Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24//2013 Kotabyggð

Árið 2015, miðvikudaginn 4. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 24/2013, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Svalbarðsstrandarhrepps frá 4. febrúar 2013 um að synja útgáfu byggingarleyfis fyrir frístundahúsi á lóð nr. 44 í Kotabyggð, Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson, hrl., f.h. BB bygginga ehf., leigutaka lóðar nr. 44 að Kotabyggð, Svalbarðsstrandarhreppi, þá afgreiðslu byggingarfulltrúa Svalbarðsstrandarhrepps frá 4. febrúar 2013 að hafna útgáfu byggingarleyfis fyrir frístundahúsi á lóðinni nr. 44 í Kotabyggð. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu en hinn 23. maí 2012 mun kærandi hafa lagt inn erindi til byggingarfulltrúa um byggingu frístundahúss á lóð nr. 44 í Kotabyggð. Málið var til meðferðar hjá sveitarfélaginu þá um sumarið og á fundi sveitarstjórnar hinn 4. júlí s.á. var eftirfarandi fært til bókar um það: „Áður á dagskrá sveitarstjórnar á 30. fundi þann 12. júní s.l. Leitað hefur verið álits lögmannsstofu á þeirri stöðu sem uppi er varðandi gildi deiliskipulags í Kotabyggð. Þótt gert sé ráð fyrir tímabundinni blöndun frístundabyggðar og íbúðarbyggðar í Kotabyggð í greinargerð aðalskipulags er það niðurstaða sveitarstjórnar að ekki sé að finna í textanum skýra heimild til byggingar nýrra frístundahúsa heldur sé þar aðeins gert ráð fyrir að eldri byggð haldi sér. Til að leyfa slíkt frávik hefði heimild til þess þurft að koma fram með skýrum hætti í aðalskipulaginu að mati lögfræðinga. Afstaða sveitarstjórnar er því að ekki sé heimilt að gefa út byggingarleyfið. Niðurstaða sveitarstjórnar er meðal annars byggð á áliti Skipulagsstofnunar og lögmannsstofnunnar […]“. Á fundi sveitarstjórnar hinn 15. janúar 2013 var samþykkt breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 og með bréfi, dags. 17. s.m., fór sveitarstjóri fram á það við Skipulagsstofnun að farið yrði með tillöguna sem óverulega. Jafnframt því var birt tilkynning um afgreiðslu sveitarstjórnar og sagði þar að samkvæmt tillögunni yrði heimilt að skilgreina frístundalóðir á umræddu svæði í deiliskipulagi og að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsum að uppfylltum vissum skilyrðum.

Hinn 1. febrúar 2013 lagði kærandi inn umsókn til byggingarfulltrúa um byggingu frístundahúss á fyrrgreindri lóð. Var erindi hans sent samdægurs með tölvupósti til sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps sem svaraði byggingarfulltrúa sama dag með svohljóðandi tölvupósti: „…Skipulagsstofnun hefur hafnað beiðni okkar um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi. Staða aðalskipulagsins er því óbreytt og þar af leiðandi óheimilt að gefa út byggingarleyfi á svæðinu“. Framsendi byggingarfulltrúi svar sveitarstjóra til kæranda með tölvupósti 4. s.m. og tók fram í póstinum: „…hér færðu svar frá sveitarstjóra […]“. Eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni, eða með bréfi, dags. 13. maí s.á., tilkynnti sveitarstjóri kæranda að erindið hefði í raun ekki hlotið formlega afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa og að ákveðið hefði verið að taka það til efnislegrar afgreiðslu. Var kæranda gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum við niðurstöðu sveitarstjórnar frá 4. júlí 2012, sem áður er getið. Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 18. júní 2013 og lágu þá fyrir athugasemdir kæranda. Var fært til bókar að ekki þætti ástæða til að taka afstöðu til málsins að svo stöddu þar sem það hefði verið kært. Jafnframt var tekið fram að niðurstaða skipulagsnefndar og sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps væri að ekki væri unnt að veita kæranda byggingarleyfi en í aðalskipulagi væri lóð nr. 44 í Kotabyggð á íbúðarsvæði. Þá var bent á að í vinnslu væri deiliskipulag sem væri í samræmi við aðalskipulag. Tók deiliskipulag Kotabyggðar gildi hinn 21. febrúar 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki,  og eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. sömu laga, veiti byggingarfulltrúi byggingarleyfi, en að öðrum kosti sé hin formlega ákvörðunartaka í höndum sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Telja verði að tölvupóstur byggingarfulltrúa geti tæplega uppfyllt formskilyrði laganna um að ákvörðun sé tekin af valdbærum aðila og því sé um valdþurrð að ræða. Breyti hér engu þótt vísað hafi verið til tölvupóstar frá sveitarstjóra. Umsóknina hafi átt að taka formlega fyrir í skipulagsnefnd og eftir atvikum í sveitarstjórn. Beri að skilja 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga með þeim hætti að byggingarfulltrúi taki ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis, sem sé í andstöðu við grundvallarreglur um stjórnsýsluskipulag sveitarfélaga, sé ljóst að tölvupóstur byggingarfulltrúa geti ekki falið í sér ákvörðun.

Birting og afgreiðsla erindisins sé í ósamræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar. Brotið sé gegn ákvæðum 10., 13., 15., og 20. gr. sömu laga. Skriflegu erindi skuli svara skriflega, einkum þegar um synjun sé að ræða. Rökstyðja þurfi ákvörðun og veita leiðbeiningar um kæruheimild og kærufresti. Í engu hafi verið uppfyllt lagaskylda 1. mgr. 7. gr. laganna um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds. Byggi hin meinta ákvörðun á undanfarandi málsmeðferð um sambærilegt erindi árið 2012 þar sem í engu hafi verið gætt að andmælarétti. Þess utan sé ákvörðunin svo efnislega óljós að kærandi sé með öllu óupplýstur um annmarka umsóknar sinnar. Ekki sé vísað til laga eða reglna og því óljóst á hvaða lagagrundvelli hin meinta ákvörðun sé byggð. Séu engin efni til að telja að það ósamræmi sé á gildandi aðal og deiliskipulagi að komi í veg fyrir útgáfu hins umbeðna byggingarleyfis. Þá komi m.a. fram í lóðarleigusamningi og á álagningarseðlum vegna fasteignagjalda að um sumarbústaðarland sé að ræða.

Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps: Svalbarðsstrandarhreppur vísar til þess að tölvupóstur byggingarfulltrúa hafi ekki falið í sér afgreiðslu á umsókn um byggingarleyfi og að hún sé enn óafgreidd. Um hafi verið að ræða tilkynningu um stöðu málsins. Ekki hafi verið tilefni til að bera málið undir skipulagsnefnd eða sveitarstjórn þar sem forsendur hefðu ekki breyst. Eigi ákvæði stjórnsýslulaga um birtingu, rökstuðning og kæruleiðbeiningar ekki við um þessi óformlegu samskipti. Jafnframt séu ákvæði 15. gr. laganna um upplýsingarétt málinu óviðkomandi þar sem kærandi hafi hvorki óskað eftir upplýsingum eða gögnum. Ekki hafi verið brotið gegn ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna. Málið hafi verið í réttum farvegi og eðlilegt að álykta að kæranda, sem sé húsasmíðameistari, mætti vera fullkunnugt um ferli byggingarleyfisumsókna og kröfur gerðra til þeirra. Ítarleg skoðun hafi átt sér stað á árinu 2012 og þar hafi sjónarmið kæranda legið fyrir með ótvíræðum hætti. Sé hvorki málsmeðferð ólögleg né erindin sambærileg.
Það sé afstaða sveitarstjórnar að ósamræmis gæti í veigamiklum atriðum á milli aðalskipulags og deiliskipulags varðandi Kotabyggð og séu allar nýbyggingar óheimilar þar til skipulagsáætlanir hafi verið samræmdar. Þá sé lóðarleigusamningur, skilgreining lóðarinnar í fasteignaskrá og innheimta fasteignagjalda málinu óviðkomandi, enda hafi þessi atriði ekki skipulagslegt gildi. Auk þessa hafi kæranda mátt vera kunnugt um stefnu sveitarstjórnar sem sett væri fram í aðalskipulaginu um þróun byggðarinnar í íbúðarbyggð þegar hann hafi yfirtekið lóðarleigusamninginn árið 2010. Engar ákvarðanir hafi verið teknar eftir það sem rýri rétt eða stöðu lóðarhafa. 

Niðurstaða: Byggingarfulltrúi annast meðferð byggingarleyfisumsókna og veitir leyfi með samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 9., 11., og 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Sveitarstjórn er þó heimilt skv. 1. mgr. 7. gr. nefndra laga að setja sérstaka samþykkt um að í sveitarfélaginu skuli starfa byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsóknir áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Þá er sveitarstjórn það heimilað í 2. mgr. ákvæðisins að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Samþykkt sem sett er samkvæmt ákvæði þessu skal lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt í B–deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt gögnum málsins hafði slík samþykkt ekki verið birt skv. fyrrnefndum ákvæðum 7. gr. mannvirkjalaga við afgreiðslu málsins.

Eins og greint hefur verið sendi byggingarfulltrúi umsókn kæranda um byggingarleyfi með tölvupósti til sveitarstjóra, en í umsókninni kom fram að sótt væri um leyfi til að byggja frístundahús á lóðinni nr. 44 við Kotabyggð. Fram kom í tölvupósti byggingarfulltrúa að um nýja umsókn væri að ræða og að í samtali við umsækjanda hefði komið hefði til tals auglýsing um breytingu á aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps. Þá var tekið fram að umsækjandi óskaði eftir skriflegu svari um hvort veitt yrði byggingarleyfi á nefndri lóð. Sendi sveitarstjóri tvö svarbréf til byggingarfulltrúa samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Hið fyrra víkur að því að málið hafi verið sent til Skipulagsstofnunar eins og fram komi í auglýsingu og enn sé beðið svars hennar. Í hinu síðara, er framsent var kæranda, kemur fram að Skipulagsstofnun hafi hafnað beiðni um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi. Staða aðalskipulagsins sé því óbreytt og þar af leiðandi „óheimilt að gefa út byggingarleyfi á svæðinu.“

Framsendingu og vísan til svars sveitarstjóra er ekki hægt að skilja svo að byggingarfulltrúi hafi tekið sjálfstæða afstöðu til samþykkis eða synjunar á byggingarleyfisumsókn kæranda. Liggur því ekki fyrir endanleg ákvörðun hans þar um samkvæmt þeim ákvæðum mannvirkjalaga sem áður eru rakin og skýr eru um hlutverk byggingarfulltrúa. Verður ekki annað ráðið af aðdraganda málsins og afgreiðslu þess en að hin kærða afgreiðsla hafi aðeins falið í sér þær upplýsingagjöf til kæranda um að skipulagsleg staða á svæðinu væri óbreytt. Þar sem ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir