Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2013 Brekkutún

Árið 2015, mánudaginn 26. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

mál nr. 86/2013, kæru á þeirri ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. júlí 2013 að hafna því að veita megi byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2013, er barst nefndinni 23. s.m., kærir Árni Friðriksson arkitekt, f.h. T, Brekkutúni 13, Kópavogi, synjun skipulagsnefndar Kópavogs um viðbyggingu við Brekkutún 13. Skilja verður málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. júlí 2013 um að hafna því að veita megi byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur, og að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. ágúst 2014.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 26. febrúar 2013, sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur. Heildarstækkun yrði 36,1 m2 og myndi nýtingarhlutfall hækka úr 0,52 í 0,6 skv. uppdráttum, dags. 19. febrúar 2013. Byggingar-fulltrúi vísaði erindinu til skipulagsdeildar til ákvörðunar um grenndarkynningu.

Á fundi skipulagsnefndar 5. mars 2013 var umsóknin tekin fyrir og var samþykkt, með vísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að grenndarkynna hana. Grenndarkynning fór fram frá 14. mars til 18. apríl 2013 og bárust athugasemdir frá lóðarhöfum að Brekkutúni 11. Á fundi skipulagsnefndar 7. maí s.á. var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar um innsendar athugasemdir við grenndarkynningu, dags. sama dag. Var skipulags- og byggingar¬deild falið að vinna áfram að málinu í samráði við málsaðila.

Á fundi skipulagsnefndar 23. júlí 2013 var erindi kæranda lagt fram að nýju í breyttri mynd, en sólskálinn hafði þá verið minnkaður um 50 cm á breiddina og lengdur um 1,25 m til norðurs. Áætluð heildarstækkun hússins var þá 37,9 m2 í stað 36,1 m2 samkvæmt fyrri tillögu. Skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundinum og staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 25. júlí 2013. Var kærendum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 26. júlí 2013.

Kærendur skírskota til þess að synjunin byggist einvörðungu á mótmælum íbúa í Brekkutúni 11, en rökin sem mótmælin byggist á standist ekki skoðun. Ekki sé farið í bága við byggingarreglugerð, hvorki varðandi eldvarnarákvæði né fjarlægð milli húsa, og ekki sé um að ræða innsýn umfram það sem almennt sé í íbúðahverfum. Mjög svipuð viðbygging hafi verið leyfð við Daltún 10 auk þess sem samþykktar hafi verið stækkanir við fleiri hús í hverfinu, til dæmis Daltún 6 og 29. Þá telji þau viðbygginguna fyllilega í samræmi við þau sjónarmið sem skipulag hverfisins og húsin þar hafi verið unnin út frá.

Kópavogsbær mótmælir því ekki að umræddar breytingar á húsinu við Brekkutún 13 samræmist ákvæði 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, um bil á milli bygginga. Því sé hins vegar hafnað að innsýn og nánd milli húsa nr. 11 og 13 í Brekkutúni verði ekki umfram það sem almennt megi finna í íbúðarhverfum og einstaklingar þurfi að þola samkvæmt reglum nábýlisréttar. Fjarlægð á milli fyrirhugaðrar viðbyggingar og húss nr. 11 við Brekkutún yrði ekki nema 6,5 m. Ekki sé lagst gegn tillögu um breytingar á hliðum hússins heldur aðeins viðbyggingu á vesturgafli þess, en hún falli ekki vel að ásýnd hverfisins og myndi valda íbúum í Brekkutúni 11 miklum óþægindum. Skipulagsnefnd hafi því ekki talið sig geta samþykkt þann hluta breytinga¬tillögunnar. Ekki hafi borist nýtt erindi frá lóðarhöfum Brekkutúns 13 sem gangi styttra með tilliti til innsýnar og nándar milli húsanna. Þá séu þær viðbyggingar sem samþykktar hafi verið á öðrum lóðum í sveitarfélaginu ekki sambærilegar hvað varði innsýn og nánd. Grenndaráhrif þeirra séu minni og þær geti ekki talist vera fordæmi í þessu tilviki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og stækkun hússins við Brekkutún 13 í Kópavogi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ekki í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, breyta því, breyta útliti þess eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þó er gert ráð fyrir því þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu aflokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr., og er byggingarfulltrúa í samræmi við þá niðurstöðu ýmist heimilt eða óheimilt að gefa út byggingarleyfi. 

Af gögnum málsins verður ráðið að byggingarfulltrúi tók við byggingarleyfisumsókn kærenda og vísaði henni til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu skv. nefndri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Grenndarkynningin fór fram og í kjölfar hennar tók skipulagsnefnd á fundi sínum 23. júlí 2013 afstöðu til erindis kærenda og hafnaði því. Bæjarráð gerði slíkt hið sama á fundi sínum 25. s.m. Verður að líta svo á í ljósi þeirra lagaákvæða sem að framan eru rakin að með afgreiðslu sinni hafi bæjarráð hafnað því að veita mætti umbeðið byggingarleyfi. Ekki liggur hins vegar fyrir í málinu afgreiðsla byggingarfulltrúa á umræddri byggingarleyfisumsókn, en samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Liggur því ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir