Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

104/2014 Öldutún

Árið 2014, föstudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnafjarðar frá 3. desember 2002 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2014, er barst nefndinni 1. október s.á., kæra J, Öldutúni 2, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnafjarðar frá 3. desember 2002 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn bárust frá Hafnarfirði 8. og 10. október 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 30. júlí 2002 var fyrirspurn um að rífa þáverandi bílskúr og byggja annan í hans stað að Öldutúni 4 tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar. Meðfylgjandi var samþykki nágranna og meðeigenda í húsi. Áður hafði byggingarfulltrúi sent fyrirspurnina til skipulagsdeildar til umsagnar vegna stækkunar og hækkunar nýs skúrs. Ráðið samþykkti að óska eftir fullnaðarteikningum og að heimila grenndarkynningu erindisins í samræmi við 7. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ein athugasemd barst á grenndarkynningartíma og á fundi sínum 3. desember s.á. samþykkti skipulags- og byggingarráð að verða við erindinu með þeim breytingum að byggingarreitur bílskúrs yrði færður upp að lóðarmörkum og atriði sem lutu að frágangi yrðu leyst í samráði við nágranna. Var byggingarfulltrúa heimilað að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn þar um lægi fyrir. Hinn 17. mars 2003 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin með áritun sinni á teikningar, dags. 14. s.m., sem sýna 3,9 m hæð þess veggjar er snýr að lóð kærenda. Botnúttekt fór fram 11. júlí 2003.

Hinn 26. janúar 2005 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja bílskúr að Öldutúni 4 og var bókað að nýjar teikningar hefðu borist 20. s.m. Leyfið var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 23. febrúar s.á. Samkvæmt nýjum teikningum fól leyfið í sér að heimiluð var breyting á innra fyrirkomulagi bílskúrsins frá fyrra leyfi 2003 og heimiluð gerð gryfju undir bíla. Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 14. mars s.á. Hinn 21. október 2009 voru enn samþykktar af byggingarfulltrúa breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrsins. Fór úttekt á plötu yfir kjallara fram 6. júní 2011. Deiliskipulag Öldugötu, Öldutúns 2-6, Ölduslóðar 1-10 og 12 og Hringbrautar 1-15 var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hinn 25. nóvember 2008 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2009.

Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi brjóti í bága við gildandi deiliskipulag á svæðinu. Leyfi sé veitt fyrir mun hærra bílskýli með töluvert hærri útvegg sem snúi að lóðarmörkun en gildandi deiliskipulag segi til um og fordæmi séu fyrir á svæðinu. Ákvörðun byggingarfulltrúa snerti hagsmuni kærenda verulega og skerði hæð útveggjar á lóðarmörkum útsýni og varpi miklum skugga á lóð kærenda og rýri þannig lífsgæði þeirra og verðmæti fasteignar þeirra. Muni bygging umrædds bílskýlis skyggja á einu mögulega áttina þaðan sem sól skíni á lóð kærenda. Fyrstu stoðir að útveggjum hafi risið sumarið 2014 og kærendum ekki orðið ljóst hver hæð og áhrif veggjar yrðu fyrr en steypumótum hefði verið komið fyrir hinn 13. september s.á. og í raun ekki fyrr en fyrsta sólríka dag þar á eftir eða 16. s.m.

Hinn umdeildi útveggur er snúi að lóðarmörkum muni verða 3,9 m á hæð en megi ekki vera nema 2,8 m samkvæmt núgildandi deiliskipulagi, hæðarmunur sé 1,1 m eða sem nemi um 40%. Þar sem ekki hafi verið til deiliskipulag fyrir svæðið við leyfisveitingu sé rík ástæða til að fylgja gr. 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 hvað varði stærð og hæð bílskýlis. Leyfi fyrir hærra bílskýli á þessum stað valdi verulegri röskun á umhverfi og aðstæðum. Þá sé hæðarmunur á lóðum kærenda og byggingarleyfishafa og séu forsendur fyrir frávikum frá þágildandi byggingareglugerð og leyfisveitingu fyrir óvenju háreistu bílskýli því enn veikari. Möl hafi verið borin í lóð byggingarleyfishafa og hún hækkuð þannig að bílskýli standi hærra en ella og séu miklir ágallar á samþykktum teikningum þar sem ekki séu gefnir upp hæðarpunktar sem hæð útveggjar gangi útfrá þvert á gr. 18.8 þágildandi byggingarreglugerðar sem og núgildandi byggingarreglugerð. Þá séu engin dæmi um svo háreist bílskýli á svæðinu, hvorki fyrir né eftir hina umdeildu leyfisveitingu.

Standist leyfisveitingin ekki lög en í 46. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 18. gr. þágildandi byggingarreglugerðar hafi komið fram að aðaluppdráttur skyldi sýna hvernig mannvirki félli að nærliggjandi umhverfi, gefa skyldi upp hæðarkóta hverrar hæðar og hæsta punkt þakvirkis en ekkert af þessu sé að finna á teikningum fyrir umrætt bílskýli. Þá hafi kærendur ekki fengið gögn um grenndarkynningu umrædds bílskýlis þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þar um. Hafi grenndarkynning farið fram telji kærendur hana ómerka. Ómögulegt hafi verið fyrir þá sem grenndarkynnt hafi verið fyrir að gera sér grein fyrir umfangi byggingarinnar þar sem lögum um aðaluppdrætti hafi ekki verið fylgt og teikningar sýnt bílskýlið eitt og sér með enga stærðarviðmiðun.

Virðist undirskriftir nágranna sem bjuggu á svæðinu þegar sótt var um leyfi ekki hafa legið fyrir. Bent sé á að samkvæmt fundargerðum Hafnarfjarðabæjar hafi þær legið fyrir 24. júlí 2002 og hafi því liðið um 12 ár frá samþykki nágranna þar til steypumót risu að grunni bílskýlis. Deiliskipulag svæðisins sé frá árinu 2008 og hafi því sex ár liðið þar til fyrstu steypumótum var slegið upp. Kærendur veki athygli á framangreindu, óski eftir að leyfi verði fyrnt og ný grenndarkynning fari fram.

Loks fyrirfinnist samþykktar teikningar frá árinu 2009 sem sýni hvar búið sé að bæta kjallara við teikningar umrædds bílskýlis en sú breyting virðist ekki hafa farið í grenndarkynningu. Telji kærendur að þegar byggingarfulltrúi samþykkti þær teikningar hefði grenndarkynning átt að fara fram þar sem kjallari á bílskýli Öldutúns 4 fari gegn deiliskipulagi á svæðinu.

Vegi réttur kærenda að sjá til sólar á lóð sinni þyngra en réttur byggingarleyfishafa til að geyma t.d. vöruflutningabíla innandyra á lóð sinni.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til afgreiðslu málsins hjá skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðar. Erindið hafi verið grenndarkynnt frá 25. október til 25. nóvember 2002, byggingaráform verið samþykkt í mars 2003 og botnúttekt farið fram í júlí s.á. Breytingar á byggingarleyfi hafi verið samþykktar á árinu 2005 þegar gryfja undir bíla var heimiluð og á árinu 2009 er aðrar breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrs hafi verið samþykktar. Úttekt á plötu yfir kjallara hafi farið fram 6. júní 2011 og skýringar á byggingartíma hafi borist frá byggingarleyfishafa og byggingarstjóra með bréfi, dags. 22. september 2014.

Byggingarleyfishafi bendir á að framkvæmdir þær sem hann vinni að við Öldutún 4 séu unnar samkvæmt samþykktu byggingarleyfi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 21. og 22. október 2009.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar ákvörðunar frá árinu 2002 sem heimilaði að reistur yrði 44,9 m² bílskúr að Öldutúni 4. Úttekt á plötu yfir kjallara mun hafa farið fram 6. júní 2011 en framkvæmdir við útveggi bílskúrsins hafist sumarið 2014. Byggingarleyfi sem gefið var út í skjóli hinnar kærðu ákvörðunar heimilar að hæð skúrsins verði mest 3,9 m þar sem hann stendur á mörkum lóða kærenda og leyfishafa. Deiliskipulag er í gildi á svæðinu samkvæmt birtingu auglýsingar þar um 10. júní 2009. Þar kemur fram að á svæðinu sé byggingarreitur bílageymslna að jafnaði 5×7 m og að hámarksvegghæðar við aðliggjandi lóðarmörk sé 2,8 m.

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitaefni eru uppi sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Til dæmis liggi ekki fyrir gögn um grenndarkynningu þá sem fram fór á sínum tíma og hvort fjallað hafi verið um erindi leyfishafa með tilliti til ákvæðis gr. 113.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998. Framkvæmdir eru þegar hafnar og eru til þess fallnar að hafa röskun í för með sér fyrir kærendur. Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, en byggingarleyfishafi getur óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 3. desember 2002 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________                             _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                                Þorsteinn Þorsteinsson