Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2013 Aflífun hunds

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 um að aflífa hundinn X.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir M, þá ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 að aflífa þegar í stað hund hennar X. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt krefst kærandi þess að fá afhent hræið af hundinum sem og að honum verði úrskurðaðar bætur.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 24. september 2013.

Málavextir: Hinn 13. mars 2013 barst lögreglunni á Suðurnesjum tilkynning frá leikskóla í Reykjanesbæ þess efnis að þar væri þýskur fjárhundur laus. Hundurinn hefði verið ógnandi og því hefði leikskólabörnum verið haldið innandyra. Lögreglan á Suðurnesjum tilkynnti málið til heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Við árangurslausa tilraun til þess að koma ól á hundinn var eftirlitsmaðurinn bitinn í hendi og hlaut vegna þess aðhlynningu á heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann sama dag.

Frekari tilraunir fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins til að fanga hundinn mistókust og mun í framhaldi hafa verið ákveðið að stugga við hundinum í þeim tilgangi að koma honum heim til sín. Þar náði kærandi síðan að koma hálsól og múl á hundinn og var hann í kjölfarið tekinn í vörslu heilbrigðiseftirlitsins.

Ekið var með hundinn á hundahótel en þegar þangað var komið ákvað framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins að ekki væri rétt að setja hundinn í geymslu heldur bæri að aflífa dýrið. Var það gert og hræið brennt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hafi hundurinn bitið fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins hafi það verið gert í varnarskyni og af hræðslu við ókunnuga eftir að þeir hefðu stuggað við dýrinu. Sömu ástæður hafi legið að baki hegðun hundarins þegar hann hafi verið færður á hundahótelið til geymslu. Hundurinn hafi almennt verið vinalegur, án skapgerðabresta, og hvorki verið árásargjarn gagnvart fjölskyldumeðlimum né gestum á heimili fjölskyldunnar. Í skapgerðamati dýrasálfræðings, dags. 16. apríl 2010, sem á sínum tíma hafi verið grundvöllur þess að innflutningsleyfi hafi fengist fyrir hundinn, komi fram að hundurinn hafi verið skapgóður. Í niðurlagi matsins komi fram að hundurinn hafi haft jafnaðargeð, verið vinalegur og ekki sýnt einkenni árásargirni.

Ekki hafi verið rétt staðið að aflífuninni. Í samþykkt um hundahald á Suðurnesjum sé ekki kveðið með skýrum hætti á um það hvernig staðið skuli að ákvörðunartöku um aflífun hunda. Slíkt verði aftur á móti ekki gert nema að undangenginni afturköllun á leyfi til hundahalds. Ákvörðun um að afturkalla slíkt leyfi sé í höndum sveitarstjórnar, sbr. 3. og 4. gr. samþykktarinnar. Þá sé á heimasíðu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að finna greinina „Fræðsla fyrir hundaeigendur“ þar sem sérstaklega sé vikið að málum varðandi hundsbit. Þar segi í undirkafla 4.6 að heimilt sé að aflífa þegar í stað hættulegan hund og hund sem bíti. Hins vegar sé hundaeiganda þó heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun sé tekin.

Hvort sem litið sé til samþykktarinnar eða upplýsinga á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins sé það mat kæranda að ekki hafi verið staðið rétt að ákvörðun um aflífun hundsins. Ákvörðunin hafi verið íþyngjandi geðþóttaákvörðun sem tekin hafi verið í skyndi. Hafi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið virt að vettugi, og þá sérstaklega rannsóknarregla 10. gr., meðalhófsregla 12. gr. og regla 13. gr. um andmælarétt.

Málsrök heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er skírskotað til þess að hundurinn hafi verið óskráður og sé það brot á samþykkt um hundahald í Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnahreppi. Heimilt sé skv. 3. gr. samþykktarinnar að aflífa óskráða hunda. Þó svo að hundurinn hefði verið skráður og um hann hefðu gilt ákvæði samþykktarinnar hefði það engu breytt um afdrif hans.

Bent sé á að hundurinn hafi áður fundist í lausagöngu án taums og verið fangaður af dýraeftirlitsmanni. Við það tækifæri hafi kærandi fengið munnlega áminningu. Hundurinn hafi verið stórhættulegur umhverfi sínu og þegar hann hafi verið færður á hundahótelið hafi hann verið hamslaus. Ekki hafi verið talið forsvaranlegt að setja hundinn í geymslu þar sem starfsfólk yrði í hættu. Þá hafi ekki heldur verið hægt að afhenda hundinn aftur til kæranda, enda hafi kærandi ekki virst geta komið veg fyrir að hundurinn gengi laus. Kæranda hafi verið ljóst hversu hættulegur hundurinn var utan heimilisins. Hundurinn hafi lengi haldið hverfi sínu í gíslingu með lausagöngu og ógnandi atferli, en kærandi hefði lítið gert til að koma í veg fyrir það. Bent sé á að eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar hafi varað við hegðun hundsins í bréfi frá 8. júlí 2010. Sé með ólíkindum að um sama hund sé að ræða og fjallað sé um í skapgerðamati frá 16. apríl 2010.

Heilbrigðiseftirlitið hafni ásökunum um brot á stjórnsýslulögum. Nægar upplýsingar hafi legið að baki stjórnvaldsákvörðuninni. Ákvörðun um aflífun hafi verið tekin með hagsmuni íbúa og þá sérstaklega barna í huga.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að aflífa hund kæranda. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í  ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður einungis krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því aðeins tekin hér til úrlausnar enda  fellur það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að að fjalla um bótakröfu hans. Ljóst er að umræddur hundur hefur nú þegar verið aflífaður og hræi hans eytt. Úrskurðarnefndin telur engu að síður, með hliðsjón af bótakröfu kærenda og eins og atvikum er hér háttað, að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar.

Í 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er mælt fyrir um heimild heilbrigðisnefndar og heilbrigðisfulltrúa til að knýja á um framkvæmdir samkvæmt lögunum, reglugerð og samþykktum sveitarfélaga með ákveðnum þvingunarúrræðum. Hins vegar geymir lagagreinin ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um aflífun dýra. Um hundahald í Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnahreppi gildir samþykkt nr. 428/1987, með síðari breytingum. Samþykktin var sett með stoð í lögum nr. 109/1984 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nú lög sama efnis nr. 7/1998, sbr. lög nr. 7/1953 um hundahald og varnir gegn sullaveiki. Er sveitarstjórnum heimilt að veita undanþágu til hundahalds með ákveðnum skilyrðum, sbr. 2. gr. Eitt þeirra skilyrða er skráning hunds hjá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og skal árlega greiða leyfisgjald. Þá skal hundur aldrei ganga laus á almannafæri heldur vera í taumi í fylgd aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samþykktarinnar má taka hund úr umferð ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum og koma honum fyrir í geymslu sé um minniháttar brot að ræða. Þá er tekið fram að sé um að ræða ítrekað og alvarlegt brot afturkallist viðkomandi undanþága til hundahalds. Í 2. mgr. sömu greinar segir að veitist hundur að fólki, glefsi eða bíti sé það alvarlegt brot og í 3. mgr. segir að heimilt sé að aflífa leyfislausa hunda. Í 4. gr. er svo tekið fram að sveitarstjórnum sé heimilt að afturkalla leyfi og þegar um það sé að ræða vegna vanrækslu eiganda skuli veittur vikufrestur til að ráðstafa hundinum annað, en að öðrum kosti sé heimilt að aflífa hundinn.

Ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja byggðist á því að hundurinn hefði verið óskráður. Af fyrirliggjandi gögnum er hins vegar ljóst að hundurinn var örmerktur. Hundaleyfisgjald hafði verið greitt vegna ársins 2012 og þegar hundurinn var aflífaður hafði reikningur fyrir leyfisgjaldi verið sendur eiginmanni kæranda en hvorki var komið að gjalddaga eða eindaga. Verður því ekki annað ráðið en að hundurinn hafi verið skráður hjá heilbrigðiseftirlitinu og hin kærða ákvörðun að því leyti byggst á röngum forsendum. Fyrir liggur að ákvörðunin var tekin með mjög stuttum aðdraganda. Hins vegar verður ekki annað séð en að starfsmanni heilbrigðiseftirlitsins hefði, þrátt fyrir aðstæður, verið í lófa lagið að kanna skráningu hundsins enda stöfuðu þau gögn sem áður er vísað til, s.s. greiðsluseðill vegna leyfisgjalds, frá stjórnvaldinu. Var því einnig brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð, með hliðsjón af því að ól og munngrímu hafði verið komið á hundinn, að svo bráð hætta hafi stafað af honum að hundinn þyrfti að aflífa fyrirvaralaust. Skorti þannig á að meðalhófs væri gætt, sbr. 12. gr. nefndra laga,  og að andmælaréttur væri veittur kæranda áður en ákvörðun var tekin um aflífun, sbr. 13. gr. laganna. 

Eins og áður er rakið nær heimild til aflífunar samkvæmt samþykkt nr. 428/1987 einungis til  hunda án leyfis. Með vísan til þess að lagastoð skorti fyrir fyrirvaralausri aflífun hundsins og að verulegir annmarkar voru á meðferð málsins verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 um að aflífa skuli hundinn X.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

________________________________           _______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

16/2013 Búðavað

Með

Árið 2014, mánudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 16/2013, kæra á afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. janúar 2013 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra E, Búðavaði 4, Reykjavík, afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. janúar 2013 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna gestabílastæða við Búðavað 4, 6 og 8 í Reykjavík.  Krefjast kærendur þess að afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs verði hnekkt.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá sveitarfélaginu 12. apríl 2013.

Málsatvik: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 26. október 2012 var tekin fyrir beiðni kærenda um að fallið yrði frá áformum í deiliskipulagi fyrir Norðlingaholt um gestabílastæði við Búðavað. Var erindið afgreitt neikvætt með vísan til svohljóðandi umsagnar skipulagsstjóra: „Fyrirspurnin hefur breyst mikið frá upphaflegri fyrirspurn íbúa dags. 8. ágúst 2011. Upphaflega var óskað eftir heildstæðri breytingu með því að fella niður öll gestabílastæði norðanmegin götu en nú er óskað eftir að fella aðeins niður þrjú gestastæði sem liggja að lóðunum nr. 4, 6 og 8 við Búðavað. Á þessum lóðum hefur ekki verið framkvæmt í samræmi við samþykkt deiliskipulag hvað varðar lóðarfrágang og fjölda bílastæða inn á lóð.“ Var niðurstaða skipulagsstjóra eftirfarandi: „Í ljósi þess að lítið er eftir að upphaflegri heildarhugmynd og að einungis náðist samstaða um að fella niður tvö samliggjandi stæði og síðan eitt er ekki fallist á að breyta deiliskipulagi í samræmi við fyrirspurnina.“

Með bréfi kærenda til skipulagsráðs, dags. 6. janúar 2013, var þess krafist að skipulagsstjóri léti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem fæli í sér að gestabílastæði við Búðavað 4, 6 og 8 yrðu felld út af deiliskipulagi. Þá var farið fram á að málið yrði lagt fyrir skipulagsráð til formlegrar afgreiðslu. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 16. janúar 2013. Var fært til bókar að lagt væri fram málskot kærenda og að fyrri afgreiðsla skipulagsstjóra frá 26. október væri staðfest. Hafa kærendur kært þá afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að við Búðavað séu 22 íbúðir og við þær séu 44 bílastæði. Sunnan við götuna, framan við Búðavað 2-6, séu jafnframt 14 gestabílastæði og einnig sé gert ráð fyrir 8 gestabílastæðum inn á lóðum við norðanverða götuna. Að hafa svo mörg bílastæði í götunni gangi gegn þeirri áherslu sem fram komi í aðalskipulagi Reykjavíkur um að borgin eigi að vera vistvæn, leggja eigi áherslu á almenningssamgöngur og greiða fyrir hjólreiðum. Þá sé heimilt samkvæmt aðalskipulagi að víkja frá kröfum um fjölda bílastæða í deiliskipulagi. Yrði fallist á umbeðna breytingu yrðu 19 gestabílastæði við götuna og hlutfall bílastæða á íbúð 2,8. Hafi allir eigendur fasteigna við Búðavað samþykkt umrædda breytingu en sveitarfélagið hafi hvorki svarað því hvers vegna vilji íbúa hafi ekki verið virtur né vísað til laga eða reglugerða máli sínu til stuðnings. Hagsmunir íbúa við Búðavað 4, 6 og 8 af því að losna við gestabílastæðin af lóðum sínum séu mikil og beri borginni að vega og meta þá hagsmuni. Geri samþykktar teikningar af húsum við norðanverða götuna ráð fyrir mjög stórum forstofuglugga rétt fyrir framan gestabílastæðin. Muni það fela í sér veruleg óþægindi fyrir íbúa þessara húsa að fá gestabílastæði þremur metrum frá slíkum gluggum.
 
Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ætíð hafi verið litið á erindi kærenda sem fyrirspurn en ekki umsókn. Afgreiðsla skipulagsfulltrúa frá 26. október 2012 hafi verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hafi Reykjavíkurborg óskað eftir frávísun málsins þar sem ekki hafi verið um kæranlega stjórnsýsluákvörðun að ræða. Í framhaldi af því hafi kærendur dregið kæru sína til baka. Hafi skipulagsyfirvöld fundað með kærendum og bent þeim á að hægt væri að skjóta málinu til umhverfis- og skipulagsráðs sem þeir hafi og gert. Enda þótt ráðið hafi staðfest fyrri afgreiðslu embættismanna liggi það eigi að síður fyrir að hér hafi einungis verið um neikvætt svar við fyrirspurn að ræða. Kærendum hafi verið bent á að þeir geti sótt formlega um umrædda breytingu en því hafi þeir hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á beiðni um að fallið yrði frá áformum í deiliskipulagi Norðlingaholts um nánar greind gestabílastæði við Búðavað. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Hins vegar var fjallað um erindi kærenda, dags. 6. janúar 2013, í umhverfis- og skipulagsráði hinn 16. janúar 2013, undir D–lið ýmis mál, sem málskot, sbr. bókun ráðsins þess efnis að um málskot væri að ræða og að fyrri afgreiðsla ráðsins frá 26. október væri staðfest. Var fundargerð ráðsins lögð fram á fundi borgarráðs 17. s.m. þar sem bókað var að B-liður væri samþykktur en hvorki var fjallað um D-lið fundargerðarinnar né afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á erindi kærenda. Bera bókanir umhverfis- og skipulagsráðs það með sér að erindi kærenda var meðhöndlað af hálfu ráðsins sem fyrirspurn en ekki sem beiðni um breytingu á deiliskipulagi.
 
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál. Erindi sem afgreitt er sem fyrirspurn getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir. Ljóst er, með hliðsjón af orðalagi erindis kærenda frá 6. janúar 2013, að gerð var krafa um að erindið hlyti formlega afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs. Erindi kærenda hefur ekki hlotið slíka afgreiðslu eins og áður er rakið. Þar sem málið hefur ekki verið til lykta leitt verður ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá með vísan til framangreinds lagaákvæðis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir

104/2014 Öldutún

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnafjarðar frá 17. mars 2003 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2014, er barst nefndinni 1. október s.á., kæra J, Öldutúni 2, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 17. mars 2003 að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði. Greind ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. apríl 2003.

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu í úrskurði 10. október 2014.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 8. október, 10. október og 17. október 2014.

Málavextir: Hinn 30. júlí 2002 var fyrirspurn um hvort rífa mætti bílskúr og byggja annan í hans stað að Öldutúni 4 tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar. Meðfylgjandi var samþykki nágranna og meðeigenda í húsinu. Áður hafði byggingarfulltrúi sent skipulagsdeild fyrirspurnina til umsagnar vegna stækkunar og hækkunar nýs skúrs. Ráðið samþykkti að óska eftir fullnaðarteikningum og að heimila grenndarkynningu erindisins í samræmi við 7. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Erindið var kynnt nágrönnum með bréfi, dags. 25. október 2002, og veittur frestur til 25. nóvember s.á. til að gera athugasemdir. Var tekið fram í kynningarbréfinu að í erindinu fælist fyrirspurn „…um að rífa núverandi bílskúr og byggja annan í hans stað. Samkv. teikningum Halldórs Hannessonar, dags. 19. 07. 2002“. Ein athugasemd barst á grenndarkynningartíma og á fundi sínum 3. desember s.á. samþykkti skipulags- og byggingarráð að fallast á erindið með þeim breytingum að byggingarreitur bílskúrs yrði færður upp að lóðarmörkum og atriði sem lytu að frágangi yrðu leyst í samráði við nágranna. Var byggingarfulltrúa heimilað að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn þar um lægi fyrir. Hinn 17. mars 2003 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin með áritun sinni á teikningar, dags. 14. s.m., sem sýna 3,9 m hæð þess veggjar er snýr að lóð kærenda. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 25. s.m. var erindið lagt fram að nýju og eftirfarandi fært til bókar: „17.03.2003 Samþykkt af byggingarfulltrúa. Umsóknin samræmist lögum nr. 73/1997 og nr. 82/1994.“ Fundargerð ráðsins var svo lögð fyrir og samþykkt af bæjarstjórn á fundi hennar 1. apríl s.á. Botnúttekt fór fram 11. júlí 2003.

Hinn 26. janúar 2005 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja bílskúr að Öldutúni 4 og var bókað að nýjar teikningar hefðu borist 20. s.m. Leyfið var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 23. febrúar s.á. Samkvæmt nýjum teikningum fól leyfið í sér að heimiluð var breyting á innra fyrirkomulagi bílskúrsins frá fyrra leyfi frá árinu 2003 og heimiluð gerð gryfju undir bíla. Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 14. mars s.á.

Deiliskipulag Öldugötu, Öldutúns 2-6, Ölduslóðar 1-10 og 12 og Hringbrautar 1-15 var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hinn 25. nóvember 2008 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2009. Hinn 21. október 2009 voru enn samþykktar af byggingarfulltrúa breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrsins. Fór úttekt á plötu yfir kjallara fram 6. júní 2011.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi brjóti í bága við gildandi deiliskipulag á svæðinu. Leyfi sé veitt fyrir mun hærra bílskýli, með töluvert hærri útvegg sem snúi að lóðarmörkum en gildandi deiliskipulag segi til um og fordæmi séu fyrir á svæðinu. Ákvörðun byggingarfulltrúa snerti hagsmuni kærenda verulega. Þannig skerði útveggur á lóðarmörkum útsýni og varpi miklum skugga á lóð kærenda og rýri þannig lífsgæði þeirra og verðmæti fasteignar þeirra. Muni bygging umrædds bílskýlis hindra að sól skíni á lóð kærenda úr helstu sólarátt. Fyrstu stoðir að útveggjum hafi risið sumarið 2014 og kærendum hafi ekki orðið ljóst hver hæð og áhrif veggjarins yrðu fyrr en steypumótum hafi verið komið fyrir hinn 13. september s.á. og í raun ekki fyrr en fyrsta sólríka dag þar á eftir, eða 16. s.m.

Útveggur bílskýlisins við lóðarmörk kærenda muni verða 3,9 m á hæð en megi ekki vera nema 2,8 m samkvæmt núgildandi deiliskipulagi. Hæðarmunur sé 1,1 m, eða um 40%. Þar sem ekki hafi verið til deiliskipulag fyrir svæðið við leyfisveitingu hafi verið rík ástæða til að fylgja gr. 113.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 hvað varði stærð og hæð bílskýlis. Leyfi fyrir hærra bílskýli á þessum stað valdi verulegri röskun á umhverfi og aðstæðum. Þá sé hæðarmunur á lóðum kærenda og byggingarleyfishafa, sem valdi því að steyptur flötur útveggja, séð frá lóð kærenda, verði um 5 m hár. Séu forsendur fyrir frávikum frá þágildandi byggingareglugerð og leyfisveitingu fyrir óvenju háreistu bílskýli því enn veikari. Möl hafi verið borin í lóð byggingarleyfishafa og hún hækkuð þannig að bílskýli standi hærra en ella. Miklir ágallar séu því á samþykktum teikningum þar sem ekki séu gefnir upp hæðarpunktar sem hæð útveggjar gangi út frá, þvert á gr. 18.8 í þágildandi byggingarreglugerð, sem og núgildandi byggingarreglugerð. Þá séu engin dæmi um svo háreist bílskýli á svæðinu, hvorki fyrir né eftir hina umdeildu leyfisveitingu.

Standist leyfisveitingin ekki lög þar sem í 46. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 18. gr. þágildandi byggingarreglugerðar komi fram að aðaluppdráttur skuli sýna hvernig mannvirki falli að nærliggjandi umhverfi og gefa skuli upp hæðarkóta hverrar hæðar og hæsta punkt þakvirkis. Ekkert af þessu sé hins vegar að finna á teikningum fyrir umrætt bílskýli. Þá hafi kærendur ekki fengið gögn um grenndarkynningu skýlisins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hafi grenndarkynning farið fram telji kærendur hana marklausa. Ómögulegt hafi verið fyrir þá sem grenndarkynnt hafi verið fyrir að gera sér grein fyrir umfangi byggingarinnar þar sem ákvæðum laga um aðaluppdrætti hafi ekki verið fylgt og teikningar sýnt bílskýlið eitt og sér með enga stærðarviðmiðun.

Efist kærendur um að undirskriftir nágranna hafi legið fyrir. Hafi svo verið sé hins vegar bent á að samkvæmt fundargerðum Hafnarfjarðabæjar hafi þær legið fyrir 24. júlí 2002 og hafi því liðið um 12 ár frá samþykki nágranna þar til steypumótum bílskýlisins hafi verið komið fyrir. Deiliskipulag svæðisins sé frá árinu 2008 og hafi því sex ár liðið frá samþykkt þess þar til fyrstu steypumótum hafi verið slegið upp. Kærendur veki athygli á framangreindu, telji leyfið útrunnið og óski eftir að ný grenndarkynning fari fram. Þá megi ráða af eigendasögu fasteignarinnar að Öldutúni 2 að líklega hafi verið grenndarkynnt fyrir röngum aðilum þar en milli þess sem undirskriftir nágranna hafi verið fengnar og þar til grenndarkynning hafi farið fram hafi eigendaskipti orðið að íbúð efri hæðar hússins. Réttir eigendur og íbúar að Öldutúni 2 hafi því ekki fengið gögn um grenndarkynningu og sé hún því ómarktæk.

Samþykktar teikningar frá árinu 2009 sýni hvar búið sé að bæta kjallara við teikningar umrædds bílskýlis en sú breyting virðist ekki hafa farið í grenndarkynningu. Telji kærendur að slík kynning hefði átt að fara fram þar sem kjallari í bílskýli Öldutúns 4 fari gegn deiliskipulagi á svæðinu.

Kærendur telji að réttur þeirra til að sjá til sólar á lóð sinni vegi þyngra en réttur byggingarleyfishafa til að geyma t.d. vöruflutningabíla innandyra á lóð sinni.
   
Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til afgreiðslu málsins hjá skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðar. Erindið hafi verið grenndarkynnt frá 25. október til 25. nóvember 2002, byggingaráform verið samþykkt í mars 2003 og botnúttekt farið fram í júlí s.á. Breytingar á byggingarleyfi hafi verið samþykktar á árinu 2005, þegar gryfja undir bíla hafi verið heimiluð, og á árinu 2009, er aðrar breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrs hafi verið samþykktar. Úttekt á plötu yfir kjallara hafi farið fram 6. júní 2011 og skýringar á byggingartíma hafi borist frá byggingarleyfishafa og byggingarstjóra með bréfi, dags. 22. september 2014.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi bendir á að framkvæmdir þær sem hann vinni að við Öldutún 4 séu unnar samkvæmt samþykktu byggingarleyfi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 21. og 22. október 2009. Veki hann athygli á að samkvæmt deiliskipulagi sé á lóð kærenda gert ráð fyrir bílskúr sem gæti verið hluti af ófyrirséðu skuggavarpi og útsýnistapi og að tré á lóðinni og nærliggjandi lóðum valdi slíku einnig. Augljóst hafi verið að bílskúr væri í smíðum þar sem sökklar og gryfja hafi verið risin og kærendur því átt að kynna sér málið til hlítar við kaup á fasteign sinni. Gryfja undir gólfi hafi verið samþykkt 23. febrúar 2005 en ekki á árinu 2009 eins og kannski hafi mátt misskilja. Hafi skúrinn verið færður að lóðamörkum að beiðni nágranna og Hafnarfjarðar.

Varðandi möl í stæðið bendi leyfishafi á að almennt sé talað um 80-120 cm þykkt frostfrítt lag ofan á frárennslisrör og að hér sé um 90 cm að ræða. Almennt sé mikill hæðarmunur á húsum á þessu svæði þar sem byggt sé í halla. Enginn hæðarkóti hafi fylgt húsi hans eða eldri bílskúr. Þá sé ljóst að annar tilgreindur bílskúr í Hafnarfirði sé einnig reistur á lóðarmörkum og að hann sé hærri en núgildandi byggingarreglur kveði á um.

Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi fyrir bílskúr að Öldutúni 4 var samþykkt af byggingarfulltrúa 17. mars 2003 og verður að líta svo á að það hafi verið staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á fundi hennar 1. apríl s.á. Botnúttekt fór fram í júní 2003, byggingarleyfi voru gefin út 2005 og 2009 vegna breytinga á innra fyrirkomulagi bílskúrsins og fór úttekt á plötu yfir kjallara fram í júní 2011. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 1. október 2014.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera það ljóst.

Fyrir liggur af gögnum málsins að framkvæmdir hafa staðið yfir í langan tíma og munu framkvæmdir við útveggi bílskúrsins hafa hafist sumarið 2014. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins að neinar þær framkvæmdir hafi byrjað sem bent gætu til hæðar bílskúrsins fyrr en 13. september 2014 þegar kærendur urðu að eigin sögn þess varir að steypumótum hefði verið komið fyrir til að steypa útveggi. Í kjölfar þess leituðu þeir til skipulagsyfirvalda og fengu upplýsingar um byggingarleyfi vegna bílskúrsins, sem þeir svo kærðu til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður er lýst. Þótt framkvæmdir hafi átt sér stað áður, og kærendum mátt vera það ljóst af aðstæðum að bílskúr myndi rísa, verður að líta til þess að í skilmálum gildandi deiliskipulags frá árinu 2009 kemur fram að á svæðinu skuli byggingarreitur bílageymslna að jafnaði vera 5×7 m og hámarksvegghæð við aðliggjandi lóðarmörk 2,8 m. Var þess ekki að vænta að kærendur gerðu sér grein fyrir því að bílskúr sá er var í byggingu yrði háreistari en deiliskipulag mælti fyrir um. Með hliðsjón af framangreindu verður við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna varð veiting byggingarleyfis að styðjast við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Sú undantekning var gerð í 7. mgr. ákvæðisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna, að unnt var að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þótt ekki lægi fyrir deiliskipulag, en þá að undangenginni grenndarkynningu þar sem nágrönnum sem hagsmuna ættu að gæta væri kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig. Við grenndarkynningu var vísað til teikninga, dags. 19. júlí 2002. Þær teikningar sýna flatarmál þáverandi og áformaðs bílskúrs og staðsetningu innan lóðar. Á teikningunum er hins vegar ekki að finna afstöðu bílskúrsins til næstu lóða og gatna, hæðarkóta eða þversnið. Þá er enga textalýsingu að finna á teikningunum. Loks kemur ekkert fram í texta grenndarkynningarbréfs um það hvort eða hvaða breytingar yrðu með nýjum bílskúr. Leiðir af framangreindu að nágrannar gátu engan veginn gert sér grein fyrir hæð áformaðs bílskúrs af grenndarkynningargögnum. Var grenndarkynningunni því verulega ábótavant að þessu leyti og hún ekki í samræmi við tilvitnað lagaákvæði.

Þá skal tekið fram að í gr. 113.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 er að finna ákvæði um hámarksstærð ásamt vegg- og mænishæð bílgeymslna fyrir einn bíl og að umdeildur bílskúr er bæði stærri og hærri en þar er tilgreint. Byggingarnefnd gat heimilað frávik frá umræddu ákvæði þar sem það myndi ekki valda verulegri röskun og aðstæður leyfðu að öðru leyti. Ekki liggur fyrir að skipulags- og byggingarráð hafi tekið afstöðu til málsins, þrátt fyrir að ærið tilefni hafi verið til, en fyrir liggur að byggingarfulltrúi sendi skipulagsdeild fyrirspurnina til umsagnar vegna stækkunar og hækkunar skúrsins. Eins og áður er lýst er hvorki á teikningum né í grenndarkynningarbréfi gerð grein fyrir því að um frávik frá áðurgreindu ákvæði sé að ræða og verður að telja að þessa ákvæðis hafi ekki verið gætt við meðferð málsins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var málsmeðferð við töku hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi að því er varðar byggingu nýs bílskúrs að Öldutúni 4.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 17. mars 2003, sem staðfest var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. apríl s.á., að því er varðar byggingu bílskúrs í stað annars að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

_________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________                             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

89/2013 Lambastaðahverfi

Með
Árið 2014, föstudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag kærir Kristján B. Thorlacius, hrl. f.h. S, þinglýsts eiganda Nesvegar 115, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Gerð er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en til vara er þess krafist að deiliskipulagið verði fellt úr gildi að því er varðar lóðina nr. 115 við Nesveg.

Gögn í máli þessu bárust frá Seltjarnarnesbæ 24. janúar 2014.

Málavextir: Vinna við gerð deiliskipulags Lambastaðahverfis hófst á árinu 2008. Hinn 28. apríl 2010 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness deiliskipulag fyrir hverfið og í nóvember s.á. voru samþykktar breytingar á skipulaginu. Auglýsing um gildistöku þess var þó ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda og í desember 2010 var samþykkt í bæjarstjórn að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Hinn 22. júní 2011 samþykkti bæjarstjórn nefnt skipulag og tók það gildi í október s.á. Var skipulagið kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá hinn 25. október 2012 með vísan til þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kvað á um ógildi skipulagsákvarðana væri auglýsing um gildistöku ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda innan lögboðins frests.

Í kjölfar þess var ákveðið af hálfu sveitarfélagsins að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna svonefndrar endurauglýsingar deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn 22. júní 2011, að öðru leyti en því að skipulag fyrir lóðina að Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabrautar 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6 frá árinu 1973.

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa hana til kynningar og var frestur til athugasemda til 26. apríl 2013. Á þeim tíma bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum, þ. á m. frá kæranda. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. s.m. og afgreiddi málið með svofelldri bókun: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar.“ Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Tekur deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs, fjöru til suðvesturs og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða auk heimildar til að reisa smáhýsi utan byggingarreita og bátaskýli á sjávarlóðum sem tengjast sjóvarnargörðum utan byggingarreita.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir hinni kærðu ákvörðun á þeirri forsendu að byggingarheimildir á lóð hans að Nesvegi 115 hafi verið skertar frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi Lambastaðahverfis sem bæjarstjórn hafi samþykkt 28. apríl 2010. Hafi Seltjarnarnesbær við meðferð málsins brotið gegn mörgum helstu reglum stjórnsýsluréttar auk brota gegn almennum ákvæðum stjórnsýsluréttar um trygga málsmeðferð og vandaða stjórnsýsluhætti.

Þegar bæjaryfirvöld hafi heimilað uppbyggingu lóðarinnar að Nesvegi 107 á árinu 2007 hafi kæranda verið tjáð að í ljósi jafnræðissjónarmiða yrðu veittar sambærilegar heimildir til byggingar húss á lóð hans við Nesveg. Í trausti þeirrar yfirlýsingar hafi verið gerðar teikningar að húsi á lóðinni. Í tillögu að deiliskipulagi Lambastaðahverfis er kynnt hafi verið í september 2009 hafi komið fram að í stað þess húss, sem nú stæði á lóðinni, mætti reisa allt að tveggja hæða hús. Hafi borist athugasemdir við tillöguna og í svari bæjaryfirvalda við þeim hafi m.a. eftirfarandi komið fram: „Nýjar húsbyggingar við Nesveg 115 og 119a munu fela í sér breytingar sem óhjákvæmilegar eru þegar byggt er á ónýttum lóðum eða hús frá fyrri tíð endurnýjuð. Þar sem um er að ræða sjávarlóðir getur ekki farið hjá því að útsýni úr fjarlægari húsum til sjávar raskist. Sérstaða hverfisins í heild breytist ekki.“ Þá hafi verið vísað til þess að skilmálum nýbygginga væri hagað þannig að komið væri til móts við hagsmuni nágranna og þeir verndaðir eftir bestu föngum. Bæjarstjórn hafi staðfest umrætt deiliskipulag 28. apríl 2010. Hafi kæranda verið tilkynnt skriflega um þá ákvörðun og staðfest heimild til byggingar húss á tveimur hæðum á lóðinni.

Skipulagið hafi verið tekið til endurskoðunar, m.a. hvað varðaði lóð kæranda að Nesvegi 115. Kærandi hafi ítrekað óskað þess að fá upplýsingar um málið og að fá að koma að andmælum, en án árangurs, og 10. nóvember 2010 hafi sveitarstjórn samþykkt breytingar á nefndu skipulagi þar sem byggingarheimildir á lóð kæranda hafi verið verulega skertar. Hafi nú mátt reisa á lóðinni hús á einni hæð með niðurgröfnum kjallara og byggingarreitur lóðarinnar minnkaður verulega. Það hafi fyrst verið í kjölfar skriflegrar fyrirspurnar kæranda að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi í tölvupósti frá 26. nóvember s.á. upplýst hann um samþykktar breytingar á deiliskipulaginu. Kærandi hafi í kjölfar þessa gert skriflegar athugasemdir við málsmeðferð Seltjarnarnesbæjar og krafist þess að málið yrði tekið til endurskoðunar og dregnar til baka fyrrgreindar breytingar en því erindi hafi ekki verið svarað. Í desember 2010 hafi Skipulagsstofnun lagt fyrir sveitarfélagið að auglýsa tillöguna að nýju þar sem þær breytingar sem gerðar hefðu verið teldust svo verulegar að ekki væri heimilt að samþykkja deiliskipulagið án þess að auglýsa það að nýju. Við þá endurkynningu hafi kærandi komið að andmælum sem ekki hafi verið fallist á en þó hafi byggingarreitur umræddrar lóðar verið stækkaður. Deiliskipulagið hafi verið staðfest í bæjarstjórn 22. júní 2011 og hafi kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísað hafi málinu frá. Við kynningu hins kærða deiliskipulags hafi andmæli kæranda verið ítrekuð en þá þegar hafi verið lagt í mikinn kostnað vegna vinnu arkitekts við útfærslu hugmyndar að húsi á umræddri lóð. Ekkert hafi hins vegar orðið úr vilyrðum formanns skipulags- og mannvirkjanefndar bæjarins um breytingar og hafi hin auglýsta tillaga verið samþykkt algerlega óbreytt varðandi lóð kæranda.

Ítrekað hafi verið brotið gegn rétti kæranda við aðdraganda og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar auk þess sem lög og reglur um samráð hafi ekki verið virtar. Málsmeðferð við fyrrgreindar breytingar sé ekki í samræmi við gr. 3.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 en sambærilegt ákvæði sé í núgildandi reglugerð nr. 90/2013. Sú framganga bæjarins að tilkynna kæranda ekki fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi sem búið hafi verið að samþykkja og vörðuðu lóð hans og sinna í engu óskum um upplýsingar feli í sér brot gegn 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi kæranda ekki verið gefið færi á að koma að athugasemdum eða kynna aðstæður á lóðinni sem sé brot gegn 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt og sé ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Umdeild breyting frá áður ráðgerðum byggingarheimildum á lóð kæranda hafi byggst á athugasemdum sem fram hafi komið að loknum athugasemdafresti sem ekki geti verið grundvöllur slíkrar ákvörðunar en sömu athugasemdir hafi ekki þótt gefa tilefni til breytinga af hálfu bæjarstjórnar á fyrri stigum. Ekkert hafi breyst sem réttlæti breytinguna og Skipulagsstofnun hafi engar athugasemdir gert við yfirferð málsins á sínum tíma.

Gildandi deiliskipulag sé bindandi fyrir stjórnvöld og borgara sbr. 2. mgr. gr. 6.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og verði málefnaleg sjónarmið að búa að baki breytingu á deiliskipulagi. Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til að fá að byggja á lóðinni að Nesvegi 115 tveggja hæða hús í samræmi við fyrri samþykkt bæjarfélagsins á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði sem hafi falið í sér ívilnandi stjórnvaldsákvörðun gagnvart kæranda sem honum hafi verið tilkynnt um, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Sé hið kærða deiliskipulag ekki stutt skipulagslegum rökum eða lögmætum sjónarmiðum. Með því sé farið gegn lagamarkmiði um réttaröryggi einstaklinga sem sett hafi verið fram í 1. gr. laga nr. 73/1997 og 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi öll meðferð málsins verið sérlega óvönduð og virðist helst lituð af geðþóttaákvörðunum þeirra sem stýri skipulagsmálum á Seltjarnarnesi.

Óeðlilegt sé að einn lóðareigandi í hverfinu, þ.e. að Nesvegi 107, hafi nýlega fengið að byggja nýtt hús á tveimur hæðum við sjávarsíðuna að því er virðist án skilmála líkt og nýbygging á lóð kæranda þurfi að uppfylla. Með hinni kærðu ákvörðun sé því farið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar enda liggi ekki fyrir veigamiklar málefnalegar ástæður sem réttlætt geti slíka mismunun gagnvart lóðarhöfum við viðkomandi götu. Virðist sem kærandi eigi að gjalda þess að lóðarhafar að Nesvegi 107 og 111-113 hafi fengið svo rúmar byggingarheimildir sem raun beri vitni.

Af tuttugu húsum sem byggð séu á sjávarlóðum í Lambastaðahverfi séu sex þeirra tveggja hæða. Þau rök að einungis sé heimilað einnar hæðar hús á lóð kæranda til að varðveita fallega sjávarsýn hverfisins séu hvorki haldbær né málefnaleg þegar jafnræðisreglan sé höfð í huga. Ennfremur sé óeðlilegt að þessi rök eigi einungis við um eitt af hverfum bæjarins því hæðir húsa á sjávarlóðum almennt á Seltjarnarnesi séu oft tvær, t.d. við Sæbraut, en einnig sé stór hluti húsa við Sæbraut á 1½ hæð og séu tvær hæðir á þeirri hlið er snúi að sjó. Einnig standi mörg þeirra húsa sem séu einnar hæðar og á sjávarlóð hátt í landi en lóð kæranda standi mjög lágt miðað við margar nærliggjandi lóðir. Þá sé kæranda sem lóðarhafa mismunað þar sem honum séu sett mjög þröng skilyrði um þakform og skuggavarp sem aðrir lóðarhafar við sjávarsíðuna hafi ekki verið bundnir af. Auk þess séu alvarlegir efnislegir annmarkar á hinu kærða deiliskipulagi vegna þröngra skipulagsskilmála sem hindri að hús það sem kærandi hafi látið teikna fyrir lóðina í samræmi við fyrirheit bæjarins á sínum tíma verði reist. Því fylgi fjártjón fyrir kæranda sem uppfylli skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar.

Hin þröngu skilyrði skipulagsins sem gildi fyrir lóðina að Nesvegi 115 geri ókleift að reisa hús sem uppfylli nútímakröfur um stærð, gerð og staðsetningu. Leyfileg hæð húss samkvæmt fyrra skipulagi hafi verið 7,5 m frá lóðarhæð en sé nú 8 m frá sjávarmáli. Af teikningum tillögunnar megi sjá að nýtt hús megi varla hækka neitt umfram það hús sem í dag standi á lóðinni og sé gert ráð fyrir að hæð nýbyggingar geti orðið u.þ.b. 15 cm hærri en núverandi hús. Ómögulegt sé að teikna hús fyrir lóðina, á einni hæð með kjallara, sem rúmist innan þessara hæðarmarka. Heimild fyrir kjallara undir húsinu sé markleysa vegna sjávarfalla á svæðinu en áætlað sé að sjávarstaða muni hækka á komandi árum. Samkvæmt 11. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skuli ekki leyfa kjallara í húsum á svæðum sem skilgreind séu sem hættusvæði vegna sjávarflóða eða landbrots og ákvæði gr. 6.7.4. og 10.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 takmarki mjög heimildir til að byggja íbúðir í kjallara. Þá yrðu framkvæmdir við byggingu kjallara svo umfangsmiklar og dýrar að enginn ávinningur yrði af þeim þegar höfð sé hliðsjón af matsgerð dómkvaddra matsmanna í þessu efni sem kærandi hafi aflað.

Stækkun byggingarreits á lóð kæranda hafi ekki þýðingu með hliðsjón af aðstæðum en útilokað sé að reisa hús innan þeirra takmarka sem settar séu með staðsetningu byggingarreitsins innan lóðarinnar. Reglur í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um staðsetningu húsa og kröfur um lágmarksfjarlægð feli í sér að kærandi geti ekki nýtt sér þá hluta byggingarreitsins sem núverandi hús standi á, næst lóðum á Nesvegi 107 og 111-113. Skúrar á lóðinni að Nesvegi 111-113 takmarki einnig mjög staðsetningu hússins. Útilokað sé að nýta heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar miðað við núverandi stærð og staðsetningu byggingarreitsins. Heimild til að byggja hús á tveimur hæðum á þessari lóð skerði ekki réttindi annarra íbúa svæðisins svo neinu nemi að mati kæranda.

Auk þess hafi einn nefndarmanna skipulags- og mannvirkjanefndar verið vanhæfur við meðferð málsins með vísan til 19. gr. sveitarstjórnarlaga og almennra hæfisreglna stjórnsýslunnar en nefndarmaðurinn búi á skipulagssvæðinu og hafi komið að málsmeðferð og ákvarðanatöku vegna deiliskipulagsins. Hafi sá nefndarmaður haft efnislega áhrif á ákvörðun nefndarinnar þar sem hann hafi lagt fram sérstaka bókun á fundi hennar á árinu 2010 þar sem umdeildum breytingum hafi verið fagnað. Sá hafi einnig lagt fram sérstaka bókun á fundi hinn 6. júní 2013, en fundargerðir funda nr. 187 og 188 staðfesti að hann hafi setið fundina.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags, í heild eða að hluta, verði hafnað. Engir form- eða efnisannmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð skipulagsins.

Ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fylgt í alla staði. Fundir hafi verið haldnir með kæranda og gengið á vettvang og að auki hafi lögmanni kæranda verið tilkynnt bréflega að nýtt skipulagsferli væri að hefjast. Fullyrðing um brot á upplýsingarétti sé með öllu órökstudd en kærandi hafi fengið afrit af öllum gögnum sem hann hafi óskað eftir vegna málsins. Athugasemdir kæranda og málsástæður lúti að meðferð málsins á fyrri stigum. Því sé mótmælt að ágallar hafi verið á meðferð fyrri skipulagstillagna umrædds svæðis en jafnvel þótt svo væri talið gæti það ekki haft áhrif á gildi þess skipulags sem kærumál þetta snúist um.

Þótt einn nefndarmanna í skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins eigi fasteign á umræddu skipulagssvæði valdi það ekki vanhæfi nefndarmannsins sem hafi verið áheyrnarfulltrúi í nefndinni við meðferð umrædds máls og ekki komið að afgreiðslu þess. Afgreiðslur vegna fyrri skipulagsmeðferðar hafi enga þýðingu hér. Fasteign kæranda hafi engin grenndaráhrif gagnvart fasteign umrædds aðila sökum fjarlægðar milli fasteigna þeirra og nefndin sé aðeins ráðgefandi við skipulagsákvörðun sem bæjarstjórn taki.

Tillaga að deiliskipulagi, sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi samþykkt að senda í auglýsingu á árinu 2009, hafi gert ráð fyrir að hús á lóðunum nr. 115 og 119a við Nesveg yrðu á einni hæð en tillagan hafi svo verið auglýst með breytingum á byggingarreitum og hæð umræddra húsa. Þegar ákveðið hafi verið að auglýsa tillöguna árið 2011 hafi hún verið í því formi sem gert hafi verið ráð fyrir árið 2009 fyrir varðandi hæð húsanna á greindum lóðum og þau lækkuð til að koma til móts við athugasemdir hagsmunaaðila á svæðinu. Hafi sú breyting einnig fallið að markmiðum forsagnar skipulagsins og deiliskipulagstillögunnar um varðveislu útsýnis til sjávar, en 2/3 hluti húsa á sjávarlóðum á svæðinu séu á einni hæð. Einnig hafi breytingin verið í samræmi við það leiðarljós að eigendum lóða í hverfinu væri gert mögulegt að endurnýja og bæta fasteignir sínar í sátt við umhverfið. Hafi málefnaleg og lögmæt sjónarmið legið til grundvallar breytingunni sem byggð hafi verið á faglegu mati þeirra ráðgjafa sem unnið hafi skipulagið.

Kærandi hafi komið að sjónarmiðum sínum við meðferð skipulagstillögunnar og notið lögmæts andmælaréttar. Á engan hátt hafi verið gengið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, skipulagsreglugerðar eða stjórnsýslulaga um kynningu og samráð. Engu breyti þótt athugasemdir hafi borist eftir að athugasemdafrestur hafi verið liðinn enda athugasemdirnar ekki frumástæða breytingarinnar og enga þýðingu hafi í þessu sambandi að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við fyrri skipulagstillögu þar sem gert hafi verið ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóð kæranda. Fyrri skipulagstillögur fyrir umrætt svæði séu ekki til umfjöllunar í máli þessu. Mál þetta snúist um skipulagsferli sem hafi alfarið hafist að nýju eftir úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála um deiliskipulag Lambastaðahverfis. Haldnir hafi verið nokkrir fundir með kæranda og leitast við að finna lausn sem kærandi gæti sætt sig við, m.a. unnin tillaga að breytingu. Samkomulag hafi hins vegar ekki náðst með aðilum.Öll sjónarmið kæranda um skort á samráði, andmælarétti eða broti á rannsóknarreglu eigi því ekki við rök að styðjast.

Leyfi hafi verið veitt fyrir því að reisa tveggja hæða hús á lóðinni að Nesvegi 107 áður en vinna við gerð deiliskipulags hafi byrjað, en það hafi ekki þótt til eftirbreytni á svæði þar sem flest hús á sjávarlóðum séu á einni hæð. Nauðsynlegt hafi verið að skipuleggja svæðið til að taka á því með heildstæðum hætti en fyrrnefnt leyfi bindi hins vegar ekki skipulagsyfirvöld við gerð heildarskipulags af svæðinu. Samþykkt tillaga taki fremur mið af byggðarmynstri svæðisins og málefnaleg sjónarmið búi að baki þeirri ákvörðun sem taki mið af hagsmunum heildarinnar fremur en rétthöfum lóða nr. 115 og 119a við Nesveg. Kærandi hafi ekki mátt vænta þess eða haft vilyrði fyrir því að fá að byggja tveggja hæða hús á lóð sinni. Geti hann ekki byggt væntingar á tillögu að skipulagi þar sem málsmeðferð þess hafi ekki verið lokið. Því sé mótmælt að svör við athugasemdum vegna fyrri auglýsingar skipulags hafi bundið hendur sveitarfélagsins við seinni afgreiðslu málsins. Breyti engu þótt kærandi hafi þegar látið hanna tillögu að húsbyggingu á lóðinni enda hafi hann gert það áður en skipulagsvinnan hafi farið af stað á eigin ábyrgð og áhættu.

Því sé jafnframt mótmælt að samþykki skipulagsins árið 2010 hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun til handa kæranda sem ekki verði afturkölluð nema skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt. Deiliskipulag sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga heldur almennar reglur um mótun byggðar á tilteknu svæði. Tillaga að skipulagi bindi ekki hendur sveitarfélags fyrr en skipulag hafi öðlast gildi en það eigi ekki við um skipulagstillögu þá sem kærandi vísi til. Að auki sé sveitarfélögum heimilt að breyta skipulagi sem öðlast hafi gildi. Reglur stjórnsýslulaga eigi ekki við hvað þetta varði.

Misskilnings gæti hjá kæranda um að hann geti ekki nýtt sér reitinn sem núverandi hús standi á eða að nærliggjandi hús takmarki möguleika hans til byggingar innan byggingarreits. Heimilt sé að ákveða í skipulagi hver fjarlægð megi vera frá lóðarmörkum og öðrum mannvirkjum og gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð takmarki þetta ekki enda sé hægt að tryggja brunavarnir við hönnun hússins. Aðstaðan að þessu leyti sé ekki verri en hvað varði núverandi hús. Þá hafi eigandi Nesvegar 115 á sínum tíma samþykkt byggingu bílskúra fast að lóðarmörkum. Þótt kærandi geti ekki byggt það hús sem hann hafi haft í hyggju, geti það ekki snert gildi hins kærða deiliskipulags. Sveitarfélagið hafi hins vegar á fyrri stigum leitast við að koma til móts við sjónarmið kæranda, m.a. hvað varði stækkun byggingarreits, en ekki hafi náðst samkomulag um stækkun hússins.

Umrætt deiliskipulag auki nýtingarmöguleika kæranda á lóð hans með stækkun byggingarreits og möguleika á gerð kjallara undir húsi. Þrátt fyrir að sjávarflóð hafi orðið á umræddu svæði sé það ekki skilgreint sem „hættusvæði vegna sjávarflóða“ í deiliskipulagi eða aðalskipulagi enda séu kjallarar í mörgum húsum á svæðinu. Samkvæmt almennum skilmálum skipulagsins þurfi að gera grein fyrir vörnum gegn sjávarflóðum á aðaluppdráttum húsa og séruppdráttum.

Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að Seltjarnarnesbær hafi brotið á rétti kæranda við meðferð málsins með þeim hætti að áhrif gæti haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar sé tekið undir varakröfu kæranda um að eingöngu sá hluti skipulagsins sem varði lóð kæranda verði felldur úr gildi.

Andmæli kæranda við umsögn sveitarfélagsins: Kærandi áréttar fyrri sjónarmið sín þess efnis að engin lögmæt ástæða hafi búið að baki breytingum á áformuðum byggingarheimildum á lóð hans og að hann hafi ekkert tækifæri fengið til að andmæla þegar sveitarfélagið hafi ákveðið að afturkalla fyrri ákvörðun sína. Þá séu ítrekaðar málefnalegar athugasemdir kæranda við verklag sveitarfélagsins í málinu. Byggt hafi verið á ógrunduðum hugmyndum sveitarfélagsins um afstöðu íbúa sveitarfélagsins og tímafrestir til athugasemda við umdeilda skipulagstillögu hafi ekki verið virtir.

Kæranda hafi aldrei gefist tækifæri til að leggja fram útfærða hugmynd að því húsi sem hann hafi getað hugsað sér sem hluta af þeirri málamiðlun sem reynt hafi verið að ná í tímaþröng. Hann hafi orðið fyrir kostnaði vegna vinnu arkitekts sem síðan hafi ekki verið hægt að nýta. Þá sé ljóst að formaður skipulags- og byggingarnefndar hafi aldrei lagt fram þær hugmyndir að tveggja hæða húsi sem ræddar hafi verið á fundum. Ekki hafi verið horft til hagsmuna kæranda er heimilað hafi verið að reisa tveggja hæða hús á lóðinni að Nesvegi 107 og athugasemdum kæranda vegna þess húss hafi aldrei verið svarað formlega af Seltjarnarnesbæ. Því sé hafnað að Seltjarnarnesbær geti látið svo ómálefnalegt og breytilegt mat á hagsmunum borgaranna stýra heimildum um nýtingu lóðarréttinda hjá sveitarfélaginu. Þá sé því mótmælt að fyrri afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar og bæjarstjórnar hafi enga þýðingu í málinu enda hafi kæranda verið tilkynnt sérstaklega um samþykkt þeirra með bréfi, dags. 30. apríl 2010. Slík tilkynning hafi óhjákvæmilega lögfylgjur í samræmi við ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin að Nesvegi 115 sé lægsti punktur á stóru svæði. Umrædd lóð sé umtalsvert lægri en lóðin að Nesvegi 107 og því glapræði að ætla sér að byggja hús með kjallara á þessum stað, en slíkur kjallari yrði væntanlega með gólfkóta innan við hálfum metra yfir núllpunkti í mælingarkerfi Reykjavíkurborgar. Framkoma bæjarins og málsmeðferð hafi valdið kæranda kostnaði sem nemi milljónum.

——

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 2. september 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Lambastaðahverfis er samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarness 12. júní 2013 og tók gildi 1. ágúst s.á. Fram að gildistöku skipulagsins var lóð kæranda á ódeiliskipulögðu svæði. Fyrri skipulagstillögur og samþykktir bæjarstjórnar varðandi umrætt svæði sæta ekki lögmætisathugun í máli þessu. Þá verður ekki tekin afstaða til þess hvort þær tillögur og samþykktir hafi skapað kæranda réttindi með skuldbindandi hætti enda ekki í hlutverki úrskurðarnefndarinnar að lögum að leysa úr slíkum réttarágreiningi.

Lýsing á skipulagsverkefni Lambastaðahverfis var kynnt á almennum fundi sem og tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis. Tillagan var auglýst til kynningar og afstaða tekin til athugasemda er bárust og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Bæjarstjórn Seltjarnarness tók hina kærðu ákvörðun og er því ekki um að ræða vanhæfi við töku ákvörðunar samkvæmt vanhæfisreglum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þótt íbúi á skipulagssvæðinu hafi komið að undirbúningi og meðferð málsins á fyrri stigum. Kærandi átti þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum á kynningarfundi og við lögboðna kynningu skipulagstillögunnar og var þeim athugasemdum svarað. Þá áttu sér stað samskipti milli kæranda og skipulagsyfirvalda í því skyni að ná ásættanlegri lausn varðandi nýtingarheimildir á lóð kæranda. Var andmælaréttar hans því gætt við meðferð málsins og ekki verður séð að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt en fyrir liggur að aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar var all nokkur. Samkvæmt framangreindu var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði laga.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið, sbr. fyrrgreind ákvæði skipulagslaga, og er það tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Við töku skipulagsákvarðana ber þó m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c- lið 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri hagnýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Þegar litið er til staðsetningu lóða og aðstæðna á skipulagssvæðinu verður að telja þau sjónarmið sveitarfélagsins málefnaleg að reyna að varðveita útsýni sem flestra á svæðinu til sjávar enda var með því stefnt að því að hafa hag sem flestra að leiðarljósi. Að sama skapi liggur fyrir, eins og áður er lýst, að reynt var að finna lausn varðandi lóð kæranda og verður því ekki annað séð en að sveitarfélagið hafi gætt meðalhófs við beitingu skipulagsvalds síns.

Í hinu kærða deiliskipulagi er hámarkshæð húss að Nesvegi 115 tilgreind og byggingarreitur á uppdrætti ákvarðar staðsetningu þess. Verður ekki annað séð, hvað sem líður umdeildum skilyrðum um hönnun þaks og staðsetningu húss m.t.t útsýnis og skuggavarps, að kærandi eigi rétt á að reisa hús innan hæðarmarka skipulagsins og innan markaðs byggingarreits að teknu tilliti til reglna um eldvarnir sem á reynir við veitingu byggingarleyfis, sbr. 1. mgr. gr. 9.7.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þá liggur fyrir að hann getur nýtt sér heimild til að byggja kjallara þó að því geti fylgt aukinn kostnaður vegna þeirra náttúrulegu aðstæðna sem til staðar eru.

Fyrir liggur að Seltjarnarnesbær mun árið 2007 hafa veitt leyfi fyrir byggingu húss að Nesvegi 107 og telur kærandi m.a. að honum sé mismunað miðað við þær heimildir sem þar hafi verið veittar. Umrætt leyfi sætir ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar en það var veitt þegar svæði það sem hið umdeilda deiliskipulag tekur til var ódeiliskipulagt og verður ekki talið að það leyfi hafi skapað fordæmi sem bæjarstjórn hafi verið bundin af við umdeilda skipulagsgerð. Þá verður hvorki séð með hliðsjón af aðstæðum og staðháttum að kæranda hafi verið mismunað við ákvörðun byggingarheimilda á sjávarlóðum á skipulagssvæðinu né að hægt sé að bera saman byggingarheimildir lóðar kæranda við Nesveg 111 og 113 sem staðsett er norðan við lóð kæranda fjær sjó.

Með vísan til alls þess er að framan greinir og þar sem ekki verður talið að aðrir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem geti raskað gildi hennar, er kröfu kæranda um ógildingu hafnað.

Verði hins vegar leitt í ljós að umdeild skipulagsákvörðun valdi kæranda fjártjóni kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

41/2013 Bakkavegur

Með

Árið 2014, mánudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja leyfi til að reisa fimm kvisti og fjölga herbergjum í þakrými um fjögur í húsinu nr. 17 við Bakkaveg í Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra vegna, ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa fimm kvisti á þak og innrétta fjögur herbergi í þakrými í húsinu að Bakkavegi 17 í Reykjanesbæ. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. janúar 2014, sem barst sama dag, kæra sömu aðilar jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 23. janúar 2014 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta bílskúr að Bakkavegi 17 í eitt lagnaherbergi og eitt gistiherbergi og setja tvo glugga í stað bílskúrshurðar. Jafnframt að færa móttöku og stækka anddyri og að breyta herbergi við núverandi anddyri í setustofu.

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málin séu til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þá er gerð krafa um að notkun gistirýmis í þeim hluta hússins sem ekki hafi fengið samþykki byggingarfulltrúa verði stöðvuð. Verður síðara kærumálið, sem er númer 6/2014, sameinað máli nr. 41/2013 enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 14. og 21. maí 2013, og 19. mars, 2. apríl og 24. júní 2014. Þá liggja fyrir í málinu gögn, er borist höfðu 15. febrúar 2013, vegna kæru til nefndarinnar frá sömu aðilum sem síðar var afturkölluð.

Málavextir: Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár voru árið 1999 reist einbýlishús og bílskúr á lóðinni nr. 17 við Bakkaveg. Liggur umrædd lóð fremst við austurenda lokaðrar götu og eru þar fjögur önnur hús. Árið 2010 samþykkti Reykjanesbær, að lokinni grenndarkynningu, stækkun umræddrar lóðar sem og byggingarreits á lóðinni. Í nóvember það ár sóttu lóðarhafar að Bakkavegi 17 um leyfi til að reisa 294,6 m² viðbyggingu undir atvinnustarfsemi við hús sitt og hinn 25. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi leyfi til að reisa nýtt gistiheimili á umræddri lóð. Kærði lóðarhafi að Bakkavegi 20 þá afgreiðslu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Hinn 10. maí 2011 gerðu kærendur, Reykjanesbær og lóðarhafar að Bakkavegi 17 með sér samkomulag vegna hins útgefna leyfis fyrir gistiheimili er fól m.a. í sér að gerðar yrðu nánar tilgreindar ráðstafanir til að draga úr umferð í götunni vegna þessara breytinga. Þá var tekið fram að kæra vegna málsins yrði afturkölluð. Í júní 2011 samþykkti byggingarfulltrúi leyfi fyrir tveimur herbergjum á millipalli í þakrými og stiga upp í herbergin. Með umsókn, dags. 25. nóvember 2011, fór lóðarhafi Bakkavegar 17 fram á stækkun viðbyggingar um 172,4 m², þannig að stærð hennar yrði eftir breytinguna 467,0 m². Var á fundi samráðsnefndar byggingarfulltrúa hinn 29. s.m. samþykkt að grenndarkynna umsóknina. Fram kemur í fundargerð nefndarinnar að sótt sé um leyfi til að breyta innra skipulagi á heimagistingu að Bakkavegi 17. Um sé að ræða breytingu á þaki þar sem settir séu fimm kvistir og fjórum herbergjum bætt við í risi. Komu kærendur á framfæri athugasemdum við grenndarkynningu og á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 15. febrúar 2012 var framkvæmdastjóra falið að skoða málið frekar með tilliti til áhrifa á næsta nágrenni. Var samþykkt að málið yrði tekið aftur upp á haustmánuðum. Í framhaldi af því var settur upp umferðargreinir ofan Bakkavegar í um mánaðartíma um sumarið svo og í vikutíma í september s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 21. nóvember 2012 og fært til bókar að tekið væri vel í erindið en að nauðsynlegt væri að skoða breytingar á skipulagi áður en endanleg afgreiðsla færi fram. Jafnframt var framkvæmdastjóra sviðsins falið að skoða hvort atriði þau er tiltekin hefðu verið í samkomulagi frá maí 2011 við íbúa götunnar hefðu ekki verið uppfyllt.

Umsóknin var tekin fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 9. janúar 2013. Lágu fyrir fundinum gögn vegna áðurnefndrar umferðarmælingar og minnisblað frá verkfræðistofu um skipulag svæðisins. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð umsótta breytingu en bókaði jafnframt að frekari framkvæmdir yrðu ekki leyfðar án undangenginna skipulagsbreytinga. Fundargerð ráðsins var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar hinn 15. janúar s.á. og samþykkt. Hinn 1. febrúar 2013 samþykkti byggingarfulltrúi téða umsókn og var byggingarleyfi gefið út 5. s.m. Skutu kærendur ákvörðun umhverfis- og skipulagslagsráðs til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með bréfi, dags. 5. febrúar 2013. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 15. febrúar s.á. var samþykkt að fella úr gildi fyrrgreint byggingarleyfi og grenndarkynna málið að nýju og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. Umsóknin var kynnt nágrönnum með bréfi, dags. 27. febrúar 2013, og veittur frestur til 2. apríl s.á. til að gera athugasemdir. Var tekið fram við kynningu að um væri að ræða endurtekningu á grenndarkynningu í ljósi þeirra athugasemda sem fram hefðu komið við meðferð málsins og þar sem borist hefðu viðbótargögn um umfang starfseminnar, þ.e. greining á umferð og minnisblað verkfræðistofu um skipulag svæðisins, sem og upplýsingar um sorphirðu og skipulag ferða flugrútu. Einnig var tilgreint að þegar hefðu verið settir kvistir á þak viðbyggingar en að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar þar til bæjarstjórn tæki málið til endanlegrar afgreiðslu. Kærendur afturkölluðu kæru sína til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. mars 2013. Með bréfi, dags, 31. s.m., komu kærendur á framfæri athugasemdum sínum við kynntar framkvæmdir og töldu m.a. að í gögnum er fylgdu grenndarkynningu væru settar fram ýmsar rangfærslur.

Erindið var tekið fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 10. apríl 2013 og samþykkt. Þá var jafnframt fært til bókar að tryggja yrði, með samráði við alla íbúa Bakkavegar, að ónæði yrði sem minnst við þessar breytingar. Einnig skyldi stuðlað að því að umferð stórra ökutækja yrði í lágmarki upp Bakkaveginn, t.d. með merkingum, og einnig væri möguleiki á að gatan yrði gerð að vistgötu. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi hinn 16. s.m. Hinn 17. apríl 2013 gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi að nýju á grundvelli fyrri ákvörðunar hinn 1. febrúar 2013 um samþykki byggingarleyfisumsóknar vegna Bakkavegar 17, matshluta 02.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 23. janúar 2014 var lögð fram umsókn um breytingar á bílskúr Bakkavegar 17. Var um að ræða að bílskúr yrði innréttaður sem lagnaherbergi og eitt gistiherbergi og bílskúrshurð tekin burt og tveir gluggar settir í staðinn. Þá var óskað heimildar til að færa móttöku, að anddyri yrði stækkað og að einu herbergi í núverandi anddyri yrði breytt í setustofu. Var umsóknin afgreidd með eftirfarandi bókun: „Einu herbergi er bætt við og öðru breytt í setustofu þannig er engin aukning á gistiherbergjum. Að mati byggingarfulltrúa er þetta minniháttar breyting sem hefur engin áhrif á nánasta umhverfi. Samþykkt“. Fundargerð byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 12. febrúar 2014 og samþykkti bæjarstjórn þá fundargerð á fundi hinn 18. s.m.

Hafa kærendur kært ofangreindar afgreiðslur byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að þegar viðbygging að Bakkavegi 17 hafi verið grenndarkynnt hafi ekki komið fram að til stæði að starfrækja þar gistiheimili. Hafi starfsmaður Reykjanesbæjar staðfest skriflega að slíkt stæði ekki til, þrátt fyrir teikningar er sýnt hafi annað, en þær teikningar hafi ekki fylgt með grenndarkynningu. Vegna þessa hafi málið tafist úr hófi og að lokum hafi aðilar málsins gert með sér samkomulag, enda ljóst að of seint væri að stöðva framkvæmdirnar án þess að götumyndin hlyti af því verulegan skaða. Hafi íbúar götunnar aldrei fallist á að reist yrði gistiheimili að Bakkavegi 17, enda hafi það aldrei verið grenndarkynnt.

Við grenndarkynningu hafi kærendur bent á að um talsvert umfangsmikinn rekstur væri að ræða sem samkvæmt aðalskipulagi væri á íbúðarsvæði. Yrði með breytingunni 36% aukning á gistirýmum í húsinu. Með heimilaðri stækkun muni umferð í götunni enn aukast, m.a. vegna hópferðabifreiða, vöruflutninga og aukinnar sorphirðu, sem hafi verulegt ónæði í för með sér fyrir íbúa götunnar og skerði umferðaröryggi í götunni. Verulegur skortur sé á bílastæðum við húsið. Einnig sé ónæði frá gangandi ferðamönnum. 

Kærendur hafi jafnframt bent á að ýmsar rangfærslur væru í þeim gögnum er fylgt hefðu grenndarkynningu, svo sem upplýsingar um sorphirðu og fólksflutninga. Umferðarmæling hafi sýnt fram á aukningu umferðar stórra bíla um götuna en ábendingum kærenda um það hafi verið hafnað á þeim forsendum að eigandi gistiheimilisins segði það ekki vandamál. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa götunnar vegna mælinganna eða tekið tillit til athugasemda þeirra um umferð. Ekki sé ljóst hvernig taka eigi upplýsta ákvörðun á grundvelli mælinganna en ekki hafi legið fyrir mælingar um umferðarþunga áður en starfsemi hafi hafist í gistiheimilinu.

Í minnisblaði frá verkfræðistofu er liggi fyrir í málinu hafi m.a. verið talið að umrætt gistiheimili væri í samræmi við byggðamynstur og að fjölbreytt íbúðarbyggð væri á svæðinu. Bendi kærendur á að gistiheimilið sé langtum stærsta húsið í hverfinu. Rangt sé að lóðin sé mjög stór og nýtingarhlutfall því ekki umfram það sem sé á öðrum lóðum. Viðbyggingin standi út fyrir merktan byggingarreit lóðarinnar og séu allar hliðar hússins nærri lóðarmörkum. Vísi kærendur til skipulagsreglugerðar um íbúðarsvæði en þar segi að þar skuli fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði og sé vikið frá þeirri meginreglu sé það vegna starfsemi sem eðlileg sé til þjónustu við íbúa hverfisins. Svo sé alls ekki í máli þessu.

Ekki hafi verið staðið við samkomulag er aðilar hafi gert árið 2011. Málið hafi ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt eða gætt að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Hafi kærendur ekki fengið réttláta málsmeðferð hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar. Settar hafi verið fram rangfærslur, látið hjá líða að svara erindum kærenda eða þeim svarað með órökstuddum hætti og skort hafi á samráð. Framkvæmd grenndarkynningar hafi verið andstæð lögum, teikningar ekki verið í samræmi við núverandi útlit hússins og ósamræmi verið milli texta grenndarkynningar og teikninga. Með réttu hafi átt að rífa umrædda kvisti þegar byggingarleyfið hafi verið afturkallað og hefja málið frá grunni.

Þá sé bent á vegna breytinga á bílskúr að kærendur hafi á árinu 2013 kvartað við umhverfis- og skipulagsráð yfir framkvæmdum í bílskúrnum. Hafi svo virst sem bæta ætti við gistirými þar en kærendur hafi margsinnis bent á að þau væru því algerlega mótfallin. Hafi því verið svarað að svo stæði ekki til en síðar hafi verið haldinn fundur með aðilum málsins þar sem komið hefði fram að rangt hefði verið með farið og að ætlunin væri að breyta bílskúrnum í geymslu, en því hefðu kærendur alfarið hafnað.

Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið bendir á að hinar kærðu ákvarðanir byggi á afgreiðslu tveggja stjórnsýslustiga. Byggi umsýsla og afgreiðsla erinda vegna Bakkavegar 17 á hlutleysi og bestu vitund, með tilliti til þeirra gagna sem fram hafa komið í málinu og þeirrar reynslu sem nú sé komin á starfsemina frá því að hún hafi hafist á vordögum 2012. Hafi umhverfis- og skipulagsráð fjallað um og tekið tillit til framkominna athugasemda, en málinu hafi verið frestað á árinu 2012 til nánari eftirgrennslunar og til að fá reynslu af starfseminni. Ljóst sé að tafir á framkvæmdum vegna vinnslu málsins hafi komið eigendum gistiheimilisins illa. Ekki verði séð að neitt hafi komið fram sem kalli á endurskoðun eða upptöku málsins eða afturköllun á útgefnu byggingarleyfi 17. apríl 2013. Þá sé bent á að á öllum teikningum sem kærendur hafi fengið til umfjöllunar sé notkun mannvirkisins skilgreind sem gistiheimili, líkt og í samkomulagi frá árinu 2011.

Vegna framkvæmda við bílskúr sé tekið fram að um minniháttar framkvæmd sé að ræða sem feli ekki í sér aukin umsvif í starfsemi Hótel Bergs. Breytingin feli eingöngu í sér tilfærslu rýma og breytingu á notkun þeirra en ekki fjölgun gistirýma og aukin umsvif. Færist bílastæði sem verið hafi framan við svonefnda bílgeymslu á stæðið vestan við húsið og þannig fjær nágrönnum og skapi því síður ónæði.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi tekur fram að í málsrökum kærenda séu settar fram fjölmargar rangfærslur. Bent sé á að reynt hafi verið að breyta tilhögun sorphirðu en samkomulag við Gámafélagið sé þannig að reynt sé að haga losun hjá byggingarleyfishafa miðað við dagatal sorphirðu annarra húsa í götunni. Þá hafi verið samið um að ekki yrðu notaðir eins stórir bílar við sorphirðu. Hafi í athugasemdum nágranna verið notast við almennt dagatal fyrir sorphirðu fyrirtækja og ekki tekið tillit til sérsamnings við losunaraðila.

Samkomulag hafi verið gert við fyrirtækið Kynnisferðir um að taka tillit til annarra íbúa götunnar og að rúturnar yrðu stöðvaðar niður við smábátahöfn. Þá hafi bílstjórum þeirra verið gert að aka ekki upp götuna en mistök geti orðið, einkum þegar byggingarleyfishafar séu ekki meðvitaðir um að von sé á rútu. Rútuferðir um götuna séu mjög sjaldgæfar. Í flestum tilfellum séu vörur sóttar og sé sá háttur hafður á af tillitssemi við nágranna. Flutningabílar frá Mjólkursamsölunni komi u.þ.b. tvisvar í mánuði og frá Vífilfelli einu sinni í mánuði.

Umferðarmælingar árið 2012 hafi verið framkvæmdar á háannatíma til að fá rétta mynd af því hvernig umferðin væri þá. Umferð um götuna sé hins vegar lítil. Tvö bílastæði séu fyrir framan viðbygginguna og stundum sé of mörgum bílum lagt þar.
Því sé mótmælt að mikil umferðahljóð eða ónæði frá gangandi vegfarendum séu vegna reksturs gistiheimilisins en einnig sé þarna gata og vinsæl gönguleið. Hafi umferð minnkað vegna þeirra lagfæringa sem gerðar hafi verið í kjölfar samkomulags sem gert hafi verið milli aðila málsins.

Þá sé tekið fram að fjölskylda lóðarhafa sé stór og ekki sé óalgengt að 5-7 bifreiðar séu á Bakkaveginum á vegum fjölskyldunnar. Loks sé bent á að lóðin að Bakkavegi 20 sé ógirt og því ekkert sem komi í veg fyrir að fólk geti gengið upp að húsinu. Varla sé að sakast við lóðarhafa Bakkavegar 17 vegna þessa.

Athugasemdir kærenda við málsrökum Reykjanesbæjar: Því er mótmælt að málið hafi fengið hlutlausa umfjöllun. Hafi kærendur verið leyndir sannleikanum þar til of seint hafi verið að snúa ferlinu við án fjárhagslegs skaða fyrir eigendur Bakkavegar 17. Þá sé vísað til þess að kærendur hafi ítrekað bent á óleyfisframkvæmdir í öðrum hlutum hússins. Sé gistireksturinn nú í einnig í þeim hluta hússins sem ætlað sé sem íbúðarhúsnæði. Aldrei hafi verið sótt um leyfi fyrir því, það ekki kynnt fyrir íbúum og því staðfastlega neitað af bænum, en á fundi sem kærendur hafi átt nýlega með lóðarhafa Bakkavegar 17 og starfsmanni umhverfis- og skipulagssviðs hafi verið staðfest að íbúðarhlutinn sé nú notaður sem gistiheimili. Lítið hafi verið gert úr athugasemdum kærenda og þær taldar snúast aðallega um umferð. Þá hafi ákvörðunin ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti þrátt fyrir fjölmargar athugasemdir kærenda. Hvorki umhverfis- og skipulagsráð né bæjarráð hafi veitt formlegt leyfi fyrir notkun Bakkavegar 17 sem gistiheimili og því telji kærendur allan slíkan rekstur í húsinu ólöglegan.

——

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á tveimur ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ. Annars vegar um að veita leyfi til að reisa fimm kvisti og innrétta fjögur herbergi í þakrými viðbyggingar hússins að Bakkavegi 17 og hins vegar um að heimila m.a. breytta notkun og breytt útlit bílskúrs á lóðinni.

Í gildi er Aðalskipulag Reykjanesbæjar 2008-2024 og er lóðin að Bakkavegi 17 á íbúðar-svæði, nánar tiltekið á svonefndu þéttingarsvæði fyrir Grófina-Berg. Við töku hinna kærðu ákvarðana var ekki í gildi deiliskipulag fyrir það svæði.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segir hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd, sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.

Bakkavegur er nokkur hundruð metra löng botngata. Byggt er við austurenda götunnar og er lóðin að Bakkavegi 17 þar fremst. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár var reist einbýlishús með bílskúr á lóðinni árið 1999, alls 267,9 m². Að auki er skráð á lóðinni 312,8 m² gistihús. Einnig standa innar í götunni fjögur íbúðarhús og eru kærendur búsettir í þremur þeirra. Á svæðinu er einnig byggt við hluta Bergvegar sem liggur í um 150 m fjarlægð norðan við Bakkaveg. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá eru þar 16 íbúðarhúsalóðir, 14 þeirra eru byggðar einbýlishúsum, ein er óbyggð og ein byggð tvíbýlis-húsi. Þá er þar að finna eina iðnaðar- og athafnalóð sem byggð er einbýlishúsi. Smábátahöfn liggur sunnan byggðarinnar við Bakkaveg og er þar að finna safnhús, kaffihús og ferða-þjónustu.

Líkt og rakið hefur verið var árið 2010 heimilað að reisa viðbyggingu við húsið að Bakkavegi 17 fyrir nýtt gistiheimili, alls 294,6 m². Samþykkt var fjölgun gistirýma um tvö í júní 2011 og í ágúst sama ár gaf Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja út starfsleyfi fyrir heimagistingu með allt að 16 rúmum að Bakkavegi 17. Fram kemur á samþykktum teikningum byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2013, að um sé að ræða gistirými með alls 15 herbergjum við einbýlishúsið að Bakkavegi 17 og að sótt sé um leyfi til að fjölga herbergjum í þakrými um fjögur og reisa kvisti. Samkvæmt skráningartöflu, samþykktri af byggingarfulltrúa sama dag, er flatarmál gistirýmis hússins 458 m². Við stækkunina fer nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,44 í 0,55, miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá og skráningartöflu hins samþykkta byggingarleyfis. Nýtingarhlutfall annarra lóða við Bakkaveg er hæst 0,39 miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá. Nýtt starfsleyfi til að „starfrækja Hótel Berg“ var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hinn 6. maí 2013.

Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarbyggð skilgreint sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu, eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins, sbr. a.-lið gr. 6.2. Samkvæmt gr. 5.3.2.8. í reglugerðinni skal gæta þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis. Rekstur gisti-heimila hefur verið talinn rúmast innan heimilda nefndra reglugerðarákvæða, með þeim takmörkunum sem þar eru greind, en ætla má að með auknu umfangi umræddrar starfsemi fylgi aukin umferð, umgangur og hávaði, sem og aukið álag á bílastæði í götunni.

Þegar litið er til umfangs umrædds gistirekstrar, staðhátta eins og þeim er áður lýst, þess að gert er ráð fyrir því í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 að byggingu hverfisins Bergsins verði lokið með einnar til tveggja hæða sérbýlishúsum á um fimmtán lóðum, sem og til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bakkavegi 17 er farið að skera sig töluvert úr því sem gerist á næstu lóðum og er orðið um 40% umfram það sem hæst er annars staðar, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undanþáguákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Þá telur úrskurðarnefndin að eins og á stóð hafi ekki verið heimild til að beita ákvæði 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga og falla frá grenndarkynningu við veitingu leyfis fyrir breyttri notkun bílskúrs. Slík breyting getur snert hagsmuni annarra en umsækjanda leyfis, enda í raun um að ræða fækkun bílastæða á lóð. Af gögnum málsins verður og ráðið að fyrir lá afstaða kærenda um að breytingar á bílskúr gætu varðað hagsmuni þeirra.

Samkvæmt framansögðu skorti lagaskilyrði fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna umsókn byggingarleyfishafa um gerð fimm kvista og fjölgun herbergja um fjögur í þakrými,

sem og fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna ekki breytingar á bílskúr. Leiða þessir ágallar til þess að ógilda ber hinar kærðu ákvarðanir.

Vegna kröfu kærenda er lýtur að stöðvun notkunar á gistirými, er ekki hafi hlotið samþykki byggingarfulltrúa, skal á það bent að hún er háð eftirliti byggingarfulltrúa og fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjaness frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja leyfi til að reisa fimm kvisti og fjölga herbergjum í þakrými um fjögur í húsinu nr. 17 við Bakkaveg í Reykjanesbæ.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjaness frá 23. janúar 2014 um að heimila breytingar á notkun og útliti bílskúrs að Bakkavegi 17.

 

____________________________
Nanna Magnadóttir

 

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

18/2014 Suðurlandsbraut

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 um að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2014, er barst nefndinni 11. mars s.á., kærir J, Suðurlandsbraut 27, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Reykjavíkurborg 24. mars 2014 og réttaráhrifum ákvörðunarinnar var frestað með úrskurði nefndarinnar 27. s.m.

Málavextir: Kærandi fékk leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. desember 2013, var honum tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu á leyfi til að halda hundana. Vísað er til þess að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fengið staðfest að kærandi byggi ekki að Suðurlandsbraut 27, þótt lögheimili hans væri skráð þar. Staðfesting á þessu hafi m.a. fengist í samtali kæranda við hundaeftirlitsmann 8. ágúst 2013, þar sem komið hafi fram að kærandi hafi með skráningu hundanna á sig verið að aðstoða eiganda Suðurlandsbrautar 27, en sá sé ekki með lögheimili þar og fái ekki leyfi til hundahalds. Þá segir að í húsinu séu ennþá haldnir sex hundar sem kærandi sé skráður fyrir, auk hvolpa. Í húsnæði þar sem kærandi dvelji sé óheimilt að hafa hunda. Samkvæmt 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012 sé leyfi persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Í ljósi þessa sé fyrirhugað að svipta kæranda leyfi til að halda tilgreinda sex hunda. Veittur var tveggja vikna frestur til að gera athugasemdir.

Með bréfi, dags. 20. desember 2013, óskaði kærandi eftir gögnum málsins frá heilbrigðiseftirlitinu. Var sú beiðni ítrekuð með bréfum, dags. 30. s.m. og 2. janúar 2014, og jafnframt farið fram á rökstuðning fyrir fyrirhugaðri afturköllun leyfanna og frekari frest til andmæla. Í svarbréfi, dags. 6. janúar 2014, skírskotaði heilbrigðiseftirlitið til þess að ástæða fyrirhugaðrar afturköllunar leyfanna kæmi fram í bréfi stofnunarinnar frá 19. desember 2013. Það bréf, ásamt eftirlitsskýrslu frá 8. ágúst s.á., væru gögn málsins. Frestur kæranda til athugasemda var framlengdur til 13. janúar 2014. Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 11. febrúar s.á. var samþykkt sú tillaga heilbrigðiseftirlitsins að svipta kæranda leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 14. s.m. var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun og ítrekaði hann kröfu sína um rökstuðning og um afhendingu málsgagna í bréfi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 27. s.m. Því bréfi svaraði heilbrigðiseftirlitið hinn 3. mars, þar sem vísað var til fyrri bréfa um rökstuðning og málsgögn.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi hvorki fengið í hendur málsgögn né umbeðinn rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun. Hafi hann því ekki haft færi á að andmæla ákvörðuninni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi aðeins verið fjórir virkir dagar innan þess tveggja vikna frests sem upphaflega hafi verið veittur til að skila andmælum.

Engin rök standi til þess að svipta kæranda leyfi til hundahalds vegna tímabundinnar dvalar hans á vegum Reykjavíkurborgar og engin ákvæði séu um slíkt í hundasamþykkt. Hundarnir hafi verið í umsjá leyfishafa og haldnir á lögheimili hans. Þá verði að finna að þeim starfsháttum heilbrigðiseftirlitsins að boðsenda erindi til kæranda á vistunarstað hans í stað lögheimilis, en trúnaður eigi að ríkja um vistunarstaðinn gagnvart einstaklingum og stjórnvöldum.

Með málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar sé farið gegn meðalhófsreglu og í ýmsu brotið gegn réttindum kæranda á sviði persónu-, upplýsinga- og stjórnsýslulaga.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé lögmæt að efni og formi til. Kæranda hafi verið veittur aðgangur að gögnum máls. Í þeim sé m.a. tilvitnun í 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík, þar sem skýrt komi fram að leyfi séu bundin við heimili eiganda hunds og að þau séu persónubundin. Rétt sé að taka fram að hundahald á viðkomandi stað sé flóknara en það mál sem hér sé til meðferðar og til staðar séu gögn sem varði ekki kæranda heldur eiganda hússins að Suðurlandsbraut 27, sem haldi hunda skráða á kæranda. Bent sé á að með kærunni kjósi kærandi að senda einungis hluta gagna sem hann hafi undir höndum. Kærandi hafi fengið framlengdan frest til andmæla en hann hafi ekki nýtt hann.

Fyrir liggi að kærandi eigi ekki heimili þar sem umræddir hundar séu haldnir og ekki sé um tímabundið ástand að ræða. Hundar að Suðurlandsbraut 27 séu ekki í umsjá kæranda heldur húseiganda að Suðurlandsbraut 27, sem haldi hundana í skjóli leyfa kæranda. Í eftirlitsferð 8. ágúst 2013 hafi komið fram hjá kæranda að hann hafi aðstoðað húseiganda á sínum tíma til að hundarnir gætu verið að Suðurlandsbraut, auk þess sem kærandi segi að húseigandi passi upp á hundana fyrir hann. Hinn 19. desember 2013 hafi kærandi undrast að húseigandi fái ekki að stunda hundarækt í friði. Heilbrigðiseftirlitið vísi til þess að kærandi hafi aldrei verið á vettvangi í þeim fjölmörgu eftirlitsferðum sem farnar hafi verið að Suðurlandsbraut 27. Þá hafi húseigandi verið viðriðinn það þegar ekið hafi verið á hund sem sloppið hafi hinn 18. desember 2013. Heilbrigðiseftirlitið telji að með því að sinna rannsóknarskyldu sem á embættinu hvíli skv. 1. mgr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi það leitt í ljós að kærandi haldi ekki hundana persónulega heldur sé um málamyndaleyfi að ræða. 

Erindi og bréf vegna máls þessa hafi verið birt og afhent kæranda á dvalarstað hans. Heilbrigðiseftirlitið telji að lögjafna megi frá 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 varðandi birtingarstað. Ranglega sé staðhæft að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi gefið trúnaðarupplýsingar um kæranda, en upplýsingar um dvalarstað manns teljist ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga. Vísi heilbrigðiseftirlitið til 7. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1952 um tilkynningar aðsetursskipta. Nauðsynlegt hafi verið að fá þann grun staðfestan að kærandi byggi ekki að Suðurlandsbraut 27.

Kærandi hafi fengið framlengdan frest til andmæla en sá frestur hafi ekki verið nýttur.

Athugasemdir kæranda vegna greinargerðar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Kærandi bendir á að hann eigi, samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum, rétt á að sjá öll gögn er varði hundahald hans, m.a. gögn um umferðarslys 18. desember 2013, sem vísað sé til í gögnum frá heilbrigðiseftirliti.

Það húsnæði sem kærandi dvelji í uppfylli ekki skilyrði til að teljast vera lögheimili samkvæmt lögum nr. 21/1990 um lögheimili, fremur en fangelsi, sjúkrahús, hótel eða frístundabyggð.

Kærandi hafi búið að Suðurlandsbraut 27 með hléum síðan á sjöunda áratugnum, m.a. hafi hann verið með lögheimili þar frá 25. júlí 1997 til 15. febrúar 2001 og frá 27. ágúst 2012. Hann hafi breitt bakland, margir aðstoði hann við hundahaldið.

———

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var kærandi sviptur leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík, með þeim rökum að hann byggi ekki lengur á því heimilisfangi þar sem hann hefði fengið leyfi til að halda hunda. Fram hefði komið að með skráningu hundanna á kæranda hefði hann verið að aðstoða eiganda nefndrar fasteignar. Verður að skilja málatilbúnað heilbrigðiseftirlitsins svo að ástæður sviptingarinnar varði annars vegar heimili kæranda og hins vegar það að leyfið sé bundið við persónu hans.

Samkvæmt samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012, sem sett var með heimild í 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er hundahald heimilað að fengnu leyfi og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kemur fram í a-lið 2. gr. samþykktarinnar að leyfi sé persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda, enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Einnig segir í 3. mgr. 9. gr. samþykktarinnar að hundaeiganda beri að tilkynna heilbrigðiseftirlitinu um aðsetursskipti. Fram er komið að lögheimili kæranda er skráð að Suðurlandsbraut 27 en að hann dvelst og hefur búsmuni sína í húsum á vegum Reykjavíkurborgar. 

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar skipti heimili kæranda höfuðmáli. Að mati úrskurðarnefndarinnar er nærtækast að túlka skilyrði a-liðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík, um að leyfi sé bundið við heimili, með hliðsjón af lögheimilislögum nr. 21/1990. Mun og hafa verið miðað við skilgreiningu þeirra laga á hugtakinu lögheimili við veitingu leyfa til hundahalds í Reykjavík samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað við meðferð málsins. Eins og áður er rakið er lögheimili kæranda skráð að Suðurlandsbraut 27 og verður að telja að opinberri skráningu á lögheimili hans fylgi ákveðnar löglíkur. Telji heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hins vegar að skráð lögheimili leyfishafa sé ekki raunverulegt heimili hans ber henni að rannsaka það sérstaklega í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu, sbr. 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Fram kemur í 3. mgr. 1. gr. laganna að dvöl í húsnæði á skipulögðu athafna- og hafnarsvæði sé ekki ígildi fastrar búsetu, nema búseta sé heimil þar samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Sama á við um dvöl á sjúkrahúsi, athvarfi eða öðru húsnæði sem jafna má til þess. Smáhýsin eru á hafnar- og athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi því sem gilti þegar ákvörðunin var tekin og fengust þær upplýsingar hjá Þjóðskrá Íslands við meðferð málsins að smáhýsin standi á athafna- og iðnaðarlóð og hafi af þessari ástæðu aldrei verið skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Þjóðskrá. Beiðnum einstaklinga um skráningu lögheimilis í húsunum hafi ávallt verið hafnað. Af framangreindu er ljóst að kærandi telst ekki, í skilningi lögheimilislaga, hafa fasta búsetu og lögheimili að  og að honum er ekki unnt að fá heimili sitt skráð þar.

Það að kærandi dvelji í húsnæði þar sem hann telst ekki eiga fasta búsetu og lögheimili, og hann segir sjálfur að um sé að ræða tímabundið úrræði, nægir ekki til að því verði slegið föstu að hann eigi ekki heimili að Suðurlandsbraut 27, þar sem hann er með skráð lögheimili. Með því að um íþyngjandi ákvörðun var að ræða verður að gera til þess kröfu að það liggi fyrir með skýrum hætti að heimili kæranda hafi ekki verið að Suðurlandsbraut 27 og að skilyrðum fyrir leyfi til hundahalds hans þar því ekki lengur verið fullnægt. Það þurfti því að fara fram frekari rannsókn á því hvort hann gæti talist eiga þar heimili, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu liggur ekki fyrir að stjórnvaldið hafi rannsakað hver tengsl kæranda eru við Suðurlandsbraut 27, hversu lengi hann hefur dvalið eða mun dvelja að, eða hvernig farið hefur verið með sambærileg mál, þ.e. mál þar sem skráður eigandi hunds dvelur annars staðar en á lögheimili, t.a.m. vegna sjúkrahúsdvalar eða refsivistar.

Heilbrigðiseftirlitið nefnir í greinargerð sinni til nefndarinnar að kærandi haldi hundana ekki persónulega heldur hafi hann sótt um leyfið og fengið það útgefið á sitt nafn í þágu annars manns. Vegna beiðni kæranda um rökstuðning vísaði eftirlitið í svarbréfi 3. mars 2014 til fyrri bréfa sinna til kæranda í aðdraganda málsins. Ástæður fyrir fyrirhugaðri sviptingu leyfisins er að finna í bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 19. desember 2013. Þar er allt ákvæði a-liðar 2. gr. samþykktar um hundahald rakið og vísað til þess að kærandi hafi sagst hafa verið að aðstoða annan mann þegar hann skráði hundana á sitt nafn og að það m.a. staðfesti að kærandi byggi ekki lengur að Suðurlandsbraut 27. Hins vegar er í bréfinu ekki minnst á þær heimsóknir sem heilbrigðiseftirlitið fór í á Suðurlandsbraut 27 og vísað er til í greinargerð eftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar. Það að stjórnvaldinu hafi þótt farið á svig við þau skilyrði ákvæðisins að leyfi sé persónulegt og óframseljanlegt kemur þannig ekki skýrlega fram sem forsenda hinnar kærðu ákvörðunar í rökstuðningi þess og uppfyllir ekki þau skilyrði sem gera verður til rökstuðnings, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Þá bað kærandi um aðgang að gögnum máls með bréfum í desember 2013 og byrjun janúar 2014 og var í kjölfarið tjáð með bréfi að ákvörðunin byggði á eftirlitsskýrslu um heimsókn til hans og að hún ásamt bréfi heilbrigðiseftirlits frá 19. desember 2013 væru gögn málsins. Var honum sent afrit af hvoru tveggja. Í greinargerð sinni til nefndarinnar vísar heilbrigðiseftirlitið hins vegar til þess að kærandi hafi aldrei verið á staðnum í fjölmörgum eftirlitsferðum sem farnar hafi verið að skráðu lögheimili hans. Þá hafi húseigandi en ekki kærandi verið viðriðinn það þegar ekið hafi verið á hund sem sloppið hafi hinn 18. desember 2013. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á málsaðili rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða, þar á meðal skýrslum sem kunna að hafa verið ritaðar um málsatvik. Er slíkur aðgangur nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og gera athugasemdir við framlögð gögn komi að fullu gagni. Í samræmi við þetta verður að telja að rétt hefði verið að veita kæranda aðgang að gögnum stjórnvaldsins er málið varðar, þ. á m. um þær eftirlitsheimsóknir sem heilbrigðiseftirlitið fór að Suðurlandsbraut 27 og vísað er til í greinargerð eftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar, enda ljóst að gögnin höfðu þýðingu við úrlausn þess.

Með vísan til þess sem að framan greinir skorti á að gætt væri að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að virtur væri upplýsingaréttur skv. 15. gr. þeirra og að fullnægt væri áskilnaði 22. gr. laganna um efni rökstuðnings vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Er ákvörðun heilbrigðisnefndar því verulegum annmörkum háð og verður hún felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014, um að afturkalla leyfi kæranda til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík, er felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

59/2012 Efnaferli Grindavík

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2012, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar, dags. 22. maí 2012, um að vísa frá umsókn Efnaferlis ehf. um starfsleyfi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2012, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir Efnaferli ehf.,  frávísun Umhverfisstofnunar, dags. 22. maí 2012, á umsókn um starfsleyfi vegna tilraunastöðvar í eimingartækni, aðgreiningu og endurheimt léttsjóðandi efnablanda.

Gögn frá Umhverfisstofnun bárust úrskurðarnefndinni 22. ágúst 2012.

Málavextir: Kærandi sótti um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja með bréfi, dagsettu 18. júní 2010, og var umsóknin framsend Umhverfisstofnun með bréfi, dagsettu 6. júlí s.á. Í umsókninni segir að ætlunin sé að þróa aðferðir til að endurvinna hráefni úr afgangsafurðum sem falli til í iðnaði. Starfsstöðin eigi að vera til húsa að Staðarsundi 7 í Grindavík. Umhverfisstofnun vísaði frá umsókn kæranda hinn 22. maí 2012 þar sem stofnunin taldi kæranda ekki hafa lagt fram tilskilin gögn.

Umhverfisstofnun tilkynnti kæranda, með tölvupósti 8. september 2010, að skila þyrfti afriti af deiliskipulagi með starfsleyfisumsókn, þá þyrfti að skila vátryggingu vegna bráðamengunartjóns og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar. Óskaði stofnunin enn fremur eftir upplýsingum um efnin sem vinna átti, nákvæmari útlistun á því hvernig tækjum og búnaði yrði komið fyrir, upplýsingum sem vörðuðu uppgufun spilliefna og um það hvert frárennsli yrði leitt. Kærandi sendi Umhverfisstofnun viðbótargögn sem bárust stofnuninni 10. september, 14. október og 26. nóvember 2010. Með bréfi, dagsettu 9. ágúst 2010, óskaði hann eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort starfsemin væri háð mati á umhverfisáhrifum. Svar Skipulagsstofnunar, þess efnis að ekki þyrfti að meta umhverfisáhrif, barst 8. október. Með tölvupósti 18. nóvember 2010 óskaði Umhverfisstofnun eftir því að kærandi sendi stofnuninni byggingarleyfi, sem ætti að koma í stað afrits af staðfestu deiliskipulagi, en deiliskipulag var ekki til fyrir svæðið.

Drög að starfsleyfi voru kynnt forsvarsmönnum kæranda 11. desember 2010 og send umsagnaraðilum, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, Slökkviliði Grindavíkur, Grindavíkurbæ og Skipulagsstofnun, 6. janúar 2011. Umsagnir bárust Umhverfisstofnun í janúar, en slökkviliðið fór fram á að lögð yrði fram brunahönnun og að fram færi áhættugreining. Var bréf þess efnis dagsett 27. janúar 2011. Með bréfi, dagsettu 28. desember 2010, veitti umhverfisráðuneytið kæranda undanþágu frá starfsleyfi, sem gilda skyldi til 1. júlí 2011.

Kærandi sendi Umhverfisstofnun umbeðna viðbragðsáætlun 27. janúar 2011. Hinn 22. febrúar s.á. barst svar frá Umhverfisstofnun þess efnis að í áætlunina vantaði áhættumatið sem viðbragðsáætlunin ætti að byggja á. Þá þyrfti að skila vátryggingu. Kærandi sendi áhættumat ásamt staðfestingu á tryggingu daginn eftir, hinn 23. s.m. Stofnunin tilkynnti með tölvupósti 1. mars að áhættumatið sem sent var hefði ekki verið unnið eftir réttum lögum og því þyrfti að endurvinna það. Kærandi sendi Umhverfisstofnun uppfærða áhættugreiningu 7. mars. Stofnunin tilkynnti kæranda með tölvupósti í apríl og með bréfi, dagsettu 16. maí 2011, að slökkviliðið krefðist þess að lögð yrði fram brunahönnun og áhættugreining. Afstaða slökkviliðsins barst Umhverfisstofnun 6. júlí s.á. og byggði hún á skýrslu frá kæranda frá deginum áður. Kæranda var með bréfi umhverfisráðuneytisins, dagsettu 13. júlí 2011, veitt framlengd undanþága frá starfsleyfi til 1. mars 2012.

Umhverfisstofnun sendi kæranda ný drög að starfsleyfi 22. ágúst 2011. Kærandi lagði hinn 24. s.m. til að drögunum yrði breytt á þann veg að heimilað yrði að geyma og meðhöndla spilliefni utandyra. Í svari stofnunarinnar 31. s.m. kom fram að sækja þyrfti um heimild til að meðhöndla spilliefni utandyra. Með tölvupósti 1. september s.á. tilkynnti kærandi að hann myndi ekki fara fram á útigeymslu, en með bréfi, dagsettu 29. s.m., sótti hann um heimild til geymslu hrávöru og afurða á útisvæði. Í tölvupósti frá Umhverfisstofnun 6. október 2011 kom fram að framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld og því þyrfti byggingarleyfið að liggja fyrir áður en breytt tillaga væri send umsagnaraðilum. Að auki þyrfti að senda Skipulagsstofnun einfalda tilkynningu og stofnunin myndi þá meta hvort tilkynna bæri starfsemina aftur vegna hugsanlegs mats á umhverfisáhrifum. Kærandi þyrfti einnig að endurskoða áhættumat og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar þannig að tekið yrði tillit til útigeymslunnar í þeim. Var þetta ítrekað í bréfi stofnunarinnar hinn 10. nóvember 2011. Kærandi lýsti því í bréfum að hann væri ósáttur við fyrirmælin. Óskaði hann eftir að starfsleyfisgerð yrði fram undið.

Með bréfi, dagsettu 13. apríl 2012, voru kröfur Umhverfisstofnunar ítrekaðar og jafnframt tilkynnt að stofnunin áformaði að vísa umsókn kæranda frá, með vísan til 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Fékk kærandi frest til 4. maí 2012 til að koma á framfæri andmælum og frekari gögnum. Vakin var athygli á því að ef kærandi kysi að draga umsókn sína um breytingu á starfsleyfi til baka myndi stofnunin halda vinnslu málsins áfram á grundvelli fyrri umsóknar. Var umsókninni vísað frá með bréfi Umhverfisstofnunar 22. s.m., svo sem fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur Umhverfisstofnun ekki hafa gefið skýrar leiðbeiningar um hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla svo að starfsleyfi yrði gefið út. Stofnunin hafi notað ómerkileg tilefni til að stöðva framvindu málsins. Hún hafi endurtekið breytt skilyrðum og snúið út úr málsatvikum. Slíkt vinnulag sé óásættanlegt og hafi augljóslega þann tilgang að torvelda framvindu málsins og setja tilvist starfseminnar, sem í hlut eigi, í uppnám. Kærandi vísi um þetta til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Í starfsleyfistillögunni, dagsettri 22. ágúst 2011, hafi Umhverfisstofnun bætt við atriðum sem ekki hafi verið í samræmi við umsókn kæranda. Eins hafi magn efnis sem geyma mætti verið minnkað frá fyrri tillögu. Kærandi hafi gert athugasemd við starfsleyfisdrögin og beðið um að bætt yrði við ákvæði sem heimilaði að geyma hrávöru og afurðir á útisvæði. Umhverfisstofnun hafi talið að þetta kallaði á nýtt stjórnsýslulegt ferli. Einnig hafi stofnunin krafist þess að byggingarleyfi fyrir útigeymslu yrði gefið út. Kærandi hafi mótmælt þessu. Fyrirtækið hafi ekki verið búið að taka endanlega ákvörðun um útiaðstöðu, en slíka ákvörðun sé ekki hægt að taka nema heimild sé fyrir aðstöðunni í starfsleyfi. Ekki hafi verið óskað eftir heimild til að framleiða meira eða auka umfang starfseminnar, heldur aðeins óskað eftir möguleika á að útbúa aðstöðuna. Ef það væri almenn regla að leggja þyrfti fram byggingarleyfi til að fá útgefið starfsleyfi myndu engin fyrirtæki geta komið sér upp starfsemi af neinu tagi. Starfsleyfið sé forsenda framkvæmda.

Kærandi telji augljóst að meðalhófsregla og jafnræðisregla hafi ekki verið virtar. Þá hafi Umhverfisstofnun misbeitt valdi sínu til að tefja málið. 

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Stofnunin telur ljóst af skriflegum samskiptum aðila hvaða kröfur gerðar hafi verið af hennar hálfu og hver sé lagagrundvöllur þeirra. Hafi stofnunin árangurslaust leitast við að leiðbeina kæranda um hvaða gögn hann þyrfti að leggja fram.

Í ágúst 2011 hafi legið fyrir starfsleyfistillaga á grundvelli upphaflegrar umsóknar. Stofnunin hafi aflað umsagna, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999, og unnið úr þeim athugasemdum sem komið hafi fram í þeim. Næsta skref í vinnslu starfsleyfisins hafi verið auglýsing tillögunnar, í samræmi við 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Umhverfisstofnun hafi borist erindi frá umsækjanda 29. september 2011, þar sem farið hafi verið fram á að starfsleyfið tæki til þátta sem ekki hefði verið sótt um áður. Viðbæturnar hafi kallað á að umsækjandi legði fram frekari gögn með umsókninni og hafi Umhverfisstofnun upplýst kæranda um þetta, með tölvupósti 6. október 2011 og bréfi 10. nóvember s.á.

Umhverfisstofnun telji að málefnalegar ástæður og skýr heimild hafi verið fyrir því að óska eftir gögnum en kærandi virðist byggja á því að krafa um viðbótargögn vegna fyrirhugaðrar útigeymslu eigi sér ekki lagastoð. Í tölvupósti Umhverfisstofnunar 6. október 2011 segi í fyrsta lagi að afla þurfi staðfestingar Skipulagsstofnunar varðandi mat á umhverfisáhrifum, með vísan til 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í öðru lagi hafi stofnunin farið fram á að kærandi endurskoðaði áhættumat og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar. Í þriðja lagi hafi kærandi þurft að skila byggingarleyfi vegna útigeymslunnar. Þessi krafa byggi á b-lið 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999, þar sem segi að umsækjendum um starfsleyfi beri að leggja fram afrit af staðfestu deiliskipulagi þess svæðis þar sem starfsemin sé fyrirhuguð. Umhverfisstofnun hafi almennt miðað við að þar sem ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag, og fyrirhuguð starfsemi hafi ekki í för með sér framkvæmdir eða breytingu á landnotkun, sé lagt fram byggingarleyfi.

Af hálfu Umhverfisstofnunar hafi ítrekað verið bent á að ef kærandi félli frá viðbótarumsókn sinni um útigeymslu væri ekkert því til fyrirstöðu að auglýsa starfsleyfistillöguna á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Kærandi hafi hins vegar kosið að gera það ekki og leggja ekki heldur fram umbeðin gögn. Í ljósi þessa hafi honum verið sent bréf, dagsett 13. apríl 2012, þar sem tilkynnt hafi verið að Umhverfisstofnun áformaði að vísa umsókn hans frá innan tiltekins frests. Hvorki hafi borist gögn né hafi kærandi haft samband við stofnunina innan frestsins. Hafi umsókninni því verið vísað frá.
_____________

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að vísa starfsleyfisumsókn kæranda frá með þeim rökum að ekki hefði verið staðið skil á gögnum, nánar tiltekið afriti af byggingarleyfi fyrir útisvæði og endurskoðuðu áhættumati og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir setur ráðherra almenn ákvæði í reglugerð og m.a. með vísan til þess hefur reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, verið sett. Þau gögn sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi, eins og við á hverju sinni, eru talin í 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar. Utan þess sem þar er talið þarf áætlun um viðbrögð vegna bráðamengunar, sem byggð er á áhættumati, að fylgja starfsleyfisumsókn, sbr. b-lið 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 1077/2005. Þá er tiltekið í 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar að útgefandi skuli vísa frá umsókn um starfsleyfi skriflega telji hann upplýsingar í henni ófullnægjandi.

Atvik málsins eru ítarlega rakin í málavöxtum en drög að starfsleyfi voru kynnt kæranda 22. ágúst 2011. Kærandi sendi tillögur að breytingum á starfsleyfinu með tölvupósti 24. s.m., þar sem aðallega var lagt til að heimilað yrði að geyma og meðhöndla spilliefni utandyra, og í bréfi til Umhverfisstofnunar, dagsettu 29. s.m., óskaði kærandi eftir að starfsleyfi innihéldi heimild fyrir útisvæði til geymslu efna. Ljóst er að ef bætt yrði við útiaðstöðu myndi möguleiki myndast á að umfang rekstrarins yrði meira, staðhættir á vinnslustað breytast, og magn efna sem heimilt yrði að geyma á vinnustaðnum myndi aukast, sbr. a-, c- og d-lið 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Upplýsingar um nefnd atriði skulu samkvæmt tilvitnuðu ákvæði fylgja umsókn um starfsleyfi og verður að telja að Umhverfisstofnun hafi verið rétt að gera kröfu um að send yrði ný umsókn. Þá verður að telja eðlilegt af stofnuninni að gera kröfu um endurskoðað áhættumat og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar, að teknu tilliti til breyttra forsenda, enda er gerð fortakslaus krafa um að þessi gögn fylgi starfsleyfisumsókn skv. b-lið 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar, sbr. breytingarreglugerð nr. 1077/2005.

Umhverfisstofnun krafðist þess einnig, með vísan til b-liðar 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999, að byggingarleyfi yrði lagt fram, en deiliskipulag lá ekki fyrir. Í 2. mgr. 10. gr. er gert ráð fyrir að gögn fylgi umsókn eftir því sem við á hverju sinni. Í b-lið segir að deiliskipulag skuli fylgja umsókn. Verður ekki annað séð en að Umhverfisstofnun hafi metið það svo að leggja þyrfti fram deiliskipulag samkvæmt vegna umsóknarinnar, en að því slepptu skyldi farið fram á byggingarleyfi. Í deiliskipulagi eru m.a. teknar ákvarðanir um lóðir og skipulagsforsendur þær sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Að auki er skipulagstillaga kynnt fyrir íbúum og hagsmunaaðilum. Krafa um að byggingarleyfi sé lagt fram er til þess fallin að ná sama markmiði og krafa um deiliskipulag hvað varðar aðkomu sveitarfélags en sveitarfélag skoðar samræmi leyfis við skipulag svæðisins og sér, eftir atvikum, til þess að það sé kynnt, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður því ekki annað séð en að málefnaleg rök og meðalhóf hafi staðið að baki því mati Umhverfisstofnunar að gera kröfu um að byggingarleyfi yrði lagt fram og tryggja með því aðkomu sveitarfélagsins.

Frávísun Umhverfisstofnunar og kröfur um framlagningu gagna vegna þeirrar viðbótar sem fólst í umsókn um starfsaðstöðu utandyra voru samkvæmt framangreindu í samræmi við nefnd laga- og reglugerðarákvæði.

Einnig er deilt um það í málinu hvort brotið hafi verið gegn leiðbeiningarreglu og hvort Umhverfisstofnun hafi tafið málið með því að kalla eftir gögnum sem ekki var þörf fyrir. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum voru fyrstu drög að starfsleyfi kynnt kæranda 11. desember 2010 og ný drög kynnt honum 22. ágúst 2011, að fengnum umsögnum umsagnaraðila. Mælt er fyrir um skyldu Umhverfisstofnunar til að leita umsagna í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Drög að starfsleyfistillögu voru send til umsagnaraðila 6. janúar 2011 og bárust umsagnir tímanlega utan þess að Slökkvilið Grindavíkur taldi að vinna þyrfti brunahönnun og áhættugreiningu. Ljóst er að öflun umsagna og kröfur slökkviliðsins höfðu áhrif á framvindu málsins og að Umhverfisstofnun hefði getað tilkynnt kæranda fyrr um það að slökkviliðið krefðist brunahönnunar og áhættugreiningar, en kæranda varð fyrst kunnugt um það í byrjun mars 2011. Hins vegar voru á sama tíma samskipti milli kæranda og Umhverfisstofnunar um önnur atriði. Þannig sendi kærandi viðbragðsáætlun 27. janúar 2011 og er því lýst að Umhverfisstofnun hafi þurft að leiðbeina kæranda um vinnslu áætlunarinnar. Sendi kærandi loks uppfærða áhættugreiningu 7. mars s.á. Þá er á það að líta að afstaða slökkviliðsins, sem byggð var á skýrslu um mat á brunavörnum sem kærandi lét vinna og dagsett var 5. júlí 2011, barst Umhverfisstofnun tafarlaust, eða 6. júlí s.á., og að í ágúst 2011 lá fyrir starfsleyfistillaga á grundvelli upprunalegrar umsóknar. Hefði næsta skref verið auglýsing tillögunnar. Eftir að kallað var eftir gögnum haustið 2011 verður að telja að viðbrögð kæranda sjálfs hafi haft áhrif á að málið dróst, enda verður umsókn um starfsleyfi, eðli málsins samkvæmt, ekki afgreidd nema umsækjandi leggi fram nauðsynleg gögn, annað hvort af sjálfsdáðum eða í kjölfar leiðbeininga yfirvalda.

Ekki er talið að vinnsla starfsleyfisins hafi tekið óeðlilega langan tíma, en umsagna var leitað og kæranda leiðbeint um þau gögn sem hann þurfti að leggja fram. Þá fékk kærandi undanþágu frá starfsleyfi, sem þýddi að hann gat hafið starfsemi. Líta verður svo á að kæranda hafi verið veittar réttar upplýsingar sem hafi verið nógu ítarlegar til að honum væri unnt að gæta hagsmuna sinna. Þannig var honum leiðbeint um þann möguleika að fá starfsleyfistillöguna auglýsta eins og hún var félli hann frá umsókn um útisvæði. Verður því ekki annað ráðið af gögnum málsins um samskipti Umhverfisstofnunar og kæranda en að honum hafi ítrekað verið veittar ítarlegar upplýsingar um framvindu mála, sem og leiðbeiningar í samræmi við ákvæði 7. og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en kom til frávísunar af hálfu stofnunarinnar.

Í samræmi við allt ofangreint verður kröfu kæranda hafnað.

Meðferð málsins hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar, dags. 22. maí 2012, um að vísa frá umsókn hans um starfsleyfi vegna tilraunastöðvar í eimingartækni, aðgreiningu og endurheimt léttsjóðandi efnablanda.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

27/2012 Laugarásvegur

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012, sem staðfest var í borgarráði 15. s.m., um að veita leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg og reisa í hennar stað tvílyfta, steinsteypta byggingu á baklóð er tengist húsinu með tengigangi úr timbri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. mars 2012, er barst nefndinni 3. apríl s.á., kærir Sigurður G. Guðjónsson hrl., fyrir hönd S, Laugarásvegi 23, Reykjavík, samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012 á umsókn um leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins að Laugarásvegi 25 og reisa í hennar stað tvílyfta byggingu úr steinsteypu á baklóð sem tengist húsinu með tengigangi úr timbri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um stöðvun framkvæmda, en fyrir liggur að engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg stendur 99,2 m² timburhús, byggt árið 1935 samkvæmt skráningu í fasteignaskrá.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 9. ágúst 2011 var tekin til afgreiðslu fyrirspurn um hvort fjarlægja mætti timburskúr er áfastur væri húsinu og reisa í hans stað tveggja hæða viðbyggingu á lóðinni.  Var tekið jákvætt í erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember s.á. var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins og reisa í þess stað tvílyfta byggingu úr steinsteypu á baklóð er tengjast myndi núverandi húsi með gangi úr timbri.  Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 11. s.m. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Laugarásvegi 19, 21, 23 og 27.  Bárust athugasemdir og ábendingar frá kæranda og eigendum Laugarásvegar 21, en eigandi Laugarásvegar 19 tilgreindi í bréfi að hann hefði engar athugasemdir fram að færa.  Málið var næst til umfjöllunar á embættis afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 13. janúar 2012 og vísaði hann því áfram til skipulagsráðs.  Á fundi ráðsins hinn 29. febrúar s.á. var lögð fram umsögn skipulagsstjóra vegna málsins, dags. 17. janúar s.á., og fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við erindið með vísan til umsagnarinnar og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.  Var þessi afgreiðsla skipulagsráðs samþykkt á fundi borgarráðs hinn 1. mars 2012.  Hinn 6. s.m. var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og hún samþykkt með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010.  Með vísan til samþykktar borgarráðs frá 1. september 1998 skal utanhúss- og lóðarfrágangi vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektarákvæðum 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest í borgarráði 15. mars 2012.  Þeim sem gert höfðu athugasemdir á grenndarkynningartíma var tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi dags. 7. mars 2012. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að fram komi í lóðarleigusamningi fyrir lóðina Laugarásveg 25, dags. 5. ágúst 1955, að þáverandi leigutaki hafi þegar hafið byggingu íbúðarhúss á lóðinni.  Engin gögn hafi fundist um að byggingarleyfi hafi verið gefið út eða að fyrir hendi séu uppdrættir að húsi því er leigutaki hafi ætlað að reisa.  Mæliblað fyrir lóðina frá 27. júlí 1955 sýni aðeins staðsetningu þess húss á lóðinni er reist hafi verið árið 1935.  Í kaupsamningi núverandi eiganda um fasteignina komi fram að um kvaðir fari samkvæmt fyrrgreindum lóðarleigusamningi.  Hluti þess samnings sé mæliblað fyrir lóðirnar nr. 19, 21, 23 og 25 við Laugarásveg.  Þar sé m.a. kveðið á um umferðarkvöð en eigandi Laugarásvegar 25 hafi að nokkru gengið á þann rétt með því að nota umferðarsvæðið sem bílastæði. 

Lög nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa hafi gilt þegar lóðir nr. 23 og 25 hafi verið leigðar og hafi efni lóðarleigusamninganna orðið að samrýmast þeim lögum, en í c-lið 11. gr. þeirra hafi verið kveðið á um fjarlægðir milli húshliða í íbúðargötum.  Liggi ekki fyrir skipulagsuppdráttur fyrir lóðirnar nr. 19, 21, 23 og 25 er byggi á lögum nr. 55/1921, eða lögum nr. 19/1964, sem hafi leyst hin fyrrgreindu lög af hólmi.  Þá sé ekki til deiliskipulag að umræddu svæði en það veiti byggingaryfirvöldum ekki rýmri rétt til útgáfu byggingarleyfis.  Við mat á því hvort heimiluð nýbygging samrýmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar á svæðinu verði að leggja til grundvallar það sem ákveðið hafi verið árið 1955 þegar lóðin hafi verið leigð til 75 ára og leyfi veitt til bygginga.  Sé nýbyggingin í engu samræmi við það sem ákveðið hafi verið þegar landsvæðinu hafi verið úthlutað undir einbýlishús. 

Neðri hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar sé tuttugu metrar að lengd frá norðri til suðurs og efri hæð hennar um þrettán metrar.  Húsið muni verða í fjögurra metra fjarlægð frá mörkum lóða Laugarásvegar 23 og 25 en núverandi hús á lóð nr. 25 sé um átján metra frá lóðarmörkum Laugarásvegar 23.  Fyrirhuguð staðsetning nýbyggingar sé í engu samræmi við þinglýst mæliblað lóðanna nr. 19, 21, 23 og 25 við Laugarásveg, sem verði að telja bindandi yfirlýsingu um staðsetningu mannvirkja á lóðunum.  Verði nýtt mannvirki á lóð nr. 25 að vera í samræmi við þau hús sem fyrir séu á lóðum nr. 19, 21 og 23 eða eins og húsið sem fyrir sé á lóðinni.  Geti borgaryfirvöld ekki leyft blandaða byggð á lóðinni nr. 25 sem nái langt út fyrir þau mörk sem núverandi byggingu séu sett. 

Hvergi séu fyrirheit um það í lóðarleigusamningi um Laugarásveg 25 að lóðarhafi geti fengið að nýta lóðina með öðrum hætti en þeim sem heimilað hafi verið árið 1955.  Þáverandi leigutaki hafi einnig skuldbundið sig til að ljúka framkvæmdum á lóðinni innan tveggja ára frá gerð samningsins, að öðrum kosti félli hann úr gildi.  Ákvæði þessu hljóti að hafa vera ætlað að tryggja að nágrannar þyrftu ekki að þola framkvæmdir á aðliggjandi lóðum um aldur og ævi eða að byggingum á lóðum þessum og staðsetningu þeirra yrði gjörbreytt.  Séu breytingum settar skorður og verði þær að vera óverulegar miðað við þær forsendur sem til staðar hafi verið þegar leyfi til byggingar hafi verið veitt.  Til grundvallar því mati verði að leggja lóðarleigusamninga og byggingarleyfi sem veitt hafi verið til að byggja á lóðunum nr. 23 og 25 við Laugarásveg.  Þegar horft sé til þessara gagna verði ekki séð að nokkur efnis- eða lagarök styðji að kærandi þurfi, liðlega hálfri öld eftir að hann flutti í hús sitt, að þola að á næstu lóð sé leyft að byggja hús sem sé allt annarrar gerðar og standi nær lóðamörkum en hús er þar hafi verið.  Réttur lóðarhafa að Laugarásvegi 25 standi til þess eins að nýta þá lóð með þeim hætti sem upphaflegum leigulóðarhafa hafi verið heimilað.  Staðsetning og stærð húsanna á lóðunum nr. 19, 21 og 23 skapi eiganda lóðarinnar að Laugarásvegi 25 engan rétt til að stækka mannvirki á lóðinni og gjörbreyta þeim.  Þá vísi kærandi til VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. ákvæði 23.-26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Þess er krafist að kröfum um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúa verði hafnað.  Það sé með öllu fráleitt og eigi sér enga stoð í lögum og samningum að upphaflegur lóðarleigusamningur bindi lóðarhafa og sveitarfélög á þann hátt að ekki sé heimilt að byggja ný hús síðar.  Geymi samningur um umrædda lóð engar takmarkanir á uppbyggingarheimildum lóðarinnar enda sé hann fyrst og fremst samningur um endurgjald fyrir leigu.  Engir aðrir skilmálar séu settir í samninginn sem bendi til þess að ekki megi byggja á lóðinni um aldur og ævi.  Ákvæði í lóðarleigusamningum um fresti til framkvæmda eigi við um viðkomandi framkvæmd á þeim tíma þegar samningar séu gerðir, en ekki sé hægt að skýra slík ákvæði þannig að þau takmarki breytingar á lóðunum síðar meir.  Það sé eðli byggðar að þróast og breytast og geti íbúar í þéttri byggð ekki vænst þess að nánasta umhverfi þeirra taki ekki neinum breytingum, nema smávægilegum, í tímans rás. 

Lóðin sé á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 en ekki sé í gildi deiliskipulag að svæðinu.  Þegar svo hátti til sé umsókn um byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum grenndarkynnt, enda teljist fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í hlutaðeigandi hverfi.  Nýtingarhlutfall lóða í nánasta umhverfi sé allt frá 0,27 upp í 0,49.  Sé nýtingarhlutfall á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg 0,09 en verði 0,261.  Flatarmál lóðarinnar sé 1.106 m² og þoli hún vel aukna nýtingu en heimilað byggingarmagn sé í fullu samræmi við nánasta umhverfi.  Lóð kæranda sé 784 m² og nýtingarhlutfall allt að 0,27.  Nýbyggingin verði fjóra metra frá lóðarmörkum en sú fjarlægð sé ekki óalgeng í hverfinu.  Sé í því sambandi bent á að fjarlægð húss kæranda að lóðamörkum austan megin sé 3,5 metrar. 

Hæsti punktur efri hæðar nýbyggingar sé í svipaðri hæð og neðri brún glugga á efri hæð aðlægrar hliðar að Laugarásvegi 23.  Þann hluta hússins, sem sé á tveimur hæðum, beri að miklu leyti í eldra hús sem nú þegar takmarki útsýni kæranda.  Muni aukið byggingarmagn hafa óveruleg áhrif á skuggavarp og skýrist það af því að hús kæranda standi miklu hærra í landinu en fyrirhuguð nýbygging og núverandi hús að Laugarásvegi 25.  Sé byggðamynstri í hverfinu þannig háttað að byggt hafi verið á austurhluta lóðanna nærri lóðarmörkum.  Sé einnig gert ráð fyrir því í samþykktri umsókn, þrátt fyrir að afstaða núverandi húss á umræddri lóð sé ólík öðrum húsum við götuna, sem standi yfirleitt aftar á lóðum sínum.  Verði ekki séð að fyrirhuguð nýbygging muni skerða hagsmuni kæranda á neinn hátt, en um sé að ræða eðlilega og hóflega nýtingu á lóðinni, sambærilega eða vel undir því sem algengt sé í nágrenninu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kosti að þeim verði hafnað. 

Bent sé á varðandi heimild til framkvæmda að samkvæmt ýmsum gögnum, t.d. lóðarleigusamningi frá 5. ágúst 1955 fyrir umrædda lóð, mæliblaði fyrir lóðina og skipulagsuppdrætti, sem merktur sé „Skipulag í Laugarási“, sé gert ráð fyrir nýbyggingu þar sem nú standi til að byggja, í línu við önnur hús í götunni samkvæmt skipulagi. 

Nær ekkert sé tiltekið í kæru um að umrædd framkvæmd gangi gegn beinum hagsmunum kæranda, sem leiði til þess að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta er réttlætt geti ógildingu byggingarleyfisins.  Gangi nær allur málflutningur kæranda út á að leiða líkur að því að umrædd framkvæmd gangi mögulega gegn upphaflegum lóðarleigusamningum, byggðamynstri, áætlunum um landnýtingu eða öðrum skipulagsskilmálum og vísi byggingarleyfishafi í því sambandi til fyrrgreindra heimilda fyrir framkvæmdum, sem og til afstöðu skipulagsyfirvalda til málsins.  Komi fram ýmsar rangfærslur eða misskilningur hjá kæranda, en á tilgreindu mæliblaði komi skýrt fram afmörkun til norðurs og vesturs fyrir nýbyggingu á umræddum stað.  Staðhæfingar séu mótsagnakenndar og ruglingslegar um hvað byggja megi á lóðinni og hvað ekki.  Í engu sé vikið að lagalegum skyldum eða öðrum rökum fyrir því að samþykkja umsóknina. 

Úrskurðarnefndinni virðist þannig ætlað að velja einhver þeirra raka sem reifuð séu til að hrekja niðurstöðu skipulagsyfirvalda á þeim forsendum að umrætt leyfi hljóti að vera ólöglegt.  Enginn rök standi til þess.  Þá séu heldur ekki tilteknir neinir þeir lögvörðu hagsmunir sem brotið hafi verið gegn.  Varðandi þessi atriði sé kærandi einfaldlega ekki málsaðili eða umsagnaraðili frekar en aðrir borgarbúar heldur sé það hlutverk Reykjavíkurborgar að taka hér afstöðu, svo sem gert hafi verið með útgáfu leyfisins.  Kæruréttur og möguleg málsaðild kæranda snúi eingöngu að þeim atriðum í byggingarframkvæmdinni sjálfri sem hann telji sig geta sýnt fram á að gangi gegn lögvörðum hagsmunum hans. 

Kærandi hafi teflt fram fjölda athugasemda við grenndarkynningu og hafi þau verið hrakin og sé þeim ekki lengur haldið fram.  Eftir standi aðeins léttvæg atriði sem lúti að meintu ónæði af fyrirhuguðum framkvæmdum.  Hafi aðrir nágrannar ekki gert neinar athugasemdir og góð sátt verið um framkvæmdina, sem fengið hafi ítarlega umfjöllun hjá skipulagsyfirvöldum. 

Með fyrirhuguðum framkvæmdum sé fyrst farið að nýta lóðina samkvæmt nýjasta skipulagi á svæðinu sem sé frá 6. áratug síðustu aldar.  Sé gengið mun skemur í nýtingu en alls staðar í nágrenninu sem lýsi sér t.d. í að nýtingarhlutfall sé það lægsta í nágrenninu eða um 0,25.  Mesta hæð hússins sé tveimur metrum undir línu sem dregin sé milli aðliggjandi húsa nr. 19 og 27.  Mannvirki á lóðinni séu í meiri fjarlægð frá lóðarmörkum en mannvirki á aðliggjandi lóðum og fyrirhuguð mannvirki séu minnst 16 m frá húsi kæranda og standi um þremur metrum neðar í landinu.  Sé gengið skemur í nýtingu lóðarinnar en hægt hefði verið samkvæmt upphaflegu skipulagi og að teknu tilliti til nýtingar næstu lóða.  Njóti kærandi góðs af þeirri lausn sem valin hafi verið enda sé skuggavarpi á baklóð hans og skerðingu á útsýni haldið í lágmarki.  Vegna hæðarmunar, fjarlægðar og afstöðu verði skuggavarp á lóð kæranda nánast ekkert allan þann tíma sem sólar njóti. 

Við hönnun hússins hafi verið lögð mikil áhersla á að það félli sem allra best að umhverfi sínu og nálægum byggingum og að uppbyggingin á lóðinni myndi stuðla frekar að auknu verðmæti nálægra húsa en hinu gagnstæða.  Sé vandséð hvernig kærandi getið beðið tjón af þessu.  Hafi hús það sem fyrir sé á lóðinni verið varðveitt í sínu upphaflega umhverfi en jafnframt hafi verið náð fram aukinni nýtingu á lóðinni á eins tillitssaman hátt gagnvart umhverfinu og mögulegt sé. 

Einnig sé bent á að tilvitnaðar lengdir fyrirhugaðrar byggingar séu nánast þær sömu og eigi við um hús kæranda, sem þó standi á talsvert minni lóð. 

Þá sé vandséð að ekki megi fara í nokkurra mánaða framkvæmdir á lóðinni á 50-60 ára fresti, líkt og gert hafi verið alls staðar í nágrenninu, og að ekki megi byggja á lóðinni þótt framkvæmdum við nýbyggingu, sem leyfi hafi verið veitt fyrir á sínum tíma, hafi ekki lokið á árunum 1955 til 1957.  Jafnframt sé bent á vegna athugasemda um umferðarkvöð að samkvæmt samþykktu byggingarleyfi muni verða bílastæði fyrir innan snúningssvæði, sem tryggi að því verði haldið opnu og greiðfæru fyrir alla. 

Virðist sem kærandi vilji hafa nánast autt svæði fyrir framan sig um alla framtíð og koma í veg fyrir að þar sé byggt upp með eðlilegri nýtingu og í samræmi við nýjasta skipulag, sem geri ótvírætt ráð fyrir byggingu á þessum stað.  Sé um ólíka hagsmuni að ræða, þ.e. annars vegar ríka og réttmæta hagsmuni byggingarleyfishafa og borgarinnar, og hins vegar mótmæli eins nágranna sem ekki geti bent á nein dæmi um að hagsmunir hans séu skertir. 

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess.

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 25. apríl 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins þriggja mánaða frests til uppkvaðningar úrskurðar. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Laugarásvegi 25, sem veitt var að undangenginni grenndarkynningu.  Var á því byggt við leyfisveitingu að ekki væri í gildi deiliskipulag að umræddu svæði.  Má á það fallast, enda hafði skipulag í Laugarási, samþykkt í bæjarráði Reykjavíkur 19. maí 1953, ekki verið sent Skipulagsstofnun í samræmi við 5. tl. ákvæða til bráðabirgða með skipulagslögum nr. 123/2010 þegar umsókn um hið kærða byggingarleyfi kom til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum.  Þá rann út frestur til skráningar eldri skipulagsákvarðana samkvæmt ákvæðinu hinn 31. desember 2011 og kemur umrætt skipulag ekki til álita eftir það. 

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu.  Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Leiðir af þessum ákvæðum að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segir hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir, eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.  Í 2. mgr. 44. gr. sömu laga er því síðan lýst hvernig staðið skuli að grenndarkynningu og kemur þar fram að sveitarstjórn afgreiði, að kynningarfresti liðnum, mál sem sæti slíkri meðferð. 

Skilyrði þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að fyrir liggi deiliskipulag eru að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.  Í hinu kærða tilviki er um að ræða leyfi til byggingar íbúðarhúsnæðis á lóð í grónu hverfi á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði í gildandi aðalskipulagi.  Töluverður hæðarmunur er milli lóða og dregur hann verulega úr grenndaráhrifum umdeildrar nýbyggingar gagnvart eign kæranda.  Nýtingarhlutfall, sem er mælikvarði á þéttleika byggðar, er í góðu samræmi við það sem gerist á svæðinu.  Þá verður ekki talið að gerð nýbyggingar eða fyrirkomulag mannvirkja á lóð skeri sig úr með þeim hætti að ekki samræmist byggðamynstri enda um nokkuð fjölbreytta byggð að ræða.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að heimilt hafi verið að veita byggingarleyfi það sem um er deilt í málinu á grundvelli grenndarkynningar og verður því ekki fallist á að ógilda beri það með þeim rökum að ekki hafi verið gætt réttrar aðferðar við undirbúning leyfisveitingarinnar. 

Kærandi vísar til þess að í lóðarleigusamningi um lóðina nr. 25 við Laugarásveg séu ákvæði um að byggingu á lóðinni skuli lokið innan tveggja ára og að samningurinn setji heimildum lóðarhafa til bygginga á lóðinni skorður.  Sé óheimilt að leyfa byggingar á lóðinni umfram það sem leiði af umræddum samningi.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Algengt er að við úthlutun lóða séu sett ákvæði, t.d. í byggingarskilmálum, um byggingarhraða og um lok byggingartíma.  Eru slík ákvæði sett til að tryggja að bygging húsa dragist ekki úr hófi en ekki verður talið að slík ákvæði girði fyrir rétt til endurbyggingar húsa, viðbygginga eða breytinga síðar.  Ráðast heimildir til byggingar á lóðum af gildandi skipulagi, ásamt þeim heimildum laga og reglugerða er gilda á hverjum tíma, þar á meðal heimildum til að víkja frá skilyrðum skipulagslaga um deiliskipulag, þar sem þær eiga við. 

Nokkurrar ónákvæmni gætti af hálfu borgaryfirvalda við meðferð málsins.  Þannig vísaði skipulagsráð málinu að lokinni grenndarkynningu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa í stað þess að vísa því til borgarráðs til afgreiðslu, en í 44. gr. skipulagslaga er gert ráð fyrir að sveitarstjórn afgreiði mál að lokinni grenndarkynningu.  Borgarráð samþykkti hins vegar afgreiðslu skipulagsráðs áður en málið kom til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa og verður nefndur ágalli á málsmeðferð því ekki látinn varða ógildingu.  Þá skorti á að kæranda væri tilkynnt um niðurstöðu sveitarstjórnar þegar hún lá fyrir hinn 1. mars. 2012, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en með hliðsjón af því að honum var skömmu síðar tilkynnt um endanlega ákvörðun byggingarfulltrúa í málinu verður þessi annmarki ekki heldur talinn varða ógildingu.
Að þessu athuguðu, og með vísan til þess sem að framan er rakið, verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar í málinu og stafar hann af önnum hjá úrskurðarnefndinni og töfum við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012, sem staðfest var í borgarrráði 15. s.m., um að veita leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg í Reykjavík og reisa í þess stað tvílyfta steinsteypta byggingu á baklóð er tengist húsinu með tengigangi úr timbri. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

14/2012 Aragata

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2012, kæra á samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. janúar 2012 á umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með timburþaki á lóð nr. 15 við Aragötu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Aragötu 13, Reykjavík, samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. janúar 2012 á umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með timburþaki á lóð nr. 15 við Aragötu í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 15 við Aragötu hefur staðið einbýlishús og bílskúr úr timbri.  Hinn 12. október 2010 var samþykkt leyfi til að rífa nefndan bílskúr.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr í stað hins eldri á lóðinni.  Málinu var vísað til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu, sem ákvað á fundi sínum 4. nóvember s.á. að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Aragötu 13, 14 og 16 og Oddagötu 14 og 16.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 9. desember 2011. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 11. janúar 2012 og lá þá fyrir umsögn skipulagsstjóra frá 15. desember 2011 þar sem lagt var til að byggingarleyfisumsóknin yrði samþykkt óbreytt.  Með vísan til umsagnar skipulagsstjóra var ekki gerð athugasemd við erindið og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.  Samþykkti borgarráð afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 12. janúar 2012.  Málið var loks tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 31. janúar 2012 og var umsóknin samþykkt.  Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 1. febrúar 2012. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að annmarkar séu á málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar. 

Vísar hann til þess að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og andmælum áður en málið hafi verið afgreitt af byggingarfulltrúa.  Ýmislegt nýtt hafi komið fram við afgreiðslu málsins sem honum hafi verið ókunnugt um og hafi hann ekki fengið gögn afhent fyrr en við eftirgrennslan.  Í þessu felist brot á andmælarétti og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi eigi verulegra hagsmuna að gæta enda sé verið að byggja að mörkum lóðar hans.  Um sé að ræða verulega stækkun á bílskúr, bæði í fermetrum og rúmmetrum.  Þá sé jafnframt um að ræða verulega breytingu frá staðsetningu eldri bílskúrs, eldri teikningum og samþykktu skipulagi.  Hinn nýi bílskúr muni takmarka nýtingu lóðar kæranda þar sem eigendur Aragötu 15 þurfi að vera inni á lóð hans við viðhald á bílskúrnum.  Lóð nr. 15 sé um 750 m² að stærð og því sé ekki verið að skerða nýtingu lóðarréttinda þótt miðað yrði við staðsetningu eldri skúrs sem hafi staðið nokkuð frá lóðarmörkum kæranda.  Þá hafi hvorki verið gert ráð fyrir að byggt yrði að lóðamörkum samkvæmt eldri teikningu né hafi sú heimild verið til staðar þegar núverandi eigandi keypti húsið.  Þurfi því samþykki rétthafa aðliggjandi lóða fyrir byggingu við lóðamörk.  Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að víkja frá lögskipuðu ástandi án nokkurs rökstuðnings.  Bílskúrinn breyti ásýnd götunnar og mótmælt sé einnig breyttu þakformi bílskúrsins frá því sem hafi verið á fyrri bílskúr.  Í umsögn skipulagsstjóra sé einungis vikið að því að nýi bílskúrinn sé 8 m² stærri en sá sem fyrir hafi verið en ekki sé minnst á 30 m³ stækkun skúrsins. 

Ekki hafi verið svarað til um nýtingarhlutfall á lóðinni og hvort það sé í samræmi við staðfest skipulag.  Þá hafi stækkun bílskúrsins í rúmmetrum í för með sér birtuskerðingu í garði kæranda, en um sé að ræða aðalgarð hússins í sólarátt. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist af kröfu kæranda verði hafnað. 

Því sé hafnað að kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að andmælum við umsögn skipulagsstjóra.  Kærandi hafi verið talinn eiga hagsmuna að gæta í málinu og hafi honum verið veittur andmælaréttur með grenndarkynningu, svo sem lögboðið sé við ákveðnar aðstæður, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Kærandi hafi andmælt með athugasemdabréfi sínu, sem síðan hafi farið til efnismeðferðar hjá stjórnvaldinu.  Reykjavíkurborg sé eitt stjórnvald í skilningi stjórnsýsluréttar og hafi andmælaregla stjórnsýslulaga ekki verið brotin. 

Rétt sé að í umsögn skipulagsstjóra sé einungis fjallað um stækkun bílskúrsins í fermetrum en ekki rúmmetrum og sé hlutfallsleg stækkun skúrsins 30% í fermetrum en muni vera 50% mæld í rúmmetrum.  Það sé sennilega vegna breyttrar þakgerðar en þetta sé eðlileg stækkun frá meira en hálfrar aldar gömlum bílskúr sé tekið mið af nútímaþörfum.  Því teljist þetta ekki vera veruleg breyting. 

Ekki sé fallist á að hinn nýi bílskúr muni breyta ásýnd götunnar það mikið að byggingin sé ekki réttlætanleg.  Hinn nýi bílskúr verði með öðru þakformi en hafi verið á þeim eldri.  Elstu bílskúrar á svæðinu séu með lítt hallandi mænisþaki og þeir sem byggðir hafi verið síðar séu margir hverjir með flötu þaki.  Mikilvægt þyki að endurbyggðir bílskúrar séu þannig að þeir hafi hlutlaust yfirbragð.  Markmiðið sé að íbúðarhús á þeim lóðum þar sem bílskúra sé að finna séu í aðalhluverki hvað yfirbragð og ásýnd varði.  Flatt eða lítt hallandi þak sé talið uppfylla þessi markmið og sé hvort tveggja hluti af byggðamynstri bílskúra á svæðinu.  Staðsetning bílskúra við Aragötu sé með ýmsum hætti og liggi þeir oft að lóðamörkum á tvo vegu eða mjög nálægt lóðamörkum, líkt og bent sé á í umsögn skipulagsstjóra.  Því sé harðlega mótmælt að um óvönduð vinnubrögð skipulags- og byggingarsviðs hafi verið að ræða í málinu og að sviðið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni.  Ekki sé verið að víkja frá lögskipuðu ástandi með hinu kærða byggingarleyfi enda verði hinn nýi skúr á sama stað og sá eldri og í samræmi við byggðamynstur svæðisins.  Bílskúrar á svæðinu standi innst á lóðum og hafi því lítil áhrif á götumyndina.  Þá sé það vel þekkt fyrirkomulag í mörgum hverfum borgarinnar að hafa bílskúra við lóðamörk þótt í því felist að lóðareigendur verði almennt að þola að gengið sé tímabundið um lóð þeirra vegna viðhalds skúranna.  Ekki sé fallist á að slík viðhaldsvinna muni takmarka nýtingu lóðar kæranda. 

Umrætt svæði hafi ekki verið deiliskipulagt og því hafi umsókn byggingarleyfishafa verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.  Nýtingarhlutfall á lóðinni nr. 15 við Aragötu sé nú 0,27 og verði með nýjum bílskúr 0,28.  Nýtingarhlutfall Aragötu 13 sé mjög svipað eða 0,27 þó ekki sé þar bílskúr. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að ekki sé verið að ganga á rétt kæranda þótt bílskúr sé endurnýjaður við lóðamörk.  Eldri bílskúr á lóð nr. 15 við Aragötu hafi verið 7,0 m á lengd, meðfram mörkum lóðar kæranda en nýi bílskúrinn verði 6,3 m meðfram þeirri lóð, eða um 0,7 m styttri.  Breiddin verði hins vegar meiri, en það hafi engin áhrif frá lóð kæranda séð.  Nýi bílskúrinn verði ekki hærri en sá eldri og óskiljanlegt sé að þeir auknu rúmmetrar sem verið sé að tala um geti á nokkurn hátt truflað kæranda.  Ekki verði séð að nýting lóðar kæranda sé á neinn hátt skert þótt farið sé eftir samþykktum uppdrætti.  Um skerðingu á birtu og útsýni skuli á það bent að gamli 7,0 m langi timburskúrinn hafi verið þarna í hartnær hálfa öld, með mænisþaki og þakskeggi á langhliðum sem náð hafi að lóðamörkum, og standist því ekki fullyrðing kæranda um að eldri skúr hafi ekki náð að lóðamörkunum. 

Ekki sé fallist á að flatt þak á hinum nýja bílskúr breyti ásýnd götunnar.  Við Aragötu standi bílskúrar við hús nr. 4, 10, 11, 12, 14 og 16, sem séu allir, að undanskildum bílskúr við hús nr. 11, með láréttu þaki og standi við lóðamörk.  Því mætti halda fram að sú þakgerð væri einkennandi fyrir götuna. 

————–

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 24. júní 2012 og markar sú dagsetning upphaf þriggja mánaða frests til uppkvaðningu úrskurðar, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir staðsteyptum bílskúr á lóð nr. 15 við Aragötu, sem veitt var að undangenginni grenndarkynningu.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði, en fyrir liggur mæliblað, dags. 28. október 1953, sem tekur m.a. til umræddrar lóðar.  Er þar gert ráð fyrir bílskúr við mörk lóðar kæranda á þeim stað þar sem hinum umdeilda bílskúr er ætlað að rísa.  Bílskúrinn verður 32 m² eða um 7,5 m² og um 27 m³ stærri en eldri skúr sem fyrir var á lóðinni.  Langhlið hins nýja bílskúrs liggur að lóðarmörkum kæranda en eldri skúr var í um 0,6 m fjarlægð frá þeim.  Nýi bílskúrinn verður um 0,7 m styttri en eldri skúr og verður hann með flötu þaki í stað mænisþaks.  Við breytinguna hækkar nýtingarhlutfall umræddrar lóðar úr 0,27 í 0,28. 

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skulu byggingarleyfisskyldar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er þó sú undantekning gerð frá nefndri meginreglu að heimilt er að veita leyfi til mannvirkjagerðar á ódeiliskipulögðu svæði ef um er að ræða mannvirki sem samræmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi, að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 44. gr. laganna.  Samkvæmt téðu ákvæði felst grenndarkynning í því að nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta er kynnt leyfisumsókn og gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests.  Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. 

Hin kærða ákvörðun heimilar byggingu bílskúrs í stað eldri skúrs á umræddri lóð og þótt heimilaður bílskúr sé stærri en sá sem fyrir var er hann hóflegur að stærð.  Á umræddu svæði er að finna bílskúra með flötu þaki byggða að lóðamörkum og þykir því bílskúrinn í samræmi við byggðamynstur svæðisins.  Þá  liggur fyrir að nýtingarhlutfall lóðar eykst óverulega, en ekki er í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur ákvæði um hámark nýtingarhlutfalls íbúðarlóða.  Með hliðsjón af þessu var borgaryfirvöldum heimilt að fara með hina umdeildu byggingarleyfisumsókn skv. málsmeðferðarreglu 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.  Grenndarkynning samkvæmt skipulagslögum er til þess ætluð að kynna hagsmunaaðilum fyrirhugaðar breytingar og gefa þeim kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum og andmælum, ef því er að skipta, og gæta með því andmælaréttar þeirra.  Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar var þessa gætt.  Fjallað var um framkomnar athugasemdir og viðkomandi tilkynnt um afgreiðslu málsins, en ekki er gert ráð fyrir að þeir sem gert hafi athugasemdir fái svör við þeim til umsagnar áður en málið kemur til afgreiðslu sveitarstjórnar.  Verður ekki fallist á að andmælaregla eða rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin með þessari lögbundnu meðferð málsins. 

Ekki eru lengur í gildi ákvæði um lágmarksfjarlægð bygginga frá lóðarmörkum eftir breytingar sem gerðar voru á 75. gr. áður gildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Hins vegar ber nú aðeins að gæta reglna um bil milli húsa og um eldvarnir sem koma fram í gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem m.a. er kveðið á um eldvarnarkröfur fyrir bílgeymslur undir 100 m² og standa nærri eða við lóðarmörk.  Er og til þess að líta að í deiliskipulagi er víða gert ráð fyrir að stakar byggingar, svo sem bílskúrar, standi á lóðamörkum og í eldri hverfum, sem ekki hafa verið deiliskipulögð, er slíkt fyrirkomulag einnig þekkt, þar á meðal á umræddu svæði.  Standa hvorki settar réttarreglur né grenndarsjónamið því í vegi að slík bygging sé heimiluð við lóðamörk, að uppfylltum kröfum um eldvarnir.

Nokkurrar ónákvæmni gætti af hálfu borgaryfirvalda við meðferð málsins.  Þannig vísaði skipulagsráð málinu að lokinni grenndarkynningu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa í stað þess að vísa því til borgarráðs til afgreiðslu, en í 44. gr. skipulagslaga er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn afgreiði mál að lokinni grenndarkynningu.  Borgarráð samþykkti hins vegar afgreiðslu skipulagsráðs áður en málið kom til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa og verður nefndur ágalli á málmeðferð því ekki látinn varða ógildingu.  Þá skorti á að kæranda væri tilkynnt um niðurstöðu sveitarstjórnar þegar hún lá fyrir hinn 12. janúar 2012, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulags-laga, en með hliðsjón af því að honum var skömmu síðar tilkynnt um endanlega ákvörðun byggingarfulltrúa í málinu verður þessi annmarki ekki heldur talinn varða ógildingu. 
 

Með hliðsjón af öllu því sem að framan hefur verið rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 31. janúar 2012 um heimild til að byggja staðsteyptan bílskúr með timburþaki á lóð nr. 15 við Aragötu. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                        Þorsteinn Þorsteinsson

8/2012 Akrakór

Með

Árið 2012, föstudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.     

Fyrir var tekið mál nr. 8/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 um breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór í Kópavogi og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 7. febrúar s.á. um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2012, er barst nefndinni 10. s.m., kæra Ó og J, Aflakór 7, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 að samþykkja breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór.  Með bréfi, dags. 13. apríl s.á., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 7. febrúar 2012 um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð.  Hefur það mál, sem er nr. 29/2012 í málaskrá nefndarinnar, verið sameinað máli þessu.  Loks gerðu kærendur með bréfi, dags. 15. maí 2012, kröfu til þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Féllst nefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 5. júní 2012.

Málsatvik:  Hinn 20. september 2011 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogs tekið fyrir erindi lóðarhafa Akrakórs 6 þar sem óskað var eftir leyfi til að breyta einbýlishúsi á lóðinni í tvíbýlishús og fjölga bílastæðum um eitt.  Samþykkti nefndin að grenndarkynna erindið og var frestur til athugasemda veittur til 4. nóvember 2011.  Athugasemd barst frá kærendum, sem töldu að breytingin gæti skapað fordæmi fyrir breyttri byggð.  Í umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogsbæjar, dags. 14. nóvember 2011, segir m.a. að það breyti ekki heildaryfirbragði hverfisins þótt einu einbýlishúsi verði breytt í parhús, en hverfið sé nú þegar byggt upp af einbýlishúsum og parhúsum.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 14. desember 2011 var tillagan samþykkt og henni vísað til bæjarstjórnar, sem staðfesti hana á fundi sínum hinn 10. janúar 2012.  Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. s.m. 

Byggingarleyfi til breytinga á húsinu að Akrakór 6 var gefið út hinn 7. febrúar 2012 í kjölfar skipulagsbreytingarinnar.  Er með leyfinu heimilað að gera tvær íbúðir í húsinu, annars vegar á efri hæð og hins vegar á neðri hæð hússins.  Þá er með leyfinu heimilað að lækka yfirborð lóðar við suður- og norðurenda hússins niður í plötuhæð neðri hæðar og reisa stoðveggi, tröppur og geymslur sem nái allt að lóðarmörkum til suðurs og norðurs.  Þá er heimiluð nýting á rými, sem á upphaflegum teikningum er sagt vera óráðstafað, gluggalaust rými, og séu gluggar jafnframt settir á það. 

Kærendur skuti hinum kærðu ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar með bréfum, dags. 8. febrúar og 13. apríl 2012, svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að í skipulagi svæðisins hafi aðeins verið gert ráð fyrir einbýlishúsum og parhúsum við Akrakór og Aflakór.  Í umsögn skipulags- og byggingardeildar komi fram að einbýlishúsi sé breytt í parhús, en kærendur telji að með hinni kærðu ákvörðun sé verið að breyta þegar byggðu einbýlishúsi í tvíbýlishús.  Um sé að ræða grundvallarbreytingu og sé því alfarið hafnað að það geti talist óveruleg breyting að breyta einbýlishúsi í tvíbýlishús. Breytingin hafi fordæmisgildi vegna einbýlishúsa við Akrakór og Aflakór, jafnt byggðra sem óbyggðra húsa.  Kærendur telji að standi hin kærða breyting á deiliskipulagi óhögguð muni reynast erfitt að hafna óskum um breytingar á öðrum einbýlishúsum, standi vilji eigenda þeirra eða byggingaaðila til þess að breyta þeim í tvíbýlishús. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað.  Sótt hafi verið um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór og hafi verið samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum Akrakórs 1-3, 2-4, 5, 7, 8, 10, 12 og 14, svo og lóðarhöfum Aflakórs 1-3 og 5-7.  Kópavogsbæ hafi borist ódagsett sameiginlegt erindi frá lóðarhöfum Akrakórs 1, 3, 7, 10 og 14 og Aflakórs 5 þar sem fram hafi komið að þeir gerðu engar athugasemdir við skipulagstillöguna og lýstu yfir samþykki sínu.  Engar athugasemdir hafi borist frá lóðarhöfum Akrakórs 2-4, 5, 8 og 12 og geri þeir því engar athugasemdir fyrir sitt leyti.  Hins vegar hafi borist athugasemdir og ábendingar frá kærendum á kynningartíma. 

Meginreglan sé sú að skipulag sé bindandi bæði fyrir stjórnvöld og almenning um framtíðarnot tiltekins svæðis og sé því almennt ætlaður langur gildistími.  Hönnun og bygging mannvirkja sé meðal annars reist á forsendum sem fram komi í skipulagi.  Verði almenningur að geta treyst því að festa sé í framkvæmd skipulags.  Á hinn bóginn sé skipulag stjórntæki stjórnvalda um þróun byggðar og landnotkun.  Þannig sé mælt fyrir um í skipulagslögum nr. 123/2010 að sveitarfélög, landeigendur og framkvæmdaaðilar geti lagt fram tillögu eða beiðni um breytingar á deiliskipulagi.  Þar af leiðandi standi vilji löggjafans ekki til þess að deiliskipulag skuli standa óhaggað um aldur og ævi.  Það sé eðli borga og bæja að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa að gera ráð fyrir að skipulag í hverfum geti tekið óverulegum breytingum að því er varði einstakar fasteignir, uppbyggingu hverfa og þéttingu byggðar.  Hlutverk skipulagsyfirvalda sé að tryggja hagsmuni heildarinnar og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um skerðingu eða rýrnun á þeim verði að ræða vegna framkvæmda á annarri fasteign.  Sú breyting á deiliskipulagi varðandi Akrakór 6, sem ágreiningur sé uppi um í máli þessu, sé óveruleg.  Þannig víki hið breytta skipulag nánast að engu marki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti eða formi viðkomandi svæðis. 

Enda þótt vikið sé frá fyrra deiliskipulagi, að því leyti að heimila byggingu parhúss í stað einbýlishúss, sé það frávik frá eldra deiliskipulagi ekki svo verulegt að það raski hagsmunum kærenda.  Ekki sé gert ráð fyrir breytingu á stærð fasteignarinnar og hæð hennar sé óbreytt frá fyrra deiliskipulagi.  Þá verði ásýnd og ímynd hverfisins óbreytt.  Rétt hafi verið staðið að gerð hinnar kærðu ákvörðunar um breytt deiliskipulag, bæði hvað varði form og efni, og beri því að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess.  Þá hafi verið staðið rétt að útgáfu hins kærða byggingarleyfis og beri einnig að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi vísar til þess að framkvæmdir hans styðjist við lögmætt byggingarleyfi.  Vandséð sé að kærendur verði fyrir fjárhagslegu tjóni vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.  Leitað hafi verið óformlega eftir áliti nokkurra löggildra fasteignasala í þessu máli og séu þeir sammála um að ótti kærenda um verðrýrnun eignar þeirra eigi ekki við rök að styðjast.  Hafa verði í huga að eftir kreppu hafi sú stefna verið tekin hjá bæjaryfirvöldum að reyna að minnka íbúðir og eigi það bæði við í fjölbýlishúsum og einbýlishúsum.  Í raun hafi skapast hálfgert neyðarástand þar sem stór hús hafi staðið hálfbyggð og ekki verið fyrirsjáanlegt að eigendur réðu við að ljúka byggingu þeirra eins og til hafi staðið.  Það hafi því verið hálfgert neyðarúrræði hjá bæjarfélögum að heimila breytingar eins og hér um ræði. 

———————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi í máli þessu.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er heimilað að breyta þegar byggðu einbýlishúsi að Akrakór 6 í tvíbýlishús, fjölga bílastæðum um eitt og koma fyrir tröppum og geymslum við norður- og suðurmörk lóðar.  Af skýringarmynd verður ráðið að yfirborð lóðar sunnan og norðan hússins verði lækkað niður í plötuhæð neðri hæðar og að inngangur í íbúð á neðri hæð verði fyrir miðri austurhlið hússins, andspænis húsi kærenda.  Með hinni umdeildu breytingu er því ekki aðeins vikið frá skilmálum gildandi skipulags um fjölda íbúða í húsinu heldur er einnig heimilað að reisa áberandi byggingarhluta út fyrir ytri byggingarreit, auk þess sem vikið er frá þeim viðmiðum sem sett eru um hæðarsetningu lóða á svæðinu.  Loks er vikið frá því fyrirkomulagi sem almennt gildir á svæðinu, að aðkoma að íbúðum sé frá götuhlið húss.  Breyta háir stoðveggir, frá húsi að lóðarmörkum til suðurs og norðurs, og tröppuvirki meðfram þeim, verulega ásýnd hússins að Akrakór 6, séð frá lóð kæranda. 

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.  Telur úrskurðarnefndin að með hinni umdeildu breytingu sé vikið svo verulega frá notkun,  og útliti viðkomandi svæðis að ekki hafi verið skilyrði til að fara með málið eftir undantekningarákvæði tilvitnaðrar 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.  Er þá einnig haft í huga það fordæmisgildi sem í ákvörðuninni felst.  Telur úrskurðarnefndin að með tilliti til jafnræðissjónarmiða hefði fremur átt að taka afstöðu til þess hvort unnt væri að gera almenna breytingu á skilmálum skipulagsins og heimila tvær sjálfstæðar íbúðir í einbýlishúsum á svæðinu, en engin afstaða er tekin í úrskurði þessum til þess hvort skilyrði hefðu verið til svo umfangsmikilla breytinga á nýlegu deilskipulagi, eftir atvikum í bága við væntingar lóðarhafa á svæðinu.

Fleira er athugavert við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.  Þannig segir í umsögn  skipulags- og byggingardeildar um breytinguna að það að breyta einbýlishúsi í parhús geti haft fordæmisgildi þar sem enn séu óbyggð tvö einbýlishús við Akrakór og fjögur við Aflakór.  Ekki sé talið að umrædd breyting raski heildaryfirbragði hverfisins þar sem hverfið sé byggt bæði einbýlishúsum og parhúsum.  Við þetta er það að athuga að húsið að Akrakór 6 verður ekki parhús heldur tvíbýlishús við umrædda breytingu og fær því sérstöðu í hverfinu hvað þetta varðar.  Vísast um skilgreiningu þessara húsagerða til svonefndrar fitjuskrár mannvirkja samkvæmt íslenskum staðli, ÍST 120/2007, sbr. og reglugerð nr. 918/2009 um innihald IS 50V landfræðilegs gagnasafns um Ísland.  Þá fær það heldur ekki staðist að fordæmisgildi hinnar kærðu ákvörðunar sé bundið við þau hús sem enn eru óbyggð heldur verður að ætla að unnt væri í einhverjum tilvikum að breyta þegar byggðum einbýlishúsum í tvær íbúðir.  Má í því sambandi benda á að húsið að Akrakór 6 var þegar byggt þegar sótt var um hina umdeildu breytingu, en fram kemur í greinargerð með skipulagbreytingunni að sótt sé um að breyta þegar byggðu einbýli í tvíbýli.  Eru forsendur hinnar kærðu ákvörðunar beinlínis rangar hvað þessi atriði varðar.

Loks skal á það bent að við ákvörðun skipulagsnefndar um grenndarkynningu var tekið fram að erindið skyldi m.a. kynnt fyrir lóðarhöfum Akrakórs 2-4 og 8, en þær lóðir liggja að lóðinni Akrakór 6.  Felur hin kærða ákvörðun m.a. í sér að byggt er að mörkum þessara lóða og reistir stoðveggir til þess að unnt sé að koma fyrir tröppum og lækka yfirborð lóðar Akrakórs 6, en mikill hæðarmunur verður milli umræddra lóða eftir breytinguna.  Engar athugasemdir komu þó fram af hálfu lóðarhafa vegna lóða þessara, en við meðferð málsins fyrir úrskurðanefndinni var upplýst að þær væru í eigu Kópavogsbæjar.  Verður ekki ráðið af málsgögnum að skipulagsnefnd eða bæjarstjórn hafi verið kunnugt um ástæður þess að ekki komu fram athugasemdir af hálfu rétthafa nefndra lóða og er ekki útilokað að vitneskja þar um hefði getað haft áhrif á niðurstöðu málsins eða gefið tilefni til frekari athugunar á því.  Var rannsókn málsins áfátt hvað þetta varðar.

Samkvæmt framansögðu voru svo verulegir annmarkar á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar um breytt deiliskipulag að fella ber hana úr gildi.  Miðað við þá niðurstöðu samræmist hið kærða byggingarleyfi ekki gildandi deiliskipulagi og verður það því einnig fellt úr gildi.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 um breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór í Kópavogi.  Jafnframt er felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 7. febrúar s.á. um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson