Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2013 Vesturhús

Árið 2014, þriðjudaginn 2. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu við hús nr. 2 við Vesturhús í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2013, er barst nefndinni hinn 21. s.m., kærir S, Vesturhúsum 2, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu að Vesturhúsum 2 í Reykjavík. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 22. ágúst 2013.

Málavextir: Fasteignin að Vesturhúsum 2 er einbýlishús á tveimur hæðum með bílskúr. Í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er eignin skráð sem einbýlishús með tvær íbúðir, en íbúðirnar og bílskúrinn eru með sama fastanúmer. Neðri hæð fasteignarinnar er 73,8 m2, efri hæðin er 130,2 m2 og bílskúrinn er 50,4 m2. Þá er óskráð 50,4 m2 rými undir bílskúrnum.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn kæranda um byggingarleyfi þar sem sótt var um „… að fá rými undir bílageymslu samþykkt, áður gerðu. Þetta er geymsla.“ Afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Erindið var síðan tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. apríl s.á. og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. maí s.á. var ákveðið að vísa málinu til umsagnar verkefnastjóra. Skipulagsfulltrúi tók síðan málið fyrir á embættisafgreiðslufundi 10. s.m. og lá þá fyrir umsögn hans, dagsett sama dag. Þar kom fram að umsóknin samræmdist ekki deiliskipulagi þar sem heildarflatarmál umrædds húss færi fram úr leyfilegu heildarflatarmáli samkvæmt skipulagi og var afstaða skipulagsfulltrúa til umsóknarinnar neikvæð með vísan til þess. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. maí 2013 var umsókn kæranda synjað með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 10. maí 2013.“ Framangreind ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 30. maí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi staðið í þeirri trú við kaupin á fasteigninni að Vesturhúsum 2 að í húsinu væru tvær séríbúðir og unnt væri að selja aðra íbúðina ef á þyrfti að halda. Við undirbúning eignaskiptayfirlýsingar hafi verið leitað til arkitekts til að gera nauðsynlega uppdrætti í því skyni að fá umdeilt rými undir bílskúrnum samþykkt sem geymslurými, en það hafi verið óskráð frá byggingu fasteignarinnar. Kæranda hafi verið tjáð í kjölfar hinnar kæruðu ákvörðunar að tvær sjálfstæðar íbúðir yrðu ekki samþykktar í húsinu enda yrði farið út fyrir heimildir deiliskipulags um stærð minni íbúðarinnar ef fallist yrði á umbeðna stækkun. Vísar kærandi til þess að ýmis dæmi séu um að heimilaðar hafi verið tvær íbúðir sem sjálfstæðar fasteignir í húsum við Vesturhús, sambærilegar að stærð og vera myndi í húsi kæranda ef fallist yrði á umrædda umsókn hans og flatarmál hússins yrði ekki meira en flatarmál fjölda annarra húsa við götuna. Í því ljósi verði að telja að hvorki sé unnt að synja um skráningu tveggja íbúða í húsi kæranda við Vesturhús né um skráningu fyrrgreinds rýmis undir bílskúr.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í gildi hafi verið deiliskipulag fyrir umrætt hverfi í Grafarvogi sem samþykkt hafi verið í borgarráði 10. september 1991. Þar falli umrædd fasteign í húsflokk E9, en þau hús geti í mesta lagi verið 270 m² að flatarmáli samkvæmt skilmálum skipulagsins. Skrá megi aukaíbúð í húsunum að hámarki 50 m² og teljist sú íbúð með í heildarflatarmáli fasteignarinnar, sbr. 3. mgr. gr. 1.1.25. deiliskipulagsins. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé fasteignin Vesturhús 2 skráð sem 254,4 m² að stærð. Ef fallist væri á þá málaleitan að stækka rými fasteignarinnar um 50,4 m² yrði heildarflatarmálið 304,8 m², sem færi í bága við skipulagið. Af þeim sökum hafi ekki verið unnt að samþykkja umsókn kæranda. Rétt sé í þessu sambandi að benda á að umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafi um nokkurt skeið unnið að breytingum á deiliskipulagi hverfisins og hafi því ekki þótt efni til að ráðast í skipulagsbreytingu varðandi lóð kæranda sérstaklega. Þau tilvik sem kærandi nefni um að heimilaðar hafi verið stærri aukaíbúðir en 50 m² séu frá gildistíð eldri skipulagslaga nr. 19/1964, en lagaumhverfi á þessu sviði sé nú gjörbreytt í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010. Af þeirri ástæðu geti kærandi ekki vænst þess að fá sambærilega afgreiðslu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 14. maí 2013 á byggingarleyfisumsókn kæranda um að rými sem nú þegar er til staðar undir bílskúr hússins að Vesturhúsum 2 verði samþykkt sem geymslurými. Umsókn kæranda lýtur ekki að því að aukaíbúð í húsinu verði samþykkt sem sérstök fasteign og í hinni kærðu ákvörðun er ekki tekin afstaða til þess. Í kærumáli þessu kemur það atriði því ekki til skoðunar.

Samkvæmt 3. mgr. gr. 1.1.25. deiliskipulagsins, Grafarvogur III Húsahverfi C hluti, sem samþykkt var í borgarráði 10. september 1991 og á við um umrædda fasteign kæranda, kemur fram að hús sem eru í flokki E9 mega að hámarki vera 270 m² að stærð. Fasteignin við Vesturhús 2 er skráð 254,4 m² samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en yrði við skráningu fyrrgreinds rýmis 304,8 m² eða 34,8 m² umfram það sem heimilað var samkvæmt greindu deiliskipulagi. Samþykki umsóknar kæranda hefði því farið gegn skilmálum skipulagsins. Í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það gert að skilyrði fyrir samþykki og útgáfu byggingarleyfa að efni þeirra sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Með hliðsjón af því var borgaryfirvöldum rétt að synja umsókn kæranda að óbreyttu skipulagi. Þótt dæmi kunni að vera um að skilmálar skipulags um hámarksflatarmál húsa á svæðinu hafi ekki verið virt geta slík tilvik ekki skapað fordæmi fyrir frávikum frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfa.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Rétt þykir að taka fram að breyting á deiliskipulagi, Grafarvogur III Húsahverfi C hluti, vegna húsgerðanna E8, E9 og útbygginga, var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur hinn 11. september 2013. Breytingin felur í sér að heimilt hámarksbyggingarmagn er aukið hvað varðar nefndar húsgerðir. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, hinn 29. október 2013.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu við hús nr. 2 við Vesturhús í Reykjavík.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                            ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                                Þorsteinn Þorsteinsson