Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2008 Fljótshamrar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2008, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Lyngbraut 12 í Reykholti í Biskupstungum sem og á ákvörðun um að hafna kröfu kærenda um endurupptöku og afturköllun á ákvörðun sveitarstjórnar frá 28. nóvember 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. desember 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. eigenda lóðarinnar Fljótshamra í Biskupstungum, Bláskógabyggð, ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 varðandi deiliskipulag að Fljótsholti og endurútgáfu byggingarleyfis. Skilja verður málskot kærenda svo að kærð sé sú ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 að endurnýja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Lyngbraut 12 í Reykholti í Biskupstungum, sem og ákvörðun um að hafna kröfu kærenda um endurupptöku og afturköllun á ákvörðun sveitarstjórnar frá 28. nóvember 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að sveitarstjórn Bláskógabyggðar verði gert að afturkalla hina ólögmætu skipulagsákvörðun.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 2. apríl 2009, 30. september og 20. október 2015.

Málavextir: Kærendur eru eigendur lóðarinnar Fljótshamra í Reykholti í Biskupstungum en hún var áður hluti af landi Fljótsholts. Með bréfi til Hreppsnefndar Biskupstungna, dags. 7. júlí 2001, óskaði annar kærenda eftir heimild til að leggja vinnuslóða um landareign sína úr landi Stóra-Fljóts að fyrrnefndri lóð. Vegarslóðinn var lagður og hefur verið nýttur alla tíð síðan. Ekki var hins vegar útbúinn vegur sem sýndur var á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum frá árinu 1999 en hann átti að liggja frá Fljótshömrum í norðaustur að Lyngbraut, og nýtast Fljótshömrum og þremur lóðum til.

Hinn 28. nóvember 2006 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar breytingu á áðurgreindu deiliskipulagi Reykholts sem fól í sér að tvær lóðir voru sameinaðar í eina lóð auk þess sem bætt var við lóðina svæði, þar sem áður hafði verið gert ráð fyrir fyrrgreindum vegi sem aðkomu að Fljótshömrum, og vegurinn tekinn út af skipulaginu. Þá fól breytingin í sér að eingöngu yrði byggt eitt hús á hinni sameinuðu lóð í stað tveggja áður. Deiliskipulagsbreytingin var hvorki auglýst né grenndarkynnt. Með bréfi, dags. 22. janúar 2007, var hún send Skipulagsstofnun til afgreiðslu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og aftur með lagfærðum gögnum hinn 21. mars s.á. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar og tók hún gildi með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007.

Eigendur hinnar sameinuðu lóðar, sem er nr. 12a við Lyngbraut, sóttu um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni. Var það samþykkt í byggingarnefnd 27. mars 2007 og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 3. apríl s.á. Hafist var handa við jarðvegsframkvæmdir á lóðinni en framkvæmdir lágu niðri í nokkurn tíma í kjölfarið.

Með bréfi, dags. 6. september 2007, fóru kærendur fram á að ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu yrði endurupptekin og afturkölluð. Erindið var tekið fyrir í byggðarráði Bláskógabyggðar 25. september s.á. og afgreiðslu þess frestað þar til umsögn skipulagsfulltrúa lægi fyrir. Skilaði skipulagsfulltrúi umsögn, dags. 7. nóvember 2007, til sveitarstjórnar. Á fundi byggðarráðs 28. nóvember s.á. var oddvita Bláskógabyggðar og skipulagsfulltrúa falið að ræða við eigendur Fljótshamra og kanna möguleika á lausn málsins og yrði niðurstaða þeirra viðræðna lögð fyrir byggðarráð. Fundur var haldinn 8. apríl 2008 en ekki tókst að ná samkomulagi um lausn. Á fundinum var upplýst að eigendur hinnar sameinuðu lóðar væru því andsnúnir að ákvörðun um deiliskipulagsbreytinguna yrði endurupptekin.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 30. september 2008 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á hinni sameinuðu lóð. Var málinu vísað til skipulags- og byggingarnefndar sem samþykkti umsóknina á fundi 24. október s.á. Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi byggðarráðs Bláskógabyggðar 4. nóvember 2008. Þá var fundargerð byggðarráðs staðfest á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 11. s.m.

Með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, dags. 21. nóvember 2008, var kærendum tilkynnt að sveitarstjórn hygðist gefa út að nýju byggingarleyfi vegna einbýlishúss á hinni sameinuðu lóð á grundvelli deiliskipulagsbreytingarinnar sem tók gildi 7. maí 2007. Beiðni kærenda um endurupptöku deiliskipulagsbreytingarinnar væri þar með hafnað.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að vegna aðstæðna hafi þeir gert bráðabirgðaaðkomu að Fljótshömrum í gegnum annað land sem jafnframt sé í þeirra eigu. Hafi þeir haft áform um að færa aðkomuna yfir tvær lóðir norðaustan við Fljótshamra, líkt og gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum frá 1999, þegar fram liðu stundir og ef þeir seldu annað hvort landið. Að beiðni eigenda fyrrgreindra lóða hafi deiliskipulaginu verið breytt þannig að lóðirnar hafi verið sameinaðar í eina og aðkoman að Fljótshömrum felld niður. Kærendum hafi ekki orðið þetta ljóst fyrr en framkvæmdir hófust á lóðinni sumarið 2007.

Kærendur hafi átt fund með sveitarstjóra vegna málsins sumarið 2007 og óskað skýringa. Þar sem ekki hafi fengist haldbær svör hafi þeir sent sveitarstjórn bréf, dags. 6. september 2007, og krafist þess að ákvörðun um áðurnefnda deiliskipulagsbreytingu yrði endurupptekin og afturkölluð. Í stað þess að afgreiða erindi kærenda hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar auglýst tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts en áðurnefnd deiliskipulagsbreyting hafi verið felld inn í hið endurskoðaða heildarskipulag. Kærendur hafi mótmælt þessari breytingu á deiliskipulagi með bréfi til skipulagsfulltrúa, dags. 7. júlí 2008,  en ekkert heyrt af málinu eftir það fyrr en með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 21. nóvember 2008, þar sem tilkynnt hafi verið að sveitarstjórn hygðist gefa út að nýju byggingarleyfi vegna húss á hinni sameinuðu lóð og að beiðni kærenda um endurupptöku væri þar með hafnað.

Málsmeðferð sveitarstjórnar á beiðni kærenda um endurupptöku og afturköllun ákvörðunar um áðurnefnda deiliskipulagsbreytingu hafi verið ólögmæt. Engin raunveruleg rannsókn eða mat á hagsmunum aðila hafi farið fram og engin umsögn hafi borist frá skipulagsfulltrúa. Málið hafi því ekki verið nægilega upplýst þegar ákveðið hafi verið að hafna beiðni kærenda um endurupptöku og afturköllun. Niðurfelling aðkomunnar breyti verulega nýtingarmöguleikum kærenda á báðum eignum sínum. Standi ákvörðunin verði aðkoman að lóð þeirra ávallt að vera um hina landspilduna sem tilheyri þeim, sem takmarki nýtingu þess lands, ráðstöfunarmöguleika og verðmæti þess. Þá hafi umrædd aðkoma verið nauðsynleg tenging yfir á norðausturhluta svæðisins.

Ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 26. gr. og 7. mgr. 43. gr. þeirra, þar sem deiliskipulagstillagan hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir kærendum. Sveitarstjórn beri því að afturkalla ákvörðunina. Ekkert mat liggi heldur fyrir á þeim hagsmunum sem undir séu í málinu eða þýðingu hinnar ólögmætu ákvörðunar fyrir kærendur en það telji þeir skýrt brot á meginreglu stjórnsýsluréttar um rannsókn máls, 10. gr. stjórnsýslulaga og 21. gr. sömu laga um rökstuðning. Ákvörðunin brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar enda liggi engin lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki þeirri ákvörðun að afturkalla ekki ákvörðunina um leið og upplýst var um þau mistök sem gerð hafi verið. Sveitarstjórnin hafi kosið að standa við ákvörðunina til að firra sig tjóni, enda hafi framkvæmdir verið hafnar á lóðinni. Sveitarstjórnin sé því í raun að breyta deiliskipulagi eftir á, þ.e. samþykkja eftir á framkvæmdir og áform sem hún hefði ekki gert ef rétt hefði verið staðið að málum. Sömu meginsjónarmið og grunnrök eigi því við um afturköllun hinnar ólögmætu ákvörðunar og búi að baki 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Krafa um ógildingu byggingarleyfis byggist á þeirri málsástæðu að afturkalla beri hina ólögmætu deiliskipulagsbreytingu og þar af leiði að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við deiliskipulagið óbreytt.

Málsrök Bláskógarbyggðar: Bláskógabyggð fer aðallega fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, þar sem kæra hafi borist að kærufresti liðnum, en ella að kröfum kærenda verði hafnað.

Krafa kærenda um endurupptöku umdeildrar deiliskipulagsákvörðunar virðist einkum byggð á því að sveitarstjórn hafi átt að afturkalla ákvörðun sína, þ.e. á 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fremur en 24. gr. þeirra. Ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga sé heimildarákvæði sem beita verði af mikilli varfærni en skilyrði þess hafi ekki verið uppfyllt. Sveitarstjórn hafi farið yfir fyrirliggjandi heimildarskjöl og tekið afstöðu til þeirra hagsmuna sem í húfi hafi verið. Því fari fjarri að brotið hafi verið gegn 10. eða 21. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi skilyrði 1. og 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku ekki verið uppfyllt auk þess sem meira en þrír mánuðir hafi verið liðnir frá því að kærendum var eða mátti vera kunnugt um ákvörðun sveitarstjórnar. Ákvæðinu verði auk þess ekki beitt þegar um sé að ræða ágreining af þessu tagi um beitingu laga og réttarheimilda. Sveitarstjórn hafi jafnframt ekki talið ljóst af fyrirliggjandi gögnum að kærendur ættu rétt á þeirri aðkomu að lóð sinni sem þeir krefðust.

Á þessum tíma hafi verið unnið að heildarendurskoðun deiliskipulags fyrir stóran hluta Reykholts. Upphaflega hafi verið fyrirhugað að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna, sem deilan snúist um, að nýju óbreytta en svo hafi verið ákveðið að fella hana inn í hið endurskoðaða heildarskipulag. Litið hafi verið svo á að erindi kærenda frá 6. september 2007 hefði verið svarað með því að auglýsa deiliskipulag, þar sem umrætt svæði væri óbreytt frá því sem deiliskipulagsbreytingin hefði gert ráð fyrir, og staðfesta þannig fyrri ákvörðun. Lögmaður kærenda hafi sérstaklega verið látinn vita af auglýsingu deiliskipulagsins.

Skipulagsnefnd hafi talið að með deiliskipulagsbreytingunni sem tekið hefði gildi 7. maí 2007 hefði aðkoma að húsi kærenda einungis verið færð til samræmis við raunverulega aðkomu. Ekki hefði verið verið að ganga á hagsmuni kærenda eða annarra og því hefði ekki þurft að grenndarkynna breytinguna. Breytingin hafi verið óveruleg, einkum þar sem um minnkun á leyfilegu byggingarmagni hafi verið að ræða og byggingarreitur hafi færst fjær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar.

Hið kærða byggingarleyfi sé lögmætt og í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins, en kærendur hafi ekki gert grein fyrir því með hvaða hætti leyfið gangi gegn skipulaginu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar um endurnýjun byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi við Lyngbraut 12a í Reykholti, sem og um synjun um endurupptöku og afturköllun á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 28. nóvember 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum frá árinu 1999, en nefnd deiliskipulagsbreyting tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem þá giltu, var frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra átti. Kærendum var tilkynnt um hinar kærðu ákvarðanir með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 21. nóvember 2008, sem að sögn kærenda barst tveimur dögum síðar, eða 23. s.m. Kæra barst úrskurðarnefndinni í tölvupósti 22. desember 2008 og verður því við það miðað að hún hafi borist innan kærufrests, þótt frumrit kæru hafi borist nokkru síðar, eða 30. s.m.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Hin kærða ákvörðun um að synja um endurupptöku og afturköllun ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi Reykholts var tilkynnt kærendum með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 21. nóvember 2008. Í bréfinu kom fram að sveitarstjórn hygðist gefa út að nýju byggingarleyfi vegna byggingar húss að Fljótsholti í Biskupstungum á grundvelli deiliskipulagsbreytingar sem tekið hefði gildi 7. maí 2007. Beiðni kærenda um endurupptöku skipulagsins væri þar með hafnað.

Um endurupptöku máls gilda almennar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Skal stjórnvald það sem tekið hefur ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds, sem í þessu tilviki er sveitarstjórn, sbr. 2. mgr. 3. gr., 23. gr. og 26. gr. skipulags- og byggingarlaga, taka afstöðu til beiðni um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar. Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins að erindi kærenda um endurupptöku eða afturköllun fyrrgreindrar ákvörðunar sveitarstjórnar um deiliskipulagsbreytingu hafi verið til umfjöllunar í sveitarstjórn. Liggur því ekki fyrir ákvörðun þar til bærs stjórnvalds um lyktir þess máls sem borin verður undir úrskurðarnefndina samkvæmt fyrrgreindri 26. gr. stjórnsýslulaga. Ber af þeim sökum að vísa þeim hluta kærumálsins frá úrskurðarnefndinni. 

Deiliskipulag Reykholts í Biskupstungum var samþykkt í sveitarstjórn Biskupstungnahrepps 29. júní 1999 en samkvæmt þágildandi 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga skyldi birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda. Ekki verður séð að auglýsing um samþykkt þess deiliskipulags hafi verið birt í samræmi við framangreint lagaákvæði og tók skipulagið því aldrei gildi. Breyting á því deiliskipulagi, sem um er deilt í máli þessu, tók hins vegar gildi með formlegum hætti með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007. Kærufrestur vegna þeirrar skipulagsbreytingar er löngu liðinn og sætir hún því ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar.

Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar um endurnýjun byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi við Lyngbraut 12a í Reykholti er í samræmi við fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu frá árinu 2007, sem eins og áður segir sætir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar. Þar sem ekki liggur annað fyrir en að málsmeðferð við þá leyfisákvörðun hafi verið lögum samkvæmt verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu á endurnýjun greinds byggingarleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á þeirri ákvörðun að synja um endurupptöku og afturköllun ákvörðunar frá 28. nóvember 2006, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi við Lyngbraut 12 í Reykholti í Biskupstungum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Ómar Stefánsson                                             Hildigunnur Haraldsdóttir

31/2014 Brautarholt

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reitinn Brautarholt 7.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2014, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. húsfélagsins Ásholti 2-42, þá ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reitinn Brautarholt 7. Var gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin frestaði réttaráhrifum hennar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 7. ágúst 2014.

Með bréfi, dags. 28. apríl 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Árnadóttir hdl., f.h. Hvíta hússins ehf., S Waage ehf. og XO eignarhaldsfélags ehf., eigenda og rekstraraðila Brautarholts 6 og 8, sömu ákvörðun. Var gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi. Með bréfi, dags. 23. júlí 2015, gerðu sömu aðilar þá kröfu að fyrirhugaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 19. ágúst 2015.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. húsfélagsins Ásholti 2-42, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júlí 2015 að veita leyfi til að byggja stúdentagarða, tvær steinsteyptar þriggja hæða byggingar með 102 íbúðareiningum, sem umlykja innigarð, og bílakjallara fyrir 19 bíla á lóð nr. 7 við Brautarholt. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 15. september 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Árnadóttir hdl., f.h. Hvíta hússins ehf., S Waage ehf. og XO eignarhaldsfélags ehf., eigenda og rekstraraðila Brautarholts 6 og 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. ágúst 2015 að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu á lóð nr. 7 við Brautarholt. Er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru allar samofnar og hagsmunir aðila þykja ekki standa því í vegi verða síðargreindu málin, sem eru nr. 35/2014, 68/2015 og 77/2015, sameinuð máli þessu.

Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirra stöðvunarkrafna sem fram komu með síðari kærum málsins.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 25. apríl og 27. maí 2014 og 2. og 17. september sem og í október 2015.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að borgarráð samþykkti 16. júní 1987 deiliskipulag Rauðarárholts, reits 1.242.0. Tók það til lóðar Timburverslunar Árna Jónssonar að Laugavegi 146 og Brautarholti 7 og nærliggjandi svæðis. Afmarkaðist það af Rauðarárstíg, Laugavegi, Nóatúni, Skipholti og Stórholti. Deiliskipulagið mun ekki hafa öðlast gildi á þeim tíma en uppbyggingu á svæðinu þó verið hagað í samræmi við það.

Í nóvember 2012 var samþykkt af skipulagsráði að kynna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu tillögu að breytingu á deiliskipulagi Rauðarárholts vegna Brautarholts 7. Í kjölfar þeirrar kynningar var tillagan auglýst og bárust athugasemdir og ábendingar vegna hennar. Breytt tillaga var endurauglýst og var hún, að málsmeðferð lokinni, send Skipulagsstofnun 15. október 2013 til yfirferðar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Í kjölfar svars stofnunarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 8. nóvember s.á., hófst meðferð nýs deiliskipulags fyrir reitinn.

Á fundi skipulagsfulltrúa 8. nóvember 2013 var tekin fyrir tillaga að nýju deiliskipulagi reitsins Brautarholts 7. Tillagan var byggð á áðurnefndri breytingartillögu og fólst í henni að byggingar með allt að 97 litlum íbúðum fyrir stúdenta myndu rísa. Einnig var gert ráð fyrir þjónustustarfsemi á hluta jarðhæðar og bílakjallara. Var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Á fundi ráðsins 13. s.m. var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði 21. s.m. Tillagan var auglýst frá 4. desember 2013 til 20. janúar 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, sem flestir höfðu einnig gert athugasemdir við málsmeðferð fyrrnefndrar endurauglýstrar breytingartillögu. Var athugasemdum sem fram komu við nefnda endurauglýsingu, sem og við auglýsingu nýs skipulags, svarað með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. febrúar 2014. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. s.m. var deiliskipulagstillagan samþykkt og hún svo staðfest af borgarráði 20. s.m. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 1. apríl s.á. Hefur það verið kært, svo sem áður greinir.

Breyting á deiliskipulagi Brautarholts 7 var samþykkt af borgarráði 21. maí 2015 og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní s.á. Í breytingunni fólst fjölgun íbúða í allt að 102 ásamt fjölgun bílastæða í bílakjallara úr 18 í 19. Deiliskipulagsbreytingin hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. júlí 2015 var samþykkt að veita leyfi til að byggja stúdentagarða, tvær steinsteyptar þriggja hæða byggingar með 102 íbúðareiningum, sem umlykja innigarð, og bílakjallara fyrir 19 bíla á lóð nr. 7 við Brautarholt. Takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu á lóðinni var svo samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst s.á. Hafa þessar ákvarðarnir byggingarfulltrúa verið kærðar, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að deiliskipulagið sé í andstöðu við lög. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að gera skuli deiliskipulag fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi að deiliskipulag skuli að jafnaði ná til reits eða svæða sem myndi heildstæða einingu, eins og svæði með sömu landnotkun, svæði afmarkað af götum, húsaþyrpingu eða annað sem gefi sameiginlegar forsendur fyrir viðkomandi deiliskipulag. Þá segi að í greinargerð skuli færð rök fyrir afmörkun skipulagssvæðisins. Ljóst sé að hið kærða deiliskipulag taki aðeins til einnar lóðar innan skipulagssvæðisins Rauðarárholts, þ.e. Brautarholts 7. Hið kærða deiliskipulag afmarkist ekki af heilum götureit heldur einungis af Brautarholti til suðurs, Mjölnisholti til vesturs og Ásholti til austurs. Byggi afmörkun Reykjavíkurborgar hvorki á málefnalegum sjónarmiðum né skipulagsrökum. Í sömu grein skipulagsreglugerðarinnar komi einnig fram að deiliskipulagssvæði megi ekki skarast. Hið kærða deiliskipulag sé brot á greindri reglu. Tvö deiliskipulög séu í gildi fyrir lóð nr. 7 við Brautarholt þar sem deiliskipulag Rauðarárholts frá 1987 nái einnig yfir umþrætt svæði. Rétt hefði verið að auglýsa og samþykkja breytt skipulagsmörk fyrir deiliskipulag Rauðarárholts í samræmi við mörk hinnar kærðu deiliskipulagstillögu, en það hafi ekki verið gert.

Í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð sé sérstaklega vikið að því að taka verði á umferðar- og samgöngumálum við gerð deiliskipulags. Augljóst sé að ekki hafi verið hægt að taka ákvörðun um nýtt deiliskipulag Brautarholts fyrr en áhrif þess á umferð og bílastæðamál hafi verið rannsökuð. Reiturinn Brautarholt 7 sé í dag notaður undir 64 bílastæði. Sé fáránlegt að ætla að fjarlægja þau bílastæði og byggja 100 stúdentaíbúðir með einungis 19 bílastæðum. Fjölbreytt atvinnustarfsemi sé á svæðinu og komi flestir viðskiptavinir fyrirtækjanna á bílum og leggi í þau fáu stæði sem nú séu við Brautarholtið. Einnig sé veruleg ásókn í bílastæðin vegna tilkomu hótels í götunni. Að auki sé af 20 bílastæðum gert ráð fyrir tveimur fyrir hreyfihamlaða. Sé það á skjön við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en í gr. 6.2.6. hennar komi fram að fyrir 100 íbúðir sé lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða 10.

Að auki hafi Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 verið í gildi þegar deiliskipulagið hafi verið auglýst. Hvergi hafi komið fram að verið væri að auglýsa á grundvelli tillögu að nýju aðalskipulagi. Í 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga segi að sé tillaga að deiliskipulagi ekki í samræmi við aðalskipulag skuli samsvarandi aðalskipulagsbreyting auglýst áður eða samhliða.

Eitt af meginmarkmiðum skipulagslaga sé að tryggja fyrirsjáanleika. Þegar kærendur hafi byrjað sinn atvinnurekstur við Brautarholt hafi verið gert ráð fyrir því, í samræmi við þágildandi deiliskipulag, að leysa ætti bílastæðavandamál svæðisins með því að fjölga bílastæðum. Núverandi þróun sé verulega ósanngjörn þar sem ekki hafi með nokkru móti verið hægt að gera ráð fyrir verulegri fækkun bílastæða. Þvert á móti hafi verið hægt að gera ráð fyrir fjölgun þeirra. Við byggingu húsa kærenda hafi verið í gildi skipulagsreglugerð nr. 318/1985 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í þessum reglugerðum hafi verið kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða og skyldi fjöldi þeirra aldrei fara niður fyrir eitt stæði á íbúð. Hafi mátt með réttu gera ráð fyrir að uppbygging á sama reit yrði í samræmi við þær skipulags- og byggingarsamþykktir sem gilt hafi þegar hús kærenda voru byggð. Hið nýja deiliskipulag geri ráð fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 7 við Brautarholt verði 1,95 en það hafi verið 1,47. Nýtingarhlutfallið hafi því aukist um 33% á sama tíma og dregið sé úr bílastæðakröfu, frá því að gera ráð fyrir 166 bílastæðum í 19 bílastæði. Fjöldi bílastæða sé því um 12% af því sem eldra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir. Samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði verði ekki náð með öðru vægara móti. Beri borgarstjórn að ná fram markmiði sínu um litlar stúdentaíbúðir án þess að ganga á lögvarinn rétt kærenda. Stjórnvald geti ekki í krafti valds síns gengið jafn freklega á rétt borgaranna og gert sé í þessu tilviki. Allar forsendur sem kærendur hafi gefið sér um uppbyggingu á syðri lóðinni hafi gjörsamlega brostið með hinni kærðu ákvörðun. Hinn lögvarði réttur kærenda sé að á lóð nr. 7 við Brautarholt verði gert ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði fyrir hverja íbúðareiningu. Fyrir liggi að stúdentar eigi bíla ekki síður en aðrir þjóðfélagshópar. Bílastæðavandi við háskóla og stúdentagarða beri þess glöggt merki. Til þess að uppfylla þessa lögmætu kröfu verði að fella byggingarleyfið úr gildi, endurvinna deiliskipulagið frá grunni, fjölga bílastæðum og/eða draga úr byggingarmagni. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Samkvæmt 2. mgr. þessarar lagagreinar megi ekki mismuna aðilum við úrslausn mála, t.d. út frá sjónarmiðum byggðum á þjóðfélagsstöðu. Borgarráði hafi því verið óheimilt við afgreiðslu deiliskipulagsins að gera vægari kröfur um fjölda bílastæða með skírskotun til þess að á reitnum skyldi byggja íbúðir fyrir tiltekinn þjóðfélagshóp. Borgarstjórn hafi borið að gera nákvæmlega sömu kröfur um fjölda bílastæða á þessum reit og öðrum sambærilegum og eigi engu máli að skipta hvaða þjóðfélagshópar kunni að búa á viðkomandi reit. Þá sé bent á að íbúðir sem eitt sinn hafi eingöngu verið ætlaðar stúdentum hafi á seinni árum verið teknar undir aðra starfsemi, s.s. Gamli garður við Hringbraut og stúdentaíbúðir við Suðurgötu.

Meðalhófs hafi ekki verið gætt og jafnræði borgaranna ekki verið virt. Sýnt hafi verið fram á að deiliskipulagið uppfylli ekki kröfur um fjölda bílastæða sem áður gildandi reglugerðir hafi kveðið á um og hafi verið í gildi þegar hús kærenda voru byggð og þeim gert að fara eftir. Þá hafi verið sýnt fram á að ekkert í löggjöf heimili borgarstjórn að gera aðrar og vægari kröfur um fjölda bílastæða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki sé fallist á að deiliskipulagið taki ekki til heildstæðrar einingar. Heildarskipulagið nái yfir afmarkaðan reit en í 37. gr. skipulagslaga, sbr. gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, segi að deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Deiliskipulagið nái yfir afmarkaðan götureit en deiliskipulagssvæðið afmarkist af Laugavegi, Mjölnisholti, Ásholti og Brautarholti og myndi þannig heildstæða einingu og hafi einnig þær sameiginlegu forsendur að þarna sé verið að reisa byggingar sem hýsi litlar íbúðir/einingar fyrir stúdenta.

Aðeins eitt deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið. Ásholtsbyggð hafi upphaflega verið skipulögð árið 1987 og hafi deiliskipulag Rauðarárholts verið samþykkt í borgarráði 16. júní 1987. Hafi uppbygging á svæðinu verið samkvæmt því deiliskipulagi. Greint deiliskipulag hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda á sínum tíma, líkt og lög hafi gert ráð fyrir, en samkvæmt 11. tl. til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi deiliskipulagið verið talið í gildi þrátt fyrir að hafa ekki fengið lögformlega birtingu í Stjórnartíðindum. Í 5. tl. til bráðabirgða í gildandi skipulagslögum nr. 123/2010 hafi sveitarfélögum verið gert að senda inn til Skipulagsstofnunar deiliskipulagsáætlanir sem ekki hefðu fengið lögformlega löggildingu. Hafi deiliskipulagið frá 1987 ekki verið sent stofnuninni fyrir lok þess tímafrests sem hafi verið gefinn og sé því ekkert deiliskipulag í gildi fyrir umræddan reit skv. tilvitnuðum 5. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga. Nýtt deiliskipulag fyrir Brautarholt 7 hafi því verið auglýst og samþykkt, en ekki breyting á deiliskipulagi.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé gert ráð fyrir 0,2 bílastæðum á hverja stúdentaíbúð á svæðum vestan Elliðaáa, en stefna borgarinnar sé að minnka hlutdeild einkabílsins úr 75% í 58%. Deiliskipulag Brautarholts 7 byggi á skipulagslögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í kaflanum samgöngur í skipulagsreglugerð sé ekki gerð krafa um lágmarksfjölda bílastæða nema fyrir fatlaða. Bílastæðum hafi verið fjölgað úr 8 í 20 eftir að athugasemdir hafi borist eftir kynningu. Í skilmálum með deiliskipulaginu sé gerð grein fyrir fjölda bílastæða, líkt og reglugerðin segi til um. Þau bílastæði sem nýtt séu innan lóðar séu ekki skilgreind sem bílastæði heldur hafi ávallt verið gert ráð fyrir að byggt yrði á lóðinni. Íbúar Ásholts eigi ekki rétt á bílastæðum á lóð nr. 7 við Brautarholt og hafi þeir mátt búast við því, samkvæmt eldra deiliskipulagi og hinu kærða deiliskipulagi, að byggt yrði á lóðinni. Rétt sé að nýtingarhlutfall hafi aukist á lóðinni, miðað við það deiliskipulag sem Ásholtsbyggð hafi verið byggð eftir, en þar hafi verið gert ráð fyrir þriggja hæða húsi á lóðinni og fari hámarkshæð samkvæmt núgildandi deiliskipulagi ekki yfir þau mörk.

Því sé vísað á bug að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin. Málsmeðferð hafi alfarið verið í samræmi við skipulagslög, skipulagsreglugerð og stjórnsýslulög. Við gerð deiliskipulagsins hafi verið sett sú stefnumörkun að byggja íbúðir fyrir stúdenta og hafi staðsetningin verið valin út frá því samgöngukerfi sem til staðar sé. Umhverfis- og skipulagssvið hafi í samráði við Bílastæðasjóð skoðað leiðir til að stýra betur nýtingu bílastæða, en nú sé það gert bæði með gjaldskyldu og útgáfu íbúakorta. Í minnisblaði samgöngustjóra, dags. 6. febrúar 2014, hafi hann lagt til að fylgst yrði með uppbyggingu og fjölgun íbúa og bíla sem bættust við inn á svæðið og að metið yrði síðar hvort og hvenær gjaldskylda yrði sett í hverfinu. Ekkert í skipulagslögum eða reglugerð mæli fyrir um að gengið verði alfarið frá bílastæðamálum áður en deiliskipulag sé samþykkt. Þyki skynsamlegt að hefja uppbyggingu svæðisins og muni staðan verða skoðuð aftur þegar íbúum hafi fjölgað.

Hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi fyrir Brautarholt 7, sem hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní 2015. Ljóst sé að kærendur geri ekki neinar efnislegar athugasemdir við byggingarleyfið sjálft, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess, heldur sé eingöngu verið að gera athugasemdir við gildandi deiliskipulag.

Athugasemdir kærenda við málsrök Reykjavíkurborgar: Kærendur mótmæla þeim skilningi Reykjavíkurborgar að deiliskipulag Ásholtsbyggðar gildi ekki. Það deiliskipulag hafi hlotið gildi, sbr. 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sem kveðið hafi á um að nánar tilgreindar deiliskipulagsbreytingar skyldu gilda án tillits til þess hvort þær hefðu verið auglýstar. Hafi þess hvergi verið getið að um tímabundna gildistöku væri að ræða. Þar sem deiliskipulag Ásholtsbyggðar hafi ekki verið afturkallað eða ógilt sé það í fullu gildi um Brautarholt 7. Túlkun Reykjavíkurborgar á inntaki 5. tl. til bráðabirgða í skipulagslögum nr. 123/2010 standist ekki. Samkvæmt ákvæðinu hafi borginni verið skylt að senda Skipulagsstofnun deiliskipulagið en ekkert segi um það að deiliskipulag falli úr gildi sé það ekki gert. Ítreki kærendur því að hið kærða deiliskipulag brjóti í bága við gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð þar sem fram komi að deiliskipulagssvæði megi ekki skarast. Þá ítreki kærendur að engin athugun hafi farið fram á því hvaða áhrif verði á umferð og bílastæðakröfu á svæðinu.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi bendir á að samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 hafi verið gert ráð fyrir nemendaíbúðum á umræddri lóð nr. 7 við Brautarholt. Í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé svæðið skilgreint sem þróunarreitur og sé sömuleiðis gert ráð fyrir byggingu nemendaíbúða. Samkvæmt 1. tl. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að það sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, og sú sé raunin.

Ekki hafi verið hægt að búast við því að deiliskipulag svæðisins stæði óbreytt. Það liggi í hlutarins eðli að skipulagsáætlanir taki breytingum í takt við þróun byggðar og samfélags á hverjum tíma og sé skipulagsyfirvöldum nauðsynlegt að geta brugðist við þróun og stjórnað áherslum innan tiltekinna svæða með breytingum á skipulagi. Kærendur hafi því ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að uppbygging á hinum umrædda reit yrði í samræmi við skipulagsáætlanir eða skipulags- og byggingarreglugerðir sem hafi verið í gildi þegar hús þeirra voru byggð. Þá hafi kærendur ekki mátt búast við því að geta gengið að bílastæðum á lóð leyfishafa um aldur og ævi.

Heimilt hafi verið að deiliskipuleggja reitinn. Lóðin sé óbyggð og skýrlega afmörkuð af götum á alla vegu og hafi ákvörðun skipulagsyfirvalda um að gera sérstakt deiliskipulag fyrir hana verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og gildum skipulagsrökum. Þá sé því hafnað að til staðar séu tvær útgáfur deiliskipulags um Brautarholt 7. Sé ekki um skörun á deiliskipulagssvæðum að ræða heldur tvö sjálfstæð deiliskipulög sem séu skýrlega afmörkuð.

Því sé hafnað að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku hinnar kærðu ákvarðana. Ekki sé verið að taka íþyngjandi ákvörðun sem beinist að kærendum. Ekkert liggi fyrir um að vandamál tengd bílastæðum muni koma upp á svæðinu og geti ótti kærenda þar um ekki hamlað lögmætri uppbyggingu á umræddri lóð, sem sé bæði í samræmi við samþykkt skipulag og reglugerðir. Ummælum kærenda um bílastæðavanda við háskóla og stúdentagarða sé sérstaklega mótmælt. Engin vandræði hafi verið með bílastæði á stúdentagörðum leyfishafa sem séu í nágrenni við Háskóla Íslands eða við stúdentagarða á Lindargötu, sem séu sambærilegir þeim görðum sem fyrirhugað sé að byggja.

Hvað varði kæru vegna takmarkaðs byggingarleyfis sé bent á að umsókn leyfishafa um byggingarleyfi hafi þegar verið samþykkt og hafi kærendur því enga lögvarða hagsmuni af því að fá hið takmarkaða leyfi fellt úr gildi. Skilyrði til útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis hafi aukinheldur verið uppfyllt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs Reykjavíkur á nýju deiliskipulagi fyrir Brautarholt 7, sem og um ákvarðanir byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að byggja þar stúdentagarða og að veita leyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu á lóðinni.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur 26. nóvember 2013 og tók það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar 2014. Fram að þeim tíma gilti Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 með síðari breytingum. Ein slík breyting tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. september 2012. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að reisa 100 nemendaíbúðir á þéttingarreit nr. 18, Ásholti, þ.e. Brautarholti 7. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Ásholt talið meðal helstu þéttingarreita og uppbyggingarsvæða og á Ásholtsreit er gert ráð fyrir 100 smáíbúðum, nemendaíbúðum eða íbúðum fyrir eldri borgara, að hluta eða öllu leyti. Reiturinn er talinn meðal helstu byggingarsvæða vestan Elliðaáa. Svæðið er skilgreint sem þróunarsvæði, Þ37, og því lýst sem íbúðarhúsnæði með möguleika á verslun og þjónustu á jarðhæð. Gert sé ráð fyrir 100 nemendaíbúðum, randbyggð með 3-5 hæða byggingum. Hið kærða deiliskipulag heimilaði byggingar á þremur hæðum, sem hýsa skyldu allt að 97 nemendaíbúðir. Það var samþykkt í borgarráði 20. febrúar 2014 og tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 1. apríl s.á. Ljóst er af framangreindu að á meðan á málsmeðferð stóð og við gildistöku var deiliskipulagið í samræmi við markmið og stefnu gildandi aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, auk þess sem áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, var fullnægt. Var því engin ástæða til að breyta aðalskipulagi samhliða deiliskipulagsgerðinni skv. 2. mgr. 41. gr. sömu laga, svo sem kærendur hafa haldið fram. Að sama skapi var heimilt að falla frá gerð lýsingar á deiliskipulagsverkefninu skv. heimild 3. mgr. 40. gr. laganna, enda lágu allar meginforsendur deiliskipulagsins fyrir í aðalskipulagi, eins og áður er lýst.

Svo sem nánar greinir í málavöxtum er ákveðin skipulagssaga á svæðinu. Á árinu 1987 var samþykkt deiliskipulag Rauðarárholts, eða Ásholtsbyggðar, en það mun ekki hafa tekið gildi fyrr en með með breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sem tók gildi 1. janúar 2000. Eftir þá breytingu var skýrt kveðið á um í 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða að deiliskipulagsáætlanir, sem gerðar hefðu verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998, giltu án tillits til þess hvort þær hefðu verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Ný skipulagslög, nr. 123/2010, tóku gildi 1. janúar 2011 og skv. 5. tl. ákvæðis til bráðabirgða skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim sem gerðar hafa verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 og hafa ekki verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum samkvæmt þeim. Segir að þetta skuli gera innan árs frá gildistöku laganna og skuli sveitarstjórn gera Skipulagsstofnun grein fyrir því hvort hún hafi samþykkt viðkomandi áætlun. Hafi deiliskipulagsáætlun ekki verið samþykkt teljist hún fallin úr gildi. Samkvæmt framangreindu bar Reykjavíkurborg að senda deiliskipulag Rauðarárholts til Skipulagsstofnunar fyrir árslok 2011, en það mun ekki hafa verið gert. Í athugasemdum við greindan tölulið í frumvarpi því er varð að skipulagslögum nr. 123/2010 er tekið fram að hann fjalli um skipulagsáætlanir sem ekki hafi hlotið formlega afgreiðslu, unnið sé að því að fara yfir slíkar deiliskipulagsáætlanir til að afgreiða þær með formlegum hætti eða vinna nýjar deiliskipulagsáætlanir. Þá var því lýst að lagt væri til að sveitarfélögum yrði veittur eins árs frestur frá gildistöku frumvarpsins til að ganga frá formlegri afgreiðslu slíkra deiliskipulagsáætlana. Ljóst er að Reykjavíkurborg gekk ekki frá formlegri afgreiðslu deiliskipulags Rauðarárholts innan tilskilinna tímamarka og verður því að telja það fallið úr gildi eins og skýrt er kveðið á um í síðasta málslið 5. tl. Þar með skarast nýtt deiliskipulag Brautarholts 7 ekki við önnur deiliskipulagssvæði og er því ekki í andstöðu við gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga er deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Það skal gera fyrir einstök svæði eða reiti og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Í athugasemdum við lagaákvæðið í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum er tekið fram að með því sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þó að slíkt geti þó stundum átt við. Deiliskipulagið sem hér er deilt um tekur til svæðis sem afmarkast af Mjölnisholti, Ásholti, Laugavegi og Brautarholti, þar sem áður var lóð Timburverslunar Árna Jónssonar, svo sem lýst var í málavöxtum. Samkvæmt deiliskipulaginu er Ásholtsbyggð norðan megin Stakkholts og telst sá reitur fullbyggður. Sunnan megin er Brautarholt 7, þar sem fyrirhugaðir eru stúdentagarðar. Verður ekki séð að afmörkun skipulagssvæðisins brjóti í bága við framangreint lagaákvæði.

Um samgöngur er fjallað í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð. Þar segir í b-lið að skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóða, sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða, stæður fyrir reiðhjól og önnur farartæki eftir því sem við eigi, skuli setja hverju sinni í deiliskipulag. Þá segir að varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlaða skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar. Í gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segir að lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð annarra húsa en sérbýlishúsa skuli vera skv. töflu 6.01, en í henni er fjöldi bílastæða hreyfihamlaðra gefinn upp sem hlutfall af almennum stæðum. Sé fjöldi bílastæða 10-25 skuli tvö þeirra vera fyrir hreyfihamlaða. Í hinu kærða deiliskipulagi er gerð grein fyrir fjölda og fyrirkomulagi bílastæða. Samkvæmt því eru 18 stæði í bílakjallara og tvö bílastæði fyrir fatlaða á austurhluta lóðar. Fullnægir deiliskipulagið því framangreindum kröfum. Þá var stefnu gildandi aðalskipulags um 0,2 bílastæði á námsmannaíbúð fullnægt. Skal á það bent að í núgildandi lögum og reglugerðum er ekki að finna kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða og verður ekki séð að kröfur skipulagsyfirvalda umfram það leiði til ójafnræðis. Því hefur einnig verið hreyft af kærendum að áhrif uppbyggingar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi á umferð og bílastæðamál hafi ekki verið rannsökuð sem skyldi. Í deiliskipulaginu kemur fram að svæðið sé í góðum tengslum við almenningssamgöngukerfi borgarinnar og góðar göngu- og hjólaleiðir séu í allar áttir. Tekið er fram að gert sé ráð fyrir að götur og umferð umhverfis svæðið verði óbreyttar. Ætlast sé til að stúdentar noti fyrst og fremst nálægar almenningssamgöngur og reiðhjól. Í greinargerð með aðalskipulagsbreytingu þeirri sem gerð var 2012, og áður er fjallað um, segir að umhverfisáhrif uppbyggingar á reitnum, s.s. varðandi umferð, verði áþekk við breytingu úr 50 almennum íbúðum í 100 nemendaíbúðir, þar sem hvorki byggingarmagn né íbúafjöldi sé að aukast. Þar kemur og fram að reiknilíkan umferðar reikni umferð út frá fjölda íbúa, en ekki fjölda íbúða, og því yrði áætluð umferð frá viðkomandi reit sambærileg hvort sem miðað væri við 100 einstaklingsíbúðir nemenda eða 50 almennar fjölskylduíbúðir. Er ljóst af þessu að áhrif uppbyggingar á umferð voru skoðuð og metin á árinu 2012, auk þess sem bæði eldra og nýrra aðalskipulag Reykjavíkur gera ráð fyrir eflingu almenningssamgangna. Hvað varðar bílastæðamál er bent á framangreinda umfjöllun en einnig liggur fyrir að í málinu var leitað eftir umsögn samgöngustjóra borgarinnar, sem taldi eftirspurn eftir stæðum í hverfinu mætt með viðunandi hætti, en lagði til að fylgst yrði með uppbyggingu og fjölgun íbúa og bíla. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ekki séð að rannsókn málsins hafi verið áfátt.

Hið kærða deiliskipulag átti sér nokkurn aðdraganda og voru haldnir fundir með hagsmunaaðilum á meðan á undirbúningi þess stóð. Tillaga að skipulaginu var fyrst kynnt sem deiliskipulagsbreyting en síðar breytt þannig að bílastæðum var fjölgað í 20. Að lokinni málsmeðferð breyttrar tillögu var hún samþykkt og send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Í kjölfar athugasemda stofnunarinnar var nýtt deiliskipulag, að mestu sama efnis, auglýst til kynningar. Afstaða var tekin til athugasemda er þá bárust, sem og við fyrri meðferð, og þeim svarað. Samþykkt tillaga var á ný send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda. Kærendur áttu og nýttu sér þann kost að koma á framfæri athugasemdum sínum við endurtekið ferli skipulagstillögunnar og var þeim athugasemdum svarað. Samkvæmt framangreindu var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði laga og er ekkert sem bendir til annars en að sveitarfélagið hafi gætt meðalhófs við beitingu skipulagsvalds síns.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Byggingarleyfi vegna framkvæmda á lóðinni Brautarholt 7 hafa einnig verið kærð, en byggingarfulltrúi samþykkti á afgreiðslufundum sínum annars vegar umsókn um leyfi til að byggja stúdentagarða, eins og nánar er lýst í málavöxtum, og hins vegar umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu. Um tvær kæranlegar ákvarðanir er að ræða og verður að fallast á að kærendur hafi hagsmuni af því að lögmæti þeirra beggja sé tekið til úrlausnar þrátt fyrir að seinna leyfið einskorðist við aðstöðusköpun og jarðvinnu, enda getur hagsmunum kærenda verið raskað svo að skapi þeim kæruaðild á meðan á þeirri vinnu stendur. Svo sem áður er lýst er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heimilað að byggja á Ásholtsreit, þ.e. Brautarholti 7, 100 nemendaíbúðir. Breytt deiliskipulag Brautarholts 7 heimilar byggingu 102 slíkra íbúða og hefur sú deiliskipulagsbreyting ekki verið kærð til nefndarinnar. Í aðalskipulaginu er einnig tekið fram að vikmörk á fjölda íbúða geti verið         -10% / +20% og miðist þau við einstök svæði. Vikmörkin séu ekki sjálfgefin og séu þau háð samþykki umhverfis- og skipulagsráðs á hverjum tíma. Verður að líta svo á að með samþykki sínu á nefndri deiliskipulagsbreytingu hafi umhverfis- og skipulagsráð samþykkt að vikmörkin ættu við um uppbyggingu á Ásholtsreit og rúmast leyfi fyrir byggingu 102 íbúða innan þeirra marka. Samþykkt framangreindra byggingarleyfisumsókna átti sér því stoð í gildandi skipulagsáætlunum. Telur úrskurðarnefndin jafnframt að skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 hafi verið fyrir hendi til útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis, enda ljóst að um umfangsmikla framkvæmd er að ræða. Með vísan til framangreinds, og þar sem ekki liggur fyrir að neinir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við ákvarðanatökuna, verður gildi hinna kærðu byggingarleyfa heldur ekki haggað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reitinn Brautarholt 7.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júlí 2015 um að veita leyfi til að byggja stúdentagarða, tvær steinsteyptar þriggja hæða byggingar með 102 íbúðareiningum, sem umlykja innigarð, og bílakjallara fyrir 19 bíla á lóð nr. 7 við Brautarholt.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. ágúst 2015 um að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu á lóð nr. 7 við Brautarholt.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

57/2013 Egilsgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júní 2013, sem barst nefndinni 29. s.m., kærir Þ, f.h. Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarbyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 11. ágúst 2014 og 2. og 17. september 2015.

Málavextir: Á 60. afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Borgarbyggð 3. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn frá 8. febrúar s.á., þar sem sótt var um leyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna fram lagða tillögu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með samhljóða bréfum umhverfis- og skipulagssviðs, dags. sama dag, var afgreiðsla byggingarfulltrúans kynnt fyrir lóðarhöfum nærliggjandi lóða og gefinn frestur til athugasemda til 3. maí s.á. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 15. apríl s.á. voru lagðar fram til kynningar fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa nr. 58, 59, 60 og 61 og eftirfarandi bókað: „Málið kynnt.“ Var sú fundargerð samþykkt af sveitarstjórn á fundi hennar 18. s.m.

Á 65. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. maí s.á. var lagt fram bréf kæranda, dags. 2. s.m., þar sem óskað var eftir frekari gögnum. Hinn 23. s.m. voru kæranda send frekari gögn er vörðuðu fram lagða tillögu og honum veittur frestur til 31. s.m. til þess að tjá sig frekar um tillöguna. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda innan frestsins, en hann mun hafa beiðst frekari frests með bréfi, dags. 3. júní s.á, sem sent var með tölvupósti að kvöldi þess dags.

Tillagan var tekin fyrir á ný á 69. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní s.á. að aflokinni þeirri grenndarkynningu sem að framan er lýst. Var eftirfarandi bókað: „Í ljósi þess að ekki hafa komið athugasemdir við grenndarkynningu er samþykkt að gefa út byggingarleyfi.“ Sú afgreiðsla var lögð fram til kynningar á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 7. s.m. og bókað á sama veg og áður: „Málið kynnt.“ Beindi kærandi bréfi, dags. 11. s.m., til sveitarstjórnar og óskaði þess að erindi hans yrði tekið fyrir á næsta fundi hennar. Í bréfinu krafðist kærandi þess að fá að koma að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og hélt kærandi því fram í bréfinu að kynningin hefði ekki hlotið „… lögformlega umfjöllun eða afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar heldur aðeins kynningu“. Á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. var fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7. júní 2015 samþykkt samhljóða, að undangenginni umræðu þar sem m.a. var greint frá bréfi kæranda.

Á fundi byggðarráðs 20. júní 2015 var áðurnefnt bréf kæranda frá 11. s.m. lagt fram og var bókað að grenndarkynning vegna breytinga á Egilsgötu 6 hefði verið framkvæmd með þeim hætti sem lög og reglugerðir gerðu ráð fyrir. Tekið var fram að engar athugasemdir hefðu borist innan þess frests sem gefinn hefði verið og ekki heldur eftir að hann hefði verið framlengdur og því hefði framkvæmdaleyfi verið gefið út. Framkvæmdaleyfið hefði verið staðfest á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. Loks var bókað: „Byggðaráð telur því að málið sé fullafgreitt af hálfu sveitarfélagsins og gerir engar athugasemdir við vinnubrögð embættismanna Borgarbyggðar í málinu.“

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að um verulegar breytingar á fasteigninni að Egilsgötu 6 sé að ræða. Verið sé breyta einbýlishúsi í fjórar íbúðir. Aðgengi að íbúð efri hæðar hússins sé um stiga í eigu lóðarhafa Egilsgötu 4 og sé nánast að öllu leyti á þeirri lóð. Hvorki hafi verið samið um umferðarrétt né samningur þar um gerður milli eigenda Egilsgötu 4 og 6. Byggingarfulltrúa hafi mátt vera þetta kunnugt vegna eignaskiptayfirlýsingar fyrir Egilsgötu 4. Í gögnum greindrar grenndarkynningar hafi ekki verið að finna afstöðumynd með hnitum sem sýni lóðarmörk eða afstöðu á milli eigna á Egilsgötu 4 og 6.

Hafi bréf, dags. 23. maí 2013, ekki fullnægt kröfum um grenndarkynningu með svarfresti til 31. s.m. Hafi athugasemdafrestur verið of stuttur. Veita skuli hagsmunaaðilum að minnsta kosti fjögurra vikna frest. Sé eðlilegt að líta svo á að ákvæðið gangi út frá því að veittar séu fullnægjandi upplýsingar, líkt og mælt sé fyrir um í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Kærandi hafi óskað eftir frekari gögnum þar sem upplýsingar um afstöðumynd og bílastæði hafi ekki verið fullnægjandi. Þau gögn sem síðar hafi borist hafi ekki fullnægt kröfum skipulagsreglugerðar. Hefði átt að veita fjögurra vikna lágmarksfrest frá 23. maí, þegar kærandi hafi beðið um frekari gögn, þar sem bæjaryfirvöld hafi viðurkennt að gögn hafi verið ófullnægjandi í grenndarkynningu.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Til þess að mál teljist nægjanlega upplýst þurfi að afla nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik. Tengist rannsóknarreglan náið andmælareglunni og stundum verði mál ekki nægilega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn og koma að athugasemdum. Þá beri stjórnvaldi að leiðbeina þeim aðila sem gert sé að skila inn upplýsingum og láta vita ef þær séu ekki fullnægjandi.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að sú starfsemi sem fyrirhuguð sé í húsinu samræmist landnotkun svæðisins, líkt og hún sé skilgreind í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, en um sé að ræða svokallaða blandaða landnotkun fyrir íbúðarbyggð, þjónustustofnanir, verslun og þjónustu.

Hinn 3. apríl 2013 hafi verið samþykkt að setja málið í grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málið verið kynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða þar sem fyrirhuguð breyting hafi verið í byggðu hverfi. Með grenndarkynningu hafi fylgt afrit af framlögðum teikningum, þ.e. grunnmynd, snið, útlitsteikningar og afstöðumynd. Frestur til að skila inn athugasemdum hafi verið gefinn til 3. maí 2013. Með bréfi, dags. 2. maí s.á., hafi kærandi óskað eftir ítarlegri gögnum um málið, með vísan til skipulagsreglugerðar, til að hann gæti tekið afstöðu til málsins. Í kjölfarið hafi honum verið send afrit af deiliskipulagi gamla miðbæjarins, afstöðumynd úr skjalasafni byggingarfulltrúa, sem sýni afstöðu húsa í nágrenni við Egilsgötu 6, og bréf frá leyfishafa, þar sem upplýst hafi verið að fyrirhugað væri að leigja húsið út til lengri eða skemmri tíma. Vegna óska kæranda um frekari gögn hafi honum verið gefinn lengri tími til að gera skriflegar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir áður en málið yrði endanlega afgreitt frá byggingarfulltrúa, eða til föstudagsins 31. maí 2013. Hafi engar frekari athugasemdir borist frá kæranda og erindið því verið tekið fyrir á vikulegum afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og málið afgreitt.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að fyrirhugaðar lagfæringar og breytingar á húsinu við Egilsgötu 6 hafi verið kynntar kæranda um miðjan marsmánuð 2013. Hafi honum þá verið afhentar teikningar hússins og haft þær til skoðunar í hálfan mánuð. Í framhaldi hafi kærandi neitað að árita teikningar að fyrirhuguðum breytingum til samþykkis. Í enda marsmánaðar hafi breytingin verið sett í grenndarkynningu. Í umræddum breytingum felist aðallega að verslunarrými á jarðhæð sé breytt í stúdíóíbúðir. Í aðalskipulagi fyrir svæðið sé gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis. Hafi verið heimild fyrir verslunarrekstri í húsinu. Engar stórvægilegar breytingar séu gerðar á ytra byrði hússins utan þess að útidyrum sé bætt við á þá hlið sem snúi að götu. Að öðru leyti hafi húsið einungis verið lagfært að utan, enda verulega farið að láta á sjá, og flokkist lagfæringarnar því sem eðlilegt viðhald.

Þá sé bent á að leyfishafi sé ekki aðili að eignaskiptayfirlýsingu sem gerð hafi verið 3. apríl 2013 og geti því ekki talist bundinn af henni. Verði að skoða lögmæti þess hvort umræddur eignaskiptasamningur taki til alls stigans í því samhengi að aðilar samningsins séu eigendur þess sem um sé samið. Fullyrðingu kæranda um eignarhald hans og full yfirráð yfir greindum stiga sé því vísað á bug. Stiginn hafi ávallt fylgt Egilsgötu 6 að hálfu.

Löng hefð sé fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu í samræmi við aðalskipulag. Af svæðinu og nærliggjandi götum hafi horfið á brott starfsemi, s.s. Kaupfélag Borgfirðinga, Póstur og sími og Sparisjóður Mýrarsýslu, ásamt smærri verslunum og þjónustu. Því sé nóg af bílastæðum í eigu sveitarfélagsins á svæðinu til að þjóna þeim íbúðum sem þar séu. Breytingar á atvinnustarfsemi að Egilsgötu 6 skapi því engan vanda hvað varði bílastæði. Þá sé bent á að á ofanverðri lóð Egilsgötu 6 séu tvö bílastæði sem tilheyri þeirri lóð og muni þau nýtast íbúum hússins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis vegna breytinga á húsinu að Egilsgötu 6.

Byggingarfulltrúum viðkomandi sveitarfélaga er veitt vald til tiltekinna leyfisveitinga með lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Þá er sveitarstjórnum falið skipulagsvald samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og er náið samspil milli laganna tveggja.

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir það svæði þar sem fasteignin að Egilsgötu 6 er staðsett. Þegar svo háttar að sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og ekkert deiliskipulag liggur fyrir skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kemur skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er því með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram samkvæmt lögunum áður en leyfi er veitt til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði. Gildir það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag. Í 2. mgr. 44. gr. er nánar fjallað um framkvæmd grenndarkynningar og segir að hún felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum, sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Segir jafnframt að þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Er það því í höndum skipulagsnefndar hvers sveitarfélags að taka ákvörðun um grenndarkynningu og sjá um framkvæmd hennar og þarf síðan samþykki sveitarstjórnar til, að liðnum fresti til athugasemda. Fyrr er byggingarfulltrúa ekki heimilt að veita byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum er ljóst að ákvörðun um grenndarkynningu var tekin af byggingarfulltrúa. Sú ákvörðun var kynnt fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd og var bókað að málið hefði verið kynnt. Ekki er hægt að fallast á að í því hafi falist ákvörðun skipulagsnefndar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um að grenndarkynning skuli fara fram, enda felur kynning á máli fyrir stjórnvaldi hvorki í sér afstöðu þess til samþykkis né synjunar. Að sama skapi verður ekki séð að sveitarstjórn hafi afgreitt málið skv. 2. mgr. 44. gr. að grenndarkynningu lokinni. Raunar hafði byggingarfulltrúi þegar samþykkt hið kærða byggingarleyfi áður en málið kom næst til kasta sveitarstjórnar, og þá í þeim búningi að sveitarstjórn samþykkti fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar, en í þeirri fundargerð var bókað að kynnt væri afgreiðsla byggingarfulltrúa á byggingarleyfi. Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð og ákvörðunartaka vegna hins kærða byggingarleyfis ýmsum annmörkum háð. Með hliðsjón af þeirri verkaskiptingu byggingar- og skipulagsyfirvalda sem löggjafinn hefur ákveðið verður að telja þá annmarka svo verulega að ekki verði hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

47/2015 Hlíðarvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 10. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 um að veita byggingarleyfi til niðurrifs hússins að Hlíðarvegi 57 og á ákvörðun byggingarfulltrúans frá 21. ágúst s.á. um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu fjölbýlishúss á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir M, Hlíðarvegi 55, Kópavogi, „…ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs að veita byggingarleyfi á Hlíðarvegi 57…“. Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins við Hlíðarveg 57 og ákvörðun byggingarfulltrúans frá 21. ágúst s.á um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu fjölbýlishúss á sömu lóð. Þess er krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Málið þykir nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 1. og 17. júlí 2015.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 22. september 2014 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa Hlíðarvegar 57 í Kópavogi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni. Lagt var til að einbýlishús frá árinu 1943, sem á lóðinni stæði, yrði rifið og þess í stað reist fjórbýlishús á tveimur hæðum. Var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda. Í kjölfarið voru gerðar breytingar á tillögunni sem kynntar voru á samráðsfundum sem haldnir voru með lóðarhafa og þeim sem gerðu athugasemdir við tillöguna.

Á fundi skipulagsnefndar 4. maí 2015 var breytt tillaga, dags. í apríl s.á., lögð fram ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar um innsendar athugasemdir, dags. sama dag. Var tillagan, ásamt umsögninni, samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar 12. maí 2015.

Með umsókn, dags. 16. júní 2015, sótti lóðarhafi Hlíðarvegar 57 um byggingarleyfi til niðurrifs hússins á lóðinni. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. júlí 2015 og samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist lögum um mannvirki nr. 160/2010. Þá sótti lóðarhafi hinn 2. júlí 2015 um byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á sömu lóð og var sú umsókn samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins við Hlíðarveg 57 og bygging tveggja hæða fjórbýlis á lóðinni samræmist ekki Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Vísi hann til umfjöllunar í aðalskipulaginu um nýbyggingarsvæði og fyrirhugaðar breytingar á Digranesi. Þá sé fyrirhuguð nýbygging ekki í samræmi við byggðamynstur í götunni.

Skuggavarpsmyndum hafi aðeins verið varpað upp á skjá í stutta stund á samráðsfundi um framkvæmdirnar, en myndirnar hafi ekki borist kæranda. Ekki hafi verið hægt að átta sig á skuggavarpi á hús kæranda. Þá komi fram í umsögn um athugasemdir vegna grenndarkynningar framkvæmdanna að þéttur gróður byrgi að miklu leyti fyrir útsýni til austurs frá Hlíðarvegi 55. Hið rétta sé að útsýni til austurs frá Hlíðarvegi 55 sé mjög gott og aðeins sjáist í nokkrar trjágreinar. Óskað hafi verið eftir teikningu sem sýndi skerðingu á útsýni en hún ekki fengist. Þó sé ljóst að útsýni til austurs og morgunsól muni hverfa að fullu og steinsteypa blasa við. Yfirvofandi framkvæmd rýri verulega lífsskilyrði kæranda og verðmæti eignar hans. Ítrekuðum athugasemdum þar að lútandi hafi lítið sem ekkert verið sinnt og hagsmunir nýrra lóðarhafa Hlíðarvegar 57 verið látnir ráða í öllum tilvikum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær skírskotar til þess að í aðalskipulagi Kópavogs komi fram að aðalstef skipulagsins sé þétting byggðar, sem sé bráðnauðsynleg með tilliti til takmarkaðs landrýmis til framtíðar. Gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða á Digranesi, einkum í Auðbrekku og Lundi, en áætlað sé að um 100 íbúðir verði byggðar annars staðar í bæjarhlutanum. Uppbygging við Hlíðarveg sé því ekki á skjön við stefnu aðalskipulagsins. Fyrirhuguð nýbygging verði ekki hærri en núverandi hús á lóðinni og skeri sig ekki úr götumyndinni hvað hæðina varði. Hús við Hlíðarveg séu ólík í útliti en hönnuðir nýbyggingarinnar hafi horft til húsanna við Bröttutungu 1-9 sem fyrirmyndar hvað útlit varði.

Til að koma til móts við athugasemdir varðandi útsýnisskerðingu hafi efri hæðir nýbyggingarinnar verið inndregnar á suðurhlið. Samkvæmt skuggavarpsteikningum falli skuggi af nýbyggingunni á norðausturhorn Hlíðarvegar 55 snemma að morgni og á norðvesturhorn lóðar Bröttutungu 1 síðdegis. Ekki verði veruleg skerðing á útsýni frá Hlíðarvegi 55. Þéttur gróður byrgi að miklu leyti fyrir útsýni til austurs frá Hlíðarvegi 55, útsýni sé aðallega til suðurs yfir Kópavogsdalinn og haldist það óskert. Það sé mat Kópavogsbæjar að breytingarnar raski ekki lögvörðum hagsmunum kæranda svo að ógildingu varði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi hafnar því alfarið að byggingaráform hans samræmist ekki aðalskipulagi eða að þau stríði gegn hagsmunum kæranda með þeim hætti að leitt geti til ógildingar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi einbýlishússins við Hlíðarveg 57 og um þá ákvörðun byggingarfulltrúans að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á sömu lóð, en lóðin er á svæði þar sem deiliskipulag er ekki fyrir hendi.

Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 felur í sér heimild til niðurrifs mannvirkja, en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna með þeim hætti að þeir geti átt kæruaðild. Ekki liggur fyrir að niðurrif hússins við Hlíðarveg 57 snerti einstaklega og lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann geti átt aðild að kæru vegna hins umdeilda byggingarleyfis og verður þessum þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í máli þessu er um að ræða leyfi til byggingar fjórbýlishúss í stað einbýlishúss á lóð í grónu hverfi á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Í aðalskipulaginu kemur fram að þótt eldri hverfi bæjarins teljist fullbyggð sé horft til þéttingar byggðar þar, eins og stefnt hafi verið að á undanförnum árum. Um Digranes segir meðal annars að byggð þar sé nokkuð fastmótuð, þar sé þéttasta byggð í Kópavogi með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli. Gert sé ráð fyrir að heildarfjölgun íbúða á Digranesi á skipulagstímabilinu geti orðið um 530 íbúðir, einkum á þróunarsvæði við Auðbrekku og í Lundi, en áætlað sé að um 100 íbúðir verði byggðar annars staðar í bæjarhlutanum. Verður ekki annað ráðið af framangreindu en að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Fyrir liggur að um töluverða aukningu á byggingarmagni verður að ræða, eða úr 222,1 m² í 475,9 m², og verða áhrifin af byggingunni óhjákvæmilega önnur, og að einhverju marki aukin, gagnvart kærendum. Þrátt fyrir aukið umfang verður hæð byggingarinnar hins vegar sú sama og húss þess sem fyrir var á lóðinni. Er og til þess að líta að um lóð næst horni er að ræða og að fyrirhugað fjórbýlishús verður staðsett innarlega á lóðinni. Í ljósi staðhátta verður ekki séð að grenndaráhrifin verði slík að raskað geti gildi hins kærða byggingarleyfis. Nýtingarhlutfall, sem er mælikvarði á þéttleika byggðar, hækkar umtalsvert með hinni kærðu ákvörðun, eða úr 0,20 í 0,43. Hins vegar er til þess að líta að meðalnýtingarhlutfall þeirra lóða sem grenndarkynning náði til er 0,43 og verður nýtingarhlutfall Hlíðarvegar 57 því í samræmi við það sem tíðkast á svæðinu. Þá verður ekki talið að fyrirhuguð nýbygging skeri sig úr með þeim hætti að ekki samræmist byggðamynstri, en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að yfirbragð hússins verði áþekkt raðhúsum í næsta nágrenni. Þá eru nálæg hús við Hlíðarveg ólík innbyrðis í útliti og er þar um að ræða blandaða byggð einbýlishúsa og lítilla fjöleignarhúsa.

Loks liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við mannvirkja- og skipulagslög. Tillagan var grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, og athugasemdum svarað, m.a. varðandi skuggavarp og útsýni. Þá var hún samþykkt í skipulagsnefnd og í bæjarstjórn. Byggingarleyfisumsókn var síðar samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar og er kröfu kæranda þar um því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015, um að veita byggingarleyfi til niðurrifs hússins að Hlíðarvegi 57, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kæranda um að ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 21. ágúst 2015, um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á lóð Hlíðarvegar 57, verði felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

33/2015 Hrólfsskálamelur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 10. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2015, kæra á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 10. apríl 2015 að samþykkja áform um byggingarleyfi fyrir 34 íbúða fjölbýlishúsi við Hrólfsskálamel 1-5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. maí 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Páll Kristjánsson hdl., f.h. húsfélaganna að Austurströnd 8, 10, 12 og 14, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 10. apríl 2015 að samþykkja áform um byggingarleyfi fyrir 34 íbúða fjölbýlishúsi við Hrólfsskálamel 1-5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2015, krefst sami aðili þess jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 12. júní og 28. ágúst 2015.

Málavextir: Deiliskipulag Hrólfsskálamels var samþykkt í bæjarstjórn 11. september 2006 og var auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. október s.á. Skipulagið var síðar sameinað skipulagi skóla og íþróttasvæðis við Suðurströnd. Var Deiliskipulag Suðurstrandar og Hrólfsskálamels samþykkt í bæjarstjórn 26. júní 2013 og öðlaðist gildi 17. júlí s.á. með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Hinn 9. janúar 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn á Seltjarnarnesi áform um byggingu fjölbýlishúss með 34 íbúðum á lóðinni nr. 1-5 við Hrólfsskálamel. Athugasemdir bárust í kjölfarið frá íbúum við Austurströnd og með bréfi til lóðarhafa, dags. 6. febrúar 2015, óskaði byggingarfulltrúi eftir því að lóðarhafi gerði grein fyrir því hvernig fyrirhuguð nýbygging samræmdist deiliskipulagi svæðisins hvað hæðarsetningu varðaði. Var vísað til greinargerðar deiliskipulagsins og götumyndar, sem fylgt hefði skipulaginu, en þar væru tilgreindir þrír hæðarkótar fyrir bygginguna. Syðst væri kótinn 32,45, í miðjunni væri hann 25,45 og nyrst væri kótinn 28,95. Hinn samþykkti uppdráttur tæki hins vegar eingöngu mið af hæðarkótum nyrst og syðst. Í kjölfarið áttu sér stað samskipti milli sveitarfélagsins og lóðarhafa. Hinn 19. mars 2015 tók byggingarfulltrúi málið til afgreiðslu og afturkallaði samþykkt byggingaráformanna með vísan til 2. tl. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skömmu síðar lagði lóðarhafi fram breytta aðaluppdrætti og 10. apríl 2015 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráform á grundvelli þeirra.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hið umdeilda byggingarleyfi ganga gegn deiliskipulagi. Byggingin sé á þremur til fimm hæðum en sá hluti hennar sem sé þrjár hæðir sé mun minni en gert hafi verið ráð fyrir á skýringaruppdrætti með deiliskipulagi svæðisins. Umfang þeirra húshluta sem séu fjórar og fimm hæðir sé hins vegar umtalsvert meira en skýringaruppdrátturinn segi til um. Ekki sé heldur gert ráð fyrir því að byggingin verði stölluð og að efri hæðir hennar verði inndregnar þar sem hún rísi hæst, líkt og deiliskipulag áskilji. Þá sé útlit byggingarinnar annað en ráðgert hafi verið og frábrugðið útliti annarra húsa á svæðinu.

Byggingin muni hafa veruleg áhrif á hagsmuni og lífsgæði íbúa við Austurströnd. Íbúðir þar muni lækka í verði, einkum á efri hæðum húsanna þar sem útsýni muni skerðast verulega og meira en deiliskipulag áætli. Þá hafi byggingin áhrif á umferð í hverfinu, sem og á umhverfi og ásýnd þess. Ef byggingin væri stölluð með inndregnar efri hæðir og helmingur hennar væri á þremur hæðum, líkt og deiliskipulag beri með sér, yrðu áhrifin af henni mun minni. Útsýni frá efstu hæðum húsanna við Austurströnd héldist þá að miklu leyti óskert og áhrif af skuggavarpi yrðu minni, en að óbreyttu verði þau veruleg. Þá liggi engar rannsóknir fyrir um vindafar við bygginguna.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er vísað til þess að hin samþykktu byggingaráform samræmist bindandi ákvæðum deiliskipulags, þ.m.t. hvað varði hæð, umfang og útlit hússins. Grenndaráhrif þess séu eins og búast hefði mátt við með hliðsjón af skipulaginu. Þau séu ekki meiri en íbúar í þéttbýli þurfi almennt að búa við.

Málsgrundvöllur kærenda sé á því reistur að skýringarmyndir, svokallaðar götumyndir, á deiliskipulagsuppdrætti séu skilmálateikningar og bindandi hvað varði form, uppbrot og hæð. Samkvæmt gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé heimilt að nota skýringaruppdrætti, svo sem götumyndir, til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags. Slík skýringargögn séu þó ekki bindandi nema það sé sérstaklega tekið fram. Hvergi í skipulagsgögnum sé tekið fram að þær skýringarmyndir sem kærendur vísi til séu bindandi um hæðafjölda eða form hússins.

Samkvæmt grunnmynd deiliskipulagsins megi annar hluti hússins vera þrjár til fimm hæðir og hinn hluti þess þrjár til fjórar hæðir. Fjallað sé um hámarkshæð hússins í deiliskipulagsskilmálum þar sem segi: „Uppgefin heildarhæð bygginga er þó bindandi. Þó er heimilt að handlisti á svalahandriði sé allt að 0,3 m yfir uppgefnum hæðarkóta þakhæðar, sjá nánar á samþykktum uppdrætti deiliskipulags Hrólfsskálamels sem samþykktur var í bæjarstjórn 11.09.2006.“ Umrædd heildarhæð sé ekki gefin upp annars staðar í skipulaginu og því geti eingöngu verið um að ræða þann kóta sem gefinn sé upp á áðurnefndum götumyndum. Um sé að ræða þrjá hæðarkóta. Í ljósi þess að sérstaklega sé tekið fram að þeir séu bindandi séu þeir hluti skilmálanna, ólíkt öðrum atriðum skýringarmyndanna. Hluti byggingarinnar á norðurhluta reitsins verði að fara niður í hæðarkótann 25,45. Hin samþykktu byggingaráform séu í samræmi við þessi bindandi ákvæði deiliskipulagsins.

Ekkert í hönnun hússins kalli á athugun á vindafari við bygginguna. Hvað skuggavarp varði sé umfang og hæð hússins ekki umfram það sem kærendur hafi mátt gera ráð fyrir samkvæmt samþykktu skipulagi. Áhrif skuggavarps hafi verið skoðuð sérstaklega við gerð deiliskipulagsins. Ljóst sé að skerðing verði á útsýni frá þeim íbúðum við Austurströnd sem snúi að hinu nýja húsi og standi lægra en það, en við því hafi kærendur mátt búast samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Jafnvel þótt skýringarmyndirnar sem kærendur vísi til teldust bindandi myndi það ekki leiða til þess að grenndaráhrifin breyttust umtalsvert nema fyrir hluta íbúða á efstu hæðum húsanna við Austurströnd.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi fer fram á að kröfum kærenda verði hafnað. Kæran sé byggð á rangtúlkun á gildandi deiliskipulagi. Málsástæður kærenda byggist á götumyndum sem fylgt hafi deiliskipulagi frá árinu 2006 og hafi einnig fylgt breyttu skipulagi sem samþykkt hafi verið árið 2013. Kærendur virðist líta svo á að götumyndirnar feli í sér bindandi fyrirmæli um form og lögun byggingarinnar við Hrólfsskálamel 1-5. Slík túlkun samræmist þó ekki lögum og reglum um framsetningu deiliskipulags og sé þá vísað til 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.5.2., 5.5.3. og 5.5.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Umræddar götumyndir, sem kærendur vísi til, séu bersýnilega skýringarmyndir í skilningi gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð, settar fram sem dæmi um útfærslu, og séu ekki bindandi.

Á uppdrætti deiliskipulagsins komi fram hversu margar hæðir sé heimilt að byggja við Hrólfsskálamel 1-5. Hæðarsetning samkvæmt uppdrættinum sé tvískipt og geti hluti byggingarinnar verið þrjár til fimm hæðir en hinn hlutinn þrjár til fjórar hæðir. Ekki séu að öðru leyti settar fram kröfur um hve stór hluti bygginganna verði þrjár, fjórar eða fimm hæðir. Á skipulagsuppdrætti séu ekki settir fram hæðarkótar fyrir bygginguna en hins vegar sé hæðarkóta að finna á áðurnefndum götumyndum. Greinargerð deiliskipulagsins tilgreini aðeins að hæðarkótarnir sem slíkir séu bindandi en ekki verði af henni ráðið að götumyndirnar sé bindandi að öðru leyti. Form byggingarinnar á götumyndum eigi sér hvorki stoð í texta greinargerðar deiliskipulagsins né í grunnmynd þess á skipulagsuppdrætti og ekkert í texta greinargerðarinnar gefi til kynna að sú útfærsla sem götumyndirnar sýni sé bindandi. Byggingin sé í samræmi við deiliskipulag og hæð hverrar húshæðar um sig sé innan marka hæðarkótanna samkvæmt götumyndinni. Þá eigi sú afstaða kærenda, að tiltekið hlutfall byggingarinnar þurfi að vera þrjár, fjórar og fimm hæðir, sér enga viðhlítandi stoð í skipulagsskilmálum.

Fyrirhuguð bygging samræmist skilmálum deiliskipulagsins hvað varði stöllun og staðsetningu innan byggingarreits. Ekki verði séð að hönnun byggingarinnar sé með öðrum hætti en áskilið sé í deiliskipulagi. Skuggavarp og áhrif fyrirhugaðra mannvirkja á útsýni kærenda geti því eðli málsins samkvæmt ekki orðið meiri en skipulagið geri ráð fyrir. Þá sé engin lagaskylda að framkvæma sérstaka rannsókn á áhrifum byggingarinnar á vindafar, skuggavarp eða útsýni í tengslum við útgáfu byggingarleyfis þótt þessi atriði kunni að koma til skoðunar við gerð deiliskipulags.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi að samþykkja áform um byggingarleyfi fyrir 34 íbúða fjölbýlishúsi við Hrólfsskálamel 1-5. Byggingarleyfið styðst við Deiliskipulag Suðurstrandar og Hrólfsskálamels, sem tók gildi 17. júlí 2013, með síðari breytingu. Hefur úrskurðarnefndinni ekki borist kæra vegna deiliskipulagsins og er kærufrestur vegna þess liðinn. Kemur deiliskipulagið því ekki til endurskoðunar í málinu, heldur takmarkast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hið kærða byggingarleyfi.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Við mat á því hvort þetta skilyrði telst uppfyllt er m.a. nauðsynlegt að líta til skipulagslaga nr. 123/2010, einkum ákvæðis 5. mgr. 12. gr. þess efnis að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag, og til ákvæða skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um framsetningu deiliskipulags. Fram kemur í gr. 5.5.1. nefndrar reglugerðar að deiliskipulag skuli setja fram á skipulagsuppdrætti ásamt skipulagsgreinargerð. Þá segir í gr. 5.5.4. að ef skýringaruppdrættir, skýringarmyndir, sérstök umhverfisskýrsla og umsagnir fylgi skuli vísa til þessara gagna í greinargerð deiliskipulagsins. Skýringaruppdrætti, svo sem götumyndir, skuggavarpsteikningar, sniðmyndir, líkön og hreyfimyndir, sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags. Skýringargögn, sbr. framangreint, séu ekki bindandi nema það sé sérstaklega tekið fram.

Í Aðalskipulagi Seltjarnarness 2006-2024 er fjallað sérstaklega um miðsvæði í kafla 4.3, þ. á m. um uppbyggingu á Hrólfsskálamel. Þar segir: „Almennt er gert ráð fyrir að hús verði 3 hæðir, en þó með þeirri undantekningu að meðfram Nesvegi verði leyfðar 4 hæðir og að hærri byggingarhluti, allt að 5 hæðir, á horni Suðurstrandar og Nesvegar myndi einskonar kennileiti fyrir svæðið, þó þannig að gæði annarra íbúða í nágrenninu skerðist sem minnst.“ Deiliskipulagi Suðurstrandar og Hrólfsskálamels fylgja götumyndir sem sýna meðal annars byggingu við Hrólfsskálamel 1-5. Á þeirri mynd sem sýnir bygginguna frá Austurströnd, eða sjónarhorni kærenda, er gert ráð fyrir að fjórða og fimmta hæð hennar verði inndregnar að hluta á horni Nesvegar og Suðurstrandar. Slíkt fyrirkomulag hefði vissulega getað leitt til minni grenndaráhrifa fyrir kærendur en raun verður á samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi og þar með verið í samræmi við tilvitnaðan texta aðalskipulags þess efnis að gæði íbúða í nágrenninu skerðist sem minnst. Það verður þó ekki fram hjá því litið að aðalskipulagið heimilar sérstaklega allt að fimm hæðir á þessum stað og að ekki er tekið fram í greinargerð deiliskipulagsins að götumyndirnar skuli teljast bindandi. Verða þær því að teljast til skýringargagna í skilningi gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð og er ekki hægt að fallast á að þær séu bindandi að því er varðar form og útlit fyrirhugaðrar byggingar við Hrólfsskálamel 1-5.

Í greinargerð deiliskipulagsins segir hins vegar um lóð Hrólfsskálamels 1-18 að uppgefin heildarhæð bygginga sé bindandi, en heimilt sé að handlisti á svalahandriði sé allt að 0,3 m yfir uppgefnum hæðarkóta þakhæðar. Upplýsingar um heildarhæð bygginga við Hrólfsskálamel er eingöngu að finna á áðurnefndum götumyndum. Með hliðsjón af lokamálslið gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð verður því að telja að hæðarkótar, sem lesa má úr götumyndunum, séu bindandi. Af samþykktum teikningum, sem liggja fyrir í málinu, verður ráðið að hæðarkótar hverrar húshæðar fyrir sig verði örlítið lægri en deiliskipulag heimilar. Þá verður ekki annað séð en að byggingin samræmist skipulagsuppdrætti hvað hæðafjölda varðar, og uppfylli jafnframt ákvæði í greinargerð deiliskipulagsins um að byggingar á lóð Hrólfsskálamels 1-18 verði stallaðar og að allt að 2/3 hlutar þeirra megi standa innan ytri byggingarlínu.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki annað séð en að hið kærða byggingarleyfi samræmist gildandi skipulagsáætlunum á svæðinu. Þá verður ekki séð að ákvörðun um byggingarleyfi sem samræmist deiliskipulagi gefi almennt tilefni til skoðunar á vindafari. Í ljósi þess, og þar sem ekki liggur fyrir að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við samþykkt hins kærða byggingarleyfis sem ógildingu geti varðað, er kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 10. apríl 2015 að samþykkja áform um byggingarleyfi fyrir 34 íbúða fjölbýlishúsi við Hrólfsskálamel 1-5.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

61/2015 Sævangur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 61/2015, kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2015, sem barst nefndinni 5. ágúst s.á., kærir G, Sævangi 7, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu í úrskurði uppkveðnum 28. ágúst 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Hafnarfirði 29. apríl 2015 voru teknar fyrir kvartanir sem borist höfðu vegna framkvæmda á lóðinni nr. 5 við Sævang, við lóðarmörk Sævangs 7. Var lóðarhafa Sævangs 5 gert að stöðva framkvæmdir þar sem þær samræmdust ekki deiliskipulagi og samþykktum uppdráttum, auk þess sem hafa skyldi samráð við nágranna um frágang á lóðamörkum.

Hinn 30. júní 2015 sótti lóðarhafi Sævangs 5 um byggingarleyfi til að reisa sólpall og skjólveggi skv. teikningum, dags. 24. s.m. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2015 og afgreiðslu hennar frestað með vísan til athugasemda. Nýjar teikningar voru lagðar fram 13. júlí s.á. og hinn 22. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina. Hefur sú samþykkt verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að gert sé ráð fyrir að staurar og sólpallur á lóð Sævangs 5 verði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð heimili. Þá skuli sorpskýli ekki vera á lóðamörkum þar sem það hindri útsýni frá innkeyrslu Sævangs 7. Frárennslislagnir frá Sævangi 7 liggi rétt innan við lóðarmörkin og ógerlegt gæti orðið að komast að þeim vegna fyrirhugaðra mannvirkja. Gluggar séu á bílskúr Sævangs 7, u.þ.b. 1,5 m frá lóðamörkum, og eldvarnarkröfum sé ekki fullnægt þegar timburmannvirki standi svo nálægt skúrnum.

Kærandi hafi ítrekað komið mótmælum sínum gegn framkvæmdinni á framfæri við byggingarfulltrúann í Hafnarfirði. Þess hafi þó ekki verið getið í fundarbókun frá 22. júlí 2015 er framkvæmdin var samþykkt. Hins vegar hafi komið þar fram að samþykki íbúa að Sævangi 3 og 8 lægi fyrir, en þeir hefðu engra sýnilegra hagsmuna að gæta varðandi framkvæmdina. Þá sé bókun byggingarfulltrúa mjög óljós varðandi það hvaða teikningar hafi verið samþykktar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er skírskotað til þess að hinn 16. desember 2009 hafi byggingarfulltrúi samþykkt erindi lóðarhafa að Sævangi 5 er hafi m.a. lotið að frágangi lóðarinnar. Kærandi hafi ekki gert athugasemd við þá samþykkt. Er hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi samþykktur uppdráttur frá 2009 verið hafður til hliðsjónar, ásamt deiliskipulagi svæðisins. Þá sé vísað til þess að á mæliblaði komi fram að engar kvaðir séu á lóðum hvað varði lagnir eða gröft.

Meginbreytingin sem í hinni kærðu ákvörðun felist sé sú að heitur pottur sé færður til á lóðinni, bílastæðum á lóðinni fjölgað úr tveimur í þrjú og staðsetning sorpskýlis sé færð inn á lóðaruppdrátt. Á samþykktum uppdrætti frá 22. júlí 2015 sé ekki gert ráð fyrir girðingu á lóðarmörkum heldur komi stakir staurar í stað þeirrar girðingar sem gert hafi verið ráð fyrir árið 2009 og síðar í breyttri útfærslu árið 2015. Á staurunum sé hengibúnaður til að setja upp tjöld á góðum dögum. Þessi útfærsla sé á 7,5 m kafla á lóðamörkum Sævangs 5 og 7. Bifreiðageymsla Sævangs 7 sé í 1,5 m fjarlægð frá lóðamörkunum en á henni sé röð glugga sem staðsettir séu upp undir loftplötu bílskúrsins. Ekki sé fyrirsjáanleg nein birtu- eða útsýnisskerðing að Sævangi 5 vegna framkvæmdanna.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að teikningar sem sýnt hafi framtíðarskipulag lóðar Sævangs 5 hafi verið samþykktar árið 2009. Kærandi hafi þá lýst andstöðu sinni vegna staðsetningar á heitum potti en ekki hreyft öðrum mótmælum. Ekkert hafi orðið af framkvæmdum þá, en ákveðið hafi verið að hefja þær vorið 2015. Leitast hafi verið við að ná samkomulagi við kæranda og hafi leyfishafi talið að samkomulag hefði tekist í apríl 2015. Það hafi verið handsalað og undirritað af beggja hálfu en kærandi hafi hins vegar neitað að afhenda það. Samkomulagið heimili leyfishafa að reisa trévegg á lóðamörkum, ákveðin hafi verið ný staðsetning á heitum potti og leyfishafi hafi samþykkt að greiða kostnað við að losa upp vegg og pall á lóð sinni og ganga frá tréverki ef bilun yrði á frárennslislögn frá Sævangi 7 og ekki yrði komist að lögninni með öðrum hætti.

Eftir að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar á lóðinni hafi enn verið reynt að ná samkomulagi við kæranda, en án árangurs. Því hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum og hafi það verið veitt 22. júlí 2015. Samkvæmt samþykktum uppdráttum séu nánast engin mannvirki á lóðamörkum, en sótt hafi verið um leyfi til að láta staura á lóðamörkunum standa svo hengja mætti á þá laus tjöld og nýta sólpallinn á sumardögum. Þá sé því mótmælt að sorpskýli á lóð Sævangs 5 hindri útsýni frá innkeyrslu Sævangs 7.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Auk mannvirkja taka lög nr. 160/2010 um mannvirki m.a. til gróðurs á lóðum, frágangs og útlits lóða og til girðinga í þéttbýli, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Á grundvelli 60. gr. sömu laga hefur verið sett byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd þeirra og er þar m.a. að finna ákvæði um girðingar og sorpskýli. Þá er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi í gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. nefndra laga.

Kveðið er á um í 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð að girðing eða skjólveggur á mörkum lóða sé alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa, óháð hæð girðingar eða skjólveggs, og skal samþykkis leitað áður en hafist er handa við slíkar smíðar. Samkvæmt þeim uppdrætti sem samþykktur var 22. júlí 2015 er gert ráð fyrir sex staurum á lóðamörkum Sævangs 5 og 7. Staurarnir eru 1,4 m háir og er tekið fram á uppdrættinum að hægt verði „…að hengja tjöld á súlurnar á góðum dögum“. Úrskurðarnefndin er þeirrar skoðunar að eins og hér hátti til verði að telja að um skjólvegg eða girðingu sé að ræða í skilningi framangreinds reglugerðarákvæðis, þótt einungis hluti hans sé varanlega skeyttur við landið. Leyfishafi vísar til þess að samkomulag hafi tekist með lóðahöfum Sævangs 5 og 7 um að reisa mætti trévegg á lóðamörkum, en ekkert slíkt samkomulag liggur fyrir úrskurðarnefndinni. Verður því að miða við að samþykki lóðarhafa Sævangs 7 hafi ekki legið fyrir er hið kærða byggingarleyfi var veitt. Leyfið var því veitt í andstöðu við fortakslaust ákvæði byggingarreglugerðar.

Svo sem áður segir er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Kemur nánar fram í e-lið tilvitnaðs ákvæðis að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt að sólpallur á lóð Sævangs 5 nái að lóðarmörkum Sævangs 7 á nokkurra metra kafla og verður ráðið af málsgögnum að pallurinn verði úr timbri. Um sorpskýli á lóð gilda ákvæði gr. 6.12.8. í byggingarreglugerð sem kveða nánar á um gerð og frágang sorpskýla án þess að um staðsetningu þeirra innan lóðar sé kveðið. Lóðin á Sævangi 5 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Íbúðarhverfi í Norðurbæ sem endurgert var á árinu 2012 og öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 26. september það ár. Í skipulagsskilmálunum kemur m.a. fram að lóðarhafi skuli hafa samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og að sorpgeymslur skuli vera staðsettar þannig að ekki valdi óþægindum fyrir nágranna. Verður ekki séð að þess hafi verið gætt að leyfið væri í samræmi við nefnda skipulagsskilmála svæðisins.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun háða slíkum annmörkum að ekki verði komist hjá ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

61/2015 Sævangur

Með
Árið 2015, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 61/2015, kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2015, sem barst nefndinni 5. ágúst s.á., kærir G Sævangi 7, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 22. júlí 2015 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Kærandi skírskotar til þess að gert sé ráð fyrir að staurar á lóðamörkum, sólpallur og sorpskýli verði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð heimili. Þá liggi frárennslislagnir frá Sævangi 7 rétt innan við lóðarmörk og ógerlegt gæti orðið að komast að þeim. Gluggar séu á bílskúr Sævangs 7, u.þ.b. 1,5 m frá lóðamörkum, og eldvarnarkröfum sé ekki fullnægt þegar timburmannvirki standi svo nálægt skúrnum.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um lóðauppdrætti, skjólveggi og girðingar á lóðum. Auk þess er skírskotað til þess að hinn 16. desember 2009 hafi byggingarfulltrúi samþykkt erindi er laut að frágangi lóðar að Sævangi 5. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þá samþykkt. Meginbreytingin sem í hinni kærðu ákvörðun felist sé sú að heitur pottur sé færður til á lóðinni, bílastæðum á lóðinni fjölgað úr tveimur í þrjú og staðsetning sorpskýlis sé færð inn á lóðaruppdrátt.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Leikur meðal annars vafi á því hvort hún samræmist ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Framkvæmdir eru langt komnar. Eigi að síður þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, enda geta þær haft röskun í för með sér fyrir hann. Byggingarleyfishafi getur hins vegar óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru á lóð Sævangs 5 á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                      ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                               Þorsteinn Þorsteinsson

72/2013 Arnarholt

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 18. júní 2013 um að veita leyfi til að reisa sumarhús á lóð nr. 8B í landi Arnarholts.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2013, sem barst nefndinni 17. s.m., kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. eigenda jarðarinnar Hlöðutún, Borgarbyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 18. júní 2013, að veita leyfi til að reisa sumarhús á lóð nr. 8B í landi Arnarholts.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 26. maí 2015.

Málavextir: Á árinu 1994 keyptu núverandi eigendur jörðina Arnarholt. Sama ár voru gerð drög að landskiptagerð milli eigenda Arnarholts og Hlöðutúns. Á árinu 1996 hófst deiliskipulagsgerð jarðarinnar Arnarholts að frumkvæði eigenda hennar. Var deiliskipulagið samþykkt af bæjarstjórn Borgarbyggðar 11. febrúar 1998, yfirfarið af Skipulagsstofnun 12. mars s.á. og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 31. s.m. Með umræddu deiliskipulagi var landinu skipt upp í 40 byggingarreiti, hver að stærð 500 m2. Hinn 5. júní 2003 undirrituðu eigendur Arnarholts stofnskjal lóða og voru greindir byggingarreitir gerðir að sérstökum fasteignum. Stofnskjalið var móttekið til þinglýsingar 23. s.m. Hinn 28. júní 2007 var lóðum nr. 8A og 8B í landi Arnarholts afsalað til leyfishafa. Var afsalið móttekið til þinglýsingar 31. mars 2008 og innfært í þinglýsingarbækur 3. apríl s.á.

Hinn 18. júní 2013 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar tekin fyrir umsókn, dags. 11. febrúar s.á., þar sem sótt var um leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni Arnarholt 8B. Var erindið samþykkt með eftirfarandi bókun: „Samþykkt, enda fellur framkvæmdin að skipulagi svæðisins“.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að sameiginlegt beitiland hafi fylgt jörðunum Hlöðutúni og Arnarholti og sé það land í óskiptri sameign jarðanna. Hafi verið reynt að ná samkomulagi um skiptingu landsins allt frá árinu 1994 en það hafi ekki borið árangur. Þrátt fyrir að ekki sé samkomulag um landskiptin hafi eigendur Arnarholts látið vinna deiliskipulag fyrir jörðina sem hafi m.a. náð inn á land í óskiptri sameign jarðanna. Einnig hafi verið skipulagður hluti lands sem hafi átt að koma í hlut Hlöðutúns samkvæmt greindum drögum.

Árið 2009 hafi verið undirrituð landskiptagerð af eigendum Hlöðutúns og meirihluta eigenda Arnarholts. Sú landskiptagerð hafi verið samþykkt af sveitarstjórn Borgarbyggðar og þinglýst á viðkomandi jarðir. Landbúnaðarráðuneytið hafi hins vegar synjað staðfestingu hennar sökum formgalla. Sé landið því enn í óskiptri sameign og hafi árangurslaust verið reynt að ná samkomulagi um landskipti milli jarðanna. Bygging sú, sem hið kærða byggingarleyfi taki til, sé í óskiptu landi Hlöðutúns og Arnarholts. Ekkert samkomulag sé á milli eigenda Hlöðutúns og Arnarholts um nýtingu eða afnot af umræddu landi. Af þeim sökum hafi ekki verið heimilt að gefa út byggingarleyfið. Skipti engu máli þó fyrir hendi sé gilt deiliskipulag og að fyrirhuguð bygging sé í samræmi við það.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að 18. júní 2013 hafi byggingarfulltrúinn í Borgarbyggð veitt byggingarleyfi vegna lóðar nr. 8B úr landi jarðarinnar Arnarholts. Við þá ákvörðun hafi annars vegar legið til grundvallar að leyfishafi væri þinglýstur eigandi umræddrar lóðar og hins vegar að umrætt frístundahús uppfyllti alla skilmála gildandi deiliskipulags.

Eigendur Arnarholts hafi látið vinna deiliskipulag fyrir jörðina sem hafi tekið gildi 31. mars 1998. Sé það enn í gildi. Við gerð þess hafi verið farið eftir öllum gildandi lögum. Deiliskipulagið hafi verið yfirfarið af Skipulagsstofnun sem hafi hvorki talið á því form- né efnisgalla. Ennfremur hafi verið haft samráð við eigendur jarðarinnar Hlöðutúns við gerð deiliskipulagsins þar sem það hafi m.a. tekið til óskipts lands jarðanna tveggja. Í bréfi kæranda til Skipulagsnefndar Borgarbyggðar, dags. 23. september 1996, séu nefnd tvö ófrágengin atriði um landaskiptin. Engin þeirra 40 lóða sem tilteknar hafi verið í skipulaginu liggi á þeim svæðum. Skipulag jarðarinnar Arnarholts og tilurð lóðanna 40 hafi verið í fullu samráði og með samþykki kærenda. Umræddar lóðir hafi svo orðið að sjálfstæðum fasteignum í eigu eigenda Arnarholtsjarðarinnar með þinglýsingu stofnskjals, dags. 23. júní 2003.

Þrátt fyrir að skiptingu á sameiginlegu landi Arnarholts og Hlöðutúns sé enn ekki lokið og enn sé til staðar óskipt land jarðanna tveggja sé ekki hægt að líta svo á að lóð 8B við Arnarholt sé hluti af því. Samkvæmt þinglýsingabók sé lóð 8B sjálfstæð fasteign með sérstöku landnúmeri og þinglýst eign leyfishafa.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að efnislegt samkomulag um skipti á landi Hlöðutúns og Arnarholts hafi legið fyrir allt frá árinu 1994. Að auki hafi kærendur ekki gert athugasemdir við gerð deiliskipulags fyrir jörðina Arnarholt á sínum tíma. Það deiliskipulag hafi tekið gildi 31. mars 1998 og sé enn í gildi. Í umræddu deiliskipulagi séu tilteknar 40 lóðir undir frístundahús sem séu allar í landi sem hafi komið í hlut Arnarholts samkvæmt greindu samkomulagi frá 1994. Hafi kærendur ekki gert neinar athugasemdir við þau frístundahús sem byggð hafi verið á hinu meinta óskipta landi, en fyrsta frístundahúsið hafi risið rétt fyrir síðustu aldamót. Styðji það enn frekar að kærendur hafi litið svo á að samkomulag hafi ríkt um landskiptin og að þessar lóðir hafi allar komið í hlut Arnarholts.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem heimilar byggingu frístundahúss á lóð nr. 8B á jörðinni Arnarholti. Telja kærendur að ekki hafi verið heimilt að veita byggingarleyfið. Þeir séu sameigendur að því landi þar sem umrædd lóð sé staðsett þar sem  ekki hafi náðst samkomulag um skiptingu á því.

Fasteignareigendur fara með ráðstöfunarrétt yfir fasteignum sínum og eru eðli máls samkvæmt einir til þess bærir að sækja um byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á lóð sinni. Líkt og greinir í málavöxtum varð leyfishafi þinglýstur eigandi umræddrar lóðar þegar afsali þess efnis var þinglýst árið 2008. Af þinglýstum gögnum verður ekki annað ráðið en að leyfishafi sé einn eigandi lóðar 8B í landi Arnarholts. Þinglýsingum fylgir tiltekinn áreiðanleiki að lögum og verða þær lagðar til grundvallar við töku stjórnvaldsákvarðana. Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að efnislegur ágreiningur er uppi um eignarréttindi á svæðinu. Slíkur ágreiningur, sem og um efni þinglýstra réttinda, heyrir hins vegar undir dómstóla en ekki undir úrskurðarnefndina. Það er því ekki á valdsviði nefndarinnar að skera úr um hann. Að teknu tilliti til framangreinds var byggingarfulltrúa heimilt að samþykkja umsókn þinglýsts eiganda fyrrgreindrar lóðar um byggingu frístundahúss þar, enda væru greind byggingaráform í samræmi við gildandi skipulag svæðisins.

Af öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 18. júní 2013 að veita leyfi til að reisa sumarhús á lóð nr. 8B í landi Arnarholts.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

61/2014 Reynifellskrókur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 61/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangársþings ytra frá 13. maí 2013 að samþykkja að veita leyfi til að byggja frístundahús á lóð nr. 2b í landi Reynifells. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, sem barst 4. s.m., kærir eigandi lóðar nr. 6 í Reynifellskrók í landi Reynifells, Rangárþingi Ytra, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 að samþykkja að veita leyfi til að byggja frístundahús á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, gerir sami aðili þá kröfu um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra að veita leyfi fyrir byggingu frístundahúss á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Var byggingarleyfið gefið út 21. s.m.

Kærandi skírskotar til þess að húsið samræmist ekki byggingarskilmálum svæðisins. Húsið sé of lítið, húslagið ekki í samræmi við önnur hús og efnið sem notað sé á húsið sé ekki í samræmi við húsin á svæðinu. Hið umrædda hús stingi mjög í stúf við landslagið og önnur hús og rýri útlit svæðisins. Sjónmengun sé mikil vegna hússins. Auk þess geti hin kærða ákvörðun gefið fordæmi fyrir því að fleiri hús af þessu tagi rísi á svæðinu.

Af hálfu Rangárþings ytra er skírskotað til þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa tiltekna stærð á sumarhúsi þrátt fyrir ákvæði um lágmarksstærð í byggingarskilmálum svæðisins. Sé það mjög eðlilegt að leyfa byggjendum að byrja smátt með möguleika á stækkun eða viðbyggingu síðar. Í byggingarskilmálum segi að hús skulu byggð úr timbri. Tiltekið hús sé alfarið úr timbri en veðurkápa sé þó úr stáli. Nokkuð sé um að sumarhús á svæðinu hafi ómálað stál á þökum og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umrætt efni á útvegg þar sem auðvelt sé að mála það í þeim lit sem hæfir. Hafi verið rétt staðið að veitingu umrædds byggingarleyfis samkvæmt lögum og reglum og almennum hefðum í landinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþing ytra að veita leyfi til að byggja frístundahús í landi Reynifells þar sem kærandi á einnig frístundahús, en hann telur að húsið samræmist ekki skilmálum svæðisins.  

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að framkvæmdum við byggingu hins umdeilda frístundahús var að mestu lokið þegar stöðvunarkrafa kæranda kom fram. Þykir af þeim sökum ekki hafa þýðingu að stöðva framkvæmdir á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

58/2015 Njálsgata

Með
Árið 2015, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júlí 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Stefán Geir Þórisson hrl., f.h. E, Njálsgötu 76, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 12. ágúst 2015.

Málavextir: Á árinu 2013 bárust byggingarfulltrúanum í Reykjavík tvær fyrirspurnir sem teknar voru fyrir á afgreiðslufundum hans 9. apríl og 21. maí s.á. Annars vegar var spurst fyrir um byggingu kvista á hús nr. 78 við Njálsgötu og hins vegar um hækkun þess um eina hæð. Umsagnir skipulagsfulltrúa um nefndar framkvæmdir voru jákvæðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og lagðist hann ekki gegn þeim.

Hinn 6. maí 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans, dags. 15. s.m., var lagt til að uppdrættir yrðu lagfærðir, m.a. að svalir yrðu minnkaðar, gömlum gluggum yrði ekki breytt og að húsið yrði ekki hærra en Njálsgötu 80. Hinn 6. júní s.á. var á fundi skipulagsfulltrúa samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Njálsgötu 76, 77, 79, 80, 81 og Bergþórugötu 53 og 55 þegar búið væri að lagfæra uppdrætti. Var umsóknin grenndarkynnt frá 9. október til og með 7. nóvember 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember s.á. Hinn 26. s.m. var greind umsögn skipulagsfulltrúa samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og erindinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

Hinn 21. apríl 2015 var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúanum í Reykjavík og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
 
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að um óhjákvæmilega notkun á sinni fasteign sé að ræða og að framkvæmdaraðili muni nýta austurgafl fasteignar kæranda við hækkunina. Húsin tvö, þ.e. Njálsgata 76 og 78, séu aðliggjandi en austurgafl fasteignar kæranda sé séreign hans og hafi hann því einn ráðstöfunarrétt yfir veggnum. Ef talið verði að austurgaflinn sé sameign sé á því byggt að óheimilt sé að nýta vegginn án samþykkis kæranda. Samkvæmt meginreglum eignarréttar geti sameigandi aðeins nýtt eða ráðstafað sameign ef nýting eða ráðstöfun sé öðrum sameigendum að bagalausu. Ráðstöfun eða nýting sameigenda á sameign megi ekki ganga inn á rétt annarra sameigenda. Þá verði sameigandi að sýna öðrum sameigendum tillitssemi við nýtingu eignar eða ráðstöfun.

Fyrirhugaðar framkvæmdir muni valda kæranda verulegu óhagræði og jafnvel umtalsverðu tjóni. Húsin að Njálsgötu séu byggð á árunum 1927-1930, séu því hátt í 90 ára gömul og þoli því illa framkvæmdir líkt og þær sem séu fyrirhugaðar. Fyrir u.þ.b. 30 árum hafi þáverandi eigandi húss nr. 74 við Njálsgötu byggt tvær hæðir á hús sitt, en húsið hafi áður verið ein hæð og ris. Við þessar framkvæmdir hafi myndast miklar sprungur á veggjum og lofti í húsi kæranda. Þótt margsinnis hafi verið gert við sprungurnar myndist þær alltaf aftur. Byggingarfróðir menn hafi sagt að um sé að kenna hinum mikla þunga sem bættist á sameiginlegan vegg húsanna við hækkun á nr. 74. Í kjölfar viðbyggingar við Njálsgötu 74 hafi þótt sýnt að burðarþol veggjanna hafi ekki þolað álagið og hafi eigendum að Njálsgötu 76 verið greiddar bætur vegna málsins. Megi ganga út frá því að burðarþol sameiginlegra veggja húsanna, þ.e. Njálsgötu 76 og Njálsgötu 78, hafi miðast við tvær hæðir. Ljóst sé að ef byggt verði ofan á Njálsgötu 78 megi búast við enn frekari skemmdum á eign kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2014, komi fram að krafa sé gerð um að ekki verði byggt ofan á vegg nágrannans að Njálsgötu 76 heldur verði byggðir nýir sjálfstæðir veggir. Ekki séu nein fyrirmæli í byggingarreglugerð sem kveði á um samþykki aðliggjandi lóðarhafa fyrir framkvæmdum á lóðarmörkum öðrum en girðingum.

Röksemdum kæranda um umtalsverð óþægindi og tjón sé vísað á bug sem ósönnum og ósönnuðum. Almennt verði borgarar að sætta sig við einhver tímabundin óþægindi eða rask á meðan á byggingarframkvæmdum standi í nágrenninu. Geti íbúar ekki vænst þess að byggingar taki engum breytingum í tímans rás og megi því alltaf búast við að einhver óþægindi skapist, ekki síst þar sem þröngt sé byggt í borginni. Auk þess beri byggingarleyfishafa að haga framkvæmd þannig að sem minnst rask verði og beri hann enn fremur ábyrgð á mögulegu tjóni sem hann kunni að valda gagnvart kæranda eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja hæð og ris á fjöleignarhúsið að Njálsgötu 78. Telur kærandi að ekki sé heimilt að hækka húsið án hans samþykkis auk þess sem hækkunin muni valda honum tjóni.

Fjallað er um hús í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og er þar átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land og stendur sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilur sig þannig frá þeim þótt sambyggð eða samtengd séu að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana sem sjálfstætt hús. Húsin að Njálsgötu 76 og 78 standa á aðskildum lóðum. Byggingarnar voru reistar á mismunandi tímum og það sama á við um þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeim. Þá er útlit þeirra mismunandi er varðar litaval og útfærslu á kvistum og gluggum. Þegar litið er til byggingarsögu og útlits húsaraðar þeirrar, þar sem umrædd hús standa, verður ekki annað séð en að líta beri á hvert hús sem sjálfstæða einingu. Með vísan til framangreinds verður hvorki talið að 30. gr. fjöleignarhúsalaga, sem áskilur samþykki meðeiganda, né 2. mgr. 3. gr. laganna þess efnis að lögin geti átt við um málefni sem sameiginleg séu á milli tveggja eða fleiri sjálfstæðra húsa, eigi við um hið kærða byggingarleyfi. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verða reistir nýir sjálfstæðir gaflveggir í framhaldi af steyptum einingum 3. hæðar og slitnir frá gaflveggjum aðliggjandi húsa. Ekki er að finna nein þau ákvæði í gildandi lögum eða reglum þar sem áskilið er samþykki aðliggjandi lóðarhafa í slíkum tilvikum. Þurfti því ekki til samþykki kæranda af þeim sökum við veitingu hins umdeilda byggingarleyfis. Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að tjón verði af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru telur úrskurðarnefndin að með hinni kærðu ákvörðun sé leitast við að koma í veg fyrir slíkt tjón en bendir jafnframt á að rísi ágreiningur þess efnis á undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. 

Eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði en til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði, ÍB Grettisgata. Um það svæði segir að það hafi byggst upp að stórum hluta fyrir 1920. Fjölbreytni í húsagerð og byggingarstíl einkenni svæðið en gatnakerfið sé að mestu reglubundið. Þá er það eitt af markmiðum aðalskipulagsins að skapa heildstæðari og þéttari borgarbyggð og kanna frekari þéttingarmöguleika. Verður ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Loks liggur fyrir að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var í samræmi við mannvirkja- og skipulagslög. Ítarleg gögn lágu til grundvallar ákvörðuninni, þ.á m. fjórar umsagnir frá skipulagsfulltrúa þar sem hann gerði athugasemdir við uppdrætti, setti skilyrði um að þeim yrði breytt til að samræma hækkun hússins við byggingarmynstur á reitnum og að ekki yrði byggt ofan á vegg húss kæranda heldur nýir sjálfstæðir veggir byggðir upp. Eftir að uppdrættir höfðu verið lagfærðir var umsóknin grenndarkynnt og athugasemdum svarað. Umsóknin var samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði, sbr. gr. 2.3.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, og síðar samþykkt af byggingarfulltrúa eftir að nefnd skilyrði skipulagsfulltrúa höfðu verið uppfyllt.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar og er kröfu kæranda þar um hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson