Laufásvegi 68 með og án byggingarleyfis á umræddum árum en ekki bara þeim sem taldar hafi verið upp í ákvörðuninni. Jafnframt megi leiða af henni að fallið sé frá áformum um að afturkalla byggingarleyfi vegna framkvæmda sem ekki rúmist innan deiliskipulags. Enn sé í gildi deiliskipulag fyrir það svæði sem byggt hafi verið á og framkvæmdir jafn ólöglegar nú og þegar þær hafi farið fram, eins og byggingarfulltrúi lýsi í bréfi sínu frá 12. júní 2008.

Ekki verði séð að lagaheimild sé fyrir ákvörðun borgaryfirvalda, en framkvæmdin hafi hvorki verið einungis lítillega í andstöðu við deiliskipulag né hafi hún verið grenndarkynnt. Ekkert sé heldur í tilvitnuðum úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sem gagnist sem rökstuðningur fyrir ákvörðuninni. Þvert á móti séu í nefndum úrskurðum gerðar verulegar athugasemdir við málsmeðferð við töku fyrri ákvarðana, óskýrleika þeirra og að þær séu að hluta til óframkvæmanlegar. Borgaryfirvöld hafi átt að hlutast til um að framkvæmdir yrðu færðar í löglegt horf og eftir atvikum að axla ábyrgð á eigin mistökum við útgáfu byggingarleyfis.

Þá geri kærandi athugasemd gagnvart úrskurðarnefndinni varðandi málsmeðferð í máli nr. 19/2010. Í úrskurðinum sé haft eftir lögmanni byggingarleyfishafa ýmislegt varðandi afstöðu kæranda til framkvæmda og um forsendur þess að kærandi hafi gert athugasemdir til borgarinnar vegna þeirra. Fullyrðingar lögmannsins séu rangar og hæpið að það standist rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að veita kæranda ekki tækifæri til að tjá sig um það sem eftir honum sé haft, fyrst nefndin hafi talið frásögn um það atriði eiga erindi í úrskurðinn.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Samþykkt Reykjavíkurborgar byggi á úrskurðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 25. október 2011, en í ljósi þeirra hafi ekki verið stætt á öðru en að samþykkja umsókn þá sem hér sé til umfjöllunar.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Aðalkrafa um frávísun sé byggð á því að kæra, dags. 9. janúar 2012, hafi brotið í bága við 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en í kærunni séu engar kröfur settar fram og enginn rökstuðningur. Þau atriði sem um sé deilt í málinu hafi engin áhrif á fasteignina að Smáragötu 11 og séu þau tæplega sýnileg eigendum þeirrar fasteignar. Málið byggi því á réttlætiskennd eigenda fasteignarinnar að Smáragötu 11, en ekki raunverulegum hagsmunum.

Samþykktar hafi verið reyndarteikningar þar sem fram komi endanleg afstaða framkvæmda, sbr. ákvæði mannvirkjalaga og gildandi byggingarreglugerðar. Um sé að ræða minniháttar breytingar sem hafi orðið frá upphaflegum teikningum á framkvæmdatíma. Þá rúmist framkvæmdirnar allar innan deiliskipulagsins. Sé ferli þetta að fullu og öllu leyti í samræmi við lög og verði ekki séð af kæru eða rökstuðningi fyrir henni að færð séu málefnaleg rök fyrir öðru.

Á hinum samþykktum uppdráttum sé ekki gert ráð fyrir viðarvegg ofan á steypta vegginn milli lóða kæranda og leyfishafa. Á greindum uppdráttum sé athugasemd um viðarvegg milli lóðanna að Laufásvegi 68 og 70 en þar sé enginn slíkur viðarveggur á lóðarmörkunum í dag og séu ekki áform um að reisa hann. Sá veggur yrði auk þess kæranda óviðkomandi. Eini viðarveggurinn í nágrenninu sé milli lóðanna Laufásvegar 70 og Smáragötu 13 og sé hann kæranda og leyfishafa jafnframt óviðkomandi. Ekki þurfi leyfi fyrir runnagróðri en ekki sé gert ráð fyrir að hann verði hávaxinn. Sá gróður sé að öllu leyti innan lóðar leyfishafa.

Ákvörðun borgaryfirvalda um að afturkalla byggingarleyfið hafi verið felld úr gildi. Sé því ekki rétt hjá kæranda að segja að borgaryfirvöld hafi fallið frá ákvörðun sinni um að afturkalla byggingarleyfið sem ekki rúmist innan deiliskipulags. Afstaða kæranda bendi til þess að það eigi að vera markmið borgaryfirvalda að fella byggingarleyfið úr gildi. Fyrir liggi að rannsókn byggingarfulltrúa og öll málsmeðferð borgaryfirvalda, sem leiddi til þess að byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi á sínum tíma, hafi ekki verið í samræmi við lög. Niðurstaða þeirrar ólögmætu málsmeðferðar geti á engan hátt verið vísbending eða staðfesting á því að umræddar framkvæmdir séu óleyfilegar. Þær hafi nú verið samþykktar af borgaryfirvöldum í kjölfar vandaðrar og eðlilegrar málsmeðferðar sem staðfesti að umræddar framkvæmdir séu í löglegu horfi.

—————-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:
Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 21. apríl 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem veitt var fyrir framkvæmdum á lóðinni nr. 68 við Laufásveg en svo sem áður er lýst liggur eign kæranda að baklóð þess húss og verður að telja að umdeildar framkvæmdir geti snert lögvarða hagsmuni hans.  Kæranda var tilkynnt um leyfi vegna framkvæmdanna með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 7. desember 2011, sem póstlagt var 9. s.m. Kæra barst úrskurðarnefndinni 9. janúar 2012 þar sem fram kom hver væri kærandi og hvaða ákvörðun væri kærð. Kæran var bæði skrifleg og undirrituð. Fram kemur í kæru að bréfi byggingarfulltrúa hafi ekki fylgt gögn og er jafnframt með kærunni farið fram á afrit allra gagna málsins. Þá segir að kærandi muni koma með frekari rökstuðning þegar hann hafi fengið tækifæri til að kynna sér þau gögn. Verður með hliðsjón af framangreindu, og þar sem hin kærða ákvörðun kemur að verulegu leyti fram á teikningum sem ekki fylgdu bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, að telja fullnægt skilyrðum 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Sveitarfélögum er veitt vald til tiltekinna leyfisveitinga með lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Sveitarfélög fara einnig með skipulagsvald samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Skulu þau við skipulagsgerð gæta hagsmuna heildarinnar en þó þannig að hagsmunir einstaklinga séu ekki fyrir borð bornir, sbr. 1. gr. nefndra laga. Náið samspil er milli laganna tveggja og skulu byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga. Þá er sveitarfélögum skylt að fara í hvívetna að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sem og almennum reglum stjórnsýsluréttarins þegar þau beita valdi sínu og sinna lögboðnum skyldum sínum í skjóli þess.

Eins og rakið er í málavöxtum var hinn 21. mars 2007 gefið út byggingarleyfi vegna framkvæmda að Laufásvegi 68. Með úrskurðum uppkveðnum 25. október 2011 felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi þær ákvarðanir borgarráðs frá árinu 2010 að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmdanna og að fella úr gildi hluta nefnds byggingarleyfis. Byggingarfulltrúi samþykkti 29. nóvember 2011 nýtt byggingarleyfi á grundvelli framlagðra reyndarteikninga. Við ákvörðun sína vísaði hann til fundar skipulagsstjóra þar sem bókað var að ekki væri gerð athugasemd við erindið í ljósi fyrrnefndra úrskurða. Virðist af þessari afgreiðslu borgaryfirvalda að í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hafi þau ekki talið sér annað fært en að veita hið kærða leyfi. Gáfu úrskurðirnir ekki tilefni til þeirrar ályktunar enda byggði niðurstaða þeirra annars vegar á því að undirbúningi ákvörðunar hefði verið verulega áfátt og hins vegar á því að ákvörðun væri haldin verulegum annmörkum og þá einkum með vísan til þess að íþyngjandi ákvarðanir yrðu að vera skýrar, framkvæmanlegar og studdar málefnalegum rökum. Tilvísun til nefndra úrskurða í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun var því ekki haldbær. Hefðu borgaryfirvöld þvert á móti átt að taka málið til nánari rannsóknar sem og að meta áhrif ákvarðana sinna á alla aðila málsins.

Við meðferð málsins bar borgaryfirvöldum þannig að taka málið til skoðunar á ný og meta með sjálfstæðum hætti hvort skilyrði væru til staðar til útgáfu byggingarleyfis á grundvelli framlagðra reyndarteikninga eða ekki. Það verður hins vegar ekki séð af gögnum málsins að borgaryfirvöld hafi tekið efnislega afstöðu til þess hvort framlagðar reyndarteikningar samrýmdust skipulagsáætlunum, sbr. áskilnað þar um í 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga, heldur létu þau við það sitja að vísa til áðurnefndra úrskurða. Þá verður að telja að tilefni hafi verið til að leita annað hvort eftir umsögn borgarminjavarðar á ný í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags um vernd hússins að Laufásvegi 68 eða taka afstöðu til þeirrar umsagnar borgarminjavarðar er veitt var fyrir útgáfu byggingarleyfisins 2007.

Af öllu því sem framan greinir, og einkum og sér í lagi í ljósi forsögu málsins, verður að telja að borgaryfirvöld hafi ekki sinnt lögboðnu hlutverki sínu sem skyldi og er ljóst að bæði rannsókn málsins og rökstuðningi niðurstöðu þess var verulega áfátt. Verður með hliðsjón af því að telja að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið haldin slíkum annmörkum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2011 á reyndarteikningum vegna framkvæmda á árunum 2006 og 2007 á fasteigninni Laufásvegi 68 í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson

119/2014 Furuvellir

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 119/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Fífuvöllum, Hafnarfirði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis frá 27. október 2014 að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 18. desember 2014.

Málavextir: Kærandi býr að Fífuvöllum og liggur lóð hans að lóð Furuvalla þar sem leyfishafi heldur hunda. Kærandi sendi tölvupóst 7. september 2014 til heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og kvartaði yfir hundahaldinu, fullyrti að um starfsleyfisskylda starfsemi væri að ræða og krafðist þess að þvingunarúrræðum hundasamþykktar yrði beitt gagnvart hundaeiganda. Kærandi hafði áður kvartað yfir endurteknu ónæði af hundahaldinu. Hinn 27. október s.á. var haldinn fundur hjá heilbrigðisnefndinni og eftirfarandi bókun gerð vegna málsins: „Lögð fram kvörtun íbúa í Hafnarfirði vegna hundahalds nágranna. Skoðun á aðstæðum hefur ekki leitt í ljós að starfsleyfisskyld starfsemi sé rekin á umræddum stað og ekki hefur heldur verið hægt að staðfesta kvörtun um ónæði.“ Var ekki aðhafst frekar vegna málsins. Kærandi skaut þessari afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 25. nóvember s.á., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst telja ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar, sem komi fram í bókun hennar, hlægilega miðað við aðstæður. Fram fari mikil hundarækt á íslenska fjárhundinum að Furuvöllum og hafi áður verið kvartað yfir því símleiðis. Leyfi sé fyrir fjóra hunda en með ólíkindum sé að veitt hafi verið leyfi fyrir svo mörgum hundum af þessari tegund, sem sé þekkt fyrir gelt í mannabyggð. Leyfishafinn sé að spila með yfirvöld því hann stundi hundarækt á fasteigninni og sé með fleiri en 10 hunda einu sinni til tvisvar á ári. Samkvæmt leyfishafa sjálfum séu geltandi hundar merki um óánægju og megi því gera ráð fyrir að umræddum hundum líði ekki vel. Einnig hafi ítrekað komið fyrir að hundunum sé sleppt út í garð um miðja nótt til viðrunar og þegar þeim sé hleypt inn sé einhver skilinn eftir úti og gelti. Þetta sé óþolandi í þéttbýli. Ólíðandi sé að heilbrigðisyfirvöld, sem séu vel meðvituð um stöðu mála, hafi hvorki úrræði né getu til að kynna sér málið náið, t.d. með spjalli við nágranna í næstu húsum. Nábýlisréttur sé sterkari en svo að ánægja eins af hundahaldi geti verið yfirsterkari óánægju allra eða flestra nágranna. Þess sé krafist að viðurkennd sé sú staðreynd að hundaræktun eigi sér stað og að um starfsleyfisskylda starfsemi sé að ræða. Ljóst sé að starfsleyfi verði ekki gefið út á þessum slóðum og því beri að stöðva hundaræktunina. Til vara sé þess krafist að leyfið verði takmarkað við eitt dýr.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis:
Heilbrigðisnefndin bendir á að þrír hundar séu skráðir að Furuvöllum í Hafnarfirði. Um hundahald í Hafnarfirði gildi samþykkt um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 en samkvæmt 4. gr. hennar séu allir hundar sem haldnir séu á svæðinu skráningarskyldir. Í sömu grein sé tekið fram að „… séu fleiri en 5 skráningarskyldir hundar á sama heimili gilda ákvæði viðauka 8 í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum“. Reglugerð sú hafi verið felld úr gildi með reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar sé ákvæði um hunda- og kattageymslur í tl. 6.7 í fylgiskjali 2. Telji heilbrigðisnefndin að hinu kærða hundahaldi verði ekki jafnað saman við hundageymslur né dýrarækt, sem um sé fjallað í reglugerðinni.

Kvartanir hafi verið með hléum vegna hundahalds að Furuvöllum og í september 2014 hafi verið farið í vettvangsskoðun á staðinn vegna kvörtunar kæranda. Eigandi hundana hafi verið upplýstur um kvartanir og farið hafi verið fram á að hann skoðaði framkvæmd síns hundahalds. Viðbrögð hefðu borist frá eigandanum um umbætur vegna kvartana. Heilbrigðisnefnd hefði ekki talið ástæðu til frekari aðgerða varðandi kvörtunina í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og niðurstöðu vettvangsskoðunar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að auk skráðra hunda hennar séu þrír hundar í eigu barna hans oft gestkomandi á heimilinu. Hafi fjögur got átt sér stað á árunum 2012, 2013 og 2014, sem hafi gefið af sér alls 16 hvolpa. Hvolpar séu ekki skráningarskyldir fyrr en fjögurra mánaða gamlir en þá séu þeir jafnan fluttir á önnur heimili.

Niðurstaða: Kært er í máli þessu vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 27. október 2014 um að aðhafast ekki frekar vegna hundahalds að Furuvöllum, Hafnarfirði.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Sé m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Þar segir í 1. gr. að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. segir að allir hundar sem haldnir eru á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir og í 2. gr. segir að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í umboði heilbrigðisnefndar sjái um skráningu og annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu. Samkvæmt 10. gr. samþykktarinnar er hundeiganda eða umráðamanni hunds skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri. Í 14. gr. er fjallað um valdsvið heilbrigðisnefndar og þvingunarúrræði. Þar segir að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds geti heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila, eða látið fjarlægja hundinn.
Heilbrigðisnefndir starfa skv. áðurnefndum lögum nr. 7/1998. Samkvæmt 13. gr. laganna ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar.

Ljóst er af gögnum málsins að grundvöllur kvartana kæranda vegna hundahalds var kannaður. Farið var á vettvang og rætt við leyfishafa, sem ræddi mögulegar úrbætur við starfsmann heilbrigðisnefndar. Í kjölfar þessa var ákveðið að aðhafast ekki frekar í málinu, enda væri ekki um starfsleyfisskylda starfsemi að ræða. Verður ekki annað séð en að sú niðurstaða hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum, málið verið rannsakað og meðalhófs gætt við afgreiðslu þess og málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

54/2012 Skútuvogur

Með
Árið 2015, föstudaginn 24. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2012, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. maí 2012  um að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í atvinnuhúsnæði að Skútuvogi 12.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júní 2012, sem barst nefndinni 4. s.m., kærir Garðar Briem hrl., f.h. SP fasteignafélags ehf., þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. maí 2012 að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í atvinnuhúsnæði að Skútuvogi 12. Til vara er kærð sú ákvörðun skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar að halda ekki áfram upphaflegu umsóknarferli. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.
   
   
   
Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 20. júní 2012 og frá Reykjavíkurborg 14. ágúst s.á.

Málavextir: Hinn 5. janúar 2012 felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í eignarhluta 03 0103 í húsi nr. 12 við Skútuvog. Hinn 20. s.m. lagði kærandi inn beiðni til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar um að upprunaleg umsókn hans frá 2009 yrði tekin aftur fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var greindri beiðni kæranda hafnað með bréfi lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs, dags. 22. febrúar s.á., og þess krafist að sótt yrði um nýtt byggingarleyfi. 

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, beindi kærandi þeirri kröfu til Mannvirkjastofnunar að hún tæki til skoðunar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á að taka umsókn kæranda aftur til meðferðar. Kallaði stofnunin eftir skýringum frá byggingarfulltrúanum 21. mars s.á., sem bárust 3. apríl s.á. Var greindri beiðni kæranda synjað með bréfi frá Mannvirkjastofnun, dags. 4. maí s.á., en þar segir m.a:  „ Að mati stofnunarinnar er það háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óski eftir því að umsækjandi fylli út nýtt umsóknareyðublað og skili til byggingarfulltrúa ásamt nýjum uppdráttum, eftir atvikum samskonar og þeim sem fylgdu fyrri umsókn, eða hvort byggt sé á fyrri umsókn og þeim gögnum sem þeim fylgdu.“
Hinn 11. febrúar 2014 var upphafleg umsókn kæranda frá 2009 tekin fyrir á ný á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík. Var málinu frestað og kallað eftir frekari gögnum, s.s. samþykki nýrra meðeigenda.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að ferli hafi hafist þegar hann hafi lagt inn umsókn til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar og sé því ekki lokið. Hafi skipulags- og byggingarsvið synjað erindi kæranda en úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fellt þá afgreiðslu úr gildi. Úr því að synjun embættisins hafi ekki verið talin gild liggi beint við að hin upprunalega umsókn, sem móttekin hafi verið 2009, sé í fullu gildi og embættið þurfi að taka nýja ákvörðun í stað þeirrar ákvörðunar sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi.

Það sé misskilningur embættisins að hinu upprunalega umsóknarferli hafi lokið og að tilefni sé til þess að lögð verði inn ný umsókn. Hafi úrskurðarnefndin talið að hin kærða ákvörðun væri hvorki reist á málefnalegum grunni né studd haldbærum rökum. Af þeim sökum yrði að taka málið á ný til meðferðar og úrskurðar, annaðhvort með samþykki eða synjun. Ekki sé hægt að ætlast til að lögð verði inn ný umsókn um byggingarleyfi. Hafi lögformleg umsókn verið afhent á sínum tíma og eigi það ferli sem þá hafi hafist að ganga sinn veg á enda.

Að auki sé ekki hægt að sætta sig við þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar að það sé háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óski eftir því að umsækjandi fylli út nýtt umsóknareyðublað. Virðist stofnunin misskilja ferli umsókna um byggingarleyfi þar sem hún hafi talið að unnt sé að sækja um nýtt byggingarleyfi þegar afstaða hafi ekki verið tekin til fyrri umsóknar um sama erindi og sú umsókn hafi ekki runnið sitt skeið á enda. Með því að taka við erindi kæranda og kalla eftir skýringum frá byggingarfulltrúa hafi málið farið í löglegt ferli innan stofnunarinnar. Ekki séu því haldbær rök til að halda því fram að stofnuninni beri ekki að sinna kærum frá almennum borgurum.

Málsrök Mannvirkjastofnunar: Vísað er til þess að 18. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 feli í sér heimild stofnunarinnar til íhlutunar sem eigi  aðeins að beita í undantekningartilvikum. Heimildinni sé ekki ætlað að vera kæruleið fyrir hinn almenna borgara. Um sé að ræða heimild eins stjórnvalds til afskipta af stjórnsýslu annars stjórnvalds, háð mati þess fyrrnefnda, og sé því eðli máls samkvæmt ekki ákvörðun sem beint sé að borgurunum. Ákvörðunin sé ekki ákvörðun um rétt eða skyldu aðila máls. Af þeim sökum sé ákvörðun um að beita ekki heimild 18. gr. mannvirkjalaga til íhlutunar í stjórnsýslu byggingarfulltrúa ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á grundvelli 59. gr. laganna. Beri því að vísa kærunni frá.

Af hálfu stofnunarinnar hafi það verið talið háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óskaði eftir því að umsækjandi fyllti út nýtt umsóknareyðublað og skilaði til byggingarfulltrúa ásamt nýjum uppdráttum, eftir atvikum samskonar og þeim sem fylgt hafi fyrri umsókn, eða hvort byggt yrði á fyrri umsókn og þeim gögnum sem henni hafi fylgt. Við meðferð umsóknar, eftir að mál hafi verið tekið fyrir að nýju, sé byggingarfulltrúa ávallt heimilt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að óska nýrra afrita af uppdráttum eða frekari gagna, gerist slíks þörf, t.d. ef í ljós kæmi að uppdrættir hafi ekki uppfyllt ákvæði laga og reglugerða eða að afla þyrfti nýrra umsagna. Hafi ekki verið talið að afgreiðsla byggingarfulltrúa hvað þetta varðaði færi í bága við lög. Snúist ágreiningurinn einungis um það hvort umsækjanda sé skylt að fylla út umsóknareyðublað að nýju og sé hann ekki þess eðlis að tilefni sé til íhlutunar á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki. Sé bent á að heimildin sé neyðarúrræði sem einungis skuli beitt undantekningartilvikum. Það sé háð mati stofnunarinnar hvort 18. gr. mannvirkjalaga sé beitt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í þeim tilvikum þar sem úrskurðarnefnd hafi fellt úr gildi synjanir á byggingarleyfisumsóknum hafi það verið venja hjá embætti byggingarfulltrúa að óska eftir nýrri byggingarleyfisumsókn og nýjum uppdráttum stæði vilji til að fá mál tekin fyrir að nýju. Hafi verið litið svo á að með úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sé bundinn endir á tiltekið mál og því þurfi að stofna nýtt mál sé óskað frekari meðferðar. Sé á það bent að úrskurðarnefndin hafi ekki lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka málið fyrir að nýju. Mál líkt og það sem hér um ræði sé því ekki tekið upp að frumkvæði embættisins heldur verði að koma fram ósk um það. Hafi embættið því litið svo á að eðlilegast væri að bera þá ósk fram í formi nýrrar umsóknar, sem fái þá nýja umfjöllun.

Sú krafa að umsækjandi leggi fram nýja uppdrætti sé bæði eðlileg og nauðsynleg. Sé í því sambandi vísað til þeirra skýringa sem áður hafi komið fram af hálfu embættisins að ekki þyki viðeigandi að notast við uppdrætti sem áður hafi verið stimplaðir með synjun. Slík notkun á gögnum embættisins geti verið til þess fallin að valda ruglingi eða misskilningi síðar meir, enda sé um opinber skjöl að ræða sem lýsi sjálfstætt tilteknum lyktum máls og geti haft þýðingu síðar, t.d. í dómsmálum. Megi af þeim sökum einnig halda því fram að það sé með öllu óheimilt að breyta slíkum gögnum með nýjum eða breyttum áritunum.

Verði ekki með nokkru móti séð að sú einfalda gagnaöflun, þ.e. að fylla út byggingarleyfisumsókn og útvega afrit uppdrátta, sé svo íþyngjandi, kostnaðarsöm, erfið eða ósanngjörn fyrir umsækjanda að ekki megi beina þeim tilmælum til hans að leggja þau fram, enda sé málið til orðið að hans frumkvæði. Sérstaklega sé vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þeim efnum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar Mannvirkjastofnunar um að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar. Að auki er deilt um þá málsmeðferð borgarinnar vegna umsóknar kæranda um byggingarleyfi.

Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðunin verður þó að binda endi á mál til þess að hún sé kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á grundvelli 18. gr. mannvirkjalaga getur Mannvirkjastofnun tekið til athugunar hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Stofnunin kallaði eftir gögnum frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík á grundvelli 1. mgr. nefndrar lagagreinar en niðurstaða stofnunarinnar var að ekki væri tilefni til íhlutunar. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. skal stjórnsýsla máls vera í höndum byggingarfulltrúa þegar meðferð Mannvirkjastofnunar er lokið og er málið nú til meðferðar hjá byggingarfulltrúa á grundvelli upphaflegrar umsóknar kæranda, eins og nánar er lýst í málavöxtum. Sætir meðferð málsins ekki lögmætisathugun nefndarinnar fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir, sem eftir atvikum er þá kæranleg til nefndarinnar. Ljóst er af framangreindu að málinu er ólokið og liggur því ekki fyrir nein sú ákvörðun sem bundið getur endi á mál í skilningi áðurgreindrar 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

13/2015 Strandgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. desember 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóðanna nr. 31 og 33 við Strandgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2015, sem barst nefndinni 18. s.m., kæra N og S, Austurgötu 30, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. desember 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóðanna nr. 31 og 33 við Strandgötu.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. febrúar 2015, sem barst nefndinni 20. s.m., kærir Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl., f.h. E, Gunnarssundi 4, Hafnarfirði, sömu ákvörðun. Með bréfi, dags. 19. mars 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami lögmaður fyrir hönd sömu aðila, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 21. janúar 2015 að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Strandgötu 31-33.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi, en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, og hagsmunir aðila þykja ekki standa því í vegi, verða síðargreindu kærumálin, sem eru nr. 16/2015 og 19/2015, sameinuð máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkrafna kærenda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðabæ 26. febrúar og 9. og 23. mars 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 1. júlí 2014 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóða nr. 31 og 33 við Strandgötu. Í breytingunni fólst að lóðirnar yrðu sameinaðar í eina lóð. Heimilað yrði að byggja inndregna 4. hæð með því skilyrði að skuggavarp á lóðir við Austurgötu og Gunnarssund myndi ekki aukast. Var gert ráð fyrir 26 íbúðum á þremur efstu hæðunum. Að auki var gert ráð fyrir 12-13 bílastæðum innan lóðarmarka Strandgötu 31-33. Samþykkt var að auglýsa fram lagða tillögu og var hún auglýst í fjölmiðlum 17. s.m. með athugasemdafresti til 12. september s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulags- og byggingarsviðs. Var haldinn kynningarfundur 14. ágúst s.á., sem auglýstur var í prentmiðlum 17. júlí og 14. ágúst s.á. Auk þess var fundurinn auglýstur á vef bæjarins og dreifibréfum dreift í hús í nágrenni við Strandgötu 31 og 33. Á fundinum var breytingartillagan kynnt frekar og spurningum fundargesta svarað. Hinn 14. október s.á. samþykkti skipulags- og byggingarráð fram lagða tillögu ásamt umsögn skipulags- og byggingarsviðs. Var afgreiðslan staðfest og tillagan samþykkt af bæjarstjórn 29. s.m. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. desember s.á. voru athugasemdir Skipulagsstofnunar, dags. 26. nóvember s.á., teknar fyrir ásamt svörum skipulags- og byggingarsviðs, dags. 1. desember s.á. Voru svörin ásamt áorðnum breytingum samþykkt og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi sínum 10. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. janúar 2015.

Hinn 21. janúar 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar samþykkt umsókn um leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins á lóðinni nr. 31-33 við Strandgötu. Hinn 25. febrúar s.á. var á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir eftirfarandi beiðni kærenda
„ …gerð er krafa um að byggingarleyfi verði synjað vegna ógildanlegrar stjórnvaldsákvörðunar“. Synjaði byggingarfulltrúi beiðninni.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að bæði leyfishafi og Hafnarfjarðarbær hafi hagsmuni af því að hin umdeilda skipulagsbreyting verði samþykkt. Hafi það haft áhrif á málið þar sem báðir þessir aðilar hafi tekið fullan þátt í allri málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar. Sé um brot á hæfisreglum stjórnsýsluréttar að ræða, sbr. 3. gr. og 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi það komið niður á hagsmunum kærenda.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa í för með sér stórfellda breytingu á nýtingarmöguleikum kærenda á fasteign sinni og ljóst sé að daglegt líf þeirra verði fyrir augum margra nýrra íbúa. Einnig muni skuggavarp á fasteign þeirra verða verulegt og breytingarnar hafa í för með sér ónæði, hávaða og bílastæðavandamál. Nú þegar nýti nágrannar þau bílastæði sem staðsett séu á baklóð lóðarinnar Strandgötu 31-33. Augljóst sé að bílastæðaþörf fyrirhugaðra íbúða verði ekki fullnægt, en einnig muni möguleikar fólks á að finna bílastæði í nágrenni við heimili sín skerðast.

Með því að heimila hækkun á einu húsi sé sett fordæmi sem erfitt geti verið að standa gegn komi óskir fram um hækkun á öðrum húsum. Geti það haft í för með sér að götumynd miðbæjar Hafnarfjarðar breytist og hann tapi sérkennum sínum. Sé hin kærða deiliskipulagsbreyting í ósamræmi við aðal- og deiliskipulag og muni hafa veruleg áhrif á yfirbragð götunnar. Að auki muni íbúðarblokk með mjög litlum íbúðum, líkt og fyrirhugað sé að byggja, hafa áhrif á það hvers konar íbúar muni festa kaup á þeim.

Sé um að ræða verulega annmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Hvorki hafi verið gerð lýsing, líkt og kveðið sé á um í 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, né hafi deiliskipulagstillagan verið kynnt hagsmunaðilum áður en hún hafi verið tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn, sbr. 4. mgr. 40. gr. sömu laga. Að auki hafi kynningarfundur ekki verið auglýstur með fullnægjandi hætti. Hafi hann aðeins verið auglýstur á vef bæjarins og geti auglýsing í Fréttablaðinu ekki talist auglýsing með áberandi hætti, enda jafnist það ekki á við svæðisbundinn fréttamiðil. Hafi dreifibréfum aðeins verið dreift í hús í nágrenni við Strandgötu 31-33 en ekki til allra íbúa sveitarfélagsins. Um sé að ræða miðbæ Hafnarfjarðar sem snerti lífsgæði allra íbúa bæjarins.

Málsmeðferðarreglum 43. gr. skipulagslaga hafi ekki verið fylgt. Sé það aðeins í þeim tilvikum þar sem um óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi sé að ræða að ekki sé talin ástæða til málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það eigi ekki við um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu, enda víki tillagan frá notkun og hafi sú breyting í för með sér verulega íþyngjandi áhrif og rýri verðgildi eignar kærenda.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 segi að á miðbæjarsvæði sé heimilt að gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði þar sem aðstæður leyfi, sérstaklega á efri hæðum bygginga. Samkvæmt aðalskipulagi sé að auki heimilt að uppfylla bílastæðakröfur á almennum bílastæðum á miðsvæði gegn greiðslu sérstaks gjalds sé ekki hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar. Allt rými á jarðhæð í miðbænum sé ætlað fyrir verslun, veitingahús og þjónustu, en að auki sé stefnt að aukinni íbúðarbyggð í miðbænum, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötu. Hafi verið tekin sú ákvörðun að selja húsnæði bæjarins að Strandgötu 31-33 þar sem það hafi ekki nýst nógu vel. Hafi það verið þáttur í hagræðingu í rekstri bæjarins.

Því sé hafnað að kynningarfundurinn hafi verið illa kynntur þar sem tilkynning hafi verði borin í öll nærliggjandi hús auk auglýsingar á heimasíðu bæjarins, í Fréttablaðinu og samdægurs í Fjarðarpóstinum. Vegna aðstæðna hafi auk þess verið kynnt fleiri gögn um skuggavarp en venja sé fyrir.

Sú staðhæfing kærenda sé röng að húseignin verði hæsta byggingin í metrum talið við Strandgötu. Sýni deiliskipulagsuppdráttur að heimilt sé að reisa hærra hús við Strandgötu 26-30. Engu hafi verið breytt frá fyrra skipulagi varðandi umferð og aðkomu að lóðum kærenda. Að auki haldi kærendur því fram að fyrirhugaðar íbúðir séu mjög litlar en hið rétta sé að birt flatarmál þeirra verði á bilinu 42,2-87,6 m2. Sameinuð lóð Strandgötu 31-33 liggi ekki að lóðarmörkum lóðar kærenda heldur liggi sú lóð vestan að bæjarlandi.

Aðeins sé skylt að gera lýsingu á deiliskipulagi þegar um nýtt deiliskipulag sé að ræða, en ekki vegna breytinga á þegar gerðu deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Hafi meginforsendur breytingartillögunnar legið fyrir í aðalskipulagi og hafi sveitarstjórn því verið heimilt að falla frá kynningu á tillögunni.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar á breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóðanna nr. 31 og 33 við Strandgötu. Þá er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að veita leyfi fyrir byggingarframkvæmdum með stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Samkvæmt 40. gr. og 41. gr. sömu laga fer sveitarstjórn með alla málsmeðferð varðandi gerð og breytingu á deiliskipulagi. Er sveitastjórn því lögum samkvæmt skylt að sjá um gerð, kynningu og auglýsingu á deiliskipulagi og breytingum á því og telst ekki aðili máls í skilningi 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá tekur umrædd grein einungis til vanhæfis starfsmanna sem hafa stjórnsýslu með höndum og nefndarmanna stjórnsýslunefnda, en samkvæmt orðalagi sínu á hún ekki við um leyfishafa. Er því ekki hægt að fallast á með kærendum að um brot á hæfisreglum stjórnsýsluréttar sé að ræða í máli þessu.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er merkt sem miðbær Hafnarfjarðar (M1). Segir þar að á svæðinu skuli allt rými á jarðhæð vera nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu en þó sé stefnt að aukinni íbúðarbyggð, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötuna. Auk þess megi uppfylla bílastæðakröfur á almennum bílastæðum á svæðinu gegn greiðslu sérstaks gjalds, sé ekki hægt að uppfylla þær kröfur innan lóða. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að allir geti fundið húsnæði og umhverfi við sitt hæfi og að við endurskipulagningu byggðar skuli leita að möguleikum til þéttingar byggðar. Loks segir að eðlilegt sé að þéttleiki byggðar í miðbæjum sé meiri en í öðrum hverfum og eigi slíkt við um miðbæ Hafnarfjarðar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og áðurnefnda 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Það er því á hendi sveitarstjórnar að hafa áhrif á þróun byggðar og umhverfi, þ.m.t. götumynd og notkun. Verður að líta svo á að ákvörðun þar um lúti fyrst og fremst skipulagslegum markmiðum, sem séu á forræði sveitarfélaga, fremur en lögvörðum hagsmunum einstaklinga. Liggur fyrir í gögnum málsins að ítarlegar athuganir voru gerðar vegna mögulegs skuggavarps á hús í nágrenni við Strandgötu. Samkvæmt greindum gögnum verður ekki séð að hækkun um eina inndregna hæð muni auka skuggavarp á eignir kærenda úr hófi fram. Þá er hvorki að finna í lögum né reglugerðum kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða auk þess sem heimilt er samkvæmt aðalskipulagi að uppfylla bílastæðakröfur á almennum bílastæðum á miðbæjarsvæðinu, líkt og áður greinir. Verður, með hliðsjón af því sem rakið hefur verið, ekki talið að breytingin sé slík að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. laganna er ekki lögð fortakslaus skylda á sveitarfélög að kynna deiliskipulagstillögu fyrir hagsmunaðilum áður en sveitarstjórn tekur hana til afgreiðslu. Er heimilt að falla frá slíkri kynningu ef meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi, líkt og við á í máli þessu. Að auki er tekið fram í 1. mgr. 43. gr. laganna að ekki þurfi að gera lýsingu vegna breytinga á deiliskipulagi. Þá er heldur ekki að sjá að málsmeðferðin hafi verið haldin öðrum annmörkum enda var hin kærða deiliskipulagsbreyting auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum svarað, breytingin samþykkt og gildistaka hennar auglýst í kjölfarið.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður gildi leyfisins heldur ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. desember 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóðanna nr. 31 og 33 við Strandgötu.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 21. janúar 2015 um að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Strandgötu 31-33.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

6/2013 Kirkjuteigur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2013, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ábyrgðarbréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2012, og bréfi, dags. 28. janúar 2013, sem barst nefndinni 1. febrúar s.á., kærir Leó E. Löve hrl., f.h. A, Hraunteigi 16, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig, Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. febrúar 2013.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 27. júní 2012 var tekin fyrir umsókn, dags. 19. s.m., um breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig. Í breytingunni fólst m.a. að verslunarhúsnæði yrði breytt í íbúðarhúsnæði með fjórum íbúðum, einni inndreginni hæð yrði bætt við bygginguna að hluta og heimiluð yrði tveggja hæða viðbygging í stað einnar hæðar. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu og var afgreiðslan staðfest af borgarráði 5. júlí s.á. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 25. s.m. með athugasemdafresti til 5. september s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulagsstjóra, dags. 3. október s.á. Hinn 17. s.m. samþykkti skipulagsráð framlagða tillögu sem síðan var staðfest af borgarráði 25. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2012.

Málsrök kærenda: Kærandi skírskotar til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa veruleg áhrif á sólfar á lóð hans við Hraunteig 16, einkum þegar sól sé lágt á lofti. Sé nauðsynlegt að vekja athygli á því að túlkun umhverfis- og skipulagssviðs á skuggavarpi hafi aðeins náð til hálfs árs, þ.e. þess helmings sem sé bjartari, og sé því alröng. Að auki muni breytingin hafa í för með sér  lýti á götumyndinni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kæran sé of seint fram komin. Hafi hin kærða breyting verið auglýst endanlega í Stjórnartíðindum 19. desember 2012. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá birtingu ákvörðunar í Stjórnartíðindum. Hafi kærufrestur því runnið út 19. janúar 2013, en kæran sé hins vegar dagsett 28. s.m., eða níu dögum eftir að kærufrestur hafi runnið út.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að það liggi fyrir í málinu að ákvörðun hafi verið tekin og auglýst 19. desember 2012 þegar auglýsing um breytingu á deiliskipulagi við Kirkjuteig hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Hafi kærufrestur því verið liðinn er kæran barst. Bent sé á að sendandi erindisins sé lögfræðingur og vegna þess sé ekki afsakanlegt að erindið hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufrestur hafi verið liðinn. Eigi því ekki að taka erindið til efnislegrar meðferðar.

Leyfishafar hafi verið í góðri trú um að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi gengið í gegn. Gerðar hafi verið ráðstafanir vegna breytinganna, sem eðli máls samkvæmt hafi haft ákveðinn kostnað í för með sér og gæti því leitt til fjárhagslegt tjón verði kæran tekin til efnismeðferðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs frá 25. október 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Teigahverfi vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig, sem öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember s.á. Kærandi skaut hinni kærðu ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með ábyrgðarbréfi, dags. 19. nóvember 2012. Var honum bent á að kærufrestur teldist frá birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og yrði kærunni því ekki sinnt fyrr en að þeim tíma liðnum. Var kæranda jafnframt bent á að láta úrskurðarnefndina vita þegar birting hefði átt sér stað, sem hann og gerði með tölvubréfi 27. janúar 2013. Ítrekuð kæra, dags. 28. s.m., barst svo nefndinni 1. febrúar sama ár.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og lýst hefur verið var ekki tekið við upphaflegri kæru með formlegum hætti en að sama skapi var henni ekki vísað frá nefndinni með úrskurði. Kæranda var leiðbeint um framhald málsins en í ljósi þeirra atvika sem lýst er verður að líta svo á að kæra hafi legið fyrir úrskurðarnefndinni þegar deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu auglýsingar þar um og þar með borist innan kærufrests. Verður kæran því tekin til efnislegrar meðferðar.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóðar á íbúðarsvæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er merkt ÍB21, Teigar. Er svæðinu lýst sem hverfi sem sé að mestu fullbyggt og fastmótað og yfirbragð þess sé fjölbreytt. Er þétting byggðar og blönduð landnotkun eitt af yfirlýstum markmiðum aðalskipulagsins. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Með deiliskipulagsbreytingunni er gert ráð fyrir hækkun núverandi húss, að hluta um eina inndregna hæð, og tveggja hæða viðbyggingu og mun nýtingarhlutfall lóðarinnar verða 0,99. Í gildandi deiliskipulagi er heimilað nýtingarhlutfall fyrir sambýlishúsalóðir 0,5-0,8. Að auki segir að nýtingarhlutfall margra lóða sé yfir uppgefnum viðmiðum og að almennt sé heimilt að víkja frá því viðmiði, s.s. vegna hækkunar húsa eða viðbygginga. Þá er til þess að líta að lóðin við Kirkjuteig 21 er ekki fullnýtt og er gert ráð fyrir einnar hæðar viðbyggingu auk kjallara í gildandi deiliskipulagi. Verður með hliðsjón af því sem að framan er rakið ekki talið að deiliskipulagsbreytingin sé slík, miðað við efnisheimildir í fyrra deiliskipulagi, að réttur kæranda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Hin umdeilda breytingartillaga var auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum var svarað, tillagan samþykkt og gildistaka breytingarinnar auglýst í kjölfarið. Var málsmeðferð því í samræmi við skipulagslög.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist verulega í máli þessu sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

23/2009 Hvammar

Með
Árið 2015, föstudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 4. febrúar 2009 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvamma, Fellabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. apríl 2009, er barst nefndinni 14. s.m., kæra íbúar að, Fjóluhvammi 1, Smárahvammi 1, Smárahvammi 2 og  Ranavaði 6, Fljótsdalshéraði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 4. febrúar 2009 að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvamma, Fellabæ.

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi. Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir við Fjóluhvamm í Fellabæ yrðu stöðvaðar. Verður málið nú tekið til efnislegrar úrlausnar en ekki þótti tilefni til að taka sérstaklega fyrir stöðvunarkröfu kærenda enda felst ekki í hinni kærðu ákvörðun heimild til að hefja framkvæmdir.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs hinn 10. mars 2008 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Hvamma, sem er svæði er tekur til Fífuhvamms, Fjóluhvamms og Smárahvamms í Fellabæ. Gerði tillagan ráð fyrir stofnun þriggja lóða við Fjóluhvamm og tveggja lóða við götu er nefnd yrði Fífuhvammur og byggingarheimildum á þeim. Ekki var gert ráð fyrir breytingum á þegar reistum húsum á skipulagsreitnum. Var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að tillagan yrði auglýst til kynningar og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 19. s.m. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. bréf er undirritað var af 37 íbúum við Hvamma þar sem m.a. var skorað á sveitarstjórn og skipulags- og byggingarnefnd að skilgreina svæði við suðurenda Fjóluhvamms sem opið útivistarsvæði, en í tillögunni var gert ráð fyrir að á því svæði yrði heimilað að reisa tveggja hæða tvíbýlishús.

Var umrætt athugasemdabréf lagt fram á fundi bæjarráðs hinn 25. júní 2008 og bókað að athugasemdum íbúa yrði komið til skipulags- og byggingarnefndar. Jafnframt yrði tillögum íbúa um úrbætur á svæðinu vísað til skoðunar og umsagnar í umhverfis- og náttúruverndarnefnd og fasteigna- og þjónustunefnd. Tillaga að deiliskipulagi fyrir Hvamma var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. júlí s.á. Voru fram komnar athugasemdir og svör við þeim færð til bókar og lagt til að tillagan yrði samþykkt með þeim breytingum að bílastæði við Smárahvamm 2 yrðu staðsett við Fjóluhvamm. Jafnframt var lagt til að tillagan yrði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Bæjarráð samþykkti skipulagstillöguna á fundi hinn 23. júlí 2008 og í kjölfar þess var hún send Skipulagsstofnun til lögbundinnar meðferðar.

Með bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarfélagsins, dags. 19. september s.á., kom fram að ekki væri unnt að taka afstöðu til efnis eða forms deiliskipulagsins þar sem upplýsingar væru óljósar. Í kjölfar þessa samþykkti bæjarstjórn hinn 17. desember 2008, að undangenginni afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar, breytt deiliskipulag þar sem bætt hafði verið við tillöguna skilmálum fyrir þegar byggðar lóðir. Skipulagsstofnun tók málið fyrir að nýju og með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. janúar 2009, var gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins þar sem nýjum skipulagsskilmálum hefði verið bætt við án þess að þær breytingar hefðu verið kynntar hagsmunaaðilum eða rökstutt hvers vegna ekki þyrfti að kynna þær breytingar sérstaklega. Í framhaldi af því var sú breyting gerð á tillögunni að byggingarreitir á þegar byggðum lóðum voru teknir út af uppdrætti. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. janúar 2009 var lagt til við bæjarstjórn að skipulagið yrði samþykkt og það sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Jafnframt yrði breytingin auglýst opinberlega samhliða auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu hinn 4. febrúar s.á. Var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun að nýju, sem gerði nú ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins, og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars 2009.

Hafa kærendur skotið ákvörðun bæjarstjórnar um deiliskipulag fyrir Hvamma til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að deiliskipulagið sé ekki að öllu leyti í samræmi við Aðalskipulag Fellahrepps 2000-2012 að því er varði vegtengingu á svæðinu. Einnig sé bætt við götu, sem nefnd sé Fífuhvammur, sem ekki eigi sér stoð í aðalskipulagi. Skipulagsyfirvöld og höfundur skipulagsins hafi hvorki kynnt sér stöðu skipulagsmála né hugað nægjanlega að ríkjandi aðstæðum. Hafi deiliskipulagið verið samþykkt svo hægt væri að standa við þegar samþykkta lóðaúthlutun.

Í 1. mgr. gr. 3.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé kveðið á um samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila við skipulagsgerð. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa Hvamma við gerð deiliskipulagsins umfram lögboðna kynningu. Vegna forsögu málsins hafi skipulagsyfirvöldum mátt vera ljóst að veruleg þörf væri á virku samráði við íbúa við að finna lausn mála sem allir gætu sætt sig við. Að upplýsa um valdboð og ákvarðanir sé ekki það sama og að hafa samráð við hagsmunaaðila.

Húsakönnun skv. 3. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð hafi ekki verið gerð. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði sé sú skylda lögð á skipulagsyfirvöld að kanna með fullnægjandi hætti þær aðstæður innan hverfis sem máli skipti fyrir deiliskipulagið sem slíkt og ekki síður fyrir þá sem ríkra hagsmuna eigi að gæta, líkt og íbúðareigendur á svæðinu. Sem dæmi um ókunnugleika þeirra sem að gerð deiliskipulagsins hafi komið megi nefna að í umræddu skipulagi komi fram að á lóð nr. 1 við Fjóluhvamm skuli vera þrjú bílastæði en samkvæmt þinglýstum gögnum séu þau fjögur. Sé undirbúningur og aðdragandi skipulagsins ekki með þeim hætti sem áskilið sé samkvæmt greindu ákvæði og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Breytingar sem fram komi í deiliskipulaginu séu hvorki brýnar né byggi á almannahagsmunum. Í svari við athugasemdum komi fram að skipulagsyfirvöldum beri að nýta allt það land þar sem gert sé ráð fyrir íbúðarbyggð í gildandi aðalskipulagi. Ekki sé þetta rökstutt frekar enda vandséð að tiltekin staða í samningum um kaup á byggingarlandi feli í sér skyldu til að þétta byggð í nær fullbyggðu hverfi og það í andstöðu við alla íbúa og húseigendur hverfisins. Því sé alfarið vísað á bug að sveitarfélaginu beri skylda til að fara út í þá þéttingu byggðar sem deiliskipulagið geri ráð fyrir. Íbúðarsvæði sé skilgreint í gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerðinni. Af því ákvæði verði ekki dregin sú ályktun að sjálfgefið sé að sérhver skiki sem skilgreindur sé sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi verði útfærður sem byggingarlóð. Það sé því ekki í andstöðu við aðalskipulag þótt svæði við suðurenda Fjóluhvamms verði látið standa óbyggt eða nýtt til sameiginlegra þarfa hverfisins, líkt og samstaða virðist um meðal íbúa Hvamma. Líti kærendur á umrætt svæði sem opið svæði með aðgengi að Lagarfljóti. Hafi skipulagsyfirvöld í engu komið til móts við sjónarmið íbúa, þrátt fyrir að ekki hafi verið sýnt fram á að sveitarfélagið hafi ríka hagsmuni af því að þarna verði byggt. Sé vísað til kafla 2.2.1 í greinargerð með aðalskipulaginu en þar segi: „Íbúðarsvæði falli ávallt sem best að náttúrulegu umhverfi og lagður sé metnaður í … samfellu byggðar og náttúru.“

Hvammarnir séu einbýlishúsahverfi, lóðir séu stórar og húsin standi þannig að þau skyggi ekki hvert á annað. Bygging tveggja hæða parhúss syðst í einbýlishúsahverfi sé stílbrot við ríkjandi byggð. Nyrst í hverfinu séu háreistari parhús, Fjóluhvammur 9 og 11, og því eðlilegt að byggð hækki til norðurs. Fyrirhugað parhús muni skerða útsýni þeirra er búi í nærliggjandi húsum. Jafnframt hafi verið felldur niður göngustígur meðfram lóðarmörkum Smárahvamms 2 frá götu og niður að Fljóti. Erfitt sé um aðkomu að því annars staðar þar sem brattara sé þar frá götubrún og niður að ánni. Þá torveldi breytingin snjómokstur í götunni.

Götur í Hvömmum séu þröngar, brattar og bugðóttar og séu öll bílastæði inni á lóðum. Eina mögulega staðsetning bílastæða fyrir gesti sé syðst í Fjóluhvamminum, en brýn þörf sé fyrir gestabílastæði á svæðinu og hefðu íbúar óskað eftir því að úr þessu yrði bætt með áskorun til sveitarfélagsins, dags. 30. maí 2008. Þeim rökum skipulags- og byggingarnefndar að gestabílastæði auki umferð um Hvammana sé vísað á bug.

Málsrök Fljótsdalshéraðs: Bent er á að umrætt deiliskipulag byggi á gildandi Aðalskipulagi Fellahrepps 2000-2012. Í tillögu að aðalskipulagi fyrir Fljótsdalshérað, sem bæjarstjórn hafi samþykkt 20. maí 2009 að senda Skipulagsstofnun til afgreiðslu, sé gert ráð fyrir óbreyttri íbúðarbyggð við Fjóluhvamm. Ekki hafi verið talið nauðsynlegt að gera bæja- og húsakönnun enda einungis um það að ræða að útfæra nánar byggingar á lóðum nr. 2 og 4 við Fífuhvamm og lóðum nr. 3, 4a og 4b við Fjóluhvamm. Skipulagshöfundur þekki svæðið allvel og hafi farið ásamt skipulagsfulltrúa í skoðunarferðir um það. Bílastæði við hús nr. 1 við Fjóluhvamm þurfi ekki að vera fleiri en þrjú þar sem önnur íbúðin í húsinu sé minni en 80 m². Enn fremur sé bent á að vegna landleysis sé það stefna sveitarfélagsins að byggja á öllum skipulögðum lóðum í eigu þess áður en meira land verði tekið undir frekari byggð.

                ————————–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar í máli þessu.

Niðurstaða: Hvammar í Fellabæ mun vera gróin byggð. Gerir hið kærða deiliskipulag ráð fyrir að stofnaðar séu þar tvær lóðir við nýja götu sem nefnd er Fífuhvammur og heimiluð bygging tveggja hæða einbýlishúss á hvorri lóð. Jafnframt er heimiluð bygging einbýlis- eða tvíbýlishúss á lóðinni Fjóluhvammi 3 og bygging tveggja hæða tvíbýlishúss á lóðum nr. 4a og 4b við suðurenda Fjóluhvamms. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á þegar reistum húsum. Stendur einkum styr um þær heimildir sem veittar eru á lóðunum að Fjóluhvammi 4a og 4b.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, er giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna. Skipulag gróinna hverfa er að því leyti frábrugðið skipulagningu nýbyggingarsvæða að á grónum svæðum hefur byggð mótast í samræmi við skipulag sem sett hefur verið af sveitarstjórn eða með veittum byggingarleyfum. Gera tilvitnuð lög ráð fyrir að með skipulagsákvörðun geti lögvörðum hagsmunum eigenda fasteigna verið raskað vegna ríkari hagsmuna, en þeim er hins vegar tryggður bótaréttur skv. 33. gr. laganna valdi skipulagsákvörðun fjártjóni.

Í 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið. Fallast má á með kærendum að vanda hefði mátt betur undirbúning málsins með samráði við hagsmunaaðila og kynningu á frumstigi þess með hliðsjón af nefndu lagaákvæði, en fyrir lá að ekki ríkti eining um skipulagsáætlunina. Ekki verður þó talið að þessi ágalli á meðferð málsins sé þess eðlis að leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Orðalag nefndrar 4. mgr. 9. gr. er ekki afdráttarlaust og umdeild skipulagstillaga var allt að einu auglýst til kynningar, svo sem áskilið er í 1. mgr. 25. gr. nefndra laga, og gafst íbúum þar með kostur á að koma að athugasemdum sínum og ábendingum vegna hennar.

Deiliskipulag skal gera á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði. Samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Fellahrepps 2000-2012 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði. Hefur sveitarfélagið borið fyrir sig að stefnt sé að því að byggja á öllum skipulögðum lóðum í eigu sveitarfélagsins áður en meira land verði tekið undir frekari byggð og verður að telja þau markmið málefnaleg og lögmæt.

Í 2. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum, stofnbrautum og tengibrautum. Ekki er gerð krafa um að sýna þurfi á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags aðrar samgönguæðar, s.s. íbúðar- eða safngötur. Fer hin kærða skipulagsákvörðun að þessu leyti ekki í bága við gildandi aðalskipulag.

Huga skal að bæja- og húsakönnun áður en ráðist er í skipulagsgerð til þess að afstaða sé tekin til varðveislu mannvirkja. Fyrir liggur að með hinni kærðu ákvörðun var ekki hróflað við byggð þeirri sem fyrir var á skipulagssvæðinu og þykir sá annmarki að ekki hafi legið fyrir sérstök húsakönnun því ekki geta raskað gildi ákvörðunarinnar, eins og atvikum er hér háttað.

Að öllu framangreindu virtu þykir hið kærða deiliskipulag ekki haldið slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 4. febrúar 2009 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvamma, Fellabæ.

___________________________
Ómar Stefánsson

____________________________            ___________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

76/2014 Þórsgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2014, er staðfest var af borgarráði 3. júlí s.á., um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðarinnar nr. 13 við Þórsgötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2014, er barst nefndinni 17. s.m., kæra K, Þórsgötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2014 að synja ósk þeirra um breytingu á deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðar nr. 13 við Þórsgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skipulagsráði verði gert að taka málið til umfjöllunar að nýju á grundvelli fyrri ákvarðana skipulagsráðs og umsagnar lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 19. september 2014 og 27. febrúar 2015.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Þórsgötureits er gert ráð fyrir bílastæðum framan við einbýlishús kærenda nr. 13 við Þórsgötu. Á fundi skipulagsráðs hinn 13. júní 2007 var tekið fyrir erindi kærenda um hvort heimilað yrði að fækka almenningsstæðum um eitt framan við hús þeirra til að koma að innkeyrslu á lóðina þar sem yrðu þrjú bílastæði. Gerði skipulagsráð ekki athugasemd við erindið að vissum skilyrðum uppfylltum og tók fram að sækja þyrfti um byggingarleyfi. Hinn 30. september 2008 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa lögð fram umsókn um leyfi til að gera innkeyrslu og koma fyrir tveimur bílastæðum á umræddri lóð. Var afgreiðslu málsins frestað og fært til bókar að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri ekki gerð athugasemd við að umsækjandi legði fram tillögu um breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið. Bærist slík tillaga yrði hún grenndarkynnt.

Hinn 30. september 2011 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra fyrirspurn kærenda um breytingu á deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðarinnar Þórsgötu 13 skv. uppdrætti, dags. 18. ágúst s.á. Fól tillagan í sér að byggingarreitur yrði lengdur að lóðarmörkum. Komið yrði fyrir tveimur bílastæðum á lóð og bílastæðum í götu fækkað um eitt fyrir innkeyrslu að lóðinni. Var talið að ekki væri unnt að fallast á erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. sama dag, þar sem vísað var til sjónarmiða um umferðaröryggi, skuggavarp og byggðamynstur.

Með umsókn til skipulagsstjóra, dags. 8. desember 2011, var sótt um breytingu á deiliskipulagi vegna fyrrgreindrar lóðar, sbr. breytta uppdrætti dags. sama dag. Gerði tillagan ráð fyrir breytingu á byggingarreit ásamt því að 1. hæð heimilaðrar viðbyggingar yrði breytt í bílgeymslu. Þá yrði fellt niður eitt almenningsstæði á götu fyrir aðkomu að bílgeymslunni. Jafnframt var lögð fram önnur tillaga til vara er gerði ráð fyrir frávikum frá fyrri tillögu. Tók skipulagsráð málið fyrir á fundi hinn 22. febrúar 2012 og færði til bókar að ekki væri fallist á að leggja til breytingu á deiliskipulagi svæðisins í samræmi við fyrirspurnina. Í kjölfar þessa lögðu kærendur að nýju inn umsókn um breytingu á nefndu deiliskipulagi samkvæmt áðurnefndum uppdráttum, dags. 8. desember 2011. Á fundi skipulagsráðs hinn 17. október 2012 var umsóknin tekin fyrir og henni synjað. Var tekið fram að ekki væri fallist á að breyta deiliskipulagi á þann hátt sem tillagan gerði ráð fyrir. Hvorki var vísað til umsagnar skipulagsstjóra við afgreiðslur skipulagsráðs 22. febrúar 2012 né 17. október s.á. Var síðari afgreiðsla skipulagsráðs kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði uppkveðnum 31. janúar 2014 vísaði kærunni frá þar sem ekki lægi fyrir lokaákvörðun er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Umsókn kærenda, sbr. uppdrætti dags. 8. desember 2011, var tekin fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 7. mars 2014. Var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi hinn 25. júní s.á. og afgreiddi með svohljóðandi hætti: „Synjað. Umhverfis- og skipulagsráð fellst ekki á að breyta deiliskipulagi á þann hátt sem lagt er til í tillögunni. Vísað til borgarráðs.“ Staðfesti borgarráð téða afgreiðslu hinn 3. júlí s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hinn 13. júní 2007 hafi skipulagsráð samþykkt erindi þeirra um að fella niður eitt almenningsbílastæði á götu til að koma fyrir innkeyrslu að bílastæðum á lóðinni að Þórsgötu 13, með því skilyrði að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir breytingunni. Hafi skipulagsyfirvöld ítrekað afgreitt erindi kærenda á síðari stigum í andstöðu við fyrrgreinda afgreiðslu skipulagsráðs, þrátt fyrir að tillagan hafi verið útfærð í samræmi við leiðbeiningar starfsmanna skipulagsyfirvalda.

Þá telji kærendur að skoða þurfi hvort þörf sé á því að breyta deiliskipulagi svo unnt sé að veita kærendum byggingarleyfi til að breyta gangstétt við götu svo unnt sé að aka inn á lóðina en bílastæði yrði staðsett innan byggingarreits á lóðinni. Það hljóti að vera val lóðareigenda hvort þeir nýti svæði, sem einnig sé ætlað fyrir viðbyggingu, sem bílastæði þangað til  byggingarréttur verði nýttur, en bílastæði sé afturkræf tilhögun. Þessu til stuðnings sé bent á að umhverfis- og skipulagsráð hafi árið 2007 samþykkt algjörlega sambærilegt erindi vegna Þórsgötu 4.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið tekur fram að skipulagsráð hafi árið 2007 veitt álit sitt í kjölfar fyrirspurnar kærenda um leyfi til að breyta deiliskipulagi fyrir Þórsgötureit. Ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða sem skuldbundið hafi skipulagsráð á þeim tíma eða síðar. Ef byggja ætti á sjónarmiðum um réttmætar væntingar hefði þurft að taka stjórnvaldsákvörðun. Geti afstaða stjórnvalds og tekið breytingum á sjö árum enda geti áherslur í skipulagsmálum breyst.

Skipulagsvald sé í höndum sveitarstjórnar samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem ákvarði hvernig markmiðum laganna samkvæmt 1. gr. verði náð. Útfærsla þess skuli meðal annars koma fram í deiliskipulagi en sveitarstjórn hafi ákvörðunarvald um heimildir innan ramma þess. Af markmiðsákvæðum skipulagslaga og sérstökum markmiðsákvæðum fyrir deiliskipulagsgerð samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 megi ráða að sveitarstjórn beri að hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi við skipulagsákvarðanir. Þá verði ákvarðanir að byggjast á málefnalegum og rökstuddum sjónarmiðum þar sem í skyldu sveitarstjórnar til skipulagningar felist skerðing á hagnýtingarrétti og eignarréttindum eiganda fasteignar.

Umsókn kærenda feli í sér að almenningsstæðum verði fækkað og að heimilaður verði akstur yfir gangstétt sem sé í eigu sveitarfélagsins. Með umsókninni sé verið að fara fram á að sveitarstjórn færi almannahagsmuni yfir til einstaklings og skerði með því gæði almennings þar sem færri almenningsbílastæði verði í götunni. Vísað sé til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 30. september 2011, sem legið hafi til grundvallar hinni kærðu ákvörðun. Þar komi m.a. fram að slíkt fyrirkomulag skerði öryggi vegfarenda um gangstéttina en það hafi þegar verið skert vegna framkvæmda sem heimilaðar hefðu verið síðustu áratugina, eða látnar afskiptalausar. Væri ekki ástæða til að heimila nýframframkvæmdir sem skerða myndu öryggi gangandi enn frekar. Ættu engin jafnræðissjónarmið við í slíku tilfelli. Jafnframt hafi skipulagsfulltrúi komist að þeirri niðurstöðu að götumynd Þórsgötu myndi breytast við þetta. Þar væri nú fínleg og heilsteypt byggð og auk þess væri byggðamynstur innan reitsins verndað. Féllu bílastæði á lóðum ekki vel að götumyndinni og settu hana í uppnám.

                    ——————

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. júní 2014, sem staðfest var af borgarráði hinn 3. júlí s.á., um að synja umsókn kærenda um að breytt yrði deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðarinnar nr. 13 við Þórsgötu, sbr. uppdrætti frá 8. desember 2011.

Fram kemur í greinargerð borgarinnar til úrskurðarnefndarinnar að til grundvallar hinni kærðu afgreiðslu hafi legið umsögn skipulagsstjóra, dags. 30. september 2011, en hún var gerð í tilefni af fyrirspurn kærenda um breytt deiliskipulag lóðar þeirra. Var það erindi tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 30. september 2011 og af því tilefni lagður fram uppdráttur, dags. 18. ágúst s.á. Með umsókn kærenda, er hin kærða ákvörðun tekur til fylgdu tvær nýjar tillögur að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar, sbr. uppdrætti frá 8. desember 2011, þar sem önnur tillagan er merkt aðaltillaga en hin til vara.

Í fyrrgreindri umsögn skipulagsstjóra er á því byggt að ekki sé unnt að fallast á tillögu kærenda, sbr. uppdrætti dags. 18. ágúst 2011. Var vísað til þess að bílastæði á jarðhæð byggingar féllu ekki vel að götumynd Þórsgötu, sem væri heilsteypt og fín. Einnig var vísað til slysahættu vegna fyrirhugaðs fyrirkomulags bílastæða. Ekki væri mælt með að fjölga slíkum stæðum í hverfinu, enda væri það ekki gott fordæmi. Loks var vísað til þess að eitt stæði myndi breytast úr almenningsstæði í einkastæði, sem og að tillagan leiddi til aukins skuggavarps á leiksvæði á næstu lóð. Tillögur kærenda samkvæmt uppdráttum frá 8. desember 2011, rétt eins og fyrri tillaga þeirra frá 18. ágúst s.á., gera ráð fyrir bílageymslu eða bílastæði á lóð þeirra og að almenningsstæði framan við hús kærenda víki. Að öðru leyti eru þær ekki sambærilegar, t.a.m. er byggingarreitur minnkaður, að ætla má til að draga úr skuggavarpi. Er ekki að sjá að við meðferð málsins hafi verið tekin afstaða til þess hvort skipulagsleg markmið eða önnur málefnaleg rök stæðu í vegi fyrir samþykkt hinna nýju tillagna og verður að telja að nefndar breytingar hafi gefið skipulagsyfirvöldum tilefni til að rannsaka málið frekar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er þá sérstaklega litið til þess að umsögn skipulagsstjóra var veitt vegna fyrri tillögu, sem og þess að ekki verður séð að skipulagsyfirvöld hafi beitt skipulagsvaldi sínu til að koma í veg fyrir það fyrirkomulag að bílum sé bakkað út yfir gangstétt. Dæmi eru um slíkt fyrirkomulag í götunni og ekkert liggur fyrir um  að gerð hafi verið könnun á áhrifum tillagna kærenda á umferðaröryggi þar. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið svo áfátt að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Vegna þeirrar kröfu kærenda að skipulagsráði verði gert að taka málið til umfjöllunar að nýju á ákveðnum grundvelli skal tekið fram að valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en fjallar ekki um kröfu þeirra að öðru leyti. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. júní 2014, sem staðfest var af borgarráði 3. júlí s.á., um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðarinnar nr. 13 við Þórsgötu í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

65/2014 Grófin og Bergið

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grófina og Bergið í Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2014, er barst nefndinni 8. júlí s.á., kæra lóðarhafar Bakkavegar 18, 20, og 21 í Reykjanesbæ, ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grófina og Bergið í Reykjanesbæ. Er þess krafist að samþykkt bæjarstjórnar verði hnekkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu 24. júlí 2014 sem og 2. og 16. febrúar 2015.

Málavextir: Hinn 15. janúar 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar kynnt tillaga að deiliskipulagi fyrir Grófina og Bergið. Afmarkast skipulagssvæðið frá Grófinni í suðri, Bergvegi í vestri og endamörkum íbúðalands Bergsins í norðri og austri. Var samþykkt að áfram yrði unnið að tillögunni og að aðalskipulagi yrði breytt til samræmis við hana. 

Í kjölfar þessa var auglýstur kynningarfundur um deiliskipulagstillöguna. Var tekið fram í auglýsingu að tillagan fæli m.a. í sér stækkun smábátahafnar, byggingu hótels, verslunar og annarrar þjónustu á miðsvæði. Einnig væri gert ráð fyrir styrkingu byggðar á Berginu. Í kynningargögnum var sýnd tillaga er gerði m.a. ráð fyrir nýjum vegkafla við enda Bakkavegar upp á Bergið þar sem yrði útsýnishæð. Þá var sýnd viðbygging við norðurgafl hússins að Bakkavegi 17, ein hæð og ris. Hinn 12. mars s.á. var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Jafnframt var samþykkt að auglýsa breytingu á aðalskipulagi er fælist í breytingu á afmörkun sjávar við hafnarsvæði, stækkun á hafnar- og miðsvæði og minnkun á íbúðarsvæði á Bergi. Þá kom fram í bókun að athugasemdir hefðu borist frá nokkrum aðilum eftir kynningu á vinnutillögum á íbúafundi og að þær yrðu teknar fyrir að loknum auglýsingatíma. Komu kærendur t.a.m. að athugasemdum.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir Grófina og Bergið var auglýst til kynningar í Víkurfréttum og Lögbirtingablaði. Hafði hún sætt breytingum frá kynntri tillögu að því er varðar svæði við Bakkaveg. Þannig náði nú heimiluð stækkun hússins að Bakkavegi 17 yfir alla norðurhlið þess og gert var ráð fyrir aðkomu að umræddri lóð frá norðri en ekki frá Bakkavegi eins og áður.

Greind deiliskipulagstillaga var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 28. maí 2014. Svör við fram komnum athugasemdum voru færð til bókar og tekið fram að athugasemdir lóðarhafa að Bakkavegi 18, 20 og 21 hefðu ekki áhrif á afgreiðslu málsins. Var samþykkt að senda deiliskipulagið til lögboðinnar afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi 3. júní 2014 með svofelldri bókun: „… deiliskipulag Grófin-Berg, athugasemdir. Samþykkt 10-0 í samræmi við tillögu Umhverfis- og skipulagsráðs að senda breytinguna til Skipulagsstofnunar til afgreiðslu“. Jafnframt var breyting á aðalskipulagi samþykkt. Með bréfi Skipulagsstofnunar til Reykjanesbæjar, dags. 20. júní s.á., kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þegar staðfest hefði verið breyting á gildandi aðalskipulagi. Birtist auglýsing um gildistöku breytingar á aðalskipulagi 26. júní 2014 og öðlaðist hið kærða deiliskipulag gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí s.á.

Kærendur eru búsettir innan umrædds svæðis, nánar tiltekið við austurenda Bakkavegar sem er botngata. Á lóð nr. 17 við Bakkaveg er starfrækt hótel en fjögur hús, þ.á m. kærenda, eru austan við lóðina. Smábátahöfn í Grófinni liggur sunnan byggðarinnar við Bakkaveg.

Hafa kærendur skotið afgreiðslu bæjarstjórnar um deiliskipulag fyrir Grófina og Bergið til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að sveitarstjórn hafi hvorki tekið athugasemdir þeirra fyllilega til greina né svarað þeim með fullnægjandi hætti. Gerðar hafi verið athugasemdir við fyrirhugaðan veg upp á Bergið þar sem komið yrði fyrir bílastæðum/viðsnúningi. Muni umferð í götunni aukast til muna við breytinguna og valda ónæði og skerða lífsgæði íbúa við götuna. Jafnframt geti staðsetning bílastæða á Berginu verið hættuleg sökum staðhátta. Hafi í svari sveitarstjórnar ekkert verið fjallað um ábendingar kærenda um aukið ónæði. Þá hafi þar komið fram að efri hluti Bakkavegar yrði vistgata, en kærendum hafi fyrst verið gerð þau áform ljós með svari sveitarfélagsins. Þar hafi verið upplýst um atriði sem ekki hafi komið fram áður við meðferð málsins, hvorki á fundi með umhverfis- og skipulagsráði né í afhentum gögnum. Kærendur hafi því ekki haft færi á að tjá sig um þau atriði.

Gert hafi verið samkomulag sem hafi falið í sér að viðsnúningur bíla yrði framan við hótelið, en að öðru leyti yrðu þar ekki bílastæði. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir kærenda hafi eigendur hótelsins komist upp með að þverbrjóta það samkomulag. Viðsnúningurinn sé notaður sem bílastæði og sé auk þess of lítill. Jafnframt hafi bílastæðum verið bætt við framan við hótelið og bílum gesta og starfsmanna sé gjarnan lagt á gangstétt framan við það. Tekið hafi verið fram í svari sveitarfélagsins til kærenda að til stæði að breyta aðkomu að hótelinu. Sé það raunin verði ekki lengur á því byggt að nauðsynlegt sé að koma fyrir viðsnúningi við enda götu. Með því að setja þar bílastæði og útsýnisstað sé markvisst verið að beina umferð bíla um götuna og upp á Bergið og færa vandann hinum megin við hús kærenda.

Jafnframt hafi komið fram í svari til kærenda að gert væri ráð fyrir þriðjungs stækkun á hótelinu. Það sé langt umfram þá stækkun sem kynnt hafi verið í gögnum og á kynningarfundi. Á teikningu sem kynnt hafi verið kærendum hafi aðeins komið fram stækkun á einum hluta hússins en eftir samþykkt deiliskipulagsins hafi kærendur fengið gögn er sýni fram á áform um mjög mikla stækkun lóðarinnar við Bakkaveg 17. Virðist sem eigendum nefndrar lóðar hafi verið gefinn kostur á að senda inn tillögur að stækkun lóðarinnar við gerð deiliskipulagsins. Muni áform um stækkun lóðarinnar og hússins hafa í för með sér enn meira ónæði fyrir kærendur og sæti furðu að þeir hafi ekki fengið að tjá sig um stækkunina. Alvarlegast sé að eigendum Bakkavegar 17 hafi verið gefinn kostur á að koma sínum sérhagsmunum að í deiliskipulagi sem kærendur hafi ekki haft vitneskju um að væri í vinnslu. Með þessu hafi jafnræðisregla verið brotin. Rétt hefði verið að upplýsa jafnframt kærendur um fyrirhuguð áform og gefa þeim kost á að koma á framfæri óskum sínum við skipulagsgerðina.

Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 sé mörkuð stefna um þéttingu byggðar, m.a. í Grófinni og á Berginu. Til að fylgja fram þeirri stefnu hafi verið nauðsynlegt að ráðast í gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Jafnframt hafi verið áformað að ráðast í uppbyggingu á miðsvæði í Grófinni þar sem gert væri ráð fyrir aukinni fjölbreytni með íbúðum og þjónustu. Hið kærða deiliskipulag sé sett á grundvelli aðalskipulagsins með áorðnum breytingum og sé í samræmi við það. Séu engir þeir annmarkar á meðferð málsins að varðað geti ógildingu. Skilyrði hafi verið fyrir því að falla frá lýsingu skipulagsverkefnisins þar sem allar meginforsendur hafi legið fyrir í aðalskipulagi. Brugðist hafi verið við þeim athugasemdum sem fram hafi komið á kynningartíma, m.a. með því að breyta aðkomu að atvinnuhúsnæði að Bakkavegi 17.

Áhyggjur kærenda af opnun akstursleiðar út á Bergið séu ekki á rökum reistar. Verði þess gætt að ekki skapist ónæði af umferð út á útivistarsvæðið. Ef svo færi væri unnt að takmarka umferð um akstursleiðina að fengnu leyfi lögreglustjóra með stoð í 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og þyrfti ekki skipulagsbreytingu til. Ekki komi til álita að ógilda deiliskipulagið á grundvelli sjónarmiða um umferð. Vísist einnig um þetta til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 11/2000.

Með breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar hafi lóðin að Bakkavegi 17 verði felld undir miðsvæði en hún hafi áður tilheyrt íbúðarsvæði. Leiði af þeirri breytingu að aðrar forsendur séu fyrir uppbyggingu á lóðinni en áður hafi verið og eðlilegt að gert sé ráð fyrir meira byggingarmagni. Þess sé þó gætt að auka ekki á hæð mannvirkja á lóðinni og fullt tillit sé tekið til hagsmuna íbúa á íbúðarsvæðinu við uppbyggingu atvinnustarfsemi að Bakkavegi 17. Ekkert sé við það að athuga þótt lóðarhafi hafi vegna nefndra breytinga fengið sérstaklega að koma að sjónarmiðum sínum um uppbyggingu á lóðinni og hafi jafnræðisregla ekki verið brotin, enda staða aðila ekki sambærileg.

Engin mótsögn sé í því fólgin að Bakkavegur sé gerður að vistgötu þótt ekið verði um hann að útsýnissvæði. Verði að skilja 1. mgr. 7. gr. umferðarlaga á þann veg að hluti götu geti verið skilgreindur sem vistgata og fái sá skilningur stoð í umferðarmerki D14.21, en það merki sé notað til að gefa til kynna að reglur um vistgötu gildi ekki lengur.

Samkvæmt skipulagslögum geti sveitarstjórn gert breytingar á auglýstri tillögu að deiliskipulagi og þurfi ekki að auglýsa hana að nýju nema henni sé breytt í grundvallaratriðum, en svo sé ekki í hinu kærða tilviki. Eins og þessum reglum sé háttað sé ekki gert ráð fyrir því að þeim íbúum sem gert hafi athugasemdir við skipulagstillögu sé gefinn kostur á að gera athugasemdir við slíkar breytingar heldur beri einungis að svara athugasemdum þeirra svo sem gert hafi verið. Málsástæða kærenda um að þeir hafi ekki fengið gögn um þær breytingar sem gerðar hafi verið á skipulagstillögunni við meðferð hennar sé því ekki á rökum reist. Aðrar athugasemdir séu léttvægar og ekki til þess fallnar að valda ógildingu.

——

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags fyrir Grófina og Bergið. Tillaga að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði var kynnt á almennum fundi og almenningi veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Í kjölfar þess voru gerðar breytingar á tillögunni og hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda. Færð voru til bókar svör við fram komnum athugasemdum á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og staðfesti bæjarstjórn þá bókun. Tillagan var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda, en áður hafði breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar tekið gildi. Þeim er gert höfðu athugasemdir var tilkynnt um afgreiðslu málsins og send svör við athugasemdum. Var skipulagsyfirvöldum heimilt að víkja frá gerð lýsingar skipulagsverkefnisins þar sem meginforsendur deiliskipulagsins lágu fyrir í aðalskipulagi. Þá verður af gögnum ekki annað ráðið en að kærendur hafi bæði gert athugasemdir við kynnta sem og auglýsta tillögu en á auglýstri tillögu var m.a. sýnd breytt aðkoma að lóðinni að Bakkavegi 17. Telja verður að með bókun bæjarstjórnar hinn 3. júní 2014 hafi falist afstaða hennar til athugasemda kærenda, svo sem áskilið er lögum samkvæmt. Með vísan til framangreinds verður ekki séð að formlegri meðferð skipulagstillögunnar hafi verið ábótavant.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags. Við beitingu þess ber að fylgja markmiðsetningu laganna sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Athugasemdir kærenda lúta einkum að þeim heimildum sem deiliskipulagið veitir við Bakkaveg. Annars vegar að nýr vegkafli verði lagður við Bakkaveg er liggi að útsýnishæð austan við hús kærenda og hins vegar stækkun lóðarinnar að Bakkavegi 17 og aukið byggingarmagn á henni. Benda kærendur á að þeir hafi um langt skeið komið á framfæri athugasemdum sínum vegna ónæðis er fylgi hótelrekstri að Bakkavegi 17, sér í lagi vegna aukinnar umferðar í götunni, en á árinu 2013 skutu kærendur máli til úrskurðarnefndarinnar m.a. vegna samþykktra breytinga á þeirri lóð.

Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 var samþykkt stækkun á miðsvæði til norðausturs. Við þá breytingu varð lóðin að Bakkavegi 17 innan miðsvæðis en á slíkum svæðum er heimilt að starfrækja hótel, sbr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Er nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,33 sem telja verður hóflegt á miðsvæði og eins og atvikum er hér háttað. Telja verður að sú breyting sem gerð var á aðkomu að lóðinni, sem og breyting hluta Bakkavegar í vistgötu, sé til þess fallin að draga úr neikvæðum áhrifum umferðarinnar. Var með því að nokkru komið til móts við athugasemdir kærenda. 

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um deiliskipulag fyrir Grófina og Bergið sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí s.á.

____________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ómar Stefánsson                                               Þorsteinn Þorsteinsson

57/2011 Þinghúshöfði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða í Stykkishólmi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júlí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Bókhlöðustíg 9, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Þinghúshöfða. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi, en til vara að skipulagið verði ógilt að hluta að því er varði staðsetningu bílgeymslu á lóðinni að Bókhlöðustíg 10. Þá er gerð krafa um stöðvun framkvæmda. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2010 auglýsti skipulags- og byggingarfulltrúi Stykkishólmsbæjar tillögu að deiliskipulagi fyrir íbúðarbyggð á Þinghúshöfða í Stykkishólmi sem tekur til 2,4 ha byggðar eldri húsa sem standa við Bókhlöðustíg, nyrðri hluta Skólastígs og Höfðagötu. Var íbúum svæðisins jafnframt sent bréf, dags. 19. s.m., þar sem athygli þeirra var vakin á auglýstri tillögu. Þá var haldinn opinn kynningarfundur um tillöguna 3. maí s.á. Leitað var umsagnar Húsafriðunarnefndar ríkisins og gerð fornleifaskráning af svæðinu. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. maí 2011 var tillagan lögð fram ásamt umsögn nefndarinnar, dags. 16. ágúst 2010. Var lagt til að tillagan yrði samþykkt með nokkrum breytingum. Athugasemdum kæranda var lýst í fimm liðum í umsögn nefndarinnar. Nefndin varð við beiðni kæranda um að fella út gangstétt að Silfurgötu 13 og 15 en hafnaði athugasemdum hans að öðru leyti. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar og samþykkti deiliskipulagið hinn 19. s.m., með frekari breytingum á skilmálatexta þess. Var afgreiðsla bæjarstjórnar tilkynnt eigendum fasteigna á skipulagssvæðinu með bréfi, dags. 24. maí 2011, og deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar meðferðar. Gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt skipulagsins. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2011.

Málsrök kæranda: Kærandi telur undirbúningi deiliskipulagsins hafa verið ábótavant og að ekki hafi verið fylgt eftir mikilvægum ófrávíkjanlegum málsmeðferðarreglum skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi verið gerð húsakönnun eins og áskilið sé samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laganna. Slík húsakönnun sé afar mikilvæg þegar unnið sé að deiliskipulagsgerð vegna eldri hverfa og verði ekki tryggt að svipmót byggðar verði varðveitt með forsvaranlegum hætti nema slíkt mat fari fram. Öll hús á umræddum skipulagsreit séu gömul, sum reist fyrir 1874, og um sjötíu af hundraði húsanna séu reist fyrir 1930. Sé full ástæða til að gæta ýtrustu varfærni við gerð deiliskipulags fyrir slík svæði, einkum þegar svo virðist sem tilgangur skipulags sé að innleiða breytingar á svipmóti byggðar með því að heimila byggingar sem ekki hafi verið almennar við heimili fólks á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, svo sem bílgeymslur. Enga þýðingu hafi þótt til sé eldri húsakönnun, enda sé engan veginn tryggt að hún uppfylli þau skilyrði sem lög nr. 123/2010 eða lög nr. 73/1997 geri til slíkra kannana.

Málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttar. Við meðferð málsins hafi verið tekið tillit til athugasemda allra annarra hagsmunaaðila en kæranda. Sambærilegar athugasemdir hafi t.d. komið fram vegna mögulegrar stækkunar Bókhlöðustígs 19 og hafi verið tekið tillit til þeirra. Sé þessi óútskýrði munur á afgreiðslu athugasemda í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og fáist ekki staðist.

Kærandi telur og að bygging bílgeymslu að Bókhlöðustíg 10 muni skerða útsýni frá húsi hans verulega og rýra verðgildi eignar hans til muna. Ekki hafi verið staðið málefnalega að ákvarðanatöku og verði það enn ljósara þegar litið sé til markmiða deiliskipulagsins, einkum í ljósi þeirrar skyldu sem þar sé sett fram um að staðsetja skuli bílgeymslur eins lágt í landi og mögulegt sé. Sú staðsetning sé skyldubundin en ekki valkvæð. Feli hin kærða ákvörðun því í sér brot gegn 10. gr. stjórnsýslulaga en afgreiðsla á deiliskipulaginu bendi til þess að sveitarfélagið hafi ekki kynnt sér aðstæður og afleiðingar þess að velja bílgeymslunni þann byggingarreit sem gert sé ráð fyrir. Vel hafi mátt velja annan byggingarreit á lóðinni fyrir umrædda bílgeymslu og sé eðlilegra að eigandi Bókhlöðustígs 10 verði fyrir útsýnisskerðingu vegna mögulegrar framkvæmdar sinnar fremur en kærandi. Jafnframt segi í deiliskipulaginu að „Geymsluskúrar [megi] ekki taka útsýni frá nágrönnum […]“. Ekki sé hægt að sjá að eðlismunur sé á útsýnisskerðingu er verði vegna geymsluskúrs og vegna bílskúrs þó að gert sé að skilyrði að geymsluskúrar séu nokkuð lægri en bílgeymslur. Skipulagið sé að þessu leyti í innbyrðis mótsögn við sjálft sig þar sem húseigendum sé ómálefnalega mismunað eftir því hvort nágrannar hyggist reisa geymslu eða bílgeymslu og séu meiri kröfur gerðar til þeirra sem ætli að reisa geymslu.

Loks vísi kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 71/2005, þar sem kært hafi verið byggingarleyfi vegna bílgeymslu við Bókhlöðustíg 10, en byggingarreitur sé hinn sami þar og hið kærða deiliskipulag geri nú ráð fyrir.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Sveitarfélagið lét málið ekki til sín taka en úrskurðarnefndin hefur undir höndum gögn er varða afgreiðslu hins kærða deiliskipulags.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða og þá fyrst og fremst að því er varðar staðsetningu bílskúrs á lóðinni Bókhlöðustíg 10.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarstjórnir með skipulagsvald og annast gerð deiliskipulags. Með því getur sveitarstjórn haft áhrif á þróun byggðar og umhverfi með bindandi hætti. Markmið deiliskipulags er m.a. að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags, taka ákvarðanir um notkun lóða og stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands. Þegar unnið er að deiliskipulagi í þegar byggðu hverfi skal með gerð húsakönnunar leggja mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru, sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum nr. 123/2010 segir að tilgangur húsakönnunar sé að tekið sé tillit til menningararfsins við gerð deiliskipulags, hvort heldur um sé að ræða einstök hús eða yfirbragð hlutaðeigandi byggðar, og að slík húsakönnun sé lögð til grundvallar deiliskipulagsskilmálum um þau hús sem fyrir séu. Þannig sé lagður betri grundvöllur til að taka ákvarðanir um hvaða hús skuli varðveita, í hverju varðveisluhlutverkið felist og þar með taka afstöðu til þess hvaða framkvæmdir eru heimilar með hliðsjón af slíku mati. Vegna vinnu við gerð umþrætts deiliskipulags var gerð svonefnd „Deiliskráning á Þinghúshöfða í Stykkishólmi“ og þar gerð ítarleg greining á fornminjum á svæðinu og vísað til ítarlegri heimilda hvað varðaði úttekt og byggingarsögu húsa á svæðinu. Þá fylgdi greining á aldri húsa og byggingarlistagreining í greinargerð með deiliskipulaginu. Verður með hliðsjón af þessu ekki annað séð en að skilyrðum 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga hafi verið fylgt við málsmeðferð hins kærða deiliskipulags.

Í almennum skilmálum umdeilds skipulags kemur fram að þar sem aðstæður leyfi hafi verið skilgreindur byggingarreitur fyrir bílgeymslur innan lóða og sé stærð þeirra og hæð takmörkuð með skilmálunum. Jafnframt er tekið fram að leitast skuli við að staðsetja þær eins lágt í landi og mögulegt sé. Er um eðlilega kröfu að ræða í ljósi staðhátta á svæðinu, en um er að ræða gróið og þegar byggt íbúðarhverfi sem staðsett er á klettahöfða. Veitir orðalag skilmálanna að þessu leyti skipulagsyfirvöldum visst svigrúm um staðsetningu byggingarreita bílskúra. Þá samrýmist umrædd ákvörðun um byggingarreit fyrir bílgeymslu að Bókhlöðustíg 10 því markmiði deiliskipulagsins að leyfa íbúum að laga svæðið að þörfum nútímans og heimila breytingar sem miði að því að uppfylla nútímaþarfir fjölskyldna, eins og nánar segir í greinargerð með skipulaginu. Byggðist ákvörðun sveitarfélagsins því á málefnalegum sjónarmiðum.

Einnig kemur fram í almennum skilmálum skipulagsins að heimilt sé að byggja geymsluskúr eða garðhýsi á lóð utan byggingarreits og sé staðsetning háð samþykki byggingarnefndar. Er sérstaklega tekið fram að með því megi ekki taka útsýni frá nágrönnum og telur kærandi eðlilegt að svo sé einnig um bílgeymslur. Er hér um sérstaka skilmála að ræða sem gilda einungis þegar byggt er utan byggingarreits. Verður þeim eðli máls samkvæmt ekki beitt þegar byggt er innan byggingarreits, enda ólíku saman að jafna. Loks verður ekki annað séð en að nægilega hafi legið fyrir hver áhrif yrðu af staðsetningu fyrirhugaðrar bílgeymslu enda afstaða byggingarreits hennar gagnvart eign kæranda ljós af deiliskipulagsuppdrætti. Var þannig gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði hins vegar í ljós leitt að umdeild skipulagsákvörðun hafi valdið kæranda fjártjóni kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga. Úrlausn um það álitaefni er hins vegar ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Af gögnum málsins verður ráðið að tekið var jákvætt tillit til athugasemda kæranda að hluta en öðrum var hafnað. Hvað varðar Bókhlöðustíg 19 verður að líta til þess að sú fasteign er safnhús. Þar fer fram sérhæfð starfsemi og er nýting þess því ólík öðru húsnæði innan deiliskipulagssvæðisins. Er stærð, staðsetning og áhrif stækkunar þeirrar eignar, með hliðsjón af þeirri starfsemi sem þar fer fram, ekki sambærileg við það tilvik sem hér er til meðferðar. Var því ekki brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar þrátt fyrir ólíka afgreiðslu athugasemdanna.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfum kæranda í máli þessu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða í Stykkishólmi.  

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

 

56/2011 Fákaborg

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 15. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hesthúsasvæðið Fákaborg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júlí 2011, er barst nefndinni 20. s.m., kæra E, Hjallatanga 6, G, Hjallatanga 11 og G, Nestúni 2, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir hesthúsasvæðið Fáka¬borg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, en til vara að skipulagið verði ógilt að því er varði staðsetningu reiðskemmu á skipulagssvæðinu.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til endanlegs úrskurðar á grund-velli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 12. ágúst 2011.

Málavextir: Fyrirspurn um byggingu reiðskemmu í landi Hesteigendafélags Stykkishólms var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 8. desember 2009. Tók nefndin jákvætt í erindið og var kynningarbréf sent tilgreindum eigendum í nágrenni svæðisins 17. febrúar 2010. Jafnframt var stofnaður vinnuhópur um deiliskipulag á svæði hesteigendafélagsins sem í áttu sæti fulltrúi félagsins, byggingarfulltrúi og fulltrúi skipulags- og byggingarnefndar. Fóru þrír formlegir vinnufundir fram á tímabilinu 28. september 2010 til 14. desember s.á. Tillaga að deiliskipulagi á hesthúsasvæðinu Fákaborg var auglýst hinn 27. janúar 2011 í Lögbirtingarblaði, í Fréttablaðinu og í Stykkishólms-Póstinum og frestur til athugasemda gefinn til og með 11. mars s.á. Bárust athugasemdir frá níu aðilum á kynningartíma þ. á m. frá kærendum.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. maí 2011 var deiliskipulags¬tillagan lögð fram ásamt samantekt á fram komnum athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa, dagsett sama dag. Samþykkti meirihluti nefndarinnar tillöguna. Á fundi bæjarráðs 12. s.m. var fundargerð nefndarinnar lögð fram en bæjarráð samþykkti að fresta ákvörðun um staðfestingu deiliskipulagsins og fór fram á að gerður yrði samanburður á staðsetningu fyrirhugaðrar reiðskemmu samkvæmt deiliskipulagstillögunni annars vegar og tillögu eins bæjarráðsfulltrúa hins vegar. Á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. var afgreiðsla bæjarráðs felld og deiliskipulagstillagan samþykkt með meirihluta atkvæða bæjarstjórnar. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. maí 2011.

Deiliskipulagið tekur til svæðis sem er um 5 ha að stærð og afmarkast af Hjallatanga, Móholti, Búðanesvegi, Stykkishólmsvegi og Fúlutjörn. Fyrir eru á svæðinu átta hesthús auk skeið¬vallar. Hið umþrætta deiliskipulag gerir ráð fyrir fimm nýjum lóðum, einni fyrir reiðskemmu en hinum fyrir ný hesthús.

Málsrök kæranda: Kærendur vísa til þess að með tilkomu reiðskemmunnar, sem hin kærða ákvörðun heimili, verði hagsmunum þeirra raskað. Reiðskemman muni hafa sjónræn áhrif og skerða útsýni til suð-austurs verði bygging hennar heimiluð, líkt og ráðgert sé í deiliskipulaginu. Megi gera ráð fyrir talsverðri skerðingu á útsýni frá Hjallatanga 11 og óbyggðum lóðum nr. 9, 13, 15, 17 og 19 í sömu götu, sem og frá húsum við Móholt 6, 10, 12 og óbyggðri lóð nr. 14 í sömu götu.

Hið deiliskipulagða svæði sé aukinheldur innan við 20 m frá lóðum við Hjallatanga. Vegna þeirrar nálægðar sé augljóst að hesthúsasvæðið muni að lokum víkja fyrir íbúðarbyggð í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá skírskota kærendur einnig til 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Í 4. mgr. þess ákvæðis, sem fjalli um íbúðarhúsnæði, sé m.a. tekið fram að óheimilt sé að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum, matvæla-fyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins en sem nemi 500 m. Á sama hátt skuli vera hæfileg fjarlægð milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og hins vegar þeirrar starfsemi sem valdið geti samsvarandi óþægindum eins og sú sem talin sé upp í 1. ml., s.s. annað búfjárhald og mengandi atvinnustarfsemi. Þá starfsemi sem fari fram innan hesthúsa megi fella undir „annað búfjárhald“. Innan 500 m frá svæðinu sé m.a. að finna íbúðarhúsnæði, matvælavinnsluhúsnæði og leikskóla. Þá sé ráðgert að við sum hesthúsanna verði taðgeymslur. Slíkar geymslur yrðu staðsettar mjög nálægt mörkum íbúðarhúsalóða og í næsta nágrenni við byggt íbúðarhverfi og fylgi óþefur slíku fyrirkomulagi.

Af hálfu sveitarfélagsins hafi ekki verið haft samband við kærendur vegna meðferðar málsins fyrr en með bréfi, dags. 24. maí 2011, þar sem tilkynnt hafi verið um samþykkt deiliskipulagsins. Jafnframt hafi enginn svarað innsendum athugasemdum kærenda með efnislegum hætti eða rökstuðningi. Einungis samantekt skipulags- og byggingarfulltrúa hafi borist frá sveitar¬félaginu, en í þá samantekt hafi athugasemdir íbúa vantað. Þær athugasemdir hafi skipulags- og byggingar¬fulltrúi jafnframt borið undir formann hesteigendafélags Stykkishólms til umsagnar. Megi því vera ljóst að kynningu og samráði við hagsmunaaðila hafi verið ábótavant, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þá hafi þáverandi forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs, sem einnig hafi verið í forsvari fyrir hesteigendafélag Stykkishólms, verið einn þeirra sem skrifaði undir bréf félagsins um beiðni um leyfi fyrir reiðskemmunni. Hann hafi stjórnað meirihlutanum í bæjarstjórn og ekki vikið frá sem skyldi vegna vanhæfis.

Þrátt fyrir að umrætt svæðið sé skilgreint í Aðalskipulagi Stykkishólmsbæjar 2002-2022 sem hesthúsasvæði sé ekki þar með sagt að sú skilgreining sé ófrávíkjanleg. Viðbárur sveitarfélagsins varðandi þann kostnað að kaupa hesthúsin og flytja hesthúsasvæðið annað þurfi að skoða í ljósi þess að ástand núverandi hesthúsa á svæðinu teljist tæplega viðunandi eða jafnvel algjörlega óviðunandi. Einungis tvö hesthús séu í góðu ástandi. Ástand húsanna sé slíkt að af þeim stafi brunahætta.

Að öllu virtu hafi ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 ekki verið fullnægt. Umþrætt deiliskipulag fari m.a. gegn markmiðum sem lýst sé í 1. og 12. gr. laganna.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Sveitarfélagið sendi úrskurðarnefndinni gögn málsins en lét málið að öðru leyti ekki til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hesthúsasvæðið Fákaborg.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fer sveitarfélagið með skipulagsvald og ber því ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til þess að hafa bein áhrif á þróun byggðar og umhverfis með bindandi hætti. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar tók hina kærðu ákvörðun á fundi sínum 19. maí 2011 og samkvæmt fundargerð þess fundar skar bæjarstjórn úr um hæfi tiltekinna nefndar- og ráðsmanna skipulags- og byggingarnefndar og bæjarráðs við fyrri afgreiðslu málsins auk hæfis tiltekins bæjarstjórnarmanns er sat fundinn. Var sá talinn hæfur en vék engu að síður af fundi og tók varamaður hans sæti við umfjöllun og afgreiðslu hins umdeilda deiliskipulags. Þá verður af fyrirliggjandi gögnum ráðið að bæjarráðsmaður sá er kom að undirbúningi málsins fyrir hönd hesteigendafélagsins vék iðulega af fundum við meðferð þess á fyrri stigum. Verður því ekki séð að um hafi verið að ræða vanhæfi við töku ákvörðunar samkvæmt vanhæfisreglum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 hafi verið að ræða.

Samkvæmt 40. gr. skipulagslaga, sbr. einnig d-lið 1. gr. laganna, skal sveitarstjórn við gerð deiliskipulags kynna tillögur þar um og leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra hagsmunaaðila. Skal sveitarstjórn þannig tryggja eftir föngum að samráð sé haft við almenning við skipulagsgerðina. Hin umþrætta deiliskipulagstillaga var auglýst til kynningar og gafst almenningi kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Athugasemdum kærenda og annarra voru gerð skil í samantekt skipulags- og byggingarfulltrúa og lá sú samantekt fyrir við málsmeðferð sveitarfélagsins. Í framangreindri samantekt var afstaða tekin til athugasemda með almennri umsögn auk þess sem lagðar voru fram breytingar á tillögunni. Þá má sjá af gögnum málsins að þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við tillöguna var sérstaklega tilkynnt um niðurstöðu sveitarfélagsins og þeim jafnhliða send nefnd samantekt. Tillagan var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda. Með vísan til alls framangreinds var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við lög.

Samkvæmt Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 er umrætt landssvæði skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota, en afmarkaður hluti þess, sem merktur er með bókstafnum H, er skilgreindur nánar sem hesthúsabyggð. Í greinagerð með aðalskipulaginu kemur m.a. fram að stefnt sé að því að skapa sem hagstæðust skilyrði fyrir hestamenn og að hesthúsin verði áfram upp af Fúluvík. Nær hið deiliskipulagða svæði aðeins út fyrir hið merkta hesthúsasvæði og inn á það svæði sem skilgreint er sem opið svæði til sérstakra nota. Í gr. 4.12.1 þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 voru opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði með útivistargildi þar sem gert væri ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar væri stunduð, s.s. hesthúsum og reiðvöllum. Eðlislíkt ákvæði er nú að finna í g-lið gr. 4.3.1. í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem gert er ráð fyrir að þar sem aðalskipulag ákveði landnotkun sem opin svæði, útivist og íþróttir sé stefna mörkuð um útivistarsvæði og aðstöðu til íþróttaiðkana og að gerð sé grein fyrir helstu atriðum sem varði aðstöðu og mannvirkjagerð í tengslum við notkun svæðanna og öðrum skipulagsforsendum sem þörf sé á fyrir gerð deiliskipulags. Er hið deiliskipulagða svæði því í samræmi við landnotkun gildandi aðalskipulags, svo sem kveðið er á um í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Þá mátti kærendum vera ljóst með hliðsjón af gildandi aðalskipulagi hvernig afstöðu hesthúsabyggðarinnar og íbúðarbyggðar væri háttað.

Kærendur telja fyrirhugaða hesthúsabyggð fara í bága við ákvæði 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002. Í 1. ml. nefnds ákvæðis segir að óheimilt sé að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum en sem nemi 500 m. Þá er í 2. ml. kveðið á um að hæfileg fjarlægð skuli vera milli mannabústaða og starfsemi sem valdið geti samsvarandi óþægindum eins og sú sem talin er upp í 1. ml. greinarinnar, s.s. annað búfjárhald og mengandi atvinnustarfsemi. Tilvitnuð reglugerð á hún sér stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Markmið þeirra laga er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Taka þau til hvers konar starfsemi og framkvæmda sem hafa áhrif á áðurnefnt, sbr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er markmið hennar að stuðla að framkvæmd hollustuverndar og eru þar settar fram lágmarkskröfur til nánar tilgreindra þátta. Eins og áður er rakið eru öll tvímæli tekin af um að ákveðin starfsemi skuli ekki heimil í tiltekinni fjarlægð frá íbúðarbyggð, sbr. 1. ml. 4. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar. Verður að skýra 2. ml. sömu greinar með hliðsjón af markmiðum reglugerðarinnar og þeirra laga sem veita henni lagastoð. Verður ekki séð að umdeild stækkun þeirrar hesthúsabyggðar sem fyrir er á svæðinu sé þess eðlis að brotið sé gegn markmiðum laganna enda verður hestahald til útivistar ekki lagt að jöfnu við eldi loðdýra, alifugla og svína með tilliti til hollustuhátta og hættu á mengun.

Að öllu framangreindu virtu er hið kærða deiliskipulag ekki haldið neinum þeim annmörkum að ógildingu varði, hvorki í heild né að hluta, og er því ekki fallist á ógildingarkröfur kærenda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hesthúsasvæðið Fákaborg.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson