Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2015 Hlíðarvegur

Árið 2015, fimmtudaginn 10. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 um að veita byggingarleyfi til niðurrifs hússins að Hlíðarvegi 57 og á ákvörðun byggingarfulltrúans frá 21. ágúst s.á. um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu fjölbýlishúss á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir M, Hlíðarvegi 55, Kópavogi, „…ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs að veita byggingarleyfi á Hlíðarvegi 57…“. Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins við Hlíðarveg 57 og ákvörðun byggingarfulltrúans frá 21. ágúst s.á um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu fjölbýlishúss á sömu lóð. Þess er krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Málið þykir nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 1. og 17. júlí 2015.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 22. september 2014 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa Hlíðarvegar 57 í Kópavogi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni. Lagt var til að einbýlishús frá árinu 1943, sem á lóðinni stæði, yrði rifið og þess í stað reist fjórbýlishús á tveimur hæðum. Var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda. Í kjölfarið voru gerðar breytingar á tillögunni sem kynntar voru á samráðsfundum sem haldnir voru með lóðarhafa og þeim sem gerðu athugasemdir við tillöguna.

Á fundi skipulagsnefndar 4. maí 2015 var breytt tillaga, dags. í apríl s.á., lögð fram ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar um innsendar athugasemdir, dags. sama dag. Var tillagan, ásamt umsögninni, samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar 12. maí 2015.

Með umsókn, dags. 16. júní 2015, sótti lóðarhafi Hlíðarvegar 57 um byggingarleyfi til niðurrifs hússins á lóðinni. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. júlí 2015 og samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist lögum um mannvirki nr. 160/2010. Þá sótti lóðarhafi hinn 2. júlí 2015 um byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á sömu lóð og var sú umsókn samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins við Hlíðarveg 57 og bygging tveggja hæða fjórbýlis á lóðinni samræmist ekki Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Vísi hann til umfjöllunar í aðalskipulaginu um nýbyggingarsvæði og fyrirhugaðar breytingar á Digranesi. Þá sé fyrirhuguð nýbygging ekki í samræmi við byggðamynstur í götunni.

Skuggavarpsmyndum hafi aðeins verið varpað upp á skjá í stutta stund á samráðsfundi um framkvæmdirnar, en myndirnar hafi ekki borist kæranda. Ekki hafi verið hægt að átta sig á skuggavarpi á hús kæranda. Þá komi fram í umsögn um athugasemdir vegna grenndarkynningar framkvæmdanna að þéttur gróður byrgi að miklu leyti fyrir útsýni til austurs frá Hlíðarvegi 55. Hið rétta sé að útsýni til austurs frá Hlíðarvegi 55 sé mjög gott og aðeins sjáist í nokkrar trjágreinar. Óskað hafi verið eftir teikningu sem sýndi skerðingu á útsýni en hún ekki fengist. Þó sé ljóst að útsýni til austurs og morgunsól muni hverfa að fullu og steinsteypa blasa við. Yfirvofandi framkvæmd rýri verulega lífsskilyrði kæranda og verðmæti eignar hans. Ítrekuðum athugasemdum þar að lútandi hafi lítið sem ekkert verið sinnt og hagsmunir nýrra lóðarhafa Hlíðarvegar 57 verið látnir ráða í öllum tilvikum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær skírskotar til þess að í aðalskipulagi Kópavogs komi fram að aðalstef skipulagsins sé þétting byggðar, sem sé bráðnauðsynleg með tilliti til takmarkaðs landrýmis til framtíðar. Gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða á Digranesi, einkum í Auðbrekku og Lundi, en áætlað sé að um 100 íbúðir verði byggðar annars staðar í bæjarhlutanum. Uppbygging við Hlíðarveg sé því ekki á skjön við stefnu aðalskipulagsins. Fyrirhuguð nýbygging verði ekki hærri en núverandi hús á lóðinni og skeri sig ekki úr götumyndinni hvað hæðina varði. Hús við Hlíðarveg séu ólík í útliti en hönnuðir nýbyggingarinnar hafi horft til húsanna við Bröttutungu 1-9 sem fyrirmyndar hvað útlit varði.

Til að koma til móts við athugasemdir varðandi útsýnisskerðingu hafi efri hæðir nýbyggingarinnar verið inndregnar á suðurhlið. Samkvæmt skuggavarpsteikningum falli skuggi af nýbyggingunni á norðausturhorn Hlíðarvegar 55 snemma að morgni og á norðvesturhorn lóðar Bröttutungu 1 síðdegis. Ekki verði veruleg skerðing á útsýni frá Hlíðarvegi 55. Þéttur gróður byrgi að miklu leyti fyrir útsýni til austurs frá Hlíðarvegi 55, útsýni sé aðallega til suðurs yfir Kópavogsdalinn og haldist það óskert. Það sé mat Kópavogsbæjar að breytingarnar raski ekki lögvörðum hagsmunum kæranda svo að ógildingu varði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi hafnar því alfarið að byggingaráform hans samræmist ekki aðalskipulagi eða að þau stríði gegn hagsmunum kæranda með þeim hætti að leitt geti til ógildingar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi einbýlishússins við Hlíðarveg 57 og um þá ákvörðun byggingarfulltrúans að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á sömu lóð, en lóðin er á svæði þar sem deiliskipulag er ekki fyrir hendi.

Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 felur í sér heimild til niðurrifs mannvirkja, en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna með þeim hætti að þeir geti átt kæruaðild. Ekki liggur fyrir að niðurrif hússins við Hlíðarveg 57 snerti einstaklega og lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann geti átt aðild að kæru vegna hins umdeilda byggingarleyfis og verður þessum þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í máli þessu er um að ræða leyfi til byggingar fjórbýlishúss í stað einbýlishúss á lóð í grónu hverfi á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Í aðalskipulaginu kemur fram að þótt eldri hverfi bæjarins teljist fullbyggð sé horft til þéttingar byggðar þar, eins og stefnt hafi verið að á undanförnum árum. Um Digranes segir meðal annars að byggð þar sé nokkuð fastmótuð, þar sé þéttasta byggð í Kópavogi með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli. Gert sé ráð fyrir að heildarfjölgun íbúða á Digranesi á skipulagstímabilinu geti orðið um 530 íbúðir, einkum á þróunarsvæði við Auðbrekku og í Lundi, en áætlað sé að um 100 íbúðir verði byggðar annars staðar í bæjarhlutanum. Verður ekki annað ráðið af framangreindu en að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Fyrir liggur að um töluverða aukningu á byggingarmagni verður að ræða, eða úr 222,1 m² í 475,9 m², og verða áhrifin af byggingunni óhjákvæmilega önnur, og að einhverju marki aukin, gagnvart kærendum. Þrátt fyrir aukið umfang verður hæð byggingarinnar hins vegar sú sama og húss þess sem fyrir var á lóðinni. Er og til þess að líta að um lóð næst horni er að ræða og að fyrirhugað fjórbýlishús verður staðsett innarlega á lóðinni. Í ljósi staðhátta verður ekki séð að grenndaráhrifin verði slík að raskað geti gildi hins kærða byggingarleyfis. Nýtingarhlutfall, sem er mælikvarði á þéttleika byggðar, hækkar umtalsvert með hinni kærðu ákvörðun, eða úr 0,20 í 0,43. Hins vegar er til þess að líta að meðalnýtingarhlutfall þeirra lóða sem grenndarkynning náði til er 0,43 og verður nýtingarhlutfall Hlíðarvegar 57 því í samræmi við það sem tíðkast á svæðinu. Þá verður ekki talið að fyrirhuguð nýbygging skeri sig úr með þeim hætti að ekki samræmist byggðamynstri, en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að yfirbragð hússins verði áþekkt raðhúsum í næsta nágrenni. Þá eru nálæg hús við Hlíðarveg ólík innbyrðis í útliti og er þar um að ræða blandaða byggð einbýlishúsa og lítilla fjöleignarhúsa.

Loks liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við mannvirkja- og skipulagslög. Tillagan var grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, og athugasemdum svarað, m.a. varðandi skuggavarp og útsýni. Þá var hún samþykkt í skipulagsnefnd og í bæjarstjórn. Byggingarleyfisumsókn var síðar samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar og er kröfu kæranda þar um því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015, um að veita byggingarleyfi til niðurrifs hússins að Hlíðarvegi 57, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kæranda um að ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 21. ágúst 2015, um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á lóð Hlíðarvegar 57, verði felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson