Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2014 Geirsgata

Árið 2014, þriðjudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2014, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 24. september 2013, um að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera hann nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og leyfi fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. E og M, Tryggvagötu 4-6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2013 að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. ágúst og 9. og 10. september 2014.

Málavextir: Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti hinn 26. apríl 2007 deiliskipulag fyrir Slippa- og Ellingsenreit og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. júní s.á. Í deiliskipulaginu var m.a. gert ráð fyrir að hluti Mýrargötu yrði lagður í stokk, Geirsgata yrði breikkuð og hluti verbúða myndi víkja þess vegna. Í skipulagsskilmálum fyrir reit R16, sem tekur til umrædds svæðis, sagði m.a: „Sá hluti verbúðanna sem eftir eru verða varðveittar.“ Enn fremur sagði: „Hér er einungis leyfð hafnarsækin starfsemi.“ Hinn 7. maí 2009 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi fyrir Slippasvæði vegna breyttrar notkunar verbúða við Geirsgötu og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 16. september s.á. Eftir breytinguna sagði um nýtingu í skilmálum fyrir reit R16: „Á reitnum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem er í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónusta, verslanir, veitingahús, vinnustofur listamanna og verslanir þeim tengdum.“ Að öðru leyti var deiliskipulagið óbreytt. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 24. september 2013 var lögð fram umsókn um að breyta verbúð að Geirsgötu 3 í veitingahús og um breytingar innanhúss, sem og að breyta gluggum í upprunalega mynd og gera nýja glugga og dyr á suðvesturgafl hússins. Fyrir fundinum lá umsögn skipulagsfulltrúa frá 16. ágúst s.á. þar sem ekki var gerð nein skipulagsleg athugasemd við erindið. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Hinn 7. apríl 2014 gaf byggingarfulltrúi svo út byggingarleyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að hið umdeilda byggingarleyfi fari bæði gegn eldra deiliskipulagi á svæðinu, sem hafi tekið gildi 11. júní 2007, og yngra deiliskipulagi sem hafi tekið gildi 3. febrúar 2014. Ljóst sé af texta tilvitnaðra deiliskipulaga að ekki hafi þar verið um að ræða heimilaðar breytingar á verbúðunum og útliti þeirra. Fari þær breytingar sem nú sé verið að gera og byggingarleyfi verið veitt fyrir því í bága við deiliskipulag. Með vísan til 1. mgr. 9. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 1. tl. gr. 2.4.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé byggingarleyfið því ólögmætt enda megi það ekki fara í bága við deiliskipulag. Eina undantekningin frá slíku sé ef um óverulegar breytingar sé að ræða frá deiliskipulagi en þá hvíli fortakslaus skylda á sveitarfélagi að grenndarkynna þær, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Slíkt hafi ekki verið gert og raunar hafni kærendur því að breytingarnar geti talist óverulegar, sbr. gr. 2.3.4. byggingarreglugerðar, þar sem þær skerði hagsmuni nágranna hvað „innsýn“ varði og hafi jafnframt áhrif á götumynd.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að hið kærða byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 og deiliskipulag Slippa- og Ellingsenreits R16, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 7. maí 2009 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. september s.á. Í greinargerð deiliskipulagsins segi um „gömlu verbúðirnar“ að á reitnum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem sé í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónustu, verslunum, veitingahúsum, vinnustofum listamanna og verslunum þeim tengdum. Á undanförnum árum hafi starfsemi verbúðanna færst frá upphaflegri hafnsækni yfir í framreiðslu veitinga og smásölu. Fyrir liggi að starfsemi svæðisins haldi áfram að þróast í þá átt á kostnað hefðbundins handverks, vinnslu og umsýslu er tengist sjávarfangi. Byggingarfulltrúi hafi gefið út leyfi til breytinga á notkun húss sem sé í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Hafi málsmeðferð leyfisveitingarinnar að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, mannvirkjalaga nr. 160/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að á hans vegum hafi verið stunduð útgerð og fiskvinnsla um árabil. Hann hafi leigt aðstöðu í Verbúð 10 og eigi Verbúð 11. Áður hafi hafnsækin starfsemi eingöngu átt sér stað í verbúðunum en sú breyting hafi orðið á árinu 2002 að veitingaaðstaða hafi verið sett upp í Verbúð 8. Í verbúðunum sé nú að finna veitinga- og kaffistaði, kvikmyndasýninga- og fundasali, bílaleigu, listmunagallerí og skartgripaverslun, smábátafélag og minjagripaverslun, gallerí og listmunasölu. Með auknum umsvifum þjónustufyrirtækja, verslana og veitingastaða í gömlu verbúðunum hafi sífellt orðið örðugra að reka þar fiskvinnslu og útgerðarstarfsemi og hafi leyfishafi því leitað hófanna með að nýta fasteignina í öðrum tilgangi. Brugðist hafi verið í einu og öllu við ábendingum og athugasemdum byggingarfulltrúa. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 7. apríl 2014 og framkvæmdir hafist. Bent sé á að íbúðir kærenda séu í um tveggja metra fjarlægð frá mikilli umferðargötu og ekki þurfi að leita langt aftur í tímann til að fullvissa sig um að verðmæti íbúðarhúsnæðis í næsta nágrenni hafi aukist í kjölfar breyttrar starfsemi í gömlu verbúðunum og nágrenni þeirra. Ef kæra nái fram að ganga sé einsýnt að álykta sem svo að engin atvinnustarfsemi í gömlu verbúðunum sé í samræmi við þá umsögn í skipulagi sem vitnað sé til.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar byggingarleyfis vegna breytinga og nýtingar á húsinu nr. 3 við Geirsgötu þar sem leyfið sé í andstöðu við deiliskipulag og breytingarnar hafi í för með sér neikvæð grenndaráhrif gagnvart kærendum.

Í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það gert að skilyrði fyrir samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfa að efni þeirra sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Hið umþrætta byggingarleyfi styðst við þágildandi deiliskipulag Slippa- og Ellingsenreits, sem tók gildi 11. júní 2007, með þeim breytingum sem tóku gildi 16. september 2009 varðandi reit R16, sem hér á við. Á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin var áformað að á reitnum skyldi fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem væri í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónustu, verslunum, veitingahúsum, vinnustofum listamanna og verslunum þeim tengdum. Því er ljóst að hin breytta notkun umrædds húsnæðis samræmist því deiliskipulagi sem í gildi var við veitingu umdeilds byggingarleyfis og þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, en þar kemur fram að á svæðinu sé stefnt að samhæfingu hafnarsvæðis og miðborgar þar sem fram fari fjölbreytt hefðbundin hafnarstarfsemi með áherslu á þjónustu við skemmtiferðaskip, fiskiskip og báta, menningarstarfsemi og ferðaþjónustu. Þá er rétt að taka fram að í núgildandi deiliskipulagi sem tók gildi 3. febrúar 2014, er gert ráð fyrir óbreyttu ástandi á umræddu svæði frá því sem að framan er lýst. Loks verður ekki talið að orðalag fyrirvara í deiliskipulaginu þess efnis að varðveittur verði hluti verbúða að loknum breytingum við umferðarmannvirki girði fyrir þær breytingar á útliti sem heimilaðar voru með hinu umdeilda byggingarleyfi. Í því samhengi er rétt að benda á að umrædd bygging nýtur hvorki þeirrar verndar sem mælt er fyrir um í lögum nr. 80/2012 um menningarminjar né gerð tillaga að varðveislu hennar í húsakönnun fyrir Mýrargötusvæði frá árinu 2003.

Eins og að framan greinir á byggingarleyfið sér stoð í þágildandi deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits, svo sem því var breytt hinn 16. september 2009. Hefur úrskurðarnefndinni ekki borist kæra vegna þeirrar breytingar og auk þess er kærufrestur vegna hennar liðinn. Kemur deiliskipulagsbreytingin og möguleg áhrif hennar á grenndarhagsmuni kærenda því ekki til álita hér. Þá tekur úrskurðarnefndin fram að ekki var ástæða til að grenndarkynna byggingarleyfið fyrir kærendum eða öðrum skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda var það gefið út með stoð í gildu deiliskipulagi. Þó geta nýir gluggar og dyr á þeim gafli sem staðsettur er gegnt fasteign kærenda og áður var gluggalaus haft í för með sér sjálfstæð grenndaráhrif. Í því samhengi verður hins vegar ekki fram hjá því litið að yfir 20 m eru frá fasteign kærenda að umræddum gafli og að á milli liggur fjölfarin umferðargata. Þá liggur fyrir að við hlið þess húss, er hið kærða leyfi tekur til, og stendur nær kærendum, er veitingahús með útbyggðu glerhýsi, en við hina hlið hússins og fjær kærendum er veitingahús með útisvæði. Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum, og einnig því að fasteign kærenda er á svæði sem skilgreint er sem miðborg og miðsvæði í aðalskipulagi, sbr. b-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, verður ekki á það fallist að sú breyting er hér um ræðir sé til þess fallin að breyta götumynd eða skerða hagsmuni kærenda hvað varðar útsýni eða innsýn svo mjög að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.
 
Í ljósi alls þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við samþykki hins kærða byggingarleyfis að ógildingu varði er kröfu kærenda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2013 um að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og leyfi fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson