Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2013 Fiskeldi í Fáskrúðsfirði starfsleyfi

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 19. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2013, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. júlí 2013 um að breyta starfsleyfi fyrir fiskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði úr eldi þorsks í eldi á regnbogasilungi.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Eggert Páll Ólason hdl., f.h. Laxa fiskeldis ehf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. júlí 2013 að breyta starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. fyrir fiskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði úr eldi þorsks í eldi á regnbogasilungi.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða, sbr. 1. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök:  Með bréfi til Umhverfisstofnunar, dags. 22. mars 2013, sótti handhafi starfsleyfis fyrir þorskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði eftir breytingum á leyfinu, þannig að í stað þorskeldis yrði heimilað eldi á regnbogasilungi. Umhverfisstofnun féllst á umsóknina og gaf út breytt starfsleyfi 5. júlí 2013 og Fiskistofa breytti í kjölfarið rekstrarleyfi leyfishafa til samræmis við hið breytta starfsleyfi.

Fyrir liggur að kærandi sendi Skipulagsstofnun fyrst upplýsingar um að hann hygðist stofna til laxeldis í Fáskrúðsfirði í desember 2011. Með bréfi, dags. 26. október 2012, sendi hann Skipulagsstofnun tilkynningu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 og með bréfi, dags. 25. júlí 2013, óskaði hann eftir því að stofnunin liti svo á að fyrirhugað laxeldi hans skyldi háð mati á umhverfisáhrifum og féllst stofnunin á það.

Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að hún fari gegn hagsmunum hans og gegn lögum. Kærandi hafi undirbúið laxeldi á Austfjarðasvæðinu um margra ára skeið og breytingin á eldisleyfi leyfishafa hafi afgerandi áhrif fyrir fyrirhugað fiskeldi kæranda í Fáskrúðsfirði.  Kærandi hafi beina, sérstaka, verulega og lögvarða hagsmuni af málinu og teljist því aðili máls skv. ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar. Hin kærða breyting á starfsleyfi muni raska forsendum tilkynnts fiskeldis kæranda, en þær hafi byggst á opinberum upplýsingum og leyfum sem hafi verið í gildi. Með ákvörðuninni sé hagsmunum kæranda raskað með óafturkræfum hætti og fyrirhugað laxeldi hans í Fáskrúðsfirði hafi verið sett í uppnám.  

Umhverfisstofnun telur kæranda ekki eiga aðild í málinu þar sem hann geti ekki sýnt fram á einstaklega og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Kærandi hafi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á þremur stöðum í Reyðarfirði en hafi ekki slík leyfi í Fáskrúðsfirði.

Andmæli leyfishafa um réttarstöðu kæranda í máli þessu eru á sömu lund og haldið er fram af hálfu Umhverfisstofnunar.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en tekið hefur verið mið af þeim málatilbúnaði við úrlausn málsins. 

Niðurstaða: Þeir einir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun geta borið hana undir úrskurðarnefndina, skv. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærandi er með leyfi fyrir sjókvíaeldi í Reyðarfirði. Hann er ekki með starfs- eða rekstrarleyfi fyrir slíkri starfsemi í Fáskrúðsfirði, en hefur sent Skipulagsstofnun tilkynningu á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs laxeldis þar. Ekkert liggur fyrir um að hið kærða starfsleyfi geti haft áhrif á laxeldi kæranda í Reyðarfirði. Þótt kærandi hafi sent tilkynningu til Skipulagsstofnunar um áform sín um laxeldi í Fáskrúðsfirði leiðir sú tilkynning ekki til þess að hann teljist eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun um breytt leyfi félags, sem þegar er með leyfi fyrir fiskkvíaeldi í firðinum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

114/2012 Suðurgata

Með

Árið 2013, föstudaginn 27. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 114/2012, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. október 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð húss nr. 18 við Suðurgötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra F, G, S og H, Suðurgötu 18, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 3. október 2012, er staðfest var í borgarráði 4. s.m., að synja gerð fjögurra bílastæða fyrir framan húsið nr. 18 við Suðurgötu.  Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að henni verði breytt á þann veg að veitt verði heimild til að gera þrjú bílastæði á framlóð hússins. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 10. febrúar 2012 var lögð fram fyrirspurn f.h. íbúa Suðurgötu 18 um möguleika á að koma fyrir bílastæðum á lóðinni í samræmi við framlagða tillögu.  Var erindið afgreitt neikvætt og talið að það samræmdist ekki deiliskipulagi með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 10. febrúar s.á.  Ný fyrirspurn um gerð bílastæða á umræddri lóð var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 23. maí 2012 en einnig var lagt fram minnisblað framkvæmda- og eignasviðs, dags. 20. mars s.á., og umsögn skipulagsstjóra, dags. 21. maí s.á.  Var umsögn skipulagsstjóra samþykkt og honum jafnframt falið að yfirfara bílastæðamál við Suðurgötu í samráði við samgöngustjóra.  Í umsögninni kom fram að fyrirspurninni fylgdu þrjár tillögur, ein er sýndi fjögur bílastæði fremst á lóð, ein er gerði ráð fyrir þremur bílastæðum efst í lóð, með innkeyrslu um stíg er liggur upp að Suðurgötu 20, og loks tillaga er sýndi þrjú bílastæði framan við hús með aðkomu um nefndan stíg.  Var lagt til að tekið yrði jákvætt í að vinna deiliskipulagsbreytingu á kostnað lóðarhafa þar sem heimiluð yrðu þrjú bílastæði á baklóð með aðkomu um stíg á lóðarmörkum Suðurgötu 18 og 22. 

Hinn 14. ágúst 2012 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð hússins nr. 18 við Suðurgötu.  Afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til skipulagsráðs er afgreiddi umsóknina á fundi hinn 3. október s.á. með svofelldri bókun:  „Synjað. Umsækjanda er bent á bókun skipulagsráðs frá 23. maí 2012.“  Borgarráð staðfesti greinda afgreiðslu hinn 4. s.m. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að deiliskipulag fyrir Suðurgötureit geri bæði ráð fyrir bílastæðum á baklóðum og eins fyrir framan hús.  Breyting á deiliskipulagi sé því óþörf.  Að auki sé um minni háttar breytingu frá núverandi ástandi að ræða og sé hún í samræmi við það sem Reykjavíkurborg hafi þegar samþykkt varðandi staðsetningu bílastæða við hús á svæðinu.  Að mati kærenda séu bílastæði á baklóð hússins lakasti kosturinn og hafi t.d. í för með sér aukið ónæði.  Þá hafi húseigendur við Suðurgötu 20 og 22 sett sig upp á móti þeirri leið.  Hugnist öllum hlutaðeigandi að bílastæði verði á framlóð hússins, sunnan megin, svo sem eigi við um flest hús við götuna, með aðgangi um stíg sem sé á milli húsa nr. 18 og 22. 

Kærendur byggi á því að gerð bílastæða á eignarlóð sé ekki mannvirkjagerð í skilningi 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og þurfi því ekki byggingarleyfi.  Reykjavíkurborg hafi leyft bílastæði fyrir framan flest hús götunnar.  Verði borgin við ákvarðanatöku að virða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Reykjavíkurborg hafi einnig veitt sérstakt leyfi fyrir bílastæðum framan við hús nr. 10 og 22 við götuna, en hús nr. 22 sé við hlið húss kærenda.  Jafnframt hafi Reykjavíkurborg liðið óleyfisframkvæmdir í áratugi við bílastæði fyrir framan hús við götuna og hafi auk þess lækkað gangstéttir við slíkar innkeyrslur og þannig í raun samþykkt þær. 

Vísað sé til þess að áhöld séu um eignarheimild og afnotarétt að þeim stíg sem skilji að hús kærenda og Suðurgötu 22 en ljóst sé að hús nr. 18 eigi ekki eitt aðgang að stígnum.  Engin bílastæði séu við hús kærenda og þurfi að leggja bifreiðum út á Suðurgötu við fermingu og affermingu þeirra.  Öryggi íbúa hússins og annarra vegfaranda sé þannig stefnt í hættu.  Þá séu engin almenn bílastæði við götuna og hafi kærendur m.a. lagt bílum sínum við Kirkjugarðsstíg, en þar hafi Reykjavíkurborg nú úthlutað sendiráði tveimur merktum bílastæðum, sem kærendur geti því ekki nýtt sér lengur.  Jafnframt sé á það bent að umsögn skipulagsstjóra taki ekki til þeirra krafna sem gerðar séu um aðgang og fram komi í gr. 6.2.1., 6.2.2., 6.2.5. og 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Einnig samrýmist hin kærða ákvörðun ekki gr. 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjölda bílastæða.  Þá sé óásættanlegt að binda fjölda bílastæða við þrjú, en þrjár íbúðir séu í húsinu, og vanti stæði fyrir gesti og hreyfihamlaða. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kærenda í máli þessu verði hafnað.  Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að umsókn kærenda sé verulega frábrugðin upphaflegum tillögum.  Ekki sé fallist á að deiliskipulagið heimili bílastæði á umræddri lóð.  Þá segi og í skipulaginu að sögulegt gildi byggðar á þessu svæði sé mikið og að mikilvægt sé að Reykjavíkurborg standi vörð um það.  Einnig segi þar að reiturinn sé fullbyggður og að í flestum tilvikum verði sem minnst hróflað við byggingum fyrir utan eðlilegt viðhald þeirra og lóða.  Ennfremur sé bent á að í umsögn skipulagsstjóra, sem vísað hafi verið til við afgreiðslu umsóknarinnar, komi fram að sú tillaga er sýni bílastæði á baklóð samræmist best markmiðum deiliskipulagsins.

Gerð bílastæða sé byggingarleyfisskyld framkvæmd.  Bílastæði teljist til mannvirkis í skilningi gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og skv. gr. 4.3.1. skuli tilgreina fjölda bílastæða á aðaluppdrætti og gera sérstaklega grein fyrir hvernig hann samræmist kröfum í deiliskipulagi og byggingarreglugerð.  Einnig skuli skv. gr. 4.3.9. gera grein fyrir heildarfjölda bílastæða í byggingarlýsingu. 

Ekki sé fallist á að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin á kærendum en fallist hafi verið á gerð bílastæða bak við hús þeirra, eins og kærendur hafi á sínum tíma lagt til.  Aðstæður á lóðum geti verið mismunandi og ekki sjálfgefið að lóðarhafar í miðborginni fái samþykkt bílastæði þar sem þeir helst kjósi.  Vissulega séu samþykkt einhver bílastæði á flestum lóðunum samkvæmt deiliskipulaginu en aðeins á tveimur stöðum séu sýnd bílastæði á austurhluta lóða, en þau hafi þegar verið samþykkt þegar deiliskipulagið hafi tekið gildi.  Annars staðar séu bílastæði aftar í lóðum yfirleitt í tengslum við bílgeymslur og þau séu ekki sýnd á deiliskipulagsuppdrætti.  Þetta þýði þó ekki endilega að slíku verði við komið á öllum lóðum við Suðurgötu.  Bílastæði sem sett hafi verið í óleyfi annars staðar skapi ekki rétt til handa kærendum í málinu.  Hafi lóðarhöfum sem byggt hafi bílastæði í óleyfi verið send bréf þar sem þeim sé gert að gera grein fyrir bílastæðunum.  Verði gatan í framhaldinu skoðuð í heild m.t.t. bílastæðamála. 

Þá verði ekki fallist á að eingöngu bílastæði framan við húsið geti uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar og skipulagsreglugerðar um bílastæði.  Jafnframt sé bent á að ekki séu gerðar neinar kröfur í lögum eða reglugerðum um gestastæði eða stæði fyrir hreyfihamlaða á þegar byggðum lóðum í grónum hverfum borgarinnar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um staðsetningu bílastæða á lóðinni nr. 18 við Suðurgötu.  Umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag staðgreinireits 1.161, er staðfest var af umhverfismálaráðherra hinn 26. ágúst 1993.  Á gildandi deiliskipulagsuppdrætti eru sýndar merkingar fyrir bílastæði, t.d. framan við hús nr. 10 og 22 við Suðurgötu, en ekki liggur fyrir hvort merkingar þessar styðjist við samþykktir sveitarstjórnar.  Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 21. maí 2012, kemur fram að samkvæmt byggingarnefndarteikningum séu á flestum lóðum samþykkt einhver bílastæði og á sumum lóðum séu bílastæði framan við bílgeymslur.  Þá er tiltekið að aðeins Suðurgata 16, 18, 24 og 26 hafi ekkert samþykkt bílastæði, en að gerð hafi verið bílastæði á nokkrum lóðum án heimildar og séu einkum áberandi bílastæði á lóð Suðurgötu 24 og bílastæði í garði Suðurgötu 16. 

Í deiliskipulaginu segir að reiturinn sé í raun fullbyggður og að lagt sé til að í flestum tilvikum verði sem minnst hróflað við byggingum, fyrir utan eðlilegt viðhald bygginga og lóða, og haldið í margbreytilegt svipmót reits í ströngum ramma.  Gert sé m.a. ráð fyrir að leyfa megi minni háttar breytingar, svo sem kvista, svalir, garðstofur og smærri viðbyggingar, sem færi íbúðir nær nútíma hýbýlaháttum og bæti aðstöðu íbúa.  Fara skuli varlega í allar útlitsbreytingar og hugað að listrænu gildi húsa.  Tilgreint er að hugsa mætti sér einhverjar bakbyggingar á Suðurgötulóðum, e.t.v. yfirbyggð bílastæði.  Þá segir eftirfarandi:  „Bílastæði eru á einkalóðum og í götustæðum.  Suðurgata er þröng tvístefnugata, þar sem erfitt er að stöðva bíla.  Á nokkrum lóðum hefur verið gengið frá missnotrum bílastæðum á austurhluta lóðar, þar sem áður voru gróskumiklir garðar.  Æskilegt væri að leggja bílum á baklóðum í vestri, þar sem því verður komið við, að öðrum kosti þarf að vanda og samræma frágang bílastæða við Suðurgötu.“ 

Verður framangreint orðalag deiliskipulagsins um bílastæði ekki túlkað með þeim hætti að girt sé fyrir staðsetningu bílastæða framan við hús í götunni.  Þess eru og dæmi að skipulagsyfirvöld borgarinnar hafi ekki amast við gerð bílastæða á lóðum við götuna til þessa.  Þá kunna nokkrir annmarkar að vera á því að staðsetja bílastæði á baklóð Suðurgötu 18 í ljósi vafa sem uppi virðist vera um eignarhald að þeim stíg sem nota þyrfti til að komast að þeim stæðum. 

Með vísan til þess er að framan greinir verður að telja að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sé svo áfátt að ógildingu varði. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. október 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð húss nr. 18 við Suðurgötu í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

63/2013 Leyfisskylda mannvirkis Sandskeið

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 8. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 63/2013, beiðni  um að úrskurðað verði um hvort niðursetning og geymsla þriggja skúra á Sandskeiði sé háð byggingarleyfi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2013, er barst nefndinni sama dag, fór Svifflugfélag Íslands, hér eftir nefnt félagið, fram á, með vísan til 9. gr. laga nr. 160/2010, að úrskurðað yrði hvort niðursetning og geymsla þriggja skúra í eigu félagsins á svæði þess á Sandskeiði væri háð byggingarleyfi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 2. jú1í 2013 tók byggingarfulltrúinn í Kópavogi fyrir umsókn frá 21. júní s.á. um stöðuleyfi til eins árs fyrir þremur lausum skúrum á starfssvæði Svifflugfélags Íslands, hér eftir nefnt félagið.  Var erindinu hafnað með þeim rökum að umræddir skúrar féllu ekki undir skilgreiningu gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. 

Félagið kveðst hafa keypt fimm lausa 60 m2 skúra úr timbri sem notaðir hafi verið sem kennslustofur.  Umræddir skúrar standi lausir við Rimaskóla og hafi ekki verið í notkun í tvö ár.  Þeir séu sérstaklega smíðaðir með áföstum flutningsbúnaði, sem séu tveir járnþverbitar undir gólfbitum er standi um 20 cm út fyrir húsin og séu sérstaklega ætlaðir til hífingar á flutningabíl.  Við kaupin hafi verið fyrirhugað að flytja þrjá skúra til geymslu á starfsstöð félagsins á Sandskeiði enda ekki annað vitað en að flutningur þeirra yrði án vandkvæða.  Stækkun á klúbbhúsi félagsins hafi um árabil verið til skoðunar ásamt byggingu flugskýlis og hafi ætlunin verið að nýta skúrana sem byggingarefni þegar fyrir lægi byggingarleyfi fyrir þeim framkvæmdum.  Í kaupsamningi um skúrana hafi verið tekið fram að þeir væru seldir til brottflutnings og teldust því lausafé, enda án lóðarréttinda.  Vegagerðin hafi hins vegar hafnað umsókn um flutning skúranna á grundvelli 1. og 3. mgr. 75. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og gert kröfu um að fyrir lægi heimild byggingarfulltrúa til útgáfu flutningsleyfis.  Uppi sé ágreiningur milli félagsins og skipulagsyfirvalda bæjarins varðandi það hvort skúrarnir teljist vera fasteignir, mannvirki eða lausafé í skilningi mannvirkjalaga og sé félaginu nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort niðursetning og geymsla skúranna á Sandskeiði sé byggingarleyfisskyld.  Þá sé þess einnig óskað að úrskurðarnefndin taki af vafa um hvort framangreint falli undir ákvæði 9. liðar 60. gr. mannvirkjalaga um stöðuleyfi.  Ekki verði séð að tímabundin geymsla skúranna sé háð leyfi að lögum en nauðsynlegt sé að flytja þá í burtu sem allra fyrst þar sem þeir liggi nú undir skemmdum og til þess að hindra riftun kaupanna á skúrunum. 

Af hálfu byggingaryfirvalda í Kópavogi er á það bent að synjun stöðuleyfis sé stjórnvaldsákvörðun er falli undir kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, enda hafi verið vakin athygli á kærurétti í bréfi til félagsins þar sem málalok hafi verið kynnt.  Umsókn félagsins hafi ekki verið um byggingarleyfi og skorti því forsendu fyrir málaleitan þess til úrskurðarnefndarinnar.  Grein 2.6.1 í gildandi byggingarreglugerð fjalli um minni háttar atriði, þar með talið sumarhús í smíðum, ætluð til flutnings, en ekki heilu húsin.  Á þeirri forsendu hafi umsókn félagsins um stöðuleyfi verið hafnað.  Á svæðinu sé hvorki aðal- né deiliskipulag í gildi.  Í umboði bæjarstjórnar í sumarleyfi hafi bæjarráð Kópavogsbæjar staðfest afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 11. júlí 2013.  Þá sé það ekki á verksviði byggingarfulltrúa að meta hvort reglugerðir standist viðkomandi lög.  Að öllu framangreindu virtu fari byggingarfulltrúi því fram á að umræddri beiðni verði vísað frá. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að tilefni erindis félagsins til úrskurðarnefndarinnar var að ekki fékkst leyfi Vegagerðarinnar til flutnings umræddra húsa nema að fengnu leyfi Kópavogsbæjar.  Sótt var um stöðuleyfi fyrir húsunum en byggingarfulltrúi synjaði umsókninni með þeim rökum að þau gætu ekki fallið undir þau tilvik sem ákvæði gildandi byggingarreglugerðar um stöðuleyfi tækju til.  Sú afgreiðsla hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og ekki er fyrir hendi lagaheimild fyrir því að bera vafa um stöðuleyfisskyldu undir nefndina, eins og þegar um er að ræða vafa um byggingar- eða framkvæmdaleyfisskyldu, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 7. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Af þessum ástæðum sætir greind niðurstaða byggingarfulltrúa um stöðuleyfisskyldu umræddra húsa ekki endurskoðun í máli þessu og ekki verður tekin afstaða að öðru leyti til þess hvort staðsetning þeirra sé háð stöðuleyfi. 

Félagið hefur vísað til þess að skiptar skoðanir séu uppi um hvort flutningur og staða umræddra húsa á áfangastað sé háð leyfi samkvæmt mannvirkjalögum og standi það í vegi fyrir flutningi þeirra á umráðasvæði hans á Sandskeiði.  Í ljósi réttarstöðu félagsins í máli þessu og augljósra hagsmuna af því að fá úr því skorið hvort staðsetning húsanna til geymslu á nefndum stað sé byggingarleyfisskyld verður beiðni félagsins þess efnis tekin til efnislegrar úrlausnar. 

Í 9. gr. laga um mannvirki er fjallað um hvaða framkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar.  Þar er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því eða burðarkerfi þess, lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa.  Einsök mannvirki geta verið undanþegin slíku leyfi samkvæmt laga- eða reglugerðarákvæðum en slíkar undantekningar eiga ekki við um þær færanlegu byggingar sem mál þetta snýst um. 

Samkvæmt 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 51. tl. gr. 1.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru mannvirki hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga.  Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar.  Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögunum.  Skýra verður hugtakið mannvirki í fyrrgreindri 9. gr. nefndra laga í samræmi við 13. tl. 3. gr. þeirra og 51. tl. gr.1.2.1 í gildandi byggingarreglugerð. 

Af málatilbúnaði félagsins má ráða að byggingar þær sem hér um ræðir verði hvorki jarðfastar né ætlaðar til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, heldur hyggist félagið aðeins flytja þær til geymslu á umráðasvæði sitt á Sandskeiði.  Komi til notkunar þeirra, svo sem til viðbyggingar við starfsaðstöðu félagsins sem fyrir sé á staðnum, verði það ekki gert nema að fengnu byggingarleyfi. 

Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið verður að telja að flutningur og geymsla framangreindra húsa á umráðasvæði félagsins á Sandskeiði sé ekki háð byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Úrskurðarorð: 

Flutningur og geymsla umræddra þriggja húsa á umráðasvæði Svifflugfélags Íslands á Sandskeiði er ekki háð byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

30/2013 Aðgangur að gögnum máls

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 19. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 30/2013, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 5. mars 2013 um að takmarka aðgang að gögnum vegna umsóknar um leyfi til byggingar Suðurnesjalínu 2. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru- og Minni-Vatnsleysu og Vogajarðarinnar þá ákvörðun Orkustofnunar frá 5. mars 2013 að takmarka aðgang kærenda að gögnum, sem merkt eru trúnaðarmál, vegna umsóknar Landsnets um leyfi til byggingar Suðurnesjalínu 2.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Orkustofnun að veita kærendum óheftan aðgang að nefndum gögnum. 

Málsástæður og rök:  Hinn 21. desember 2012 sótti Landsnet um leyfi til Orkustofnunar fyrir byggingu Suðurnesjalínu 2 í samræmi við 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003.  Með umsókninni fylgdu m.a. gögn sem merkt voru trúnaðarmál.  Var umsóknin kynnt með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu hinn 1. febrúar 2013, svo sem áskilið er í 3. mgr. 34. gr. nefndra laga, og þar tekið fram að gögn um flutningsvirkið, sem ekki væru flokkuð sem trúnaðargögn, mætti nálgast hjá umsækjanda.  Kærendur í máli þessu, sem eru eigendur að hluta þess lands sem fyrirhugað er að nefnd raforkulína liggi um, fóru fram á að fá óheftan aðgang að gögnum málsins sem merkt væru trúnaðarmál.  Nokkur bréfaskipti áttu sér stað milli kærenda og Orkustofnunar af því tilefni og urðu málalyktir þær að kærendum, eða aðilum á þeirra vegum, var gefinn kostur á að kynna sér efni umræddra skjala í trúnaði með réttarstöðu aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Kærendur sættu sig ekki við þær takmarkanir að fá ekki afrit umræddra skjala í hendur og skutu þeirri ákvörðun Orkustofnunar um málsmeðferð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir. 

Kærendur benda á að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og fari gegn meginreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rétt aðila máls til þess að fá afrit af málsskjölum, teljist þeir á annað borð eiga rétt til að kynna sér þau.  Slíkur aðgangur sé forsenda virks andmælaréttar kærenda.  Hafa verði í huga að mat leyfisveitanda á því hvort veita eigi umsækjanda umbeðið leyfi ráðist m.a. af hagkvæmni framkvæmdarinnar, sbr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003.  Kærendur áformi að fá sérfræðinga til að yfirfara röksemdir um kostnað og hagkvæmni fyrirhugaðrar raflínu en til þess þurfi óheftan aðgang að sundurliðuðum kostnaðarupplýsingum umsækjanda sem merktar séu trúnaðarmál.  Því sé mótmælt að mat á hagsmunum aðila skv. 17. gr. stjórnsýslulaga eigi að leiða til þess að hagsmunir kærenda af virkum andmælarétti skuli víkja fyrir hagsmunum umsækjanda, enda verði ekki séð að óheftur aðgangur kærenda að málsskjölum raski hagsmunum hans.  Þá sé á því byggt að ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga geti ekki réttlætt umdeilda takmörkun.  Takmörkun aðgangs málsaðila að gögnum máls samkvæmt nefndu ákvæði eigi að hindra að málsaðili geti notfært sér vitneskju er gögnin hafi að geyma en hafi ekki að markmiði samkvæmt orðalagi sínu að stemma stigu við því að upplýsingar berist til óviðkomandi aðila.  Hin kærða ákvörðun nái jafnframt ekki markmiði því sem að sé stefnt þar sem aðilar á vegum kærenda geti kynnt sér efni umræddra skjala og gætu miðlað upplýsingum um efni þeirra til óviðkomandi væri vilji til þess.  Takmarkanir á aðgangi að upplýsingum verði að vera til þess fallnar að ná því markmiði sem að sé stefnt skv. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, en sú sé ekki raunin í máli þessu. 

Orkustofnun vísar til þess að í máli þessu vegist á hagsmunir umsækjanda af því að viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsleg málefni fari leynt og ríkir hagsmunir kærenda vegna lögbundins andmælaréttar af því að fá að kynna sér öll gögn málsins.  Stofnunin hafi þurft í málsmeðferð sinni að taka afstöðu til gagnstæðra hagsmuna, m.a. á grundvelli hinnar óskráðu réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins og ákvæðum stjórnsýslulaga, eftir því sem við hafi átt.  Niðurstaðan hafi orðið sú að kærendur geti kynnt sér umrædd trúnaðargögn án strangra takmarkana og tekið hafi verið tillit til hagsmuna umsækjanda af því að leynd ríkti um innihald trúnaðargagnanna, svo sem kostur væri.  Athygli sé vakin á því að ekki verði dregið í efa að um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni umsækjanda sé að ræða sem eðlilegt sé að fari leynt, m.a. með tilliti til samkeppnissjónarmiða á útboðsmarkaði, og snerti jafnframt einstaklingshagsmuni umsækjanda og almannahagsmuni.  Gögnin varði sundurliðaða kostnaðarþætti einstakra verkframkvæmda sem væntanlega komi til útboðs á samkeppnismarkaði ef af framkvæmdum verði.  Óheimilt sé að veita almenningi aðgang að slíkum upplýsingum skv. 9. gr. upplýsingalaga.  Kærendum sé tryggður réttur til að kynna sér umrædd trúnaðargögn og önnur gögn málsins í samræmi við 15. gr. stjórnsýslulaga, þótt sú takmörkun sé sett að ekki verði afhent afrit af trúnaðargögnunum og trúnaðar sé gætt um innihald þeirra í þann tíma sem aðilar sammælist um.  Hin kærða ákvörðun byggist á lögmætum sjónarmiðum og hafi verið tekið mið af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga við ákvarðanatökuna og öðrum ákvæðum þeirra laga. 

Umsækjandi mótmælir því að kærendur geti talist aðilar máls í skilningi stjórnsýslulaga við meðferð umsóknar þeirra. Kærendum sé ekki nauðsyn á að fá ótakmarkaðan aðgang að umræddum gögnum til þess að andmælaréttur þeirra verði virkur, eins og atvikum sé háttað.  Gögnin hafi að geyma sundurliðun á kostnaði vegna framkvæmda umsækjanda sem falli undir tilskipun ESB 2004/17 samkvæmt reglugerð nr. 755/2007 um innkaup stofnana sem annist vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti.  Þar sé m.a. að finna reglur um útboðsskyldu, útboðsaðferðir o.fl., sem tryggja eigi jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup og stuðla að hagkvæmni í rekstri.  Afhending gagna sem hafi að geyma sundurliðaðar upplýsingar um kostnað fyrirtækisins vegna fyrirhugaðra framkvæmda brjóti gegn mikilvægum fjárhagslegum hagsmunum þess tengdum útboðsskyldunni,  grafi undan tilgangi útboðs framkvæmda og komi í veg fyrir að tryggt sé jafnræði bjóðenda hvað varði upplýsingar í útboðsferlinu.  Samkvæmt 9. gr. raforkulaga hvíli sú lagaskylda á umsækjanda að byggja flutningskerfi raforku á hagkvæman hátt.  Ríkir almannahagsmunir séu í því fólgnir að ekki sé veittur aðgangur að kostnaðarupplýsingunum og hafi kærendur ekki sýnt fram á hagsmuni sína af því að fá aðgang að þeim.  Kærendur hafi aðgang að upplýsingum um fyrirhugaða framkvæmd og um heildarkostnað vegna hennar, en það sé hlutverk Orkustofnunar að meta hagkvæmni framkvæmdarinnar við meðhöndlun umsóknar umsækjanda.  Verulegir almannahagsmunir séu af því að veita ekki aðgang að umræddum upplýsingum, sem gangi framar hagsmunum kærenda, og verði að telja að veittur aðgangur kærenda að gögnunum eigi ekki lagastoð.  Sé hinni kærðu ákvörðun því áfátt að því leyti og beri að ógilda hana af þeim sökum. 

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum og rökum sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun Orkustofnunar felur í sér takmörkun á aðgangi að gögnum á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við málsmeðferð umsóknar um að reisa og reka flutningslínu fyrir raforku skv. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003.  Umrædd gögn hafa að geyma sundurliðun umsækjanda á áætluðum kostnaði hans við fyrirhugaða framkvæmd.  Takmörkunin lýtur að því að kærendur verði bundnir trúnaði um innihald skjalanna og fái ekki afhent afrit af þeim.  Lokaákvörðun um umrædda leyfisveitingu er unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar skv. 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003 og verður ágreiningi um takmörkun á aðgangi gagna við málsmeðferðina því einnig borinn undir nefndina, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. 

Við meðferð Orkustofnunar á umsókn Landsnets um leyfi til byggingar Suðurnesjalínu 2 leit stofnunin réttilega svo á að kærendur hefðu réttarstöðu aðila í skilningi stjórnsýslulaga, enda eru þeir eigendur hluta þess lands sem færi undir fyrirhugaða flutningslínu ef af framkvæmdum verður.

Meginreglan í stjórnsýslurétti er sú að aðili máls eigi óheftan aðgang að gögnum máls, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga, og ekki hefur verið talið að sá aðgangur þurfi að styðjast við sérstaka ákvörðun sem eftir atvikum verði kærð til æðra stjórnvalds.  Verður því aðeins tekin afstaða til lögmætis þeirra takmarkana sem kærendum voru settar með hinni kærðu ákvörðun en ekki tekin afstaða til réttmætis þess aðgangs sem kærendum var veittur að umræddum gögnum. 

Nefnd ákvörðun var tekin á grundvelli mats á hagsmunum kærenda annars vegar og hagsmunum umsækjanda hins vegar, svo sem heimilað er í 17. gr. stjórnsýslulaga.  Fallist er á að ríkir einstaklegir hagsmunir umsækjanda og almannahagsmunir geta verið í húfi verði umræddar upplýsingar almenningi kunnar að svo stöddu, enda hafa fyrirhuguð útboð á einstökum verkþáttum ekki farið fram.  Á hinn bóginn hefur ekki verið sýnt fram á að hagsmunir kærenda, sem tengjast kunna væntanlegri ákvörðun Orkustofnunar vegna umsóknar Landsnets, séu fyrir borð bornir með umdeildri takmörkun á aðgangi að umræddum gögnum.  Kærendur fá að kynna sér efni greindra skjala, þótt undir trúnaði sé, en óheftur aðgangur er að gögnum sem hafa að geyma heildarkostnaðartölur umræddrar framkvæmdar.  Hafa verður hér í huga að mat á hagkvæmni framkvæmdarinnar, með hliðsjón af 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 9. gr. raforkulaga, lýtur að gæslu almannahagsmuna en snertir ekki einstaklega fjárhagslega hagsmuni kærenda.  Komi til þess að heimilað verði að leggja greinda raflínu um land kærenda þurfa að koma til samningar eða eftir atvikum eignarnám, sbr. 22. og 23. gr. raforkulaga. 

Að öllu framangreindu virtu verður hinni kærðu ákvörðun ekki hnekkt. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar Orkustofnunar frá 5. mars 2013 að takmarka aðgang kærenda að gögnum, sem merkt eru trúnaðarmál, vegna umsóknar Landsnets um leyfi til byggingar Suðurnesjalínu 2. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

53/2012 Svansmerkið

Með

Árið 2013, föstudaginn 12. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 53/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Geir Gestsson hdl., f.h. Íslensk-Ameríska verslunarfélagsins hf., Tunguhálsi 2, Reykjavík, gjaldtöku Umhverfisstofnunar vegna umhverfismerkisins Svansins og samstarfsverkefni stofnunarinnar „Ágætis byrjun“ sem tengist nefndu umhverfismerki.

Gerir kærandi þær kröfur að innheimta veltutengds árgjalds fyrir Svansvottun skv. 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 525/2006 og niðurgreiðsla á markaðskostnaði einkaaðila tengd umhverfismerkinu verði úrskurðuð ólögmæt og að Umhverfisstofnun hafi farið út fyrir valdheimildir sínar með samstarfsverkefninu „Ágætis byrjun“.

Úrskurðarnefndinni bárust umbeðin gögn er málið varða frá Umhverfisstofnun hinn 10. júlí 2012.

Málsatvik og rök:  Umhverfismerkið Svanurinn er norrænt umhverfismerki og sér Umhverfisstofnun um daglegan rekstur og alla umsýslu vegna merkisins samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 525/2006 um umhverfismerki.  Merkið má veita þeirri vörutegund eða þjónustu sem um er sótt og uppfylla settar viðmiðunarreglur, sbr. 8. og 12. gr. nefndrar reglugerðar.   

Af hálfu kæranda er vísað til þess að í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að nefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfismála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði.  Þá sé kveðið á um það í 24. gr. reglugerðar nr. 525/2006 um umhverfismerki, sem eigi stoð í 5. gr. laga  nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, að rísi ágreiningur um framkvæmd reglugerðarinnar eða um ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt henni, sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, sbr. 31. gr. laganna.  Mál þetta lúti að 1. mgr. 23. gr. fyrrgreindrar reglugerðar um innheimtu veltutengds árgjalds fyrir Svansvottun og að valdheimildum Umhverfisstofnunar að lögum.

Að mati kæranda hafi Umhverfisstofnun farið út fyrir valdheimildir sínar með innheimtu veltutengds árgjalds  fyrir Svansvottun þar sem slík gjaldtaka samræmist ekki lagaskilyrðum um samhengi kostnaðar og gjaldtöku, sbr. 21. gr. laga nr. 7/1998.  Þá sé ráðstöfun árgjaldsins til niðurgreiðslu á einkarekstri í andstöðu við markmið greindra laga og reglugerðar og sama eigi við um samstarfsverkefni við hérlendar heilsugæslustofnanir, sem nefnt hafi verið „Ágætis byrjun“ og  miði að því að auka markaðshlutdeild vara einkaaðila á kostnað annarra.

Umhverfisstofnun bendir á að ekki liggi fyrir í máli þessu stjórnvaldsákvörðun stofnunarinnar gagnvart kæranda og ekki hafi verið tekin afstaða til álitaefnis um greiðsluskyldu hans á annan hátt.  Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á.  Meginreglan um lögvarða hagsmuni hljóti einnig að eiga við um önnur úrlausnarefni sem úrskurðarnefndin kunni að taka til meðferðar.  Þá sé vakin athygli á að sá ágreiningur sem uppi sé í máli þessu varði útgáfu gjaldskrár og reglugerðar sem séu stjórnvaldsathafnir sem staðfestar hafi verið af ráðherra.  Hvað varði kröfur kæranda sem snúi að meintri niðurgreiðslu stofnunarinnar á markaðskostnaði einkaaðila og valdheimildum hennar sé á það bent að þær kröfur séu hafðar uppi í öðru máli kæranda sem sé til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu.  Umhverfisstofnun telji ófært að fjallað sé um sömu kröfur hjá tveimur úrskurðaraðilum samtímis.  Af framangreindum ástæðum beri að vísa kröfum kæranda frá úrskurðarnefndinni.

Gjaldtaka Umhverfisstofnunar vegna lögbundinnar þjónustu, eftirlits, kynningu fræðslu og reksturs Svanmerkisins ásamt þróun viðmiðunarreglna sé í samræmi við þann kostnað sem til falli en gjaldtakan byggi á áætlunum um umfang þeirrar þjónustu sem talið sé að fyrirtæki í hverjum flokki þurfi á að halda.  Ekki hafi myndast sértekjur hjá stofnuninni af þessum sökum og njóti starfsemin vegna umhverfismerkisins opinbers fjárstuðnings.  Verkefnið sem nefnt hafi verið „Ágætis byrjun“ sé í samræmi við hlutverk Umhverfisstofnunar sem umsjónaraðila Svansmerkisins hér á landi og það markmið löggjafans með innleiðingu reglna um umhverfismerki að bæta markaðsstöðu umhverfisvænna vara og auka vitund neytenda um áhrif slíks varnings á umhverfið.  Eigi málatilbúnaður kæranda að efni til því ekki við rök að styðjast.

Málsaðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum og rökum sem ekki verður rakið nánar hér í ljósi niðurstöðu málsins.

Niðurstaða:   Í máli þessu er deilt um lögmæti gjaldtöku Umhverfisstofnunar tengda umhverfismerkinu Svaninum og  ákvörðun stofnunarinnar um að ráðast í verkefni sem fól í sér kynningu á nefndu umhverfismerki. Í málinu er höfð uppi frávísunarkrafa með þeim rökum að ekki liggi fyrir í málinu kæranleg ákvörðun er beinst hafi að kæranda og skorti því á að hann hafi þá lögvörðu hagsmuni tengda ágreiningsefnum málsins sem veiti honum kæruaðild.

Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sem gengið hafa komist að þeirri niðurstöðu að  úrskurðarvald hennar næði ekki til ákvarðana sem sættu staðfestingu ráðherra að lögum.  Hefur sú niðurstaða stuðst við þau rök að ráðherra er æðsti handhafi stjórnsýsluvalds á sínu sviði að stjórnskipunarrétti og verði lögmæti nefndra ákvarðana því ekki endurskoðað af öðrum stjórnvöldum nema samkvæmt skýrri lagaheimild.  Reglugerð nr. 525/2006 um umhverfismerki og gjaldskrá nr. 480/2012, sem umdeild gjaldtaka byggist á, eru stjórnvaldsfyrirmæli gefin út af umhverfisráðherra með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Verður lögmæti þeirra fyrirmæla ekki borið undir úrskurðarnefndina af framangreindum ástæðum. 

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er nefndinni markað það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.    Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað um í 3. mgr. 4. gr. nefndra laga.  Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind.  Í 2. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo sem henni var breytt með lögum nr. 131/2011, er tekið fram að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina og verður að túlka kæruheimild 1. mgr. ákvæðisins til samræmis við það.   

Ekki liggur fyrir í máli þessu ákvörðun um álagningu gjalda á hendur kæranda á grundvelli umdeildrar reglugerðar og gjaldskrár vegna umhverfismerkisins Svansins og ákvörðun Umhverfisstofnunar um að ráðast í verkefnið „Ágætis byrjun“ verður ekki talin fela í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar.  Sú ákvörðun er ekki tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og kveður ekki á um réttindi og skyldur tiltekins aðila heldur er um að ræða ákvörðun stjórnvalds um hvernig  hlutverki þess að lögum er sinnt.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfum kæranda í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

 

 

98/2012 Guðrúnargata

Með

Árið 2013, föstudaginn 26. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 98/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2012 um að veita byggingarleyfi til að setja hurð í stað glugga á suðurgafl bílskúrs að Guðrúnargötu 8 og loka dyrum á vesturgafli bílskúrsins. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Guðrúnargötu 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2012 að veita byggingarleyfi til að setja hurð í stað glugga á suðurgafl bílskúrs að Guðrúnargötu 8 og loka dyrum á vesturgafli bílskúrsins.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 15. mars 2013.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. maí 2012 var samþykkt umsókn um leyfi til að setja hurð í stað glugga á suðurgafl bílskúrs að Guðrúnargötu 8 og loka dyrum á vesturgafli bílskúrsins.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 18. s.m.  Framkvæmdir hófust í samræmi við ofangreint samþykki án þess að byggingarleyfi hefði verið gefið út. Athygli eiganda var vakin á þessu og í kjölfarið bárust tilskilin gögn til útgáfu byggingarleyfis. Í kjölfarið var byggingarleyfi gefið út hinn 5. september 2012. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að umrædd framkvæmd raski möguleikum til nýtingar hluta lóðarinnar að Guðrúnargötu 8.  Lóðin sé sameiginleg og óskipt og byggingarleyfið hafi á sínum tíma verið afturkallað af byggingarfulltrúa þar sem láðst hefði að taka fram að leyfið væri háð samþykki meðeigenda.  Hafi byggingarleyfishafa verið kunnugt um neikvæða afstöðu meðeigenda til áforma um bílskúrinn þar sem umræddur lóðarhluti sé bestur til að njóta sólar. Auk þessa hafi byggingarleyfishafi nú hellulagt þennan hluta lóðarinnar fyrir sig persónulega án samþykkis meðeigenda. Byggingarleyfishafa hafi borist tilkynning frá lögfræðingi byggingaryfirvalda þar sem honum hafi verið veittur 30 daga frestur til að leggja fram samþykki allra meðlóðarhafa fyrir framkvæmdinni í samræmi við 30. gr. laga um fjöleignarhús. Þrátt fyrir það hafi byggingarleyfishafi ráðist í framkvæmdina án þess að slíks samþykkis hefði verið aflað. Hafi kærandi talið málið vera til meðferðar hjá borginni í ljósi vitneskju um fyrrgreinda tilkynningu.  Annað hafi þó komið á daginn er byggingarleyfishafi hafi fengið útgefið byggingarleyfi hinn 5. september 2012.  Kærandi hafi í kjölfarið átt fund með byggingarfulltrúa og lögfræðingi hans, en á þeim fundi hafi niðurstaðan orðið sú að ekki tæki því að leiðrétta þau mistök sem orðið hefðu með tilliti til þess kostnaðar sem félli á byggingarleyfishafa við afturköllun umræddrar framkvæmdar.  Telji kærandi þessi málalok og vinnubrögð rýra möguleika sína til hagnýtingar á sameiginlegri, óskiptri lóð.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að veiting hins kærða byggingarleyfis hafi verið lögmæt. Fyrst og fremst sé um að ræða breytingu á séreign og eigi 30. gr. laga um fjöleignarhús því ekki við í málinu.  Það að loka einum inngangi bílskúrsins teljist vera óveruleg breyting á sameign, en skv. 1. mgr. 26. gr. nefndra laga hafi eigandi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem leiði af lögum og óskráðum grenndarreglum, eðli máls eða sem byggjast á löglegum ákvörðunum húsfélagsins.  Þá segi enn fremur í 2. mgr. 27. gr. laganna að eigandi geti ekki sett sig upp á móti breyttri hagnýtingu séreignar sameiganda síns sé sýnt að hún hafi ekki í för með sér röskun á lögmætum hagsmunum hans.  Því hafi lokaniðurstaða byggingarfulltrúa verið sú að ekki væri þörf á samþykki sameigenda í þessu tilviki enda hafi engin röskun á lögmætum hagsmunum kæranda fylgt byggingarleyfinu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að um sé að ræða lokun á dyrum á vesturhlið bílskúrs sem opnist út á sameiginlega gönguleið frá götu inn í sameiginlegan garð, en bílskúrinn sé séreign byggingarleyfishafa.  Á suðurhlið bílskúrsins hafi verið gluggi sem sagað hafi verið niður úr og sett hurð í staðinn sem engin áhrif hafi á möguleika til nýtingar umræddrar lóðar.  Hin hurðin hafi verið óþétt og illa farin og hafi þurft mikillar viðgerðar við.  Sökum misskilnings hafi framkvæmdir byrjað áður en endanlegt byggingarleyfi hafi verið gefið út.  Byggingarleyfið hafi hins vegar aldrei verið afturkallað svo sem kærandi haldi fram.  Í ljósi þess að um minni háttar framkvæmd hafi verið að ræða hafi samþykkis meðeigenda hússins ekki verið aflað, enda ekki talið að framkvæmdin hefði áhrif á sameiginleg afnot af lóðinni.  Byggingarleyfishafa hafi ekki verið kunnugt um neikvæða afstöðu annarra eigenda hússins til framkvæmdanna, en ekki hafi reynt á samþykki þeirra þar sem þær upplýsingar hafi fengist hjá byggingarfulltrúa að þess gerðist ekki þörf þar sem bílskúrinn væri séreign byggingarleyfishafa.  Að sjálfsögðu sé útivera í garðinum öllum heimil og hafi byggingarleyfishafi ekki hindrað það.  Gömul og illa farin hellulögn hafi verið til staðar við suðurenda bílskúrsins sem ráðist hafi verið í lagfæringar á.  Hellurnar hafi verið hreinsaðar upp og skipt út brotnum hellum til þess að hægt væri að ganga þarna um og njóta þess að sitja úti.  Þetta hafi ekki verið meiri háttar framkvæmd af hálfu byggingarleyfishafa heldur lagfæring á hellulögn sem fyrir hafi verið. 

Í kjölfar bréfs frá lögfræðingi byggingarfulltrúa, dags. 21. júní 2012, hafi byggingarleyfishafi leitað álits lögfræðings Húseigendafélagsins sem hafi komist að annarri niðurstöðu en lögfræðingur borgarinnar í nefndu bréfi og talið, með vísan til 1. mgr. 26. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga um fjöleignarhús, að samþykkis meðeigenda væri ekki þörf í umræddu tilfelli, enda sýnt að hún hefði ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum meðlóðarhafa. Endanlegt byggingarleyfi hafi verið veitt 5. september 2012 en 7. sama mánaðar hafi byggingarleyfishafa borist bréf frá byggingarfulltrúa þar sem beðist hafi verið afsökunar á fyrrgreindu bréfi, dags. 21. júní s.á., sem hefði verið yfirsjón að senda.  Hafi byggingarleyfishafi síðan, hinn 11. september 2012, upplýst kæranda símleiðis um að endanlegt byggingarleyfi hefði verið veitt. 

Breytingum á bílskúrnum sé lokið og vottorð um lokaúttekt hafi verið gefið út án athugasemda hinn 23. október 2012.  Farið hafi verið í einu og öllu að þeim reglum, leiðbeiningum og fyrirmælum byggingarfulltrúa en tilgangur breytinganna hafi verið lagfæring og viðhald bílskúrsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Af orðalagi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 má ráða að við það verði að miða hvenær kæranda varð fyrst ljóst eða mátti verða ljóst að leyfið yrði veitt. 

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. maí 2012. Hinn 21. júní s.á. fékk byggingarleyfishafi senda tilkynningu frá lögfræðingi byggingarfulltrúa þess efnis að farið væri fram á að lagt yrði fram samþykki meðeigenda hússins fyrir framkvæmdinni áður en byggingarleyfi yrði gefið út.  Af málatilbúnaði aðila og fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi hafi frá þeim tíma staðið í þeirri trú að leyfi til umdeildra framkvæmda væri háð samþykki meðeigenda. Fyrir liggur að með símtali 11. september 2012 tilkynnti byggingarleyfishafi kæranda um það að endanlegt byggingarleyfi hefði verið afgreitt.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 9. október 2012 og verður með hliðsjón af framangreindu að telja að hún hafi borist innan lögmælts kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.  Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar. 

Skv. 2. mgr. 1. gr. laga um fjöleignarhús telst fjöleignarhús vera hvert það hús sem skiptast í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið allra og sumra.  Skv. 5. mgr. 1. gr. gilda lögin um lögskipti eigenda fullgerðra fjöleignarhúsa að lóðum meðtöldum.  Fellur fasteignin að Guðrúnargötu 8 undir lögin. 

Í málinu er deilt um hvort hið kærða byggingarleyfi, er varðar breytingar á bílskúr í séreign byggingarleyfishafa, hafi áhrif á hagnýtingu lóðar sem er í óskiptri sameign eigenda hússins.  Fyrir breytingum á séreign þarf ekki samþykki meðeigenda svo fremi sem sýnt sé fram á að þær hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum þeirra, sbr. 1. mgr. 26. og 2. mgr. 27. gr. nefndra laga.  Umræddar breytingar eru vissulega gerðar á séreign byggingarleyfishafa en breytingarnar hafa hins vegar áhrif á hagnýtingu sameiginlegrar óskiptrar lóðar vegna umgangs um hana að nýjum inngangi í séreign byggingarleyfishafa. Er því ekki unnt að fallast á að umræddar breytingar hafi ekki í för með sér röskun á lögmætum hagsmunum meðeigenda byggingarleyfishafa og þar af leiðandi að samþykkis þeirra sé ekki þörf fyrir breytingunum. Breytingin hefur í för með skerta möguleika til hagnýtingar sameiginlegrar lóðar og hefur þar með í för með sér breytingu á hagnýtingu sameignar sbr. 31. gr., sbr. 30. gr. nefndra laga. 

Samkvæmt 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu með umsókn um byggingarleyfi fylgja hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús.  Í máli þessu lá ekki fyrir samþykki meðeigenda, sem þó var áskilið samkvæmt því sem að framan er rakið.  Skorti því lagaskilyrði fyrir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis og verður það því fellt úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2012 um að veita byggingarleyfi til að setja hurð í stað glugga á suðurgafl bílskúrs á lóð að Guðrúnargötu 8 og loka dyrum á vesturgafli hans. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

49/2012 Laxeldi í Reyðarfirði

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2012, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júní 2011 um að fyrirhuguð 6.000 tonna framleiðsla tilkynnanda á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Eyvindur Sólnes hrl., f.h. Samherja hf., þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júní 2011 um að fyrirhuguð framleiðsla tilkynnanda á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi telur hina kærðu ákvörðun fara gegn lögvörðum hagsmunum sínum, en honum hafði áður verið veitt starfsleyfi fyrir sambærilegu sjókvíaeldi í Reyðarfirði með gildistíma til 1. apríl 2010, að undangengu mati á umhverfisáhrifum.  Krefst hann þess hin kærða ákvörðun verði fellt úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust umbeðin málsgögn frá Skipulagsstofnun 22. júní 2012.

Málsatvik og rök:  Forsaga máls þessa er sú að á árinu 2000 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugað allt að 6.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði.  Var niðurstaða stofnunarinnar sú að um matskylda framkvæmd væri að ræða og lét kærandi gera mat á umhverfisáhrifum kvíaeldisins.  Var starfsemin og umhverfisáhrif hennar kynnt í matsskýrslu frá júlí 2002.  Hinn 14. mars 2003 gaf Umhverfisstofnun síðan út starfsleyfi til kæranda fyrir kvíaeldinu með gildistíma til 1. apríl 2010 en starfræksla laxeldisins samkvæmt starfsleyfinu hófst ekki á gildistíma þess.  Í apríl 2011 tilkynnti Laxar fiskeldi ehf. Skipulagsstofnun um fyrirhugað 6.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði.  Með ákvörðun hinn 8. júní 2011 taldi stofnunin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs rekstrar.  Í ákvörðuninni var tekið fram að ákvörðunin væri kæranleg til Umhverfisráðherra til 11. júlí 2011.

Af hálfu kæranda er á það bent að samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi kærufrestur verið til 11. júlí 2011 en kæranda hafi aldrei fengið formlega tilkynningu um ákvörðunina þrátt fyrir að hann hafi átt lögvarinna hagsmuna að gæta, en hann hafi lagt mikla vinnu og kostnað í mat á umhverfisáhrifum laxeldis í Reyðarfirði sem Skipulagsstofnun hafi byggt hina kærðu ákvörðun á.  Annar aðili hafi sótt um starfsleyfi hinn 21. júní 2011 sem kærandi hafi frétt af seint í júlí s.á. og þá fyrst orðið áskynja um hina kærðu ákvörðun.  Þá verði og að líta til þess að kæranda hafi ekki verið ljóst fyrr en með ákvörðunum Umhverfisstofnunar 20. janúar 2012 og Fiskistofu hinn 15. mars s.á.  að þriðja aðila yrði veitt starfs- og rekstrarleyfi á umræddum stað á grundvelli matsskýrslu kæranda.  Um sama leyti hafi orðið ljóst að þau leyfi mundu hafa áhrif á meðferð leyfisumsóknar kæranda vegna laxeldis í Reyðarfirði.  Hafi því ekki verið tilefni fyrir kæranda að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar raunin varð.  Það hafi því verið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist innan kærufrests, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og þar sem kæran hafi borist innan árs frá ákvörðun standi 2. mgr. 28. gr. laganna því ekki í vegi að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar.

Þá mæli veigamiklar ástæður í skilningi 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga með því að kæran verði tekin til meðferðar þar sem málið hafi þýðingarmikið fordæmisgildi.  Mjög mikilvægt sé að fá úr því skorið hvort mat á umhverfisáhrifum sé í raun eign einhvers eða ekki, þar sem annars haldi áfram að vera réttaróvissa þegar komi að slíkum málum.  Um andstæða hagsmuni sé að ræða þannig að ef leyfi þriðja aðila fái að standa sé líklegt að kærandi muni ekki eiga möguleika á að nýta það mat sem hann sjálfur hafi kostað, enda ólíklegt að starfsleyfi verði veitt fyrir frekara laxeldi í Reyðarfirði.  Með því væri verið að brjóta gróflega gegn réttindum kæranda.

Skipulagsstofnun hafi komist að því árið 2002 að fiskeldi fyrir allt að 6.000 tonna laxeldi væri matsskyld ákvörðun sbr. 3. kafla laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Kærandi hafi lagt á sig mikla vinnu og kostnað við mat á umhverfisáhrifum en í 16. gr. framangreindra laga sé mælt fyrir um ábyrgð framkvæmdaraðila og kostnað við slíkt mat.  Forsvarsmenn kæranda hafi litið á kostnað við matið sem fjárfestingu tengdri því að setja upp laxeldisstöð sem ætlunin hafi verið að reisa í Reyðarfirði.

Megi álykta af rökstuðningi Skipulagsstofnunar að framkvæmd Laxar fiskeldis ehf. sé ekki háð matsskyldu þar sem kærandi hafi þegar farið í slíkt mat og þ.a.l. byggir Skipulagsstofnun niðurstöðu sína á mati kæranda.  Kærandi telji það ótækt að vísað sé til gagna sem hann beri ábyrgð á og hafi aflað á sinn kostnað.  Því sé fráleitt að matsskýrsla kæranda sé fullnægjandi gagn fyrir því hvort framkvæmd Laxar fiskeldis ehf. sé matsskyld.  Það sé aðeins kærandi sem geti notað matið, enda sé hann framkvæmdaraðilinn samkvæmt matsskýrslunni.  Það sé eðlilegt að aðeins einn geti notað matsskýrslur vegna mats á umhverfisáhrifum og samþykki þurfi frá þeim sem beri ábyrgð á og kostnað af matinu.  Geri kærandi athugasemdir við notkun umsóknaraðila Laxar fiskeldis ehf. og Skipulagsstofnunar á því mati sem kærandi lét vinna árið 2002 enda hafi hvorugur aðili fengið samþykki hjá kæranda.  Þannig sé því mótmælt að þeir geti notað gögn í eigu kæranda með vísan til 33. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum.  Í ákvæðinu segir að almennar reglur eigna- og höfundarréttar gildi um gögn þau sem lögð séu fram samkvæmt reglugerð þessari.  Þá sé það brot á rannsóknarreglu af hálfu Skipulagsstofnunar þar sem stofnunin hafi ekki gengið úr skugga um eignarétt kæranda að matinu áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Matsskýrsla kæranda sé ekki opinbert gagn sem Skipulagsstofnun geti notað sem grundvöll fyrir ákvörðun í málum þriðja aðila en sú notkun hafi hindrað að kærandi geti ekki notað þá matskýrslu við umsókn sína um laxeldi í Reyðarfirði.

Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 sé mælt fyrir um að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum.  Hafa verði í huga að eitt sé að hafa aðgang að upplýsingum og annað að unnt sé að nota þær öðrum til hagsbóta en eiganda.  Slíkar nytjar verði ekki byggðar á ákvæðum upplýsingalaga eða stjórnsýslulaga.

Skipulagsstofnun bendir á að þegar tilkynning hafi borist frá Löxum fiskeldi ehf., dags. 12. apríl 2011, hafi engin starfsleyfi verið í gildi á því svæði sem tilkynningin náði til.  Skipulagsstofnun fái ekki séð að það sé hennar hlutverk að leita uppi þá aðila sem fengið hafi leyfi til framkvæmda á áhrifasvæði nýrrar framkvæmdar sem tilkynnt sé til stofnunarinnar síðar ef fyrri framkvæmdaraðilar hafi ekki hafið framkvæmdir og leyfi til framkvæmdar runnið út.  Skipulagsstofnun vísi til laga nr. 106/2000 og reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum um það hvernig birtingu ákvarðana skuli hagað.  Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um ferli ákvörðunar um matsskyldu segi að Skipulagsstofnun skuli leita umsagna leyfisveitenda og annarra eftir eðli máls hverju sinni.  Þar sem kærandi hafi ekki hafið framkvæmdir samkvæmt starfsleyfi taldi stofnunin ekki ástæðu til að leita umsagnar hans um matsskyldu fyrirhugaðs laxeldis þar sem ekki væri um hagsmunaárekstra að ræða.  Öðru máli hefði gegnt ef starfsleyfi hefði verið í gildi og rekstrarleyfi hefði verið útgefið.

Skipulagsstofnun bendi á að stofnunin byggi ákvörðun um matsskyldu á framlögðum gögnum framkvæmdaðila.  Í ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 8. júní 2011, hafi legið fyrir nægilegar upplýsingar til grundvallar ákvörðun öfugt við það sem verið hafi þegar ákvörðun hafi verið tekin vegna áforma kæranda árið 2002.  Þar sem umhverfisaðstæður í Reyðarfirði séu sem næst óbreyttar frá því að kærandi gerði athuganir á þeim hafi ekki verið ástæða til að krefja Laxa fiskeldi ehf. um öflun frekari gagna um grunnástand en vísað sé til í tilkynningu fyrirtækisins.

Skipulagsstofnun hafi ekki notað matsskýrsluna frá árinu 2002 í máli því sem hér um ræði.  Notkun skýrslunnar og upplýsingar úr henni í tilkynningu Laxa fiskeldi ehf. hafi að öllu leyti verið á ábyrgð þeirra en í gögnum hafi verið vitnað til skýrslunnar eins og annarra heimilda.  Tilvísun Skipulagsstofnunar í skýrslu kæranda byggi á því að hún sé notuð sem heimild.

Skipulagsstofnun líti svo á að öll málsgögn sem henni berist samkvæmt lögum nr. 106/2000 séu opinber gögn nema annað sé tekið fram og rökstutt af hálfu þess sem gögnin leggi fram.  Í 25. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 segi að Skipulagsstofnun skuli kynna umhverfisráðherra, framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum álit sitt svo og þeim sem hafi gert athugasemdir við frummatsskýrslu á kynningartíma og að almenningur skuli eiga greiðan aðgang að áliti Skipulagsstofnunar og matsskýrslu.  Einnig segi að álit Skipulagsstofnunar skuli vera aðgengilegt á heimasíðu stofnunarinnar.  Þrátt fyrir að matsskýrslan sé aðgengileg almenningi gildi almennar reglur eigna- og höfundarréttar um þau gögn sem lögð séu fram til Skipulagsstofnunar, sbr. 33. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 sbr. e-lið 20. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.  Sé ákvæðið í samræmi við lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006, sbr. 1. gr. sbr. 3. tl. 3. gr. laganna.  Í 4. mgr. 4. gr. laganna segi þó að réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál víki fyrir lögvörðum réttindum samkvæmt höfundalögum.  Sé það höfunda/ábyrgðarmanna skýrsla að tryggja að fyrir liggi samþykki höfunda eða eigenda þeirra gagna sem vitnað sé til en það sé ekki í höndum Skipulagsstofnunar að kanna hvort leyfi hafi fengist fyrir því að nota upplýsingarnar.  Hafi Skipulagsstofnun beint þeim fyrirmælum til tilkynnanda fyrirhugaðs laxeldis að leitað yrði samþykkis eigenda matsskýrslunnar fyrir notkun gagnanna.

Niðurstaða:  Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar.

Fyrir liggur að kæranda var kunnugt um hina kærðu ákvörðun þegar í júlí árið 2011.  Þá liggur og fyrir að honum var frá sama tíma kunnugt um að annar aðili hafði uppi áform um sjókvíaeldi í Reyðarfirði og að þau kynnu að hafa áhrif á áform kæranda um sambærilega starfsemi.  Fullir tíu mánuðir voru liðnir frá lokum kærufrests þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Verður hvorki fallist á að nein þau atvik hafi verið fyrir hendi er leiði til þess að afsakanlegt verði talið að kæran barst að liðnum kærufresti né að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnisúrlausnar, enda væri það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr um hvort réttur kæranda hafi verið brotinn með hagnýtingu á matsskýrslu þeirri sem um ræðir.  Verður kærumáli þessu því vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir

5/2013 Langholt

Með

Árið 2013, föstudaginn 28. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 9. janúar 2013 um að taka tillögu að deiliskipulagi fyrir Langholt 2 og 3 til endurskoðunar og á ákvörðunum skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps um meðferð skipulagstillögunnar.

Í málinu var kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. janúar 2013, framsendir innanríkisráðuneytið kæru H, Langholti 1, Flóahreppi, þar sem kærð er samþykkt sveitarstjórnar Flóahrepps frá 9. janúar 2013 um að taka tillögu að deiliskipulagi fyrir Langholt 2 og 3 til endurskoðunar.  Þá framsendi ráðuneytið, með bréfi, dags. 4. febrúar 2013, kæru sama aðila er lýtur að ákvörðunum skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps um meðferð skipulagstillögunnar.  Verður erindi þetta, sem er mál nr. 7/2013 hjá úrskurðarnefndinni, sameinað máli þessu. 

Málsatvik og rök:  Á fundi sínum hinn 9. janúar 2013 tók sveitarstjórn Flóahrepps fyrir erindi þar sem þess var óskað að sveitarstjórnin endurskoðaði afstöðu sína til deiliskipulagstillögu fyrir land Langholts 2 og 3.  Féllst meirihluti sveitarstjórnar á erindið en tveir af fimm fulltrúum létu bóka athugasemdir við það og meðferð þess.  Skaut kærandi þessari ákvörðun til innanríkisráðuneytisins með svohljóðandi bréfi: 

„EFNI Kærð er samþykkt sveitarstjórnar Flóahrepps á 124. fundi liður 2-d. skipulag Langholt 2-3.  Endurupptaka þessi fær ekki staðist. Hjálagt eru fundargerðir ásamt nefndum pappír.“   Engar kröfur eru gerðar og verður ekki af erindinu ráðið með hvaða lagastoð það sé sett fram. 

Með bréfi, dags. 27. janúar 2013, beindi málshefjandi nýju erindi til innanríkisráðuneytisins og er það svohljóðandi:

„Efni  Kærður er skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps fyrir handvömm í starfi.  Fulltrúi fullyrðir að ekki þurfi að grenndarkinna meðfilgjandi tillögu sökum þess að allir séu málinu kunnugir.  Eins og framkemur í fundargerð samþykkti skipulagsnefnd tillögu á fundi 25 nóvember en sveitarstjórn Flóahrepps hafnaði vegna mótmæla.  Fulltrúi Flóahrepps í skipulagsnefnd samþykkti þrátt fyrir mótmæli. Á næsta fundi sveitarstjórnar 9 jan var málið rifið upp aftur og þá með réttu fólki og handteiknuðu blaði svarin hollusta.  Sá gjörningur hefur verið kærður.  Skipulagsfulltrúi gengur blint erinda þessara aðila og þverbrýtur alla siðfræði og samþykkir nýja tillögu þar sem allar byggingar hafa fengið kjallara og fjölgað hefur um eitt hús frá því sveitarstjórn hafnaði.  Skipulagfulltrúi og fulltrúi Flóahrepps í skipulagsnefnd hafa sýnt slíkan hroka og verkfyrirlitningu í máli þessu að ekki verður liðið.  Er það því eindregin ósk að ráðuneytið geri þessum félögum grein fyrir ábyrgð sinni.“ Erindum þessum fylgdu fundargerðir og framlagðar skipulagstillögur. 

Í framangreindum bréfum ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar er tekið fram að nefndin kveði upp úrskurði er varði skipulags- og byggingarlög, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Séu erindin því framsend með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Niðurstaða:  Í máli þessu eru til meðferðar erindi sem innanríkisráðuneytið hefur framsent úrskurðarnefndinni og varða meðferð deiliskipulagstillögu sem sveitarstjórn Flóahrepps og skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps hafa haft til meðferðar. 

Annars vegar er um að ræða ákvörðun sveitarstjórnar um að taka til endurskoðunar skipulagstillögu sem sveitarfélagið hefur til meðferðar. Er ekki um endurupptöku máls að ræða skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki lá fyrir lokaákvörðun í málinu, heldur var um það að ræða að sveitastjórn féllst á að taka til athugunar ósk um breytta tilhögun deiliskipulags þess sem unnið er að.  Þurfti sveitarstjórn í framhaldi af hinni umdeildu ákvörðun m.a. að taka afstöðu til þess hvort auglýsa þyrfti tillöguna að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en alveg má ljóst vera að ekki lá fyrir lokaákvörðun í málinu og voru því ekki skilyrði til þess að bera það sem kærumál undir æðra stjórnvald, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  Þar sem lagaskilyrði skorti til að bera mætti umrædda ákvörðun undir úrskurðarnefndina verður þessum þætti málsins vísað frá nefndinni.

Síðara erindi kæranda lýtur að embættisfærslu skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps og fulltrúa Flóahrepps í skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps.  Verður erindið helst skilið svo að þess sé krafist að aðilum þessum verði veitt áminning.  Verður ekki séð að fyrir liggi nein ákvörðun í þessum þætti málsins er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar og verður þessu erindi því einnig vísað frá nefndinni.  Ekki á undir úrskurðarnefndina að taka afstöðu til þess hvort í erindum málshefjanda felist kvörtun sem gefi tilefni til afskipta ráðuneytisins á grundvelli stjórnsýslueftirlits þess samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og er engin afstaða tekin til þess álitaefnis í úrskurði þessum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

31/2012 Laxeldi í Reyðarfirði

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2012, kæra vegna ákvörðunar Fiskistofu frá 15. mars 2012 um að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Hilmar Gunnlaugsson hrl., f.h. Fjarðarbyggðar, þá ákvörðun Fiskistofu frá 15. mars 2012 að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði til framleiðslu allt að 6.000 tonna af laxi á ári án skilyrða um tilfærslu á eldisstöð verði áform um hafnsækna starfsemi á Reyðarfirði að veruleika. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest með þeirri breytingu að í leyfisbréfið verði sett ákvæði um að leyfishafi geri ráð fyrir þeim möguleika að til þess geti komið að færa þurfi eldisstöðvar sem skarist á við áform um hafnsækna starfsemi á Reyðarfirði sem skipulagsyfirvöld telji ósamrýmanlega við rekstur leyfishafa. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu hinn 24. maí 2012.

Málsatvik og rök:  Hinn 24. ágúst 2011 sótti leyfishafi um rekstrarleyfi til Fiskistofu fyrir laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði til framleiðslu allt að 6.000 tonna af laxi á ári að undangenginni veitingu starfsleyfis Umhverfisstofnunar fyrir laxeldinu.  Við meðferð umsóknarinnar leitaði Fiskistofa umsagnar Fjarðarbyggðar, sem fór fram á að tiltekin atriði yrðu sett í rekstrarleyfið, en á það var ekki fallist.  Rekstrarleyfið var gefið út hinn 15. mars 2012 og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Kærandi vísar til þess að fyrir liggi yfirlýsing leyfishafa um að hann muni freista þess að koma að í leyfunum tilteknum forsendum kæranda fyrir afstöðu hans til útgefinna leyfa fyrir laxeldinu.  Ástæða fyrir kröfu kæranda í máli þessu sé eingöngu sú að tryggja til framtíðar hagsmuni sveitarfélagsins komi síðar grandlausir aðilar að rekstri umrædds laxeldis.  Vegna sérstaks eðlis starfseminnar sé ekki hægt að fá yfirlýsingu þinglýsta eða tryggja með öðrum hætti hagsmuni kæranda gagnvart þriðja manni, nema með því að setja umrætt ákvæði í hið kærða leyfi.  Á því sé byggt að áætlanir leyfishafa styðjist við þær forsendur eða skilyrði sem felist í nefndu ákvæði og hafi Fiskistofa því átt að setja umrætt ákvæði, sem beinlínis sé tekið upp úr áætlunum leyfishafa, í hið kærða leyfi með hliðsjón af 15. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008, sem sýni glöggt mikilvægi einstakra forsendna fyrir útgáfu leyfis. 

Fiskistofa bendir á að ákvæði eins og hér um ræði eigi ekki erindi í rekstrarleyfi og skorti stofnunina lagaheimild til að setja slíkt skilyrði.  Í 10. gr. laga um fiskeldi sé fjallað um efni rekstrarleyfa og þar komi fram þau skilyrði sem setja megi í slík leyfi.  Þar sé ekki getið um skilyrði sem lúti að skipulagsáformum sveitarfélaga eins og hér eigi við og ekki sé um að ræða vistfræðilegt skilyrði svo sem haldið sé fram í kæru.  Það sé hvorki eðlilegt né í samræmi við lög að blanda óskyldum atriðum inn í rekstrarleyfi og verði ekki séð fyrir endann á því ef leyfishöfum og öðrum sem einhverra hagsmuna eigi að gæta verði gert kleift að koma inn í rekstrarleyfi ákvæðum sem tilheyri öðrum réttarsviðum.  Vakin sé athygli á því að í reglugerð um fiskeldi nr. 401/2012, sem nú hafi tekið gildi, sé tekið fram í 11. gr. að leita skuli umsagnar sveitarstjórnar áður en Fiskistofa taki ákvörðun um framsal rekstrarleyfis.  Sveitarstjórn hafi þannig tækifæri til að gæta hagsmuna sinna við slíkt framsal og geti tryggt að framsalshafi sé upplýstur um loforð framseljanda gagnvart sveitarstjórn. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest með þeirri breytingu að tiltekið ákvæði verði sett í hið kærða rekstrarleyfi. 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er nefndinni ætlað það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin til endurskoðunar lögmæti kærðrar ákvörðunar, sem tekin hefur verið á lægra stjórnsýslustigi, en það fellur utan valdheimilda hennar að taka nýja ákvörðun með breyttu efni í stað kærðrar ákvörðunar.  Verður kærumáli þessu þegar af þeirri ástæðu vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________             _________________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

30/2012 Laxeldi í Reyðarfirði

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2012, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 15. mars 2012 um að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Eyvindur Sólnes hrl., f.h. Samherja hf., þá ákvörðun Fiskistofu frá 15. mars 2012 að veita Löxum fiskeldi ehf. rekstrarleyfi til allt að 6.000 tonna ársframleiðslu af laxi í sjókvíum í Reyðarfirði.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Forsaga máls þessa er sú að á árinu 2000 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugað allt að 6.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði.  Var niðurstaða stofnunarinnar sú að um matskylda framkvæmd væri að ræða og lét kærandi gera mat á umhverfisáhrifum kvíaeldisins.  Var starfsemin og umhverfisáhrif hennar kynnt í matsskýrslu í júlí 2002.  Hinn 14. mars 2003 gaf Umhverfisstofnun síðan út starfsleyfi til kæranda fyrir kvíaeldinu með gildistíma til 1. apríl 2010.  Ekki var hafin starfræksla laxeldis í sjókvíum samkvæmt starfsleyfinu á gildistíma þess.

Hinn 12. apríl 2011 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá handhafa hins kærða leyfis um fyrirhugað laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði með allt að 6.000 tonna ársframleiðslu og taldi stofnunin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar starfsemi eins og nánar greinir í niðurstöðu stofnunarinnar frá 8. júní s.á.  Í kjölfarið sótti hann um starfsleyfi fyrir laxeldinu til Umhverfisstofnunar 21. júní 2011 og mun kærandi einnig hafa lagt inn til stofnunarinnar umsókn um starfsleyfi fyrir sambærilegu laxeldi í Reyðarfirði 5. ágúst s.á.  Leyfishafi sótti jafnframt um rekstarleyfi Fiskistofu fyrir laxeldinu með bréfi, dags. 24. ágúst 2011.  Umhverfisstofnun veitti leyfishafa starfsleyfi fyrir kvíaeldinu hinn 20. janúar 2012 að undangenginni kynningu á starfsleyfistillögu og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. febrúar s.á.  Hið kærða rekstarleyfi Fiskistofu var svo gefið út hinn 15. mars s.á. eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að hið kærða rekstrarleyfi sé andstætt lögum og brjóti gegn hagsmunum hans.  Hann áformi að reka sjókvíaeldi í Reyðarfirði og hafi í tengslum við það kostað mat á umhverfisáhrifum sem nemi tugum milljóna króna, en slíkt mat sé á kostnað og ábyrgð rekstaraðila, sbr. 1. mgr. 23. gr. rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Nýr handhafi rekstrarleyfis til laxeldis í Reyðarfirði hafi við undirbúning að umsókn sinni m.a. stuðst við matsskýrslu kæranda án heimildar, en ótvírætt sé samkvæmt 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að slíkt mat sé á ábyrgð og kostnað framkvæmdaraðila.  Þessi notkun á matsskýrslu kæranda orki tvímælis en fram komi í 33. gr. rlg. nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum að almennar reglur eigna- og höfundarréttar gildi um gögn þau sem lögð séu fram samkvæmt þeirri reglugerð.  Kærandi hafi sótt um endurnýjun á áður veittu starfsleyfi til laxeldis í Reyðarfirði en Umhverfisstofnun hafi komið því á framfæri að umdeild hagnýting nýs leyfishafa á matsskýrslu kæranda á umhverfisáhrifum hindri að hann geti notað matið við starfsleyfisumsókn sína.  Skipulagsstofnun hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að umrætt laxeldi í Reyðarfirði væri háð mati á umhverfisáhrifum og verði að gera þá kröfu til nýs leyfishafa að hann láti gera nýtt mat á sinn kostnað og ábyrgð í samræmi við lög.  Þótt stjórnsýslulög og upplýsingalög tryggi almenningi aðgang að gögnum feli það ekki í sér heimild til að nota þau gögn til hagsbóta öðrum en eiganda þeirra.  Ekki verði annað ráðið en að Fiskistofa hafi byggt hina kærðu ákvörðun á gögnum þar sem vísað sé til fyrrgreindar matsskýrslu kæranda, svo sem umsögn Matvælastofnunar, sem Fiskistofa hafi aflað skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Af hálfu Fiskistofu er á því byggt að hin kærða leyfisveiting hafi verið í fullu samræmi við lög.  Ákvörðun um matsskyldu framkvæmda hafi fylgt umsókn leyfishafa, en slík ákvörðun liggi lögum samkvæmt hjá Skipulagsstofnun og geti Fiskistofa ekki vefengt niðurstöðu um matsskyldu við afgreiðslu rekstrarleyfis.  Fiskistofa eigi heldur ekki að taka afstöðu til afnotaréttar á þeim upplýsingum sem Skipulagsstofnun og umsagnaraðilar hafi hugsanlega stuðst við.  Skv. 2. mgr. 7. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 skuli Fiskistofa við meðferð leyfisumsóknar um fiskeldi afla umsagnar Matvælastofnunar, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eftir því sem við eigi.  Umsagnir þessar eigi samkvæmt ákvæðinu að snúast um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt geti af leyfisskyldri starfsemi.  Í umsagnarbeiðnum til sveitarfélaga óski Fiskistofa m.a. eftir afstöðu sveitarfélaga til svæðaskiptingar og staðsetningar fiskeldis.  Jafnframt hafi verið leitað umsagna Siglingastofnunar og Landhelgisgæslunnar varðandi staðsetningu mannvirkja (eldiskvía, fóðrunarstöðva o.s.frv.) með tilliti til skipaumferðar.  Niðurstöður umsagnaraðila hafi verið á þá leið að ekki væru til staðar ástæður sem mæltu sérstaklega gegn því að umdeilt leyfi yrði veitt.  Fiskistofa leiti eftir atvikum umsagnar aðila sem geti talist hafa verulegra hagsmuna að gæta, svo sem aðila sem stundi atvinnurekstur eða eigi fasteignir í næsta nágrenni við fyrirhugaða stöð umsækjanda, þrátt fyrir að slíkt sé ekki skylt skv. lögunum.  Kærandi falli ekki í neinn flokk aðila sem leitað sé umsagnar hjá skv. lögum og/eða verklagsreglum Fiskistofu.  Kærandi sé ekki handhafi rekstrarleyfis á umræddu svæði og félagið hafi aldrei hafið starfsemi á umræddu svæði á grundvelli starfsleyfis sem runnið hafi út árið 2010.

Leyfishafi krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu um ógildingu hins kærða rekstarleyfis verði hafnað.  Málsástæður kæranda lúti allar að því að handhafi hins kærða leyfis hafi notað eða a.m.k. vísað til matsskýrslu sem kærandi hafi látið gera á sínum tíma við undanfara og málsmeðferð umsóknar hans.  Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem komi útgáfu rekstrarleyfisins ekkert við.  Starfsleyfi kæranda fyrir laxeldi í Reyðarfirði hafi runnið út 1. apríl 2010 og sé staða kæranda í málinu því ekki á annan veg en alls almennings varðandi hina kærðu ákvörðun.  Eigi hann því ekki lögvarða hagsmuni tengda ákvörðuninni sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar í tilefni af fyrirhuguðu laxeldi hafi leyfishafi vísað til fjölda gagna, þar á meðal umdeildrar matsskýrslu, og hafi stofnunin ekki talið þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna eldisins.  Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun og niðurstaða stofnunarinnar hafi ekki verið kærð.  Matsskýrsla kæranda sé opinbert gagn og aðgengileg almenningi og hafi leyfishafa verið heimilt að vísa til hennar í fyrrgreindri tilkynningu sbr. 1. mgr. 14. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Matsskýrsla kæranda eða hluti úr henni hafi hins vegar ekki verið notuð sem slík af leyfishafa enda engin þörf á slíkri skýrslu vegna hinnar kærðu leyfisveitingar samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar.  Liggi ekki annað fyrir en að tilkynningarferli samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi verið í samræmi við lög sem og veiting umrædds rekstrarleyfis.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verður rakið nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim málatilbúnaði við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu leyfisveitingu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kærandi telur hins vegar að hagsmunum hans hafi verið raskað með óheimilaðri notkun á skýrslu hans um mat á umhverfisáhrifum við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og með því hafi verið brotið gegn eigna- og höfundarréttindum hans.  Þá matsskýrslu lét kærandi gera á sínum tíma vegna áforma um sambærilegt laxeldi í Reyðarfirði og hér er til umfjöllunar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er úrskurðarnefndinni ætlað það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum.  Þá er og tekið fram í 3. mgr. 4. gr. laganna að þeir einir geti borið stjórnvaldsákvarðanir undir nefndina sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á eða að fyrir hendi sé bein kæruheimild i lögum.

Með hinni kærðu leyfisveitingu Fiskistofu var ekki tekin afstaða til þess hvort umrætt laxeldi í sjó væri háð mati á umhverfisáhrifum, en þá lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar í því efni lögum samkvæmt og var niðurstaða hennar sú að fyrirhugað laxeldi væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Ekki var á valdsviði Fiskistofu að taka afstöðu til ágreinings um hvort réttindum kæranda, sem eiganda fyrrgreindrar matsskýrslu, hafi verið raskað við undirbúning málsins á fyrri stigum þess eða hvort skírskotun í téða matsskýrslu í umsögnum er bárust Fiskistofu færi í bága við réttarvernd kæranda sem eiganda nefndrar skýrslu.  Kemur því ekki til álita að úrskurðarnefndin taki afstöðu til réttarágreinings í þessu efni við endurskoðun lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar. Ágreiningur um hvort eigna- eða höfundarréttindum kæranda hafi verið raskað eða um hafi verið að ræða ólögmæta tilvísun í margnefnda matsskýrslu við undirbúning og meðferð málsins á undir dómstóla, sbr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Getur ágreiningur þessi af framangreindum ástæðum ekki veitt kæranda aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni.

Þegar litið er til þess að kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, aðra en þá er varða kunni fyrrgreind eignaréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir