Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2014 Borgarhólsstekkur

Árið 2014, föstudaginn 19. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 12. júlí 2007 um að veita leyfi fyrir stækkun á sumarhúsi um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2014, sem barst nefndinni 5. s.m., kærir J,  þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 12. júlí 2007, að veita leyfi fyrir stækkun á sumarhúsi um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar heimild til byggingar gestahúss á nefndri lóð. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 18. júní og viðbótargögn 29. ágúst og 3. september 2014.

Málavextir: Árið 2005 sótti lóðarhafi Borgarhólsstekks nr. 1 í Bláskógabyggð um leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni um 8,2 m2 og að byggja 21,7 m2 geymslu á lóðinni. Með umsókninni fylgdi yfirlýsing, dags. 15. mars 2005, frá eiganda lóðar nr. 3 við Borgarhólsstekk þar sem hann gerir engar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir. Var umsóknin samþykkt á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 29. mars 2005, sem staðfest var af byggðaráði Bláskógabyggðar 12. apríl s.á og af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 19. s.m. Árið 2007 sótti leyfishafi um breytingu frá fyrri umsókn. Fólst breytingin í því að í stað geymslu yrði byggt 25,8 m2 gestahús og stækkun sumarhúss yrði 9,5 m2. Var umsóknin afgreidd af byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu hinn 12. júlí 2007 og veitt leyfi fyrir stækkun sumarhúss um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss. Var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest af byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu 17. s.m., af byggðaráði Bláskógabyggðar 31. s.m. og af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 4. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að umrædd frístundabyggð við Þingvallavatn eigi sér áratuga sögu og sé hún mjög þétt í samanburði við aðrar frístundabyggðir. Stækkun húsa eða nýbyggingar geti því breytt ásýnd byggðar og haft veruleg áhrif á næstu lóðir. Kærandi hafi fyrst orðið þess áskynja við komu í frístundahús sitt hinn 12. maí 2014 að verið væri að reisa nýbyggingu á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk. Við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að framkvæmdirnar væru gerðar í skjóli byggingarleyfis frá árinu 2007 og hinn 14. maí 2014 hafi verið óskað eftir teikningum frá skipulagsfulltrúa af umræddu húsi. Beiðni um gögn og upplýsingar hafi verið ítrekuð 22. s.m. og umbeðin gögn borist 27. maí 2014.

Hvorki hafi farið fram grenndarkynning vegna umdeilds byggingarleyfis né hafi nágrönnum, sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunarinnar, verið sent bréf til upplýsingar um veitingu leyfisins. Hafi sveitarfélagið því brotið gegn 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem og gr. 12.5 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998. Að auki séu teikningar hins umþrætta gestahúss villandi en þar segi að verið sé að byggja skúr þegar um nýtt hús sé að ræða. Samkvæmt 45. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga og 13. og 14. gr. þágildandi byggingareglugerðar, sem og gr. 2.4.7. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, falli byggingarleyfi úr gildi séu framkvæmdir ekki hafnar innan 12 mánaða frá útgáfu leyfisins. Af framangreindu sé því ljóst að byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og byggðaráð Bláskógabyggðar hafi brotið alvarlega á hagsmunum þeirra aðila sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Grenndarréttur sé ótvíræður í frístundabyggð og sé ekki hægt að sættast á að lóðarhafi fái að reisa nýbyggingu sem rýri útsýni og ásýnd nágrannalóða verulega með mögulegri verðrýrnun á nærliggjandi frístundahúsum.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að framkvæmdir við stækkun á bústaðnum og undirstöður gestahúss hafi hafist árið 2007. Hafi framkvæmdum við viðbyggingu verið lokið 2008 en þær hins vegar stöðvast við gestahúsið. Framkvæmdum við byggingu gestahússins hafi verið haldið áfram árið 2014.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hann hafi í kjölfar veitingar leyfisins hafist handa við framkvæmdir. Lokið hafi verið við viðbygginguna og borað fyrir súlum og settir upp bitar fyrir umþrætt gestahús. Hafi verið beðið með frekari framkvæmdir til 29. mars 2014 þegar vinna hafi byrjað við klæðningu á botni og uppsetningu grindar á gestahúsinu. Telji leyfishafi kæruna of seint fram komna. Ráðist hafi verið í framkvæmdir við gestahúsið árið 2007, þó svo að grind þess hafi ekki risið fyrr en í lok mars 2014. Bent sé á að kærandi nýti sumarhús sitt mikið og ótrúverðugt sé að hann hafi ekki orðið framkvæmdanna var fyrr en 12. maí sl., enda hafi verið unnið við framkvæmdirnar helgarnar 29.-30. mars, 25.-27. apríl og 3.-4. maí 2014. Hafi kærufrestur því verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni.

Ekki verði talið að grenndarkynning hefði haft úrslitaráhrif á ákvörðun byggingarnefndar. Með grenndarkynningu sé nágrönnum sem eigi lögvarða hagsmuni aðeins gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri en það sé ekki þar með sagt að athugasemdir sem kunni að berast hafi áhrif á útgáfu greinds leyfis. Sé skortur á grenndarkynningu því aðeins formgalli og hafi því ekki áhrif á efnislega niðurstöðu. Að auki hafi byggingarnefnd metið það svo að þeir sem ættu hagsmuna að gæta í málinu hefðu verið með í ráðum og af því leiði að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda umdeildu leyfi. Áréttað sé að almennt hafi ekki verið farið í grenndarkynningu á þessu svæði á þeim árum sem um ræði og ekki sé heldur um brot á deiliskipulagi að ræða. Séu hagsmunir kæranda ekki miklir af því hvort gestahúsið standi. Þær myndir sem kærandi hafi tekið við enda sólpalls hans séu til þess fallnar að gera eins mikið úr hinu skerta útsýni og mögulegt sé. Þá séu lóðir nær vatninu þar sem sumarhús muni rísa. Geti kærandi því ekki búist við að útsýni hans í átt að vatninu haldist óbreytt til frambúðar.

Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við sumarhúsið að Borgarhólsstekk 1 og byggingu gestahúss á lóðinni var samþykkt af byggingarfulltrúa og staðfest í sveitarstjórn Bláskógabyggðar á árinu 2007. Heimiluð viðbygging við sumarhúsið mun hafa verið risin á árinu 2008 en unnið var við að reisa umdeilt gestahús frá lokum mars og fram í maí 2014 samkvæmt upplýsingum leyfishafa. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 5. júní 2014.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingu gestahússins, svo sem af framkvæmdum við bygginguna.

Ekki verður af fyrirliggjandi gögnum málsins ráðið með óyggjandi hætti hvenær framkvæmdir hafi byrjað við undirstöður gestahússins en ekki er til að dreifa formlegri úttekt byggingarfulltrúa á verkþáttum þeirrar byggingar. Framkvæmdir við gestahúsið hófust síðan í lok mars 2014 og stóðu fram í maí samkvæmt upplýsingum leyfishafa. Þótt framkvæmdir kunni að hafa átt sér stað við undirstöður hússins á árinu 2008 leikur verulegur vafi á að kærandi hafi mátt ráða af því hvað til stæði. Í ljósi þess að um er að ræða frístundabyggð verður heldur ekki sú ályktun dregin að honum hafi verið kunnugt um framkvæmdir þær við gestahúsið sem fram fóru á árinu 2014 fyrr en 12. maí það ár, þegar kærandi kvaðst hafa orðið áskynja um framkvæmdirnar. Í kjölfar þess leitaði hann til skipulagsyfirvalda og fékk í hendur upplýsingar og gögn varðandi bygginguna. Verður því við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests. Kærandi á sumarhús sem stendur í næsta nágrenni við umrædda lóð og getur uppbygging á þeirri lóð snert lögvarða grenndarhagsmuni hans, svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta af greindum ástæðum tekið til efnisúrlausnar.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna varð veiting byggingarleyfis að styðjast við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Sú undantekning var gerð í 7. mgr. ákvæðisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna, að unnt var að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þótt ekki lægi fyrir deiliskipulag, en þá að undangenginni grenndarkynningu. Loks var skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna unnt að veita leyfi fyrir einstökum framkvæmdum þótt ekki lægi fyrir staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag, en þá að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.

Fyrir liggur að við veitingu umdeilds byggingarleyfis var ekki í gildi deiliskipulag fyrir umrædda frístundabyggð og að leyfið var veitt án undangenginnar grenndarkynningar. Þá er ekki að sjá að meðmæla Skipulagstofnunar hafi verið aflað. Brast því lagaskilyrði fyrir veitingu byggingarleyfisins og verður því fallist á kröfu kæranda um ógildingu þess að því er varðar heimild til byggingar greinds gestahúss.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 12. júlí 2007, sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfesti 4. september s.á, að því er varðar heimild fyrir byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson