Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

71/2013 Ægisgata Stykkishólmi

Árið 2015, fimmtudaginn 5. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 71/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 24. apríl 2013 um að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, Stykkishólmi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2013, er barst nefndinni 17. s.m., kærir B, Ægisgata 9, Stykkishólmur, þá ákvörðun Stykkishólmsbæjar að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, Stykkishólmi, en ákvörðunin var tekin 24. apríl 2013. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 22. ágúst 2013.

Málavextir: Á lóðinni nr. 11 við Ægisgötu stendur einbýlishús með bílskúr. Í kjallara bílskúrsins er rými sem mun vera tilgreint sem bátaskýli, en lóðin snýr út að sjó við Svartatanga á Stykkishólmi.

Aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar er nokkuð langur en á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 15. ágúst 2011 var tekin fyrir fyrirspurn lóðarhafa nefndrar lóðar um leyfi til að byggja „létta útbyggingu úr gleri fyrir framan bátaskýli á lóð“ og var byggingarfulltrúa falið að skoða málið. Eftir þá skoðun var bókað á fundi sömu nefndar 5. desember s.á. að veggurinn á norðurmörkum yrði að vera brunaveggur og að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar þyrfti að liggja fyrir áður en leyfi væri veitt. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 1. júní 2012, greindi lóðarhafi frá því að hann hefði stillt upp burðarvirki fyrir viðbygginguna sem uppstillingu. Á fundi nefndarinnar 9. s.m. var bókað að kynning á fyrirspurn lóðarhafa hefði ekki farið fram fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóðar. Framkvæmdir væru hafnar án leyfis og bæri að fjarlægja „uppstillinguna“ þá þegar. Á fundi bæjarráðs 9. ágúst s.á. var lóðarhafa gefin frestur til þess að skila inn fullnægjandi gögnum fyrir 1. október s.á.. Að öðrum kosti yrði hann að fjarlægja „uppstillinguna“. Á fundi bæjarstjórnar 16. s.m. var bókað á sama veg.

Með bréfi, dags. 6. september 2012, óskaði lóðarhafi Ægisgötu 11 eftir heimild til að byggja útbyggðan glugga á rými sem kallað væri bátaskýli. Stærð gluggans yrði 8,95 m² og fylgdu erindinu teikningar sem og lýsing á byggingunni og efnisvali. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 10. september 2012 og var ákveðið að grenndarkynna það fyrir eigendum húsa á lóðum nr. 9 og 12 við Ægisgötu. Sú afgreiðsla nefndarinnar var staðfest á fundi bæjarstjórnar 25. s.m. Kærendur komu á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 8. október 2012.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. október 2012 var nefndu erindi synjað þar sem fyrirhuguð viðbygging væri ekki innan byggingarreits, auk þess sem ekki lægi fyrir deiliskipulag af svæðinu, sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar skorti og þar sem gert væri ráð fyrir byggingu á lóðarmörkum uppfyllti tillagan ekki skilyrði gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð um frágang á brunahólfum byggingarhluta. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi bæjarstjórnar 8. nóvember 2012 og í kjölfarið leitaði bæjarstjóri álits hjá Mannvirkjastofnun og Skipulagsstofnun. Að umsögnunum fengnum var eftirfarandi bókað á fundi bæjarstjórnar 24. apríl 2013: “Samþykkt að heimila bygginguna að uppfylltum skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga…“. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11 ólögmæta. Bendi þeir máli sínu til stuðnings á synjun skipulags- og byggingarnefndar sem hafi m.a. byggt á þeim rökstuðningi að viðbyggingin væri ekki innan byggingarreits og ekki lægi fyrir deiliskipulag af svæðinu.

Uppteiknuð afstöðumynd af bílskúr á nefndri lóð hafi verið röng og sé skúrinn í reynd alveg að lóðarmörkum lóðar kærenda. Hafi bílskúrinn orðið lengri og breiðari en heimilað hafi verið þegar hann hafi verið byggður og nái því að lóðarmökum, eða jafnvel yfir þau. Eins og sjá megi af uppdráttum sé áætlað að brunaveggur verði við lóðamörk lóðanna nr. 11 og 9 við Ægisgötu. Samt virðist vera gert ráð fyrir gluggum sem snúi að síðarnefndri lóðinni og því mótmæli kærendur. Jafnframt mótmæli kærendur frekari mannvirkjum og raski á eða við lóðamörk lóðanna þar sem slíkt yrði umhverfinu til lýta.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ákvörðun bæjarstjórnar hafi byggt á því að samkvæmt aðalskipulagi sé byggingin innan skilgreinds íbúðasvæðis, viðbyggingin falli ofan í landslagið, veiti hvorki skuggavarp né byrgi fyrir útsýni nágranna.

Ekki sé til deiliskipulag af svæðinu. Eftir grenndarkynningu hafi athugasemdir kærenda eingöngu snúist um að bílskúrinn hafi verið byggður stærri en heimilt hafi verið á sínum tíma og hann væri því staðsettur á lóðarmörkum, sem og að brunaveggur sýndi glugga. Bæjarstjórn hafi snúið ákvörðun byggingarnefndar um synjun við til að gefa lóðarhafa Ægisgötu 11 möguleika á að skila inn fullgerðum uppdráttum samkvæmt byggingarreglugerð og mannvirkjalögum þar sem gluggi yrði tekinn úr brunavegg og/eða hannaður eins og reglugerð segði til um á lóðarmörkum og sökkull og plata væru byggð upp eins og reglugerð segði til um. Endanlegur frágangur á lóð nýbyggingar yrði þá skilgreindur á uppdrætti og um leið væri hægt að sjá hvort bílskúr væri stærri en eldri gögn segi til um og fá staðfest að bílskúr væri ekki á lóðarmörkum. Byggingarfulltrúa hafi verið falið að fylgja því eftir að byggingin fullnægði skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga.

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi ítrekar rétt sinn til að byggja útbyggðan glugga, rúma 9 m², fyrir framan bátaskýli í kjallara bílskúrsins. Engin byggð sé þeim megin sem glugginn snúi að, aðeins óhindrað útsýni til hafs. Hvergi við meðferð málsins hafi lóðarhafi talað um viðbyggingu við íbúðarhús, enda sé það ekki inni í myndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 24. apríl 2013 að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, en þar er ekki í gildi deiliskipulag.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gilda þau m.a. um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofan jarðar eða neðan, með ákveðnum undantekningum þó sem taldar eru í 2. mgr. lagagreinarinnar. Í 1. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þó er gert ráð fyrir því þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu aflokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr., og er byggingarfulltrúa í samræmi við þá niðurstöðu ýmist heimilt eða óheimilt að gefa út byggingarleyfi.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum fór fram grenndarkynning á erindi lóðarhafa Ægisgötu 11 í samræmi við framangreind lagaákvæði og afgreiddi bæjarstjórn málið með því að samþykkja að „…heimila bygginguna að uppfylltum skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga…“. Er ljóst af orðalagi hinnar kærðu ákvörðunar, og að teknu tilliti til þeirra lagaákvæða sem að framan eru rakin, að með afgreiðslu sinni heimilaði bæjarstjórn byggingarfulltrúa að veita umbeðið byggingarleyfi teldi byggingarfulltrúi að skilyrðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar væri fullnægt. Ekki liggur hins vegar fyrir í málinu nein afgreiðsla byggingarfulltrúa á umræddri byggingarleyfisumsókn, en samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Liggur því ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir