Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2014 Skógarás

Árið 2014, fimmtudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 97/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. janúar 2009 um að veita leyfi til að stækka svalir, breyta gluggum á norður- og vesturhliðum og innra skipulagi á 2. hæð húss á lóð nr. 21 við Skógarás.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. ágúst 2014, sem barst nefndinni sama dag, kæra A og S, Skógarási 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. janúar 2009 að veita leyfi til að stækka svalir húss á lóð nr. 21 við Skógarás.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Til vara er þess krafist að svölunum verði breytt þannig að þær samræmist byggingarreit hússins. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. og 23. og 24. september 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 27. janúar 2009 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavíkur tekin fyrir og samþykkt umsókn um að stækka svalir, breyta gluggum á norður- og vesturhliðum og innra skipulagi á 2. hæð einbýlishúss á lóð nr. 21 við Skógarás. Fundargerð byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulagsráðs 28. s.m. og staðfest í borgarráði 29. janúar 2009.

Kærendur skírskota til þess að framkvæmdir hafi staðið yfir við byggingu hússins nr. 21 við Skógarás með hléum frá árinu 2007 en framkvæmdir við byggingu svala hafi nýverið hafist. Feli svalirnar í sér skerðingu á réttindum kærenda enda sé opið útsýni af svölunum yfir í garð þeirra. Engin grenndarkynning hafi átt sér stað áður en hið umþrætta leyfi hafi verið veitt og kærendum þannig ekki gefist kostur á að tjá sig. Svalirnar nái út fyrir samþykktan byggingarreit sem sé ólögmætt. Þá hafi þurft að fara fram grenndarkynning þar sem svalirnar rýri grenndarrétt kærenda. Svalirnar séu of nálægt húsi þeirra og mannaferðir svo nálægt í þeirri hæð sem svalirnar séu sé brot á rétti kærenda til friðs og notkunar á húsi þeirra. Vísi kærendur til 7. mgr. 43. gr. l. nr. 73/1997 um þetta efni, sbr. nú skipulagslög nr. 123/2010.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfu kærenda verði vísað frá. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi. Frestur til að kæra hina kærðu ákvörðun í máli þessu hafi því verið löngu liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Ekki sé reynt að færa rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna. Þá sé allur vafi tekinn af í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að vísa beri kæru þessari frá, en skv. ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.

Kærendur vísa til þess að þeim hafi ekki verið kynnt sú breyting sem gerð hafi verið á áður samþykktum teikningum. Engin tilkynning hafi verið send þeim en allir frestir VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 miði við það þegar kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun stjórnvalds. Framkvæmdir við hinar umþrættu svalir hafi ekki hafist fyrr en í ágúst 2014 og þá þegar hafi kærendur andmælt og sent kæru innan lögmælts frests, sbr. 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011. Vísi kærendur m.a. til sjónarmiðar nefndarinnar sem fram komi í málum nr. 8/2012 og 20/2014. Þá sé ljóst að byggingarleyfi fyrir stækkun svala hafi fallið úr gildi 29. janúar 2010 og sé því um óleyfisframkvæmd að ræða.

Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi fyrir stækkun svala, breytingu á gluggum og innra skipulagi á 2. hæð hússins nr. 21 við Skógarás var samþykkt af byggingarfulltrúanum í Reykjavík 27. janúar 2009 og staðfest í borgarráði 29. s.m. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 28. ágúst 2014.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingu svalanna og öðrum breytingum, svo sem af framkvæmdum við bygginguna. Ekki verður af fyrirliggjandi gögnum málsins ráðið að framkvæmdir samkvæmt leyfinu hafi byrjað við svalirnar fyrr en í ágúst 2014 þegar kærendur kveðast hafa orðið áskynja um framkvæmdirnar en aðrar breytingar samkvæmt leyfinu eru ekki þess eðlis að þeir hafi mátt ráða af því að til stæði að stækka hinar umþrættu svalir. Verður því við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests.

Upplýst hefur verið í málinu að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út af byggingarfulltrúa í samræmi við 44. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en slíkt leyfi var forsenda fyrir því að hefja framkvæmdir. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að skilyrðum greinds lagaákvæðis til útgáfu byggingarleyfis hafi verið fullnægt en byggingarleyfisgjöld munu ekki hafa verið greidd, sbr. 2. tl. 1. mgr. ákvæðisins, og er ekki að sjá að byggingarstjóri hafi undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína eða tilkynnt byggingarfulltrúa um nöfn iðnmeistara í samræmi við 3. mgr. nefndrar 44. gr. Í 4. mgr. nefnds ákvæðis laganna var kveðið á um að staðfesting sveitarstjórnar skv. 43. gr. laganna félli úr gildi hefði byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða frá staðfestingunni.

Þar sem staðfesting borgarráðs er fallin úr gildi, sbr. framangreinda 4. mgr. 44. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga, eru úr gildi fallnar heimildir til þeirra framkvæmda sem samþykktar voru með hinni kærðu ákvörðun. Er ekki lengur fyrir hendi nein sú ákvörðun er bindur enda á mál og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir