Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

9/2012 Laxeldi í Reyðarfirði

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2012, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 um að veita starfsleyfi til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Eyvindur Sólnes hrl., f.h. Samherja hf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 að veita Löxum fiskeldi ehf. starfsleyfi til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði.

Kærandi telur hina kærðu ákvörðun fara gegn lögvörðum hagsmunum sínum, en honum hafði verið veitt starfsleyfi fyrir sambærilegu sjókvíaeldi í Reyðarfirði með gildistíma til 1. apríl 2010.  Krefst hann þess að hið kærða starfsleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Var þeirri kröfu hafnað með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum hinn 14. mars 2012.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2000 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugað allt að 6.000 tonna laxeldi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði.  Var niðurstaða stofnunarinnar sú að um matsskylda framkvæmd væri að ræða og lét kærandi vinna mat á umhverfisáhrifum kvíaeldisins.  Var starfsemin og umhverfisáhrif hennar kynnt í matsskýrslu í júlí 2002.  Hinn 14. mars 2003 gaf Umhverfisstofnun síðan út starfsleyfi til kæranda fyrir kvíaeldinu með gildistíma til 1. apríl 2010.  Á gildistímanum var ekki hafin starfræksla laxeldis í sjókvíum samkvæmt starfsleyfinu.

Í aprílmánuði 2011 tilkynnti handhafi hins kærða leyfis Skipulagsstofnun um fyrirhugað 6.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði og taldi stofnunin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna rekstrarins.  Umhverfisstofnun veitti síðan starfsleyfi fyrir kvíaeldinu hinn 20. janúar 2012 að undangenginni kynningu á starfsleyfistillögu stofnunarinnar og er það starfsleyfi til umfjöllunar í máli þessu.

Af hálfu kæranda er á það bent að hið kærða starfsleyfi fari gegn lögum og hagsmunum hans.  Kærandi fyrirhugi að reka sjókvíaeldi í Reyðarfirði og hafi í tengslum við það kostað mat á umhverfisáhrifum sem nemi tugum milljóna króna, en slíkt mat sé á kostnað og ábyrgð rekstaraðila, sbr. 1. mgr. 23. gr. rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Nýr leyfishafi laxeldis í Reyðarfirði hafi við undirbúning að umsókn sinni m.a. stuðst við matsskýrslu kæranda án heimildar, en ótvírætt sé samkvæmt 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að slíkt mat sé á ábyrgð og kostnað framkvæmdaraðila.  Þessi notkun á matsskýrslu kæranda orki tvímælis, en fram komi í 33. gr. rgl. nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum að almennar reglur eigna- og höfundarréttar gildi um gögn þau sem lögð séu fram samkvæmt þeirri reglugerð.  Kærandi hafi sótt um endurnýjun fyrra starfsleyfis fyrir laxeldi í Reyðarfirði en Umhverfisstofnun hafi komið því á framfæri að umdeild notkun nýs leyfishafa á mati kæranda á umhverfisáhrifum hindri að hann geti notað matið við starfsleyfisumsókn sína.  Skipulagsstofnun hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að umrætt laxeldi í Reyðarfirði væri háð mati á umhverfisáhrifum og verði að gera þá kröfu til nýs leyfishafa að hann láti gera nýtt mat á sinn kostnað og ábyrgð í samræmi við lög.  Þótt stjórnsýslulög og upplýsingalög tryggi almenningi aðgang að gögnum feli það ekki í sér heimild til að nota þau gögn til hagsbóta öðrum en eiganda þeirra.

Umhverfisstofnun vísar til þess að umsókn um hið kærða starfsleyfi hafi fylgt afrit af niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 8. júní 2011, um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Sú ákvörðun hafi verið kæranleg en hafi ekki verið kærð á þeim tíma.  Hið kærða leyfi hafi verið veitt þar sem ákvörðun um matsskyldu hafi legið fyrir og starfsleyfisumsóknin talin uppfylla skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999 sem sett hafi verið með stoð í þeim lögum.  Deilur um notkun umhverfismats kæranda, sem gert hafi verið á sínum tíma, séu einkaréttarlegs eðlis og ákvörðunarvald um matsskyldu framkvæmda sé hjá Skipulagsstofnun. Sæti þær ákvarðanir ekki endurskoðun Umhverfisstofnunar við meðferð starfsleyfisumsóknar.

Leyfishafi krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu um ógildingu hins kærða starfsleyfis verði hafnað.  Málsástæður kæranda lúti allar að því að handhafi hins kærða leyfis hafi notað eða a.m.k. vísað til matsskýrslu sem kærandi hafi látið gera á sínum tíma.  Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem komi útgáfu starfsleyfis til leyfishafa ekkert við.  Starfsleyfi kæranda fyrir laxeldi í Reyðarfirði hafi runnið út 1. apríl 2010 og hafi því ekki verið í gildi þegar sótt hafi verið um hið kærða starfsleyfi.  Staða kæranda í málinu sé því ekki á annan veg en alls almennings og eigi hann því ekki lögvarða hagsmuni tengda ákvörðuninni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar í tilefni af fyrirhuguðu laxeldi hafi leyfishafi vísað til fjölda gagna og þar á meðal umdeildrar matsskýrslu. Hafi stofnunin ekki talið þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna eldisins.  Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun.  Matsskýrsla kæranda sé opinbert gagn og aðgengileg almenningi og hafi leyfishafa verið heimilt að vísa til hennar í fyrrgreindri tilkynningu, sbr. 1. mgr. 14. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Matsskýrsla kæranda eða hluti úr henni hafi hins vegar ekki verið notuð sem slík af leyfishafa enda engin þörf á slíkri skýrslu vegna hinnar kærðu leyfisveitingar samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar.  Liggi ekki annað fyrir en að tilkynningarferli skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi verið í samræmi við lög sem og veiting umrædds starfsleyfis.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verður rakið nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim málatilbúnaði við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu leyfisveitingu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kærandi telur hins vegar að hagsmunum hans hafi verið raskað með óheimilaðri notkun skýrslu hans um mat á umhverfisáhrifum við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og með því hafi verið brotið gegn eigna- og höfundarréttindum hans.  Þá matsskýrslu lét kærandi gera á sínum tíma vegna áforma um sambærilegt laxeldi í Reyðarfirði og hér er til umfjöllunar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er úrskurðarnefndinni ætlað það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og aðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum.  Þá er og tekið fram í 3. mgr. 4. gr. laganna að þeir einir geti borið stjórnvaldsákvarðanir undir nefndina sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á eða að fyrir hendi sé bein kæruheimild i lögum.

Með hinni kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar var ekki tekin afstaða til þess hvort fyrirhugað laxeldi í sjó væri háð mati á umhverfisáhrifum, en þá lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar í því efni lögum samkvæmt og var niðurstaða stofnunarinnar sú að umrætt laxeldi væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Var það ekki á valdsviði Umhverfisstofnunar að taka afstöðu til ágreinings um hvort réttindum kæranda, sem eiganda fyrrgreindrar matsskýrslu, hefði verið raskað við undirbúning málsins á fyrri stigum þess og kemur því ekki til álita að úrskurðarnefndin taki afstöðu til réttarágreinings í þessu efni við endurskoðun lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.  Ágreiningur um röskun eigna- eða höfundarréttinda, sem hér um ræðir, á undir dómstóla, sbr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Getur ágreiningur þessi af framangreindum ástæðum ekki veitt kæranda aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni.

Þegar litið er til þess að kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, aðra en þá er varða kunni fyrrgreind eignarréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir

95/2012 Svelgsá

Með

Árið 2013, föstudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 95/2012, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. september 2012 um að allt að 800 kW virkjun í Svelgsá í landi Hrísa, Helgafellssveit, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. október 2012, er barst nefndinni 3. s.m., kærir J, Hrísakoti, Helgafellssveit, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. september 2012 að allt að 800 kW virkjun í ánni Svelgsá í landi Hrísa í Helgafellssveit skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 5. október 2012, er barst nefndinni 8. s.m., kæra J og V, Svelgsá, Helgafellssveit, jafnframt fyrrgreinda ákvörðun Skipulagsstofnunar með kröfu um ógildingu.  Verður það kærumál, sem er númer 97/2012, sameinað kærumáli þessu, enda standa hagsmunir kærenda í nefndum málum því ekki í vegi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun hinn 25. október 2012.

Málavextir:  Jarðirnar Svelgsá og Hrísar eiga lönd saman og segir í landamerkjalýsingu frá 16. júlí 1884 að Svelgsá ráði merkjum milli jarðanna frá ósi og upp að Hrauni, en síðan ráði hraunið til fjalls.  Er jörðin Svelgsá vestan árinnar en Hrísar að austanverðu.  Austan Hrísa er jörðin Hrísakot og segir í sömu landamerkjalýsingu að milli þeirra jarða skilji Þórsá upp að sýsluvegi.  Svo ráði gamalt garðlag upp í Hrísakotsbrunn og þaðan bein sjónhending í Sjónarhól á Hrísfelli. 

Hinn 29. maí 2009 staðfesti umhverfisráðuneytið ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. janúar 2008 þess efnis að allt að 655 kW virkjun í Svelgsá í landi Hrísa væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Eftir þá niðurstöðu var unnið að gerð deiliskipulagstillögu fyrir vatnsaflsvirkjunina sem sveitarstjórn Helgafellssveitar samþykkti ásamt umhverfisskýrslu að lokinni málsmeðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og í samræmi við lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. janúar 2011.

Vegna breytinga á virkjunaráformum tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða allt að 800 kW virkjun í Svelgsá í ágústmánuði 2012 og óskaði ákvörðunar stofnunarinnar um matsskyldu framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.  Í greinargerð með tilkynningu framkvæmdaraðila kom m.a. fram að fyrir lægi samþykkt deiliskipulag fyrir virkjun með nokkuð annarri tilhögun en nú væri tilkynnt.  Væri ný tilhögun betri en sú fyrri með tilliti til umhverfisáhrifa og hagkvæmni.  Um rennslisvirkjun væri að ræða með nær engri miðlun.  Yrði vatni úr fjórum kvíslum Svelgsár veitt saman með því að stífla kvíslarnar og veita vatninu um niðurgrafnar veitupípur að inntaksstíflu en þaðan lægi fallpípa niður að stöðvarhúsi.  Stuttur frárennslisskurður yrði þaðan út í Svelgsá.  Vegslóði frá þjóðvegi að vatnsbóli Stykkishólmsbæjar yrði lagfærður og framlengdur að stöðvarhúsi og þar gert lítið bílaplan.  Framhjá stöðvarhúsi og meðfram þrýstipípu myndi liggja slóði sem gerður yrði samhliða lagningu pípunnar upp að inntaksstíflu og þaðan slóði að öllum veitustíflum meðfram veitupípunni. Tenging virkjunarinnar við dreifikerfi RARIK yrði um niðurgrafinn háspennustreng í kanti vegslóða niður að loftlínu við þjóðveg.  Hæð allra stífla yrði um 3 m og yrði áætlað flatarmál allra inntakslóna innan við 3.000 m².  Færu lónin fáeina metra út fyrir núverandi farveg árinnar og kvíslanna.  Þá væru umhverfisáhrif talin lítil. 

Lögbundin ákvörðun Skipulagsstofnunar um matið lá fyrir hinn 5. september 2012.  Var þar m.a. tilgreint að í umsögnum Helgafellssveitar, Fiskistofu, Fornleifaverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar kæmi fram að ekki væri ástæða til að framkvæmdirnar skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum.  Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að á grundvelli þeirra gagna sem lögð voru fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu, auk umsagna og viðbragða framkvæmdaraðila við þeim, væri ekki líklegt að virkjun í Svelgsá hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Tekið er fram af hálfu kærenda að mati á áhrifum framkvæmdanna sé verulega ábótavant.  Rask af völdum vegagerðar og lagningar fall- og veitupípa sé mjög vanmetið og sjónræn áhrif framkvæmdanna til langframa verði mun umfangsmeiri en Skipulagsstofnun telji.  Framkvæmdir muni blasa við frá þjóðvegi 54 og spilla útsýni frá vinsælum ferðamanna- og áfangastöðum í nágrenninu eins og Helgafelli og Drápuhlíðarfjalli.  Umrætt landsvæði sé þakið viðkvæmum mosagróðri og muni taka marga áratugi eða jafnvel árhundruð að græða landið eftir svo mikið umrót.  Ámælisvert sé að ekki hafi verið leitað umsagna fleiri aðila sem málið varði, s.s. aðila í ferðaþjónustu, en mikil verðmæti séu fólgin í óspjölluðu umhverfi og skaði allt rask framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar verið tekin á grundvelli of takmarkaðra gagna. 

Eigandi Hrísakots bendir enn fremur á að ákvörðunin snerti verulega hagsmuni hans því meginhluti þess fjalls þar sem áformað sé að virkja með tilheyrandi röskun sé í eigu hans og maka hans.  Umtalsverðar framkvæmdir verði á yfir 600 m kafla í fjallshlíðinni í um 230 m hæð yfir sjávarmáli, nánast við landamerki Hrísakots. 

Gert sé ráð fyrir lagningu vega að fjórum stíflum en í ákvörðun Skipulagsstofnunar séu þessir vegir kynntir sem slóðar.  Þurfi 1.000 m³ af efni í slóðagerðina, 2.300 m³ af sandi meðfram pípum og heildarmagn steypu verði 200 m³.  Vafasamt sé að efnislitlir slóðar dugi fyrir þennan flutning í hallandi fjallshlíð.  Einnig hafi komið fram að slóði þurfi að víkja frá pípuleið vegna mikils bratta.  Að framkvæmdum loknum muni vera til staðar allmikið vegakerfi í hlíðum Hrísafells og umtalsvert sár eftir lagningu pípa.  Megi einnig gera ráð fyrir talsverðri umferð á greindum fjallvegum vegna hreinsunar á stíflum úr inntaki, en oft frjósi í inntökum þakrennuvirkjana. Heildstæð og óspjölluð ásýnd Snæfellsnesfjallgarðar að norðanverðu muni verða rofin því nú fyrirfinnist ekki vegir eða vegslóðar á fjalllendinu allt frá Kerlingarskarði og austur í botn Álftafjarðar.  Þá hafi verið vanrækt að taka tillit til „landslagsheilda“ við mat Skipulagsstofnunar. 

Þá byggi hin kærða ákvörðun á of takmörkuðum gögnum um lífríki á fyrirhuguðu virkjanasvæði.  Byggt sé á skýrslu vistfræðings sem hafi framkvæmt vettvangskönnun á fuglalífi og gróðurfari vegna fyrri virkjunar, en sú virkjun hafi verið með talsvert ólíka staðbundna útfærslu.  Lífríki hafi hvorki verið kannað með tilliti til fyrirhugaðrar vegagerðar í hlíðum Hrísafells né hafi það verið kannað í þremur af þeim giljum þar sem nú sé fyrirhugað að virkja.  Þá liggi ekki fyrir gögn um smádýralíf á fyrirhuguðu virkjanasvæði og í vegstæði virkjanavega. 

Eigendur jarðarinnar Svelgsár, sem á land að ánni, telja að ekki sé gætt að hagsmunum þeirra sem eigi lönd er liggi að virkjunarsvæðinu.  Mikil óþægindi muni fylgja aukinni umferð og öðru álagi þar sem allir aðdrættir til virkjunarinnar muni fara eftir þjóðvegi 54, sem liggi nálægt húsi kærenda.  Þá skorti á að leitað hafi verið umsagna fleiri aðila, s.s. eigenda aðliggjandi lands og Stykkishólmsbæjar, vegna vatnsveitu sveitarfélagsins. Umdeildar framkvæmdir snerti einnig hagsmuni ferðaþjónustu á svæðinu en austurhluti Helgafellssveitar sé aðalsögusvið Eyrbyggju.  Sé með fyrirhugaðri virkjun verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. 

Loks sé á það bent að fjall það sem virkjunin verði staðsett á sé hluti af virkri eldstöð.  Sé þar mikið gosefni, sem sé laust í sér.  Í maí 2007 hafi orðið töluvert framhlaup úr fjallinu sem hafi farið í Svelgsána.  Með fyrirhuguðum framkvæmdum geti slíkt endurtekið sig með afdrifaríkum afleiðingum fyrir allt nágrenni árinnar og þar með talið vatnsból Stykkishólms.  Þá geri kærendur þá lágmarkskröfu að fyrir liggi niðurstaða úr skráningu á vistgerðum milli fjalls og fjöru áður en ákvörðun um að ekki þurfi umhverfismat vegna virkjunarinnar verði endanlega tekin. 

Málsrök Skipulagsstofnunar:  Skipulagstofnun bendir á að ákvörðun hennar hafi byggst á framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum lögbundinna umsagnaraðila um umhverfisáhrif áformaðrar virkjunar.  Sjónræn áhrif verði mest á framkvæmdatíma en þegar frá líði aðlagist vegslóðar umhverfi sínu og hið raskaða svæði muni gróa upp með tíð og tíma.  Helgafell sé í meira en fimm kílómetra fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu og Drápuhlíðarfjall í um þriggja kílómetra fjarlægð.  Vegna þessarar fjarlægðar sé ekki ástæða til að ætla að sjónræn áhrif virkjunarinnar verði það mikil að spilli sýn frá fyrrgreindum stöðum. 

Við ákvörðun um matsskyldu sé metið hverju sinni hversu ítarlegar upplýsingar séu nauðsynlegar til að unnt sé að taka ákvörðun og séu gerðar kröfur um ítarlegri upplýsingar á svæðum þar sem ætla megi að sé að finna lífríki sem hafi nokkuð verndargildi.  Í ljósi staðsetningar og eðlis framkvæmdar hafi ekki verið talin nauðsyn á að fyrir lægju gögn um smádýralíf. 

Vegna athugasemda um vatnsból Stykkishólmsbæjar sé rétt að benda á að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi í umsögn sinni gert kröfur um aðbúnað og umgengni í námunda við vatnsból og hafi stofnunin gert þær að sínum með ábendingu um að Helgafellssveit bindi væntanlegt framkvæmdaleyfi skilyrðum til að uppfylla þær kröfur.  Við ákvörðun um matsskyldu verkefna eins og hér um ræði sé ávallt leitað til lögbundinna umsagnaraðila sem jafnframt séu eftirlitsaðilar og/eða leyfisveitendur vegna vatnsbóla.  Ekki sé venjan að óska umsagna rekstraraðila eða stærstu notenda.  Aldrei sé leitað umsagna hjá landeigendum vegna könnunar á matsskyldu eða mats á umhverfisáhrifum. Hins vegar hafi landeigendur og nágrannar framkvæmdasvæðisins möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar skipulagsáætlanir sveitarfélagsins séu kynntar. Leggi Skipulagsstofnun eingöngu mat á líkur á umtalsverðum umhverfisáhrifum en skoði ekki eignarréttarlega stöðu landeigenda eða önnur möguleg áhrif sem ekki séu tilgreind sérstaklega í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.  Þá sé tekið fram að aldrei sé leitað umsagna hjá frjálsum félagasamtökum eða fyrirtækjum þegar matsskylda framkvæmda sé til skoðunar hjá Skipulagsstofnun. 

Engin heimild sé til þess í lögum að neita að taka mál til afgreiðslu vegna þess að verið sé að afla gagna um náttúrufar á landsvísu.  Hafi það verið mat Skipulagsstofnunar að framlögð gögn væru fullnægjandi til að unnt væri að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmdanna og hafi ekki verið gerð athugasemd við gögnin hjá þeim umsagnaraðilum sem stofnunin hafi leitað til. 

Þá sé bent á að ekki komi fram í kæru hvort einhverjir sögulegir staðir séu á framkvæmdasvæðinu eða hvort þeir muni fara forgörðum vegna framkvæmdanna og geti Skipulagsstofnun því ekki tekið afstöðu til réttmætis þessarar athugasemdar.  Hvað varði þá staðhæfingu að umferð um vegslóða verði meiri en ætla megi af ákvörðun Skipulagsstofnunar þá hafi stofnunin þar byggt á upplýsingum úr greinargerð framkvæmdaraðila og ekki haft tilefni til að efast um réttmæti þeirra. 

Málsrök framkvæmdaraðila:  Framkvæmdaraðili mótmælir því að sjónmengun af fyrirhugaðri virkjun verði veruleg og tekur m.a. fram að slóði handan stöðvarhúss muni fyrst sjást frá þjóðveginum í yfir tveggja kílómetra fjarlægð.  Slóðinn sé í um 9,5 km fjarlægð frá Helgafelli og megi efast um að hægt sé að greina hann úr slíkri fjarlægð.  Fullyrðingar um áhrif vegagerðar á útsýni frá einum helsta ferðamannstað Helgafellssveitar eigi ekki við rök að styðjast og sama eigi við um fullyrðingu kærenda um að enginn vegslóði sé á fjalllendinu milli Kerlingarskarðs og botns Álftafjarðar.  Einnig sé bent á að ekki sé langt í aðra landnotkun, svo sem skógrækt, tún og íbúðarhús, sem áhrif hafi á útsýni.  Í vettvangsskoðun hafi verið sérstaklega kannað að hve miklu leyti stífluveggir muni sjást.  Hafi niðurstaðan orðið sú að þeir muni víðast hvar ekki sjást vegna þess hve lágir þeir séu og staðsettir ofan í gilskorningum, ólíkt fyrri áformum um stíflu.  Samkvæmt mælingu af korti sé bein loftlína milli íbúðarhússins á Svelgsá og stífluveggjanna yfir 3,7 km.  Samkvæmt hæðarlínukorti eigi stöðvarhús ekki að vera sýnilegt frá Svelgsá.  Muni slóði frá stöðvarhúsi upp að stíflum fylgja mörkum í landslaginu og verða nær ekkert uppbyggður.  Þar sem umferð um hann verði afar lítil muni hann gróa á fáum árum og verða lítt sýnilegur en aðrir hlutar virkjunarinnar verði niðurgrafnir.  Þá sé tekið fram að verði fjarlægð gróðurþekja nýtt í frágang hins raskaða yfirborðs verði jarðvegur fljótur að ná sér eftir rask. 

Ekkert rask verði í landi Hrísakots vegna framkvæmdanna og geti eigendur þeirrar jarðar ekki haft verulegra hagsmuna að gæta í máli þessu.  Kærendur dragi upp ýkta mynd af umfangi fyrirhugaðs slóða milli stöðvarhúss og stíflanna, en auk vegar frá þjóðvegi að stöðvarhúsi verði í raun aðeins um einn slóða að ræða frá stöðvarhúsi að efsta stífluvegg. Þegar gerð sé grein fyrir umfangi efnisflutninga í mati á umhverfisáhrifum sé leitast við að meta hver efnisþörfin geti orðið mest og sé hún metin allt að 1.000 m³.  Slóðinn verði um 2.400 m langur, svo efnisnotkun verði í mesta lagi að jafnaði aðeins 0,4 m³ á hvern lengdarmetra slóða.  Á löngum köflum verði ekki þörf fyrir neitt efni þar sem undirlag hafi góðan burð.  Hafi framkvæmdaraðili engan hag af því að gera umfangsmeiri slóða en nægi til að geta farið um á dráttarvél eða sambærilegu tæki. 

Mjög sjaldan frjósi við inntök þegar lindarþáttur í vatnsföllum sé eins mikill og í Svelgsá.  Virkjunin verði stöðvuð valdi mikill skafrenningur krapa í vatninu.  Þá verði hæð stífluveggjanna nægjanleg svo vatnsborð yfir pípuopinu geti lagt án þess að truflun hljótist af.  Helst verði farið upp að inntaki til að skola áfram seti sem setjist fyrir í inntakslónunum og verði slíkt framkvæmt að sumri til. 

Virkjunin hafi verið færð um 500 m ofar í fjallið frá fyrri tilhögun en ætla verði að litlar líkur séu á því að lífríki þar sé mjög frábrugðið því sem fram hafi komið í niðurstöðu vistfræðings vegna fyrri virkjunar.  Áhrifin verði afar lítil og afturkræf.  Byggður verði veggur fyrir gilið og vatni safnað í mjög lítið lón.  Nái árfarvegurinn neðan stíflunnar ekki að þorna alveg nema á mjög stuttum kafla.  Þá muni gerð slóða, lagning pípu og bygging stífluveggjanna engin áhrif geta haft á smádýralíf. 

Því sé mótmælt að mikil óþægindi verði af aukinni umferð nærri íbúðarhúsinu á Svelgsá, en umferð vegna framkvæmdanna verði mjög lítil í samanburði við aðra umferð. Jafnframt sé langsótt að sakast við framkvæmdaraðila vegna nálægðar þjóðvegs 54 við íbúðarhúsið á Svelgsá.  Þá skuli á það bent að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi gert þá kröfu að sett verði upp læst hlið á veginn að stöðvarhúsinu vegna vatnsbólsins til að tryggja að umferð aukist ekki á svæðinu. 

Bent sé á að framkvæmdaraðili hafi upplýst landeigendur á svæðinu í hverju fyrirhugaðar framkvæmdir fælust og óskað eftir athugsemdum.  Gerð hafi verið grein fyrir svörum landeigenda í greinargerð til Skipulagsstofnunar og jafnframt hafi verið leitað umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur, sem ekki hafi gert athugasemd við framkvæmdina. 

Framkvæmdaraðili sé ósammála því að hætta sé á rofi á lausum jarðvegi vegna framkvæmdanna. Allt aðrar jarðvegsaðstæður séu þar sem virkjunin sé fyrirhuguð en þar sem skriða hafi fallið fyrir nokkrum árum.  Engin hætta sé talin á rofi á lausum jarðvegi vegna virkjunarinnar þar sem áin og allar kvíslar hennar verði áfram í sínum náttúrulega farvegi við mikið rennsli.  Þá séu engin vatnsból í ánni heldur í uppsprettu við hraunin og sé ótti við aurflóð á vatnsbólið því ástæðulaus.  Breytt tilhögun virkjunarinnar með notkun steyptra veggja í stað jarðvegsstíflu sé m.a. tilkomin vegna hættu á flóðum sem þessum, en steyptir veggir muni standast öll þau flóð sem orðið geti í ánni.  Hins vegar sé hætta á að jarðvegstíflur geti rofnað í flóðum sem séu stærri en gert hafi verið ráð fyrir við hönnun. 

Svæðið hafi verið skoðað með tilliti til gróðurfars og áhrifa framkvæmdanna á það og ekki sé raunhæft að ætlast til að beðið sé með framkvæmdir meðan unnið sé að skráningu vistgerða.  Þá bendi ekkert til þess að ferðafólk missi áhuga á landsvæðum þótt þar sjáist ummerki um landnotkun sem þessa. Bent sé á að aukið afl virkjunarinnar frá fyrri tilhögun komi til vegna meiri fallhæðar en ekki vegna aukins umfangs virkjunarinnar.  Hafi umfangið á vissan hátt minnkað vegna þess að horfið hafi verið frá því að reisa háa, langa og mun sýnilegri jarðvegsstíflu fyrir miðlunarlón. 

Niðurstaða:  Með ákvörðun hinn 11. janúar 2008 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að allt að 655 kW virkjun í Svelgsá í landi Hrísa í Helgafellssveit væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Var þeirri niðurstöðu skotið til umhverfisráðuneytisins, m.a. af hálfu eigenda jarðarinnar Svelgsár, sem standa að kærumáli þessu.  Staðfesti ráðuneytið niðurstöðu Skipulagsstofnunar með úrskurði hinn 29. maí 2009.  Að fenginni þeirri niðurstöðu var ráðist í gerð deiliskipulags fyrir umrædda virkjun og var auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2011 og var ákvörðun sveitarstjórnar um deiliskipulagið ekki borin undir æðra stjórnvald.  Verður því lagt til grundvallar í máli þessu að í gildi sé deiliskipulag fyrir 655 kW virkjun í Svelgsá og að fyrir liggi endanleg niðurstaða um að sú framkvæmd sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Með hliðsjón af framansögðu er í máli þessu í raun aðeins til úrlausnar hvort sú breyting, sem gerð var á fyrri áformum um virkjun í Svelgsá, leiði til þess að framkvæmdin sé líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því sæta mati á umhverfisáhrifum.  Fyrirhuguð framkvæmd fellur að miklu leyti saman við það deiliskipulag sem gert hefur verið að svæðinu, og áður er getið, og á það m.a. við um legu vegar og háspennustrengs frá stöðvarhúsi að þjóðvegi 54 og raflínu skammt sunnan vegarins.  Sú breyting sem áformuð er felst aðallega í því að farið er hærra upp með inntaksmannvirki og fallhæð þannig aukin. Liggja fyrir í málinu umsagnir sérfróðra aðila og er niðurstaða Skipulagsstofnunar m.a. byggð á þessum umsögnum.  Telur úrskurðarnefndin ekki efni til að hnekkja þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að sú breytta framkvæmd sem um ræðir sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Auk þess að vísa til umhverfisáhrifa umdeildrar framkvæmdar telja kærendur að meðferð málsins hafi verið áfátt þar sem ekki hafi verið leitað afstöðu þeirra sem landeigenda og hagmunaaðila við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá hefði átt að leita umsagnar fleiri aðila en gert hafi verið. Skipulagsstofnun hefur andmælt þessum sjónarmiðum kærenda og bendir á að stofnunin sé eingöngu að leggja mat á umtalsverð umhverfisáhrif án þess að skoða eignarréttarlega stöðu landeigenda eða önnur möguleg áhrif sem ekki séu tilgreind sérstaklega í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.  Sé aldrei leitað umsagna hjá landeigendum vegna könnunar á matsskyldu eða mats á umhverfisáhrifum, en þeir hafi hins vegar möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar skipulagsáætlanir sveitarfélags séu kynntar. 

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu er stjórnvaldsákvörðun.  Verður að ætla landeigendum andmælarétt við undirbúning slíkra ákvarðana, enda getur niðurstaða um matsskyldu framkvæmda ráðið miklu, bæði um það hvort af framkvæmdum verði og um útfærslu þeirra og mögulegar mótvægisaðgerðir.  Þegar um ráðstöfun vatnsréttinda til orkunýtingar er að ræða leiðir auk þess af 49. gr. vatnalaga nr. 15/1923 að gæta þarf alveg sérstaklega að hagsmunum annarra sem vatnsréttindi eiga í sama vatnsfalli.  Eru það ekki haldbær rök gegn andmælarétti við matsskylduákvörðun að landeigendur geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri þegar skipulagsáætlanir sveitarfélags séu kynntar, enda má allt eins gera ráð fyrir að þegar hafi verið tekin afstaða til framkvæmdar í skipulagi þegar að því kemur að tilkynna Skipulagsstofnun um hana skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Í máli þessu liggur fyrir að sjónarmið kærenda hafi komið fram, bæði við meðferð fyrra kærumáls um matsskyldu 655 kW virkjunar í Svelgsá og við gerð deiliskipulags þeirrar virkjunar, auk þess sem fram kemur í tilkynningu framkvæmdaraðila um breytta tilhögun að hún hafi verið kynnt landeigendum og er í tilkynningunni gerð grein fyrir afstöðu þeirra í málinu.  Þá verður ráðið af málsgögnum að eigendum jarðarinnar Svelgsár séu ekki með virkjuninni bakaðir óhæfilegir örðugleikar um notkun vatns í skilningi 49. gr. vatnalaga, enda er öllu vatni sem um virkjunina fer veitt aftur í farveg árinnar, ofan við þann stað þar sem áin tekur að skilja milli jarðanna Hrísa og Svelgsár. Verður samkvæmt framansögðu að telja að afstaða kærenda og rök fyrir henni hafi legið fyrir í gögnum málsins við töku hinnar kærðu ákvörðunar og því hafi ekki verið skylt, eins og hér stóð á, að gefa kærendum kost á að neyta andmælaréttar í málinu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður hvorki fallist á að Skipulagsstofnun hafi borið að leita frekari umsagna en gert var né að á málsmeðferð hafi verið aðrir þeir annmarkar er ógildingu varði.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. september 2012 um að allt að 800 kW virkjun í Svelgsá í landi Hrísa í Helgafellssveit, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________             _________________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

43/2012 Sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi

Með

Árið 2013, mánudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2012, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. apríl 2012 um matsskyldu 7.000 tonna ársframleiðslu á eldisfiski í Ísafjarðardjúpi (blandað eldi þorsks og laxfiska eða eldi einnar tegundar).  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Jón Jónsson hrl., f.h. ÍS 47 ehf., Bjarna ehf. og  Kampa ehf., þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. apríl 2012 að 7.000 tonna ársframleiðsla á eldisfiski í Ísafjarðardjúpi (blandað eldi þorsks og laxfiska eða eldi einnar tegundar) skuli ekki háð mati á umhverfissáhrifum.  Með bréfum, dags. 12. og 14. maí 2012, kæra Landssamband veiðifélaga, Sigurbjörg ehf. og Ferðamálasamtök Vestfjarða sömu ákvörðun og eru þau kærumál, sem eru nr. 44, 45 og 48/2012, sameinuð máli þessu.  Er þess krafist að úrskurðarnefndin felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og ákveði að umrætt fyrirhugað fiskeldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsatvik:  Hinn 29. desember 2011 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf., hér eftir HG, um fyrirhugaða 7.000 tonna framleiðslu á eldisfiski í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi, Ísafjarðarbæ, Strandabyggð og Súðavíkurhreppi skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, með síðari breytingum, og lið 1 g í 2. viðauka laganna.  Skipulagsstofnun leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Strandabyggðar, Súðavíkurhrepps, Fiskistofu, Fjórðungssambands Vestfirðinga, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Siglingastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.  Bárust umbeðnar umsagnir á tímabilinu frá janúar og fram í mars 2012.  Einnig bárust frekari upplýsingar frá HG á sama tíma.

Í lýsingu á fyrirhugaðri framkvæmd kemur fram að HG stefni að því að starfrækja blandað eldi á þorski (áframeldi og aleldi), laxi og regnbogasilungi.  Fyrirhugað sé að sækja um leyfi til að framleiða 7.000 tonn á ári af hverri tegund, en hverju sinni verði framleiðsla þó aldrei meiri en 7.000 tonn í heildina.  Að jafnaði verði tvær tegundir í eldi á hverju svæði og verði um að ræða kynslóðaskipt eldi sem dreifist á þrjú árgangasvæði.  Ráðist það af markaðsaðstæðum hvaða tegundir verði í eldi hverju sinni.  Eldi HG í Ísafjarðardjúpi verði í Álftafirði, Seyðisfirði og Skötufirði (Árgangasvæði 1), Mjóafirði og Ísafirði (Árgangasvæði 2) og við Bæjarhlíð (Árgangasvæði 3). Fjarlægð milli árgangasvæða verði að lágmarki 7 km.  Eldi á hverju svæði muni taka um tvö ár en að slátrun lokinni verði viðkomandi svæði hvílt í tæpt ár áður en ný eldislota hefjist á svæðinu.

Í tilkynningu HG er því nánar lýst hvernig staðið verði að fyrirhuguðum rekstri og kemur þar m.a. fram að áformað sé að reisa fóðurstöðvar á landi utan við Langeyri í Álftafirði og í landi Skarðs í Skötufirði.  Þá segir að Háfell ehf., dótturfélag HG, hafi leyfi Fiskistofu til framleiðslu á 500.000 þorskseiðum á ári (50 tonn) á Nauteyri við Ísafjörð og sótt verði um leyfi til þess að stækka þá stöð þegar þörf verði á.  Ráðgert sé að stunda áframeldi á þorski í þeim tilgangi að prófa ný eldissvæði í Ísafjarðardjúpi, en jafnframt verði hafið aleldi á þorski og eldi á laxi og/eða regnbogasilungi, allt eftir markaðsaðstæðum hverju sinni.

Síðan er í tilkynningunni gerð grein fyrir sjónarmiðum HG varðandi ýmsa umhverfisþætti, s.s.  burðargetu fyrirhugaðra eldissvæða, áhrifum á villta fiskistofna og laxveiðihlunnindi, lífríki sjávar, svo og á landnotkun og sjávarnytjar. Þá er fjallað um áhrif á veiðar og hafrannsóknir,  landbúnað og ferðaþjónustu, æðarvarp, fornleifar og náttúruminjar. Loks er vikið að samræmi áformanna við skipulagsáætlanir.  Sé það mat HG að framleiðsla á 7.000 tonnum af eldisfiski muni ekki hafa umtalsverð áhrif á umhverfi Ísafjarðardjúps og áhrifin verði afturkræf ef starfseminni verði hætt.

Í málinu liggja fyrir álit umsagnaraðila, sem Skipulagsstofnun aflaði við meðferð málsins.  Telja Ísafjarðarbær, Fornleifavernd ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, Siglingastofnun Íslands og Umhverfisstofnun að sjókvíaeldi HG í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Súðavíkurhreppur, Strandabyggð og Fiskistofa telja hins vegar að fyrirhugað eldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum.  Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar, á grundvell fyrirliggjandi gagna, að 7.000 tonna ársframleiðsla á eldisfiski í Ísafjarðardjúpi (blandað eldi þorsks og laxfiska eða eldi einnar tegundar) sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu ÍS 47 ehf., Bjarna ehf. og Kampa ehf. er á það bent að mismunandi umhverfisáhrif geti hlotist af því hvaða eldi verði stundað.  Óvíst sé hvort framkvæmdin varði eldi á 7.000 tonnum af þorski, laxi eða regnbogasilungi. Venja sé að hlutföll eldistegunda séu tilgreind og séu til umfjöllunar við matsskylduákvörðun og í því sambandi sé vísað til ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 15. maí 2006 varðandi breytt tegundahlutföll í eldi í Berufirði. Fyrirætlanir HG séu ekki fullmótaðar og sé Skipulagsstofnun gagnrýnd fyrir að taka ákvörðun um ófullmótaðar áætlanir.

Sömu kærendur benda á að ekki sé gert ráð fyrir því að mótvægisaðgerðir, eða skilyrði um mótvægisaðgerðir, séu sérstaklega til umfjöllunar í tilkynningu um framkvæmd, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum.  Því hafi Skipulagsstofnun farið út fyrir valdheimildir sínar með því að setja skilyrði í matsskylduákvörðun.

Þá telji þeir að Skipulagsstofnun geti ekki gert minni kröfur til matsskyldu þótt framkvæmdaraðili útbúi tilkynningu um framkvæmd, þar sem komið sé inn á þætti sem almennt eigi að koma til umfjöllunar í frummatsskýrslu og endanlegri matsskýrslu. Framkvæmdaraðili geti ekki, með sérstaklega ítarlegum tilkynningum, komist hjá umhverfismati.

Gerð sé athugasemd við það álit Skipulagsstofnunar að áhrif á umhverfið verði afturkræf og það muni jafna sig með tíð og tíma ef fiskeldið verði lagt af og mannvirki fjarlægð. Þetta sé þröng skilgreining á umhverfi og ekki sé tekið tillit til nytja innfjarðarrækju og annarra stofna í Djúpinu og meðfylgjandi atvinnustarfsemi.  Ef rækjuveiðar dragist saman vegna fiskeldisins geti áhrifin á atvinnustarfsemi í greininni og afleidd áhrif á samfélagið orðið óafturkræf, jafnvel þótt rækjustofninn myndi ná sér á strik seinna meir.

Bent sé á að 3. viðauki við lög nr. 106/2000 feli í sér þrjú viðmið, þ.e. eðli framkvæmdar, staðsetningu hennar auk eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Forsendur Skipulagsstofnunar varðandi þessi viðmið komi ekki skýrlega fram í ákvörðun stofnunarinnar.  Sem dæmi megi nefna að stærð áhrifasvæðis fiskeldisins sé ekki tilgreint með tilliti til takmarkana á siglingum og veiðislóð. Að dreifa framkvæmdinni á 17 aðskilin svæði sé án efa æskilegt vegna sjúkdómavarna o.fl. en andstætt öðrum hagsmunum, svo sem varðandi siglingaleiðir, sjónmengun og takmörkun veiðislóða. Einblínt sé á einhæfa hagsmuni og ekkert samráð verði t.d. um hagsmuni kærenda nema mat á umhverfisáhrifum fari fram. Einnig verði ekki greint hver stærð áhrifasvæða annarra fiskeldissvæða við Ísland hafi verið, sem fjallað hafi verið um í öðrum matsskyldumálum. Þá sé vísað til sjónarmiða sem komið hafi fram í öðrum ákvörðunum Skipulagsstofnunar og úrskurðum umhverfisráðuneytisins varðandi fiskeldi, svo sem um áhrif á laxfiska, önnur áhrif á lífríki, áhrif á aðrar framkvæmdir og áhrif á siglingar og ferðaþjónustu. Vísað sé til úrskurðar ráðuneytisins varðandi fiskeldi í Hvalfirði og Skutulsfirði.

Athugavert sé að í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé áhersla lögð á umfjöllun um umfang framkvæmdarinnar (7.000 tonna eldi) en lítil sem engin umfjöllun um stærð hennar (áhrifasvæði) og ekki fjallað um sammögnunaráhrif vegna stærðar áhrifasvæða annarra eldisframkvæmda í Ísafjarðardjúpi.  Bent sé á að 12 önnur eldissvæði hafi leyfi í Ísafjarðardjúpi og áætlað sé að stærð þeirra sé um 1.500 ha.  Í ákvörðuninni sé ekki fjallað um stærð áhrifasvæða þeirra heldur einungis umfang í tonnum.  Sérstaklega séu líkur á að áhrif fiskeldissvæða á rækjuveiðar séu vantalin.

Fyrirhugað fiskeldi hafi áhrif á sjávarnytjar eins og botnfisks-, skelfisks- og rækjuveiðar, en einnig á nýtingu opins hafsvæðis til ferðaþjónustu og siglinga.  Hafi Ísafjarðarbær t.d. í umsögn sinni bent á að Ísafjarðardjúp sé nýtt af fjölmörgum aðilum, nýtingin sé skipulagslaus og sveitarfélagið hafi varað við að vandamál og árekstrar geti skapast vegna tilkomu nýrrar og stórfelldrar nýtingar.  Telji kærendur að slík vandamál geti fallið undir umtalsverð umhverfisáhrif, svo sem ef náttúruauðlindir spillist eða möguleikar til nýtingar þeirra takmarkist. Markmið skipulagslaga nr. 123/2010 eigi við í þessu tilfelli, þó hafsvæðið sem starfsemi HG verði á sé ekki skipulagsskylt, en þau séu m.a. að nýting lands sé samþætt við hagsmuni annarra.  Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum séu sambærileg. Þegar ráðstafa eigi stórum hluta opinna hafsvæða verði að huga að öðrum hagsmunum sem verði fyrir áhrifum vegna fiskeldisins. Skipulagning hafsvæða sé besta leiðin til að lágmarka skerðingu hagsmuna og þótt mat á umhverfisáhrifum sé ef til vill ekki besta stjórntækið til að skipuleggja sé það eina færa leiðin þegar skipulag hafsvæða liggi ekki fyrir.  Heildarburðargeta þess svæðis sem eldið verði á sé áætluð 13.000 tonn og augljóst sé að ákvörðun Skipulagsstofnunar um 7.000 tonna eldi feli í sér ráðstöfun á takmarkaðri auðlind, sem skerði möguleika þeirra sem nú stundi eldi eða hyggi á stærra eldi.  Þetta geti falið í sér veruleg áhrif á samfélag og atvinnulíf á svæðinu. Nýir aðilar sem ætluðu sér t.d. að hefja 5.000 tonna fiskeldi þyrftu án efa að sæta mati á umhverfisáhrifum og þannig yrði málsmeðferð önnur en í tilfelli HG, sem þó sé með áform um stærra eldi.  Til að gæta jafnræðis ætti fyrirhugað fiskeldi HG, sem gangi nærri hámarksburðargetu hafsvæðisins, að vera sett í umhverfismat.

Til viðbótar framansögðu muni fyrirhugað eldi skerða aðgang Hafrannsóknastofnunar að föstum togslóðum vegna rannsókna á innfjarðarrækju.  Þetta muni gera alla rannsóknavinnu stofnunarinnar óöruggari og líkleg afleiðing sé að ráðgjöf stofnunarinnar verði varfærnari.  Þar af leiði að ráðlagður verði minni heildarafli en ella með tilheyrandi samdrætti í tekjum kærenda og annarra þeirra sem starfi við veiðar og vinnslu innfjarðarrækju. Lítilsháttar samdráttur í atvinnugrein sem velti hundruðum milljóna á ári, e.t.v. milljörðum, feli í sér umtalsverð umhverfisáhrif.  Enn fremur telji kærendur hugsanlegt að Hafrannsóknastofnun taki rangar ákvarðanir um nýtingu rækju í Ísafjarðardjúpi, sem leitt geti til of lítillar eða of mikillar veiði. Umtalsverð umhverfisáhrif muni hljótast af lítilli veiði fyrir atvinnu og samfélag og ofveiði geti leitt til röskunar lífríkis og hruns í veiðum og vinnslu á innfjarðarrækju. Togsvæði muni skerðast verulega vegna stærðar eldissvæða. Einnig leiði fjöldi eldissvæða til þess að togsvæði verði ónýtanleg þar sem þau liggi á milli eldissvæða og bil milli þeirra sé ekki nægjanlega mikið.

Loks sé á það bent að með því að hafna tillögum sveitarfélaga í nágrenninu um að framkvæmdin sé matsskyld séu skertir möguleikar nágranna til að láta málið til sín taka.  Á landi nærri eldissvæðum séu frístundahús og vinsæl útivistarsvæði.  Fiskeldið muni hafa í för með sér aukna umferð og hættu á mengun, sérstaklega í Álftafirði og Skötufirði.  Gert sé ráð fyrir að byggja fóðurstöð í landi Skarðs og ljóst sé að stórkostleg fiskeldisstarfsemi þar muni gjörbreyta umhverfi eigenda frístundahúsa og náttúruunnenda á svæðinu.

Af hálfu Landssambands veiðifélaga er því haldið fram að umfjöllun Skipulagsstofnunar um möguleg áhrif laxeldis á þau miklu verðmæti sem felist í þeim veiðiám sem falli til sjávar við Ísafjarðardjúp sé með öllu ófullnægjandi.  Sá lax sem notaður sé í eldi hér við land sé af norskum uppruna og geti blöndun hans við íslenska laxastofna haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.  Ámælisvert sé að ekki hafi verið leitað álits Veiðimálastofnunar í málinu.  Þá séu þær meðaltalstölur um veiði allt aftur til ársins 1974, sem stuðst hafi verið við, ekki raunhæfar þar sem veiði í umræddum ám hafi aukist mjög hin síðari ár og hefði meðaltal síðustu 10 ára því gefið réttari mynd.  Þá sé það fráleit hugmynd að unnt sé að flokka burt eldislax úr ánum þegar eldisfiskur leiti í þær til hrygningar.

Í kæru Sigurbjargar ehf. kemur fram að mörgum spurningum sé ósvarað varðandi áhrif sjókvíaeldis á rækjustofn í Ísafjarðardjúpi og að nauðsynlegt sé að kanna áhrif eldisins til hlítar með því að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum.  Atvinnuréttindi rækjusjómanna við Ísafjarðardjúp séu stjórnarskrárvarin en við blasi að fyrirhugað eldi muni skerða mikilvæg togsvæði rækjuveiða.

Af hálfu Ferðamálasamtaka Vestfjarða er tekið fram að ásýnd Ísafjarðardjúps muni breytast við tilkomu fyrirhugaðs fiskeldis.  Á skorti að gerð hafi verið heildstæð nýtingaráætlun fyrir umrætt svæði.  Hafi ferðaþjónustuaðilar áhyggjur af stærð og dreifingu kvíaþyrpinga og telji þeir að þær muni hamla siglingum á svæðinu og aðgengi að náttúrunni.  Þá muni eldið valda truflunum á friðlýstum svæðum.

Málsrök Skipulagsstofnunar:  Skipulagsstofnun bendir á að ákvörðun sú frá 15. maí 2006 sem kærendur vísi til hafi varðað breytingu á framkvæmd sem áður hafi verið til umfjöllunar hjá stofnuninni og tilkynningarskyld samkvæmt 6. gr. og lið 13 a í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Eðli málsins samkvæmt þurfi framkvæmdaraðili í slíkum tilfellum að lýsa í hverju breytingin felist með hliðsjón af upprunalegri framkvæmd og fjalla um hver möguleg umhverfisáhrif verði af breyttri framkvæmd. Skipulagsstofnun líti svo á að í hverju tilfelli eigi að meta mestu mögulegu áhrif framkvæmdar, sem í tilviki HG feli í sér 7.000 tonna framleiðslu af eldisfiski í Ísafjarðardjúpi. Fyrir liggi það mat að burðargeta hafsvæðisins sé fullnægjandi fyrir svo stórt eldi og telji Skipulagsstofnun að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs eldis HG í sjókvíum kunni helst að vera blöndun erfðaefnis milli eldisfisks af norskum uppruna og villtra laxa í veiðiám í Ísafjarðardjúpi.  Skipulagsstofnun gangi út frá því að blandað eldi þorsks, lax og regnbogasilungs, samanlagt allt að 7.000 tonn, feli í sér minni umhverfisáhrif, með tilliti til áhrifa af laxi sem geti sloppið úr eldi, en ef eingöngu væri framleitt samsvarandi magn af laxi.

Varðandi þá málsástæðu kærenda að ekki sé gert ráð fyrir því að mótvægisaðgerðir eða skilyrði um mótvægisaðgerðir séu sérstaklega til umfjöllunar í tilkynningu um framkvæmd, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum, og að Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir valdheimildir sínar með því að setja slík skilyrði í hinni umdeildu matsskylduákvörðun, taki Skipulagsstofnun fram að ekki sé heimilt samkvæmt lögum að setja skilyrði fyrir umræddri starfsemi þegar um sé að ræða matsskylduákvörðun. Einungis hafi verið um að ræða faglega ábendingu til framkvæmdaraðila og leyfisveitenda, sem stofnunin telji stuðla að því að árangur málsmeðferðar skili sér áfram til næsta stjórnsýslustigs, þegar sótt sé t.d. um starfsleyfi og rekstrarleyfi. Skipulagsstofnun hafi einungis tekið undir faglegar ábendingar umsagnaraðila um mótvægisaðgerðir í ákvörðun sinni. Í úrskurði umhverfisráðuneytisins, dags. 16. nóvember 2009, hafi ráðuneytið fjallað um ábendingar sem Skipulagsstofnun hafi komið á framfæri í matsskylduákvörðun og segi ráðneytið að það sé rétt af Skipulagsstofnun að veita leyfishöfum og framkvæmdaraðila þær faglegu ábendingar sem eigi við hverju sinni, þegar hún taki ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.  Skipulagsstofnun telji sig því ekki hafa farið út fyrir valdheimildir sínar með því að koma með þær ábendingar sem komi fram í ákvörðun um matsskyldu á 7.000 tonna eldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.

Kærendur bendi á að Skipulagsstofnun telji að áhrif á umhverfið verði afturkræf og það muni jafna sig með tíð og tíma ef fiskeldið verði lagt af og mannvirki fjarlægð. Telji þeir að þetta sé þröng skilgreining á umhverfi og ekki sé tekið tillit til nytja innfjarðarrækju og annarra stofna í Djúpinu og meðfylgjandi atvinnustarfsemi. Ef rækjuveiðar dragist saman vegna fiskeldisins geti áhrifin á atvinnustarfsemi í greininni og afleidd áhrif á samfélagið orðið óafturkræf, jafnvel þótt rækjustofninn myndi ná sér á strik seinna meir.  Varðandi þessi sjónarmið bendi Skipulagsstofnun á að í umsögn sinni hafi Hafrannsóknastofnun talið að fyrirhugað eldi þurfi að taka tillit til þess að starfsemin muni skerða aðgang stofnunarinnar að togsvæðum sem notuð séu til rækjurannsókna.  Einnig að veiðar á nytjastofnum myndu að einhverju leyti skerðast á þeim svæðum sem eldið fari fram.  Við meðferð málsins hafi niðurstaðan orðið sú að samráð yrði milli HG og Hafrannsóknastofnunar um endanlega staðsetningu kvíaþyrpinga.  Skipulagsstofnun gangi út frá því að hagsmunir rannsókna á auðlindinni og nýtingar hennar fari saman og að samráð um endanlega staðsetningu eldisins á hverjum stað í Djúpinu muni draga úr áhrifum þess á veiðar, þannig að líklegt sé að neikvæð áhrif eldisins á veiðar verði a.m.k. ekki umtalsverð. Því telji Skipulagsstofnun litlar líkur á að fiskeldið leiði til minni rækjuveiði þannig að það hafi varanleg neikvæð samfélagsleg áhrif.

Skipulagsstofnun tekur undir að í ákvörðuninni hefði mátt skýra betur stærð áhrifasvæðis fyrirhugaðs eldis. Stærð áhrifasvæða fyrirhugaðs eldis í hverjum firði fyrir sig muni verða 96 til 210 ha og þekja minnst um 3% af flatarmáli fjarðar og mest 17%.  Skipulagsstofnun telji að áhrifasvæði eldisins muni ná til hlutfallslega lítils svæðis í hverjum firði. Stofnunin bendi á að HG hafi í allmörg ár rekið eldi í sjókvíum í Álftafirði og Seyðisfirði og því ætti að vera komin reynsla á slíka starfsemi, m.a. með hliðsjón af siglingum og sjónmengun.

Varðandi athugasemdir um önnur sjónarmið telji Skipulagsstofnun að í ákvörðuninni sé fjallað á fullnægjandi hátt um áhrif eldisins á laxfiska og lífríki, enda telji stofnunin að þar liggi helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun bendi á að auk þess að leita umsagna hjá venjubundnum umsagnaraðilum (leyfisveitendur og sérfræðistofnanir) hafi stofnunin einnig leitað umsagnar Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þá hafi stofnunin sent greinargerð HG til Landssambands veiðifélaga meðan á meðferð málsins hafi staðið. Skipulagsstofnun hafi því lagt sig fram um að laða fram ólík sjónarmið eins og mögulegt sé, sbr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Leitað hafi verið umsagnar Siglingastofnunar Íslands, sem ekki hafi gert athugasemdir varðandi takmarkanir á siglingum vegna fyrirhugaðs eldis.  Bent sé á að samkvæmt reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi þurfi Fiskistofa að leita umsagnar Siglingastofnunar Íslands áður en rekstrarleyfi fyrir eldi í sjókvíum sé veitt og við meðferð umsóknar skuli kannað hvort staðsetning fljótandi mannvirkja á sjó trufli siglingar eða valdi siglingahættu. Einnig skuli tilkynna hnitsetningar ankera og tóga fiskeldisstöðva til Siglingastofnunar Íslands og Landhelgisgæslu Íslands, svo og ef fljótandi mannvirki sé fært til innan eldissvæðis.  Skipulagsstofnun bendi einnig á að í ákvörðun um þorskeldi í Skutulsfirði, sem umhverfisráðuneytið hafi úrskurðað um og kærendur vísi til, hafi stofnunin talið að möguleikar framkvæmdaraðila til að færa til kvíar, m.a. til að draga úr neikvæðum áhrifum á botndýralíf, væru takmarkaðir þar sem m.a. þyrfti að taka tillit til siglinga til og frá höfninni á Ísafirði.  Að því leyti sé ekki um sambærileg mál að ræða.

Skipulagsstofnun telji að til að unnt sé að meta sammögnunaráhrif fyrirhugaðrar starfsemi HG með öðru eldi í sjókvíum á sama svæði þurfi það að vera fastmótað og útfært, þ.m.t. að hafa rekstrarleyfi.  Fyrir liggi að tvö rekstrarleyfi hafi verið veitt til fiskeldis í Skutulsfirði og HG hafi slík leyfi í Álftafirði og Seyðisfirði. Við ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tekið tillit til starfsemi HG í Álftafirði og Seyðisfirði en ekki hafi verið taldar forsendur til að meta sammögnun áhrifa starfsemi HG með öðrum sambærilegum framkvæmdum í innanverðu Ísafjarðardjúpi, sem ekki hafi rekstrarleyfi.

Um málsástæður kærenda er lúti að nýtingu náttúruauðlinda, s.s. botnfisk-, skelfisk- og rækjuveiðum og nýtingu opins hafsvæðis til ferðaþjónustu og siglinga, vísi Skipulagsstofnun í umfjöllun í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar þar sem fjallað sé  um umsögn Ísafjarðarbæjar um að ekki liggi fyrir nýtingaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp og kallað sé eftir stefnumörkun varðandi nýtingu strandsvæða utan netlaga.

Með hliðsjón af gögnum málsins telji Skipulagsstofnun ólíklegt að neikvæð áhrif á ferðaþjónustu verði umtalsverð og eldið beri því ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum af þeim sökum.  Ef áætlun komi fram um frekari uppbyggingu fiskeldis á svæðinu, stærra en 200 tonna framleiðslu, beri að tilkynna það stofnuninni og hún muni þá taka ákvörðun um matsskyldu, væntanlega m.a. út frá samlegðaráhrifum með eldi HG, að því gefnu að fyrirhugað eldi félagsins fari í rekstur.  Eins og áður segi hafi verið veitt starfsleyfi fyrir eldi, undir 200 tonnum, á nokkrum stöðum í Ísafjarðardjúpi, en í innanverðu Djúpinu hafi einungis einn aðili jafnframt fengið leyfi til reksturs, þ.e. HG.  Því sé ekki um það að ræða að aðrir aðilar stundi þar eldi og Skipulagsstofnun telji eðlilegt að starfsemi þurfi að vera fastmótuð og útfærð til þess að hægt sé að taka tillit til hennar við ákvörðun um matsskyldu.  Áætluð burðargeta upp á 13.000 tonn (mat skv. viðmiðum í LENKA) gefi til kynna að mögulega megi framleiða nærri tvöfalt það magn sem HG ætli að gera og því telji Skipulagsstofnun að ekki sé um að ræða umtalsverða ráðstöfun á takmarkaðri auðlind. Þess utan telji Skipulagsstofnun að LENKA viðtakamat sé varfærið mat á burðargetu.

Varðandi málsástæður kærenda er lúti að ónæði telji Skipulagsstofnun að kærendur verði að rökstyðja hvað felist í ónæði vegna stórkostlegrar fiskeldisstarfsemi í nágrenni sumarbústaða og útivistarsvæða og í hverju ónæði ætti að felast fyrir Súðvíkinga.  Stofnunin bendi á að tillaga sveitarfélaga um að fyrirhugað eldi ætti að vera matsskylt hafi fyrst og fremst varðað hagsmuni sem snúi að veiðum og laxveiðiám í Ísafjarðardjúpi, en hvergi vikið beint að hagsmunum sumarbústaðaeigenda né útivistarfólks.  Þá sé á það bent að ef byggð verði fóðurstöð í landi Skarðs þurfi sú framkvæmd að vera í samráði við landeigendur og leyfisveitendur.  Einnig sé á það bent á að bygging fóðurstöðvar sé bundin ákvæðum skipulagslaga, þar sem almenningi sé tryggð aðkoma.

Í kæru Landssambands veiðifélaga sé fullyrt að hvergi í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að framkvæmdaraðili muni nota laxastofn af norskum uppruna.  Vegna þessa sé á það bent að á nokkrum stöðum í ákvörðuninni komi þessi staðreynd fram. T.d. komi fram í kafla um fyrirhugaða framkvæmd að notaður verði eldislax af norskum uppruna. Þá komi þar og fram að stofnunin telji að neikvæð áhrif fyrirhugaðs laxeldis kunni helst að vera blöndun erfðaefnis milli eldisfisks af norskum uppruna og villtra laxa í veiðiám í Ísafjarðardjúpi. Hafi stofnunin lagt til að hluti af  þeim laxi sem settur verði í kvíar skuli örmerktur til að hægt verði að rekja uppruna hans, ef hann sleppi og leiti í ár og komi þar fram.

Í kæru Sigurbjargar ehf. komi fram að mörgum spurningum sé ósvarað varðandi áhrif sjókvíaeldis á rækjustofn í Ísafjarðardjúpi og að nauðsynlegt sé að kanna áhrif eldisins til hlítar með mati á umhverfisáhrifum. Nefndur kærandi varpi fram nokkrum spurningum sem m.a. þurfi að svara áður en svo umfangsmikið sjókvíaeldi hefjist.  Skipulagsstofnun telji líklegt að svör við spurningunum muni ekki fást þó framkvæmdin sæti mati á umhverfisáhrifum. Fullvíst megi telja að ómögulegt væri að svara því hvort slysasleppingar muni hafa áhrif á rækjustofninn í Ísafjarðardjúpi. Hins vegar megi telja líklegt að vel útfærð áætlun um vöktun, sem m.a. taki tillit til hvort fóðrun eldisfisks auki fiskgengd á eldissvæðum, geti gefið niðurstöður sem nýta megi til ákvörðunar um frekari uppbyggingu eldisins.

Við kæru Ferðamálasamtaka Vestfjarða sjái Skipulagsstofnun ekki ástæðu til að gera athugasemdir.

Andmæli Hraðfrystihússins Gunnvarar hf:  Af hálfu HG er tekið fram að félagið hafi stundað sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi í meira en 10 ár.  Hafi félagið þar af leiðandi umtalsverða reynslu af því umhverfi sem hér um ræði og hafi kostað ýmsar rannsóknir tengdar fiskeldi á svæðinu.  Að áliti HG hafi það þó haft takmarkandi áhrif, bæði fyrir fiskeldi HG og aðra starfsemi við Ísafjarðardjúp, að hvorki sé til nýtingaráætlun fyrir svæðið né heldur hafi þar verið gerðar heildstæðar umhverfisrannsóknir.

Ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum sé afar íþyngjandi, bæði vegna þess kostnaðar sem af slíkri ákvörðun hljótist og einnig vegna þess tíma sem fari í það mat.  Í því tilviki sem hér um ræði megi halda því fram að menn yrðu litlu nær um það hver áhrif framkvæmdin hefði þótt mat á umhverfisáhrifum færi fram.  Ekki sé eðlilegt að leggja á framkvæmdaraðila að annast um skipulag á stórum hafsvæðum eins og sumir kærenda virðist ætlast til.

Af fenginni reynslu verði að telja að það laga- og regluumhverfi sem fiskeldi búi við skapi veruleg vandamál bæði fyrir greinina og stjórnsýsluna. Málefni fiskeldis eigi undir heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Fiskistofu, en af því leiði að um þau sé sýslað í tveimur ráðuneytum, þ.e. umhverfisráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Ýmis atriði í framangreindu regluverki séu til þess fallin að sá aðili er hyggi á fiskeldi eigi erfitt með að meta stöðu sína, s.s. möguleika til að afla nauðsynlegra leyfa til starfseminnar, kostnað sem hann þurfi að standa straum af til að fá leyfi og þann tíma sem það geti tekið frá því að tilkynning um starfsemi liggi fyrir þar til leyfi fáist.  Þetta helgist að hluta til af því að þær kröfur sem gildandi lög og reglugerðir geri séu að einhverju leyti byggðar á óljósum og lítt skilgreindum hugtökum.  Jafnvel sé vísað til atriða sem í raun sé ekki hönd á festandi og auðvelt sé að deila um, s.s. „besta fáanlega tækni“. Þá sé óþénugt að þegar meta eigi hvort framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum skuli ekki liggja fyrir þau skilyrði starfsleyfa sem um starfsemina eigi að gilda eða hvaða viðbrögð skuli viðhafa við aðstæður sem upp kunni að koma.

Fjórar kærur liggi fyrir í málinu og verði hverri kæru svarað fyrir sig.

HG telji ranga þá fullyrðingu kærenda í kæru ÍS 47 ehf., Bjarna ehf. og Kampa ehf. að fyrir liggi „stjórnsýsluvenja“ um að hlutföll eldistegunda séu tilgreind og til umfjöllunar í ákvörðun um matsskyldu.  Einnig sé gerð athugasemd við þá skoðun téðra kærenda að fyrirhugaðar framkvæmdir séu ekki fullmótaðar, en eins og sjá megi í tilkynningu HG byggist áætlanir félagsins annars vegar á núverandi aðstæðum og starfsemi HG en hins vegar á framtíðaráformum sem miðuð séu við tilteknar forsendur.

Því sé mótmælt að ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi verið tekin í því skyni að „taka frá svæði til fiskeldis“.  Málsmeðferð stofnunarinnar ráði því ekki hvort leyfi fáist fyrir framkvæmd eða ekki, enda eigi leyfisveitingar fyrir fiskeldi ekki undir hana.

Kærendur telji að eldissvæði HG í Ísafjarðardjúpi sé vantalið. Því sé til að svara að nefnt eldissvæði hafi verið reiknað út á grundvelli þeirra reglugerða sem gilt hafi í nóvember 2011, þ.e. þegar tilkynningin hafi verið gerð.

Eins og fram komi í tilkynningu HG verði einstök svæði hvíld í eitt ár á milli eldiskynslóða.  Á þeim hvíldartíma sé gert ráð fyrir að náttúrulegt niðurbrot úrgangs muni sjá um að eyða  hugsanlegri uppsöfnun undir kvíum.  Strangar kröfur séu gerðar um uppsöfnun úrgangs undir sjókvíum en þær séu skilgreindar í starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefi út.

Við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun hafi Hafrannsóknastofnun gert  athugasemdir við staðsetningu eldissvæða í nálægð við togsvæði stofnunarinnar.  Komið hafi verið til móts við þessar athugasemdir og eigi ummæli kærenda varðandi truflun við nefndar togstöðvar því ekki við.

Kærendur telji að lítið sé gert úr hagsmunum þeirra sem stundi rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi en því hafni HG. Tilkynning um fyrirhugaðar framkvæmdir hafi verið unnin sumarið 2011 og sé þar miðað við stöðu rækjuveiða á þeim tíma.  Síðar hafi verið heimilaðar takmarkaðar rækjuveiðar á svæðinu.  Að mati HG sé sú fullyrðing kærenda að sjókvíaeldi muni auka fiskgengd í Djúpinu, með neikvæðum áhrifum á stofn innfjarðarrækju, all langsótt og að auki ósönnuð, enda nefni kærendur engar rannsóknir eða mælingar máli sínu til stuðnings.

Fullyrðingar kærenda er varði skilgreiningu á hugtakinu þröskuldsfjörður hafi byggst á misskilningi og hafi því ekki verið um að ræða neitt álitamál. Þá hafi straummælingar farið fram á öllum fyrirhuguðum eldisstöðum utan einum, en gerðar verði heilsársmælingar áður en ákvörðun verði tekin um gerð og styrk kvía og annars búnaðar áður en eldi hefjist á viðkomandi svæði.

Mótmælt sé athugasemdum kærenda er lúti að áhrifum eldisins á stofn innfjarðarrækju og á rækjuveiðar, svo og á stöðu ferðaþjónustu á svæðinu. Jafnframt sé mótmælt þeim fullyrðingum kærenda að mótvægisaðgerðir HG byggi á hæpnum forsendum þar sem ekki sé ljóst hvaða eldistegundir muni verða í kvíum. Skýrt komi fram í tilkynningunni að HG fyrirhugi að hafa þorsk og lax/regnbogasilung í kvíum. Einnig sé gerð grein fyrir hugsanlegum umhverfisáhrifum viðkomandi eldistegunda, bæði í tilkynningu og í svörum HG við fyrirspurnum Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar meðan á málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi staðið. Mikil áhersla sé lögð á að þær mótvægisaðgerðir sem viðhafa þurfi séu í langflestum tilvikum þær sömu óháð tegund. HG byggi fyrirætlanir sínar um mótvægisaðgerðir á því sem best hafi gefist erlendis og reynt sé að draga lærdóm af áratuga reynslu nágrannalanda, sérstaklega Noregs.

Mótmælt sé þeirri staðhæfingu kærenda að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé tekin á röngum eða gölluðum forsendum þar sem einhverjar upplýsingar úr tilkynningu HG séu teknar upp í forsendukafla ákvörðunarinnar. Í 3. viðauka laga nr. 106/2000 séu ítarlega tilgreind þau atriði sem Skipulagsstofnun beri að hafa til viðmiðunar þegar metið sé hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki. Þessi atriði varði m.a. stærð og eðli framkvæmdar. Ljóst sé að við ákvörðun sína hafi Skipulagsstofnun þurft að leggja mat á upplýsingar sem fram hafi komið í tilkynningu HG ásamt þeim breytingum sem gerðar hafi verið meðan á málsmeðferð hafi staðið.  Með þessu verklagi hafi stofnunin sinnt skyldum sínum skv. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur geri síðan að umtalsefni það álit Skipulagsstofnunar að þar sem grunnþekkingu á þessu sviði skorti, geti mat á umhverfisáhrifum einnar framkvæmdar ekki dregið úr þessari óvissu. Hér horfi kærendur algerlega fram hjá tveimur lykilatriðum. Annars vegar því að tilgangurinn með umhverfismati sé ekki að koma í veg fyrir framkvæmd heldur sá að meta eftir því sem kostur er þau áhrif sem framkvæmd hafi á umhverfið. Hér verði vitaskuld að horfa á það umhverfi sem um ræði hverju sinni. Í tilviki HG megi segja að umhverfið sé Ísafjarðardjúp sem sé mjög stórt og víðfeðmt svæði. Hins vegar liggi fyrir að ekki hafi verið gerðar vistfræðilegar rannsóknir á Djúpinu í heild sinni. Augljóst sé að ekki sé unnt að lögum að leggja á einn einkaréttarlegan aðila að gera slíkar rannsóknir.  Að mati HG hafi umhverfismat við þessar aðstæður litla sem enga þýðingu eins og Skipulagsstofnun nefni í ákvörðun sinni. Mikilvægt sé einnig að fram komi að ef Skipulagsstofnun færi fram með þeim hætti sem kærendur virðist leggja til myndi það leiða til þess að engin ný starfsemi yrði við djúpið á meðan nefndar rannsóknir yrðu gerðar. Í þessu ljósi megi sjá að með ákvörðun sinni um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati fari Skipulagsstofnun að jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þar sem sú framkvæmd sem hér sé til meðferðar fái sömu afgreiðslu og aðrar framkvæmdir í Djúpinu hafi fengið.

Mótmælt sé þeirri staðhæfingu kærenda að niðurstaða Skipulagsstofnunar virðist í ósamræmi við mat stofnunarinnar og í andstöðu við 6. gr. laga nr. 106/2000.  Í 4. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna segi að við ákvörðun um matsskyldu skuli Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin. Ekki verði annað séð af ákvörðuninni en að ákvæðum þessarar greinar hafi að öllu leyti verið fylgt.

Ekki verði á það fallist að Skipulagsstofnun hafi skilyrt ákvörðun sína því að þær mótvægisaðgerðir sem HG hyggist gera nái fram að ganga. Ljóst sé að þær mótvægisaðgerðir séu hluti af framkvæmdinni í heild og það sé því beinlínis skylda stofnunarinnar að leggja á þær mat. Megi segja að Skipulagsstofnun framfylgi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með umfjöllun sinni um mótvægisaðgerðir.

Kærendur halda því fram að tólf önnur eldissvæði hafi leyfi í Ísafjarðardjúpi. Þeir telji  Skipulagsstofnun ekki fjalla um stærð áhrifasvæða þessara eldisframkvæmda, heldur einungis umfang í tonnum.  Þessi ummæli krefjist skýringa. Fyrir utan HG í Álftafirði og Seyðisfirði hafi  aðeins verið gefin út rekstrarleyfi til fiskeldis í Skutulsfirði.  Aðrir aðilar séu eingöngu með starfsleyfi í Skutulsfirði og innan við Æðey. Þó orðið starfsleyfi gefi e.t.v. til kynna að um sé að ræða leyfi til fiskeldis sé sú ekki raunin. Áður en heimilt sé að hefja fiskeldi þurfi rekstrarleyfi sem Fiskistofa gefi út. Meðal annars vegna ákvæða um fjarlægðamörk í reglugerð nr. 401/2012 sé ekki heimilt að veita mörgum aðilum heimild til fiskeldis á sama svæði.  Það liggi því fyrir að enga þýðingu hefði fyrir Skipulagsstofnun að fjalla um tilkynningu HG miðað við að ofangreind tólf svæði í Ísafjarðardjúpi verði eldissvæði fiskjar þar sem ekki væri heimilt að veita þeim öllum rekstrarleyfi að óbreyttum lögum.

Þá sé það villandi að leggja ríka áherslu á að mat á umhverfisáhrifum sé nauðsynlegt vegna aðkomu hagsmunaaðilanna, enda eigi þeir aðkomu að undirbúningi leyfisveitinga á síðari stigum.

Ekki verði séð að skilgreining hugtaksins umtalsverð umhverfisáhrif byggi á fjárhagslegum mælikvarða, sbr. o-lið, 1. mgr. 3. gr. laga nr. 106/2000, og fái því ekki staðist sú fullyrðing kærenda að lítils háttar samdráttur í atvinnugrein sem velti háum fjárhæðum feli í sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Að því er varði umfjöllun um meint ónæði í kæru sé rétt að fram komi að HG hafi tekið þá ákvörðun að vera ekki með fóðrunarstöð í Skötufirði, m.a. til að koma í veg fyrir varanlegt jarðrask. Hugsanleg umhverfisáhrif sjókvíaeldis séu talin afturkræf eins og áður hafi komið fram. Þegar starfsemi verði hætt á svæðinu verði búnaðurinn fjarlægður og festingar teknar upp. Á meðan á starfsemi standi muni fóðurprammar vera vel sýnilegir úr fjarlægð og einnig eldiskvíar þegar nær dragi.

Vegna þess sem fram komi í kæru Landssambands veiðifélaga sé bent á að í tilkynningu HG um fyrirhugað eldi sé að finna línurit um veiði í laxveiðiám á árunum 1974 til 2010. Megi þar sjá breytingar á veiði síðustu áratugi.  Að mati HG beri að taka tillit til þeirrar auðlindar sem felist í laxveiðiám sem falli í Ísafjarðardjúp við uppbyggingu annarra atvinnugreina þar.  Varðandi hugmyndir um flokkun á eldislaxi úr ánum þegar hann leiti í þær til hrygningar þá sé þar átt við Laugardalsá, sem sé með laxastiga neðarlega í ánni.  Þar sé hægt að koma fyrir gildru til að fanga laxinn. Flokkun á eldislaxi við laxastiga muni valda einhverju raski og verði ekki framkvæmd nema með vilja og undir stjórn veiðiréttareigenda. Markmið HG með því að benda á þennan möguleika hafi verið að kynna leið til að minnka hættu á, eða koma í veg fyrir, að eldislax komist upp í Laugardalsá.  Rétt sé að taka fram að eldissvæði félagsins séu meira en 5 km frá laxveiðiám sem séu með minna en 500 laxa veiði sl. 10 ár, eins og áskilið sé.  Hvað álit Veiðimálastofnunar varði sé það mat HG að margir starfsmenn Veiðimálastofnunar hafi fjárhagsleg tengsl við veiðifélögin þar sem þeir hafi unnið að verkefnum fyrir þau. Verði að meta umsögn þeirrar stofnunar í því ljósi.

Vegna kæru Sigurbjargar hf. skuli áréttað að með fyrirbyggjandi aðgerðum verði komið í veg fyrir að fyrirhugað sjókvíaeldi félagsins hafi neikvæð áhrif á rækjustofninn.   Eins og fram komi í tilkynningu hyggist félagið vinna eftir staðlinum NS 9415 en hann eigi að tryggja að þær kvíar sem notaðar séu í Ísafjarðardjúpi standist umhverfisaðstæður þar.

Vegna kæru Ferðamálasamtaka Vestfjarða skuli tekið fram að erfitt sé að sýna fram á að fyrirhugað sjókvíaeldi hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu eða ímynd þess.  Þá sé unnt að færa kvíar til komi í ljós að staðsetning þeirra sé óheppileg með tilliti til hagsmuna ferðaþjónustunnar.

– – – – – – – – – – – – – –  –

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við meðferð þess.

Niðurstaða:  Samkvæmt 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda sem falla undir 2. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.   Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu við úrlausn málsins á lægra stjórnsýslustigi en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu.  Hagar úrskurðarnefndin meðferð máls í samræmi við þetta og aflar því ekki nýrra gagna að öðru leyti en því að leitað er afstöðu lægra setts stjórnvalds og aðila máls til kæru og þeim jafnframt gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu.  Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrætt fyrirhugað fiskeldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna og eiga þau m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar, en jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Í 2. viðauka við lögin eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum.  Er þar á meðal talið þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar, sbr. lið 1 g.  Fellur fyrirhugað 7.000 tonna sjókvíaeldi HG í Ísafjarðardjúpi undir ákvæðið og tilkynnti félagið áform sín til Skipulagsstofnunar í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.  Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar að umrætt 7.000 tonna sjókvíaeldi skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka ber Skipulagsstofnun að fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til við matið.  Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu.  Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar.

Ekki hefur verið unnin heildstæð nýtingaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp eða innri hluta þess þar sem fyrirhuguðum eldiskvíum er ætlaður staður.  Þá liggur ekki fyrir að unnin hafi verið skipting fiskeldissvæða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.  Kvíasvæðin eru utan netlaga og lúta því ekki skipulagsskyldu samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.  Við þessar aðstæður er alveg sérstök ástæða til að huga að mögulegum sammögnunaráhrifum fyrirhugaðs eldis með öðrum framkvæmdum á svæðinu, hvort sem um er að ræða fiskeldi eða aðra starfsemi.  Verður ekki fallist á að aðeins beri að horfa til áforma um fiskeldi sem séu fastmótuð og útfærð og hafi rekstrarleyfi heldur telur úrskurðarefndin að líta beri til annarra þekktra áforma um fiskeldi á svæðinu, sem eru sambærileg umdeildum áformum HG hvað það varðar að fyrir þeim sé ekki rekstarleyfi.  Þá skal hér áréttað að viðmið 3. viðauka um sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum er ekki bundið við aðrar mats- eða tilkynningarskyldar framkvæmdir heldur ber að vega saman umhverfisáhrif allra þekktra framkvæmda á svæðinu og er þá meðtalið fiskeldi undir 200 tonna ársframleiðslu.  Er þessi niðurstaða sjálfstæð og óháð því að Skipulagsstofnun getur aðeins ákveðið sameiginlegt mat tengdra framkvæmda skv. 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, að því tilskyldu að þær séu báðar eða allar matsskyldar.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um þennan þátt málsins að skylt hafi verið að meta sammögnunaráhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis við aðrar þekktar framkvæmdir á umræddu svæði.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að Skipulagsstofnun telji að neikvæð áhrif fyrirhugaðs laxeldis HG í sjókvíum kunni helst að vera blöndun erfðaefnis milli eldisfisks af norskum uppruna og villtra laxa í veiðiám í Ísafjarðardjúpi. Þó fyrirhuguð eldissvæði verði í hæfilegri fjarlægð frá ánum miðað við ákvæði reglugerðar verði ekki fram hjá því horft að þó enn sé takmörkuð reynsla af sjókvíaeldi við Ísland sé dæmi um að eldisfiskur hafi sloppið úr eldi í umtalsverðu magni og vísbendingar um að kynþroska eldisfiskur hafi fundist í laxveiðiám.  Eðli málsins samkvæmt sé ekki komin reynsla og þekking á því hvort eldislax hrygni í ám landsins eða hvort erfðaefni hans blandist villtum erfðum og ef svo sé hvort og hvaða neikvæðu áhrif það kunni að hafa.  Telji stofnunin að í ljósi skorts á grunnþekkingu á þessum þáttum megi gera ráð fyrir að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum stakrar framkvæmdar yrði mikilli óvissu háð hvað þetta varði.  Úrskurðarnefndin telur að skortur á grunnþekkingu eins og hér er lýst eigi ekki að leiða til þeirrar niðurstöðu að framkvæmd teljist ekki matsskyld.  Er slík niðurstaða í andstöðu við reglur alþjóðlegs umhverfisréttar um varúðarnálgun og varúðarreglu sem nefndin telur að líta beri til, en til þeirra er vísað í alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að.  Hefur varúðarregla jafnframt verið sett í lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi, sbr. 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en þau öðlast þó ekki gildi fyrr en hinn 1. apríl 2014.  Kemur hér og til að Skipulagsstofnun getur því aðeins mælt fyrir um mótvægisaðgerðir sem áhrif hafa að lögum að fram fari mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar.  Er óumdeilt í málinu að Skipulagsstofnun er hvorki heimilt að setja skilyrði né mæla fyrir um mótvægisaðgerðir í matsskylduákvörðun og hafa ábendingar stofnunarinnar um slík efni enga lagalega þýðingu.

Í 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem koma eiga fram í tilkynningu um framkvæmd sem fellur undir 2. viðauka við lögin um mat á umhverfisáhrifum.  Segir þar m.a. að koma eigi fram upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd falli að gildandi skipulagsáætlunum.  Þótt fyrirhugaðar framkvæmdir séu að mestu utan skipulagsskyldra svæða ná áformin til fóðrunarstöðva á landi, sem getið er um í tilkynningunni, en ekkert liggur fyrir um að ráð sé fyrir þeim gert í gildandi skipulagi svæðisins.  Verður að telja að þessar upplýsingar hafi verið ófullnægjandi og bar Skipulagsstofnun að afla frekari upplýsinga um þennan þátt málsins.

Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið verður ekki fallist á að nægilega sé fram komið að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.  Þá var meðferð málsins við töku hinnar kærðu ákvörðunar haldin ágöllum eins og rakið hefur verið.  Verður því að hafna þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhugað 7.000 tonna sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi skuli undanþegið mati á umhverfisáhrifum og verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. apríl 2012 um að 7.000 tonna ársframleiðsla á eldisfiski í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Geir Oddsson

91/2012 Kaplaskjól

Með

Árið 2013, föstudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2012, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. október 2012 um breytingu á deiliskipulagi Kaplaskjóls í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2012, er barst nefndinni 26. s.m., kærir J, Víðimel 68, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. ágúst 2012 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kaplaskjóls.  Hin kærða ákvörðun var staðfest að nýju í borgarráði hinn 11. október 2012 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 28. nóvember 2012.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Málsgögn bárust frá Reykjavíkurborg 5. desember 2012.
 
Málsatvik:  Á árinu 2007 tók gildi deiliskipulag Kaplaskjóls er fól í sér að opnu grænu svæði norðan við húsið nr. 80 við Víðimel yrði breytt í fjórar lóðir og að parhúsin nr. 116 og 118 við Hringbraut og nr. 10 og 12 við Vesturvallagötu yrðu flutt á lóðirnar.  Aðkoma að lóðunum yrði frá Meistaravöllum um aðkomugötu, en um eins konar vistgötu yrði að ræða og ekki yrði gegnumakstri að Víðimel.  Einnig var gert ráð fyrir fjórum bílastæðum á lóðunum, einu fyrir hverja íbúð í parhúsunum.  Breyting var gerð á deiliskipulaginu á árinu 2010 og nefndum lóðum fækkað í tvær, með tveimur íbúðum á hvorri lóð.  Hinn 30. maí 2012 var á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa enn tillögu að breytingu umrædds deiliskipulags og samþykkti borgarráð þá tillögu 7. júní s.á.  Fól tillagan m.a. í sér að aðkomu að húsunum yrði breytt í þá veru að hún yrði um göngustíg milli Meistaravalla og Víðimels en ekki yrði ekið að húsunum.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 18. júní til 30. júlí 2012 og bárust m.a. athugasemdir frá kæranda, fyrir hönd 41 íbúa við Víðimel, og frá 38 íbúum við Meistarvelli 5 og 7.  Lutu athugasemdir einkum að því að aukinn skortur yrði á bílastæðum á svæðinu við breytta tilhögun. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 22. ágúst s.á. var tillagan tekin fyrir að nýju og hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 10. s.m. 2012.  Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 30. s.m.  Í framhaldi af því var skipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu, er taldi með bréfi, dags. 5. september s.á., skorta á að færður væri fram rökstuðningur fyrir greindri breytingu í greinargerð deiliskipulagsins.  Jafnframt var talið að í svörum við athugasemdum þyrfti að gera betur grein fyrir því af hverju breytingin myndi ekki hafa veruleg áhrif á bílastæðamál götunnar.  Var umsögn skipulagsstjóra breytt í kjölfar þessa  hinn 17. september 2012, og samþykkti skipulagráð breyttan uppdrátt að tillögunni ásamt breyttri umsögn skipulagsstjóra á fundi sínum hinn 1. október 2012.  Samþykkti borgarráð á fundi sínum 11. október 2012, samþykkt skipulagsráðs á afgreiðslu skipulagsstjóra vegna athugasemda við málsmeðferð við áður samþykkta deiliskiplagsbreytingu.  Var tillagan eftir það send Skipulagsstofnun til yfirferðar að nýju og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að skipulagsstjóri beri ábyrgð á framlagningu hinnar kærðu tillögu.  Hann hafi veitt umsögn um fram komnar athugasemdir, sem sé grundvöllur að afgreiðslu skipulagsyfirvalda í málinu. Umræddur skipulagsstjóri sé íbúi við Víðimel.  Hann hafi því óeðlilega aðkomu að málinu og sé samkvæmt stjórnsýslulögum vanhæfur til að veita umsögn um innkomnar athugasemdir.  Af þessari ástæðu beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Í gr. 6.2.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi að komi ekki fram krafa um ákveðna staðsetningu bílastæða eða stæða fyrir reiðhjól í skipulagi beri að hafa þau á sem öruggustu svæði innan lóðar og brjóti ákvörðun skipulagsyfirvalda augljóslega gegn greindu ákvæði.  Ætti það eitt og sér að valda ógildingu umræddrar ákvörðunar.

Hin kærða breyting sé einkum gerð vegna fjárhagslegra útgjalda bogarinnar við  færslu tveggja húsa.  Þótt skipulagsyfirvöld leggi áherslu á að minnka útgjöld við flutning húsanna sé ekki ásættanlegt að slíkt sé íþyngjandi fyrir eigendur nágrannalóða.

Aukin umferð um Víðimel muni verða í kjölfar breytinganna.  Vegna skorts á bílastæðum þurfi íbúar við götuna nú þegar að leggja bifreiðum beggja vegna hennar og að hluta upp á gangstéttum.  Þetta útiloki tvístefnuakstur í götunni, sem sé botngata, og valdi umferðarvanda nú þegar.  Sé með breytingunni aukið á þann vanda sem fyrir sé.  Auk þess sé augljóst óhagræði og óþægindi fyrir íbúa flutningshúsanna og gesti þeirra að akstursleið og bílastæði sé um aðra götu en þá sem húsin standi við.  Hafi kærandi vegna framangreindra þrengsla og skorts á bílastæðum þurft að taka hluta lóðar sinnar undir bílskúr og bílastæði með tilheyrandi kostnaði.  Með hinni kærðu breytingu séu áhrif þessarar aðgerðar að engu gerð og sé óviðunandi að borgaryfirvöld skuli benda íbúum annarra gatna á að leggja bifreiðum sínum við Víðimel.

Sérstaklega sé bent á að um 80 íbúar nærliggjandi húsa hafi undirritað mótmæli vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulaginu.  Sé því um að ræða mjög víðtæka óánægju fólks sem málið snerti beint.  Svör skipulagsyfirvalda við athugasemdum séu efnislega rýr og byggi hvorki á faglegum né rökum eða rannsóknum.  Þá hafi raunverulegu samráði við íbúa á svæðinu verið ábótavant.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. 

Rétt sé að þáverandi skipulagsstjóri sé búsettur í nágrenni við umræddan reit en því sé harðlega mótmælt að honum hafi borið að víkja sæti í máli þessu.  Sé vísað til ákvæða 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er kveði á um vanhæfi starfsmanns, en jafnframt sé vísað til 2. mgr. sömu lagagreinar sem segi að eigi sé um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir sem málið snúist um séu það smávægilegir, eðli málsins með þeim hætti eða þáttur starfsmanns í meðferð málsins það lítilfjörlegur að ekki sé talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun.  Umræddur embættismaður hafi ekki notfært sér aðstöðu sína til að standa í vegi fyrir fyrirhuguðum breytingum og því fráleitt að saka hann um að hafa brotið hæfisreglur stjórnsýslulaga.  Hafi það enda verið skipulagsráð sem tekið hafi lokaákvörðun í málinu en ekki skipulagsstjóri.

Vegna athugasemda kæranda um 2. mgr. gr. 6.2.5 í byggingarreglugerð sé bent á að í upphafi tilvitnaðs ákvæðis segi að stæði fyrir bíla skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags.  Deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir að bílum sem tengist umræddum flutningshúsum verði lagt við nærliggjandi götur.  Hafi Skipulagsstofnun engar athugasemdir gert við þetta fyrirkomulag.

Vissulega sé rétt að Reykjavíkurborg sé að spara sér að leggja sérstaka götu að þeim húsum sem um ræði.  Spyrja megi hvort réttlætanlegt sé að leggja þær byrðar á skattgreiðendur að leggja sérstaka götu til að þjóna svo fáum íbúum þegar hinir sömu geti auðveldlega komist að húsum sínum með því að ganga stutta vegalengd.  Séu „íþyngjandi“ áhrif fyrir nágranna vegna þessa óveruleg.

Telja verði að breytingin muni ekki hafa áhrif á bílastæðamál og umferð um Víðimel svo neinu nemi.  Víðimelur sé lokaður fyrir bílaumferð að vestan og sé því ekki um gegnumumferð að ræða þar.  Við flest húsin séu bílgeymslur og bílastæði séu fyrir framan þær.  Götunni hafi verð breytti í botngötu fyrir allmörgum árum en hluti hennar hafi áður verið Kaplaskjólsvegur.  Þar hafi verið gerð bílastæði og sé því bílastæðaálag á Víðimel, einkum í vesturenda götunnar, talsvert mina en í öðrum götum í hverfinu.  Þar af leiði að gatan þoli að við hana bætist fjórar íbúðir með þeirri umferð sem þeim fylgi.  Ekki sé ráðgert að hverri íbúð fylgi að jafnaði fleiri en ein bifreið þar sem húsin séu vel staðsett, bæði hvað varði samgöngur með almenningsvögnum og nálægð við miðborgina, verslanir og Háskóla Íslands.

Umrædd hús muni standa við Meistaravelli og tilheyra þeirri götu og ekki sé brýn þörf á að íbúar húsanna hafi aðgang að bílastæðum út við Hringbraut.  Þar að auki sé ekki hægt að koma þar við bílastæðum, eins og aðstæðum sé háttað, vegna beygjuakreina á Hringbraut, gegnt þessum lóðum.

Loks sé því mótmælt að svör skipulagsyfirvalda hafi verið óskýr.  Umsögn skipulagsstjóra hafi verið leiðrétt og bætt og sé fram komnum athugasemdum svarað með rökstuddum hætti. 

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á með kæranda að skipulagsstjóri Reykjavíkur hafi verið vanhæfur við meðferð umdeildrar skipulagtillögu, enda verður ekki talið að draga hafi mátt óhlutdrægni  hans í efa þótt fyrir liggi að hann hafi búið í námunda við svæði það sem umdeild skipulagsbreyting tekur til.  Verður hin kærða ákvörðun borgarráðs því ekki ógilt af ástæðum er varða hæfi skipulagsstjóra til aðkomu að málinu.

Í kæru er vísað til þess að ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir bílastæðum og umferð í hinni umdeildu skipulagbreytingu. Í 7. mgr. gr. 3.1.4 tilvitnaðrar skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, sem við á í málinu, segir að ákvæði um fjölda bílastæða skuli sett hverju sinni í deiliskipulagi á grundvelli stefnu aðalskipulags.  Eru í ákvæðinu settar fram kröfur um lámarksfjölda bílastæða miðað við stærð og notkun mannvirkja, en unnt er að víkja frá þessum kröfum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Fyrir liggur að framangreindum kröfum reglugerðarinnar um fjölda bílastæða innan lóðar er ekki fullnægt í hinni kærðu ákvörðun.  Í skipulagstillögunni segir það eitt að gert sé ráð fyrir að bílum verði lagt í nærliggjandi götum og eru tilgreind dæmi um svipaða fjarlægð að inngöngum húsa annars staðar í borginni.  Þrátt fyrir þetta verður hvorki talið að í tillögunni hafi með fullnægjandi hætti verið sýnt fram á að leysa megi bílastæðaþörf með öðrum hætti en með stæðum innan lóða né að þörf fyrir bílastæði sé minni en áskilið er í tilvitnuðu ákvæði.  Þá er misræmi milli bókana skipulagsráðs og skipulagsfulltrúa í málinu og texta hinnar kærðu tillögu um það hvernig nýta eigi nýjar lóðir á svæðinu fyrir flutningshús varðandi fjölda húsa og um hvaða hús er að ræða og eru rangfærslur um það efni jafnframt í svörum borgaryfirvalda, dags. 10. ágúst, breytt 17. september s.á, við fram komnum athugasemdum við tillöguna.

Samkvæmt framansögðu fullnægði hin kærða ákvörðun ekki ákvæðum þágildandi reglugerðar um bílastæðakröfu.  Þá voru verulegir ágallar á meðferð málsins svo sem að framan er lýst.  Þykja þessir ágallar eiga að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður hún því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. október 2012 um breytingu á deiliskipulagi Kaplaskjóls í Reykjavík er felld úr gildi. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Hildigunnur Haraldsdóttir

125/2012 Hverafold

Með

Árið 2013, föstudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 125/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. nóvember 2012 um að samþykkja umsókn um leyfi til að innrétta íbúð á 3. hæð í húsinu nr. 5 á lóð nr. 1-5 við Hverafold í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. nóvember 2012, kærir Jóhannes S. Ólafsson hdl., f.h. K-2 fasteigna ehf., eiganda tveggja eignarhluta í húsinu nr. 5 við Hverafold, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. nóvember 2012 að veita leyfi til að innrétta íbúð í rými 02 0303 á 3. hæð hússins nr. 5 við Hverafold í Reykjavík. 

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er gerð krafa um að úrskurðað verði um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu.

Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá Reykjavíkurborg 10. desember 2012.

Málavextir:  Í húsum á lóð nr. 1-5 við Hverafold í Grafarvogi er starfrækt verslunar- og þjónustumiðstöðin Foldatorg og rekur kærandi vínveitingastað í eignarhlutum sínum á fyrstu hæð hússins að Hverafold 5.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 13. janúar 2012 var tekin fyrir fyrirspurn eiganda rýmis 02 0303 á 3. hæð hússins um hvort heimilt væri að breyta notkun rýmisins úr sólbaðsstofu í íbúð.  Gerði skipulagsstjóri ekki athugasemdir við erindið og taldi það samræmast deiliskipulagi svæðisins. 

Hinn 20. mars s.á. var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að innrétta íbúð í fyrrnefndu rými en afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Í framhaldi af því bárust byggingarfulltrúa skrifleg andmæli við fyrirhugaðri breytingu frá stjórn húsfélags Foldatorgs og var farið fram á að ekki yrði ráðist í framkvæmdir fyrr en að loknum aðalfundi í húsfélaginu.  Jafnframt kom kærandi að mótmælum við umsótta breytingu.  Þá beindi hann erindi til kærunefndar húsamála um að leyfishafa væri óheimilt að breyta eignarhluta sínum úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði nema með samþykki allra eigenda hússins.  Mótmæli bárust einnig frá öðrum sameigendum er töldu að breytingin gæti haft truflandi áhrif á starfsemi tónlistarskóla og félagsheimilis í húsinu og kom kærandi að sjónarmiðum sínum af því tilefni.
Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. maí 2012 en afgreiðslu þess frestað þar til fyrir lægi álit kærunefndar húsamála sem kærandi hafði óskað eftir.  Byggingarfulltrúi samþykkti síðan umsóknina á fundi hinn 13. nóvember s.á. og lágu þá fyrir fyrrnefnd andmæli og sjónarmið, sem og bókun frá aðalfundi húsfélagsins frá 14. júní 2012 þar sem fyrri sjónarmið og kröfur voru ítrekuð.  Jafnframt lá fyrir bréf frá kæranda, dags. 15. júní 2012, þar sem vakin var athygli á að framkvæmdir væru hafnar í umræddu rými og farið fram á að þær yrðu stöðvaðar.  Þá  lá fyrir álit kærunefndar húsamála nr. 19/2012 í máli kæranda, dags. 23. október 2012, um að „…[umsækjanda] væri heimilt að breyta eignarhluta sínum úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði án samþykkis eigenda hússins“.  Loks lá fyrir umsögn lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 7. maí 2012, þar sem talið var heimilt að breyta hagnýtingu umrædds eignarhluta.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa  hinn 15. nóvember 2012.

Málsrök kæranda:  Kærandi mótmælir harðlega hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa.  Augljóst sé að kærandi hafi mikla hagsmuni af því að umrædd breyting á notkun húsnæðis nái ekki fram að ganga enda starfræki hann skemmtistað í sama húsi og því líklegt að ýmis vandamál kunni að leiða af hinni kærðu ákvörðun, s.s. um opnunartíma vegna starfsemi kæranda. 

Telji kærandi að samþykki allra sameigenda hússins þurfi til að heimilt sé að breyta umræddu rými úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, sbr.  m.a. 5. og 10. tl. 1. mgr. A. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Jafnframt sé vísað til 1. mgr. 27. sömu laga þar sem segi að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. 

Þótt í upphafi hafi verið möguleiki á að hafa íbúðir í húsinu hafi sú heimild fallið niður þegar ákveðið hafi verið að þar yrði einungis atvinnustarfsemi.   Þegar kærandi hafi keypt eignarhluta sína í húsnæðinu árið 2005 hafi eignarhlutar í húsinu verið seldir undir atvinnustarfsemi með þeim formerkjum að þar yrði einungis rekin slík starfsemi.  Hafi það verið augljós forsenda kaupenda fyrir kaupum í húsinu.  Sé vísað til kaupsamnings kæranda þar sem skýrt komi fram hvers konar starfsemi sé í hinum seldu eignarhlutum og það sama eigi við um kaupsaminga um annað rými í húsinu og væntanlega um kaupsamning leyfishafa.
 
Vakin sé athygli á að kærunefnd húsamála hafi í fyrirliggjandi áliti sínu fallist á að 27. gr. fjöleignarhúsalaga geti átt við þegar breyta eigi atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, en kærandi mótmæli þeirri forsendu í álitinu að breytingin muni ekki leiða til vandkvæða fyrir kæranda.  Þegar heimiluð sé hagnýting sem sé svo langt frá því sem gangi og gerist í húsinu muni það leiða til mikilla árekstra og hugsanlegs ósættis meðal sameigenda.  Það fari ekki saman að koma fyrir íbúð í miðju þjónustuhúsnæði, innan um skemmtistað, tónlistarskóla og samkomusal og líklegt að íbúar muni kvarta undan t.d. hávaða er stafi frá atvinnustarfseminni.

Þinglýst eignaskiptayfirlýsing fyrir Hverafold 5, dags. 9. maí 1994, feli í sér takmörkun á heimildum til hagnýtingar á þann veg að aðeins sé heimilt að starfrækja þess háttar starfsemi í húsinu sem þar sé tilgreind.  Séu áform um aðra notkun í húsinu beri að afla samþykkis allra eigenda þess fyrir þeim.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg fer fram á að kröfum kæranda verði hafnað.

Vísað sé til álits kærunefndar húsamála í málinu nr. 19/2012 og til þess að samkvæmt aðalskipulagi sé umrædd lóð á íbúðarsvæði og fyrirhuguð nýting sé í samræmi við deiliskipulag.  Samkvæmt skilmálum fyrir hverfamiðstöð fyrir Grafarvog, sem samþykktir hafi verið í borgarráði árið 1990, sé heimilt að hafa íbúðir á m.a. 3. hæð hússins þar sem umrætt rými sé.  Þó tekið sé fram í eignaskiptayfirlýsingu að um verslunar- og þjónustuhús sé að ræða sé það öðru fremur staðfesting á því ástandi sem fyrir sé í húsinu, en ekki verði séð að neinar takmarkanir séu settar á breytingu á þeirri hagnýtingu.  Þá sé ekki fallist á að 1. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga eigi við í málinu.  Augljóst sé að ákvæðið setji skilyrði um samþykki þess aðila sem fyrir óþægindum verði vegna fyrirhugaðra breytinga en ekki samþykki þess sem óþægindum mögulega valdi.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er m.a. bent á að í lóðarleigusamningi um eignina sé heimilað að byggja verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæði á lóðinni.  Í eignaskiptasamningi, sem sé hluti af kaupsamningi, sé tekið fram að réttindi og skyldur eigenda hússins séu nánar tilgreindar í skipulagsskilmálum.  Komi þar fram að leyfi sé fyrir því að hafa íbúðir á 2. og 3. hæð í umræddu húsi og séu skipulagsskilmálar hluti af eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið.  Jafnframt sé vísað til þess að enginn sameiginlegur inn- eða útgangur sé fyrir starfsemi kæranda og rýmis leyfishafa.  Kærandi reki bar á jarðhæð með sérinngangi í suðurhluta hússins en inngangur í húsnæði leyfishafa sé að vestanverðu.  Hér sé aðeins um að ræða minni háttar breytingar á séreign. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytta  notkun séreignarrýmis á 3. hæð fjöleignarhússins að Hverafold 5, úr sólbaðsstofu í íbúð.   Telur kærandi að hin breytta hagnýting muni hafa í för með sér slík áhrif á hagsmuni hans í ljósi fyrirsjáanlegs óhagræðis og röskunar sem af hinni breyttu notkun stafi að hún sé háð samþykki allra eigenda hússins. 

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er lóðin að Hverafold 1-5 á íbúðarsvæði en skv. skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem hér á við, má á íbúðarsvæðum m.a. gera ráð fyrir starfsemi sem þjóni íbúum viðkomandi hverfis, s.s. verslunum og hreinlegum iðnaði.  Þá samþykkti borgarráð skilmála og leiðsöguuppdrátt fyrir umrædda lóð hinn 9. ágúst 1988 þar sem heimild er fyrir íbúðum á 2. og 3. hæð húss D, sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hús nr. 5 við Hverafold.  Sama er uppi á teningunum í þinglýstum lóðarleigusamningi fyrir húsið Hverafold 5.  Tilgreining notkunar einstakra eignarhluta í eignaskiptasamningi eða kaupsamningi felur ekki í sér takmörkun eða breytingu á ákvæðum skipulags um landnotkun enda styðst slík tilgreining að jafnaði við notkun einstakra rýma við samningsgerð.  Er hin kærða ákvörðun samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi skipulag svæðisins, skilmála umræddrar lóðar og þinglýstan lóðarleigusamning.

Í 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er sameigendum slíkra húsa veittur íhlutunarréttur um nýtingu einstakra séreignarhluta í húsinu með því að veruleg breyting á hagnýtingu frá því sem verið hafi eða gert hafi verið ráð fyrir í upphafi sé eftir atvikum háð samþykki þeirra ef breytingunni fylgi verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur en verið hafi.  Þótt fallast megi á það með kæranda að tilkoma íbúðar í húsnæði sem að öðru leyti er nýtt undir atvinnustarfsemi, geti skapað visst óhagræði svo sem vegna umgangs fólks í húsinu utan opnunartíma fyrirtækja, getur það ekki talist slík röskun að breytingin sé háð samþykki annarra eigenda hússins samkvæmt nefndri lagagrein.  Líta verður sérstaklega til þess við mat á áhrifum umdeildrar breytingar á hagsmuni kæranda að inngangur að heimilaðri íbúð í húsinu er annar en að eignarhluta hans.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. nóvember 2012 um að veita leyfi til að innrétta íbúð í rými 02 0303 á 3. hæð hússins nr. 5 við Hverafold í Reykjavík. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Hildigunnur Haraldsdóttir

 

127/2012 Bergstaðastræti

Með

Árið 2013, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 127/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. október 2012 um að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. Þ, Bergstaðastræti 54, í Reykjavík, þá ákvörðum byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að nefnd ákvörðun og útgáfa byggingarleyfis verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun yfirvofandi framkvæmda.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Umbeðin gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg hinn 14. maí 2013.

Málsatvik og rök:  Húsin að Bergstaðastræti 54 og 56 eru sambyggð og mynda vinkil en standa hvort á sinni lóð.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Á  afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. júlí 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að setja svalir á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar ásamt samþykki fyrir „áður gerðri stækkun íbúðar 2. hæðar um hluta af 3. hæð og fyrir stiga á milli 2. og 3. hæðar“ fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti.  Ódagsett samþykki meðeigenda að Bergstaðastræti 56 fylgdi erindinu ásamt samþykki hluta eigenda að Bergstaðastræti 54.  Leyfisumsóknin var grenndarkynnt fyrir íbúum Bergstaðastrætis 54, 53-55 og íbúum að Laufásvegi 49-51 og bárust nokkrar athugasemdir við áformaðar framkvæmdir.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulagsráði sem gerði ekki athugasemdir við að byggingarleyfi yrði veitt þegar teikningar hefðu verið lagfærðar og breytingar gerðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og umsögn skipulagsstjóra. 

Málið var til umfjöllunar á fundum byggingarfulltrúa á árunum 2005, 2006 og 2011, en á afgreiðslufundi hans 28. ágúst 2012 var erindinu vísað að nýju til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 31. ágúst 2012 var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Bergstaðastræti 54, Laufásvegi 49-51 og 53-55.  Í kjölfar grenndarkynningarinnar var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 24. október 2012 þar sem fyrir lágu fram komar athugasemdir, m.a. frá kæranda, og umsögn skipulagsstjóra, dags. 11. október 2012.  Skipulagsráð bókaði að ekki væru gerðar athugasemdir við erindið og vísaði því til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti byggingaráformin á fundi sínum hinn 30. október 2012.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 1. nóvember s.á.

Kærandi vísar til þess að með tilkomu svala þeirra sem hin kærða ákvörðun heimili verði friðhelgi einkalífs og heimilis hennar raskað með óásættanlegum hætti og verðmæti fasteignar hennar að Bergstaðastræti 54 skert.  Svalirnar muni skerða útsýni úr stofu kæranda mót suðri og bein sjónlína verði frá þeim í vistarverur hennar.  Á skorti að lögboðið samþykki eigenda húseignanna að Bergstaðastræti 54 og 56 hafi legið fyrir.  Þá eigi umdeildar framkvæmdir ekki stoð í skipulagi og reglna nábýlis- og grenndarréttar hafi ekki verið gætt.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að meðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið í samræmi við lög og reglur.  Ekkert deilskipulag sé til fyrir umrædda lóð og hafi umsóknin því verið grenndarkynnt í samræmi við ákvæði skipulagslaga.  Við meðferð málsins hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda með því að stytta fyrirhugaðar svalir miðað við upprunaleg áform.  Húsin á lóðunum nr. 54 og 56 standi hvort á sinni lóð og séu ekki eitt fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaga. Eigi reglur þeirra laga um samþykki meðeigenda því ekki við í máli þessu.  Rétt sé að taka fram að kærandi sé sjálf með svipaðar svalir og hér um ræði á 2. hæð hússins nr. 54 við Bergstaðastræti og því megi ætla að flest þau rök sem hún tefli fram gegn umþrættum svölum eigi við um hennar svalir.  Jafnræðis að þessu leyti hafi verið gætt við umdeilda leyfisveitingu.  Engin rök séu til þess að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og víkja með því frá meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Byggingarleyfishafi andmælir kröfum kæranda og bendir á að um sé að ræða þéttbýlasta svæði borgarinnar og sé nánd milli fasteigna því mikil.   Kæranda ætti að vera þetta ljóst og taka verði mið af þessum aðstæðum við mat á grenndarsjónarmiðum.  Ekki sé fallist á að umdeildar svalir muni rýra verðgildi fasteignar kæranda heldur megi færa rök fyrir því að endurbætur á húsinu að Bergstaðastræti 56 muni virka á hinn veginn.  Umdeildar svalir hafi m.a. þann tilgang að uppfylla kröfur um flóttaleiðir vegna bruna og verið sé að færa gamalt hús að nútímakröfum.

Niðurstaða:  Í málinu er einungis deilt um leyfi fyrir svölum á húsinu að Bergstaðastræti 56 en ekki um þær breytingar innanhúss sem í hinu kærða byggingarleyfi felast.

Samkvæmt samþykktum teikningum verða umræddar svalir reistar úr stálvirki sem eru boltaðar við útvegg.  Er því um að ræða afturkræfa framkvæmd sem auðvelt væri að fjarlægja bæri nauðsyn til þess.  Með hliðsjón af því verður ekki talið að hagsmunir kæranda knýi á um að framkvæmdirnar verði stöðvaðar en þær eru á áhættu leyfishafa á meðan mál þetta er óútkljáð fyrir úrskurðarnefndinni.

Verður kröfu um stöðvun framkvæmda af þessum ástæðum hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um stöðvun framkvæmda við Bergstaðastræti 56 í Reykjavík samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

 

 

__________________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Hildigunnur Haraldsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

79/2012 Engidalur á Ísafirði

Með

Árið 2013, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðar frá 16. júlí 2012 um að veita Gámaþjónustu Vestfjarða ehf. leyfi til að nota fyrir starfsemi sína landspildu milli lóðar félagsins að Kirkjubóli 3 í Engidal og svonefnds Kirkjubólslands til næstu fimm ára, og ákvörðun bæjaryfirvalda um að leyfa Gámaþjónustu Vestfjarða ehf. að hækka spilduna. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, fyrir hönd Aðstöðunnar sf., Kirkjubólslandi, Engidal, leyfi sem bæjarráð Ísafjarðar veitti Gámaþjónustu Vestfjarða ehf. hinn 16. júlí 2012 til að nota til næstu fimm ára landspildu sem er milli lóðanna Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands.  Þá kærir hann ákvörðun um að leyfa hækkun á landinu milli lóðanna.  Kærandi krefst þess að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. 

Gögn í málinu bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 5. september 2012.

Málavextir: Kærandi er til húsa að Kirkjubólslandi í Engidal á Ísafirði.  Á aðliggjandi lóð við Kirkjuból 3 er rekin gámaþjónusta.  Á milli lóðanna er 8,4 metra breið spilda og er það sú spilda sem deilt er um í málinu.  Fram kemur í gögnum málsins að lóðarhafi Kirkjubóls 3 hafi notað svæðið milli lóðanna fyrir gáma. 

Í málinu liggur fyrir tölvupóstur, frá sviðsstjóra umhverfissviðs Ísafjarðarbæjar til lóðarhafa Kirkjubóls 3, dags. 6. júní 2007.  Þar er vísað til samtals sviðsstjórans og fyrirsvarsmanns lóðarhafa um að ákveðið hafi verið að sviðsstjórinn sendi staðfestingu á því að Ísafjarðarbær gerði ekki athugasemd við að plan við Kirkjuból 3 yrði stækkað og að gerð yrði mön við endann á því sem tengdist síðan mön við brotajárnssvæði Funa. Taka mætti efni í planið og mönina ofan við brotajárnshauginn og innan við núverandi plan Funa.  Með þessu móti væri unnt að stækka plan Funa og Gámaþjónustunnar með einni framkvæmd, mönin gerði það að verkum að ásýnd svæðisins yrði mun betri.  Kvaðst sviðsstjórinn fagna framkvæmdinni og veita Gámaþjónustunni heimild fyrir henni.

Með bréfi til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 17. maí 2012, sótti lóðarhafi Kirkjubóls 3 um að fá að leigja umrædda spildu.  Á fundi umhverfisnefndar 4. júlí sama ár var bókað að með erindinu væri sótt um lóð til afnota í 15 ár en nefndin féllst á að veita umsækjanda leyfi til að nota lóðina til næstu fimm ára, með sama hætti og gert hefði verið fram að því.  Fundargerð nefndarinnar var á dagskrá bæjarráðs 16. júlí 2012 og var þá bókað að bæjarráð samþykkti nýtingu á lóð í Engidal og að fundargerðin væri staðfest í heild sinni. Fundargerðin var lögð fram til kynningar í bæjarstjórn 6. september 2012.

Málsrök kæranda:  Vísað er til þess að hin umdeilda ákvörðun um að veita leyfi til að nota lóðina milli Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands geri það að verkum að kærandi hafi ekki aðgengi að lóð sinni og húsi að ofanverðu og komi þannig í veg fyrir fyrirhugaða notkun á lóðinni.  Enn fremur komi hún í veg fyrir ætlaða starfsemi í húsinu þar sem nauðsynlegt sé að hafa umferð gegnum húsið.  Jarðvegsupphækkun fyrir neðan Kirkjuból 3 sé um 1 m og hafi hún verið gerð í leyfisleysi.  Spildan hafi áður verið í sömu hæð og lóð kæranda, en sé nú í sömu hæð og lóðin Kirkjuból 3.  Hafi kærandi vakið athygli bæjaryfirvalda á þessum breytingum á árinu 2011.  Kærandi krefst þess einnig að lóðin verði aðkomusvæði fyrir húsin og bannað verði að hefta aðgengi um hana með gámum, vörubílum og öðrum tækjum.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kröfum kæranda í málinu verði hafnað.  Fyrirsvarsmaður kæranda hafi sent byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar tölvupóst 9. ágúst 2011 vegna upphækkunar lóðarinnar milli Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands.  Í samtölum við fyrirsvarsmanninn hafi komið fram af kæranda hálfu að ekkert annað kæmi til greina en að lóðin yrði sléttuð niður í sömu hæð og hún sé í á ljósmynd sem hann hafi látið byggingarfulltrúa hafa, en ljósmyndin hafi verið tekin á árinu 1991.  Af hálfu lóðarhafa Kirkjubóls 3 hafi byggingarfulltrúa verið tjáð að leyfi hafi fengist til að lagfæra svæðið á milli lóðanna og í því sambandi vísað í tölvupóst frá sviðsstjóra umhverfissviðs hinn 6. júní 2007.  Í ljósi ágreiningsins hafi lóðarhafa Kirkjubóls 3 verið bent á að sækja um lóðina, þannig að bæjaryfirvöld myndu úrskurða um hvernig notkun hennar yrði háttað.  Það hafi hann gert hinn 17. maí 2012 og 4. júlí sama ár hafi umhverfisnefnd síðan úrskurðað að hann skyldi hafa sömu afnot næstu fimm ár og verið hefðu.

Vísað sé til þess að í bréfi til úrskurðarnefndarinnar hafi kærandi gert athugasemd varðandi það að hann hafi ekki sama aðgang og áður að lóð sinni og húsi að ofanverðu, og komið sé í veg fyrir að hann geti notað lóðina eins og hann hafi haft í hyggju að gera.  Þá komi þetta í veg fyrir starfsemi sem kalli á umferð gegnum húsið.  Í samtölum við kæranda hafi hins vegar ekki verið minnst á framkvæmdir á lóð, í húsi eða rekstri.  Veggurinn sem snúi að hinni umdeildu lóð sé ekki nema tæplega tveggja metra hár og hæpið að unnt sé að setja á hann dyr. Á norður- og vesturhlið hússins séu hins vegar stórar dyr sem notaðar séu til inn- og útaksturs, einnig sé tvöföld hurð á suðurhlið hússins. Fjarlægð frá húsi að svæðinu sem deilt sé um sé 3 m og á þeirri hlið hússins séu hvorki gluggar né dyr eða annað sem geri gegnumakstur mögulegan.  Sé athafnasvæði kæranda því ekki mikið og hafi aðalathafnasvæðið verið norðan og vestan við húsið. Á grundvelli þessara gagna hafi bókun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar 4. júlí 2012 verið gerð. 
 
Málsrök lóðarhafa Kirkjubóls 3:  Lóðarhafi kveðst hafi eignast húsið að Kirkjubóli 3 árið 1996 og hafi á árinu 2006 ráðist í að stækka það og setja á það þrjár innkeyrsludyr.  Gert hafi verið munnlegt samkomulag við bæjartæknifræðing um að fá að nota lóð sem bærinn eigi, allt að mörkum lóðar kæranda.  Því sé mótmælt að fyrirtækið hafi hækkað lóðina í leyfisleysi og sé hvað það varði vísað í myndir og í munnlegt leyfi bæjartæknifræðings.  Samkvæmt eldra skipulagi hafi þarna átt að vera gata en þar sem húsin séu á snjóflóðasvæði sé búið að breyta skipulaginu og ekki verði byggt þar frekar.

Niðurstaða:  Svæðið sem deilt er um, á milli lóða Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands, er skilgreint á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags Ísafjarðar 2008-2020 sem opið svæði til sérstakra nota, en ekki er þar sýnt athafnasvæði við Hafrafell, Engidal, sem getið er í greinargerð aðalskipulagins.  Þá er svæðið einnig á skilgreindu snjóflóðahættusvæði.  Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.12.1, sem við á í málinu, eru opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði sem hafa útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við starfsemi sem þar er stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði, skrúðgarðar, kirkjugarðar, leiksvæði, íþróttasvæði, golfvellir, sleða- og skíðasvæði, skautasvæði, siglingaaðstaða, hesthús og reiðvellir, rallýbrautir og skotvellir. Einnig garðlönd og trjáræktarsvæði.  Deiliskipulag fyrir Engidal skilgreinir ekki landnotkunarflokka sérstaklega, en deiliskipulag getur hins vegar ekki veitt heimild til að víkja frá aðalskipulagi, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Starfsemi sú sem heimiluð var á spildunni með hinni kærðu ákvörðun um nýtingu hennar til reksturs gámaþjónustu samræmist ekki skilgreindri landnotkun svæðisins.  Þá er umrædd spilda ekki afmörkuð sem lóð í deiliskipulagi.  Var bæjaryfirvöldum því óheimilt að ráðstafa spildunni til þeirra nota sem gert var með hinni kærðu ákvörðun og verður sú ákvörðun því felld úr gildi.

Ekki liggur fyrir að tekin hafi verið formleg stjórnvaldsákvörðun af þar til bæru stjórnvaldi um að heimila hækkun umræddrar spildu.  Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun um það efni og verður kröfu kæranda er það varðar því vísað frá nefndinni.  Þá er það ekki á færi nefndarinnar að mæla fyrir um að spildan verði aðkomusvæði og að bannað verði að hefta umferð um hana með stöðu gáma eða tækja og verður þeim kröfulið því einnig vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðar frá 16. júlí 2012 um að heimila lóðarhafa Kirkjubóls 3 að nota svæði milli Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands fyrir áframhaldandi óbreytta notkun.

Kröfum um að fellt verði úr gildi leyfi til að hækka lóð og að úrskurðað verði um tiltekin not umdeildrar spildu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Hildigunnur Haraldsdóttir

 

13/2013 Steinkerstún minkabú

Með

Árið 2013, mánudaginn 22. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 8. febrúar 2013 um að samþykkja byggingaráform fyrir 1.930 m2 loðdýraskála á lóðinni Steinkerstúni í landi jarðarinnar Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og útgáfu byggingarleyfis fyrir þeim skála hinn 11. febrúar s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2013, er barst nefndinni hinn 12. s.m., kærir Guðjón Ármannsson hrl., f.h. sjö eigenda jarðarinnar Stóra-Núps, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps að samþykkja byggingaráform fyrir 1.930 m2 loðdýraskála á lóðinni Steinkerstúni í landi jarðarinnar Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og útgáfu byggingarleyfis fyrir þeim skála hinn 11. s.m. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi hinn 19. febrúar 2013. 

Málsatvik og rök:  Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti hinn 7. febrúar 2012 tillögu að lýsingu skipulagsverkefnis skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna deiliskipulagningar spildu úr landi Ása, sem nefnd er Steinkerstún.  Í tillögunni var gert ráð fyrir að á spildunni mætti reisa sex hús, samtals um 8.800 m2, undir minkarækt, en á svæðinu er þegar fyrir minkabú á aðliggjandi spildu úr landi jarðarinnar, er nefnist Mön. 
Við kynningu deiliskipulagstillögunnar bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum í máli þessu.  Sveitarstjórn samþykkti skipulagstillöguna hinn 4. september 2012 og tók skipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember s.á.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 24. desember 2012.  Hinn 8. janúar 2013 var sótt um samþykki byggingaráforma fyrir 1.930 m2 loðdýraskála á grundvelli hins samþykkta skipulags.  Var umsóknin samþykkt 8. febrúar s.á. og byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni gefið út 11. s.m.

Kærendur vísa til þess að hinar kærðu ákvarðanir byggi á ógildanlegu deiliskipulagi sem þeir hafi kært til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu þess.  Deiliskipulagið muni leiða til stórfelldrar eignarskerðingar á landi þeirra ef heimildir skipulagsins gangi eftir og við málsmeðferð þess hafi verið gengið gegn rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Kærendur hafi fært fram ítarlegan rökstuðning fyrir ólögmæti umrædds skipulags og vísi til þess sem þar komi fram. 

Af hálfu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er skírskotað til þess að við samþykki byggingaráforma og útgáfu hins kærða byggingaleyfis hafi verið farið að form- og efnisreglum sem um slík leyfi gildi.  Kæra í máli þessu byggi einvörðungu á því að leyfið eigi sér ekki stoð í lögmætu deiliskipulagi en kærumál sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni um gildi þess.  Vísað sé til greinargerðar sveitarfélagsins í því kærumáli þar sem sé að finna greinargóð rök fyrir lögmæti skipulagsins. 

Byggingarleyfishafi fer fram á að kröfu um ógildingu hins kærða byggingaleyfis verði hafnað.  Málsástæðum kærenda hafi verið andmælt af hálfu leyfishafa og eigenda minkabúsins að Mön í kærumáli því sem snúist um deiliskipulag það sem heimili umdeilt minkabú.  Þar séu færð fram rök fyrir því að deiliskipulagsákvörðunin skuli standa óhögguð.  Ekki sé ástæða til að endurtaka þær röksemdir hér en vísað sé til þess er nefndir aðilar hafi fært fram í því kærumáli. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun um veitingu leyfis fyrir byggingu minkaskála á spildunni Steinkerstúni var tekin með stoð í deiliskipulagi, sem samþykkt var í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hinn 4. september 2012 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. sama mánaðar. 

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð í kærumáli vegna greinds deiliskipulags þar sem fallist var á kröfu um ógildingu þess.  Að þeim úrskurði gengnum á hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma ekki lengur stoð í gildu deiliskipulagi, svo sem lög gera ráð fyrir, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Ber af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Ekki þykir ástæða til að kveða sérstaklega á um ógildingu á útgáfu umdeilds byggingarleyfis hinn 11. febrúar 2013 enda er útgáfa þess í skjóli fyrri ákvörðunar um samþykki byggingaráforma. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, um að samþykkja byggingaráform fyrir 1.930 m2 loðdýraskála á lóðinni Steinkerstúni í landi jarðarinnar Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er, felld úr gildi. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

131/2012 Ásar minkabú

Með

Árið 2013, mánudaginn 22. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 131/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. september 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir minkabú á spildu úr landi jarðarinnar Ása í nefndum hreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2012, er barst nefndinni 27. s.m., kærir Guðjón Ármannsson hrl., f.h. sjö eigenda jarðarinnar Stóra-Núps í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. september 2012 að samþykkja deiliskipulag fyrir minkabú á spildu úr landi jarðarinnar Ása í nefndum hreppi.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 25. desember 2012, er barst úrskurðarnefndinni 27. s.m., kærir jafnframt nefndur lögmaður f.h. sjálfseignarstofnunarinnar Skaftholts og G, Skaftholti, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, greinda skipulagsákvörðun með kröfu um ógildingu hennar.  Verður það kærumál, sem er nr. 132/2012, sameinað máli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi og málatilbúnaður þeirra er mjög á sömu lund. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi hinn 8. febrúar 2013.

Málavextir:  Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti hinn 7. febrúar 2012 tillögu að lýsingu skipulagsverkefnis skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna deiliskipulagningar 45.210 m2 spildu úr landi Ása, þar sem gert er ráð fyrir að á spildunni megi reisa sex hús, samtals um 8.880 m2, undir minkarækt fyrir um 4.000 læður.  Á aðliggjandi lóð í landi jarðarinnar, sem nefnist Mön, er þegar fyrir minkabú að líkri stærð og fyrirhugað bú.  Var skipulagsfulltrúa falið að leita umsagnar Skipulagsstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um málið og að kynna lýsinguna fyrir eigendum aðliggjandi landareigna.  Var kærendum send lýsingin með bréfi, dags. 8. mars 2012.  Jafnframt var óskað eftir undanþágu umhverfisráðuneytisins á kröfu í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkja frá vegum þar sem fyrirhuguð hús yrðu nær Stóra-Núpsvegi en reglugerðin heimilaði. 

Kærendur komu á framfæri athugasemdum við lýsingu skipulagstillögunnar og hinn 18. maí 2012 barst skipulagsfulltrúa umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands þar sem m.a. var vakin athygli á starfsleyfisskilyrðum loðdýrabúa um meðhöndlun úrgangs frá dýrunum og lagt til að gerð yrði grein fyrir fjarlægðarreglu 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 í greinargerð deiliskipulagsins.  Umhverfisráðuneytið tilkynnti með bréfi, dags. 5. júní 2012, að fallist væri á að veita undanþágu frá ákvæði skipulagsreglugerðar um fjarlægð mannvirkja frá Stóra-Núpsvegi.

Deiliskipulagsstillagan var auglýst til kynningar og bárust athugasemdir m.a. frá kærendum.  Sveitarfélagið óskaði í kjölfar þess eftir lögfræðilegu áliti á fyrirliggjandi athugasemdum og barst það álit í bréfi, dags. 24. júlí 2012.  Mótmælum við sjónarmiðum sem fram komu í álitinu var komið á framfæri við sveitarfélagið í bréfi lögmanns eigenda umræddrar spildu, dags. 31. s.m.  Eftir að frekari umsagnar lögmanns sveitarfélagsins hafði verið aflað og eigendur spildunnar og lögmaður þeirra höfðu komið á framfæri athugasemdum af því tilefni, samþykkti sveitarstjórn hina kærðu skipulagsákvörðun á fundi hinn 4. september s.á.  Skipulagsákvörðunin var tekið fyrir að nýju á fundi 6. nóvember 2012, að undangenginni yfirferð Skipulagsstofnunar, og þar bókuð svör við fram komnum athugasemdum.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2012. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur jarðanna Stóra- Núps og Skaftholts, sem liggi að spildu þeirri úr landi Ása sem umdeilt skipulag taki til.  Þegar sé fyrir á spildunni Mön í landi nefndrar jarðar minkabú sem rúmi um 5.000 læður og  með hinu kærða skipulagi muni langstærsta minkabú landsins, með allt að 10.000 læður, vera við mörk jarða kærenda.  Muni það leiða til stórfelldrar skerðingar á eignarétti þeirra sem landeigenda og að mati kærenda hafi meðalhófs- og rannsóknarregla stjórnsýsluréttar ekki verið virtar við skipulagsgerðina. 

Af hálfu stjórnvalda hafi frá öndverðu verið settar strangar reglur um minkabú vegna umhverfisáhrifa slíkra búa.  Samkvæmt reglugerð um loðdýrarækt nr. 444/1982  hafi verið óheimilt að reisa loðdýrabú í minna en 500 m fjarlægð frá mannabústöðum og vinnustöðum annarra en viðkomandi bús og í 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 sé sama ákvæði um lágmarks fjarlægð minka-, alifugla- og svínabúa frá mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins.  Í reglugerðarákvæðinu felist nær altækt byggingarbann á svæði innan 500 m fjarlægðar frá hverju loðdýrabúi.  Samkvæmt lauslegum útreikningum nái áhrifasvæðið sem hér um ræði til 41,7 ha innan lands Ása, 27 ha af landi jarðarinnar Stóra-Núps, 30,3 ha í landi Skaftholts, 2,9 ha lands í eigu Skeiða- og Gnúpverjahrepps og 1,3 ha í landi Austurhlíðar, þrátt fyrir að eigendur Ása hafi til umráða 344 ha lands.  Með því að velja umdeildu 4,5 ha skipulagssvæði stað við landamerki Skaftholts og Stóra-Núps verði meira en 60%, eða yfir 60 ha, af hinu lögbunda áhrifasvæði minkabúsins í landi annarra jarða en Ása og stækki frá því sem fyrir sé vegna minkabúsins að Mön. 

Sá hluti lands Stóra-Núps sem næstur sé fyrirhuguðum minkaskálum sé sérstaklega viðkvæmur fyrir því stórtæka minkaeldi sem fyrirhugað sé að Ásum, þar sem um sé að ræða útivistar- og verndarsvæði sem ætlað sé til frístundanota þeirra sem á jörðinni dveljast.  Þá sé við landamerkin merkilegur hraunketill, nefndur Steinker, er hafi sem náttúruvætti mikið aðdráttarafl og sé vinsæll áningarstaður göngu- og útreiðarfólks.  Gangi umdeild áform eftir verði endanlega komið í veg fyrir að nýta megi framangreint svæði til útivistar og undir frístundahús, en í gildandi aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps sé heimild til að reisa allt að þrjú frístundahús á jörðum án breytingar á skipulagi.  Rekstur að Skaftholti sé líka viðkvæmur, en þar dvelji m.a. átta einstaklingar með þroskahömlun og sé mikil áhersla lögð á lífræna ræktun og fullvinnslu afurða.  Þá sé í meðferðarstarfi sem þar fari fram lögð áhersla á útiveru og með hliðsjón af vaxandi eftirspurn eftir búsetuúrræðum nefnds hóps sé þörf fyrir allt land jarðarinnar fyrir starfsemina.  Þegar berist lykt að bæjarhúsum Skaftholts frá minkabúi því sem fyrir sé og fyrirséð að neikvæð umhverfisáhrif muni magnast við tilkomu nýs minkabús á svæðinu. 

Að mati kærenda feli hin kærða ákvörðun í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Sameiginlegt land aðstandenda umræddra minkabúa sé 344 ha.  Þrátt fyrir það hafi eigendur jarðarinnar kosið að velja hinum nýja byggingarreit stað við landamerki jarða kærenda með þeim afleiðingum að stór hluti helgunarsvæðis minkabúsins nái yfir land þeirra.  Sú lausn blasi hins vegar við að finna hinum fyrirhuguðu byggingum annan stað innan þeirra 344 ha sem eigendur hafi yfir að ráða.  Í málum er varði skerðingu á eignarrétti hafi dómstólar litið til sjónarmiða um meðalhóf, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 425/2008, þar sem eignarnám á landi einstaklings vegna veglagningar hafi ekki náð fram að ganga með hliðsjón af vernd eignarréttinda og reglunnar um meðalhóf. 

Í 10. gr. stjórnsýslulaga sé sú krafa gerð til stjórnvalda að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.  Að mati kærenda hafi þessi regla ekki verið virt við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar.  Þrátt fyrir ítrekuð tilefni, svo sem í fyrirliggjandi lögfræðiálitum vegna málsins, hafi hvorki af hálfu sveitarfélagsins né landeigenda á Ásum verið lögð fram gögn um möguleg grenndaráhrif hinna stóru minkabúa sem landeigendur hyggist reisa á umræddum stað og ekki hafi verið sýnt fram á að hindrun sé í vegi fyrir því að finna minkahúsunum annan stað á jörðinni. 

Ljóst sé samkvæmt dómum Hæstaréttar, þar sem tekist hafi verið á um mat á verðfalli eigna vegna skipulagsbreytinga og mannvirkjagerðar, að ekki skuli einungis líta til hins lögbundna áhrifasvæðis.  Til dæmis hafi helgunarsvæði þjóðvega samkvæmt vegalögum verið ákveðið 30 m frá miðlínu vegar, en í dómi Hæstaréttar í máli nr. 349/2002 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að áhrifa tilgreinds vegar gætti í 250 m fjarlægð frá miðlínu hans og á því svæði yrði ekki byggt í framtíðinni.  Þá megi hér vísa til Hæstaréttardóms í máli nr. 523/2011 er hafi snúist um gildistöku skipulags sem heimilaði byggingu stærsta svínabús landsins, sem að mati dómsins yrði ekki jafnað við hefðbundinn landbúnað.  Í málinu hafi verið tildæmdar verulegar skaðabætur til handa eiganda íbúðarhúss aðliggjandi jarðar, sem hafi verið í um 1.300 m fjarlægð frá svínabúinu, vegna lyktarmengunar, bæði af svínahúsunum sem og af dreifingu svínaskíts á land viðkomandi jarðar. 

Rétt sé að fram komi í málinu að kærendur hafi aldrei átt þess kost að koma á framfæri athugasemdum vegna uppbyggingar þess stóra minkabús sem fyrir sé á svæðinu, en hvorki hafi verið staðfest deiliskipulag né hafi farið fram grenndarkynning vegna þess.  Að mati kærenda séu byggingarleyfi fyrir byggingu og stækkun búsins árin 1998, 2000 og 2011 því ólögmæt og við veitingu leyfisins árið 2011 hafi ekki verið farið að ábendingu Skipulagsstofnunar um þörf á deiliskipulagi. 

Málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi að öðru leyti haft slíka annmarka að leiða eigi til ógildingar þess.  Á fundi sveitarstjórnar 6. nóvember 2012 virðist hafa verið ákveðið að víkja til hliðar fyrirliggjandi áliti lögmanns sveitarfélagsins í málinu en í þess stað gerð bókun um afstöðu sveitarfélagsins í málinu, sem ráða megi að hafi átt rót sína að rekja til lögfræðiálits annarrar lögmannsstofu sem kærendum hafi ekki verið kynnt.  Þá hafi Skipulagsstofnun við meðferð málsins beint því til sveitarfélagsins að kynna bókunina fyrir kærendum en einungis sex dögum síðar hafi verið gengið frá gildistöku skipulagsins án þess að beðið væri eftir athugasemdum þeirra.  Fyrri lögfræðiálitum sem aflað hafi verið við meðferð málsins hafi landeigendur á Ásum hins vegar fengið ítrekaða fresti til að bregðast við.  Athugasemdir séu gerðar við að umsagnir og undanþágur heilbrigðiseftirlits og umhverfisráðherra hafi ekki legið fyrir áður en tillaga að umdeildu deiliskipulagi hafi verið auglýst til kynningar, auk þess sem draga megi í efa réttmæti undanþágu frá kröfum um fjarlægð bygginga frá stofn og tengivegum, sem áskildar séu í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/2000. 

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kröfum kærenda í málinu verði hafnað. 

Í tilefni af málatilbúnaði kærenda sé rétt að benda á að þar sé ítrekað blandað saman hinu kærða deiliskipulagi og þeim búrekstri sem þegar sé til staðar á spildunni Mön í landi Ása.  Þar séu að jafnaði hafðar um 3.200 læður og verði fyrirhugað minkabú svipað að stærð.  Stór hluti þess áhrifasvæðis fyrirhugaðs minkabús sem kærendur skírskoti til sé þegar undir þær takmarkanir settar sem tilteknar séu í 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 vegna minkabúsins sem fyrir sé.  Önnur staðsetning nýs minkabús myndi óhjákvæmilega leiða til þess að samanlagt áhrifasvæði beggja búanna stækkaði verulega.  Með tilkomu hins nýja minkabús muni áhrifasvæðið hvað varði Skaftholt stækka um 9 ha og um 28 ha í landi Stóra-Núps.  Samkvæmt núgildandi skipulagi sé umrætt svæði skilgreint sem landbúnaðarsvæði og muni hið kærða deiliskipulag ekki koma í veg fyrir nýtingu lands kærenda til þeirra nota og til útivistar.  Skipulagið muni engin áhrif hafa gagnvart hraunkatli þeim sem kærendur vísi til enda sé hann innan áhrifasvæðis þess sem fylgi minkabúinu á Mön. 

Hafa verði í huga að starfsemi sú sem umrætt skipulag heimili sé starfsleyfisskyld.  Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga vinni eftir samræmdum starfsleyfisskilyrðum, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Þá gildi um starfsemina ákvæði reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands sé ábyrgt fyrir eftirliti með ytra umhverfi og falli lyktarmengun þar undir.  Með hinni kærðu ákvörðun sé ekki verið að veita neinar undanþágur frá þeim lögum og reglum sem gildi um fyrirhugaða starfsemi. 

Ákvörðun um staðsetningu fyrirhugaðs minkabús byggi á samnýtingarmöguleikum þess og minkabúsins sem þegar sé rekið að Mön og liggi að umræddu skipulagssvæði.  Áform um samnýtingu búanna sé forsenda rekstrar nýs bús samkvæmt upplýsingum frá eigendum hins deiliskipulagða svæðis.  Megi þar nefnda skinnaverkun, styttri vegalengdir við flutninga og samnýtingu á hauggeymslum.  Slík samnýting dragi úr byggingarmagni á svæðinu og geri allt  eftirlit með loðdýrabúunum einfaldara.  Þá sé ekki auðvelt að finna fyrirhuguðu búi betri stað í landi Ása, m.a. vegna klettabelta, mýrarsvæða og vatnsbóla og þeirrar staðreyndar að landamerki jarðarinnar Ása liggi að stórum hluta að jörðinni Stóra-Núpi.  Aðrar mögulegar staðsetningar, ef nokkrar væru, fælu í sér stækkun áhrifasvæðis þess sem þegar sé til staðar til muna með þeim auknu áhrifum á umhverfið sem því fylgdi.  Af þessum ástæðum hafi verið gætt meðalhófs við samþykkt hins kærða deiliskipulags.  Hæstaréttardómur sá sem kærendur vísi til í þessu sambandi eigi hér ekki við.  Þær eignarréttarlegu takmarkanir sem kærendur gætu þurft að sæta vegna gildistöku hins kærða deiliskipulags séu almenns eðlis og verði ekki jafnað til þeirra eignarsviptingar sem fylgi eignarnámi, sem tekist hafi verið á um í nefndum dómi. 

Við afgreiðslu hins kærða deiliskipulags 4. september 2012 hafi legið fyrir ítarlegar umsagnir lögmannsstofu um fram komnar athugasemdir auk viðbótargagna frá eigendum skipulagssvæðisins sem sveitarstjórn hafi kallað eftir.  Kærendur hafi verið upplýstir um að landeigendur Ása hafi gefið frekari skýringar á fyrirhuguðum framkvæmdum.  Þá hafi borist bréf frá lögmanni eigenda Ása, dags. 29. ágúst 2012.  Um hafi verið um að ræða ný gögn sem ekki hafi legið fyrir við gerð fyrri umsagna lögmannsstofu frá 4. maí, 24. júlí og 13. ágúst 2012.  Rétt sé að geta þess að lögfræðiálit það sem kærendur telji að þeir hefðu átt að fá að tjá sig um, hafi einungis falið í sér aðstoð við sveitarstjórn um mótun bókunar við lokaafgreiðslu málsins. 

Sveitarstjórn sé fjölskipað stjórnvald og vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um einstök mál og ráðist afgreiðsla mála af afstöðu einstakra sveitarstjórnarmanna.  Niðurstaða sveitarstjórnar þurfi því ekki að vera í samræmi við umsagnir ráðgjafa eða embættismanna.  Sveitarstjórn hafi ekki verið einhuga um afgreiðslu máls þess sem hér um ræði og hafi hluti sveitarstjórnarmanna gert grein fyrir atkvæði sínu með bókun.  Skipulagsstofnun hafi gert athugasemd við afgreiðsluna og hafi verið tekið tillit til þeirrar athugasemdar þegar málið hafi verið tekið fyrir að nýju hinn 6. nóvember 2012.  Afgreiðsla málsins hafi því verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga sem og rannsóknarreglu og aðrar meginreglur stjórnsýsluréttar. 

Því sé sérstaklega mótmælt af hálfu sveitarfélagsins að umdeilt skipulag feli í sér bótaskyldar takmarkanir á eignarrétti kærenda.  Hugsanlegur bótaréttur þeirra sé ekki til umfjöllunar í úrskurðarmáli þessu, enda ekki á forræði úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þess álitaefnis, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Umrætt svæði sé í gildandi skipulagi skilgreint sem landbúnaðarsvæði og enn sem fyrr verði heimilt og mögulegt að nýta það undir landbúnað og til útivistar.  Verði talið að nýtingarmöguleikar á landi kærenda skerðist við gildistöku skipulagsins geti það eitt og sér ekki leitt til ógildingar þess, enda sé gert ráð fyrir í 51. gr. skipulagslaga að valdi slík skerðing tjóni skapi það eftir atvikum rétt til bóta.  Lögin geri því ráð fyrir að almennar takmarkanir á eignarrétti manna geti orðið með breytingum á skipulagi. 

Hvað varði lögmæti rekstrar minkabúsins að Mön sé rétt að benda á að sá rekstur hafi þegar í upphafi haft áhrif á nýtingu nágrannajarða m.t.t. ákvæða 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og stækki það áhrifasvæði ekki að neinu marki við gildistöku umdeilds skipulags.  Lögmæti byggingarleyfa fyrir byggingu og stækkun minkabúsins að Mön sé ekki til skoðunar í máli þessu og verði að meta þau gild þar sem þeim hafi ekki verið hnekkt.  Þá sæti ákvörðun umhverfisráðherra frá 5. júní 2012 um undanþágu frá gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. 

Andmæli framkvæmdaaðila og athugasemdir rekstaraðila minkabúsins að Mön:  Af hálfu rétthafa að hinni deiliskipulögðu spildu er farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað og eru málsástæður sem færðar eru fram til stuðnings þeirri niðurstöðu mjög á sömu lund og settar eru fram af hálfu Skeiða- og Gnúpverjahrepps og raktar hafa verið hér að framan.  Eigendur minkabúsins að Mön taka undir greinda kröfu og andmæla málatilbúnaði kærenda að því leyti sem að þeim snúi og telja að þar sé byggt á rangfærslum um neikvæð áhrif frá rekstri minkabúsins. 

Áréttað sé að læður á minkabúinu að Mön séu um 3.200 en hluti dýranna sé fluttur annað og sé þar allan vaxtartímann.  Áætlaður fjöldi læða í fyrirhuguðu minkabúi verði um 600 í byrjun  en heimilaður húsakostur samkvæmt umdeildu skipulagi geti hýst um 4.000 dýr. 

Túlkun kærenda á 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti sé mótmælt.  Þar séu aðeins settar þær hömlur á nýtingu að ekki megi byggja minkabú nær mannvirkjum sem þar séu upp talin.  Umrætt áhrifasvæði sé þegar fyrir hendi vegna minkabúsins að Mön.  Með ákvæðinu sé lögvarinn eignarréttur skertur og beri því að túlka það þröngt.  Túlkun kærenda á ákvæðinu myndi leiða til þess að stórir hlutar jarða yrðu ónothæfir til nefndra nota, s.s. vegna legu eða lögunar lands.  Þess megi geta að víða séu dæmi um að íbúðarhús hafi verið heimiluð og reist innan við 500 m frá minkabúum, m.a. í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  Fyrirhugað minkaeldi sé ekki stórt í sniðum og verði á engan hátt líkt við verksmiðjurekstur.  Hugmyndir um mögulega breytta notkun á landi kærenda í framtíðinni, sem eigi ekki stoð í gildandi skipulagi, geti ekki skert rétt framkvæmdaaðila til að nýta land sitt til landbúnaðar.  Engar vísbendingar séu um að minkabúum fylgi meiri lykt en af annarri hefðbundinni landbúnaðarstarfsemi enda liggi nú fyrir tillögur Umhverfisstofnunar hjá umhverfisráðuneyti, þar sem m.a. sé lagt til að 100 m fjarlægð sé milli íbúðarhúsa og minkabús með 10.000 læður eða færri.  Ætla megi að úrgangur frá þeim fjölda minka sem áformaður sé og þegar sé fyrir í landi Ása verði minni en til falli vegna dýrahalds að Stóra-Núpi.  Málefnalegar ástæður hafi búið að baki staðsetningu fyrirhugaðs minkabús og hafi meðalhófsregla verið virt að því leyti við umdeilda skipulagsgerð.  Ítarleg umfjöllun hafi farið fram og álits aflað áður en málið hafi verið til lykta leitt. 

Eigendur minkabúsins að Mön vísa til þess að bú þeirra hafi verið reist og rekið um árabil í samræmi við tilskilin leyfi og til þessa hafi aldrei verði gerðar athugasemdir eða borist kvartanir frá kærendum vegna lyktar eða flugnagers vegna búrekstrarins.  Það sé þekkt að dýrahaldi geti fylgt flugur ef ekki séu gerðar viðeigandi ráðstafanir en þær hafi verið gerðar að Mön.  Þá sé ekki óeðlilegt að lykt finnist þegar skítur sé borinn á tún.  Staðreynd sé að mykjufýla sé hluti af lífi fólks á landbúnaðarsvæðum en ekki hafi þótt ástæða til að ónáða yfirvöld í hvert sinn sem hennar gæti þótt lyktin sé ekki góð og síst betri en lykt af minkaskít.  Það geti ekki talist haldbær rök í máli þessu að einum þyki ein tegund skítalyktar verri en önnur.  Rekstur búsins að Mön hafi sætt lögboðnu eftirliti og hafi þótt í góðu lagi og hlotið verðlaun búnaðarfélags og umhverfisráðherra.  Því sé sérstaklega mótmælt að um sé að ræða einhvern verksmiðjurekstur og megi vekja athygli á því að á landinu séu a.m.k. þrjú minkabú með um 3.000 læður.  Búið að Mön og fyrirhugað minkabú sem heimilað sé í hinu kærða deiliskipulagi séu tvö sjálfstæð bú í eigu tveggja aðila og beri að meta sem slík í máli þessu. 

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða reifuð hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 9. apríl 2013. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu skipulagsákvörðun er heimilað að reisa minkabú fyrir um 4.000 læður á spildu úr landi Ása, sem liggur að annarri spildu úr jörðinni þar sem rekið hefur verið minkabú um árabil.  Eru spildurnar í grennd við landamerki jarða kærenda.  Mun fyrirhugað minkabú vera áþekkt að stærð og minkabú það sem fyrir er á svæðinu. 

Leyfi fyrir byggingu og breytingum á minkabúi því sem fyrir er og ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um undanþágu frá reglu um fjarlægð mannvirkja frá vegum skv. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem veitt var í tilefni umdeildrar skipulagsgerðar, sæta hér ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar.  Kærufrestir vegna greindra leyfa eru löngu liðnir, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og ákvarðanir sem ráðherra tekur sem æðsti handhafi framkvæmdavalds verða eðli máls samkvæmt ekki endurskoðaðar af kæru- eða úrskurðarnefndum innan stjórnsýslunnar nema í undantekningartilvikum og þá aðeins með ótvíræðri lagastoð.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 en í hnotskurn snýst málið um hvort gætt hafi verið reglna stjórnsýsluréttar við undirbúning skipulagsins og hvort heimiluð staðsetning fyrirhugaðs minkabús skerði grenndarhagsmuni kærenda og möguleika til notkunar á landi í þeirra eigu með ólögmætum hætti.

Umrædd deiliskipulagstillaga var kynnt lögum samkvæmt og fyrir liggja athugasemdir hagsmunaaðila, greinargerðir og bréf lögmanna þeirra þar sem viðhorfum er lýst og tekist er á um þau álitaefni sem um er deilt í málinu.  Við meðferð stjórnsýslumála leita stjórnvöld oft álits sérfræðinga eða nýta sér aðstoð sérfróðra aðila, innan stofnana sem utan.  Lögfræðiálit það sem kærendur telja að þeim hefði átt að gefast kostur á að tjá sig um hefur einungis að geyma tillögu að bókun sveitarstjórnar við fram komnum athugasemdum við kynningu skipulagstillögunnar á grundvelli þeirra gagna sem þegar lágu fyrir í málinu.  Verður ekki talið eins og á stóð að kalla hafi þurft eftir sjónarmiðum kærenda á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í tilefni af umræddu áliti.

Að lokinni kynningu á lýsingu skipulagsverkefnisins leitaði sveitarstjórn umsagnar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um skipulagstillöguna og barst sú umsögn í bréfi, dags. 18. maí 2012.  Eru þar áréttuð almenn skilyrði fyrir starfsleyfi til reksturs loðdýrabús.  Þar eru gerðar eftirfarandi athugasemdir:  „Um meðferð loðdýraskíts gilda strangari kröfur en um „annan húsdýraáburð“.  Öll meðferð dýraskíts skal vera í samræmi við samræmd starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og fer HES fram á að greinargerðin verði leiðrétt mtt. þess.  Taka skal mið af ofangreindum starfsleyfisskilyrðum …“.  Eru starfsleyfisskilyrðin síðan rakin í beinni tilvitnun.  Þá segir ennfremur:  „Gera skal grein fyrir fjarlægðarreglu 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti í greinargerð með deiliskipulaginu.“  Loks er lagt til að á skipulagsstiginu verði gerð grein fyrir áætlunum um meindýravarnir og þá sérstaklega hvað flugur varðar.  Í ljósi þeirra ólíku skoðana hagsmunaaðila á grenndaráhrifum heimilaðs minkabús, sem uppi eru í málinu, telur úrskurðarnefndin að full þörf hafi verið á að sveitarstjórn hlutaðist til um að afla álits sérfróðs óháðs aðila í því efni.  Ekkert slíkt álit lá fyrir áður en sveitarstjórn tók hina kærðu ákvörðun.  Þá verður ekki séð að sveitarstjórn hafi kannað með sjálfstæðum hætti hvort unnt hefði verið að finna fyrirhuguðu minkabúi annan stað í tilefni af andmælum kærenda og koma þannig til móts við sjónarmið þeirra.  Skorti þannig á að veigamiklir þættir málsins væri rannsakaðir til hlítar og var undirbúningi umdeildrar ákvörðunar að þessu leyti áfátt.

Í 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 eru gerðar kröfur um lágmarksfjarlægð loðdýra-, alifugla- og svínabúa frá tilteknum mannvirkjum en ákvæðið er svohljóðandi:  „Óheimilt er að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins en sem nemur 500 metrum.  Á sama hátt skal vera hæfileg fjarlægð milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og starfsemi sem valdið getur samsvarandi óþægindum eins og sú sem talin er upp í 1. ml. hins vegar s.s. annað búfjárhald og mengandi atvinnustarfsemi.“  Sambærileg regla var áður í reglugerð um loðdýrarækt nr. 444/1982, en hún féll brott við gildistöku reglugerðar nr. 165/2007 um aðbúnað og meðferð minka og refa.  Hins vegar hefur reglan, svo sem áður segir,  verið í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 frá gildistöku hennar.  Úrskurðarnefndin hefur ekki fundið skýringar á tilurð reglu þessarar eða á því hvaða hagmuni henni var ætlað að verja.  Nefndin metur hins vegar ekki stjórnskipulegt gildi hennar og verður því til hennar litið við úrlausn málsins.

Staðsetning minkabúsins í hinu kærða deiliskipulagi fer ekki í bága við tilvitnað ákvæði þar sem ekki er að finna tilgreind mannvirki innan 500 m markanna.  Óumdeilt er hins vegar að áhrifasvæði það sem af nefndri fjarlægðarreglu leiðir nær inn á land kærenda og stækkar frá því sem leiddi af staðsetningu minkabúsins að Mön, sem fyrir var, en ekki verður séð að við undirbúning hins kærða deiliskipulags hafi legið fyrir málsettur uppdráttur er sýnir áhrifasvæði búsins. 

Með hliðsjón af framangreindu verður að fallast á það með kærendum að gildistaka hins kærða deiliskipulags hafi í för með sér að hömlur séu lagðar á framtíðarmöguleika til notkunar þess lands sem er innan við 500 m frá fyrirhuguðu minkabúi.  Felur deiliskipulagið að þessu leyti í sér skerðingu á möguleikum á notkun þess lands kærenda sem greindar takmarkanir ná til, frá því sem áður var.  Var af þessum sökum þeim mun ríkari ástæða til að kanna aðra kosti á staðsetningu minkabúsins með það að markmiði að áhrifasvæði þess næði eins skammt inn á jarðir kærenda og kostur væri.  Liggur ekki fyrir að nein athugun hafi verið gerð á þessu heldur hafi búinu verið valinn staður með hliðsjón af forsendum framkvæmdaaðila í aðeins rúmlega 30 m fjarlægð, þar sem skemmst er, frá mörkum gagnvart landi kærenda.   

Deiliskipulag, eins og hér um ræðir, og sett er í þágu einkahagmuna og skapar einstaklingum eða lögaðilum rétt, telst stjórnvaldsákvörðun og ber við meðferð slíkra mála að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 samhliða málmeðferðarreglum skipulagslaga nr. 123/2010.  Svo sem að framan er rakið skorti á að gætt væri rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.  Eru þessir ágallar á meðferð þess svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 4. september 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir minkabú á spildu úr landi jarðarinnar Ása í nefndum hreppi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

85/2012 Gasfélagið

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 85/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. júní 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóð gasstöðvar í Straumsvík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Hjördís Halldórsdóttir hrl., f.h. Alcan á Íslandi, Straumsvík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. júní 2012 að samþykkja deiliskipulag fyrir lóð gasstöðvar í Straumsvík.  Birtist auglýsing um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 7. ágúst 2012.

Gerir kærandi kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á  árinu 2010 var á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar lögð fram tillaga Gasfélagsins ehf. að deiliskipulagi fyrir lóð gasstöðvar í Straumsvík.  Í framhaldi af því óskaði ráðið eftir umhverfismati áætlunar ásamt fylgigögnum, þ.m.t. áhættumati, umsögn Brunamálastofnunar (nú Mannvirkjastofnunar), Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Vinnueftirlits ríkisins.  Þá var óskað upplýsinga um hvort Skipulagsstofnun teldi að gasstöðin félli undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Með bréfi stofunarinnar, dags. 7. október 2010, kom fram að þar sem gasstöðin væri ekki á verndarsvæði félli hún ekki undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum eða lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.  Engu að síður gæti sveitarfélagið farið fram á að gerð yrði grein fyrir áhrifum deiliskipulagsáætlunar á umhverfi sitt með vísan til 5. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málið var til umfjöllunar á nokkrum fundum skipulagsyfirvalda á árinu 2011 en afgreiðslu þess þá ávallt frestað.  Hinn 21. febrúar 2012 var tillagan tekin fyrir að nýju hjá skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar og lágu þá m.a. fyrir umsagnir frá fyrrgreindum aðilum.  Var þar samþykkt að auglýsa tillöguna og samþykkti hafnarstjórn Hafnarfjar þá afgreiðslu á fundi sínum næsta dag, sem og bæjarstjórn á fundi hinn 29. febrúar 2012.  Skipulagsstofnun var send lýsing á skipulagsverkefninu með bréfi, dags. 1. mars s.á., og í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 22. s.m., kom fram að ekki væri gerð athugasemd við framlagða lýsingu en bent á að gerð lýsingar og kynning á tillögu á vinnslustigi ætti að fara fram áður en sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna.  Tillagan var kynnt á opnum fundi hinn 8. mars 2012 og auglýst til kynningar frá 20. apríl til 2. júní s.á., með athugasemdafresti til sama tíma.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum og fól skipulags- og byggingarráð skipulags- og byggingarsviði bæjarins að gera tillögu að svari við framkomnum athugasemdum.

Að kynningu lokinni var skipulagstillagan til meðferðar í skipulags- og byggingarráði, sem gerði á fundi sínum hinn 26. júní 2012 svör skipulags- og byggingarsviðs um téðar athugasemdir að sínum.  Var tillagan samþykkt og jafnframt lagt til við bæjarstjórn að gera slíkt hið sama.  Samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi hinn 27. s.m. og lágu þá m.a. fyrir umsagnir er borist höfðu og mat verkfræðistofu um áhrif deiliskipulagsins á umhverfi sitt. 

Hið kærða deiliskipulag nær til 3,5 ha svæðis sem afmarkast af athafnasvæði Alcan á Íslandi að hluta til og af fjörulínu.  Samkvæmt skipulaginu er gert ráð fyrir nýju svæði undir tanka/gasgeymslur innan núverandi lóðar gasstöðvar í Straumsvík.  Fyrir eru á 1.422 m² svæði fjórir 261 m³ geymar er rúma samtals 460 tonn af gasi, en samkvæmt skipulaginu bætist við nýr 2.550 m² reitur fyrir gasgeyma og verða innan hans þrír nýir 674 m³ geymar og rúma þeir samtals 876 tonn.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir á því að samþykkt deiliskipulagsins stríði gegn markmiðum skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einkum a. og b. lið 1. gr. laganna.

Nálægðin við birgðastöð Gasfélagsins ehf. sé ein af stærstu rekstraráhættum álvers kæranda.  Starfsemi stöðvarinnar geti fylgt óhöpp sem haft geti í för með sér tjón á mönnum og munum á vegum kæranda og rekstarstöðvun um lengri eða skemmri tíma.  Með aukningu gasbirgða á lóð Gasfélagsins muni skapast enn alvarlegra ástand og veruleg tjónshætta kæmi til bruna eða sprengingar í starfsstöðinni.  Nálægð stöðvarinnar við höfnina og súrálflutningskerfi álvers kæranda hafi í för með sér að jafnvel minni háttar brunar geti haft alvarleg áhrif á starfsemi álversins.  Verði markmiði skipulagslaga ekki náð með því að þjálfaðir verði slökkviliðsmenn til að sérhæfa sig í slökkvistarfi gaselda líkt og gert sé ráð fyrir í skipulaginu.

Hafnað sé þeirri staðhæfingu að tryggt sé að gashylki á umræddri lóð verði betur varin fyrir utanaðkomandi hitaálagi eftir samþykkt skipulagsins.  Hvergi sé þess getið í skipulaginu, eða krafa gerð um að svo sé, en gert sé ráð fyrir að nýir geymar verði heygðir í jörðu, líkt og nú sé gert.  Skorti mikið á að fyrir hendi sé fullnægjandi áhættustig og öryggishegðun í starfsemi Gasfélagsins ehf.  Megi sem dæmi nefna að fjöldi gashylkja á svæðinu skipti þúsundum og einungis um 80% þeirra hafi öryggisloka.  Auki þetta hættu á að gashylki skjótist langar vegalengdir komi til bruna.  Þá virðist ítarleg áhættugreining ekki vera fyrir hendi og umgengni við gashylki sé oft kæruleysisleg.

Starfsemi af þessu tagi eigi að lúta mjög ströngum kröfum um stýringu áhættu í samræmi við ákvæði reglugerðar um varnir gegn hættu á stórslysum að völdum hættulegra efna nr. 160/2007.  Hafi ekkert komið fram í meðferð tillögunnar sem bendi til þess að til staðar sé áætlun um stórslysavarnir á svæðinu eða að Gasfélagið hafi innleitt öryggisstjórnunarkerfi sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir tjón og slys á fólki í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.  Þar sem ekki hafi verið gerð krafa í téðu deiliskipulagi um að innleiða skuli sérstakt öryggisstjórnarkerfi, með það að markmiði að skapa fullnægjandi áhættustig og öryggishegðun, samrýmist skipulagið ekki ákvæðum skipulagslaga, einkum a. og b. lið 1. gr. laganna.  Verði ekki séð að deiliskipulagið hafi heilbrigði og öryggi landsmanna að leiðarljósi eða það stuðli að því að koma í veg fyrir umhverfisspjöll, enda skorti þar á að gerð sé krafa um fyrirbyggjandi ráðstafanir með það að markmiði að koma í veg fyrir eða að minnka áhættu á slysum og tjóni eins og unnt sé.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að fylgt hafi verið lögbundnu ferli við deiliskipulag lóðarinnar.  Þá telji Hafnarfjarðarbær, í ljósi þeirra gagna sem aflað hafi verið áður en samþykkt hafi verið að auglýsa tillögu að deiliskipulagi, að öryggi starfsmanna verði ekki frekar ógnað eftir stækkun gasstöðvarinnar en nú sé og að deiliskipulagið skapi ramma til að þróa starfsemi Gasfélagsins áfram á sem öruggastan hátt.  Mikilvægt sé, þegar sótt verði um byggingarleyfi, að allar öryggiskröfur verði uppfylltar og að Brunamálastofnun (nú Mannvirkjastofnun), Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Vinnueftirlit ríkisins fái málið til umfjöllunar.

Málsrök Gasfélagsins ehf:  Félagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað, enda sé hin kærða ákvörðun að öllu leyti í samræmi við ákvæði laga.  Gasfélagið hafi verið með starfsemi á umræddri lóð allt frá árinu 1996.  Með deiliskipulaginu sé því fyrst og fremst gefinn kostur á breyttu birgðahaldi sem vænta megi að verði til hags fyrir alla aðila.  Muni stækkað birgðarými ekki auka heildaráhættu í rekstri Gasfélagsins ehf. eða í nágrenni þess, heldur þvert á móti minnka hana m.a. vegna færri gasskipakoma í Straumsvíkurhöfn.  Við undirbúning stækkunar á birgðarými hafi verið lögð áhersla á að gæta fyllsta öryggis og haft samráð við t.d. Mannvirkjastofnun og Vinnueftirlit ríkisins við undirbúning deiliskipulagsins og um frágang geyma.  Verði þeir heygðir í jörðu eins og nú sé.  Þannig sé öryggis gætt og verði ekki um verulega breytingu á ásýnd svæðisins að ræða. 

Því sé hafnað sem röngu og ósönnuðu að aukin áhætta geti skapast við stækkun birgðastöðvar Gasfélagsins ehf.  Megi í því sambandi benda á mat verkfræðistofu frá 22. desember 2010 um að heildaráhætta stöðvarinnar ætti að minnka og öryggi þar með að verða meira eftir stækkun.  Þá sé því hafnað að stækkunin geti talist ein stærsta áhættan í rekstri kæranda og að veruleg tjónsáhætta geti skapast við deiliskipulagið.  Jafnframt sé því mótmælt að rætt sé um möguleg slys án þess að um leið sé getið hvaða líkur séu á stórslysi eða hvað gert sé til að fyrirbyggja slík slys.  Hafi athugasemdir kæranda fengið málefnalega og rétta meðferð hjá sveitarfélaginu.  Sé hæpið að það falli undir valdsvið kærunefndar að leggja slíkt efnislegt mat á málsástæður aðila að nýju þegar ekkert nýtt sé fram komið sem breyta ætti slíku mati.

Bent sé á að opinberir eftirlitsaðilar og utanaðkomandi ráðgjafar hafi talið að öryggis sé vel gætt í starfsemi Gasfélagsins og að engin óviðunandi áhætta skapist af staðsetningunni fyrir rekstur álversins.  Lúti starfsemin ströngum reglum og opinberu eftirliti, en eftirlitsaðilar hafi ekki gert neinar alvarlegar athugasemdir við starfsemina eða rekstur á lóðinni í Straumsvík.  Þvert á móti reyni Gasfélagið, bæði sjálft og í samstarfi við ráðgjafa og eftirlitsaðila, að fylgjast náið með þróun á sviði öryggismála og að öryggiskröfur séu uppfylltar á hverjum tíma.  Sé því sérstaklega mótmælt að deiliskipulagið verði fellt úr gildi vegna mats kæranda á áhættuvörnum í rekstri.  Það sé hlutverk Mannvirkjastofnunar o. fl. aðila að hafa gætur á að reksturinn og öryggi sé í góðu horfi hverju sinni og sé í þessu sambandi vísað til fyrirliggjandi umsagna.

Starfsemi Gasfélagsins ehf. falli vel að umhverfinu í Straumsvík og nágrenni og hafi stækkun á birgðarými þess lítil eða engin neikvæð áhrif á starfsemi kæranda.  Þvert á móti megi ætla að fyrirhugaðar breytingar í starfseminni muni efla öryggi á svæðinu, sbr. öryggisúttekt verkfræðistofu og umsagnir eftirlitsaðila.  Deiliskipulagið brjóti því ekki gegn ákvæðum skipulagsslaga.

Niðurstaða:  Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að hin kærða deiliskipulagsákvörðun hafi fengið lögformlega rétta málsmeðferð eftir ákvæðum skipulagslaga.  Þó má taka undir með Skipulagsstofnun að rétt hefði verið að lýsing á skipulagsverkefninu sætti skoðun stofnunarinnar áður en samþykkt var að auglýsa umrædda skipulagstillögu, en eins og atvikum er háttað verður ekki talið að annmarki þessi geti einn og sér ráðið úrslitum um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Umdeilt deiliskipulag er innan hafnarsvæðis samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar 2005-2025, en á hafnarsvæðum tengist landnotkun fyrst og fremst hafnsækinni starfsemi samkvæmt 1.tl. gr. 4.8.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, er í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin.  Felst starfsemi Gasfélagsins m.a. í móttöku og birgðahaldi á própangasi og áfyllingu þess á hylki og fellur sú starfsemi undir skilgreinda landnotkun aðalskipulags fyrir svæðið.   

Samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 160/2007, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, þarf við skipulag landsvæða að taka mið af stórslysahættu þannig að sem minnst hætta sé fyrir menn og umhverfi, auk þess sem fullnægjandi vegalengd skal vera á milli starfsstöðvar sem undir reglugerðina fellur og staða sem einstakir eru frá náttúrunnar hendi.  Við gerð deiliskipulagsins var leitað umsagna sérfróðra aðila vegna stækkunar á birgðastöð Gasfélagsins ehf. í Straumsvík og í því sambandi lögð fram skýrsla verkfræðistofu, dags. 12. ágúst 2011, um brunavarnir og áhættumat vegna stækkunar gasstöðvarinnar.  Komu ekki fram athugasemdir við fyrirhugaða stækkun, en bent var á leiðir til að tryggja öryggi á svæðinu enn frekar.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið gætt markmiða skipulagslaga, svo og 31. gr. tilvitnaðrar reglugerðar um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, og verður kröfu kæranda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 
 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. júní 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóð gasstöðvar í Straumsvík.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson