Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2014 Þórunnartún

Árið 2014, fimmtudaginn 18. september, tók Nanna Magnadóttur, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 81/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2014, sem bárust nefndinni sama dag, kærir Anna Þórdís Rafnsdóttir hdl., f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna sem eru eigandi, húsfélag og leigjendur að Þórunnartúni 2, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 3. júlí 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.220.0 vegna lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún.

Með tveimur bréfum til nefndarinnar, einnig dags. 29. júlí 2014, kærir sami lögmaður, annars vegar f.h. Höfðatorgs ehf., og hins vegar f.h. Höfðahótels ehf., sömu ákvörðun Reykjavíkurborgar. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verða málin, sem eru nr. 82/2014 og 83/2014, sameinuð kærumáli þessu.

Gera kærendur allir þá kröfu að samþykkt borgarráðs verði felld úr gildi en einnig er farið fram á að yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða með vísan til 5. gr. 130/2011. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Hinn 8. janúar 2014 sótti félagið Skúlatún 4 ehf. um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits 1.220.0 vegna lóðar nr. 4 við Þórunnartún. Var óskað eftir breytingum á byggingarreit, aukningu nýtingarhlutfalls og að skilmálum um bílastæði yrði breytt. Var tillagan auglýst frá 9. apríl til 28. maí s.á. og á þeim tíma bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. Hinn 25 júní 2014 var tillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði og staðfest af borgarráði 3. júlí s.á. Var deiliskipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst s.á..

Skírskota kærendur til þess að hin kærða ákvörðun gangi gegn áherslum og markmiðum aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2013 sem og settum lögum og reglum. Bent sé á að umrædd breyting fari þvert gegn 2. mgr. a. liðar gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 sem og markmiðum gildandi aðal- og deiliskipulags Reykjavíkurborgar um vistvænar samgöngur.  Telji kærendur að umþrætt deiliskipulagsbreyting muni valda töluverðu ónæði og gefi af sér  fráhrindandi viðmót. Umferð muni aukast og reikna megi með því að stór hluti fyrirhugaðra bílastæða muni fara undir sorphirðugáma sem verði geymdir utandyra. Þá sé deiliskipulagsbreytingin veruleg og hafi því ekki verið staðið rétt að breytingunni. Séu miklir hagsmunir í húfi fyrir nágranna lóðarhafa Þórunnartúns 4 ef ákvörðun Reykjavíkurborgar muni halda og að líkur séu á að þeir sem eigi lögvarða hagsmuni verði fyrir umtalsverðu tjóni ef frekari framkvæmdir verði gerðar.
 
Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða sé hafnað með vísan til þess að gildistaka deiliskipulags feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir og þar með ekki tilefni til stöðvunar þeirra.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13. 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir