Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2012 Staðarbakki Rangárþingi eystra

Með

Árið 2013, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 27. október 2011 um að hafna kröfu um ógildingu og afturköllun á deiliskipulagi vegna frístundabyggðar í landi Staðarbakka í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir B, Kvoslæk II, f.h. E, Kirkjulæk, V, Hlíðarbóli og V, Hellishólum, Fljótshlíð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 27. október 2011 að hafna kröfu um að ógilda og afturkalla deiliskipulag vegna frístundabyggðar í landi Staðarbakka í Fljótshlíð.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sveitarstjórn að fjalla efnislega um málið.  Þá er þess óskað að úrskurðarnefndin feli sveitarstjórn Rangárþings eystra að beita sér fyrir sáttum. 

Málavextir:  Hinn 22. nóvember 2005 tók gildi deiliskipulag frístundabyggðar í landi Staðarbakka í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra, er gerði ráð fyrir 11 frístundahúsalóðum á 20 ha svæði, auk 16 ha útivistarsvæðis.  Breyting á umræddu skipulagi tók gildi hinn 4. apríl 2011 og fól hún í sér að byggingarreitir voru stækkaðir og allt að þrjú hús heimiluð á hverjum byggingarreit. 

Með bréfi til sveitarstjórnar Rangárþings eystra, dags. 3. október 2011, fóru tveir kærenda fram á að sveitarstjórn myndi ógilda og afturkalla framangreindar ákvarðanir.  Var skírskotað til forsögu málsins og m.a. bent á að komið hefði verið á framfæri athugasemdum við undirbúning að deiliskipulaginu um að landamerki Staðarbakka, á því svæði sem tekið væri til skipulags, væru ranglega staðsett á uppdrætti.  Hefði í framhaldi af því verið leitað sátta, m.a. með atbeina sýslumanns og landskipta- og sáttanefndar.  Sættir hefðu ekki náðst og ríkti því enn óvissa um landamerki á hinu umdeilda svæði.  Var og vísað til bókunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. september 2005 þar sem fært hefði verið til bókar að eigendur aðliggjandi jarða, sem gert hefðu athugasemdir á auglýsingatíma skipulagsins, hefðu ekki getað sýnt fram á ,,eigið eignarhald lands inn í hið skipulagða svæði að Staðarbakka“.  Hefði nefndin ítrekað fyrra samþykki sitt á tillögunni og í framhaldi af því hafi deiliskipulagið öðlast gildi.

Krafa kærenda var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 27. október 2011 og afgreidd með eftirfarandi hætti:  „Sveitarstjórn Rangárþings eystra telur að um eðlilega stjórnsýslu hafi verið að ræða og að gætt hafi verið allra viðeigandi málsmeðferðarreglna í meðferð á deiliskipulagstillögunni. Lykilatriði er að ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki afstöðu til eða sker úr um eignarhald á landi þar sem skipulagið nær til. Þessi meginregla hefur verið staðfest af Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Vísað er til óformlegs álits lögfræðinga Sambands íslenskra sveitarfélaga á málinu.“ 

Kærendum var tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar með bréfi, dags. 28. október s.á.  Í framhaldi af því skutu kærendur málinu til innanríkisráðuneytisins, með bréfi, dags. 5. janúar 2012.  Hinn 6. janúar sama mánaðar framsendi ráðuneytið erindi kærenda til Skipulagsstofnunar, sem svaraði erindinu með bréfi, dags. 16. febrúar s.á., og taldi hvorki hafa verið um form- eða efnisgalla að ræða við afgreiðslu skipulagsins.  Kærendur sendu stjórnsýslukæru til umhverfisráðuneytisins með bréfi, dags. 12. mars 2012, en ráðuneytið vísaði kærunni frá þar sem kæran ætti ekki undir umhverfisráðherra lögum samkvæmt.  Í kjölfar þess kvörtuðu kærendur við umboðsmann Alþingis um málsmeðferð skipulags á svæðinu.  Með áliti umboðsmanns, dags. 21. maí 2012, var kærendum bent á að freista þess að leita með málið til úrskurðarnefndarinnar, en umboðsmaður gæti ekki tekið afstöðu til málsins meðan kæruleiðir væru ekki tæmdar. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að í bréfi sveitarstjórnar til umboðsmanns kærenda, dags. 28. október 2011, hafi ekki verið veittar leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufrest vegna ákvörðunar sveitarstjórnar, svo sem þeim hafi verið skylt lögum samkvæmt.  Verði af þeim sökum að telja að úrskurðarnefndinni beri að taka kæruna til efnislegrar meðferðar. 

Deiliskipulag vegna frístundabyggðar í landi Staðarbakka hafi verið ákveðið og auglýst þrátt fyrir ágreining um eignarhald á hinu skipulagða landi og óleysta deilu um landamerki.  Dregið sé í efa að hið deiliskipulagða svæði sé allt í landi Staðarbakka.  Sjónarmið þeirra sem hafi gert tilkall til hluta landsins hafi verið höfð að engu og lögmætar athugasemdir hunsaðar.  Látið hafi verið undan þrýstingi um staðfestingu á deiliskipulagi í stað þess að knýja á um lausn landamerkjadeilu. 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi sveitarstjórn borið ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og borið að láta gera skrá yfir allar jarðir, lönd og lóðir innan sveitarfélagsins skv. 29. gr. tilvitnaðra laga.  Þá hafi sveitarstjórn skv. 30. gr. laganna getað krafist þess af eigendum lands og jarða að gerður yrði fullnægjandi hnitsettur uppdráttur af nýjum landamerkjum eða lóðamörkum til afnota fyrir landeignaskrá. 

Við gerð skipulags beri að taka tillit til ríkra hagsmuna og þá sérstaklega þeirra sem njóti verndar stjórnarskrár, eins og beinna eða óbeinna eignarréttinda yfir landi, lóðum og mannvirkjum á skipulagssvæðinu.  Ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttindi setji því skýrar skorður að raskað sé við slíkum réttindum.  Ef það sé talið óhjákvæmilegt í þágu heildarhagsmuna hafi sveitarfélagið heimild til eignarnáms lögum samkvæmt.  Séu slíkir hagsmunir ekki í húfi beri sveitarfélagi að halda að sér höndum og láta hjá líða að samþykkja deiliskipulag þar til aðilar hafi leyst úr ágreiningi sínum.  Sé um vafa að ræða geti sveitarstjórn krafist þess að fyrir hana sé lagður hnitsettur uppdráttur með lögmætum landamerkjum. 

Skipulagsyfirvöld hafi látið undir höfuð leggjast að bíða eftir sameiginlegri niðurstöðu deiluaðila og hafi í þess stað tekið afstöðu með einum á kostnað annarra.  Sé með öllu ólíðandi og ólögmætt að sveitarstjórn, nefndir á hennar vegum og embættismenn, svipti eigendur lands, eða þá sem geri tilkall til eignarhalds á landi, rétti sínum með skipulagsvaldi.  Þá sé ámælisvert að Skipulagsstofnun leggi blessun sína yfir slík vinnubrögð. 

Augljóst sé af gögnum málsins að öllum er komið hafi að ákvörðuninni á vettvangi sveitarstjórnar hafi verið kunnugt um að deilur væru um eignarhald á hinu deiliskipulagða landi og að gæta þyrfti stjórnsýslureglna.  Vísi kærendur til forsögu málsins og bendi m.a. á að í minnisblaði lögmanns, dags. 2. mars 2005, komi m.a. fram að óhjákvæmilegt virðist annað en að fella staðfestingu deiliskipulagsins úr gildi á grundvelli fram kominna rökstuddra mótmæla.  Síðar, eða í minnisblaði sama lögmanns, dags. 16. ágúst s.á., hafi verið bent á að ekkert dómsmál hafi farið í gang vegna landamerkjadeilunnar og nágrannar hafi ekki fylgt andmælum eftir.  Í ljósi þess yrði að álykta sem svo að þinglýst merki Staðarbakka væru rétt, enda hafi þeim ekki verið hnekkt.  Þá hafi verið bent á að landeigandi yrði á endanum að teljast ábyrgur fyrir því tjóni sem kynni að verða ef í ljós kæmi að hann hefði látið skipuleggja land utan eignarhalds síns, enda skipulagið gert á þeim forsendum að verið væri að skipuleggja land Staðarbakka.  Í krafti ábendinga lögmannsins hafi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. september 2005 verið staðfest fyrra samþykki á fram kominni tillögu að deiliskipulagi en minnisblað lögmanns sýni á hve veikum og einhliða grunni sú bókun hafi verið reist. 

Samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi ekki mátt gefa út framkvæmdaleyfi nema að allir sameigendur að landi samþykktu það.  Í samkomulagi aðila um lóð nr. 5 við Mýrbug hafi falist viðurkenning af hálfu allra aðila á réttaróvissu um eignarheimildir. 

Sveitarstjórn hafi við hina kærðu ákvörðun m.a. vísað til álits frá lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í tölvupósti máli sínu til stuðnings, en sé litið til þess er fram komi í formála álitsins veki það undrun að sá er það veiti telji sér fært að komast að lögfræðilegri niðurstöðu um álitamál er snerti eignarréttindi og spurningu um brot sveitarstjórnar á stjórnarskrárvernd þeirra.  Í álitinu sé m.a. vitnað til 4. mgr. gr. 3.1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem segi að gera skuli grein fyrir eignarhaldi á landi innan skipulagssvæðisins, eftir því sem kostur sé, og hafi í álitinu verið talið að „ítrasta rannsóknarskylda“ yrði ekki reist á ákvæðinu.  Kærendur bendi á að ríki vafi um eignarhald beri sveitarstjórn að kanna það til hlítar og láta menn njóta vafans með frestun máls í stað þess að ganga á rétt þeirra.  Í rannsóknarskyldunni felist ábyrgð, taka beri mið af því sem rannsóknin leiði í ljós.  Stjórnvaldið hafi ekki þurft annað en að leita til byggingarfulltrúa til að fá upplýsingar um að ágreiningur væri um eignarhald á umræddu landi og hafi sveitarstjórn borið skylda til að taka mið af slíkum upplýsingum.  Telji kærendur að óljós efnistök í greindu áliti megi ekki ráða úrslitum í máli sem þessu.  Þá sé mál kærenda ekki sambærilegt máli frá úrskurðarnefndinni sem skírskotað hafi verið til í tölvubréfinu. 

Skipulagsnefnd og sveitarstjórn hafi borið að huga að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaganna, en samkvæmt henni skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakir en nauðsyn krefji.  Við ákvörðun í máli þessu hafi sveitarstjórnarmenn haft val um fleiri úrræði en eitt til að ná því markmiði að staðfesta deiliskipulag, en valinn hafi verið harðasti kosturinn í stað þess að gæta hófs, eins og mælt sé fyrir um í nefndu ákvæði.  Jafnframt hafi verið brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt og gegn 10. gr. sömu laga um rannsóknarskyldu stjórnvalds. 

Með tilliti til lögmætisreglu íslensks réttar, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar og krafna um skýrleika laga á grundvelli hennar, þegar um íþyngjandi ákvörðun eins og eignaupptöku sé að tefla, sbr. hér 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, standist ekki að skipulagsyfirvöld gangi gegn eignarréttindum eins og gert hafi verið með samþykktum sveitarstjórnar 13. september og 13. október 2005.  Þegar stjórnvöld fari út fyrir valdsvið sitt og valdþurrð sé fyrir hendi varði það ógildi ákvörðunar.  Að ekki hafi verið leyst úr ágreiningi með því að skjóta honum til dómstóla veiti sveitarstjórn ekki vald til að koma í stað dómstóls og taka af skarið um rétt samkvæmt deiliskipulagi sem jafna megi til eignarréttar.  Skipulagsstofnun hafi tekið fram að ekki væri gerð krafa um það í gr. 3.1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að eignarhald á landi væri að fullu upplýst.  Megi skilja þau orð á þann veg að ákvæðið heimili skipulagsyfirvöldum að virða stjórnarskrárvarinn eignarrétt að engu við ákvarðanir sínar.  Sé sá skilningur í raun fráleitur þegar hugað sé að fyrirmælum stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins.  Beri úrskurðarnefndinni að taka af skarið í úrskurði sínum um að virða beri eignarrétt en ekki ganga á hann í skjóli óljóss reglugerðarákvæðis. 

Málsrök Rangárþings eystra:  Sveitarfélaginu var tilkynnt um fram komna kæru og hefur að því tilefni sent gögn er málið varðar til úrskurðarnefndarinnar. Sveitarfélagið hefur hins vegar ekki lýst sérstaklega sjónarmiðum sínum vegna kærunnar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra hinn 27. október 2011 að synja þess að afturkalla og ógilda ákvarðanir sveitarstjórnar um deiliskipulag Staðarbakka.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu var móttekin 5. janúar 2012, eða rúmum tveimur mánuðum eftir að kærendum var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.  Barst kæran því að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kærendum ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Í hinni kærðu ákvörðun fólst synjun um endurupptöku máls samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga og synjun afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar samkvæmt 25. gr. laganna.  Samkvæmt tilvitnaðri 25. gr. getur stjórnvald að eigin frumkvæði afturkallað ákvörðun sína, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg.  Það er því á valdi stjórnvalds að ákveða hvort heimild þessi til afturköllunar verði nýtt og verður ekki talið að kærendur eigi lögvarinn rétt til að knýja stjórnvald til töku slíkrar ákvörðunar, en aðili máls á hins vegar rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum skv. 24. gr. stjórnsýslulaga.  Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.  Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.  Beiðni um endurupptöku verður þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins, eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina skv. 1. tl. 1. mgr. eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingar á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna.  Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. 

Deiliskipulag Staðarbakka tók gildi hinn 22. nóvember 2005 og samkvæmt auglýsingu um gildistöku gerði skipulagið ráð fyrir 11 frístundahúsalóðum á 20 ha svæði, auk 16 ha útivistarsvæðis.  Þá tók breyting á skipulaginu gildi hinn 4. apríl 2011 og fól í sér, samkvæmt auglýsingu um gildistöku þess, að byggingarreitir væru stækkaðir og húsum á skipulagsreitnum fjölgað.  Umrætt deiliskipulag skapar réttindi fyrir þriðja aðila og verður ákvörðun um það því ekki endurupptekin nema fyrir liggi samþykki annarra aðila málsins.  Slíkt samþykki lá ekki fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin og skorti þar með skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Vegna beiðni kærenda um að úrskurðarnefndin feli sveitarstjórn að beita sér fyrir sáttum í málinu tekur úrskurðarnefndin fram að það sé ekki á verksviði nefndarinnar að gefa slík fyrirmæli.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 27. október 2011 um að hafna kröfu kærenda um ógildingu og afturköllun á deiliskipulagi vegna frístundabyggðar í landi Staðarbakka í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

10/2013 Vogafjós Skútustaðahreppi

Með

Árið 2013, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður,  Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá  10. janúar 2013 um að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. febrúar 2013, kærir H, Hólmum í Mývatnssveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til nefndarinnar, mótteknu sama dag, kærir Þ, og B í Mývatnssveit, einnig áðurgreinda ákvörðun, en engin rök hafa borist af hans hálfu fyrir kærunni. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Skútustaðahreppi hinn 15. mars 2013. 

Málavextir:  Hinn 8. október 2012 var sótt um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Vogafjós, þ.e. stækkun á núverandi byggingu Vogafjóss um 8 m til vesturs. 

Á fundi sínum 15. október 2012 samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd Skútustaðahrepps að leggja til við sveitarstjórn að þar sem ekkert deiliskipulag lægi fyrir af svæðinu yrði erindið grenndarkynnt fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Samþykkti sveitarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 25. s.m.  Var erindið grenndarkynnt frá 30. október til 27. nóvember s.á. 

Athugasemdir bárust frá þremur aðilum, m.a. frá kærendum.  Skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um athugasemdirnar á fundi sínum 17. desember 2012 og bókaði svör við þeim.  Lagði nefndin til við sveitarstjórn að fallist yrði á fyrirhugaðar framkvæmdir enda væru þær fyrst og fremst ætlaðar til að uppfylla starfsleyfisskyld skilyrði sem gerð væru til reksturs veitingahúsa.  Nefndin setti þó fram tiltekin skilyrði, þ.e. að skipulagsfulltrúa yrði falið að ræða við eigendur Vogafjóss um hvernig koma mætti til móts við sjónarmið nefndarinnar, sem fram kæmu í svörum við athugasemdum, að engar frekari byggingarframkvæmdir yrðu leyfðar í Vogum nema fyrir lægi samþykkt deiliskipulag og að Umhverfisstofnun féllist á fyrirhugaðar framkvæmdir, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 10. janúar 2013 var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar, um heimild til viðbyggingar við Vogafjós, samþykkt.  Varðandi áðurgreind skilyrði áréttaði sveitarstjórn að gera yrði greinarmun á umferð landbúnaðartækja við fjósið vegna búrekstrarins og umferð vinnuvéla á framkvæmdatíma byggingarinnar.  Staðsetning rúllustæðu við fjósið yrði ekki talin efnisleg athugasemd við grenndarkynninguna og hafi átt að vísa henni frá á þeim forsendum.  Þá hafi sveitarstjórn ekki borist svar Umhverfisstofnunar um framkvæmdina. 

Skútustaðahreppi barst bréf frá Umhverfisstofnun hinn 11. janúar 2013 þar sem fram kom að stofnunin gerði ekki athugasemdir við breytingu hússins þar sem um væri að ræða óverulega stækkun á þeim mannvirkjum sem fyrir væru.  Þá voru þeim sem komið höfðu að athugasemdum við grenndarkynninguna send bréf 15. janúar s.á. þar sem athugasemdum var svarað og greint frá afgreiðslu sveitarstjórnar á málinu. 

Málsrök kæranda:  Kærandi kveðst hafa verið mótfallin byggingu umrædds fjóss frá upphafi.  Síðar hafi verið bætt við veitingastað og honum veitt vínveitingaleyfi og loks hafi veitingaaðstaðan verið stækkuð.  Eigi nú enn að bæta við og gangi sögur um að næst eigi að gera húsið að hóteli.  Þeim vinnubrögðum, að veita leyfi fyrir litlu og bæta svo ítrekað við með þeim rökum að það þurfi að bæta þjónustuna og styrkja reksturinn, sé mótmælt. 

Ólykt berist frá fjósinu.  Mest beri á henni í suðlægum áttum, en þá sé veður jafnan hvað best til útivistar.  Lyktin berist yfir hús kæranda og inn í það, þegar gluggar séu opnir, og valdi kæranda og gestum hans óþægindum.  Í fjósinu séu viftur sem dæli út fjósaloftinu til að draga úr lykt innandyra og komi það niður á kæranda.  Vogafjós sé skammt frá húsi kæranda og fylgi atvinnurekstrinum þar hávaði af umferð bíla og vinnuvéla, oft frá morgni og langt fram á kvöld.  Þá myndi heyrúllur þar virkisvegg og sé það ekkert augnayndi.  Útsýni kæranda frá húsi sínu til Bláfjalls, sem sé ein aðalperla Mývatnssveitar, hverfi endanlega með hinni fyrirhuguðu viðbyggingu.  Þá telji kærandi að verðgildi fasteignar hans rýrni eftir því sem umfang Vogafjóss aukist. 

Kærandi geri athugasemd við að grafið hafi verið fyrir viðbyggingunni haustið 2012.  Framkvæmdaaðilar telji greinilega fullvíst að framkvæmdin verði heimiluð og sé byggingarefni komið á staðinn.  Aldrei hafi verið rætt við kæranda um fyrirhugaða stækkun Vogafjóss, hvorki af hálfu framkvæmdaaðila né byggingarfulltrúa. 

Málsrök Skútustaðahrepps:  Það sé mat skipulags- og umhverfisnefndar og sveitarstjórnar að umrædd viðbygging sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi.  Með hliðsjón af því og að ekki hafi verið fyrir hendi deiliskipulag á svæðinu hafi þótt rétt að grenndarkynna tillöguna fyrir nágrönnum, þ.e. öllum eigendum fasteigna með fasta búsetu vatnsmegin vegar í Vogum. 

Stækkun Vogafjóss sé eingöngu ætluð til að auka og bæta vinnuaðstöðu í veitingasölu en ekki til stækkunar á veitingasal eða fjölgunar gesta.  Vakin sé athygli á því að kærandi hafi undirritað yfirlýsingu, dags. 3. september 2008, og hafi þar ekki gert neinar athugasemdir við stækkun Vogafjóss, sem þá hafi verið fyrirhuguð.  Engar hugmyndir um hótel á staðnum hafi verið kynntar sveitarfélaginu.  Þá sé bent á samþykkt sveitarstjórnar um að frekari framkvæmdir í Vogum skuli háðar því að fyrir liggi samþykkt deiliskipulag.  Vakin sé athygli á því að stækkunin miði einungis að því að bæta vinnuaðstöðu í veitingasölu. Stækkunin muni ekki hafa áhrif á ólykt frá fjósinu, og á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. desember 2012 hafi verið bókað að nefndin myndi gera þær kröfur til eigenda Vogafjóss að umferð véla og tækja utan venjulegs dagvinnutíma yrði haldið í algjöru lágmarki og einungis leyfð í undantekningartilfellum.  Jafnframt yrði farið fram á að heyrúllum yrði fundinn staður sem nágrannar gætu sætt sig við. 

Athugasemd kæranda varðandi skerðingu á útsýni sé talin réttmæt en ekki hafi verið sýnt fram á með neinum rökum að verðgildi húss kæranda muni minnka við stækkun Vogafjóss. 

Framkvæmdaaðila hefði verið gerð grein fyrir því að engar framkvæmdir yrðu heimilaðar fyrr en skilyrði til útgáfu byggingarleyfis hefðu verið uppfyllt.  Að hans sögn hefði verið farið í jarðvegsskipti, sem þurft hefði að ráðast í hvort sem af viðbyggingunni yrði eða ekki. 

Bent sé á að grenndarkynning sé hin lögboðna leið til að kynna fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir.  Í grenndarkynningarbréfi sem sent hafi verið viðkomandi aðilum hafi verið tekið fram að skipulagsfulltrúi gæfi nánari upplýsingar ef eftir þeim yrði leitað.  Það sé ekki hlutverk skipulagsfulltrúa að hafa frumkvæði að frekari kynningum nema eftir því sé leitað sérstaklega. 
_____

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 um að veita leyfi til að reisa viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og var erindi byggingarleyfishafa grenndarkynnt með vísan til 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var Aðalskipulag Skútustaðahrepps 1996-2015 í gildi.  Samkvæmt því er jörðin Vogar 1 skilgreind sem landbúnaðarsvæði/heimalönd.  Í greinargerð skipulagsins segir m.a. varðandi framtíðarbyggð í Vogum að áhersla sé lögð á að halda svæðinu vatnsmegin við þjóðveginn óbreyttu hvað landnýtingu varði.  Þá sé ekki gert ráð fyrir nýbyggingum af neinu tagi þeim megin vegar öðrum en byggingum vegna landbúnaðar.  Umdeild viðbygging er ætluð undir aðstöðu starfsfólks við þá starfsemi sem þegar er rekin á umræddri jörð og tengist m.a. þjónustu við ferðamenn.  Sú starfsemi og húsakostur er henni fylgir var heimiluð á sínum tíma og sæta ákvarðanir þar að lútandi ekki endurskoðun í máli þessu.  Telja verður, eins og hér stendur sérstaklega á, að viðbyggingin sem ætluð er fyrir starfsfólk búsins fari ekki í bága við gr. 4.14.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin, þar sem kveðið er á um að á landbúnaðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni. 

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi.  Samkvæmt III. hluta 1. kafla greinargerðar þágildandi Aðalskipulags Skútustaðahrepps 1996-2015 er svæðið Vogar skilgreint sem þéttbýliskjarni.  Umfang og staðsetning hinnar umdeildu byggingar verður ekki talin fela í sér breytingu á þéttleika byggðar eða byggðamynstri í skilningi áðurnefnds ákvæðis.  Eins og atvikum er háttað var því heimilt að afgreiða umsókn um hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu. 

Umrædd bygging er rúmlega 116 m2 að flatarmáli, á einni hæð.  Vegghæð er 2,60 m og hæsta mænishæð 4,53 m og stendur byggingin í töluverðri fjarlægð frá næstu húsum.  Þótt byggingin hljóti eðli máls samkvæmt að hafa einhver grenndaráhrif, svo sem skerðingu á útsýni, verða þau áhrif ekki slík að valdið geti ógildingu hins kærða byggingarleyfis. 

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leiða eigi til ógildingar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 um að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

________________________________              ________________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

31/2013 Reykjanes Súðavíkurhreppi

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps um álagningu sorphirðu- og rotþróargjalds fyrir árin 2012 og 2013 vegna fasteignarinnar Reykjaness, lóð 1, í Súðavíkurhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2013, er barst nefndinni 20. s.m., kærir M,  þá ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps að leggja sorphirðu- og rotþróargjald á fasteignina Reykjanes, lóð 1, fnr. 212-7416, Súðavíkurhreppi.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að álagningin verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Súðavíkurhreppi 30. apríl 2013. 

Málavextir:  Álagningarseðill fasteignagjalda í Súðavíkurhreppi fyrir árið 2013 er dagsettur 15. febrúar 2013.  Í bréfi sem fylgdi álagningarseðlinum kemur fram að kærufrestur álagningar sé til 20. mars 2013 en ekki er tiltekið hvert skuli kæra.  Kæranda var gert að greiða 18.631 krónu í sorpgjald og 15.500 krónur í rotþróargjald vegna Reykjaness, lóðar 1, fnr. 212-7416.  Fasteignin er sumarhús kæranda.  Kærandi kveður enga þjónustu hafa verið veitta á móti gjöldunum og snýst málið um það hvort álagningin hafi verið heimil. 

Málsrök kæranda:  Fram kemur í kæru að sorpgjöld fyrir árin 2012 og 2013 hafi numið 18.631 krónu hvort ár, og rotþróargjöld 15.500 krónum á ári.  Þjónusta af þessu tagi hafi þó ekki verið veitt.  Enginn ruslagámur sé við Hveravík og rotþróin þar hafi aldrei verið hreinsuð af aðilum á vegum Súðavíkurhrepps.  Kærandi hafi beðið hreppinn um skýringar á umræddum gjöldum en þær hafi ekki fengist.  Vísað sé til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, um að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.  Þá sé vísað til samþykktar um fráveitur og notkun og hreinsun rotþróa í Súðavíkurhreppi. 

Málsrök Súðavíkurhrepps:  Af hálfu Súðavíkurhrepps er vísað til þess að samþykkt hafi verið á fundi sveitarstjórnar 23. nóvember 2011 að leggja rotþróargjald á allar fasteignir fyrir árið 2012 sem ekki séu tengdar frárennsliskerfi.  Jafnframt hafi verið samþykkt gjaldskrá fyrir fráveitur í Súðavíkurhreppi. 

Verkferlum við hreinsun rotþróa hafi verið breytt og áætlað að sumarið 2012 yrði gerð úttekt á aðgengi að rotþróm, sem og stærð og fjölda þeirra.  Þær yrðu síðan hreinsaðar.  Vorið 2012 hafi verið ákveðið að fresta því að hefja kerfisbundna tæmingu rotþróa í sveitarfélaginu til sumarsins 2013. 

Miðað sé við að kerfisbundin hreinsun fari fram á tveggja ára fresti, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru.  Álögð rotþróargjöld tveggja ára eigi að standa undir þeim kostnaði, auk kostnaðar vegna viðbótarútkalla við hreinsun stakra rotþróa.  Skv. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sé heimilt að setja ákvæði um gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu í samþykktir. 

Súðavíkurhreppur hafi greitt 26.165 krónur fyrir hverja hreinsaða rotþró á árinu 2013 þegar allar þrær hafi verið hreinsaðar, auk kostnaðar við gistingu og fæði verktaka.  Gert hafi verið ráð fyrir að hreinsun tæki nokkra daga, en 72 af 75 rotþróm séu í dreifbýli. 

Álögð rotþróargjöld og beinn kostnaður við hreinsun rotþróa sé sem hér segi: 

Ár   Álögð heildargjöld  Heildarkostnaður við hreinsun
2012  1.162.500 kr.      905.619 kr.
2013  1.165.500 kr.   2.162.375 kr. áætlað

Fyrir árið 2013 hafi verið lagt á rotþróargjald í lægsta gjaldflokki, 15.500 krónur.  Fyrirhugað sé að endurskoðun álagðra rotþróargjalda fari fram við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2014.  Komi í ljós að kostnaður vegna hreinsunar hafi verið hærri en álögð gjöld sé gert ráð fyrir hækkun gjalda og að sama skapi sé gert ráð fyrir lækkun, sé kostnaður lægri en álögð gjöld. 

Álagt gjald á sumarhús í dreifbýli vegna sorphirðu- og eyðingar hafi verið 18.631 króna á árinu 2013. 

Álögð gjöld og beinn kostnaður við sorphirðu og eyðingu sorps vegna fyrirtækja, sumarhúsa og lögbýla í dreifbýli Súðavíkurhrepps sé sem hér segi:

Ár  Álögð heildarsorpgjöld  Heildarkostnaður við sorphreinsun
2011  2.022.246 kr.    2.202.241 kr.
2012  2.117.216 kr.    1.679.731 kr.
2013  2.244.207 kr.    2.200.000 kr. áætlað

Sumarið 2013 sé fyrirhugað að yfirfara sorpgáma í dreifbýli og lagfæra og mála þá sem þurfi. 

Niðurstaða:  Í máli þessu krefst kærandi þess að sorpgjald og rotþróargjald vegna fasteignarinnar Reykjanes, lóð 1, fnr. 212-7416, Súðavíkurhreppi, fyrir árin 2012 og 2013 verði felld úr gildi. 

Álagningarseðill ársins 2012 er dagsettur 21. febrúar 2012.  Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana.  Kærufrestur vegna álagðra gjalda á fasteign kæranda fyrir árið 2012 var því löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 20. mars 2013.  Verður þeim þætti málsins vísað frá nefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga, en kæra álagningar fyrir árið 2013 verður tekin til efnislegrar meðferðar. 

Í málinu er í fyrsta lagi deilt um álagningu sorpgjalds.  Um sorphirðu gilda ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Í Súðavíkurhreppi hefur verið sett samþykkt nr. 816/2003 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu.  Samþykktin var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. nóvember 2003.  Þá hefur hreppurinn sett gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorphirðingu í Súðavíkurhreppi nr. 1141/2011, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember 2011. 

Í 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er mælt fyrir um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs.  Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað sveitarfélagsins, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr.  Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. 11. gr.  Í greinargerð með ákvæðinu segir að eðlilegt þyki að greitt sé mismunandi gjald eftir tegundum fasteigna.  Þar sem umfang þjónustunnar sé eðli máls samkvæmt mismunandi sé ljóst að heildartekjur sveitarfélags á grundvelli gjaldsins megi ekki vera hærri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangsins. 

Í samþykkt hreppsins segir að heimilt sé að ákveða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta eða þjónustustig og að gjöld skuli vera sem næst meðalraunkostnaði við þá þjónustu sem veitt sé, sbr. 2. mgr. 7. gr.  Gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustunnar, sbr. 3. mgr. 7. gr.  Í gjaldskrá segir að á hvert sumarhús í dreifbýli Súðavíkurhrepps skuli lagt gjald að fjárhæð 18.631 króna. 

Heimilt er skv. framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 2. og 3. mgr. 7. gr. samþykktar sveitarfélagsins að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign.  Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hans.  Þá verður að telja að ekki hafi verið slíkur munur á heildarútgjöldum og heildartekjum vegna meðhöndlunar sorps að fari í bága við 3. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. 

Í öðru lagi er deilt um álagningu rotþróargjalds.  Losun og hirðing seyru úr rotþróm telst vera meðhöndlun úrgangs í skilningi laga um meðhöndlun úrgangs, en þau lög ganga sem yngri sérlög framar lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

Samþykkt um fráveitur og notkun og hreinsun rotþróa í Súðavíkurhreppi nr. 813/2003 var sett á grundvelli 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og X. kafla vatnalaga nr. 15/1923.  Samþykktin var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. nóvember 2003.  Gjaldskrá fyrir fráveitur í Súðavíkurhreppi nr. 1140/2011 var sett með vísan til X. kafla vatnalaga og 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember 2011. 

Skv. 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs skal sveitarfélag ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimils- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu.  Þá ber sveitarstjórn ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs, en seyra úr rotþróm við sumarhús telst vera heimilisúrgangur í skilningi laga nr. 55/2003.  Var sveitarfélaginu þannig heimilt og skylt að ákveða fyrirkomulag á hirðingu seyru úr rotþróm við fasteignir í sveitarfélaginu, sbr. einnig 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru, en þar segir að sveitarfélög skuli sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm. 

Samkvæmt 8. gr. samþykktar um fráveitur og notkun og hreinsun rotþróa í Súðavíkurhreppi skulu rotþrær tæmdar reglulega og ekki sjaldnar en annað hvort ár, en húseigandi skal sjá um að aðgangur sé greiður með hreinsitæki að rotþrónni.  Í 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs segir m.a. að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og að heimilt sé að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við þjónustustig. 

Um gjaldtöku segir í 9. gr. nefndrar samþykktar að hreppsnefnd sé heimilt að innheimta gjöld vegna hreinsunar rotþróa samkvæmt gjaldskrá.  Gjöld megi ekki vera hærri en sem nemi röstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.  Gjöldin skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti framangreindrar þjónustu.  Í gjaldskrá segir að rotþróargjald skuli vera 15.500 krónur á ári fyrir rotþró sem er undir 4.000 lítrum, sbr. 4. gr., en heimilt er skv. 11. gr. samþykktarinnar að lækka gjaldið sé um að ræða einstaklinga með takmarkaða greiðslugetu. 

Telja verður heimilt, skv. framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 9. gr. samþykktar sveitarfélagsins, að byggja gjöldin á eðlilegri áætlun heildarkostnaðar, sem jafnað er niður á ætlaðan fjölda notenda, en fyrir liggur að heildartekjur eru nálægt því að vera þær sömu og heildarútgjöld í málaflokknum, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. 

Með vísan til þess sem hér er rakið teljast umdeild álögð gjöld vera lögum samkvæmt og verður kröfu um ógildingu álagningarinnar hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps um að leggja sorphirðu- og rotþróargjald á fasteignina Reykjanes, lóð 1, fnr. 212-7416, Súðavíkurhreppi. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

99/2013 Kjarrás Hvalfjarðarsveit

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 99/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 8. júlí 2013, um að viðbygging við sumarhús við Kjarrás 1a verði fjarlægð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi innanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. október 2013, var kæra, dags. og mótt. 7. október s.á., framsend nefndinni en þar kærir V, ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 8. júlí 2013, um að viðbygging við sumarhús við Kjarrás 1a verði fjarlægð. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og er jafnframt gerð krafa um frestun réttaráhrifa hennar.  Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram kominnar kröfu um frestun réttaráhrifa. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Hvalfjarðarsveit hinn 31. október 2013. 

Með bréfi, dags. 16. desember 2013, barst úrskurðarnefndinni frekari rökstuðningur og gögn frá kæranda.  Var þar jafnframt gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr hendi úrskurðarnefndarinnar, Hvalfjarðarsveitar eða innanríkisráðuneytis.   

Málavextir:  Kærandi varð skráður eigandi að umræddu sumarhúsi hinn 4. desember 2008 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá en fram að þeim tíma var Z skráður eigandi þess. 

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda en hinn 19. maí 2006 fékk fyrrum eigandi fasteignarinnar, sem þá var eiginmaður kæranda, byggingarleyfi fyrir sumarhúsi að Kjarrási 1a í Hvalfjarðarstrandarhreppi.  Hinn 10. september 2008 tilkynnti skipulags- og byggingarnefnd Hvalfjarðarsveitar byggingarleyfishafa að við eftirlit 9. september s.á. hefði komið í ljós að sumarhús hans, sem verið væri að byggja á lóðinni, væri ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Þess væri krafist að farið yrði eftir samþykktum uppdráttum og fjarlægðar yrðu þær framkvæmdir sem ekki væru í samræmi við þá.  Kom byggingarleyfishafi að andmælum með bréfi til byggingarfulltrúa og tók fram að hann hefði staðsett húsið samkvæmt skýrum fyrirmælum þáverandi byggingarfulltrúa.  Málið var til meðferðar hjá skipulags- og byggingarnefnd á nokkrum fundum næstu árin og tölvupóstsamskipti áttu sér stað milli lögmanns byggingarleyfishafa og skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins.  Í kjölfar athugasemda Félags landeigenda í Glammastaðalandi, dags. 7. mars 2013, við aðstæður á lóð kæranda var málið tekið upp að nýju.  Þá sendi áðurnefnt félag athugasemdir til Skipulagsstofnunar um að sveitarfélagið væri ekki að framfylgja lögum hvað Kjarrás 1a varðaði.  Með bréfi, dags. 14. maí 2013, beindi Skipulagsstofnun fyrirspurn til sveitarfélagsins um stöðu málsins og hvaða úrræða væri að vænta. 

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 8. júlí 2013, var vísað til þess að við eftirlit 9. september 2008 og 5. júlí 2013 hefði komið í ljós að sumarhús kæranda væri ekki innan byggingarreits en samkvæmt byggingarskilmálum svæðisins sé ekki heimilt að byggja nær lóðarmörkum en 10 m.  Samkvæmt mælingum sem gerðar hafi verið 5. júlí 2013 sjáist að reist hafi verið viðbygging án byggingarleyfis sem gangi 1,8 m út fyrir byggingarreit og sé þar af leiðandi 8,2 m frá lóðarmörkum.  Þess sé krafist að umrædd viðbygging verði fjarlægð innan sex mánaða frá útgáfu bréfsins, sbr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að honum hafi ekki verið leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest vegna hinnar kærðu ákvörðunar og ekki fengið að koma að andmælum.  Þar að auki hafi hann ekki fengið upplýsingar um mælingar sem framkvæmdar hafi verið 5. júlí 2013.  Myndir hafi verið teknar af eigninni án vitundar kæranda, en samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni Alþingis hefði þurft að tilkynna slíkar fyrirætlanir til kæranda sem eiganda eignarinnar. 

Við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr., meðalhófsreglu 12. gr., andmælarétti skv. 13. gr., tilkynningaskyldu skv. 14. gr. og upplýsingarétti skv. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá sé bent á að mælingum sveitarfélagsins beri ekki saman.  Upprunalegar mælingar skipulags- og byggingafulltrúa hafi leitt til þess að grunnur húss kæranda hafi verið staðsettur þar sem hann sé.  Ekki verði séð af hverju beri að líta til annarra mælinga fremur en þeirra.  Kærandi hafi hvorki fengið að andmæla mælingum sveitarfélagsins né láta gera sínar eigin.

Standi skipulags- og byggingarfulltrúi við hina kærðu ákvörðun verði hann að gæta að lögum og senda kæranda bréf um nýjar mælingar, tímasetningu þeirra svo kærandi geti verið viðstaddur, veita kæranda andmælarétt og leiðbeina um kæruheimild og kærufrest vegna ákvörðunarinnar. 

Málsrök Hvalfjarðarsveitar:  Vísað er til þess að haldnir hafi verið fundir með eigendum, þar á meðal kæranda, á fyrri stigum máls.  Mörg símtöl hafi átt sér stað milli eigenda og starfsmanna sveitarfélagsins og hafi kærandi fengið upplýsingar um kæruheimild og kærufrest á þeim vettvangi.  Þótt þær upplýsingar hafi ekki verið í bréfi til kæranda, dags. 8. júlí 2013, teljist sá annmarki ekki verulegur, enda hafi hann ekki haft áhrif á hina kærðu ákvörðun og geti því ekki leitt til ógildingar hennar.  Þá beri að líta til þess að kærandi hafi ekki orðið fyrir réttarspjöllum enda hafi hann nýtt kærurétt sinn.  Andmælaréttur kæranda hafi verið virtur með því að honum hafi verið fullljóst um stöðu mála á öllum stigum. Hann hafi fengið ítrekuð tækifæri til að andmæla og bregðast við, auk þess sem hann hafi notið lögmannsaðstoðar.

Ljóst sé að málið hafi ekki fengið þá framvindu sem gera megi kröfu til.  Sá dráttur sem hafi orðið sé kæranda hins vegar í vil.  Þar sem málið hafi ekki gengið fram sem skyldi hafi sveitarfélagið á árinu 2013 farið yfir gögn og látið gera mælingar við lóð kæranda hinn 5. júlí s.á.  Niðurstaða þeirra mælinga hafi staðfest að viðbygging sé út fyrir byggingarreit og staðfesti jafnframt að kærandi hafi ekki sinnt fyrri kröfum um að færa bygginguna í rétt horf.  Þá sé bent á að sá frestur sem kæranda hafi verið veittur til að fjarlægja viðbygginguna sé rúmur og ekki íþyngjandi. 

——-

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu var móttekin 7. október 2013, eða þremur mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa.  Verður því að líta svo á að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá varð kærandi skráður eigandi eignarinnar Kjarráss 1a hinn 4. desember 2008.  Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga áður en honum var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 8. júlí 2013, en bréf sveitarfélagsins vegna málsins eftir eigendaskipti voru send fyrri eiganda.  Með vísan til framangreinds og með hliðsjón af 13. gr. stjórnsýslulaga er hin kærða ákvörðun því felld úr gildi. 

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kæranda um málskostnað því ekki til álita. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. júlí 2013 um að viðbygging við sumarhús við Kjarrás 1a verði fjarlægð. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

29/2013 Aðalstræti Patreksfjörður

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 29/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2013 vegna fasteignarinnar nr. 120 við Aðalstræti á Patreksfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl., f.h. Eignarhaldsfélagsins Fagrahvamms ehf., Fagrahvammi, Patreksfirði, þá ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar að leggja sorphirðu- og sorpeyðingargjald fyrir árið 2013 á íbúðarhúsnæði félagsins að Aðalstræti 120, Patreksfirði, fnr. 212-3788 og 212-3787.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar vegna fasteignar sem er með fastanúmer 212-3787. 

Málavextir:  Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2013 bárust kæranda 28. janúar það ár.  Honum var gert að greiða 40.800 krónur í sorpgjald vegna Aðalstrætis 120, fnr. 212-3787, og sömu upphæð vegna fasteignar á sama stað, með fnr. 212-3788.  Í bréfi er fylgdi álagningarseðlunum kom fram að sorpgjald væri lagt á fyrir bæði sorphirðu og sorpeyðingu.  Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 11. febrúar 2013, krafðist hann þess m.a. að frá sorpgjaldi fyrir Aðalstræti 120 drægjust samtals 40.800 krónur, þar sem aðeins væri notast við eina tunnu.  Kærandi ítrekaði erindi sitt með bréfi, dags. 27. s.m., en ekki verður ráðið af gögnum málsins að bréfunum hafi verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að við álagningu nefndra gjalda beri að byggja á útgjöldum sveitarfélaganna vegna hinnar veittu þjónustu, sbr. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 1. og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. 

Sorphirðu- og sorpeyðingargjöld falli í flokk þjónustugjalda.  Slík gjöld verði að meginreglu að byggja á lagaheimild og megi ekki vera hærri en sem nemi kostnaðinum sem almennt fylgi því að veita þjónustuna.  Séu þau hærri sé ekki lengur um þjónustugjöld að ræða heldur almenna tekjuöflun hins opinbera sem byggja verði á fullnægjandi skattlagningarheimild, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944.  Þjónustugjöld verði þannig að miðast við þá þjónustu sem sveitarfélagið hafi sannanlega innt af hendi. 

Fyrirsvarsmenn kæranda hafi aðsetur í þeim fasteignarhluta sem sé nr. 212-3788.  Hluti nr. 212-3787 hafi aðeins verið nýttur sem geymsla og því sé sorphirðu- eða sorpeyðingarþjónusta sveitarfélagsins ekki nýtt vegna hans.  Kærandi hafi aðeins eina sorptunnu við húsið. 

Með vísan til framangreindra lagaheimilda og eðlis þjónustugjalda krefjist kærandi þess að frá kröfu sveitarfélagsins vegna fasteignagjalda fyrir 2013 dragist 15.800 krónur vegna sorphirðugjalds og 25.000 krónur vegna sorpeyðingargjalds fyrir fasteignina nr. 212-3787.  Í gjaldskrá sveitarfélagsins vegna fasteignagjalda árið 2013 sé miðað við ákveðið verð fyrir hverja nýtta tunnu. 

Málsrök sveitarfélagsins Vesturbyggðar:  Af hálfu Vesturbyggðar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað.  Umhverfisgjöld hafi verið lögð á í sveitarfélaginu skv. gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 1237/2012.  Sé þar kveðið á um álagningu og innheimtu árlegs eyðingargjalds, sem sé 25.000 krónur fyrir íbúðarhúsnæði, og árlegs hirðingargjalds, 15.800 krónur fyrir hverja sorptunnu í þéttbýli.  Sé hið álagða gjald í samræmi við a-lið 2. gr. gjaldskrárinnar.  Heimilt sé samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð nr. 214/2004 að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu, sbr. 2. mgr. 9. gr.  Þá skuli gjöld lögð á hverja fasteign skv. 3. mgr. 9. gr. samþykktarinnar. 

Vesturbyggð veiti þjónustu við að safna sorpi, sækja það til íbúðarhúsa og flytja til eyðingar á sorpurðunarstað.  Umhverfisgjaldi sé ætlað að standa undir kostnaði við að sækja og eyða sorpi sem falli til frá íbúðarhúsnæði.  Gjaldið sé lagt á hverja íbúðarhúsaeiningu eða fastanúmer og sé við það miðað að sveitarfélagið láti hverri íbúð í té eina sorptunnu.  Sumir þeirra sem búi í fasteign sem skráð sé sem tvö fastanúmer hafi kosið að nota aðeins eina sorptunnu þótt þeir eigi rétt á tveimur. 

Sveitarfélagið vísi einnig til þess að tekjur vegna sorphirðu í Vesturbyggð á árunum 2009-2011 hafi verið 76.874.329 krónur og gjöld 101.557.111 krónur.  Innifalin í þessum fjárhæðum sé gatnahreinsun og hreinsun opinna svæða.  Kostnaður sé þannig mun hærri en tekjur og gjaldskráin hafi verið of lág á þessum árum. 

Niðurstaða:  Álagningarseðlar bárust kæranda 28. janúar 2013 og var tekið fram í bréfi er fylgdi seðlunum að kærufrestur vegna álagningarinnar væri til 28. febrúar 2013 en ekki var tilgreint hvert kæra skyldi.  Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að ákvörðun var tilkynnt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en kæra barst úrskurðarnefndinni 15. mars 2013 eða um hálfum mánuði eftir lok kærufrests.  Krafðist kærandi endurskoðunar á hinni umdeildu álagningu með bréfum til sveitarfélagsins, dags. 11. og 27. febrúar 2013, en ekki verður af málsgögnum ráðið að þeim bréfum hafi verið svarað.  Var því kærufrestur ekki liðinn þegar kæra barst nefndinni, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Í málinu er deilt um álagningu sorpgjalds vegna Aðalstrætis 120 á Patreksfirði.  Um sorphirðu gilda ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Í 11. gr. nefndra laga er mælt fyrir um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs.  Heimilt er að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi.  Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr.  Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. skal gjaldið aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, en í greinargerð með ákvæðinu segir að heildartekjur sveitarfélags á grundvelli gjaldsins megi ekki vera hærri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangsins.  Birta skal gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. 11. gr. 

Vesturbyggð hefur, með vísan til 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sett samþykkt nr. 214/2004 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu.  Samþykktin var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. mars 2004.  Þá hefur sveitarfélagið, með vísan til 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sett gjaldskrá fyrir umhverfisgjöld í Vesturbyggð nr. 1237/2012, sem birt var 4. janúar 2013.  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var heildarkostnaður Vesturbyggðar við sorphirðu og sorpeyðingu árin 2009 til og með 2012 123.546.133 krónur og álögð gjöld vegna sorphirðu og sorpeyðingar sömu ár námu 109.523.640 krónum.  Er álagningin samkvæmt því í samræmi við skilyrði laganna um að álagning umræddra gjalda fari ekki fram úr  kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu. 

Í framangreindri samþykkt segir að heimilt sé að ákveða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 9. gr.  Einnig segir að gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustunnar, sbr. 3. mgr. 9. gr.  Í gjaldskránni er kveðið á um að umhverfisgjald að fjárhæð 25.000 krónur skuli innheimt árlega fyrir einstakar íbúðir, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr. a.  Þá skuli hirðingargjald innheimt árlega, að fjárhæð 15.800 krónur á hverja sorptunnu, sbr. a-lið 2. mgr. greinds ákvæðis. 

Samkvæmt framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 2. og 3. mgr. 9. gr. samþykktar sveitarfélagsins er heimilt að haga gjaldtöku svonefnds umhverfisgjalds á þann veg að heildarkostnaði sveitarfélagsins sé jafnað á hverja gjaldskylda fasteign.  Hirðingargjaldið að fjárhæð 15.800 krónur miðast hins vegar samkvæmt gjaldskrá við fjölda sorptunna.  Ekki er fyrir hendi heimild fyrir sveitarfélagið til þess að ákveða fjölda sorptunna fyrir hverja fasteign en óumdeilt er að aðeins ein tunna er við hús kæranda.  Skortir því lagastoð fyrir því að leggja hirðingargjald vegna tveggja sorptunna á eiganda Aðalstrætis 120 og verður umdeild álagning af þeim sökum felld úr gildi að því er varðar sorpílát umfram eitt. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning hirðingargjalds vegna fasteignar kæranda að Aðalstræti 120, Patreksfirði, að fjárhæð 15.800 krónur. 

______________________
Ómar Stefánsson

_______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

70/2012 Vesturvallareitur Reykjavík

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2012, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. apríl 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Vesturvallareit í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ástríður Gísladóttir hrl., f.h. H, Vesturvallagötu 2, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. apríl 2012 að samþykkja deiliskipulag Vesturvallareits.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að ákvörðunin verði felld úr gildi að því leyti sem hún brjóti gegn hagsmunum og réttindum kæranda.  Jafnframt er gerð krafa um að lagt verði fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík að lagfæra skipulagið hvað það varði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 11. september 2012.

Málavextir:  Hinn 13. apríl 2011 var á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur lögð fram lýsing skipulags- og byggingarsviðs á skipulagsverkefni fyrir Vesturvallareit, sem og húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur fyrir reitinn.  Markast reiturinn, sem hefur staðgreininúmer 1.134.5, af Vesturvallagötu, Sólvallagötu, Framnesvegi og Holtsgötu.  Í greindri lýsingu er m.a. tiltekið að megintilefni skipulagsvinnunnar hafi verið það að skipulagsráð hafi samþykkt á árinu 2009 að hefja undirbúning að skipulagsvinnu á reitnum í kjölfar umsóknar sem borist hafði Reykjavíkurborg um leyfi til að reisa viðbyggingu við hús á lóð nr. 4 við Vesturvallagötu.  Var á fundi skipulagsráðs fært til bókar að lýsingin væri samþykkt til kynningar og umsagnar, m.a. Skipulagsstofnunar, og málinu vísað til borgarráðs.  Hús kæranda, sem er einlyft með kjallara og risi stendur á næstu lóð við hliðina, þ.e. að Vesturvallagötu 2.

Með bréfi skipulags- og byggingarsviðs, dags. 20. apríl 2011, var hagsmunaaðilum send lýsing Vesturvallareits og þeim veitt færi á að koma að athugasemdum og ábendingum við hana, jafnframt því að vera boðaðir til fundar vegna málsins.  Umsögn barst frá Skipulagsstofnun sem gerði ekki athugasemd við nefnda lýsingu og á fundi borgarráðs 28. apríl 2011 var lýsingin samþykkt.

Tillaga að deiliskipulagi umrædds reits var lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 9. nóvember 2011.  Var þar samþykkt að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum á skipulagssvæðinu og þeim sem komið höfðu að athugasemdum.  Gerði tillagan m.a. ráð fyrir að á baklóð Vesturvallagötu 4 yrði heimiluð tvílyft viðbygging er tengd yrði við eldra hús á lóðinni, og að á lóð Vesturvallagötu 2 yrði heimilað að reisa einlyft hús með risi og kjallara, auk húss sem fyrir væri á lóðinni.  Kom kærandi að athugasemdum við tillöguna og mótmælti nýbyggingu á lóð Vesturvallagötu 4, m.a. vegna staðsetningar og skuggavarps, og fór enn fremur fram á að heimilað yrði í deiliskipulagi að hús hans yrði tvær hæðir og ris, líkt og á teikningu af húsinu frá 1928.  Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 11. janúar 2012, þar sem m.a. lágu fyrir athugasemdir er borist höfðu á kynningartíma og umsögn skipulagsstjóra, dags. 5. janúar 2011.  Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu þegar uppdrættir hefðu verið lagfærðir í samræmi við umsögn skipulagsstjóra, en í henni var m.a. lagst gegn því að orðið yrði við fyrrgreindum óskum kæranda.  Málinu var jafnframt vísað til borgarráðs.  Tillagan var tekin fyrir á ný á fundi skipulagsráðs hinn 25. janúar s.á.  Var bókun frá fundinum 11. s.m. þá lagfærð og samþykkt að nýju hvað auglýsingu og vísun til borgarráðs ræðir.  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu á fundi sínum 26. s.m.

Hinn 8. febrúar 2012 var tillaga að deiliskipulagi umrædds reits auglýst til kynningar. Kom kærandi á ný fram athugasemdum sínum og áréttaði áður fram komna beiðni sína.  Á fundi skipulagsráðs hinn 11. apríl 2012 var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt athugasemdum og umsögn skipulagsstjóra, dags. 30. mars s.á.  Var tillagan samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar, án breytinga vegna lóða nr. 2 og 4 við Vesturvallagötu.  Borgarráð samþykkti nefnda afgreiðslu hinn 26. s.m. og öðlaðist deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. júní 2012 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að heimiluð viðbygging á lóð Vesturvallagötu 4 feli í sér rúmlega 170% stækkun á eigninni.  Samræmist viðbyggingin því ekki markmiðum aðalskipulags Reykjavíkur, sem miði að því að farið sé varlega í uppbyggingu, hlúð sé að því sem fyrir sé á svæðinu og leitast við að halda í fremur smágerðan mælikvarða sem einkenni vesturbæinn.  Sé viðbyggingin í algjöru ósamræmi við heildarmynd hverfisins, en svæðið hafi verið skilgreint sem randbyggð.

Við breytinguna muni eign kæranda lokast nær algerlega af að sunnan og suðvestan og veruleg skerðing verða á birtuskilyrðum fyrir kæranda og aukið skuggavarp.  Leiði þetta til lakari lífsgæða en kærandi hefði mátt gera ráð fyrir þegar hann festi kaup á eign sinni og rýri verðgildi og gæði eignarinnar umfram það sem eðlilegt geti talist.

Skipulagið leiði til þess að hús kæranda verði lægra en önnur hús í nágrenninu, sem séu tvær hæðir og ris, auk þess sem fjögurra hæða fjölbýlishús séu til hliðar við fasteign kæranda, við Holtsgötu 17, og á móti við Vesturvallagötu.  Bendi kærandi á að verði hús hans tvær hæðir og ris verði engar skerðingar á birtuskilyrðum fyrir hús í næsta nágrenni sambærilegar við það sem verði ef reist yrði viðbygging við húsið að Vesturvallagötu 4.

Fasteign kæranda sé reist árið 1928 og fyrir liggi fullgild og samþykkt teikning byggingarnefndar Reykjavíkur frá sama ári, sem geri ráð fyrir að hús hans verði tvær hæðir og ris og nái upp fyrir hornið á Holtsgötu.  Sé teikningin í samræmi við fjölmörg hús sem reist hafi verið á þessum tíma.  Húsið hafi þó ekki hafa verið fullklárað.  Sé það nú ein hæð og ris og nái ekki út að horni, en kærandi hafi ítrekað gert þær kröfur að deiliskipulagið heimilaði að húsið yrði fullbyggt og tæki mið af samþykktum teikningum.  Hafi skipulagsyfirvöld upp á sitt einsdæmi gert ráð fyrir aukningu sem ekki sé í neinu samræmi við upphaflega teikningu.

Með setningu deiliskipulagsins hafi heimildir kæranda verið skertar umfram það sem hefði mátt vænta við kaup hússins og eignarréttur kæranda þar með skertur verulega og án heimildar.  Sé hvorki til að dreifa haldbærum skýringum eða rökstuðningi skipulagsyfirvalda á því hverjar ástæður þess séu, né hvers vegna eigendum fasteigna á svæðinu sé mismunað og þannig brotið gegn jafnræðisreglu.  Brjóti ákvörðunin í bága við réttindi kæranda og lög og sé því ógildanleg.

Þá sé vísað til þess að ekki sé í deiliskipulaginu tekið tillit til lágmarks fjarlægðar á milli húsa, sbr. gr. 9.7.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Fylla eigi upp í port sem sé á milli umræddra húsa og muni nýbyggingin ná upp að húsi kæranda en ekki hafi verið tekið á því í deiliskipulaginu hvernig fara skuli með lagnir sem í portinu séu og tilheyri Vesturvallagötu 2.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Því sé mótmælt að fyrirhuguð viðbygging að Vesturvallagötu 4 muni skerða hagsmuni kæranda.  Markmið deiliskipulagsins sé að unnt verði að varðveita húsið að Vesturvallagötu 4, sem reist hafi verið árið 1901 og sé um 30 m² að grunnfleti.  Hafi eigendur þess um langt skeið óskað eftir því að fá að byggja við húsið, þ.e. að halda gamla húsinu óbreyttu, en reisa nýtt hús innar á lóðinni og tengja það gamla húsinu.  Tillaga að viðbyggingu hússins sé unnin með það fyrir augum að hlúa að sérkennum gamla vesturbæjarins og halda í „fremur smágerðan mælikvarða sem einkenni vesturbæinn“.  Sé viðbyggingin lægri en hús kæranda.  Hafi Reykjavíkurborg talið rétt að koma til móts við sjónarmið eigenda Vesturvallagötu 4 og telji að það hafi tekist án þess að gengið sé gegn rétti nágranna.

Byggðamynstur sé ekki heildstætt á skipulagsreitnum en gert sé ráð fyrir verndun götumyndar Vesturvallagötu, þ.e. húsa nr. 2, 4, og 6, í samræmi við húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur.  Ekki sé tekið undir að viðbyggingin muni varpa óeðlilega miklum skugga á lóð kæranda.  Lóð Vesturvallagötu 4 sé vestan við lóð kæranda en ekki sunnan við hana og húsið að Vesturvallagötu 2 skyggi því mest á eigin lóð á hádegi.

Tilvitnun kæranda til aðalskipulags Reykjavíkur sé tilvitnun í markmið sem finna megi í lýsingu og greinargerð deiliskipulags Vesturvallareits en sé hvergi að finna í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Í því skipulagi sé enga ákveðna stefnu að finna um verndun eldri byggðar í vesturbæ Reykjavíkur.  Hugsanlegt sé að kærandi hafi lesið þetta út úr drögum að nýju aðalskipulagi, þ.e. borgarverndarstefnunni, eða þá ritinu „Húsvernd í Reykjavík“, sem hafi verið fylgiskjal með gildandi aðalskipulagi en sé ekki staðfestur hluti þess.

Verði hús kæranda stækkað eins og staðið hafi til árið 1928 sé ekki mögulegt að varðveita götumynd Vesturvallagötu 2, 4 og 6.  Samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála.  Hafa verði í huga að sveitarstjórnir annist gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Þau fari með skipulagsvald á Íslandi en hætt sé við því að það vald færi fyrir lítið ef jafnræðisreglan yrði túlkuð jafn vítt og kærandi vilji vera láta.  Mótmæli Reykjavíkurborg því að jafnræðisregla hafi verið brotin á kæranda að þessu leyti.  Jafnframt sé minnt á að almennt sé lítið um heimildir til stækkunar húsa í deiliskipulaginu og að kærandi hafi fengið heimild til að stækka hús sitt talsvert.  Hús hans sé 110,4 m² en geti eftir stækkun orðið 328,4 m².  Auk þess sé heimilt að fjölga íbúðum á lóðinni um eina.

Mjög algengt sé að hús standi þétt saman í þessum borgarhluta og sé þá eldvarnarveggur á milli þeirra.  Sé ekkert athugavert við það, enda séu þá gerðar viðeigandi kröfur um brunavarnir þegar sótt sé um byggingarleyfi.  Húsið að Vesturvallagötu 2 sé byggt að lóðarmörkum Vesturvallagötu 4. Liggi því kaldavatnslögn Vesturvallagötu 2 um sund á lóð Vesturvallagötu 4 og þurfi að færa hana verði byggt í sundið.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var m.a. heimilað að reisa annars vegar tvílyfta viðbyggingu við húsið að Vesturvallagötu 4 og hins vegar einlyft hús með kjallara og risi við hús kæranda að Vesturvallagötu 2.  Deiliskipulagið heimilar einnig hækkun hússins að Holtsgötu 25, auk óverulegra breytinga á svölum, skyggnum, litlum viðbyggingum og geymslum þar sem slíkt falli vel að húsum og umhverfi.  Þá eru m.a. verndaðar götumyndir Framnesvegar 31 og 33 og Vesturvallagötu 2, 4, og 6.

Lóðin nr. 4 við Vesturvallagötu er 191,3 m².  Er nýtingarhlutfall hennar 0,28 en verður 0,90 samkvæmt deiliskipulaginu.  Lóðin að Vesturvallagötu 2 er 248,3 m² og fer nýtingarhlutfall hennar úr 0,44 í 1,32 samkvæmt skipulaginu.  Nýtingarhlutfall annarra einbýlishúsa á reitnum, t.d. að Framnesvegi, er allt að 1,50.  Með vísan til þessa verður hið kærða deiliskipulag ekki talið hafa falið í sér mismunun gagnvart kæranda hvað varðar nýtingarrétt hans á lóð sinni.

Ýmsar málefnalegar ástæður geta ráðið því að nýtingarhlutfall einstakra lóða á deiliskipulagssvæði sé misjafnt eða að ekki sé unnt að verða við óskum lóðarhafa um heimildir deiliskipulags.  Einkum getur það átt við um skipulagsreit sem er að mestu þegar byggður við skipulagsgerð, eins og hér á við.  Borgaryfirvöld hafa m.a. gefið þá skýringu að ekki hafi þótt fært að verða við óskum kæranda um að hækka hús hans þar sem lögð sé til verndun götumyndar Vesturvallagötu 2, 4, og 6.  Þessar ástæður verður að virða sem málefnaleg skipulagsrök.

Ljóst er að umrædd viðbygging hefur grenndaráhrif á lóð kæranda enda mun nýbyggingin, sem er tvílyft, samkvæmt skýringarmynd á deiliskipulagsuppdrætti, ná alveg að einlyftu húsi kæranda.  Tengist nýbyggingin við einlyft hús sem fyrir er á lóðinni sem liggur vestan við lóð kæranda.  Fyrrgreind teikning frá árinu 1928 verður ekki talin binda hendur skipulagsyfirvalda við skipulagsgerð og hefur þegar af þeirri ástæðu ekki þýðingu um gildi umdeilds skipulags og ekki er til að dreifa ákvæðum í lögum eða reglugerðum sem hindra að byggt sé að lóðarmörkum eða kveða á um lágmarks fjarlægð milli húsa.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki talið að slíkir ágallar séu á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að leiða eigi til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar borgarráðs frá 26. apríl 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Vesturvallareit.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

86/2012 Hjálmholt

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 12. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 86/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. ágúst 2012 um að veita byggingarleyfi til að grafa frá gluggum, gera dyr úr stofu kjallaraíbúðar og útbúa verönd út í garð á lóðinni nr. 6 við Hjálmholt í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2012, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Gunnar Viðar hdl., f.h. E, Hjálmholti 6, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. ágúst 2012 að veita byggingarleyfi til að grafa frá gluggum, gera dyr úr stofu kjallaraíbúðar út í garð og útbúa verönd á lóð nr. 6 við Hjálmholt í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hjálmholt 6 er fjöleignarhús með fjórum íbúðum.  Útidyr eru á framhlið hússins en garður er á bak við.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 15. maí 2012 var í kjölfar jákvæðrar afgreiðslu á fyrirspurn tekin fyrir umsókn um leyfi til að grafa frá gluggum, gera dyr úr stofu kjallaraíbúðar og útbúa verönd á lóðinni.  Fylgdi erindinu samþykki allra meðeigenda hússins.  Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 18. maí s.á. 

Nokkru síðar, eða um 20. júlí s.á., munu synir kæranda hafa komið á fund starfsmanns hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar og komið að andmælum við fyrrgreinda afgreiðslu.  Mun starfsmaðurinn hafi farið fram á að lagt yrði fram skriflegt erindi af því tilefni en áhöld munu um hvort erindið skyldi berast innan nánar tilskilins tíma.  Með bréfi til skipulags- og byggingarsviðs, dags. 7. ágúst 2012, fór kærandi fram á að leyfishafa yrði synjað um veitingu byggingarleyfis fyrir nefndum framkvæmdum.  Byggingarleyfi var útgefið 7. ágúst 2012 og var kæranda tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 8. s.m., en í því bréfi kom einnig fram að erindi kæranda hefði verið móttekið sama dag hjá Reykjavíkurborg. 

Með tölvubréfi hinn 21. ágúst 2012 fór kærandi fram á að ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis yrði afturkölluð skv. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða endurupptekin á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 24. gr. laganna.  Hafnaði starfsmaður skipulags- og byggingarsviðs þeirri beiðni með bréfi, dags. 24. ágúst s.á., í ljósi þess hversu seint formlegar athugasemdir hefðu borist og með það í huga að framkvæmdir væru langt komnar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að á aðalfundi húsfélagsins hinn 29. apríl 2012, hafi hann í bréfi til byggingarfulltrúa veitt skriflegt samþykkti sitt fyrir gerð dyra með glerhurð úr kjallara hússins út í garð.  Í bréfinu hafi verið vísað til meðfylgjandi teikningar sem hafi verið sýnd eigendum hússins í lok fundarins og hafi þá jafnframt verið aflað undirritunar annarra á teikninguna.  Við nánari skoðun á teikningunni hafi komið í ljós að sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir mun stærri og viðameiri framkvæmdum en lýst hafi verið í nefndu bréfi til byggingarfulltrúa. 

Um meiriháttar framkvæmdir sé að ræða sem hafa muni í för með sér verulegar útlitsbreytingar á húsinu.  Muni þær leiða til verðrýrnunar á íbúð kæranda þar sem þær feli í sér gerð sérinngangs að kjallaraíbúð með auknum umgangi og ónæði fyrir kæranda.  Þá séu framkvæmdirnar þess eðlis að gengið verði allverulega á rétt kæranda til afnota sameiginlegrar lóðar þar sem töluverður hluti lóðarinnar fari undir verönd, steyptan vegg og tröppur. 

Ekki hafi verið boðað til aðalfundar húsfélagsins í samræmi við 59. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, en haft hafi verið samband símleiðis við eigendur hússins, sem og son kæranda, sama dag og fundurinn hafi verið haldinn og greint frá því að á dagskrá hans væru hefðbundin aðalfundarstörf.  Hafi sonur kæranda ekki haft tök á að mæta á fundinn og ekki talið ástæðu til að óska eftir því að fundinum yrði frestað, m.t.t. þess hvaða mál væru á dagskrá. 

Vegna langvarandi veikinda kæranda hafi synir hans verið honum innan handar um sameiginleg málefni hússins, þ.m.t. að mæta með eða fyrir kæranda á húsfundi, og hafi öllum íbúum hússins verið kunnugt um þetta.  Varði það kæranda miklu að boðað sé til húsfunda eins og lög geri ráð fyrir.  Þar sem staðið hafi verið að boðun fundarins með ólögmætum hætti hafi kærandi ekki notið þeirrar aðstoðar sem þurfti svo að hagsmuna hans yrði fyllilega gætt. 

Svo miklir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá skipulags- og byggingarsviði að varði ógildingu leyfisins, en starfsmanni þeim er rætt hafi verið við hafi verið fullkunnugt um fram komnar athugasemdir og að von væri á skriflegum athugasemdum.  Hafi starfsmaðurinn ekki tilgreint hvenær frestur til að skila inn athugasemdum yrði liðinn og í tölvupóstum milli starfsmanna sviðsins, er kærandi hafi undir höndum, sé ekki tiltekið hver sá frestur skuli vera. 

Andmælaréttur kæranda skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið virtur.  Með ólíkindum sé að sá maður sem veitt hafi kæranda frest til að setja fram skrifleg andmæli hafi síðan staðið að ákvörðun í málinu án þess að taka nokkurt tillit til sjónarmiða kæranda og þrátt fyrir að vita að sú umsókn sem fyrir lá stæðist ekki lögum samkvæmt.  Þá sé afar gagnrýnivert að tekin hafi verið ákvörðun í málinu áður en kæranda hafi fyrst verið gert viðvart um að hinn óskilgreindi tímafrestur væri að renna út.  Hafi málið því ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.  Áskilji kærandi sé rétt til að hafa uppi bótakröfur á hendur Reykjavíkurborg vegna þessa.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.  Umræddar framkvæmdir eða umfang þeirra hafi ekki getað komið kæranda á óvart en teikning að fyrirhuguðum framkvæmdum hafi legið fyrir þegar sameigendur leyfishafa hafi veitt samþykki sitt.  Jafnframt sé bent á að kærandi sé lögráða. 

Ákvæði fjöleignarhúsalaga séu frávíkjanleg, leiði það af eðli máls.  Mæti allir húseigendur á aðalfund, sem boðað hafi verið til með skemmri fyrirvara en lög greini, leiði það af eðli þess máls að fundurinn teljist lögmætur mótmæli enginn fundarmanna fundarboðinu.  Rétt sé einnig að hafa í huga 4. mgr. 62. gr. laganna þar sem segi að séu allir félagsmenn mættir geti fundurinn samþykkt afbrigði og tekið mál til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu þótt þeirra hafi ekki verið getið í fundarboði.  Umræddur fundur og þær ákvarðanir sem teknar hafi verið á honum hafi því verið fyllilega lögmætar. 

Ljóst sé að áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út hafi byggingarfulltrúi fengið samþykki kæranda fyrir framkvæmdinni, sem hann hafi verið fyllilega fær að lögum um að veita.  Málið hafi verið mjög langt komið hjá byggingarfulltrúa þegar munnlegar athugasemdir hafi borist frá sonum kæranda og hafi þeim verið veittur ríflegur frestur til að koma að athugasemdum með formlegum hætti.  Það hafi þeir ekki gert fyrr en tæpum þremur vikum síðar og á þessum vikum hafi hvorki komið fram skýring á þessum mikla drætti né ósk um frest til að skila inn athugasemdum.  Það hafi því virst augljóst að synir kæranda hefðu hætt við andmæli sín og hafi þessi langa þögn þeirra verið metin sem slík.  Aldrei hafi því reynt á andmælareglu stjórnsýslulaga í málinu.  Þrátt fyrir það hafi málið verið rannsakað og haft hafi verið samband við arkitekt leyfishafa og eftir þau símtöl hafi niðurstaðan orðið sú að ekki væri ástæða til aðgerða.  Með hliðsjón af því, og að engar formlegar athugasemdir hefðu borist hafi ekki lengur þótt forsvaranlegt að draga útgáfu byggingarleyfisins. 
 
Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.  Kærandi sé lögráða.  Ráði hann því einn sínum ákvörðunum og beri sem slíkur fulla ábyrgð á þeim.  Hafi engin skjöl verið lögð fram í málinu um að hann sé ekki andlega fær um að taka sínar ákvarðanir og bendi ekkert til þess.  Kærandi hafi ekki verið beittur neinum blekkingum.  Útskýrt hafi verið fyrir honum í hverju breytingarnar fælust og hafi hann samþykkt þær af fúsum og frjálsum vilja. 

Sú fullyrðing að synir kæranda hafi að öllu jöfnu mætt á húsfundi sé ekki alls kostar rétt.  Ávallt hafi verið mætt af hálfu leyfishafa á húsfundi en synir kæranda hafi aldrei mætt heldur kærandi sjálfur.  Um sé að ræða lítið og óformlegt húsfélag og hafi hvorki verið boðað til húsfunda með formlegum hætti né formleg stjórn verið í húsfélaginu.  Í lögum sé hvergi að finna ákvæði um skyldu húsfélags til að senda út fundardagskrá til aðila sem ekki eigi eignarhlut í viðkomandi húsi og breyti því engu um lögmæti fundarins hvort synir kæranda hefðu verið á fundinum eður ei.  Vísað sé til 3. mgr. 40. gr. laga um fjöleignarhús, en þar segi að hafi eigandi sótt fund óboðaður eða þrátt fyrir ófullnægjandi boðun geti hann ekki borið fyrir sig ágalla á fundarboðum og séu þá ákvarðanir fundarins bindandi fyrir hann.  Hafi allir eigendur hússins samþykkt umræddar framkvæmdir. 

Ekki liggi fyrir nein gögn um að framkvæmdirnar muni leiða til verðrýrnunar á íbúð kæranda og sé það því ósannað.  Megi telja að þær muni auka verðgildi íbúðar kæranda frekar en hitt og auka öryggi, t.d. vegna eldsvoða, þar sem útgönguleiðum úr íbúðinni fjölgi. 

Harðlega sé mótmælt að slíkir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá skipulags- og byggingarsviði að varði ógildingu byggingarleyfisins.  Kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma að sínum athugasemdum og andmælum áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Jafnframt hafi synir kæranda fengið nokkurra daga andmælafrest þrátt fyrir að þeir séu ekki aðilar að málinu. 

Athugasemdir kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar:  Kærandi bendir á þar sem um sé að ræða framkvæmd er feli í sér mikla breytingu á húsinu og hafi í för með sér verðrýrnun annarra íbúða þess verði að telja hæpið að það standist með vísan til meginreglna fjöleignarhúsalaga að fella þetta tilvik undir 4. mgr. 62. gr. laganna.  Undantekningar frá meginreglum skuli skýra þröngt.  Hvað varði frest sem synir kæranda hafi haft til að skila inn athugasemdum þá hafi dagsetning sú er Reykjavíkurborg tiltaki í málsrökum sínum ekki verið tilkynnt þeim sem lokafrestur og liggi það ekki fyrir í gögnum málsins.  Hafi synir kæranda bent starfsmanni skipulags- og byggingarsviðs á að þeir myndu jafnvel leita til lögmanns, en einungis 10 virkir dagar hafi verið á tímabilinu frá 20. júlí til 7. ágúst 2012. 

Grundvallaratriði sé að komið hafi fram athugasemdir sem hafi átt að gefa starfsmanni sviðsins tilefni til að rannsaka málið betur eða í það minnsta að gefa ekki út byggingarleyfi fyrr en athugasemdir hefðu borist.  Hafi í ljósi forsögu málsins verið eðlilegt að haft hefði verið samband við syni kæranda og þeim gerð ljós staða málsins. 

Athugasemdir kæranda við greinargerð byggingarleyfishafa:  Kærandi bendir á að lögræðissvipting sé viðurhlutamikil íhlutun í líf einstaklings og ekki sjálfgefið að gripið sé til þess þótt farið sé að halla undir fæti.  Megi byggingarleyfishöfum vera ljóst að kærandi þarfnist aðstoðar við athafnir daglegs lífs og þar af leiðandi einnig aðstoðar við að átta sig á áhrifum þess að samþykkja eins viðamiklar breytingar á fasteigninni og hér um ræði.  Verði enda ekki séð hvaða brýnu hagsmunir hafi krafist þess að fundur yrði haldinn og samþykki meðeigenda fengið með slíkum hraða og raun beri vitni.  Hafi leyfishöfum verið í lófa lagið að boða til fundarins eftir ákvæðum fjöleignarhúsalaga.  Ákvæði 59. gr. og 60. gr. tilvitnaðra laga kveði á um að til húsfundar skuli boða með skriflegum hætti.  Með vísan til framangreindra ákvæða og allra atvika málsins, svo sem umfangs framkvæmdarinnar og heilsufars kæranda, sé sérkennilegt að bera fyrir sig 3. mgr. 40. gr. laganna.  Hafi leyfishafar ekki útskýrt hvers vegna eðlilegt hafi verið talið að víkja frá meginreglum laganna um  fundarboðun þegar taka átti fyrir tillögu um verulegar breytingar á sameign.  Þá sé ekki hægt að sjá hvernig nefndar framkvæmdir muni auka verðgildi íbúðar kæranda. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar um veitingu byggingarleyfis vegna framkvæmda við lóð nr. 6 við Hjálmholt.  Lýtur ágreiningur málsins fyrst og fremst að því hvort lögmætt samþykki sameigenda nefndrar fasteignar fyrir umdeildum breytingum hafi legið fyrir við veitingu leyfisins.

Með hinu umdeilda byggingarleyfi eru heimilaðar breytingar á ytra byrði hússins með því að stækka þrjú gluggaop á útvegg í stofurými kjallaraíbúðar.  Sett er svalahurð í miðbilið og gluggar beggja vegna stækkaðir.  Þá er grafið frá húsi í bakgarði og útbúin verönd undir svölum efri hæða.  Skilja steyptur veggur og tröppur að garðrými og veröndina.  Umræddar breytingar munu geta haft áhrif á hagnýtingu sameiginlegrar óskiptrar lóðar með því að bætt er við nýrri aðkomuleið að umræddu húsi.
 
Samkvæmt 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu með umsókn um byggingarleyfi fylgja hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Ytra byrði húss, eins og hér um ræðir, er í sameign eigenda þess skv. 8. gr., sbr. 6. gr., laga um fjöleignarhús, og þarf því að liggja fyrir samþykki meðeigenda fyrir breytingum á slíkri sameign sem gefið er á löglega boðuðum húsfundi skv. 4. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 59. gr. laganna.  Hafi eigandi hins vegar sótt fund þrátt fyrir ófullnægjandi boðun getur hann ekki borið fyrir sig ágalla á fundarboðun og eru þá ákvarðanir fundarins bindandi fyrir hann skv. 3. mgr. 40. gr. tilvitnaðra laga.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar breytingu á útliti húss og afnotum sameignar og er slík breyting háð samþykki eigenda samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum fjöleignarhúsalaga.  Fyrir liggur að kærandi veitti á húsfundi skriflegt samþykki sitt fyrir gerð dyra með glerhurð út í garð eins og fram kemur í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 29. apríl 2012.  Teikning, er ber sömu dagsetningu, og byggingarfulltrúi samþykkti, er árituð um samþykki allra sameigenda hússins. 
Af nefndum gögnum verður ekki annað ráðið en að sú teikning hafi legið fyrir á umræddum húsfundi.  Verður að telja, eins og atvikum er háttað, að kærandi hafi veitt samþykki sitt fyrir hinum umdeildu framkvæmdum og að hann sé með vísan til 3. mgr. 40. gr. fjöleignarhúsalaga bundinn af því samþykki sínu, en ekki hefur verið sýnt fram á að kærandi hafi ekki verið til þess bær að veita það samþykki sitt. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. ágúst 2012 um að veita byggingarleyfi til að grafa frá gluggum, gera dyr úr stofu kjallaraíbúðar og útbúa verönd út í garð á lóðinni nr. 6 við Hjálmholt í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                       ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

94/2013 Starfsleyfi moltugerð

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 94/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 um að fella niður starfsleyfi til að meðhöndla moltu á Patterson flugvelli frá og með 1. janúar 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. október 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Gámaþjónustan ehf. þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 að fella niður starfsleyfi kæranda til að meðhöndla moltu á Patterson flugvelli frá og með 1. janúar 2014. 

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld  úr gildi en til vara að fyrirtækinu verði veittur rúmur frestur til að hætta umdeildri starfsemi.  Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Er málið nú tekið til meðferðar hvað varðar kröfuna um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök:  Hinn 7. september 2010 sótti kærandi um starfsleyfi fyrir eftirmeðferð á moltu og var umsóknin samþykkt hinn 6. maí s.á.  Starfsemin hófst ekki fyrir alvöru á umræddu svæði fyrr en um áramótin 2012-2013 að sögn kæranda.  Kvartanir vegna starfseminnar bárust heilbrigðiseftirliti svæðisins í ágúst 2013 og í bréfi eftirlitsins til kæranda, dags. 16. s.m., var á það bent að starfsemin uppfyllti ekki skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og þess krafist að allur úrgangur sem dreifst hafi um nærliggjandi umhverfi yrði fjarlægður.  Af því tilefni sendi kærandi  heilbrigðiseftirlitinu bréf, dags. 30. ágúst s.á. þar sem sjónarmið hans voru reifuð og þess óskað að umrædd starfsemi fengi að halda áfram að uppfylltum reglum sem heilbrigðiseftirlitið kynni að setja starfseminni.  Starfsleyfið var hins vegar afturkallað, svo sem að framan greinir.

Kærandi bendir á að eftirmeðferð moltugerðar sem hér um ræði sé í samræmi við aðferðir sem áratuga reynsla sé af bæði hérlendis og erlendis.  Engar athugasemdir hafi verið gerðar vegna starfseminnar fyrr en í ágúst sl. og hafi þegar verið brugðist við þeim.  Framganga heilbrigðiseftirlitsins í málinu fari gegn ákvæðum 18. kafla reglugerðar nr. 941/2002 og 6. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og sé sérstaklega skírskotað til 5. mgr. 26. gr. laganna.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er vísað til þess að í ljós hafi komið að moltuvinnslan hafi verið komin langt inn á vatnsverndarsvæði án heimildar og vitneskju eftirlitisins.   Mikill óþrifnaður hafi verið á svæðinu, plastdræsur fokið þar um svæðið og matarleifar í moltuhaugum dregið að sér rottur og vargfugl.   Forsenda fyrir starfsleyfinu kæranda hafi verið að moltan væri án matarleifa og plasts en kærandi hafi ekki getað komið í veg fyrir slíkt.  Í ljósi þess hafi verið talið tilgangslaust að gefa kæranda frest til úrbóta og því hafi sá einn kostur verið fyrir hendi að afturkalla leyfið.

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað verði kærandi að hafa hætt starfsemi og vikið af umræddu athafnasvæði fyrir 1. janúar 2014.

Kærandi hefur nýtt sér þann rétt að bera afturköllun umrædds starfsleyfis undir úrskurðarnefndina og er um verulega íþyngjandi ákvörðun gagnvart honum að ræða.  Ekki liggja fyrir svo knýjandi ástæður að ekki megi bíða efnisniðurstöðu í kærumálinu og verður því, með hliðsjón af atvikum, fallist á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 5. september 2013 um að fella niður starfsleyfi kæranda til að meðhöndla moltu á Patterson flugvelli frá og með 1. janúar 2014. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

66/2012 Meðalfellsvatn

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 66/2012, kæra vegna byggingar sumarbústaðar við Meðalfellsvatn í Kjósarhreppi. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2012, er barst nefndinni 20. s.m., mótmæla F, Grundargerði 2, Reykjavík og Ý, Svíþjóð, byggingu sumarbústaðar innan við 50 m frá vatnsbakka Meðalfellsvatns.

Málsatvik og rök:  Í erindi, dags. 10. júní 2012, til úrskurðarnefndarinnar mótmæla kærendur byggingu sumarbústaðar innan við 50 m frá vatnsbakka Meðalfellsvatns og falast eftir útskýringum.  Í erindinu kom fram að umræddur bústaður væri í byggingu á milli Flekkudalsvegar og austurenda vatnsins, væntanlega í landi Sands.  Jafnframt var tekið fram að ekki væri vitað hvort fyrir lægi samþykkt byggingarleyfi fyrir bústaðnum.  Kærendur vísuðu í gildandi aðalskipulag Kjósarhrepps og rökstuðning fyrir synjun skipulags- og byggingarnefndar hreppsins hinn 5. nóvember 2008 á umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir bátaskýli tilheyrandi Sandi 1 og 2.  Synjað hafi verið um það byggingarleyfi þrátt fyrir að legið hafi fyrir þinglýst leyfi fyrir byggingu bátaskýlisins á landi milli austurenda Meðalfellsvatns og Sands 20A þegar „leiguleyfi á Sandi 1 og 2 var keypt á sínum tíma“. 

———-

Í ljósi vafa um hvort umrætt erindi ætti undir úrskurðarnefndina var kærendum sent tölvubréf hinn 22. júní 2012 og óskað skýringa.  Bent var á að með erindinu væri ekki verið að kæra tiltekna ákvörðun og ekki hefði verið gerð grein fyrir því hvernig umrædd bygging snerti hagsmuni kærenda.  Úrskurðarnefndin ítrekaði fyrirspurn sína 2. ágúst 2012 og 2. apríl 2013.  Hinn 4. apríl 2013 barst svarbréf frá kærendum.  Þar var tekið fram að kærendur hafi ekki litið á fyrirspurn sína sem kæru en það mætti meðhöndla hana sem svo.  Ástæða fyrirspurnarinnar hafi verið sú að við kaup á bústöðum kærenda hefði legið fyrir þinglýst leyfi fyrir byggingu á bátaskýli við vatnið.  Byggingarnefnd Kjósarhrepps hafi hins vegar hafnað umsókn um byggingarleyfi fyrir bátaskýlinu og vísað í gildandi aðalskipulag um fjarlægð bygginga frá vatnsbakka.  Nú sé verið að byggja sumarbústað um 50 m frá þeim stað þar sem bátaskýlið hefði átt að vera samkvæmt þinglýstum teikningum.  Verði ekki annað séð en að bústaðurinn standi nær vatninu en leyfi sé fyrir samkvæmt aðalskipulagi.  Sé svo, séu kærendur ekki sáttir við afgreiðslu umsóknar sinnar um bátaskýli sem sé lægra og feli í sér minna rask en fullbyggt sumarhús. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Í erindi sínu vísa kærendur til synjunar skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps á umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir bátaskýli, en sú ákvörðun hafi verið tekin á fundi nefndarinnar hinn 5. nóvember 2008.  Ljóst er að kærufrestur varðandi þá ákvörðun eru löngu liðinn og verður því ekki tekin afstaða til lögmætis þeirrar ákvörðunar. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind.  Eins og málið er vaxið liggur ekki fyrir með hvaða hætti bygging umrædds bústaðar við Meðalfellsvatn snertir lögvarða hagsmuni kærenda og skortir því á að sýnt sé fram á kæruaðild í málinu.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

59/2013 Þormóðseyri, Siglufjörður

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 4. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 59/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 um að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri, Siglufirði.  Jafnframt er kærð sú ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu skólahúsnæðis að Norðurgötu 10, Siglufirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2013, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Guðmundur Siemsen hdl., f.h. Sögu ráðgjafar ehf., Eyrargötu 3, Siglufirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri, Siglufirði.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.

Með bréfi, dags. 29. október 2013, er móttekið var 30. s.m., kærir sami aðili ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við skólahúsnæði að Norðurgötu 10, Siglufirði, með kröfu um ógildingu.  Gerð var og krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Verður síðari kæran, sem fékk málsnúmerið 105/2013, sameinuð máli þessu.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekin til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu. 

Málavextir:  Í lok árs 2012 mun hafa verið grenndarkynnt tillaga að viðbyggingu við Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði.  Bárust nokkrar athugasemdir, m.a. frá kæranda, og í framhaldi af því var á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar hinn 5. febrúar 2013 samþykkt að fela skipulags- og umhverfisnefnd bæjarins að vinna deiliskipulag að lóð skólans og götureits sem hann stendur á.  Samþykkt var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar hinn 6. s.m. að fela arkitektastofu að vinna tillögu að deiliskipulagi, kynna fyrirliggjandi skipulagslýsingu og leita umsagnar Skipulagsstofnunar um hana.  Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 13. febrúar s.á.  Gerði Skipulagsstofnun nokkrar athugasemdir við nefnda lýsingu í bréfi, dags. 6. mars s.á., og taldi frekari upplýsinga þörf, t.d. um samráð við hagsmunaaðila. 
Hinn 6. mars 2013 var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir grunnskólareit á Þormóðseyri, sem afmarkast af Norðurgötu, Eyrargötu, Vetrarbraut og Aðalgötu.  Fól tillagan m.a. í sér að heimilað yrði að reisa við grunnskólann að Norðurgötu 10 tveggja hæða viðbyggingu til norðurs að Eyrargötu.  Samþykkt var að auglýsa tillöguna og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 13. s.m.  Var þá og fært til bókar að ekki væri talin þörf á forkynningu þar sem meginforsendur hennar lægju fyrir í aðalskipulagi.  Á kynningartíma tillögunnar bárust andmæli, annars vegar frá kæranda sem eiganda hússins að Eyrargötu 3 og hins vegar frá eiganda Eyrargötu 7, og taldi kærandi m.a. að fyrirhuguð viðbygging hefði í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart húsi hans.  Tillagan var einnig send Minjastofnun Íslands og Siglingastofnun Íslands til umsagnar og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum vakti Siglingarstofnun í umsögn sinni athygli á flóðahættu á Þormóðseyri en ekki voru að öðru leyti gerðar athugasemdir af hálfu umsagnaraðila. 

Tillagan var tekin fyrir að nýju hjá skipulags- og umhverfisnefnd hinn 8. maí 2013, ásamt athugasemdum sem borist höfðu á kynningartíma og greinargerð sveitarfélagsins um þær.  Var tillagan samþykkt með þeirri breytingu að gangstétt við bílastæði við Norðurgötu yrði færð inn fyrir bílastæðin.  Staðfesti bæjarstjórn Fjallabyggðar afgreiðslu nefndarinnar á fundi hinn 15. maí 2013.  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 13. júní s.á., að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar er gerði ekki athugasemd við birtingu hennar.  Í kjölfar þess samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd umsókn um viðbygginguna við skólann í samræmi við nýsamþykkt deiliskipulag og voru nefndar ákvarðanir kærðar til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að helstu áhrif fyrirhugaðrar byggingar séu gagnvart fasteign hans að Eyrargötu 3.  Viðbyggingin liggi nærri mörkum lóðar hans og sé á svæði sem hafi verið óbyggt um margra ára skeið.  Hún sé umtalsvert stærri að allri gerð en önnur mannvirki á svæðinu, að grunnskólahúsinu frátöldu.  Áætluð fjarlægð milli viðbyggingarinnar og íbúðarhúss kæranda sé minni en hefðbundin fjarlægð á milli húsa á sama svæði, en stærð hennar hefði átt að leiða til þess að gert yrði ráð fyrir meiri fjarlægð milli húsanna.  Þrátt fyrir að engar upplýsingar liggi fyrir um skuggavarp af viðbyggingunni seinni hluta dags gagnvart fasteign kæranda, og halli þannig verulega á rétt hans í því efni, sé ljóst að skuggavarpið verði umtalsvert eftir kl. 13 og muni byggingin koma nær algjörlega í veg fyrir að hægt verði að njóta kvöldsólar á lóð hússins. 

Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við að sveitarfélagið, sem rekstraraðili grunnskólans og skipulagsyfirvald, geri ráð fyrir að uppbygging á svæðinu miði öðru fremur að því að varðveita hagsmuni sveitarfélagsins og skólans á kostnað kæranda.  Sé þannig gert ráð fyrir að byggt verði norðan við núverandi húsnæði skólans, þar sem ekki verði skyggt á suðurhlið hans, og ekki gengið á skólalóð sem sé sunnan við skólabygginguna. 

Fram komi í greinargerð með tillögunni að ekki sé þörf á jafn mikilli uppbyggingu á skólahúsnæði á Siglufirði eftir sameiningu sveitarfélaga og því vandséð hvernig fyrirhuguð viðbygging fari saman við það.  Þá sé eðlilegt að sveitarfélagið sýni fram á að ekki sé unnt að uppfylla þær kröfur sem eðlilegt þykir að gera til nútíma skólahúsnæðis, s.s. um mötuneyti og verknámsstofur, í núverandi húsnæði skólans.  Hafi ekkert komið fram um nauðsyn svo viðamikillar viðbyggingar sem gert sé ráð fyrir, en í það minnsta sé ekki nauðsynlegt að stækka húsnæði skólans um þriðjung til að koma þar fyrir mötuneyti og verknámsstofum. 

Lóð kæranda að Eyrargötu 3 sé skilgreind sem svæði fyrir þjónustustarfsemi í gildandi aðalskipulagi.  Það hafi komið kæranda á óvart enda hafi þess í engu verið getið af sveitarfélaginu þegar hann hafi keypt hluta íbúðarhússins að Eyrargötu 3, þrátt fyrir að sveitarfélaginu hafi verið ljóst að hann hygðist nota húsið sem íbúðarhúsnæði.  Í greinargerð skipulagsins segi að þeir sem búi á svæðum sem liggi að opinberum lóðum megi búast við því að á slíkum svæðum séu byggðar umfangsmiklar byggingar sem geti verið í öðrum kvarða en íbúðarbyggð í nágrenninu.  Sé því alfarið mótmælt að þessi fullyrðing geti átt við í málinu.  Sveitarfélagið hafi selt kæranda húsið sem íbúðarhúsnæði og samþykkt umsóknir hans um umtalsverðar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu, sem miðuðu að því að það nýttist sem slíkt, og með því hafi sveitarfélagið útilokað að það gæti byggt á greindu sjónarmiði við afgreiðslu málsins. 

Þá geti skilgreind landnotkun ekki rýrt rétt kæranda samkvæmt almennum meginreglum grenndarréttar og ákvæðum skipulagsreglugerðar, sem kveði á um að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess að jafnaði gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Fasteign kæranda sé skráð sem íbúðarhúsnæði og nýtt sem slík og sé lóð hennar því óumdeilanlega íbúðarlóð, eins og deiliskipulagið geri raunar ráð fyrir, hvað sem aðalskipulagi svæðisins líði. 

Átalið sé að sveitarfélagið réttlæti umrædda viðbyggingu með vísan til þess húss sem áður hafi staðið að Eyrargötu 5, en það hafi verið umtalsvert minna en fyrirhuguð viðbygging, sem og bílgeymsla þess, sem áður hafi staðið næst fasteign kæranda.  Umtalsvert lengri vegalengd hafi einnig verið milli húsanna sjálfra. 

Vegna staðsetningar byggingarreits viðbyggingar, einkum m.t.t. lóðar kæranda, verði að líta á reitinn sem sjálfstæða, staka lóð, á horni Norðurgötu og Eyrargötu.  Nýtingarhlutfall þeirrar lóðar yrði því á bilinu 2,0-3,0, sem sé langt umfram það sem tíðkist á öðrum lóðum við Eyrargötu.  Ekki sé tekið nægilegt tillit til ákvæða skipulagsreglugerðar um fjarlægðir milli byggingarreita og lóðamarka, en fyrirhugað sé að mannvirkið nái alveg að lóðarmörkum á horni Norðurgötu og Eyrargötu og að það standi aðeins í 1,9 m fjarlægð frá lóðarmörkum Eyrargötu 3.  Í skipulagsreglugerð sé gert ráð fyrir að við ákvörðun um fjarlægð á milli byggingarreita skuli taka tillit til sólarhæðar, skuggavarps, vindstrengja o.fl., eftir því hver notkun bygginga sé.  Verulega hafi skort á að tekið væri tillit til þess í hinu umdeilda skipulagi að fasteign kæranda sé íbúðarhúsnæði.  Verði fjarlægð viðbyggingarinnar frá fasteign hans ekki réttlætt með vísan til legu annarra mannvirkja innan skipulagsreitsins, sem séu víðsfjarri fasteign kæranda, eða til húss sem áður hafi staðið skammt frá lóðarmörkum Eyrargötu 3. 

Deiliskipulagið samræmist því á engan hátt byggðamynstri, götumynd og þéttleika byggðarinnar við Eyrargötu.  Þá sé gagnrýnisvert að sveitarfélagið hafi vanrækt skyldu sína til að gera húsakönnun á svæðinu samhliða gerð deiliskipulags en aðeins sé vísað til húsaskráningar á Siglufirði sem sé enn í vinnslu.  Ekkert sérstakt mat sé lagt á varðveislugildi eða svipmót byggðar eða einstakra bygginga á svæðinu. 
Bent sé á að yrði byggt við grunnskólann til suðurs yrði ekki gengið jafn freklega gegn rétti eigendum íbúðarhúsa í nágrenni hans, auk þess sem hægt hefði verið að gera ráð fyrir bílastæðum innan marka skipulagssvæðisins, eins og verið hafi, í stað þess að reiða sig á að samningar takist við eigendur fasteigna utan svæðisins um bílastæði.  Sé tekið undir athugasemdir annarra hagsmunaaðila á svæðinu að því er varði bílastæði grunnskólans. 

Loks telji kærandi að unnt hefði verið að ná sama markmiði og stefnt sé að með deiliskipulaginu með því að grípa til úrræða sem ekki séu jafn verulega íþyngjandi fyrir kæranda og sú leið sem deiliskipulagið geri ráð fyrir.  Hvorki hafi verið færð rök fyrir að svo umfangsmikil stækkun sé nauðsynleg á sama tíma og dregið hafi úr fjölda nemenda né hvers vegna stækka þurfi húsnæði grunnskólans um tæplega 500 m² til að koma megi þar fyrir mötuneyti og verknámsstofu.  Virðist sveitarstjórn ekki hafa lagt nokkurt mat á það hvort önnur minna íþyngjandi úrræði hefðu komið til álita til að ná þessu sama markmiði.  Sé samþykkt sveitarstjórnar skýlaust brot gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi styður kröfu sína um ógildingu byggingarleyfisins við það að deiliskipulagið sem leyfið á stoð í beri að ógilda af þeim ástæðum sem raktar hafa verið.

Málsrök Fjallabyggðar:  Af hálfu Fjallabyggðar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.  Telji úrskurðarnefndin að einhver afmarkaður hluti deiliskipulagsins stangist á við lög að efni eða formi sé gerð sú krafa að skipulagið verði eingöngu fellt úr gildi hvað varði þann afmarkaða þátt. 

Viðurkennt sé að byggingarreitur samkvæmt skipulaginu sé stutt frá mörkum lóðar kæranda.  Á skipulagsreitnum séu hús reist mjög nálægt lóðamörkum og sum þeirra hvert upp að öðru.  Það eitt sé hvorki einsdæmi á reitnum né í byggðamynstri nálægðra reita.  Hæð viðbyggingar sé nokkur en þó ekki meiri en hæð hússins að Eyrargötu 3.  Mælikvarði fyrirhugaðrar viðbyggingar sé hins vegar annar en íbúðarhúsanna á svæðinu enda sé um stofnun að ræða.  Mælikvarðinn sé hins vegar í góðu samræmi við núverandi skólahús. 

Byggingin muni auka skuggavarp seinnipart dags þegar sól sé hæst á lofti en líta þurfi til landfræðilegra aðstæðna, þ.e. fjallanna í kringum bæinn sem sólin hverfi á bak við á þeim tíma.  Af þeim sökum hafi ekki verið talið nauðsynlegt að sýna skuggavarp seinnipart dags. 

Í greinargerð komi fram ástæður þess að byggt sé norðan en ekki sunnan við skólann.  Viðbygging sunnan við skólann myndi skyggja á suðurhlið hans, sem setji sterkan svip á umhverfið og hafi ákveðið varðveislugildi.  Þá myndi byggingin einnig rýra skólalóðina að sunnanverðu en þar sé aðalleiksvæðið.  Að auki hefði sú staðsetning sömu áhrif gagnvart öðrum húsum og nú gagnvart kæranda.  Þá hafi viðbygging á þessum stað verið talin falla betur að skipulagi núverandi húss. 

Tillagan taki mið af því að ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu en umræddri viðbyggingu í samræmi við stefnu sveitarstjórnar í skólamálum.  Tilgangur umræddrar stækkunar sé að bæta aðstöðu nemenda, þ.e. með matsal og rými fyrir verknámsstofur, en ekkert húsnæði í grunnskólanum sé laust fyrir slíka starfsemi.  Ekki sé hægt að sýna fram á slíka nauðsyn frekar en nauðsyn á bættri aðstöðu almennt.  Ljóst megi vera að málefnaleg og lögmæt sjónarmið búi að baki ákvörðuninni, þ.e. betri kennsluaðstaða.  Ekki sé verið að byggja við skólann til þess eins að stækka hann eða af öðrum hvötum.  Fyrir liggi m.a. skýrsla um framtíðarskipan fræðslumála í Fjallabyggð frá árinu 2009 og byggi tillagan m.a. á niðurstöðu hennar um þörf fyrir húsnæði. 

Í grenndarrétti sé það viðurkennt að aðilar þurfi að búa við mismunandi aðstæður í grenndarréttarlegu tilliti eftir staðsetningu eigna.  Þannig sé mælikvarði, stærð og útlit húsa mjög mismunandi eftir því hvaða starfsemi fari þar fram, sem og með tilliti til áhrifa starfseminnar sjálfrar.  Í því tilviki sem hér um ræði verði vart séð að grenndaráhrif skipulagsins séu meiri en eigendur húsa, sem standi á eða við svæði fyrir opinberar stofnanir, megi búast við.  Þá sé aðstaðan sú að lóð kæranda sé umlukin skólalóð á þrjá vegu og ljóst að staða hennar sé nokkuð sérstök.  Allt framangreint hafi eiganda hússins á lóðinni nr. 3 við Eyrargötu mátt vera ljóst við kaup hússins.  Sé málið skoðað almennt sé ljóst að grenndaráhrif skipulagsins, að því er varði skólalóðina, séu ekki meiri en fólk sem búi í þéttbýli þurfi almennt að þola.  Hvorki skuggavarp, nálægð hússins né önnur áhrif af mögulegri viðbyggingu fari út fyrir slík mörk né séu þess eðlis að brjóti gegn grenndarrétti kæranda.  Ekki verður heldur séð að notkunarmöguleikar hússins rýrni frá því sem sé í dag.  Grenndarsjónarmið geti því ekki leitt til þess að skipulagið verði talið ólögmætt og ógildanlegt. 

Að baki þeirri ákvörðun að leyfa viðbyggingu við skólann búi lögmæt, málefnaleg og samfélagsleg sjónarmið.  Þá sé bent á 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Í skipulagi verði aldrei tryggt að allir geti notið ótakmarkaðrar sólar eða friðsældar, eða ótakmarkaðs útsýnis eða skjóls.  Skipulagsreglugerð mæli heldur ekki fyrir um það, en frekar að horfa beri til þessara þátta við gerð skipulags. 

Athugasemd kæranda um nýtingarhlutfall styðjist hvorki við efnisleg rök né ákvæði laga og reglugerða.  Hugtakið sé skýrt í skipulagslögum og reglugerð og beri að miða við það.  Samkvæmt því sé nýtingarhlutfall á skólalóðinni 0,45.

Ekkert hámark eða lágmark á fjarlægð milli húsa sé tiltekið í skipulagsreglugerð.  Fjarlægð milli umræddra bygginga sé ekki minni en almennt á reitnum eða reitum í nágrenninu.  Staðsetning byggingarreitsins sé með þeim hætti að hann sé ekki í höfuðsólarátt séð frá húsi kæranda og áhrif skuggavarps séu því ekki veruleg.  Ljóst megi vera að ekki sé hægt að tryggja í skipulagi í þéttbýli útsýni í allar áttir.

Hvað húsakönnun varði sé bent á að í deiliskipulaginu sé vísað til húsaskráningar fyrir Siglufjörð og gerð grein fyrir þeim húsum sem gert sé ráð fyrir að verði sett undir hverfisvernd í deiliskipulagi.  Í deiliskipulaginu sé tekið mið af þessu og húsin Aðalgata 14, 16 og 18 hverfisvernduð sem slík.  Skuli álit húsafriðunarnefndar liggja fyrir áður en samþykktar séu breytingar á þeim húsum.  Í sérákvæðum gr. 4.2 í skipulaginu sé og tekið fram að við breytingar eða endurbyggingar húsa á reitnum skuli byggingarmagn og hæð vera í samræmi við núverandi hús.  Jafnframt að við breytingar, endurbætur og endurbyggingu skuli upphafleg gerð, byggingarstíll og hlutföll virt.  Það sé því ekki rétt að ekki hafi farið fram könnun á varðveislugildi húsa á svæðinu og ekki hafi verið lagt mat á varðveislugildi einstakra húsa í skipulaginu.  Tillagan geri þannig ráð fyrir að öll húsin sem nú standi á reitnum standi þar áfram og að þeim húsum sem verndargildi hafi verði ekki breytt nema að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands.  Minnt sé á að tillagan hafi einnig verið send til Minjastofnunar Íslands til skoðunar, sem hafi ekki gerð athugasemd. 

Fjallabyggð telji að meðalhófs hafi verið gætt enda gangi skipulagið ekki á hagsmuni kæranda umfram það sem gera megi ráð fyrir í þéttbýli, m.t.t. fyrirliggjandi aðstæðna og aðalskipulags.  Áréttað sé að umdeild viðbygging við skólann sé til að mæta þörfum nemenda um betri aðstöðu við skólann til samræmis við nútíma kennsluhætti. 

Hið kærða byggingarleyfi eigi samkvæmt framansögðu stoð í lögmætu deiliskipulagi. 

Niðurstaða:  Hið kærða deiliskipulag tekur m.a. til skólalóðarinnar að Norðurgötu 10 á Siglufirði og í máli þessu er fyrst og fremst deilt um heimild fyrir viðbyggingu við skólahúsið sem þar stendur.  Með skipulaginu eru lóðir skilgreindar innan götureitsins, svo og byggingarreitur fyrir fyrirhugaða viðbyggingu, ásamt því að kveðið er á um fyrirkomulag bílastæða. 

Í 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags, en skv. 2. mgr. 37. gr. laganna skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Samkvæmt ákvæðum þessum hvílir á sveitarstjórnum sú skylda að hlutast til um gerð deiliskipulags þegar við á. 

Lóð grunnskólans við Norðurgötu 10 er á svæði sem skilgreint er í Aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028 sem svæði fyrir þjónustustofnanir og kemur þar fram að gert sé ráð fyrir að skólastofnanir geti stækkað á núverandi landnotkunarreitum á skipulagstímabilinu.  Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags og er fyrirhuguð stækkun á húsnæði skólans því ekki í andstöðu við það ákvæði aðalskipulags.  Þá mátti vænta þess að breytingar yrðu gerðar á skólahúsnæðinu með hliðsjón af breyttum kröfum um umhverfi og aðstöðu.  Verður og að telja að málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki ákvörðun bæjarstjórnar um stækkun húsnæðisins og staðsetning viðbyggingarinnar norðan við skólann tekur mið af lóð og leiksvæði barna. 

Hámarksbyggingarmagn nefndrar viðbyggingar er samkvæmt deiliskipulagi 470 m², hæð hennar skal að hámarki vera 8,7 m yfir gólfkóta 1. hæðar og vegghæð að hámarki 6,3 m og fjarlægð milli viðbyggingarinnar og húss kæranda verður 7,5 m.  Nýtingarhlutfall fyrir skólalóðina, að teknu tilliti til viðbyggingarinnar, verður 0,43.  Mun viðbyggingin af þessum sökum hafa töluverð grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda.  Verður þó ekki fallist á að sú skerðing sé svo veruleg að hinar kærðu ákvarðanir teljist af þeim sökum ólögmætar.  Leiði gildistaka hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar hins vegar til þess að verðmæti eignar kæranda lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar. 

Í hinu kærða deiliskipulagi er vikið að því hvaða hús skuli sett undir hverfisvernd, s.s. Norðurgata 10, en jafnframt er tilgreint að gert sé ráð fyrir að öll íbúðarhús sem þegar standi á skipulagssvæðinu standi þar áfram.  Við skipulagsgerðina var stuðst við húsaskráningu Fjallabyggðar í þessu efni og var eins og sakir stóðu ekki tilefni til frekari húsakönnunar við deiliskipulagsgerðina. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hið kærða deiliskipulag sé haldið slíkum annmörkum að ógildingu varði. 

Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi styðst við gilt deiliskipulag.  Þar sem ekki liggur fyrir að nokkrir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá byggingaryfirvöldum Fjallabyggðar að ógildingu geti varðað verður kröfu kæranda þar um hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 um að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri á Siglufirði. 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við skólahúsnæði að Norðurgötu 10, Siglufirði.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson