Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2015

Úrskurðarnefndin er Fyrirmyndarstofnun ársins 2015

Með Fréttir

Könnunin Stofnun ársins 2015 er samstarfsverkefni SFR stéttarfélags, VR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar auk fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fyrir hönd ríkisins. Könnunin tekur því til allra starfsmanna ríkisstofnana óháð stéttarfélagsaðild og er ein stærsta vinnumarkaðskönnun sem unnin er hér á landi. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er ný inn á lista en niðurstöður úr könnuninni voru kynntar í Hörpu við hátíðlega athöfn hinn 7. maí 2015.

Hlaut úrskurðarnefndin sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun ársins 2015.
Í flokki minnstu stofnananna, 20 starfsmenn eða færri, voru fyrirmyndar stofnanirnar þrjár:

1. sæti STOFNUN ÁRSINS 2015
Héraðsdómur Suðurlands

2. sæti FYRIRMYNDARSTOFNUN 2015
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3. sæti FYRIRMYNDARSTOFNUN 2015
Persónuvernd

Átta þættir voru mældir í könnuninni: er trúverðugleiki stjórnenda, starfsandi , sveigjanleiki í vinnu og sjálfstæði í starfi sem vegur þyngst en minnst er vægi launakjara, vinnuskilyrði, og ímynd stofnunar. Niðurstaðan í þeim þætti sem fjallar um ímynd úrskurðarnefndarinnar skar sig mjög frá öðrum en leiða má að því líkum að slaka niðurstöðu þess þáttar, eða 91. sæti, megi rekja til þess að málshraða fyrir nefndinni er mjög ábótavant.

Markmið könnunarinnar „Stofnun ársins“ er að veita stjórnendum og starfsmönnum tæki til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og eins aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. Í samræmi við þetta mun úrskurðarnefndin vinna að því áfram hörðum höndum að bæta úr málshraða fyrir nefndinni og nýtur stofnunin aukins fjármagns og starfskrafta á árinu 2015 til þess að svo megi verða.